14.2.2008 | 11:20
Er Kjartan límið í meirihlutanum?
www.visir.is birtir þessa frétt um baráttuna innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins um stól borgarstjóra:
Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að Kjartan Magnússon hafi verið að kanna hvort hann njóti stuðnings í borgarstjórastólinn ákveði Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson að stíga til hliðar, sem þykir nánast öruggt. Kjartan þvertekur hins vegar fyrir þetta. Ég er ekkert að þreifa fyrir mér enda væri slíkt ótímabært," segir Kjartan.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er tíðinda að vænta í borgarstjóramálum Sjálfstæðisflokksins á næstu dögum, líklega um helgina. Baráttan um borgarstjórastólinn stendur fyrst og fremst á milli Gísla Marteins Baldurssonar, sem þykir hafa nokkuð sterka stöðu inni í borgarstjórnarflokknum, og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem gerir tilkall til borgarstjórastólsins á þeim forsendum að hún er í öðru sæti á lista flokksins í borginni.
Kjartan telur kröfu sína réttmæta í ljósi þess að hann, ásamt Vilhjálmi, var arkitektinn að núverandi meirihlutasamstarfi með F-listanum, Auk þrímenninganna hefur Júlíus Vífill Ingvarsson einnig verið að þreifa fyrir sér. Möguleikar Kjartans og Júlíusar Vífils felast fyrst og fremst í því að ekki náist sátt um Gísla Martein eða Hönnu Birnu. Heimildir blaðsins herma enn fremur að beðið sé eftir því hvort Vilhjálmur komi með uppástungur að eftirmanni sínum, víki hann til hliðar. Það mun vera vilji flokksforystunnar að borgarstjórnarflokkurinn leysi úr þessu.
Það eru þung rök að Kjartan er arkitektinn að núverandi meirihluta og mun vera góður vinur Ólafs F, núverandi borgarstjóra. Til að jafn veikur og ósamstíga meirihluti og þessi tolli saman þarf að ríkja mikið traust á milli lykilmanna. Það er ekki víst að Ólafur treysti neinum betur en Kjartani, ef Vilhjálmur gefur stólinn frá sér. Kannski er Kjartan eina límið sem dugar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
14.2.2008 | 09:55
Vísbending um þróunina í stjórnmálum
Þetta eru mjög jákvæðar fréttir fyrir Samfylkinguna en að sama skapi hlýtur könnunin að valda Sjálfstæðismönnum enn frekari áhyggjum - voru þær þó nógar fyrir!
Ég ætla þó ekki að gera þau mistök að tala um þessa könnun sem hárnákvæm vísindi - hún er það ekki. Miðað við 95% öryggi eru vikmörkin +/- 4,7% á meðan algeng vikmörk hjá Capacent eru 0,5-2%. Þetta þýðir með öðrum orðum að í stað niðurstöðunnar D - 33,9% og S - 38,8% gætu tölurnar allt eins verið D - 38,8% og S - 33,9 %. Nú eða D - 29,2% og S - 43,5%! Og allt þar á milli.
Nákvæmnin mætti sem sagt vera meiri. Þetta breytir ekki hinu að aftur og aftur mælist Samfylkingin mjög sterk en Sjálfstæðisflokkurinn veikist - sérstaklega í borginni. Það kemur svo sem ekki á óvart. Dagur B Eggertsson uppskar sem borgarstjóri verðskuldaðar vinsældir, fólk var fegið að fá ungt og ferskt fólk að stjórninni í stað ósamstæðra 6 menninga og gamaldags hreppsnefndarformanns sem týndi sér í smáatriðum eins og köldum bjór, hafði ekki samráð um mikilvæg mál og gleymdi að lesa minnisblöðin sín.
Þegar Vilhjálmur og Ólafur F tóku aftur völdin í borginni hafði Samfylkingin í Reykjavík ekki mælst undir 40% þrjá mánuði í röð. Samfylkingin á landsvísu er sífellt að styrkja sig, þvert á spár svartsýnismanna sem töldu það ófrávíkjanlegt lögmál að samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokks í ríkisstjórn minnkaði. Það hefur Samfylkingin rækilega afsannað.
Öflugt málefna- og stefnumótunarstarf nefnda, ráða, málefna- og framtíðarhópa undanfarinna ára hefur lagt grunninn að sterku stjórnmálaafli. Samfylkingin er þróttmikið og vaxandi afl í stjórnmálum en Sjálfstæðisflokkurinn virðist ekki hafa náð að endurnýja innviðina og kraftanna.
Allt hefur sinn tíma.
![]() |
Samfylkingin stærst allra flokka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.2.2008 | 16:10
ENN AF STYRMI
Ritstjóri Morgunblaðsins er enn við sama heygarðshornið og heldur áfram að kasta Staksteinum af þeirri einkennilegu pólitísku heift sem einkennt hefur skrif blaðsins um langa hríð. Á sama tíma og blaðið heimtar afsögn Vilhjálms Þ Vilhjálmssonar (sem ég tek undir) fer ritstjóri þess ítrekað með ósannindi um pólitíska andstæðinga sína (blaðsins?) gegn betri vitund.
Þetta er í hróplegu ósamræmi við þær siðferðiskröfur sem hann gerir til borgarstjóraefnis Sjálfstæðismanna og nú er spurning hvort Árvakur þarf ekki að endurskoða ritstjórnarstefnu sína - eða a.m.k. hvort ritstjóranum grjótglaða er treystandi fyrir orðspori blaðsins.
Um daginn létu ég og ýmsir aðrir þess getið að við hefðum fengið nóg af þessu undarlega háttarlagi Styrmis Gunnarssonar, ritstjóra, og hefðum því sagt blaðinu upp. Þegar ég hringdi í síma 569 1100 til að segja blaðinu upp þurfti ég að bíða talsvert eftir að röðin kæmi að mér.
Þegar ég svo náði sambandi og sagði frá erindinu fékk ég mjög rútíneraðar spurningar, "má ég spyrja af hverju?" "er þetta af pólitískum ástæðum?" "viltu bæta einhverju við?" Blessuð konan var greinilega búin að taka við nokkrum uppsögnum áður en að mér kom.
Morguninn eftir mun Styrmir hafa boðað til fundar með starfsfólki og sagt Samfylkinguna vera í herferð gegn Morgunblaðinu - sem er út af fyrir sig skemmtilega fórnarlambsleg ályktun. Aðspurður um hvort margir hefðu sagt upp áskriftinni mun ritstjórinn hafa talið 2-3 þekkta einstaklinga á fingrum sér eins og það væru öll ósköpin og eytt svo frekara tali um það. Eitthvað grunar mig þó að uppsagnirnar hafi verið fleiri.
Samkvæmt staðfestum heimildum munu nokkrir einstaklingar úti í bæ hafa sagt Morgunblaðinu upp með tölvupósti þar sem þeir tilgreindu óánægju með skrif ritstjórans sem ástæðu fyrir uppsögn sinni. Þessir einstaklingar fengu hins vegar ekki vinalega kveðju frá óbreyttum starfsmanni eins og ég heldur var þeim svarað með tölvupósti frá Styrmi Gunnarssyni þar sem þær ástæður fólksins voru harðlega gagnrýndar.
Sjálfum finnst mér hryggilegt að hið annars vandaða blað, Morgunblaðið, sé síendurtekið dregið niður í lágkúru. Þetta getur varla verið hvetjandi fyrir starfsfólk blaðsins sem á hrós skilið fyrir faglegt starf eins og best gerist á landinu. Víst er að þetta fer ekki vel í stóran hóp (mögulegra) áskrifenda.
Er ekki kominn tími til að veita þreyttum hvíld?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.2.2008 | 09:40
Hagrænir hvatar
VGK-hönnun er öðrum til fyrirmyndar í þessu máli. Hjá fyrirtækinu vinna helstu sérfræðingar landsins í umferðarmálum en Umhverfisráð naut meðal annars leiðsagnar þeirra við undirbúning góðrar ferðar til Seattle í fyrra.
Með samgöngustefnunni er VGK-hönnun að bæta hag þeirra sem vilja koma til vinnu með umhverfisvænni hætti en einir í bíl. Staðreyndin er því miður sú að flest fyrirtæki borga stórfé fyrir bílastæði handa þeim sem koma einir á bíl með því að útvega þeim ókeypis bílastæði.
Bílastæði kostar um 3 til 3,5 milljónir og samkvæmt VGK-hönnun má reikna með að kostnaður við hvert bílastæði sé um 20.000 kr. á mánuði. Venjulega fá þeir sem hjóla, ganga eða taka strætó í vinnuna ekki neitt.
Í mörgum erlendum borgum hafa stjórnvöld gert kröfu til fyrirtækja um að þau innheimti raungjald fyrir bílastæði af starfsmönnum. Venjulega er þetta gert þannig að allir starfsmenn fá kaupauka sem jafngildir þeirri upphæð sem kostar að vera með bílastæði. Þannig tapa þeir sem mæta á bíl engu en þeir sem vilja velja hagkvæmari samgöngur geta stungið mismuninum í vasann.
Þetta eru hagrænir hvatar. Þrátt fyrir allt er besta leiðin til breytinga í þágu umhverfisins að tala við budduna.
![]() |
Starfsmenn ferðist ekki einir í bíl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.2.2008 | 18:16
Að axla ábyrgð eða vera flengdur
Það er sjálfsögð krafa til stjórnmálamanna að þeir segi satt. Það fannst Vilhjálmi Þ Vilhjálmssyni líka þegar hann skoraði á Þórólf Árnason fyrrverandi borgarstjóra að segja af sér vegna tengsla hans við verðsamráð olíufélaganna. Þá sagði Vilhjálmur að borgarstjóri hefði farið rangt með og
Það er mjög alvarlegt mál þegar stjórnmálamenn segja ekki satt og rétt frá. Ég get einfaldlega sagt það að ef ég væri staðinn að svona löguðu þá myndi ég segja af mér."
Nú er eitthvað annað uppi á teningnum. Nú þykist Vilhjálmur hafa axlað ábyrgð þegar hann missti borgarstjórastólinn sem gerðist hins vegar af því að hann hafði "gleymt" að bera mikilvæg mál undir borgarstjórnarflokkinn sinn sem af þeim sökum varð óstjórntækur vegna innanflokksátaka.
Að axla ábyrgð hefur í mínum huga alltaf falið í sér að taka sjálfviljugur afleiðingum gjörða sinna, t.d. með því að víkja úr sæti í trúnaðarstöðu ef um trúnaðarbrest er að ræða.
Að "lenda í" því nauðugur að missa sæti sitt vegna eigin klúðurs er allt annað og miklu meira í ætt við að fá verðskuldaða rassskellingu.
Það er nú alveg lágmark að borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins þekki muninn á þessu tvennu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.2.2008 | 23:39
Liðið sundrað - höllin hrunin
Sjálfstæðisflokkurinn í borginni er hruninn innan frá. Þetta var ljóst í haust og er í raun ekki skrýtið. Hópurinn samanstendur af hópi ungs fólks sem er mislangt komið í að gera upp Hannesaræsku sína og minnislausum pólitíkusi af gamla skólanum.
Það eina sem sameinaði þau í upphafi var takmarkið að vinna aftur borgina fyrir Flokkinn og Davíð.
Þegar búið var að krækja í völdin eftir aðra verstu útkomu flokksins í borgarstjórnarkosningum byrjuðu innanflokksátökin.
Baráttunni um leiðtogasætið hafði í raun aldrei lokið og ef eitthvað er hafa fleiri úr hópnum blandað sér í slaginn. Hvert um sig ákváðu þau að líta á kjörtímabilið sem eitt samfellt leiðtogaprófkjör. Gott ef meirihluti borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins gengur ekki með draum um borgarstjórastólinn í maganum.
Þetta eru ekki góðir útgangspunktar í pólitík. Fólk er ekki fífl og finnur það þegar kjarnann vantar, þegar drifkrafturinn er framagirnd og völd - hvort til að næra annað.
Nú situr Sjálfstæðisflokkurinn uppi með ósannindamann sem leiðtoga sinn í borginni. Í hópnum sem honum er ætlað að leiða er helmingurinn til í að heygja blóðuga baráttu um leiðtogasætið við hann eða hvert hinna á bak við tjöldin. Hinn helmingurinn hleypur um eins og höfuðlaust fiðurfé.
Læmingjaeðlið kemur í veg fyrir að þau lýsi yfir að leiðtogi þeirra sé ekki traustsins verður og þess vegna stríði það gegn sannfæringu þeirra að styðja hann. Að vísu má deila um hve þungt sannfæring þeirra vegur á þessum mæliskálum.
Með ákvörðun sinni um að sitja áfram er Vilhjálmur að sökkva flokki sínum enn dýpra í kviksyndið. Sauðtryggir kjósendur og harðir stuðningsmenn kveða nú hvarvetna upp sína dóma. Um þetta bera bloggfærslur dagsins skýrt vitni. Sjá t.d. hér og hér. Enginn mælir manninum bót. Það er gert grín að Vilhjálmi fyrir að skilja ekki hvað felst í hugtakinu að axla ábyrgð.
Forystumenn flokksins og borgarfulltrúarnir allir með tölu vita þetta vel. Þess vegna hafa þau falið sig fyrir fréttamönnum í þrjá daga. Þess vegna hættu þau við að funda í Valhöll um helgina og fengu þess í stað inni hjá Gunnari Birgis í Kópavogi. Þess vegna laumuðust þau út í gegnum kjallarann í Valhöll í dag. Skildu gamla karlinn eftir einan í húsinu.
Liðið er sundrað - höllin er hrunin. Og borgin stjórnlaus.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
11.2.2008 | 15:16
Ragnar Reykás
Óþarfi að fara mörgum orðum um þetta mál - óska bara Sjálfstæðisflokknum og kjósendum hans til hamingju með áfangann.
Það vakti þó athygli þegar Vilhjálmur var spurður út í ummæli sín um borgarlögmann í frægum Kastljósþætti. Meðal annars þetta sagði hann í þeim þætti:
Ég auðvitað ber svona mál undir borgarlögmann. Ég fer ekki til lögfræðinga úti í bæ og það kemur fram í hans áliti að ég hafi haft þetta umboð og mér hefði ekki dottið í hug að fara að undirrita svona nema ég hefði skýrt umboð til þess...
Ég fer ekki til svona máls fyrr en ég er með það alveg á hreinu að ég hafi svona umboð. Mér bara dettur það ekki í hug...
Nú var ekki á honum að heyra að það hafi yfir höfuð verið nauðsynlegt að hafa samband við nokkurn mann út af þessu.
![]() |
Vilhjálmur: Hef axlað ábyrgð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.2.2008 | 13:17
Geta þau ekki einu sinni haldið blaðamannafund á réttum tíma?
Hvað tefur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins?
Er verið að bíða eftir hringingu frá Davíð?
10.2.2008 | 19:32
Læmingjaeðlið
Staða Vilhjálms Þ Vilhjálmssonar er vægast sagt ótrygg og háværar raddir um að hann segi af sér leiðtogasæti í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins. Samkvæmt kvöldfréttum mun borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokks ekki ætla að gera það.
Sexmenningarnir hafa undanfarna daga þagað þunnu hljóði. Nú, þegar þessar fréttir eru bornar undir þá, segjast þeir mun standa á bak við leiðtoga sinn. Þetta er sama fólk og góðu heilli stoppaði Vilhjálm af í REI ruglinu. Klagaði í Geir. Svoleiðis óhollusta er því miður ekki vel séð í Sjálfstæðisflokknum og þau voru sett út af sakramentinu.
Þess vegna reyna þau núna að sýna Vilhjálmi hollustu þótt þeim sé það þvert um geð. Elta hann fagnandi fram af björgunum frekar en að koma hreint fram við kjósendur og segja eins og er.
Að það er ekki hægt að bjóða Reykvíkingum upp á Vilhjálm sem borgarstjóra, að það voru mistök að taka völdin í borginni með því að setja baráttumálin á útsölu og borgarstjórastólinn á uppboð.
Að í raun er borgin stjórnlaus, að heiðarlegast væri að Vilhjálmur færi frá, nýmynduðum meirihluta slitið og þeim falin stjórn borgarinnar sem bæði njóta trausts og eru ekki of uppteknir af eigin valdabaráttu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.2.2008 kl. 12:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
10.2.2008 | 18:09
Kaffispjall í Kolaportinu
Eins og í fyrra stóð til að borgarfulltrúar byðu borgarbúum í kaffispjall í Ráðhússalnum á Vetrarhátíð sem nú stendur yfir. Af einhverjum sökum hafði nýr meirihluti allt í einu ekki löngun til að gera þetta og hætti við þennan dagskrárlið Vetrarhátíðar á síðustu stundu.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar höfðu raunar hlakkað til þessa liðar í Vetrarhátíð, það er ekki svo oft að það gefst tækifæri til að setjast niður með borgarbúum og rabba um landsins gagn og nauðsynjar. Þetta heppnaðist einkar vel í fyrra og þar til fyrir skemmstu virtust allir borgarfulltrúar sammála um að þetta væri einstaklega vel heppnað framtak.
Kolaportið hefur verið Samfylkingunni í borginni mikið hjartans mál. Það var t.d. síðasta embættisverk Dags B Eggertssonar sem borgarstjóra að tryggja framtíð Kolaportsins sem til stóð að taka undir bílastæði.
Til að snuða ekki borgarbúa um kaffispjall með borgarfulltrúum bauð því borgarstjórnarflokkur Samfylkingarinnar í kaffispjall í Kolaportinu í gær. Það var gríðarleg stemning og óhætt að segja að fólk hafði virkilega þörf fyrir að hitta borgarfulltrúa og spjalla um stöðu mála í borgarpólitíkinni. (Synd og skömm í ljósi þessarar spjallþarfar að ekki skulist nást í sexmenningana í Sjálfstæðisflokknum!)
Yfir 300 manns settust niður með okkur yfir kaffibolla og skúffuköku. Ótal aðrir stoppuðu stutta stund, bara til að spjalla, taka í hendur og láta í ljós skoðanir sínar. Félögum í flokknum fjölgaði talsvert. Rífandi stemning!
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.2.2008 kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)