22.2.2008 | 16:18
Ótrúverðug svör, flóttaæfingar og væl
Það hafa svo sem ekki verið jólin hjá borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins undanfarnar vikur. Þau hafa eiginlega ekki brosað síðan fyrir Kjarvalsstaðafundinn - ekki brostu þau á honum, nema Villi og Kjartan.
Reyndar mátti sjá bregða fyrir brosvipru á andliti Hönnu Birnu þegar hún fékk afgerandi stuðning í skoðanakönnun í vikunni. En hún vissi að það var óviðeigandi að gleðjast yfir því, af því allt er nú eins og það er, þannig að brosið gufaði upp.
Hún segist auðvitað vera ánægð með stuðninginn og mun að sjálfsögðu taka sæti borgarstjóra ef til hennar verður leitað. Þessu trúi ég vel. Hún segir hins vegar líka að ef Vilhjálmur velur að sitja áfram og taka sæti borgarstjóra eftir ár þá muni hún styðja hann heils hugar. Þessu trúi ég alls ekki - og reyndar held ég að það trúi því ekki nokkur maður, að Hönnu Birnu sjálfri meðtalinni.
Svona talar Gísli Marteinn Baldursson líka og ég trúi honum ekki heldur, eins og mér finnst hann nú oft trúverðugur og fínn. Af hverju segja þau ekki bara eins og er? "Villi hefur ekki reynst traustsins verður og við viljum að hann láti forystuhlutverkið af hendi." Það liggur í augum uppi að þetta er staðan. Er svona erfitt að segja það? Er virkilega á sig leggjandi að flýja fjölmiðlamenn út um kjallara, bakdyr og brunastiga a´la Annþór til að losna við svona spurningar?
Og hvað var þetta í gær út af bloggi Össurar? Nú ætla ég ekki að halda því fram að færslan um Gísla Martein í blóðugum riddarasögustíl hafi verið alger snilld og hugsanlega fór grínið alveg yfir strikið. (Skopskyn manna er mismunandi og að sumra áliti eru Spaugstofumenn hatursmenn en ekki spaugarar.) En að senda Sigurð Kára tárvotan í tvo umræðuþætti til að tala um skammarlegt hneyksli og aðför að vesalings Gísla Marteini fannst mér líka skot yfir markið. Eiginlega óttalegt væl.
Ætti ekki Sjálfstæðisflokkurinn frekar að ræða á fundum sínum hvort og þá hvernig þeir ætla að koma á alvöru stjórn í borginni? Ættu borgarfulltrúarnir ekki að reyna að segja Vilhjálmi eins og er um hvort þeir styðja hann eða ekki? Þá þarf hann kannski ekki allt þetta andrými og borgin þarf ekki að bíða í kyrrstöðu á meðan.
Þá geta þeir kannski tekið næsta skref, að koma sér saman um hvert þeirra sest í borgarstjórastólinn þegar Ólafur F er búinn með sinn tíma í stólnum - gjaldið fyrir meirihlutasamstarfið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2008 | 10:23
Stefna Íslands í ferðaþjónustu- og náttúruverndarmálum
Við ættum að stefna að þeirri framtíðarsýn að á hálendi Íslands, á Vestfjörðum, Reykjanesskaga og víðar verði þéttriðið net þjóðgarða, verndarsvæða og þemagarða. Þarna er ekki verið að tala um svokallaða "skúffuvernd" þar sem látið er nægja að kalla þetta verndað svæði á pappírnum heldur verður sett fjármagn í að byggja upp aðstöðu fyrir ferðafólk, ráða starfsfólk til eftirlits og leiðsagnar o.s.frv. Að sjálfsögðu ætti svo að kosta eitthvað að fara inn á þessi svæði.
Nú rísa sjálfsagt einhverjir upp á afturlappirnar, "eigum við frjálsbornir Íslendingar ekki rétt á að ferðast um okkar eigið land..." segja þeir. Og jú vissulega eigum við (og frjálsbornir útlendingar líka) rétt á því. En hvaða vit er í því að hafa enga stjórn á því hver fer hvert og á hvaða farartækjum?
Af hverju erum við til í að nota hálfa milljón aukalega í að eiga jeppa í stað fólksbíls, kaupa olíu á bílinn fyrir 40 þúsund krónur og útivistargalla fyrir annað eins til að komast upp á hálendi að skoða t.d. Torfajökulssvæðið en við erum ekki til í að borga krónu fyrir að vera viss um að það verði þarna óskaddað þegar við komum?
Væri ekki allt í lagi að borga einhverja sanngjarna upphæð fyrir að fá að fara um þessi svæði ef peningarnir fara í þjóðgarðsvörslu, þjónustu við ferðafólk og aðstoð ef fólk lendir í vanda? Við þurfum að marka okkur alvöru stefnu í þessum málum sem allra fyrst. Þarna þurfa reyndar að falla saman í eina harmoníu stefnur í ferðamálum, náttúruverndarmálum, byggðamálum, samgöngumálum og orkumálum. Það er ekki seinna vænna að byrja.
Á svipuðum nótum skrifar Stefán Jón Hafstein í Fréttablaðið undir fyrirsögninni "Þróunaraðstoð við Ísland?". Ágæt grein.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.2.2008 | 15:09
Lýst er eftir þremur borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins
Í frétt á visi.is er lýst eftir þremur borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins. Þar segir:
Vísir lýsir eftir borgarfulltrúunum Vilhjálmi Þórmundi Vilhjálmssyni, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Ólafi Friðriki Magnússyni.
Síðast sást til þeirra í fundarherbergi í Ráðhúsi Reykjavíkur um hálfeittleytið í dag. Blaðamenn Vísis og Fréttablaðsins höfðu beðið í tvo tíma eftir að ná tali af þeim eftir borgarráðsfund í morgun en þau fóru út bakdyramegin.
Síðan þá hefur Vísir reynt að ná sambandi við þau en án árangurs. Aðrir borgarfulltrúar sem sæti eiga í borgarráði svöruðu spurningum blaðamanna eftir að þeir yfirgáfu borgarráðsfund.
Þeir sem hafa upplýsingar um ferðir þremenninganna eru beðnir um að hafa samband við Vísi á netfangið ritstjorn@visir.is eða í síma 512-5203.
Þeim sem búa yfir upplýsingum sem gætu leitt til viðtals við þau er heitið fundarlaunum.
Lesendur þessarar síðu er beðnir um að láta ekki sitt eftir liggja og hafa augun opin ef þeir skyldu rekast á borgarfulltrúana fyrir tilviljun.
20.2.2008 | 11:18
Óábyrgt krepputal
Ýmsir stjórnmálamenn keppast nú við að segja okkur að það séu tvísýnar horfur í efnahagsmálum, að við siglum inn í djúpa lægð, að það sé svart framundan o.s.frv. o.s.frv. Öll þriggja ára áætlun borgarinnar var í gær borin á borð með þennan sorgarmars sem dinnermúsík.
Mér finnst ábyrgðarhluti af stjórnmálamönnum að tala svona. Manni dettur í hug að þeir segi þetta til að hafa áhrif á væntingar. "Ástandið er ofboðslega slæmt en við ætlum samt að reyna að gera það sem við getum til að halda uppi eðlilegri starfsemi." Þetta slær á væntingarnar og fólk verður ánægt með minna.
Auðvitað eru þrengingar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og erfiðleikar íslenskra banka alvörumál. Þetta er hins vegar tímabundið ástand og ástæðulaust að tala þjóðina niður í vonleysi út af því.
Íslensk fyrirtæki standa vel flest býsna sterk. Síðustu árin hafa íslensk fyrirtæki, lítil og stór, notað tækifærið sem fólst í ódýru fjármagni til að fjárfesta í innviðum sínum og þessar fjárfestingar eiga eftir að verða okkur drjúgt nesti á næstu misserum þótt eitthvað harðni á fjármagnsdalnum um stund.
Það má ekki gleyma því að efnahagslífið hefur verið á yfirsnúningi undanfarin misseri. Vextir eru með þeim hæstu í heimi, verðbólgan er allt of há og viðvarandi mannekla í þeim starfsgreinum sem sjá um grunnþjónustu samfélagsins. Þetta er alls ekki æskilegt ástand. Þetta er ekki jafnvægi.
Nú þegar hægist um er hins vegar hægt að fara að lækka vexti og nýgerðir kjarasamningar gefa góðar vonir um að hægt sé að ná stöðugleika á vinnumarkaði. Minni spenna í atvinnulífinu og betri kjör þeirra sem hafa setið eftir skila vonandi aftur því fólki sem hefur svo sárlega vantað í kennslu, umönnunarstörf, löggæslu og aðrar grunnþjónustugreinar.
Vonandi skila krakkarnir sér aftur í menntaskólana úr afgreiðslustörfum í stórmörkuðum. Vonandi fara fleiri verkfræðingar að vinna á verkfræðistofum, í hátækni- og þekkingariðnaði sem eru alls staðar helstu vaxtarsprotar atvinnulífs og verðmætasköpunar í stað þess að þeir fari allir að vinna í banka.
Allir þekkja það hvernig aukakílóin eiga til að safnast á mann eftir stanslaust konfektát, steikur, sósur, rauðvín og jólaöl í desember. Það er þjóðleg hefð að taka janúar og febrúar í að ná þessum kílóum af sér aftur, minnka við sig í mat, fara í líkamsrækt og beita sig sjálfsaga.
Nú er bara komið að því í efnahagsmálum. Það er ekkert slæmt og á eftir að styrkja íslenskt efnahagslíf til framtíðar. Svo hættum nú þessu fráleita krepputali.
![]() |
Uppsagnir hafnar í bönkunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.2.2008 | 22:33
Óvægið aðdráttarafl
Það er auðvitað gaman að velta fyrir sér hvern Sjálfstæðisflokkurinn velur að lokum til að verða borgarstjóri þegar Ólafur F er búinn með tímann sem hann fékk úthlutað fyrir að vera memm.
Hitt er þó ekki síður athyglisvert - að skoða niðurstöður fylgiskönnunarinnar. Einna mesta athygli vekur að Sjálfstæðisflokkurinn hefur orðið harkalega fyrir barðinu á aðdráttaraflinu og nálgast botninn með vaxandi hraða. Er kominn niður í 31,4%.
Samfylkingin er hins vegar á mikilli siglingu þrátt fyrir að vera ekki lengur í meirihluta. Ef kosið væri í dag segjast 47,6% myndu kjósa Samfylkinguna. Takk fyrir það!
19.2.2008 | 19:40
Skákmót aldarinnar
Glöggir stjórnmálaskýrendur telja að með því að fá Vilhjálm til að sitja sem fastast sé Davíð að bæta vinningslíkur Gísla Marteins í baráttunni við Hönnu Birnu um leiðtogasæti sjálfstæðismanna í borginni.
Ljóst er að ef Hanna Birna sest í stól borgarstjóra fyrir lok kjörtímabilsins verða möguleikar Gísla Marteins á því leiðtogahlutverki vorið 2010 harla litlir.
Voldug öfl innan Sjálfstæðisflokksins vilja hins vegar ekki Hönnu Birnu, borgarstjórnarflokkurinn hefur jafn margar hugmyndir um borgarstjóra og fulltrúarnir eru margir og því lítur út fyrir að sirkusinn haldi áfram.
![]() |
Flestir vilja Hönnu Birnu sem borgarstjóra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.2.2008 | 12:13
Davíð segir Villa að sitja sem fastast
Einhverra hluta vegna er Mogginn ekki fyrstur með þessa frétt þrátt fyrir innmúraða vináttu ritstjórans við bankastjóra Seðlabankans. Visir.is segir svo frá:
Davíð Oddsson, Seðlabankastjóri og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur undanfarna daga lagt hart að Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins að halda sínu striki þrátt fyrir mótbyr.
Davíð hefur verið í góðu sambandi við Vilhjálm undanfarna daga og hringdi meðal annars til Vilhjálms um helgina til að stappa stálinu í hann. Samkvæmt heimildarmönnum Vísis kom skýrt fram í samtölum þeirra að Davíð hvatti Vilhjálm til að halda sínu striki eins og ekkert hefði í skorist. Davíð mun meðal annars hafa hvatt Vilhjálm til að aðhafast ekki neitt, ekki gefa neina yfirlýsingu heldur standa af sér mótbyrinn sem hann mætir þessa dagana.
Vilhjálmur hefur legið undir ámæli fyrir óvönduð vinnubrögð í tengslum við REI-málið svokallaða síðastliðið haust og lýsti því yfir á blaðamannafundi fyrir rúmri viku að hann hygðist hugsa sinn gang í ljósi þeirrar gagnrýni sem hann hafði orðið fyrir.Fyrir liggur að Vilhjálmur mun að öllu óbreyttu taka við sem borgarstjóri í byrjun næsta árs samkvæmt samningi Sjálfstæðisflokksins og F-lista og óháðra. Geir H. Haarde, formaður flokksins, sagði í Silfri Egils á sunnudag að hann vænti þess að óvissunni í kringum framtíð Vilhjálms yrði eytt í þessari viku. Afstaða Geirs gerir það líklega að verkum að Vilhjálmur mun koma með yfirlýsingu um framtíð sína í vikunni, sennilega á morgun.
Ekki er gott að segja hvað fyrrum formanni Sjálfstæðisflokksins gengur til.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
19.2.2008 | 09:31
Álver á Seltjarnarnes
Það er sjálfsögð krafa að Seltirningar fái álver, hvað eiga þeir annars að vinna?
Bara eitthvað annað?
Mér sýnist þeir líka langt komnir með að tryggja sér orku til 1. áfanga!
![]() |
Seltirningar skoða möguleika á raforkuframleiðslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.2.2008 | 22:32
Íslenska útrásin
Hef stundum verið að spá í það þegar talið berst að vídeó og tölvuleikjakynslóðinni sem eiga að vera svo skemmdar vegna ofbeldis í kvikmyndum og tölvuleikjum hvort það geti ekki verið að þessi kynslóð frá fimmtugu og uppúr hafi beðið varanlegan skaða af lestri íslendingasagnanna.
![]() |
Feðgar handteknir fyrir líkamsárás |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.2.2008 | 17:02
Skóflustungublekkingar og "hálfver" í Helguvík
Hvað ætli bæjarstjórinn í Reykjanesbæ sé oft búinn að tilkynna um fyrstu skóflustunguna að Helguvíkurálveri? Líklega hefur hann oftar boðað komu álversins en Gunnar í Krossinum hefur boðað að syndaflóð væri í nánd.
Þetta er sýndarmennska. Þegar bæjarstjórinn segir að búið sé að tryggja orku til fyrsta áfanga álvers í Helguvík fer hann einfaldlega með rangt mál. Rétt eins og með aðra sjálfstæðismenn þessa dagana er erfitt að gera upp við sig hvort það er með vilja gert eða hvort hann hefur bara "lent í þessu".
Staðreyndin er sú að fyrir utan þau 100 MW sem OR lofaði á sínum tíma getur Hitaveita Suðurnesja ekki ábyrgst nema afar lítinn hluta af því sem þarf til þess að byggja "hálfver" í Helguvík - hvað þá álver í fullri stærð. Þótt næg orka væri til að byggja "hálfver" væri fullkomið ábyrgðarleysi að fara af stað án þess að hafa tryggt orku til alls þess sem stefnt er að.
Ekki mun Landsvirkjun koma til bjargar og þá er eina von bæjarstjórans að OR virki Hengilinn allan og selji nánast hvert einasta megawatt til álbræðslu í Helguvík. Ég held að það sé tímabært að blaðamenn spyrji Ólaf F Magnússon hvað honum finnst um það.
Hitaveita Suðurnesja á von um orku á Krýsuvíkursvæðinu en tilraunaborholur hafa valdið vonbrigðum. Til að auka enn á angur bæjarstjórans í Reykjanesbæ hafa sveitarfélögin Vogar, Grindavík og Hafnarfjörður sem eiga auðlindirnar stofnað um þær félag, Suðurlindir, og vilja að orkan sem þar fæst verði nýtt innan sveitarfélaganna. Ef orkan er þá yfir höfuð virkjanleg og leyfi fæst til að virkja hana sem er langt því frá gefið.
Þó svo færi að OR eða Suðurlindir sæju Helguvík fyrir orku þá væri enn eftir að leggja rafmagnið út í Helguvík, a.m.k. að Fitjum. Enn hefur ekki nokkur maður bent á það línustæði um Reykjanesskagann sem líklegt er að sátt náist um og ekkert bendir til að slík leið finnist. Reykjanesskaginn er gríðarlega merkilegt og fagurt útivistarsvæði sem ferðaþjónustuaðilar, umhverfisverndar- og útivistarfólk mun ekki láta eyðileggja baráttulaust.
Nú er beðið eftir úrskurði um það hvort meta skuli alla þætti fyrirhugaðra framkvæmda í Helguvík saman, þ.e. línulagnir, orkuöflun, byggingu og rekstur álvers. Öllum er ljóst að það er hið eina rétta. Standist framkvæmdin ekki slíkt mat á hún einfaldlega ekki rétt á sér.
Hin síendurtekna boðun Helguvíkurálvers gegn betri vitund predikaranna er hvimleitt og siðlaust áróðursbragð sem tími er kominn til að hætta. Menn ættu að sníða sér ráðherrakápu úr betra klæði.
![]() |
Helguvík bíði enn um sinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)