29.2.2008 | 19:49
Og baráttan um borgarstjórastólinn rétt að hefjast!
Hvaða áhrif ætli innbyrðis átök þeirra Hönnu Birnu, Gísla Marteins, Júlíusar Vífils og Villa um borgarstjórastólinn muni gera fyrir traust almennings? Það eru enn nokkrir tölustafir niður í núllið.
Annars er áhugavert að spá í hvað næsti borgarstjóri muni hafa mörg atkvæði á bak við sig þegar þar að kemur. Það eru alls 14 borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar sem hafa atkvæðisrétt, þar af munu a.m.k. 4 vera í kjöri. Reiknum með að þeir kjósi allir sjálfa sig og þá eru 10 atkvæði eftir. 2, 3 og 3?
Þá þyrfti að kjósa aftur!
![]() |
Aðeins 9% treysta borgarstjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.2.2008 | 14:33
Skortur á enskukunnáttu eða...?
Ég er svo sem enginn snillingur í ensku. Ég get þó með góðum vilja klórað mig fram úr kafla OECD skýrslunnar um stöðugleika og stóriðju. Af öllum sólarmerkjum að dæma virðist ég mega vera nokkuð ánægður með það því blaðamenn Mbl.is og þýðendur fjármálaráðuneytisins virðast hafa fallið á þessu enskuprófi.
Skoðum þennan kafla:
To the extent possible, new large-scale power-intensive investments should be phased in once macroeconomic imbalances have been corrected.
More generally, such large-scale public investments are inherently risky and, even though they appear to be profitable, they give rise to substantial contingent liabilities for the government.
A lack of transparency makes it impossible to evaluate whether public utilities earn appropriate returns for the use of natural resources, the environmental costs and the risks they are taking on.
No major investments in energy-intensive projects, including those already in the planning phase, should proceed without prior evaluation within a transparent and comprehensive cost-benefit framework (including environmental impacts and inter-generational effects).
Samkvæmt skilningi Mbl.is er þetta inntakið:
Best væri ef hugsanlegar nýjar orkuframkvæmdir gætu bæst við í áföngum. OECD segir, að slíkar framkvæmdir megi þó ekki hefjast nema að undangenginni gegnsærri hagkvæmniathugun þar sem m.a. sé hugað að umhverfisáhrifum.
Þarna virðist "to the extent possible" vera orðið "best væri". Ég er ekki viss um að Guðni rektor hefði gefið rétt fyrir það.
Þorsteinn Siglaugsson bendir á það í athugasemd á þessu bloggi að þýðendur fjármálaráðuneytisins eru ekki alveg klárir á hinni engilsaxnesku tungu heldur. Þorsteinn segir þetta um málið:
Í skýrslunni segir: Large-scale aluminium-related investment projects are relevant both from a stabilisation and a longer-term prosperity perspective.
Rétt þýðing væri: Stór fjárfestingaverkefni tengd álframleiðslu hafa áhrif á stöðugleika og hagvöxt til lengri tíma. Þ.e. verkefnin eru "relevant" þegar lagt er mat á stöðugleika og hagvöxt (og eins og segir síðar hefur alls ekki verið sýnt fram á að þau séu arðbær).
Ríkisþýðingin: "Stóriðjuverkefni tengd áli skipta máli, bæði fyrir stöðugleika og velmegun til lengri tíma." Nú eru verkefnin allt í einu orðin grundvöllur stöðugleika ... ... sem er eiginlega í mótsögn við framhaldið þar sem nánar er skýrt í hverju áhrifin felast:
"Slík verkefni eru að hluta orsök núverandi ójafnvægis og hætta er á að ný slík verkefni hefjist áður en efnahagsjafnvægi er náð."
Það er kannski frétt ef ráðuneytið er tekið að falsa skýrslur!
Það er ekki annað hægt en að taka undir með Þorsteini en hitt finnst mér ekki minni frétt að fyrir utan Mbl.is og fjármálaráðuneytið, sem féllu á prófinu, hefur ekki nokkur einasti fjölmiðill treyst sér í þá mögnuðu rannsóknarblaðamennsku að þýða 20-30 línur úr ensku - með einni heiðarlegri undantekningu en traustasta fréttastofa landsins á ríkisútvarpinu gerði þessu góð skil í 6 fréttum í gær.
What´s the problem?
28.2.2008 | 18:34
Heimilisiðnaðurinn í Hádegismóum
Það hefur verið skondið - allt að því pínlegt þó - að fylgjast með nýjustu afurð heimilisiðnaðarins í Hádegismóum. Þeim sem lengi hafa fylgst með handverkinu kemur þó fátt á óvart, uppskriftin er kunnugleg.
Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem ritstjóranum í Hádegismóum eru þóknanlegir eru fengnir til að skrifa grein um efnahagsmál. Þeim er fenginn áberandi staður í blaðinu - miðopnan - sem felur í sér þá sögn að blaðinu finnist greinin mikils háttar.
Sama dag og fréttin birtist felur ritstjórinn blaðamönnum sínum að leita viðbragða helstu forystumanna í stjórnmálum og viðskiptalífi. "Hvað finnst ráðherrum um grein Illuga og Bjarna? Hvað finnst formönnum stjórnarandstöðuflokkana um grein Illuga og Bjarna? Hvað finnst viðskiptamógúlum um grein Illuga og Bjarna?" spyrja fréttamenn ritstjórans í Hádegismóum.
Flestir segja eins og er, að þarna er fátt nýtt, flest hefur verið sagt þarna áður t.d. af Einari Oddi heitnum varðandi peningamálastefnuna. Gott að þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru vaknaðir segir stjórnarandstaðan, förum okkur nú varlega og skiptum ekki um hest í miðri á segir viðskiptalífið og viðskiptaráðherra segir margt gott í greininni enda flest sem þar er nefnt annað hvort á borði ríkisstjórnarinnar eða í undirbúningi.
Næsta morgun er blaðið fullt af heimilisiðnaðinum og til að gefa því aukna áherslu skrifar ritstjórinn bæði leiðara um grein Illuga og Bjarna og minnist á grein Illuga og Bjarna í Staksteinum. Í blaði dagsins í dag hefur svo fréttamönnum verið falið að rukka fleiri um viðbrögð við grein Illuga og Bjarna þótt heldur sé að þynnast þrettándinn.
Ritstjórinn notar svo í dag tækifærið í uppáhaldsmeinhorni sínu, Staksteinum, til að skattyrðast út í viðskiptaráðherra fyrir að falla ekki í stafi yfir grein Illuga og Bjarna.
Ef ég væri Illugi og Bjarni - eða bara annar hvor - væri ég með dálítinn imbahroll niður eftir bakinu. Ekki það að þótt fátt sé nýtt í greininni og sumt af því sem lagt er til dálítið vafasamt er greinin samt heiðarleg tilraun til að koma af stað opinni umræðu um efnahags- og gjaldeyrismál. En lengra nær það ekki. Hér er ekki á ferðinni þvílíkt tímamótaafrek mannsandans að það þurfi að spyrja annan hvern Íslending hvað honum finnst um grein Illuga og Bjarna.
Heimilisiðnaðurinn í Hádegismóum má ekki teygja lopann svona mikið ef hann ætlar að spinna langan þráð.
28.2.2008 | 12:49
OECD um stóriðju og stöðugleika
Það er afar ánægjulegt að OECD er Samfylkingunni sammála um að nú þurfi að koma á efnahagslegum stöðugleika og stóriðjuframkvæmdir séu ekki leiðin til þess - þvert á móti þurfi að ná þessum stöðugleika áður en haldið er áfram á slíkri braut.
Á mbl.is segir í fremur lauslegri þýðingu:
Þá ættu stjórnvöld að forðast aðgerðir, sem hafa í för með sér útgjöld á meðan verðbólguþrýstingur er í kerfinu. Best væri ef hugsanlegar nýjar orkuframkvæmdir gætu bæst við í áföngum. OECD segir, að slíkar framkvæmdir megi þó ekki hefjast nema að undangenginni gegnsærri hagkvæmniathugun þar sem m.a. sé hugað að umhverfisáhrifum.
Í skýrslunni sjálfri er reyndar farið talsvert ýtarlegar í þetta en þar segir m.a:
Ný ríkisstjórn hefur lofað að tímasetja slíkar framkvæmdir þannig að þær stuðli að efnahagslegum stöðugleika. Hún hefur líka tilkynnt að engin ný verkefni fari af stað fyrr en heildaráætlun um orkunotkun hefur verið lokið. Það gildir þó ekki um verkefni sem þegar hafa fengið rannsóknaleyfi og önnur leyfi og gildir aðeins um ósnortin svæði.
Almennt séð jákvæð umsögn Skipulagsstofnunar gefur til kynna að eitt verkefni (sem myndi kalla á fjárfestingu sem nemur 10% af þjóðarframleiðslu) geti hafist fljótlega. Eins og framast er unnt, ætti að tímasetja slíkar orkufrekar stórframkvæmdir eftir að búið er að leiðrétta ójafnvægi í efnahagslífinu. Ennfremur, slíkar stórframkvæmdir eru óhjákvæmilega áhættusamar og jafnvel þótt þær virðist hagkvæmar hafa þær í för með sér umtalsverða hættu á auknum ábyrgðum stjórnvalda.
Skortur á gagnsæi gerir ómögulegt að meta hvort nýting auðlinda skilar ásættanlegum arði til almennings fyrir afnot af auðlindunum, umhverfiskostnað og áhættu sem almenningur tekur. Engar stórar fjárfestingar í orkufrekum verkefnum, þar á meðal þau sem nú eru í undirbúningi, ætti að halda áfram með án þess að fram fari gagnsætt og heildstætt kostnaðar-hagkvæmni mat (sem tekur til langtíma- og umhverfisáhrifa).
Hér er m.ö.o. sagt - bíðið með Helguvík og látið fara fram heildstætt gagnsætt mat á því hvort framkvæmdin er jákvæð eða neikvæð fyrir samfélagið.
Mér finnst þetta býsna skýrt og mælist til þess að metnaðarfullir fjölmiðlamenn taki mið af þessum athugasemdum næst þegar þeir gera fréttir um stóriðjuáform á Íslandi.
![]() |
Brýnast að koma á stöðugleika |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.2.2008 | 21:12
Mörgæsapartý
Það var athyglisvert fyrir margra hluta sakir að horfa á frétt um netþjónabú á Vellinum í gær.
Þar voru boðaðar framkvæmdir fyrir um 40 milljarða en inni í því mun vera lagning nýs sæstrengs, virkjanir í Þjórsá og fjárfestingar í netþjónabúinu sjálfu, væntanlega.
Ekki kom fram hvað mikla orku netþjónabúið þarf en algeng orkuþörf þeirra er um 50-100 MW. Það er því óþarfi að virkja Þjórsá til að stinga netþjónabúinu í samband. Ekki kom fram í fréttinni hver sagði að orkan þyrfti að koma úr Þjórsá - var það Friðrik Sophusson forstjóri Landsvirkjunar? Á hann ekki enn eftir að semja við landeigendur sem ekki vilja semja við hann?
Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ sækir það fast að koma upp álveri í Helguvík. Hann er búinn að fara í gegnum umhverfismat með sjálft álverið en á eftir að afla orkunnar og fá leyfi fyrir raflínulögnum. Það er alls kostar óvíst að sú orka fáist því Suðurlindir halda fast um sína orku og mikil andstaða er við svokallaða Bitruvirkjun.
Hitaveita Suðurnesja getur tryggt orku sem nemur 50-100 MW og á von um annað eins ef leyfi fæst til stækkunar í Reykjanesvirkjun og Svartsengi. Væri ekki nær að sleppa línulögnum eftir endilöngum Reykjanesskaganum, sleppa álverinu sem flest mælir á móti og stinga einfaldlega þessum MW Hitaveitu Suðurnesja í samband við þetta ágæta netþjónabú?
Áður en orð forstjóra LV? eru gripin á lofti um nauðsyn þess að virkja í Þjórsá til að bloggarar heimsins geti googlað að vild væri ekki úr vegi að rifja upp að ná mætti orku sem nemur heilli stórri virkjun með því að bæta flutningskerfi raforkunnar.
Þetta eru nokkrar spurningar og vangaveltur sem verðlaunablaðamaðurinn Kristján Már Unnarsson hefði getað nýtt sér til að gera athyglisverða frétt dýpri og meira spennandi.
Það sem vakti hins vegar mesta athygli mína við fréttina var fólkið sem bar fyrir augu. Af þeim ca 30 manns sem þarna bar fyrir augu sá ég enga konu - fyrr en ég skoðaði fréttina í þriðja skipti, þá sá ég eina! Bara karlar á jakkafötum. Hvílíkt mörgæsapartý!
Ég held að það væri ekki galið að fá fleiri konur í lykilstöður í orkugeiranum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.2.2008 | 09:35
Stöðugleika takk - ekki afréttara
Það er gott að Illugi og Bjarni tjái sig um hvað þeir vilja gera til að efla bankana. Án öflugra banka og fjármagns á viðráðanlegum kjörum fara hjól efnahagslífsins í hægagang. Hitt er svo annað mál að undanfarin ár hefur almenningur og smærri fyrirtæki verið að taka lán á óeðlilega háum vöxtum.
Íbúðalán með 7% vöxtum ofan á 4% verðbólgu er okurlán þegar sambærileg lán í Evrópu eru um 3% án verðtryggingar. Bankarnir segja þetta vera fórnarkostnað krónunnar en marga grunar að samkeppnin sé e.t.v. ekki næg á þessum hluta markaðarins. Illugi og Bjarni hafa horn í síðu Íbúðalánasjóðs en margir spyrja sig á móti hvort samkeppni bankanna væri nokkur yfir höfuð ef Íbúðasjóður væri ekki til að veita þeim aðhald.
Ýmsir málsmetandi stjórnmálamenn, einkum í Sjálfstæðisflokki, tala nú um nauðsyn þess að fá innspýtingu í efnahagslífið í formi erlendrar fjárfestingar - og eiga þá einkum og sér í lagi við álver. Þessu er ég ekki alls kostar sammála.
Í fyrsta lagi tel ég að stór innspýting sé ekki það sem við þurfum á að halda, heldur jafnvægi. Við erum enn með hæstu stýrivexti í heimi, efnahagslífið hefur verið á gríðarlegum yfirsnúningi, viðvarandi mannekla í fjölda atvinnugreina og viðskiptahallinn hefur slegið hvert metið af fætur öðru.
Erlend fjárfesting er jákvæð en álver er ekki eina leiðin til að ná í erlent fjármagn. Í upphafi var talið að um 40% af fjárfestingunni í stóriðjuframkvæmdunum fyrir austan myndu skila sér inn í íslenskt efnahagslíf. Reyndin varð um 20%.
Ef fyrirtækjum sem þess óska yrði leyft að gera upp í erlendri mynt myndi slíkt auðvelda mjög erlenda fjárfestingu í íslenskum fyrirtækjum. Líklega myndi slíkt leyfi skila mun meira erlendu fjármagni inn í efnahagslífið á næstu misserum en álver í Helguvík.
Þegar Finnar lentu í falli Rússamarkaðarins og efnahagskreppu í kjölfarið juku þeir framlög í rannsóknir og þróun um allan helming. Afraksturinn af því var einn sterkasti hátækni- og þekkingariðnaður í heimi.
Af hverju setjum við Íslendingar ekki aukið fjármagn í rannsóknir og þróun? Þar er iðulega unnið í samstarfi við erlenda aðila sem taka með sér umtalsvert fjármagn inn í landið. Verðmætasköpun í hátækni- og þekkingariðnaði er þreföld á við stóriðjuna og í þessum geira er unga menntaða fólkið okkar - fólkið sem við ættum að byggja framtíðina á.
Við sjáum hvað kvikmyndaiðnaðurinn hefur tekið við sér. Þar er formúla sem virkar og ekki er hægt að segja að Ísland tapi á þeim viðskiptum - fyrir u.þ.b. hver 20% af kostnaði kvikmyndar sem greiddur er með innlendu fé koma um 80% á móti af erlendu fé.
Við eigum ekki að líta á efnahagslífið sem túramann sem er að þynnast upp og þarf að fá sér vænan sjúss á formi álvera og olíuhreinsunarstöðva. Það væri nær að líta á efnahagslífið sem heilsuræktarmann sem þarf að borða fjölbreytt fæði og borða oft og reglulega.
Við þurfum að ná stöðugleika.
![]() |
Brýnt að grípa strax til aðgerða vegna bankanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.2.2008 | 09:10
Hvað ef þetta væri landsliðið í handbolta?
Fyrirliðinn gleymdi stöðugt að segja liðinu frá leikfléttunum og stundum í hvort markið hann á að skora? Línumaðurinn, skyttan og hornamennirnir væru að farast úr pirringi - ekki síst af því hver þeirra um sig er sannfærður um að hann væri sjálfur miklu betri fyrirliði.
Er framundan langur kafli glataðra (tæki)færa þar sem enginn gefur á hinn af því allir ætla að skora sjálfir?
![]() |
Þrjú gefa kost á sér í borgarstjóraembættið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.2.2008 | 13:34
Vandanum frestað
Þetta er ákvörðun um að taka ekki ákvörðun en vona að ákvörðunin taki sig sjálf einhvern tímann á næstu 12 mánuðum. Nokkuð dæmigert fyrir borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins.
Næstu mánuðir munu því verða langdregið leiðtogaprófkjör á milli Villa, Hönnu Birnu og Gísla Marteins. Mikill tími mun fara í innri baráttu þeirra og hrossakaup. Þetta er ekki gott fyrir borgina.
![]() |
Ákvörðun síðar um borgarstjóra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.2.2008 | 02:37
Grasrótin segir stopp
Hinn almenni Sjálfstæðismaður er búinn að fá nóg af ruglinu í borginni. Hverfafélögin eru að rísa upp til að segja það sem sexmenningarnir hafa ekki döngun í sér til að segja - "Villi farðu heim!"
M.a.s. sjálfstæðiskonur eru hættar að "kóa" með ástandinu.
Það er tvennt sem aftrar sexmenningunum frá því að segja það sem þeim finnst.
- Þau eru í innbyrðis valdabaráttu um leiðtogasætið og
- hvert um sig er hrætt um að verða útmálað sem Brútus og að eiga sér ekki viðreisnar von vegna svikastimpilsins.
Þetta eru mistök. Auðvitað er fátt um góða kosti í stöðunni en þó hlýtur alltaf að vera skást að fylgja sannfæringunni. Þá getur maður alla vega tapað sáttur. Þau eru hins vegar búin að missa af því tækifæri. Allt stefnir í að grasrót Flokksins sé að bresta þolinmæðina.
Hún lýsir vantrausti á Villa - og í því felst um leið vantraust á öllum þeim kjörnu fulltrúum sem undanfarna daga hafa farið eins og kettir í kringum heitan graut. Öllum borgarfulltrúunum sem hafa flúið út um kjallaradyr og brunastiga, hunsað skilaboð blaðamanna og gert allt til að forðast að segja meiningu sína.
Það er hæpið að grasrótin treysti þessu fólki næst þegar verður valið á lista.
![]() |
Hverfafélag vill ekki Vilhjálm sem borgarstjóra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.2.2008 | 09:52
Man hann það að ári?
Þetta er með ólíkindum. Dharma, ég samhryggist.
Í tilefni af vandræðagangi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins rifjaði Egill Helgason upp tilvitnun í Napoleon; Ekki trufla andstæðinginn þegar hann er að gera mistök! Mikið til í því.
Var samt svona að þetta færi að skána, borgarinnar vegna. Hver veit hvað gerist næst?
![]() |
Vilhjálmur ætlar að sitja áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |