7.3.2008 | 16:43
Björgun óþörf
Þarna fylgir góður hugur málum en ég vara þó við björgunarhugtakinu.
Um leið og það er búið að lýsa því yfir að það þurfi að bjarga einhverjum er líka búið að setja þann sama í stöðu fórnarlambs.
Ég vil ekki finna upp á vinnu fyrir Vestfirðinga. Ég vil hins vegar gjarna bæta samgöngurnar verulega, kanna möguleika á alþjóðaflugvelli, almennileg fjarskipti eiga auðvitað að vera komin fyrir löngu, rafmagnið þarf að vera stöðugt en ekki flöktandi og það þarf að koma upp háskóla á svæðinu.
Þegar þessi skilyrði eru komin í lag munu hugmyndir Vestfirðinga sjálfra blómstra.
Stjórnvöld og vel meinandi hjálparsveitir þurfa ekki að skapa störf heldur góð skilyrði. Þá skapar drífandi fólk sér störf. Og Vestfirðingar eru drífandi fólk.
![]() |
Bloggarar taka sig saman og vilja bjarga Vestfjörðum" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
7.3.2008 | 00:14
Vikið úr stjórn vegna viðtals
Á www.visir.is segir svo frá
Forstjóra Orkuveitu Húsavíkur hefur verið vikið úr stjórn orkufyrirtækisins Þeistareykja. Ein tilgreindra orsaka er að hann veitti Stöð 2 viðtal í óþökk yfirmanns...
Það var fyrir óásættanlega framkomu og mun þar hafa vegið þungt að hann veitti Stöð 2 viðtal á dögunum vegna vinnslu fréttar um álverskapphlaup milli Húsvíkinga og Suðurnesjamanna.
Hið refsiverða viðtal/frétt var á þessa leið
Álver án orku væri mikið gleðiefni
Framkvæmdastjóri Þeistareykja á Húsavík segir gleðilegt ef Helguvíkurmenn treysti sér til að reisa álver án orku. Hann telur ummæli Árna Sigfússonar, bæjarstjóra, bera keim af áróðri.
Í gær sagði Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar að allt væri klárt fyrir álver Norðuráls í Helguvík. Skóflustunga yrði tekin innan skamms og 700 störf væru í pípunum. Forstjóri Þeistareykja á Húsavík, sem að vinnur að orkuöflun fyrir álver á Bakka, telur ummæli Árna áróðursbragð.
Hreinn Hjartarson, forstjóri Orkuveitu Húsavíkur: Ja það er náttúrlega bara gleðilegt ef að þeim tekst svona vel að byggja álver án orkuöflunar og þarna við hér fyrir norðan ákváðum að fara hina leiðina, reyna að afla orkunnar fyrst. Við erum að verða búin að afla orku fyrir fyrri áfanga álversins og erum svona að undirbúa leit fyrir síðari áfangann.
Vandséð er hvernig tvö álver ættu að geta sprottið upp á sama tíma, bæði á Bakka og í Helguvík. Ekki síst ef litið er til óbreytts mengunarkvóta.
Björn Þorláksson: Litast þetta ekki af því að það er stóriðju kapphlaup í gangi ?
Hreinn Hjartarson: Jú það er þetta er náttúrulega þarna er greinilega verið að að hver er á undan í röðinni, myndi ég segja. Eins og staðan er núna þá erum við náttúrulega komnir miklu lengra með orkuöflunina og línulagnir en þeir eru hins vegar búnir að fara með sitt álver í gegnum umhverfismat.
Landsvirkjun á stóran part í Þeistareykjum. Það skyldi þó aldrei vera að þessi brottvikning sé vandarhögg forstjóra LV, slegið af greiðasemi við Árnana suður með sjó?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.3.2008 | 15:16
Borgar-Villi og Evru-Villi í Sjálfstæðisflokknum
Öllum eru ljós vandræði borgarstjórnarflokks Sjálfstæðiflokksins. Þau sitja uppi með "gamla góða Villa" sem enginn hefur traust á en þau þora ekki að losa sig við af þá klofnar restin í innanflokksdeilum um hver á að taka við.
Evrópumálin eru eins konar "Villi" fyrir Sjálfstæðisflokkinn á landsvísu. Flokkurinn er greinilega algerlega klofinn í afstöðu sinni til ESB aðildar og upptöku Evru. Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn tvístígur og heldur fyrir augu og eyru hrinur af honum fylgið.
Flokkurinn hefur löngum státað af stuðningi iðnaðarins og viðskiptalífsins en á þeim bæjum er fólki farið að leiðast þófið. Æ fleiri úr þeirra röðum halla sér nú að Samfylkingunni og segja hana hafa mun betri skilning á þörfum atvinnulífsins en gamla Flokkinn.
Sjálfstæðisflokkurinn getur hins vegar ekki höggvið á hnútinn því þá klofnar flokkurinn í tvo álíka stóra parta. Svo þrautaráð Sjálfstæðismanna í Evrópumálum, rétt eins og borgarmálunum, er að gera ekki neitt.
![]() |
Ekki eftir neinu að bíða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.3.2008 | 09:12
Sjússastefnan tekur toll
Það er áhugavert að heyra sjónarmið þessa námsmanns í Danmörku sem segir húsnæðisverð allt of hátt til að námsmenn leggi í að koma heim - auk þess sem hann hafi verið að mennta sig í öðru en nýtist honum til að vinna í álveri.
Undanfarin ár hefur verið keyrð stóriðjustefna í atvinnumálum sem gegnur út á að fjárfesta fyrir 200 þúsund milljónir í 400 störfum í stóriðju á meðan ekki hefur verið settur nema rúmur milljarður í nýsköpun.
Ofan á þetta voru gerð afdrifarík hagstjórnarmistök sem hleyptu húsnæðisverði langt upp fyrir það sem eðlilegt er, ollu langvarandi verðbólguskeiði og þenslu sem nú skapar efnahagslega timburmenn.
Það hefur m.ö.o. verið lögð áhersla á að flytja inn erlenda iðnaðarmenn og halda íslensku menntafólki frá landinu. Bravó!
Og sumir ráðamenn þjóðarinnar eru svo frábitnir menntuðu fólki að þeir tala þvert á ráðleggingar OECD og telja besta ráðið að skrúfa nú tappa af nýrri stóriðjubokku.
![]() |
Mikill munur á húsnæðisverði hér og í Danmörku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.3.2008 | 21:21
Ríki í ríkinu er hún vissulega
Landsvirkjun er að mörgu leyti frábært fyrirtæki og þar vinnur margt vel menntað og hæfileikaríkt fólk. En eins og mörg B hlutafyrirtæki sem stofnað er til í sérstökum tilgangi hefur það öðlast sjálfstæðan vilja og orðið ríki í ríkinu.
Með góðri aðstoð stóriðjusinnaðra þingmanna og ráðherra hefur Landsvirkjun á síðustu árum staðið í hörðu áróðursstríði við almenning sem hefur viljað að ríkara tillit sé tekið til náttúrunnar við áætlanir um virkjanir. Landsvirkjun hefur ausið óhróðri yfir fólk sem hefur bent á að erlendis sé öðru vísi farið að hlutunum og verðmætri náttúru ekki fórnað án þess að t.d. farið hafi fram vandað kostnaðar-hagkvæmnimat og heildaráhrif framkvæmda metin saman.
Í samvinnu við formann Framsóknarflokksins og fjármálaráðherra hnuplaði Landsvirkjun vatnsréttindum í Þjórsá nokkrum dögum fyrir kosningar í fyrra. Verknaðinum var haldið leyndum - enda þoldi hann ekki dagsins ljós. Þegar í ljós kom að strákarnir höfðu brotið lög með því að taka það sem var þjóðarinnar og Alþingis og færa það Landsvirkjun sögðu þeir "allt í plati!"
Fyrirtækið hefur núna í nokkur misseri farið jafnt með hótunum, blíðmælgi og mútum að landeigendum og sveitastjórnarmönnum við Þjórsá og hefur m.a.s. gengið svo langt að bjóðast til að malbika, veita neysluvatni og bæta fjarskipti í skiptum fyrir hagfellt aðalskipulag.
Forstjóri Landsvirkjunar vílar ekki fyrir sér að segja ósatt þegar hann segir virkjun Þjórsár vera forsendu fyrir netþjónabúi á Vellinum. Það er honum ekki til vegsauka, einkum þegar um svo augljóst skrök er að ræða en netþjónabúið þarf ekki nema um 40-50 MW í mörgum áföngum.
Reyndar skil ég ekkert í því af hverju Hitaveita Suðurnesja er ekki fengin til að skaffa þessu netþjónabúi rafmagn frekar en að leiða það eftir öllum Reykjanesskaganum og þræða allar helstu náttúruperlur skagans upp á rafmagnsvír.
Framkoma stjórnenda þessa magnaða fyrirtækis er þeim til skammar. Framkoma fjármálaráðherra og formanns Framsóknarflokksins í vatnsréttindamálinu er það líka. Skilningsleysi þeirra ráðamanna sem nú leyfa sér að tala um stóriðju sem afréttara eftir þenslufylleríið er þeim líka til vansa.
Skýrsla efnahags- og framfarastofnunarinnar var alveg skýr hvað þetta varðar. Engar stóriðjuframkvæmdir fyrr en efnahagslegum stöðugleika hefur verið náð! Þetta eru ekki flóknar ráðleggingar.
OECD sagði einnig að slíkar framkvæmdir hefðu ríka tilhneigingu til að kosta almenning meira þegar upp er staðið en sem nemur hagnaðinum. Þess vegna ætti aukinheldur ekki að fara í slíkar framkvæmdir fyrr en að undangengnu vandaðri og gagnsærri kostnaðar-hagkvæmnigreiningu þar sem allt væri tekið með í reikninginn, umhverfiskostnaður, hagrænn kostnaður og samfélagsáhrif.
Einmitt núna er umhverfisráðherra með kæru Landverndar í vinnslu um að öll áform vegna Helguvíkur verði metin í samhengi. Landráðamenn eru ekki hrifnir af því. Ég vona nú samt að skynsemin sigri.
![]() |
Fyrirvari um virkjunarleyfi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.3.2008 | 11:51
Á að fá sér afréttara í þynkunni?
Það mátti skilja það sem svo að forsætisráðherra teldi athugandi að ráðast í álversframkvæmdir til að blása í kulnandi glæður.
Fór skýrsla OECD um stöðugleika og stóriðjuframkvæmdir nokkuð framhjá forsætisráðherra? Skýrslan er alveg skýr - fresta ber öllum stóriðjuframkvæmdum þangað til stöðugleiki hefur náðst.
Vill forsætisráðherra fara þvert á ráðleggingar efnahags- og framfarastofnunarinnar? Telur fjármálaráðherra að það muni auka tiltrú umheimsins á íslensku efnahagslífi?
![]() |
Skuldir heimilanna aukast enn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.3.2008 | 11:01
Fullkomið ráðaleysi
Uppbygging leikskólaplássa í borginni mun varla halda í við fjölgun barna samkvæmt 3ja ára áætlun. Samt kallar borgarstjóri það að ráðast gegn biðlistastefnunni. Hvílík öfugmæli.
Í ræðu sinni sagði borgarstjóri:
Þannig hyggst nýr meirihluti taka upp greiðslur handa þeim foreldrum sem bíða eftir niðurgreiddum leikskólaplássum. Með þessum greiðslum er í raun brotið blað í þjónustu við foreldra með börn á leikskólaaldri í Reykjavík.
Þetta eru orð að sönnu. Hér er brotið blað og stórt skref stigið aftur í kvenfjandsamlegan hugmyndaheim Sjálfsstæðisflokksins frá því fyrir árið ´94 þar sem það var álitið prívat vandamál kvenna að álpast til að eignast börn.
Meirihlutinn segist ætla að útrýma biðlistum eftir leikskólaplássi með því að borga foreldrum fyrir að vera heima hjá börnunum sínum á meðan þeir bíða eftir leikskólaplássi. Hverfa biðlistarnir við það?
Borgarstjóri neitar því að þetta séu heimgreiðslur. Hann kallar það þjónustugjöld sem foreldrar eiga að kaupa sér dagvistunarþjónustu fyrir. Veit borgarstjóri ekkert af hverju biðlistarnir stafa? Veit hann ekki að það fæst ekki fólk til starfa á leikskólunum og í dagforeldrakerfið? Þekkja borgarstjóri, starfandi oddviti Sjálfstæðisflokksins og sexmenningarnir ekki lögmál framboðs og eftirspurnar? Hannesaræskan?
Mikið framboð er ávísun á lágt verð
Lítið framboð er ávísun á hátt verð
Nú er sögulega lítið framboð á fólki til starfa á leikskólum og í dagforeldrakerfinu - hvað eiga þessar greiðslur að vera háar? 13 þúsund fyrir skatt?
Með áætluninni "Konurnar heim" opinberar meirihlutinn fullkomið ráðaleysi sitt og gamaldags hugsunarhátt. Það er aftur á móti gleðilegt til þess að hugsa að mönnunarvandi í löggæslunni skuli ekki vera á þeirra höndum.
![]() |
„Konurnar heim“ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2008 | 22:33
Vilhjálmur Þ Vilhjálmsson baðst afsökunar á borgarstjórnarfundi
Á fundi borgarstjórnar, sem nú stendur yfir, bað ég Vilhjálm Þ Vilhjálmsson um skýringar á alvarlegum og algerlega tilhæfulausum rangfærslum hans um fjárreiður Hverfisráðs Grafarvogs í lok síðasta kjörtímabils - árið 2006.
Á fundi borgarstjórnar 5. febrúar sl. fóru fram umræður um íbúalýðræði og hverfaráðin en þá komu fram í máli Vilhjálms efasemdir um að hverfisráðunum væri treystandi fyrir styrkjafé. Orðrétt sagði borgarfulltrúinn:
Svo hefur verið mjög handahófskennt þegar hverfaráðin voru að úthluta öllu minni fjárhæð, hvernig þau fóru að því að gera það. Til dæmis í einu hverfaráði sem fór langt fram úr áætlun upp í Grafarvogi á sínum tíma, þá var úthlutað skyndilega 100 þúsund krónum til allra foreldraráða og ég held að skólarnir þarna séu átta ef ég man rétt. Þetta hverfaráð fór langt fram úr þeirri áætlun sem það hafði varðandi styrkjafé. Maður spyr sig hvernig gerðist það....
...Það sem ég var að gagnrýna hér áðan var að það væru ekki neinar reglur um það á hvern hátt hverfaráðin stæðu að þessum úthlutunum og ég gagnrýndi það að eitt hverfaráðið hefði farið verulega fram út áætlun. Ég get varla ímyndað mér að nokkur samþykki það, að það sé verið að keyra verulega fram úr áætlunum heimildalaust um mörg hundruð þúsund.
Þetta eru alvarlegar ásakanir og maður hefði haldið að reyndur borgarfulltrúi færi ekki með svona fleipur nema hafa eitthvað fyrir sér í þessu.
Á fundinum fékkst nú staðfest að Vilhjálmur hafði fengið upplýsingar um að við ársuppgjör Hverfisráðs Grafarvogs 2006 var ráðið bókhaldslega 135 þúsund í mínus en hefði hann athugað málið nánar hefði hann uppgötvað að ráðið átti ónýttar heimildir upp á nokkur hundruð þúsund af heimildum fyrra árs. Hverfisráð Grafarvogs átti því í raun talsvert ónotað fé í lok ársins.
Vilhjálmur sá ástæðu til að biðjast afsökunar á ummælum sínum og er maður að meiri. Hann er reyndar að verða býsna góður í því að biðjast afsökunar. Æfingin skapar meistarann.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.3.2008 | 22:43
Skortur á kvenhylli er rót byggðavandans
Á fundi Græna netsins á laugardagsmorgun flutti ég erindi þar sem ég velti fyrir mér hvort olíuhreinsistöð á Vestfjörðum væri rétta lausnin á byggðavandanum.
Á Íslandi eins og annars staðar í heiminum hefur þróunin verið sú að ungar konur flytja úr dreifbýli í þéttbýli. Það er augljóst að samfélag þar sem ungar konur vilja ekki búa á ekki framtíð fyrir sér.
Ungar konur til sjávar og sveita sjá sig oftast ekki fyrir sér í hefðbundnum störfum og flýja fábreytt tækifæri til atvinnu og menntunar. Það hefur verið skortur á skilningi á þessu hjá flestum sveitastjórnum en þar hafa karlar yfirleitt ráðið för og þeim hefur skiljanlega fyrst og fremst dottið í hug eitthvað sem körlum finnst vitrænt.
Á meðan eiginmenn, feður og afar hafa setið á viturlegum fundum um stofnun nógu stórrar verksmiðju til að allir bæjarbúar geti fengið þar örugga vinnu hafa eiginkonur og dætur pakkað ofan í töskur og flutt í þéttbýlið.
Þær hafa haslað sér völl í verslunar- og þjónustugeiranum sem hefur vaxið mest allra atvinnugreina undanfarna áratugi - og það án þess að sett væri á stofn risastór búð með ríkisábyrgð. Þær eru mun fjölmennari en karlar í skrifstofu- og sérfræðistörfum og langtum fleiri konur fara í háskólanám en karlar.
Mér er því mjög til efs að olíuhreinsunarstöð í Arnarfirði eða Dýrafirði verði til að auka kvenhylli Vestfjarða sem byggðarlags. Um háskóla gegndi öðru máli.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.3.2008 kl. 10:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (39)
1.3.2008 | 15:41
Gott gengi Samfylkingar
Samfylgingin nýtur hækkandi fylgis í skoðanakönnunum að undanförnu. Þetta er auðvitað ósköp notalegt og mun skemmtilegra en þegar fylgið er lágt - eins og var t.d. fyrir réttu ári. Eitthvað um 18% þegar það var lægst, ef ég man rétt.
Það er hins vegar ekki verið að kjósa núna svo þetta er svona álíka ánægja og þegar hlutabréf manns (ef einhver eru) hækka að verðgildi þegar maður er ekki að fara að selja. Það er gengið á söludegi sem skiptir máli.
Hækkandi fylgi gefur þó vísbendingar um að Samfylkingin sé á réttri leið með þau mál sem hún setti á oddinn í kosningum í fyrra. Það sést vel í aðgerðum ríkisstjórnarinnar gagnvart öldruðum og öryrkjum, gagnvart börnum auk þess sem nýr tónn hefur verið sleginn í byggðastefnu þar sem stórefling samgangna, menntunar og fjarskipta er grundvallarmál.
Neytenda- og samkeppnismál hafa líka verið áberandi og þar er greinilega verið að vinna gott starf auk þess sem viðskiptaráðherra er nú með mál í þinginu um að heimila fyrirtækjum að gera upp í erlendri mynt. Þetta er gríðarlega þýðingarmikið mál sem mun auðvelda og hvetja til erlendar fjárfestingar í íslenskum fyrirtækjum.
Umhverfis- og iðnaðarráðherra hafa í sameiningu slegið nýjan tón í iðnaðar- og virkjunarmálum, vinna við rammaáætlun um náttúruvernd og aðra nýtingu náttúrusvæða er komin á fullan skrið og Landsvirkjun hafa verið gefin skýr skilaboð um að nóg sé komið af raforkuframleiðslu fyrir álbræðslur.
Það er þó erfitt að kenna gömlum hundi að sitja eins og sást á frétt verðlaunablaðamannsins Kristjáns Más Unnarssonar en þar átti forstjóri LV metsprett og náði að telja þjóðinni (og blaðamanni?) trú um að það þyrfti að virkja Þjórsá til að 24 MW netþjónabú kæmist í rafmangssamband.
Stærsta spurningin í orku- og umhverfismálum núna er hvað nýr borgarstjórnarmeirihluti ætlar að gera varðandi Bitruvirkjun og orkuöflun fyrir hugsanlegt álver í Helguvík.
OECD tók í vikunni af allan vafa um ágæti framkvæmda í Helguvík - það væri glapræði, segir OWCD og fresta ætti eins og framast er unnt öllum stóriðjuframkvæmdum þar til búið er að ná stöðugleika í efnahagslífið. Þeir stjórnmálamenn sem hafa gert Helguvíkurálver að tilgangi og takmarki síns pólitíska starfs þurfa að endurskoða afstöðu sína ef þeir taka hagsmuni þjóðarinnar fram yfir innri baráttu um leiðtogasæti. Við slíka íhugun er gott að hafa í huga örlög sjálfstæðismanna í borginni.
Sem ber okkur aftur að gengi í skoðanakönnunum. Nýtt íslandsmet í vantrausti hlýtur að vera borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins þungbært. Vandræðagangur þeirra gengur svo langt að það gleður mann ekki vitund sem andstæðing í pólitík. Þvert á móti stendur maður sjálfan sig að því að finna til djúpstæðrar samúðar með Villa og sexmenningunum. Þó þau geti sjálfum sér um kennt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)