Liðið sundrað - höllin hrunin

XDSjálfstæðisflokkurinn í borginni er hruninn innan frá. Þetta var ljóst í haust og er í raun ekki skrýtið. Hópurinn samanstendur af hópi ungs fólks sem er mislangt komið í að gera upp Hannesaræsku sína og minnislausum pólitíkusi af gamla skólanum.

Það eina sem sameinaði þau í upphafi var takmarkið að vinna aftur borgina fyrir Flokkinn og Davíð.
Þegar búið var að krækja í völdin eftir aðra verstu útkomu flokksins í borgarstjórnarkosningum byrjuðu innanflokksátökin.

Baráttunni um leiðtogasætið hafði í raun aldrei lokið og ef eitthvað er hafa fleiri úr hópnum blandað sér í slaginn. Hvert um sig ákváðu þau að líta á kjörtímabilið sem eitt samfellt leiðtogaprófkjör. Gott ef meirihluti borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins gengur ekki með draum um borgarstjórastólinn í maganum.

Þetta eru ekki góðir útgangspunktar í pólitík. Fólk er ekki fífl og finnur það þegar kjarnann vantar, þegar drifkrafturinn er framagirnd og völd - hvort til að næra annað.

Nú situr Sjálfstæðisflokkurinn uppi með ósannindamann sem leiðtoga sinn í borginni. Í hópnum sem honum er ætlað að leiða er helmingurinn til í að heygja blóðuga baráttu um leiðtogasætið við hann eða hvert hinna á bak við tjöldin. Hinn helmingurinn hleypur um eins og höfuðlaust fiðurfé.

Læmingjaeðlið kemur í veg fyrir að þau lýsi yfir að leiðtogi þeirra sé ekki traustsins verður og þess vegna stríði það gegn sannfæringu þeirra að styðja hann. Að vísu má deila um hve þungt sannfæring þeirra vegur á þessum mæliskálum.

Með ákvörðun sinni um að sitja áfram er Vilhjálmur að sökkva flokki sínum enn dýpra í kviksyndið. Sauðtryggir kjósendur og harðir stuðningsmenn kveða nú hvarvetna upp sína dóma. Um þetta bera bloggfærslur dagsins skýrt vitni. Sjá t.d. hér og hér. Enginn mælir manninum bót. Það er gert grín að Vilhjálmi fyrir að skilja ekki hvað felst í hugtakinu að axla ábyrgð.

Forystumenn flokksins og borgarfulltrúarnir allir með tölu vita þetta vel. Þess vegna hafa þau falið sig fyrir fréttamönnum í þrjá daga. Þess vegna hættu þau við að funda í Valhöll um helgina og fengu þess í stað inni hjá Gunnari Birgis í Kópavogi. Þess vegna laumuðust þau út í gegnum kjallarann í Valhöll í dag. Skildu gamla karlinn eftir einan í húsinu.

Liðið er sundrað - höllin er hrunin. Og borgin stjórnlaus.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón H Finnbogason

Farið hefur fé betra.

Guðjón H Finnbogason, 12.2.2008 kl. 00:13

2 Smámynd: Áslaug Sigurjónsdóttir

Er að reyna að rifja upp hvernig var þegar Þórólfur var undir mikilli pressu frá sjálfstæðisflokknum að segja af sér, var það ekki Vilhjálmur sem var þar fremstur í fylkingu og fannst þetta olíumál óforskammað?  Er einhver sem man þetta tímabil, því ég sá mikið eftir Þórólfi á þessum tíma. 

Áslaug Sigurjónsdóttir, 12.2.2008 kl. 00:21

3 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Vilhjálmur er staðgengill Ólafs F.  það má ekki gleymast þeir gerðu gagnkvæman samning (annar fyrir hinn pg hinn fyrir annan, svona eins og Gög og Gokke).,  En grínlaust,   fór Vilhjálmur  ekki á Evrópufund  Borgarstjóra eða var það fundur Norrænna Borgarstjóra nú um daginn sem staðgengill  Ólafs F.  Borgarstjóra.   Svo hann mun væntanlega fá fleiri tækifæri  til að hlaupa í Borgarstjóraskarðið  hér og þar og þá getur hann aldeilis verið búinn  að klukka sér  inn  m.a. atkvæði og stuðning hingað og þangað með því að  sýna almenningi fram á  hvað hann sé nýr og breyttur maður með  "axlaábyrgð"  þegar  kemur að því að hann tekur formlega við Borgarstjóraembættinu eftir ár og einn mánuð  eins og hann tók skýrt fram í dag um leið og  hann sagðist ætla að vinna upp traust aftur.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 12.2.2008 kl. 01:42

4 Smámynd: Theódór Norðkvist

Borgarstjórar á Norðurlöndunum hljóta að hafa vitað að upplausnarástandið í Reykjavík væri ástæðan fyrir því að Vilhjálmur fór á fund norrænna borgarstjóra. Svona lagað fréttist fljótt.

Ekki er það gott til afspurnar fyrir Reykjavík eða Ísland að borgarstjóri geti ekki mætt á alþjóðlega fundi vegna stjórnarkreppu.

Theódór Norðkvist, 12.2.2008 kl. 07:38

5 Smámynd: Sævar Helgason

 Bakþankar Fréttablaðsins þ.12.02 fjalla um málið:

Þar er vitnað til staðfastar skoðunar Vilhjálms Þ. ,þar sem hann fjallar um mál Þórólfs Árnasonar borgarstjóra í tengslum við olíusamráðsmálið og segir :

,Það er mjög alvarlegt mál þegar stjórnmálamenn segja ekki satt og rétt frá. Ég get einfaldlega sagt það að ef ég væri staðinn að svona löguðu þá myndi ég segja af mér. Hann verður hins vegar að gera þetta þetta sjálfur upp við sína samvisku.”

Þetta hlýtur að vera Vilhjámi ofarlega í sinni nú þegar hann er lagstur undir feld og íhugar stöðu sína í borgarstjórn. 

Sævar Helgason, 12.2.2008 kl. 09:52

6 Smámynd: Bergljót Aðalsteinsdóttir

Hvers vegna ætli fréttamenn spyrji Vilhjálm aldrei út í Þórólfsmálið. Ætli þeir haldi að hann sé búinn að gleyma stóru orðunum sem féllu þá.

Bergljót Aðalsteinsdóttir, 12.2.2008 kl. 13:20

7 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Þið eruð bara svo ofboðslega fýld, þar r ekki lengur til og völdin með.

Grow up, þið eruð í minnihluta.  Þið ráðið ekki hvernig Vilhjálmur bregst við, hann er ekki í neinni klípu lögformlegri.

Muna, bíða og láta fara lítið fyrir sér, svo koma kosningar, þá meg emnn fara að rífast, --þangaðtil,,sorry

Villi Rúlar.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 12.2.2008 kl. 14:19

8 Smámynd: Elvar Atli Konráðsson

Skrýtið að þú ert alltaf að tala um að borgin sé stjórnlaus, samt sem áður starfaði fyrrverandi meirihluti í 100 daga án þess að geta komið sér saman um málefnasamning, það gerðist ekkert nema þið ætluðu að hækka fasteignagjöldin, þú talar aldrei neitt um það, skrýtið

Elvar Atli Konráðsson, 12.2.2008 kl. 14:32

9 Smámynd: Theódór Norðkvist

Það er sorglegt að sjá Bjarna Kjartansson, vel gefinn og kláran mann, verja svona glæpi. Ísland í dag fer að minna æ meira á Þýskaland nasismans.

Theódór Norðkvist, 12.2.2008 kl. 15:03

10 identicon

Já - hvers eigum við borgarbúar að gjalda?

Borgin var stefnulaus í 103 daga og hefur síðan verið stjórnlaus.

MAÐUR LÍTTU ÞÉR NÆR - Ábyrgðin er ykkar, stjórnmálamannanna.

Við kusum ykkur reyndar en annað var nú bara ekki í boði en þetta fimmtán manna lið sem búið er að skandalisera sitt á hvað í fjóra mánuði.

(ha....heyrði ég þig nokkuð tauta: "ekki benda á mig"? - gott!)

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 12.2.2008 kl. 16:49

11 Smámynd: Dofri Hermannsson

Af gefnu tilefni set ég inn færslu frá því 24 janúar sl. Sjá http://dofri.blog.is/blog/dofri/entry/423326/

Til upprifjunar

Hvað hefur gerst á 100 dögum?

Nokkur áherslumál meirihluta Samfylkingar, Vinstri grænna, F-lista og Framsóknarflokks, sett fram og unnin í samræmi við þau áhersluatriði sem komu fram í yfirgripsmikilli stefnuræðu meirihlutans, fluttri af borgarstjóra við framlagningu fjárhagsáætlunar 20.nóvember sl:

SÉRKENNSLA OG MENNTASÓKN. Stóraukin framlög til sérkennslu bæði á leikskólasviði og menntasviði. Nýjar áherslur náðu einnig til Velferðarsviðs með starfi inn á Þjónustumiðstöðvunum og um tímamótabreytingar á því hvernig fengist er við börn með félagslegar og tilfinningalegar raskanir. Ríflega 100 milljónir á báðum skólastigum í aukningu + samstarf við Velferðarsvið og ÍTR.

FORVARNIR. 100 milljóna forvarnarsjóður í hverfatengd verkefni á sviði forvarna felur líka í sér straumhvörf. Alls er um að ræða 300 milljón króna sjóð sem setur 100 milljónir á ári til þessara verkefna. Fyrri upphæð var 10 milljónir.

HÚSNÆÐISMÁL. Félagslegar áherslur okkar komu líka fram í því hvernig tekið var á húsnæðisvanda fólks. Ákveðið var að setja 270 milljónir  í ýmsar nauðsynlegar aðgerðir sem þarf að grípa til svo fólk hafi einfaldlega þak yfir höfuðið.

HVERFAUPPBYGGING/LÝÐRÆÐISÁTAK.  Ríflega milljarður var á  þessu ári tekinn frá til að byggja upp útivistarsvæði, hverfatorg, sparkvelli, stíga, götur og bekki í hverfunum, auk þess sem meira fjármagn (250 milljónir) fer í uppbyggingu skólalóða.

Meirihlutinn hefur stóreflt hverfaráðin, og verkefni hafið um skipulagt og víðtækt samráð við íbúa hverfanna í Reykjavík um það hvaða framkvæmdir þeir vilja helst setja á oddinn til þes að bæta nærumhverfi sitt.  Átakið ber yfirskriftina: 1,2 og Reykjavík.

UPPBYGGING MIÐBORGAR. Stóraukin áhersla á varðveislu gamalla húsa er þegar í farvatninu- Ziemsenhús, Gröndalshús, Norðurpóll og fleiri. Nýtt Lækjartorg er á teikniborðinu, ásamt Kvos og nýju Ingólfstorgi, þar sem gömlum húsum yrði gert hátt undir höfði. Listaháskóli í miðbænum er á hönnunarstigi og uppbygging á Barónsreit. Sýnileg löggæsla hefur jafnframt verið mikið áhersluatriði meirihlutans enda fátt sem bætir öryggið betur í miðbænum.

METNAÐARFULL MANNAUÐSSTEFNA. Á fyrsta starfsdegi var farið í starfsmannaðgerðir upp á 800 milljónir, sem hækkaði m.a. laun leikskólakennara umtalsvert. Í komandi kjarasamningum stóð til að leggja mikla áherslu á það að styrkja þjónustuna, við börn og aldraðra, til muna.
Vilji til að hækka laun kennara var skýr.

MANNRÉTTINDIN.  Mannréttindaskrifstofa var stofnuð, og til þess lagðar 85 milljónir. Skýr stefna var mörkuð um að Reykjavíkurborg yrði áfram í fararbroddi í jafnréttismálum.  Metnaðarfullur samningur við Alþjóðahús var á lokastigi.

UMHVERFI OG UMGENGNI. Mikil áhersla hafði verið lögð á hreinsun borgarinnar, ekki síst viðureignina við veggjakrot. Samstillt hreinsunarátak þar sem íbúar, borgin, fyrirtæki og félagasamtök í öllum hverfum voru virkjuð til þátttöku var áætlað á vormánuðum.
Einnig var í vinnslu að Reykjavík setti sér loftslags- og umhverfisstefnu á heimsmælikvarða. Skoðun á léttlestarkerfi, umhverfisvænum almenningssamgöngum og algerlega nýrri hugsun í stefnumörkun í samgöngumálum var næsta skref.

ALDRAÐIR.  Stóð til að fara  í mikið uppbyggingarátak í málefnum aldraðra í samvinnu við ríkið. Leggja átti til lóðir og nota fjármagn sem þegar er fyrir hendi til hjúkrunarrýma. Vinna við þetta var hafin og langt komin í samvinnu við félagsmálaráðherra. Stórátakið átti ekki síst að verða á húsnæðissviðinu, þar sem Velferðarsvið var farið í það af miklum krafti að fjölga búsetumöguleikum aldraðra.

SUNDABRAUT Í GÖNGUM. Þrýstingur um það mikla hagsmunamál höfuðborgarbúa og raunar landsins alls var farinn að skila árangri.

MIKLABRAUT Í STOKK. Þetta baráttumál íbúa í Hlíðunum var komið í ferli og teikningar lagðar á borðið.

NIÐURSTAÐA ALÞJÓÐLEGRAR samkeppni um skipulag í Vatnsmýri stendur til að kynna 14.febrúar. Hér erum að ræða gífurlega metnaðarfullt skipulagsverkefni og niðurstaðan og hvernig farið verður eftir henni, burtséð frá því hvert framtíðarstæði flugvallarins verður, hefur grundvallarþýðingu um þróun borgarinnar.

KVIKMYNDABORGIN REYKJAVÍK.  Vinna var farin af stað við það að gera Reykjavík að kjörborg fyrir kvikmyndagerðamenn að starfa í. Til stóð að mynda kvikmyndaþorp í Reykjavík, með alþjóðlegu kvikmyndaveri og stórefla kvikmyndahátíðina.

Hér er aðeins fátt eitt nefnt.  Vinna við yfirgripsmikla málefnaskrá, byggða á stefnuræðu meirihlutans frá 20.11 2007 var hafin og átti að klárast samhliða gerð þriggja ára áætlunar fyrir borgina í febrúar.

Vinnuferðir voru komnar á dagskrá, verklag ákveðið og efnisþættir höfðu verið lagðir fram.

Dofri Hermannsson, 12.2.2008 kl. 17:26

12 Smámynd: Óðinn Þórisson

þetta er ákvörðun vþv og hana ber að virða. ef oddviti flokksins ákveður að hverfa úr pólitík á kjörtímabilinu er enginn skortur á hæfileikaríku fólki til að taka við honum og leiða flokkinn.
ég er mjög sáttur við að tjarnarkvartettinn hefur ákveðið að dæma sig í minnihluta út kjörtímabilið.
ólafur er sáttur og ánægður í þessum nýja meirihluta sem mun láta verkin tala og með málefnasamning sem 100 daga meirihlutinn gat ekki gert.


aðalatriðið er að vinstrimenn verða ekki með völdin í reykjavík a.m.k ekki næstu rúm 2.árin.

Óðinn Þórisson, 12.2.2008 kl. 18:34

13 identicon

Eitthvað var sjálfsagt gert þessa 103 daga og ekki hélt ég því heldur fram. Þó það nú væri, því ekki voruð þið launalaus heldur, var það? – við borgarbúar vorum allavaga ekki útsvarslausir þann tíma.

Um stefnuskrá gátuð þið ekki komið ykkur saman, til að skrifa uppá. Það er óumdeilt.

Þegar einn flokkur stjórnar þarf ekki að búa til stefnuskrá. Hún liggur fyrir. Þegar fjórir flokkar, hver með sína stefnuna og áhersluna, ætla sér að stjórna er stefnuskrá ekki bara þörf, heldur nauðsyn. Það stjórnar engin af neinu viti án hennar og borgarbúar eiga heimtingu á að vita hvert á að stýra borginni. Þá virðingu sýnduð þið okkur ekki. Án stefnuskrár er borgin látin reka á reiðanum, sem þykir ekki góð stjórnkænska og það var það sem gert var.

Vel á minnst – jú, eina stefnu gátuð þið þó snögglega sameinast um; stórhækka fasteignaskatt! En það kunnið þið líka að gera, með bundið fyrir augun.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 12.2.2008 kl. 18:38

14 Smámynd: Theódór Norðkvist

Málefnaskráin hjá ÓV-félaginu var nú ekki pappírsins virði og til þess eins að slá ryki í augun á fólki. Tala um að flugvöllurinn verði áfram, það var hvort eð er alltaf ljóst! Af hverju sögðu þeir ekki að stefnan væri að himininn yrði áfram blár?

Theódór Norðkvist, 13.2.2008 kl. 11:28

15 identicon

Þú getur þó altént gagnrýnt hana af því að hún er til - eins og þú gerir með þessum skrifum. 

Það sem ekki er til er ekki hægt að gagnrýna - nema þá fyrir það að vera ekki til - eins og ég gerði með mínum skrifum!

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 13.2.2008 kl. 12:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband