5.2.2008 | 11:35
Gjaldþrotastefna Leiklistarráðs
Stefna Leiklistarráðs undanfarin ár hefur verið að styrkir til frjálsra leikhópa standi undir um 50% af kostnaði. Áður en þessi stefna var tekin upp vildi það brenna við að takmörkuðu fjármagni var dreift á of marga aðila með þeim hæpna árangri að enginn fékk nægilega mikið.
Dæmi voru um að leikhópar hreinlega skiluðu styrkjum sínum til baka. Því miður voru einnig mörg dæmi um að sviðslistarfólk gerði það ekki en lagði af stað í langferð með nesti til eins dags.
Nú virðist nýskipað Leiklistarráð hafa tekið upp þessa gömlu gjaldþrotastefnu. Ráðið dreifir nú styrkjum sínum á 13 aðila í stað 8 á síðasta ári og eðli máls samkvæmt eru styrkirnir mun lægri á hvern aðila.
Sérstaka athygli vekur að leikhús sem undanfarin ár hafa náð að skapa sér nafn og sess í hugum leikhúsgesta fá ekki nauðsynlegan styrk til að halda áfram starfsemi. Má þar nefna Vesturport, Möguleikhúsið, Stoppleikhópinn, Draumasmiðjuna og Kómedíuleikhúsið. Öll hafa þessi leikhús staðið fyrir gríðarlega verðmætu starfi undanfarin ár, hvert á sínu sviði.
Möguleikhúsið boðar lokun og engan skildi undra þótt hin leikhúsin gerðu slíkt hið sama. Þetta verður ekki tímabundin lokun heldur varanleg því eins og fólk getur ímyndað sér er ekki hægt að loka sjoppunni í eitt ár og mæta svo bara aftur þegar og ef Leiklistarráði dettur í hug að veita stuðningi sínum til hópsins.
Þessi uppvakna stefna Leiklistarráðs er því gjaldþrotastefna í mörgum skilningi. Í fyrsta lagi stóreykur hún líkur á fjárhagslegum hremmingum þeirra sem fá styrk hjá ráðinu og í öðru lagi boðar hún endalok merkilegrar og mikilvægrar leiklistarstarfsemi s.s. þeirra hópa sem hér hafa verið taldir upp. Starfsemi sem tekur langan tíma að byggja upp að nýju.
Ég þekki vel hve erfitt það getur verið að úthluta takmörkuðu fjármagni til stuðnings mörgum góðum verkefnum. Leiklistarráð er því ekki öfundsvert af verkefni sínu og skiljanlegt að það vilji láta sem flest verkefni njóta peninganna. Dæmið gengur hins vegar ekki upp. Ráðið verður að átta sig á því að það er betra að láta færri hafa nóg til að komast alla leið en að láta marga hafa peninga til að komast hálfa leið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.2.2008 | 10:48
"Lumar þú á vísu eftir Sigga í Krossanesi?"
Að þessu spyrja Skagfirðingar á skagafjordur.com en Sigurður Óskarsson í Krossanesi var kunnur hestamaður og hagyrðingur, lífsglaður og með húmorinn í lagi eins og Skagfirðingar eru frægir fyrir. Samkvæmt fréttinni er dóttursonur hans, Sigurður Þorsteinsson, núna að safna saman vísum eftir afa sinn og er stefnt að því að gefa safnið út á bók í haust.
Siggi í Krossanesi og Sveinbjörn Beinteinsson, allsherjargoði, ortust á. Einhvern tíma á vormánuðum þurfti Sveinbjörn að leggjast inn á spítala vegna aðgerðar á viðkvæmum stað. Eftir að búið var að gera að sárum hans mun hann hafa sent Sigga vini sínum þessa vísu:
Sjúkrahúspíunum seint mun ég gleyma
sárlega fór mig að langa í geim.
Þær tjóðruðu Grána í túninu heima
til að hann færi ekki í blettinn hjá þeim.
Siggi í Krossanesi sendi vini sínum þessi huggunarorð til baka:
Það hlýnar og fer að hlána
það hlakkar í mér og þér.
Úr túninu taka þær Grána
og teyma í blettinn hjá sér.
Eins og segir á vef Skagfirðinga átti Siggi fleiri strengi í hörpu sinni s.s. þessi ber vitni um:
Ég sef ekki seinnipart nætur
er sólin á himninum skín.
Guð ekki gleyma sér lætur
gleðina sendir til mín.
Í gullmolum hagyrðinga víða um land eru mikil verðmæti fólgin. Mörgum yfirsést þetta en það er mikil list að orða hnyttna eða ljóðræna hugsun þannig í fjórum stuttum línum með ljóðstöfum og rími að allt komist laglega til skila. Snjallar vísur eru þess vegna mikil verðmæti í sjálfu sér.
Ekki er síður verðmætt að vísurnar geyma oft lýsingar á atburðum og viðhorfum fólks sem lifði í öðru umhverfi en við flest lifum í dag. Stundum er það því eins að heyra góðar vísur og að fara í tímaferðalag og fá að horfa á lífið og tilveruna með augum skáldsins.
Sumarið 2006 gengum við nokkur Austurdal í Skagafirði undir leiðsögn kunnugra heimamanna. Víða var stoppað til að segja sögur af fornri byggð eða atburðum úr göngum. Fjölfróðir leiðsögumennirnir, sjálfir gangnamenn til margra ára, skreyttu sögur sínar með vísum eftir Sigurð Hansen, Bólu Hjálmar og aðra snjalla menn.
Skrambi gaman.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.2.2008 | 22:54
Erfitt fyrir stjórnmálamenn
![]() |
Starfsfólk hvatt til að taka farsímafrí |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.2.2008 | 23:17
Sannfæring eða fylgispekt
Þau urðu fræg ummæli Hönnu Birnu um Björn Inga þegar sexmenningarnir höfðu knésett Vilhjálm en snéru svo því innanbúðarvandamáli upp í frjálshyggjuprinsipp um áhættufjárfestingar: "Þetta verður allt í lagi ef hann lýtur einfaldalega niðurstöðu okkar Vilhjálms (og hendir sannfæringu sinni á haugana)."
Björn Ingi vildi ekki snuða Reykvíkinga um vöxtinn í REI til þess eins að Sjálfstæðismenn gætu lappað upp á ímynd sína. Honum var stillt upp við vegg og varð að velja á milli sannfæringar sinnar og þess að styðja meirihlutann. Allir muna hvernig það fór.
Ummæli Ólafs F. varðandi Gísla Martein og Vatnsmýrina minna óneitanlega á ummæli Hönnu Birnu. Spurningin en hvað Gísli Marteinn gerir í stöðunni. Það er augljóst að hann á ekki upp á pallborðið hjá forvígismönnum nýja meirihlutans.Hann er þriðji borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefði verið í öðru sæti ef hann hefði ekki tekið hraustlegan slag við Vilhjálm um leiðtogasætið, en samt er Kjartani og Júlíusi Vífli sem eru fyrir neðan hann raðað í stjórnarstöður hjá Faxaflóahöfnum og Orkuveitunni.
Gísli Marteinn, Hanna Birna og Þorbjörg Helga gerðu hið eina rétta þegar þau á sínum tíma sögðu hingað og ekki lengra við Vilhjálm í REI klúðrinu. Það voru hins vegar mistök af þeim að ganga ekki alla leið. Ýmsir segja að þau eigi sér ekki viðreisnar von innan Flokksins af því þau fóru gegn leiðtoga sínum. Ég held að það sé illa komið fyrir flokki sem hegnir ungu efnilegu fólki fyrir að reyna að koma vitinu fyrir misheppnaðan leiðtoga.
Ef þetta er rétt hefur Gísli Marteinn ekki miklu að tapa - nema sannfæringu sinni. Eins og fram hefur komið hafa kjósendur einstaklega lítið álit á nýja meirihlutanum og þeim sem að honum stóðu. Það er von. Ég spái því að eftirspurn eftir sannfæringu og sæmd muni vaxa hjá kjósendum fram að næstu kosningum.
Það er umhugsunarvert hvort einhver innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins muni búa svo vel vorið 2010 að eiga eitthvað slíkt í fórum sínum. Eða hvort Flokkurinn verður búinn að berja það allt úr þeim - með aðstoð Ólafs F.
2.2.2008 | 12:15
Hver er rúinn trausti?
Það er ekki hægt með réttu að segja að nýr borgarstjóri sé rúinn trausti. Þetta orðasamband á uppruna sinn í sauðfjárræktinni og vísar til þess þegar ær eru rúnar ull sinni. Að vera rúinn trausti merkir því að maður hafi tapað því trausti sem maður áður naut.
Núverandi borgarstjóri hafði, ásamt Margréti Sverrisdóttur, Guðrúnu Ásmundsdóttur og fleira góðu fólki traust 10% borgarbúa. Það að nú segist 16% ánægð með störf borgarstjórans er eiginlega stórt skref upp á við fyrir hann.
Borgarstjóraembættið hefur hins vegar beðið afhroð. Ekki síst ef borið er saman hve margir eru ánægðir með störf þess borgarstjóra sem Ólafur F svipti völdum, Dags B Eggertssonar. Eins og sjá má á myndinni hér til hægri voru 54% ánægð með störf hans sem borgarstjóra. Borgarstjóraembættið hefur því tapað fylgi sem nemur 38% borgarbúa.
Um Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórn má hins vegar segja með réttu að hann sé rúinn trausti. Það er flokkur sem þrátt fyrir allt naut umtalsverðs trausts borgarbúa í síðustu kosningum - þótt niðurstaða þeirra hafi reyndar verið sú önnur versta í sögu flokksins í borginni.
Eins og fram kemur í könnuninni nýtur Sjálfstæðisflokkurinn aðeins trausts 38% borgarbúa en fékk 42% í kosningum 2006. Það hlýtur að vera sárt - ekki síst af því hann er ævinlega ofmetinn í skoðanakönnunum.
Væri þessi skoðanakönnun niðurstaða kosninga væru Vinstri græn og Samfylking með 9 manna meirihluta og Sjálfstæðisflokkur með 6 borgarfulltrúa. Ef framhaldið á starfi nýs meirihluta verður eins og útlit er fyrir má Sjálfstæðisflokkurinn teljast heppinn að halda 6 borgarfulltrúum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
1.2.2008 | 16:18
GMB styður minnihlutann í Vatnsmýrarmálinu
Þá er það komið á hreint. Gísli Marteinn Baldursson styður ekki nýjan meirihluta í því að flugvöllurinn verði "áfram í Vatnsmýrinni um langa framtíð". Þvert á móti er hann sammála minnihlutanum um að hraða eigi uppbyggingu byggðar í Vatnsmýrinni.
Þetta hlýtur að vera reiðarslag fyrir Ólaf F Magnússon. Til að geta komið fram af fullkomnum heilindum við kjósendur sína 6.527 í flugvallarmálinu lét hann heilindi sín gagnvart fyrrverandi samstarfsfólki sínu víkja.
Nú lítur út fyrir að heilindi Ólafs gagnvart kjósendunum 6.527 séu í fullkomnu uppnámi af því Gísli Marteinn Baldursson núverandi samstarfsmaður Ólafs hefur greinilega ákveðið að koma fram af heilindum gagnvart kjósendum sínum og sannfæringu.
Þetta er snúin staða fyrir Ólaf F. borgarstjóra. Á hann að snupra GMB fyrir að gera lítið úr helsta stefnumáli nýs meirihluta og heilindum hans sjálfs gagnvart kjósendunum 6.527? Hefur hann vald til þess? Er hann ekki borgarstjórinn?
Ætti hann kannski frekar að reyna að leiða þetta hjá sér af því það er kannski ekki sniðugt sem borgarstjóri að standa svo vörð um stefnumál 10% kjósenda að það gangi alveg í berhögg við vilja 90% kjósenda?
Hvað gerir annálaður heilindapólitíkus í svona stöðu?
1.2.2008 | 10:57
"Ekkert rugl 27. maí - kjóstu F - listann"
Er kominn með BlackBerry síma og leiddist hvað allir hringitónarnir eru svipaðir og fór því að skoða hvað væri til af skemmtilegum hringingum á vodafone.is.
Rakst þar á hringitóna frá því í kosningabaráttunni í borginni 2006. Mæli sérstaklega með Ólafi F Magnússyni sem í hringitóninum segir kjósendum að kjósa nú ekkert rugl.
Það er gaman að rifja upp að sá sem þar biður kjósendur að forðast ruglið byrjaði meirihlutamyndun með Framsókn, Vg og Samfylkingu strax eftir kjördag en laumaðist svo í mat til Vilhjálms Þ, sat þar í nokkur dægur við meirihlutaviðræður áður en allt strandaði á flugvallarmálinu, kom 16 mánuðum síðar auga á tækifæri til að mynda nýjan meirihluta þegar þáverandi meirihluti strandaði á REI klúðrinu, óskaði eftir því að fá sæti forseta borgarstjórnar og fékk það en var 60 dögum síðar farinn að leggja á svikráð við félaga sína með Vilhjálmi Þ sem hafði svikið hann svo eftirminnilega! Hvað gerist næst?
Það verður nú að vera hægt að brosa af þessu. Vona að það sé ekki "í hæsta máta óviðeigandi"!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.1.2008 | 09:28
Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn og borgin
Hún er ánægjuleg fyrir Samfylkinguna könnunin í Fréttablaðinu í dag en fylgi hennar á landsvísu er nú 34,8% og hefur aukist um 5% frá því í lok september. Fylgi Sjálfstæðisflokksins dalar nokkuð, er 36,7% og hefur minnkað um 3,5% á landsvísu frá því í lok september. Samkvæmt könnuninni er ekki marktækur munur á fylgi þessara flokka. 68,5% styðja ríkisstjórnina.
Það er athyglisvert sem fram kemur í Fréttablaðinu að Sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað um 9% á höfuðborgarsvæðinu frá því í síðustu könnun í lok september. Var í 40,4% en hefur hrunið niður í 31.9%. Þetta hljóta að vera mikil vonbrigði fyrir þá af borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins sem stóðu að valdatökunni í Reykjavík nú í janúar.
Í þessu felast skýr skilaboð. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru miður sín yfir framgöngu flokksins við hina nýafstöðnu valdatöku. Lái þeim hver sem vill. Ólíkt borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins skeyta kjósendur hans um skömm og heiður og er ekki sama hvaða meðulum er beitt til að komast til valda. Taka jafnvel sæmd fram yfir völd ef bara annað er í boði.
Þá er ekki ólíklegt að þeim þyki verðmiðinn hár fyrir lítt eftirsóknarverða pólitíska endurlífgun Vilhjálms Þ Vilhjálmssonar og raunalegt að 6 menningarnir svokölluðu skyldu ekki nýta afganginn af kjörtímabilinu til að klára leiðtogabaráttu sína, byggja aftur upp traust á sér sem samstilltum hóp og kasta rekunum yfir gamaldags spillingarpólitík.
Af þessu verður greinilega ekki, 6 menningarnir sem nú munu aðeins vera 5, fengu að vita af byltingu Baldurs og Konna með rétt nógum fyrirvara til að komast í sparifötin og skutlast upp á Kjarvalsstaði. Þar hafa þau fyrst fengið að vita að 10% maðurinn (6.527 atkvæði) yrði borgarstjóri, að baráttumálum þeirra hefði verið ýtt út í horn og svo korteri fyrir útsendingu að 10% maðurinn hefði ekki stuðning 1. og 2. varamanns síns. Þetta má lesa úr viðtölum við forsprakka valdatökunnar en ekki síður úr jarðarfararsvip 5 menninganna.
Samkvæmt könnun Fréttablaðsins er flestum kjósendum Sjálfstæðisflokksins í borginni eins innanbrjósts sem kemur heim og saman við það að ég hef ekki enn hitt einn einasta sjálfstæðismann utan veggja ráðhússins sem er ánægður með nýja meirihlutann. Og fáa innan sömu veggja - ef út í það er farið.
Sjálfstæðisflokkurinn virðist hafa sett sjálfan sig í 2. sæti í borginni til langrar framtíðar. Í mörgum skilningi.
![]() |
Fylgi Samfylkingar eykst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
30.1.2008 | 10:12
Er meirihluti fyrir tengingu Hallsvegar við Vesturlandsveg?
Það verður spennandi að fylgjast með áherslum nýs meirihluta í samgöngumálum. Ekki síst hér í Grafarvogi en nýr meirihluti hefur dregið í land með jarðgöng sem fyrsta kost í 1. áfanga Sundabrautar. Með því er í raun verið að gefa Grafarvogsbúum langt nef og opna aftur á möguleikann um svokallaða innri leið sem hörð andstaða er gegn.
Þá verður spennandi að fylgjast með því hvernig nýr meirihluti tekur á tengingu Hallsvegar við Vesturlandsveg. Gegn þeirri tengingu og Hallsvegi sem hraðbraut í gegnum hverfið hafa íbúar í Grafarvogi barist hart undanfarin ár. Þeir hafa bent á að verði Hallsvegur tengdur Vesturlandsvegi áður en Sundabraut hefur verið byggð alla leið muni það þýða stóraukna og þunga umferð í gegnum hverfið.
Að þessari tengingu var markvisst unnið af 1. meirihluta kjörtímabilsins og urðu um það snarpar umræður í Umhverfis- og samgönguráði. Samfylkingin lofaði fyrir kosningar 2006 að ekki yrði af þessu fyrr en Sundabraut hefði verið byggð alla leið, tók framkvæmdina út af fjárhagsáætlun og var með í undirbúningi samráðsferli við íbúa um lausn málsins. Þetta mætti harðri andstöðu fulltrúa Sjálfstæðisflokks í Umhverfis- og samgönguráði í tíð 2. meirihluta, einkum af hálfu fyrrverandi og núverandi formanni ráðsins, Gísla Marteini Baldurssyni.
Framvinda þessa máls hjá nýja meirihlutanum verður ekki síst áhugaverð þar sem Ásta Þorleifsdóttir stuðningskona nýs meirihluta hefur, líkt og undirritaður, beitt sér gegn þessari tengingu bæði í Umhverfis- og samgönguráði og Hverfisráði Grafarvogs.
Ekki verður af tengingu Hallsvegar við Vesturlandsveg nema með vilja Umhverfis- og samgönguráðs þar sem Ásta Þorleifsdóttir á sæti. Það er því ljóst að ekki er meirihluti í ráðinu fyrir þessari framkvæmd nema Ásta láti af sannfæringu sinni eða verði bolað burt úr ráðinu.
28.1.2008 | 11:20
AF STYRMI Í MANIPULY
Til er skemmtilegt spil sem heitir Monopoly þar sem sá sigrar sem eignast flestar götur, hús og eignir og nær með því yfirburðum gagnvart meðspilurum sínum. Í þessum leik gilda skýrar reglur, allir hafa sömu möguleika, fólk ræður sjálft hvort það tekur þátt og þegar leik er hætt standa allir upp jafn ríkir og þegar leikurinn hófst - því þetta er jú leikur.
Uppi í Hádegismóum situr ritstjóri sem í gegnum áratugina, allt frá því kalda stríðið stóð sem hæst, hefur þróað með sér áhugamál sem mætti kalla Manupuly. Þetta er leikur sem gengur út á að manipulera fólk, stjórnmálaflokka, samtök og atburðarás - að drottna yfir meðspilurum sínum.
Ólíkt fyrra spilinu ráða meðspilarar ritstjórans ekki hvort þeir eru með, í leiknum eru engar reglur, ritstjórinn hefur yfirburðastöðu sem stjórnandi fjölmiðils og innmúraður valdamannavinur og þegar leiknum er lokið standa þeir sem ritstjórinn dró inn í leikinn oftar en ekki níddir eftir.
Finnur Þór Vilhjálmsson lýsir þessu frá öðru sjónarhorni í ágætum pistli sínum, Styrmir býr til strámann. Ég hvet fólk til að lesa pistil Finns en þar notar hann þráð ritstjórans undanfarna daga til að skýra út spunafræði ritstjóra Morgunblaðsins.
Mér hefur lengi verið ljóst að hinn innmúraði ritstjóri er haldinn drottnunaráráttu á alvarlegu stigi og að hann skeytir hvorki um skömm né heiður, hvað þá eðlilegar siðareglur fjórða valdsins eða sanngirni í upplýstri umræðu. Líklega hefur hann aldrei beðið þess bætur að vera aðalplottari Sjálfstæðisflokksins á dögum kalda stríðsins og innmúraður vinur ónefnds aðaldrottnara í sama flokki til margra ára. Ef til vill hefur von hans um frama í stjórnmálum, sem strandaði margt fyrir löngu, einnig ýtt undir þörf ritstjórans til að deila og drottna á bak við tjöldin.
Við þessu er svo sem ekki margt hægt að gera, ekki er hægt að skrifa bloggfærslu eða grein í hvert skipti sem afstyrmislegt plott birtist í nafnlausum leiðurum eða Staksteinum Morgunblaðsins. Því í hvert sinn sem maður bölvar fitnar púkinn á fjósbitanum, svo vitnað sé í visku úr íslenskum þjóðsagnaarfi.
Það er hins vegar hægt að ákveða með sjálfum sér að nú nenni maður ekki að taka þátt í þessu lengur. Ef Árvakur, eigandi Morgunblaðsins, vill styðja svona ritstjóra til starfa þá vil ég ekki vera áskrifandi að Morgunblaðinu. Ég hef því sagt blaðinu upp. Ef áframhald verður á spunaleikjum í skjóli Árvakurs mun ég einnig íhuga að sniðganga þær vörur og þjónustu sem auglýst er í Morgunblaðinu.
Sjálfstæðisflokkurinn ætti einnig, að mínu mati, að íhuga það vandlega hvort klækjasýki ritstjórans er flokknum til framdráttar. Af öllum sólarmerkjum að dæma virðist þjóðin hafa fengið sig fullsadda af slíku.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)