Pólitík

Rétt eins og í fyrirtækjum, fjölskyldum og vinahópum er ekki sjálfgefið stemningin sé góð í stjórnmálaflokkum. Hún getur verið alla vega og það er ekki alltaf gott að segja af hverju hún er góð þegar hún er góð eða slæm þegar svo ber undir.

Það er hins vegar sterk fylgni á milli þess hvernig stjórnmálaflokkum gengur og hvernig stemningin er. Auðvitað segir kannski einhver, það er ekki gaman þegar gengur illa en auðvelt að brosa þegar gengur vel. Þetta er alveg rétt en þarna er líka spurning hvort kemur á undan eggið eða hænan.

Mín stutta reynsla í pólitík hefur sannað fyrir mér að það er stemningin sem kemur á undan. Síðasta ár var Samfylkingunni alls ekki alltaf auðvelt, fylgið mældist stundum lágt og pólitískir andstæðingar köstuðu staksteinum eins og þeir væru á kaupi við það. Og voru það líklega.
Þrátt fyrir þetta var stemningin innan flokksins gríðarlega góð, frambjóðendur stóðu þétt saman um málefni flokksins og gengu með rósir hús úr húsi. Og smám saman fór landið að rísa.

Undanfarin misseri hefur Framsóknarflokkurinn átt mjög undir högg að sækja. Eflaust kemur margt til s.s. óbilgjörn stóriðjustefna, hatrömm barátta gegn náttúruverndarfólki, kvótamál o.fl. Líklega er þó stærsta skýringin á fallandi gengi flokksins það hvernig hann hefur tekist á við minnkandi fylgi sitt. Í stað þess að ræða málefnalega stöðu flokksins er fingurinn hafinn hátt á loft og beint að persónum manna. Deilurnar hafa ekki verið afgreiddar innan hópsins heldur á opinberum vettvangi.

Svona persónulegar deilur fæla ekki bara kjósendur frá flokknum heldur líka fjölmargt gott fólk sem e.t.v. á hugmyndafræðilega samleið með flokknum en getur ekki hugsað sér að vinna með honum vegna þess vonda andrúmslofts sem þar ríkir.

Björn Ingi Hrafnsson var eini kjörni fulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjavík. Hann sigraði með yfirburðum í opnu prófkjöri og náði sæti í borgarstjórn þvert á allar spár og í miklum mótvindi því vorið 2006 var Framsókn síður en svo vinsælasti flokkur landsins. Viðbrögð keppinauta hans voru afar mismunandi, sumir fóru í óafturkræfa fýlu en aðrir undu niðurstöðunni og settu hagsmuni flokksins ofar sínum eigin.

Nú þegar hann hefur sagt sig frá borgarfulltrúastöðu sinni er e.t.v. ekki galið fyrir þá sem eftir eru í flokknum að velta því fyrir sér hvað þetta fjandsamlega andrúmsloft innan hefur fælt margt ungt hæfileikaríkt fólk úr flokksstarfinu. Og hvað ætli margt ungt fólk til viðbótar hafi hætt við að kynna sér flokksstarfið vegna þess hávaðarifrildis sem þaðan heyrist sífellt ómurinn af? Hver vill heimsækja fjölskyldu sem er alltaf að rífast?

Sjálfstæðisflokkurinn hefur að tekist á við þennan vanda á allt annan hátt. Hann þegir einfaldlega um hlutina og gildir þá einu hvort um er að ræða menn eða málefni. Þar hafa menn undanfarinn einn og hálfan áratug vanið sig á að tala ekki nema eftir bendingum forystunnar. Þegar einhverjum verður á að bregða út af þeirri reglu t.d. með því að gagnrýna trúnaðarbrest eða óboðleg vinnubrögð forystumanna er þeim sama/sömu hegnt harðlega fyrir uppátækið og látin éta allt ofan í sig. Það skal enginn segja að á því heimili sér verið að rífast!

Svona menning hvetur ekki heldur ungt hæfileikafólk til að láta að sér kveða. Ef hinir ungu mega ekki koma fram með réttmæta gagnrýni á þá eldri hvernig á þá flokkurinn að koma í veg fyrir stöðnun?

En af hverju er ég að velta þessu fyrir mér? Er ekki bara gott fyrir Samfylkinguna að Framsókn lognist útaf vegna innbyrðis deilna? Er ekki ágætt að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins elti leiðtoga sinn um villi-götur týndra minnisblaða og stefnumála?

Kannski, en þetta gerir pólitíkina leiðinlega. Hún fer að snúast um persónuníð og flokkshollustu frekar en frjálsa og opna umræðu um málefnin. Um slóttugheit frekar en traust. Þegar svo er komið glata stjórnmálin og stjórnmálamenn tiltrú almennings. Það dregur líka stórlega úr ánægju kröftugra einstaklinga af því að taka þátt í að móta samfélagið. Sem er slæmt fyrir alla.

Ég óska Birni Inga velfarnaðar í störfum sínum og unga fólkinu í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins bjartrar framtíðar - með eða án Villa!


Til upprifjunar

Hvað hefur gerst á 100 dögum?

Nokkur áherslumál meirihluta Samfylkingar, Vinstri grænna, F-lista og Framsóknarflokks, sett fram og unnin í samræmi við þau áhersluatriði sem komu fram í yfirgripsmikilli stefnuræðu meirihlutans, fluttri af borgarstjóra við framlagningu fjárhagsáætlunar 20.nóvember sl:

SÉRKENNSLA OG MENNTASÓKN. Stóraukin framlög til sérkennslu bæði á leikskólasviði og menntasviði. Nýjar áherslur náðu einnig til Velferðarsviðs með starfi inn á Þjónustumiðstöðvunum og um tímamótabreytingar á því hvernig fengist er við börn með félagslegar og tilfinningalegar raskanir. Ríflega 100 milljónir á báðum skólastigum í aukningu + samstarf við Velferðarsvið og ÍTR.

FORVARNIR. 100 milljóna forvarnarsjóður í hverfatengd verkefni á sviði forvarna felur líka í sér straumhvörf. Alls er um að ræða 300 milljón króna sjóð sem setur 100 milljónir á ári til þessara verkefna. Fyrri upphæð var 10 milljónir.

HÚSNÆÐISMÁL. Félagslegar áherslur okkar komu líka fram í því hvernig tekið var á húsnæðisvanda fólks. Ákveðið var að setja 270 milljónir  í ýmsar nauðsynlegar aðgerðir sem þarf að grípa til svo fólk hafi einfaldlega þak yfir höfuðið.

HVERFAUPPBYGGING/LÝÐRÆÐISÁTAK.  Ríflega milljarður var á  þessu ári tekinn frá til að byggja upp útivistarsvæði, hverfatorg, sparkvelli, stíga, götur og bekki í hverfunum, auk þess sem meira fjármagn (250 milljónir) fer í uppbyggingu skólalóða.

Meirihlutinn hefur stóreflt hverfaráðin, og verkefni hafið um skipulagt og víðtækt samráð við íbúa hverfanna í Reykjavík um það hvaða framkvæmdir þeir vilja helst setja á oddinn til þes að bæta nærumhverfi sitt.  Átakið ber yfirskriftina: 1,2 og Reykjavík.

UPPBYGGING MIÐBORGAR. Stóraukin áhersla á varðveislu gamalla húsa er þegar í farvatninu- Ziemsenhús, Gröndalshús, Norðurpóll og fleiri. Nýtt Lækjartorg er á teikniborðinu, ásamt Kvos og nýju Ingólfstorgi, þar sem gömlum húsum yrði gert hátt undir höfði. Listaháskóli í miðbænum er á hönnunarstigi og uppbygging á Barónsreit. Sýnileg löggæsla hefur jafnframt verið mikið áhersluatriði meirihlutans enda fátt sem bætir öryggið betur í miðbænum.

METNAÐARFULL MANNAUÐSSTEFNA. Á fyrsta starfsdegi var farið í starfsmannaðgerðir upp á 800 milljónir, sem hækkaði m.a. laun leikskólakennara umtalsvert. Í komandi kjarasamningum stóð til að leggja mikla áherslu á það að styrkja þjónustuna, við börn og aldraðra, til muna.
Vilji til að hækka laun kennara var skýr.

MANNRÉTTINDIN.  Mannréttindaskrifstofa var stofnuð, og til þess lagðar 85 milljónir. Skýr stefna var mörkuð um að Reykjavíkurborg yrði áfram í fararbroddi í jafnréttismálum.  Metnaðarfullur samningur við Alþjóðahús var á lokastigi.

UMHVERFI OG UMGENGNI. Mikil áhersla hafði verið lögð á hreinsun borgarinnar, ekki síst viðureignina við veggjakrot. Samstillt hreinsunarátak þar sem íbúar, borgin, fyrirtæki og félagasamtök í öllum hverfum voru virkjuð til þátttöku var áætlað á vormánuðum.
Einnig var í vinnslu að Reykjavík setti sér loftslags- og umhverfisstefnu á heimsmælikvarða. Skoðun á léttlestarkerfi, umhverfisvænum almenningssamgöngum og algerlega nýrri hugsun í stefnumörkun í samgöngumálum var næsta skref.

ALDRAÐIR.  Stóð til að fara  í mikið uppbyggingarátak í málefnum aldraðra í samvinnu við ríkið. Leggja átti til lóðir og nota fjármagn sem þegar er fyrir hendi til hjúkrunarrýma. Vinna við þetta var hafin og langt komin í samvinnu við félagsmálaráðherra. Stórátakið átti ekki síst að verða á húsnæðissviðinu, þar sem Velferðarsvið var farið í það af miklum krafti að fjölga búsetumöguleikum aldraðra.

SUNDABRAUT Í GÖNGUM. Þrýstingur um það mikla hagsmunamál höfuðborgarbúa og raunar landsins alls var farinn að skila árangri.

MIKLABRAUT Í STOKK. Þetta baráttumál íbúa í Hlíðunum var komið í ferli og teikningar lagðar á borðið.

NIÐURSTAÐA ALÞJÓÐLEGRAR samkeppni um skipulag í Vatnsmýri stendur til að kynna 14.febrúar. Hér erum að ræða gífurlega metnaðarfullt skipulagsverkefni og niðurstaðan og hvernig farið verður eftir henni, burtséð frá því hvert framtíðarstæði flugvallarins verður, hefur grundvallarþýðingu um þróun borgarinnar.

KVIKMYNDABORGIN REYKJAVÍK.  Vinna var farin af stað við það að gera Reykjavík að kjörborg fyrir kvikmyndagerðamenn að starfa í. Til stóð að mynda kvikmyndaþorp í Reykjavík, með alþjóðlegu kvikmyndaveri og stórefla kvikmyndahátíðina.

Hér er aðeins fátt eitt nefnt.  Vinna við yfirgripsmikla málefnaskrá, byggða á stefnuræðu meirihlutans frá 20.11 2007 var hafin og átti að klárast samhliða gerð þriggja ára áætlunar fyrir borgina í febrúar.

Vinnuferðir voru komnar á dagskrá, verklag ákveðið og efnisþættir höfðu verið lagðir fram.


Úbbs, hann gerði það aftur!

nýr meirihlutiHún er býsna hávær þögn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um hinn svokallaða nýja meirihluta. Lái þeim hver sem vill. Í dag kom margt í ljós sem útskýrir jarðarfararsvipinn á þeim í útsendingunni frá Kjarvalsstöðum í gær. Öllum nema einum sem lyngdi aftur augunum og hugsaði um OR.

Aftur hefur Villi teymt borgarstjórnarflokkinn út í kviksyndi án þess að tala við sitt fólk og án þess að kynna sér málið nógu vel. Það var ekki fyrr en nokkrum mínútum fyrir beina útsendingu frá Kjarvalsstöðum að Ólafur F sagði Sjálfstæðismönnum að 1. og 2. varamenn hans styddu ekki nýja meirihlutann. Vilhjálmur gleymdi víst að spyrja hann. Rétt eins og hann gleymdi að lesa minnisblaðið fræga. Úbbs!

Hvað ætli þeim hinum finnist um það? Ætli þau óttist ekkert að Ólafi F geti orðið misdægurt? Ætli þeim finnist ekki óþægilegt að hafa ekki fengið að vera með í ráðum? Ætli þau séu ekkert fúl út í Villa fyrir að hafa gleymt að spyrja? Ætli þeim finnist það ekkert asnalegt?

Ætli Gísli Marteinn, Hanna Birna og Þorbjörg Helga hafi vitað af því fyrir útsendingu að Vilhjálmur væri búinn að semja um að flugvöllurinn yrði áfram í Vatnsmýrinni "um langa framtíð"? Þau vilja öll sjá Vatnsmýrina byggjast upp sem allra fyrst.
Ætli Villi hafi talað við þau áður en hann lofaði Ólafi, þessum eina kjörna fulltrúa F listans, borgarstjórastólnum? Hvað ætli þeim finnist um það? Hefur einhver spurt þau?

Ætli þau hafi vitað hvernig staðið var að málum? Að Ólafur var beittur blekkingum og talin trú um að það væri verið að loka samningum við Svandísi sem ekkert var hæft í. Ætli þeim finnist þægilegt að hefja meirihlutasamstarf við Ólaf byggt á blekkingum? Ætli þeim finnist það traust?

Eftir Rei klúðrið hjá Villa voru þau öll að vona að hann færi að draga sig í hlé til að það væri möguleiki að byggja aftur upp trú á Sjálfstæðiflokknum í borginni. Ljóst var á viðmælendum Kastljóss í kvöld að fáir treystu Ólafi til að vera borgarstjóri en varla nokkur maður treysti Villa.

Ætli samherjum hans hafi þótt skemmtilegt að heyra hann tilkynna það í kvöld að hann myndi leggja verk sín í dóm kjósenda í næstu kosningum? Ætli þeim finnist það auka hróður sinn í pólitík að starfa í þessum meirihluta til enda kjörtímabilsins og leggja svo sameiginleg verk þeirra allra í dóm kjósenda? Þeirra og Villa og Ólafs F? Og taka svo stefnuna á enn annað kjörtímabil með Villa?


mbl.is Mikil vonbrigði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reykvíkingum er nóg boðið

Ég fagna þessu framtaki og get ekki annað en tekið undir með þeim sem að því standa.

Ljóst er að Ólafur F Magnússon hafði ekki umboð 2. og 3. fulltrúa á F lista til að slíta samstarfi og mynda nýjan meirihluta með Vilhjálmi Þ Vilhjálmssyni. Þar sem þeir einir geta gegnt formennsku í ráðum sem eru borgarfulltrúar eða varaborgarfulltrúar hefur hann í raun útilokað F listann frá formennsku í ráðum borgarinnar.

Einnig virðist ljóst að Vilhjálmur hefur ekki sagt sexmenningunum frá umboðsleysi Ólafs F heldur hafi þau frétt af því í beinni útsendingu á Kjarvalsstöðum. Algerlega er útilokað annað en að Margrét taki sæti Ólafs F ef hann þarf frá að hverfa og meirihlutinn þá fallinn um leið.

Þá er ljóst að drýgstur hluti sexmenninganna vill flugvöllinn afdráttarlaust burt og stendur ekki að baki Vilhjálmi í yfirlýsingum hans og Ólafs F um að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýri. Nýr meirihluti er því ofurseldur sömu sundrungu innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna og áður en að auki bætist við sú ógn að þurfi Ólafur F að kalla til varamann er meirihlutinn fallinn.

Mér finnst mjög skiljanlegt að Reykvíkingum sé nóg boðið og vista því eftirfarandi skilaboð frá þeim hér fyrir neðan.

NÚ ER OKKUR NÓG BOÐIÐ!

Við undirrituð mótmælum þeim vinnubrögðum sem viðhöfð voru við myndun meirihluta Sjálfstæðisflokks og Ólafs F. Magnússonar. Við mótmælum borgarstjóra með 6527 atkvæði á bak við sig sem enginn veit hvort eru til komin vegna Frjálslynda flokksins, málefna hans eða kjörþokka Ólafs sem einstaklings. Hluti þessara atkvæða var augljóslega ætlaður Margréti Sverrisdóttur sem ekki styður nýjan meirihluta Ólafs F. Magnússonar og Sjálfstæðisflokks.

Við látum þetta ekki yfir okkur ganga hljóðalaust. GERUM ALLT SEM Í OKKAR VALDI STENDUR TIL AÐ SPYRNA VIÐ FÓTUM OG SÝNA Í VILJA OG VERKI AÐ ÞETTA VILJUM VIÐ EKKI! Til stendur að safna undirskriftum og afhenda nýjum meirihluta á opnum fundi Borgarstjórnar á fimmtudag.

Þar sem ekki er "Í BOÐI" að blása til nýrra kosninga er okkur ekki stætt á örðu en að sýna fram á hversu lítinn stuðning þessi meirihluti hefur og hversu lítinn stuðning þessi vinnubrögð hafa! Ef Ólafur vitnar í sín 6527 atkvæði skulum við gera slíkt hið sama - söfnum jafnmörgum undirskriftum!!!

Sendið áfram og skrifið undir, http://www.petitiononline.com/nogbodid/


Vantar hann ekki gaffla?

Erfitt að gera sér mat úr þessu með eintóma hnífa!


mbl.is Með mörg hnífasett í bakinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta var dálítið annað!

Áfram svona!
mbl.is EM: Stórsigur gegn Slóvakíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífseig Svíagrýla

Þetta byrjaði þokkalega en við náðum aldrei neinu flugi. Í byrjun síðari hálfleiks greip gamla grýluhræðslan um sig og spilið hrundi.

Þetta eru allt frábærir handboltamenn en liðið var ekki að gera sig. Hvar var leikgleðin? Hinn glaði sigurvilji?

Koma svo!!!


mbl.is Svíar sigruðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öngstræti

Krónan er í sjálfheldu peningamálastefnu Seðlabankans og spákaupmanna í alþjóðlegum gjaldeyrisviðskiptum. Inni í hagkerfinu eru um 800 milljarðar í erlendum lánum, stór hluti af því eru svokölluð krónubréf sem alþjóðlegir spákaupmenn gefa út til að græða á ofurvöxtum á Íslandi.

Útgáfa þessara krónubréfa hefur mun meiri áhrif á gengi krónunnar en t.d. 30% samdráttur í fiskveiðum og fram til þessa hefur gengið styrkst í hvert skipti sem gefin eru út fleiri krónubréf, við það hefur framboð á lánsfé aukist og að sama skapi viðskiptahalli og almenn neysla.

Þessu hefur fylgt gríðarleg hækkun á húsnæðisverði, nýir kaupendur þurfa að setja sig í miklar skuldir til að eignast húsnæði og margir þeirra sem áttu húsnæði fyrir hafa tekið gylliboðum bankanna um að taka lán út á aukið veðrými til að kaupa nýjan jeppa, fara til útlanda og kaupa sumarbústað.

Verðbólguna sem af þessu hefur hlotist reynir Seðlabankinn að lækna með sínu eina meðali - að hækka vexti.

Í hvert skipti sem Seðlabankinn hækkar vexti eykst vaxtamunur við útlönd og um leið hvatinn fyrir gjaldmiðlabraskara að gefa út fleiri krónubréf. Í hvert skipti sem ný krónubréf eru gefin út hækkar gengið, neysla eykst o.s.frv.

Nú eru menn farnir að óttast að lánakreppan sem byrjaði í Bandaríkjunum skelli á hér af fullum þunga, gjaldmiðilsbraskarar kippi að sér höndum í krónubréfunum og gengi krónunnar falli. Það gæti orðið talsvert fall og ef svo fer mun verðbólga aukast vegna hækkandi verðs á innfluttum vörum.

Þá er Seðlabankanum skylt að bregðast við með því eina ráði sem hann á tiltækt - að hækka vexti enn meira!

Öngstræti?


mbl.is Krónan kann að gefa eftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evran og alþjóðleg fyrirtæki

Áhugi Moggans á gömlum húsum er lofsverður og vert að þakka blaðinu fyrir metnaðarfulla umfjöllun þess um Laugarveg 4 og 6. Maður saknar þess hins vegar dálítið að Morgunblaðið skuli ekki hafa nokkurn minnsta áhuga á að fjalla um gjaldmiðilsmál.

Varla er hægt að finna um það nokkurn stafkrók í Morgunblaðinu að Seðlabanki Íslands hefur bannað Kaupþingi að gera upp reikninga sína í evrum. Þetta hefði ég haldið að væru stórtíðindi sem verðskulduðu vandaða umfjöllun um stöðu íslensku krónunnar og möguleikann á því að alþjóðleg stórfyrirtæki flýi land.

Fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins og núverandi ritstjóri 24 stunda helgar þessu máli leiðara sinn í dag þar sem hann segir meðal annars:

Það fer hins vegar ekkert á milli mála að sum sum innlendu fjármálafyrirtækin með Kaupþing og Straum-Burðarás í fararbroddi telja mjög mikilvægt að geta fært bókhald sitt í evrum og skráð hlutafé í sama gjaldmiðli.
Forsvarsmenn þessara fyrirtækja hafa lýst því yfir að krónan dugi þeim ekki. Þeir hafa hins vegar talið mikilvægt að geta farið þessa millileið; að starfa í raun í stórum alþjóðlegum gjaldmiðli þótt þeir hafi höfuðstöðvar sínar í landi, sem rekur minnsta sjálfstæða gjaldmiðil í heimi.
Með því að hafa þessa millileið hafa menn getað frestað því að hefja fyrir alvöru hina erfiðu umræðu um hvort skipta eigi um gjaldmiðil hér á landi og taka upp evruna. Umræða er ekki sízt erfið vegna þess að Ísland á ekki raunhæfan möguleika á að taka upp evru án þess að ganga í Evrópusambandið, með kostum þess og göllum.
Nú segir Seðlabankinn alveg skýrt við fjármálageirann: Millileiðin er ekki til. Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Ef fjármálafyrirtækin vilja hafa höfuðstöðvar sínar á Íslandi, nota þau íslenzku krónuna.
Í ljósi þess að fjármálafyrirtæki á borð við Kaupþing og Straum hafa þegar hafnað krónunni eiga þau varla nema tvo kosti; að færa höfuðstöðvar sínar annað eða þrýsta á um að Ísland gangi í ESB til að geta tekið upp evruna. Seðlabankinn hefur skýrt línurnar.

 Við blasir að þessi stóru og öflugu fyrirtæki forði sér úr minnsta gjaldmiðli í heimi, flytji heimilisfesti sína annað og borgi sína skatta og gjöld þar en ekki hér. Ætli hinn aldni ritstjóri Morgunblaðsins sé of upptekinn við að leika sér í pólitísku "Manipuly" til að gera jafn mikilvægum málefnum samtímans skil?


Vel heppnað kvöld á Víni og skel

Það á að láta vita af því sem vel er gert og í kvöld hef ég ástæðu til að hæla góðum veitingastað.

Í kvöld fórum við nokkur út að borða á Vín og skel á Laugaveginum. Staðurinn er notalegur, þjónustan fyrsta flokks, maturinn enn betri og fallega borinn á borð.

Við fengum okkur fjölbreytta forrétti og ljúffenga aðalrétti þar sem fiskur, humar, krabbi og skel voru í aðalhlutverkum. Sérvalið vín samkvæmt ráðleggingum hússins rann ljúflega niður með veitingunum og það gerði líka kaffið með desertnum. Allt á hóflegu verði.

Vel heppnað kvöld og óhætt að mæla bæði með matnum, stemningunni og þjónustunni hjá Kristjáni Nóa, eiganda staðarins.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband