10.1.2008 | 22:00
Umhugsunarvert
Á Íslandi teljum við okkur trú um að við séum að græða upp landið og láta gott af okkur leiða í umhverfismálum þegar við kaupum plastpoka af því pokasjóður styrkir ýmiss konar starf af því tagi.
Það er umhugsunarvert hvort ekki ætti að breyta þessu fyrirkomulagi eitthvað. Víða erlendis eru notaðir bréfpokar en svo hlýtur að mega nota poka úr maíssterkju eins og maður notar undir lífræna sorpið sem maður vill jarðgera. Það brotnar auðveldlega niður á nokkrum vikum í jarðgerðartunnu.
![]() |
Notkun plastpoka verði hætt á árinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.1.2008 | 18:37
Sameign íslensku þjóðarinnar!
Mannréttindanefndin viðurkennir að takmarka þurfi sókn í auðlindina. Það virðist hins vegar vega þungt í úrskurðinum að skv. lögum er auðlindin sameign þjóðarinnar en að með framsali aflaheimilda hafi það í rauninni breyst og auðlindin hafi með því verið færð úr almenningseigu í einkaeigu.
Það verður spennandi að sjá hvaða áhrif þetta hefur.
![]() |
Íslensk stjórnvöld breyti fiskveiðistjórnunarkerfinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.1.2008 | 12:15
Gott og slæmt
Þessi nýi bíll er tákn um þá þróun sem nú á sér stað. Í þróunarlöndum er þeim að fjölga sem hafa efni á að leyfa sér meiri munað. Það mun auka mengun talsvert sem er neikvætt.
Hins vegar er það jákvætt að fleiri jarðarbúar hafi það gott og öll nýsköpun sem beinist að því að þjóna þróunarlöndunum nýtist öðrum líka. Sameiginlegt átak ríkja heims í loftslagsmálum mun líka skapa tækifæri fyrir nýsköpun í hönnun mengunarfrírra ökutækja og orkugjafa.
Nú þarf Tata Group bara að finna umhverfisvæna leið til að knýja "bíl fólksins".
![]() |
Ódýrasti bíll í heimi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Bæjarstjórinn hvetur til bjartsýni og að menn hengi sig ekki á eina hugmynd og tali svo sjálfa sig og sveitunga sína niður í svartasta myrkur ef sú hugmynd verður ekki að veruleika.
Ég varaði við því strax í vor að umræðan mætti ekki þróast í þessa átt. Það má ekki stóla á olíuhreinsunarstöð og það ekki hægt því hún er enn mjög fjarlæg og mjög óvíst hvort nokkuð verði af byggingu hennar. Það hefur ekkert með framtíðarbyggð á Vestfjörðum að gera hvort olíuhreinsistöð verði byggð eða ekki.
"Svona eiga sýslumenn að vera" er stundum sagt og mér finnst það eiga við núna. Að ekki sé talað um bæjarstjóra. Gott mál! Ég er sannfærður um að Vestfirðir eiga bjartari framtíð fyrir höndum og það verður ekki olíuhreinsistöð að þakka.
8.1.2008 | 14:18
"Víst gerðum við gagn"
Hann er athyglisverður bæklingur Vilhjálms Þ og 6 menninganna í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna sem barst með 24 stundum í morgun.
Það sem virðist vera býsna flottur kosningabæklingur á undarlegum tíma er þegar nánar er að gáð eins konar örævisaga þessa borgarstjórnarflokks sem eftir 12 ára bið náði 16 mánaða spretti við stjórn borgarinnar. Þá sprakk allt vegna innri átaka og vantrausts 6 menninganna á leiðtoga sínum.
Mér fannst sjálfstæðismenn gera marga góða hluti á þessum tíma og finnst alveg sjálfsagt að þeir gefi út bækling til að auglýsa það. Hins vegar er ekki rétt með allt farið í þeim kafla sem ég las ofan í kjölinn, umhverfiskaflanum.
Þar segir t.d. að á þessum 16 mánuðum sé búið að
- hleypa Sundabraut af stokkunum með ákvörðun um að Sundagöng væru fyrsti kostur - það var gott hjá þeim að halda áfram baráttu Dags B Eggertssonar, núverandi borgarstjóra, fyrir Sundagöngum sem fyrsta kosti en það er nú dálítið langt seilst að segja að með því hafi sjálfstæðismenn hleypt Sundabraut af stokkunum
- aflétta banni við hundahaldi - ekki rétt en það er svo sem formsatriði sem ekki skiptir máli hvort maður fær undanþágu frá banni eða leyfi til að eiga hund
- finna lóð fyrir kaffihús í Hljómskálagarðinum - ekki rétt en það er búið að skipa starfshóp sem á að gera tillögur um endurhönnun Hljómskálagarðsins og hugmynd Samfylkingarinnar um kaffihús þar verður að sjálfsögðu útfærð nánar þar
Í þessum kafla er líka hælst um af því að hið virta umhverfistímarit Grist valdi Reykjavík sem grænustu borg í heimi og að Reykjavík var tilnefnd til verðlauna hjá EUROSITIES samtökunum fyrir verkefnið "Reykjavík í mótun"
Grist valdi Reykjavík hreinustu borg í heimi vegna tilrauna undanfarinna ára með vetnisstrætó, vegna umhverfisvænnar orku til húshitunar og verkefnið "Reykjavík í mótun" var alfarið unnið af R-listanum sem Gísli Marteinn Baldursson segir hafa látið umhverfismál afskiptalaus í 12 ár!
Þetta er óheppilegt fyrir Vilhjálm og 6 menninganna að freistast til að skreyta sig svona með laufblöðum fengnum "að láni" ef svo má segja. Það var líka alveg óþarfi, Gísli Marteinn má vera stoltur af mörgu sem formaður Umhverfisráðs. Óþarfi að vera með móral þó það liggi ekki fyrir langur listi yfir afrek hans eftir 16 mánuði - þetta var svo stuttur tími.
Stærsta framlag Gísla Marteins til umhverfismála í borginni var hins vegar að snúa borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins frá hatrammri baráttu fyrir réttindum einkabílsins á kostnað almenningssamgangna, hjólandi og gangandi umferðar. Ég vona að það hafi ekki bara verið tækifærismennska og að nú taki gamla steinsteypugráa Sjálfstæðisorðræðan aftur við.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.1.2008 | 11:52
Heiður veiðimannsins
Ég hef stundum veitt gæs og önd í matinn. Hef líka gengið til rjúpna þangað til þeim fór að fækka. Fannst skylda mín að friða frekar minn skerf af jólarjúpum og leggja þannig mitt til málanna svo stofninn gæti jafnað sig.
Mér hefur alltaf fundist að fólk í skotveiði, rétt eins og laxveiði, eigi að láta sér annt um veiðimannsheiður sinn. Í því finnst mér felast að bera virðingu, bæði fyrir dýrinu sem er verið að veiða, stofninum og náttúrunni almennt.
Mér finnst þessi veiðisaga ekki til þess fallin að auka hróður veiðimannsins. Að skjóta dýr fimm riffilskotum til að sálga því er ekki veiðimennska sem maður hælir sér af. Og ekki hefur hún skemmtigildi.
Það hafði hins vegar sagan sem rússneskur ballettdansari sagði mér eitt sinn af vini sínum. Sá fór út í skóg að veiða bjarndýr sem sést hafði á svæðinu. Hann settist upp í tré á líklegum stað og beið eftir að sjá dýrið. Ekkert gerðist þar til eldri konu bar að á hjóli sínu. Sú hjólaði eftir skógarstíg sem lá framhjá trénu en þegar hún var komin í hvarf heyrði veiðimaðurinn óp konunnar.
Hann hraðaði sér niður úr trénu en þegar hann var kominn niður sá hann að það var tímabært að hraða sér upp í það aftur. Við honum blasti undarleg sjón. Niður skógarstíginn kom bjarndýrið á hjóli gömlu konunnar! Það fylgdi sögunni að bjarndýrið hefði sloppið frá farandsirkusi og að hvorki gömlu konunni, veiðimanninum eða bjarndýrinu hefði ekki orðið meint af.
![]() |
Veiddu tvo risavísunda í Minnesota |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.1.2008 | 11:43
Björgvin á góðri siglingu
Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með viðskiptaráðherra taka til í neytendamálunum. Hann er á mikilli siglingu og það verður spennandi að sjá hvað fylgir í kjölfar þessara tilmæla ráðherrans.
Manni finnast þessi seðilgjöld, sem innheimt eru jafnvel þótt greitt sé rafrænt, býsna ósvífinn aukakostnaður. Að ekki sé minnst á FIT kostnaðinn svokallaða sem aldrei hefur verið sýnt fram á hvernig er myndaður. Það er ástæða til að hvetja alla sem eru að fá sér debetreikning til að biðja um sundurliðaða skýringu á FIT kostnaði áður en skrifað er undir samning.
Ég vona svo að við sjáum ráðherrann taka meira til í samkeppnismálum á milli bankanna en það er grátlegt að horfa upp á það hvernig bankarnir hafa að undanförnu verið að taka gjörsamlega óskylda starfsemi eins og sjúkdóma- og líftryggingar inn í þjónustu sína.
Ástæða þess að ég er eindregið á móti því að blanda þessu tvennu saman er að fólk ætti að taka hagstæðustu líf- og sjúkdómatryggingarnar þar sem þær bjóðast en ekki taka verri kost þar af því þá lofar bankinn lægri yfirdráttar- eða íbúðarlánavöxtum.
Það getur auðveldlega komið upp sú staða að eftir veikindi af einhverju tagi sé erfiðara að fá sér hagstæða sjúkdóma- eða líftryggingu á nýjum stað. Fólk getur því hæglega lent í því að vilja skipta um banka en geta það ekki af því það er fast með sjúkdómatryggingu hjá gamla bankanum.
Eins er með íbúðarlánin sem bankar hóta að gjaldfella eða hækka vextina á ef íbúðareigandinn hættir hjá bankanum. Þetta takmarkar samkeppnina. Eins hafa uppgreiðslugjöld líka verið mikill dragbítur á raunverulega samkeppni bankanna.
![]() |
Seðilgjöld heyri sögunni til |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.1.2008 | 22:51
Hættir huldufólks
Rakst á þetta á netinu og fannst það einstaklega viðeigandi. Þykist vita að Jónas Árnason væri því ekki mótfallinn að ég birti þennan fróðleik hér á blogginu. Vona að huldufólk bregðist ekki ókvæða við!
HÆTTIR HULDUFÓLKS (Jón Árnason)
Frá uppruna, híbýlum, háttalagi og sammökum þessa álfakyns við menn er svo snoturlega sagt og undireins svo samkvæmt hjátrú þeirri er hér vestra loðir ennþá við meðal gamals fólks að ég leyfi mér að vísa um téð efni til kirkjusögu Finns biskups Jónssonar. Þó vil ég bæta þar við nokkrum athugasemdum:
Valdstjórn þess og kirkjusiðir eiga að vera áþekkir því er hér tíðkaðist um næstliðnar aldir, og víða er tilgreint hvar kirkjur þess séu; þykjast menn hafa komið að kirkjudyrum og heyrt grallarasönginn gamla og predikanir því samboðnar.
Kauptorg á það; eitt þeirra er tilgreint að sé hér um sveitir, hamar mikill Snasi nefndur sem liggur í sjó fram á nesi því er liggur milli Berufjarðar og Króksfjarðar í Reykhólasveit. Þó kvað ei vera trútt um að það fari í sölubúðir kaupmanna vorra og hirði þar það er því þykir eigulegt.
Ekki hefi ég heyrt getið með jafnaði annars fénaðar hjá því en hesta og kúa; sérílagi kvað þær vera merkis mjólkurskepnur og eftir því kostgóðar. Hafa þær komið í eigur manna með því að þær hafa við eitthvört tækifæri verið blóðgaðar af mennskum mönnum því þá vill huldufólkið þær ekki.
Gjarnt er það á að taka ungbörn óskírð, en láta í staðinn afgamlar kallhrotur í ungbarnslíki er nefnast umskiptingar. Þess vegna má aldrei yfirgefa börnin og allra síst nema krossuð. En til að fá komið huldufólki til að skipta um aftur er eina ráðið að flengja barnið vægðarlaust.
Þar hjá er því títt að heilla unglinga. Elta þeir það og sýnist það vera mæður sínar eða fóstrur, inn í hamra, upp á fjöll og svo framvegis, og finnast þeir þar hálftruflaðir. Eru þessa mörg dæmi.
Ekki eru heldur færri sögur af því að álfakonur hafi sést þar og þar eða álfamenn, að strokkhljóð, lyklahringl og fleira hafi heyrst, ljós hafi sést o.s.fr. í hömrum og klettum, og þetta á að vera sá óyggjandi sannleiki staðfestur af mörgum sjónar- og heyrnarvitnum að valla er nema til verra eins að hrinda hegóma þessum með skynsamlegum ástæðum.
Maður á þá að gjöra svo marga heiðvirða menn og ráðsvinna, forfeður sína og ættingja að lygi- og minni mönnum. Maður á að efast um almætti skaparans og vísdóm, sem, eftir orðatiltæki gömlu klerkanna er þeir höfðu brúkað við þvílík tækifæri, á svo margt í búrinu sínu blessaður.
Og þegar nú til jarteikna eru dauðu hlutirnir - sem ljúga ekki - kistlarnir, klútarnir, hringirnir, lyklasylgjurnar, reifalindarnir, kaleikarnir með svarta blettinn í botninum, klæðisfötin grænu og kessufötin rauðu - er hún amma mín sá hjá henni langömmu sinni eða hjá prestkonunni, eða sem hún móður mín heyrði hana ömmu sína segja frá að hún fóstra hennar hefði séð örmulinn eftir af - þá má sá heita með öllu trúarleysingi er neitar slíku.
Þá kvað húsakynnin ekki vera ósnotur innan; hafa yfirsetukonur komið þangað því svo kvað stundum til bera að ekki fái huldufólk fætt nema mennskir fari höndum um það. Þá er huldufólkið líka dálítið upp á heiminn sem menn kalla; að því varð honum Álfa-Árna og fleirum. Hið versta er að flest mök við álfa hafa illan enda.
Engir nema skyggnir sjá álfa nema þegar þeir sjálfir vilja einhvörra sérlegra orsaka vegna, en að vera skyggn kemur af því að skírnarvatnið rennur ekki í augu barnsins þegar það er skírt.
Fardagar þess eru á gamlaársnótt; þá gengu lestaferðirnar, þá tóku húsfreyjur frá ket og krásadiska handa því og stundum gengu þær í hóla með þá þegar þær áttu þar vinkonur.
Þá gengu þær líka kringum bæi sína með þessum ummælum: "Komi þeir sem koma vilja, fari þeir sem fara vilja, mér og mínum að skaðlausu."
Þá átti að liggja á krossgötunum og horfa í egg á hárbeittri exi og mæla ekki orð hvað sem við mann var mælt, því svaraði maður varð hann vitlaus, en haldi maður þögnina út verður hann hinn margfróðasti.
Að álfasjónir eru orðnar svo fágætar nú um stundir leiðir af því að síðan uppfræðingin vóx kvað þeir hafa flutt sig til Finnmerkur.
Að rita allar þær álfasögur sem til eru og menn gætu til tínt væri bæði óþarfi og óvinnanda verk því mér er til efs að bók sú yrði orðfærri en ritningin sjálf. Fáeinum sögukornum vil eg þó hnýta hér aftan við.
Iðuglegastar gengu sögur um huldufólk sem menn þóktust oft sjá færa lestar á kaupstaðaferðum á sumrum, fara með líkfylgdir og ekkjupersónan aftast; syngja sálma og byrja á endir, en syngja svo fram eftir; valda því að sköku- eða strokkahljóð heyrðist í hólum og klettum; bera ljós frá einum stað til annars; ókunnir drengir og menn hjálpa mennskum til smalamennsku, þó ekki tala orð og hverfa þegar að skyldi gætt eða hlé fékkst á önnum.
Jái, ömmur mæðra þeirra er nú lifa kváðust hafa setið yfir huldufólkskonum á fæðingatímum þeirra, enda látið mjólk á hvorju kvöldi í könnur sem ósýnilega kæmu þá í vissan stað og hvarf svo jafnótt. En auk annars hamingjuauka sem þessi viðkynning átti að valda þurfi þessar búkonur ekki í snjóbyljum að hafa meir fyrir að ná kúneytum þegar kýr þeirra riðu en leiða þær út í fjúkið, en vanatímatali þar frá ól kýrin kálf rófulausan.
Þetta huldufólk átti líka oft að hafa gefið svöngum mat sem varð að etast upp; en væri nokkru leift eða maturinn ekki þáður átti það að valda ófarsæld. Eins og þá síra Einar í Eydölum hafi verið drengur, kvaðst að hann hafi viljað fara með vinnumanni þar sem hvorfið hafi á hvorjum jólum og hafi þeir farið þangað sem fyrir þeim var hóll eða þeim sýndist bær hvar allt var ásjálegt og þar tveir kvenmenn, önnur samt aldurlegri, og hjá henni átti vinnumaðurinn að hafa háttað, en drengurinn vildi ekki sænga hjá hinni. Þá áttu þær að hafa reiðst, en af vináttu vinnumanns við eldri konuna mátti drengur velja um tvenn hamingjuókjör: búólán eða barnaólán, en hann átti heldur að hafa kjörið búólán.
En að upprunafræði þessa fólks hefur ekki verið hægt að fá rök því mjög fáir af alþýðu hafa komist svo langt í því sem Gyðingar á 17. öld. Sjá: Basth. Judiska sögu.
Margar sagnagreinir þessu líkar gengu fram að þessum tímum sem innrættust unglingum, so sem krankleikar, limlestingar og gæfutjón þeirra sem ruglað hafi nokkru við kletta og hóla.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.1.2008 kl. 09:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.1.2008 | 11:21
Reiður og rökþrota bæjarstjóri
Sannleikanum er hver sárreiðastur, það sannast á grein Ragnars Jörundssonar bæjarstjóra Vesturbyggðar sem hann birti á fimmtudag í 24 stundum, á bloggsíðu sinni og á vef BB. Ekki er gott að átta sig á því hvort hann varð fyrst rökþrota og svo reiður eða öfugt en hitt er víst að þetta tvennt fer oft saman. Ekki dettur mér í hug að svara ávirðingum Ragnars í sömu mynt en fer frekar að ráðum ömmu minnar heitinnar fyrir vestan sem sagði að maður ætti ævinlega að vera kurteis, ekki síst við dónalegt fólk.
Viðkvæmar tær
Með bloggfærslu, byggðri á gamansögu um huldumenn Ólafs Egilssonar áhugamanns um olíuhreinsistöð, virðist ég hafa stigið með kvalarfullum hætti á viðkvæmar tær bæjarstjórans. Einkum virðist hann viðkvæmur fyrir þeirri spurningu hvort hinir meintu sterku bakhjarlar Ólafs geti ekki borgað sjálfir þær rannsóknir sem Ólafur pantar sbr. ummæli framkvæmdastjóra Fjórðungssambands Vestfirðinga í fréttum Rúv 13. desember sl.
"Skýrslurnar eru náttúrulega skrifaðar líka að beiðni Íslenska hátækniiðnaðar sem að hefur óskað eftir að kanna aðstæður fyrir olíuhreinsunarstöð og þeir hafa fengið þessi gögn afhent núna."
Það er gilt sjónarmið út af fyrir sig að nota skuli fé Fjórðungssambandsins til að kosta forathuganir fyrir framkvæmdaraðila. Hitt er undarlegra að vera í einni og sömu greininni fylgjandi því og neita að það hafi verið gert.
Á móti framförum
Bæjarstjórinn beitir alkunnri röksnilld þegar hann veltir fyrir sér hvort ég sé ekki einfaldlega á móti Vestfirðingum og framförum á Vestfjörðum almennt því ég gagnrýni hugmyndir hans um olíuhreinsistöð, hafi gagnrýnt veglagningu um Teigsskóg og örugglega verið á móti Gilsfjarðarbrúnni. Það er gaman að hann skyldi nefna Gilsfjarðarbrúnna því hún er ágætt dæmi um það hvernig ráðamenn geta snuðað samfélagið með því bregðast ókvæða við málefnalegri gagnrýni. Hægt var að leggja Gilsfjarðarbrú innar, halda eðlilegum vatnaskiptum í firðinum og leggja góðan uppbyggðan veg yfir í Kollafjörð fyrir svipaða fjárhæð og brúin kostaði. Með því hefðu ekki aðeins búsvæði Reykhóla og Búðardals tengst heldur líka Hólmavíkur en um 45 km eru til hvers þessara bæja frá Gilsfjarðarbotni. Varla held ég að félagar Ragnars í Fjórðungssambandi Vestfirðinga Hólmavíkurmegin telji mig vera á móti sér þótt ég segi þetta - enda skynsamir rólyndismenn.
Misgóðar hugmyndir
Staðreyndin er sú að olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum er vond hugmynd fyrir flesta nema hina meintu bakhjarla Íslensks hátækniiðnaðar. Í fyrsta lagi breytir risaverksmiðja ekki þeirri þróun að ungt fólk, sér í lagi konur, sækja í fjölbreyttari tækifæri til mennta og starfa, í öðru lagi sýna skýrslur RHA að ekki verður hægt að manna stöðina og síðast en ekki síst er olíuhreinsunarstöð vond hugmynd frá umhverfissjónarmiðum þar sem hún er afar mengandi iðnaður og skapar stóra hættu á alvarlegu olíuslysi við Vestfirði. Ef Ragnar langar að verða bæjarstjóri í einhæfu olíuvinnslusamfélagi væri nær fyrir hann að leita eftir slíkri stöðu á borpöllum í Norðursjó.
Háskóli á Vestfjörðum tel ég hins vegar að gæti verið góð hugmynd sem myndi auka fjölbreytileikann, hækka menntunarstigið og styrkja svæðið sem búsetukost í huga ungs fólks. Bættar samgöngur erum við Ragnar sammála um að eru nauðsynlegar til að efla byggðir landsins og gott til þess að vita að flokkurinn okkar hefur ákveðið að flýta samgöngubótum á Vestfjörðum.
Ég vona að bæjarstjórinn taki því ekki persónulega en ég held að fyrir umræðuna um byggðamál væri dálítið lesefni, t.d. um reynslu annarra þjóða af risaverksmiðjum sem ráði við fólksfækkun á landsbyggðinni líka góð hugmynd.
Með góðum þrettándakveðjum til allra Vestfirðinga, einkum þó Ragnars Jörundssonar.Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
4.1.2008 | 11:40
Kapítalismi á krossgötum
Jólabókin á náttborðinu mínu heitir Capitalism at the crossroads, eftir Stuart L. Hart, einn af leiðandi fræðimönnum í heiminum á sviði sjálfbærrar þróunar, grænna viðskipta og umhverfismála. Í bókinni bendir hann á hvernig kapítalisminn, eins og hann hefur verið ástundaður, hefur leitt til arðráns náttúruauðlinda og rúmlega fjögurra milljarða íbúa þróunarlandanna. Hann vill skipta hagkerfum heimsins í þrennt, hið eiginlega peningahagkerfi, hagkerfi samfélagsins og hagkerfi vistkerfisins.
Þeir sem trúa því blint að kapítalisminn sé lausnarorðið í hverjum vanda hafa einblínt um of á peningahagkerfið og í skjóli ofurtrúar á einfaldaðan sannleik hefur hin ósýnilega hönd Adams Smith sagað af til hálfs grein vistfræðilega og samfélagslega hagkerfisins. Það er afar óheppilegt fyrir hið peningalega hagkerfi því án vistkerfis og samfélags er enginn grundvöllur fyrir peningahagkerfi.
Fyrir þá sem vel þekkja hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar eru þetta engin tíðindi en hún gengur einmitt út á að nýta tækifærin í dag með þeim hætti að við takmörkum ekki tækifæri næstu kynslóðar. Þetta kom forsætisráðherra meðal annars inn á í ágætu áramótaávarpi sínu. Líkt og í hugmyndum Harts eru undirstöður sjálfbærrar þróunar einnig þrjár: efnahagur, samfélag og umhverfi. Aðeins þegar þróun er jákvæð á öllum þessum sviðum er hægt að tala um að hún sé sjálfbær.
Afleiðingar þess að kapítalisminn einblínir á peningahagkerfið eru hnignun jarðargæða, einkum ofveiði fiskistofna og skógar- og jarðvegseyðing í þróunarlöndunum sem meðal annars hefur dregið úr hæfni jarðar til að binda kolefni í andrúmsloftinu.
Sú tilhneiging peningahagkerfisins að einblína á þá ríkustu sem viðskiptavini hefur skilið tvo þriðju hluta jarðarbúa eftir á vegferðinni til betra lífs. Þetta hefur víða kynt undir hatri þróunarlanda gagnvart hinum ríku þjóðum. Þegar við bætast herská trúarbrögð verður til ástand sem við þekkjum vel - andrúmsloft hryðjuverkaógnar og sjálfsmorðsárása. Á hvoru tveggja, neikvæðri þróun vistkerfis og samfélags, tapar heildin þótt einhverjir græði um stund.
Skoðun Harts er að fyrirtæki heimsins séu best til þess fallin að hafa jákvæð áhrif á þessa þróun. Í Capitalism at the crossroads bendir hann á nauðsyn þess að viðskiptalífið víkki sjóndeildarhringinn, leiti út í samfélagið á hverjum stað eftir viðbrögðum og hugmyndum að nýjum og umhverfisvænum lausnum til að skapa hagsæld fyrir jarðarbúa - ekki síst þá tvo þriðju hluta sem hafa það verst. Bókin er í raun handbók fyrir stjórnendur í stefnumótun fyrirtækja og býður upp á leiðbeiningar um það hvernig er hægt að gera allt í senn, að draga úr mengun, efla þróunarlöndin og skila hluthöfum fyrirtækisins auknum hagnaði.
Máli sínu til stuðnings bendir Hart á fjölda dæma þar sem ábyrg stefnumótun í umhverfis- og samfélagsmálum hefur leitt til verðmætrar nýsköpunar. Nýjar og umhverfisvænni framleiðsluaðferðir hafa fært fyrirtækjum samkeppnisforskot og viðleitni til að þjóna markaði þróunarlandanna hefur fætt af sér snjallar leiðir til að lækka verð á vöru og þjónustu.
Það er full ástæða til að hvetja lesendur Viðskiptablaðsins, einkum stjórnendur fyrirtækja, til að kynna sér þessa bók sem sýnir hvernig fyrirtæki heims geta bæði aukið hagnað og haft áhrif til hins betra á gang heimsmála með því að ljá sagandi hönd Adams Smith gleraugu og laga stefnu sína um framtíðarvöxt að hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.
(Pistillinn birtist einnig í Viðskiptablaðinu í dag)