Hvað er málið með alla þessa flugelda?

Ég veit svei mér ekki hvað mér á að finnast um alla þessa flugelda.

Flest gæludýr borgarinnar þurfa róandi fyrir gamlaárskvöld og þrettándann, börnin eru skíthrædd við hvellina og aðal sportið hjá okkur fullorðna fólkinu er að við skulum skipulagslaust og hálfslompuð skjóta upp rakettum fyrir svo mörg hundruð milljónir að Kiefer Sutherland geri það að umtalsefni í spjallþáttum.

Vissulega eru margir flugeldarnir fallegir en þegar allir eru farnir að skjóta upp tertum fyrir tugi þúsunda þá verður hver flugeldur bara eins og sandkorn á ströndinni. Auðvitað er það líka hið besta mál að styrkja hjálparsveitirnar en maður hlýtur að spyrja sig hvort það sé ekki hægt að gera eitthvað skemmtilegra og varanlegra fyrir peninginn.

Þá þyrftu gæludýrin ekki róandi, börnin væru ekki hrædd og svifryk væri ekki yfir heilsuverndarmörkum. Ég lýsi hér með eftir hugmyndum.


mbl.is Svifryksmengun yfir mörkum á nýársdag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forstjóri NMÍ skrifar um osmósuvirkjanir

Prófessor Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands skrifar í Morgunblaðið í dag um osmósuvirkjanir. NMÍ er komin í samstarf við norskt fyrirtæki sem er komið langt í þróun slíkra virkjana.

Fyrir um hálfum mánuði skrifaði ég hér um þessa athyglisverðu þróun og setti um leið fram spurningar um af hverju okkur lægi svo mikið á að ráðast í virkjanir í Þjórsá, sem hatrammar deilur standa um, þegar ný tækni er rétt handan við hornið.


mbl.is Ný virkjunarleið á teikniborðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hörundssárir huldumenn

Með bloggfærslu um huldufólk í peningaleit (www.dofri.blog.is) virðist ég hafa strokið Ragnari Jörundssyni bæjarstjóra Vesturbyggðar andhæris. Á síðum þessa blaðs í gær og á bloggi sínu (www.rjor.blog.is) fer hann hamförum yfir því sem hann kallar öfgar, offors, skilningsleysi, dónaskap og vanþekkingu í skrifum mínum. Áhugamönnum um dónaskap og vanþekkingu er bent á að skoða báðar færslurnar með það í huga hvor hefur betur.

Dónaskapurinn er vísast gamanmál um huldumenn Ólafs Egilssonar sem víða hefur falast eftir stuðningi við hugmyndir sínar um olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum. Bakhjarla sína segir Ólafur vera olíurisa úr þremur heimsálfum en þar sem hann hefur aldrei gefið upp nöfn þeirra hafa þeir fengið á sig huldumannsorð.
Skilningsleysi mitt játa ég fúslega en mér hefur reynst erfitt að skilja af hverju fyrirtæki með svo sterka bakhjarla þarf að láta Fjórðungssamband Vestfjarða leggja almannafé í þær forathuganir sem það sjálft pantar. Sjá ummæli framkvæmdastjóra Fjórðungssambands Vestfjarða í fréttum Rúv 13. desember um forathuganirnar."Skýrslurnar eru náttúrulega skrifaðar líka að beiðni Íslenska hátækniiðnaðar sem að hefur óskað eftir að kanna aðstæður fyrir olíuhreinsunarstöð og þeir hafa fengið þessi gögn afhent núna."

Sterkari landsbyggð
Viðkvæmni bæjarstjórans fyrir gagnrýninni er skiljanleg. Hann hefur áhyggjur af byggðaþróuninni og þeim deili ég með honum. Öfugt við Ragnar tel ég hins vegar að olíuhreinsistöð sé ekki leiðin til að byggja upp sterkara samfélag á Vestfjörðum. Undanfarna áratugi hefur fólk sótt í þéttbýlið eftir fjölbreytni í störfum, menntun og menningu. Ungu konurnar fara á undan og piltarnir í humátt á eftir. Meðan miðaldra karlar hittast til að leggja drög að nógu stórri verksmiðju til að allir bæjarbúar geti unnið þar pakka dæturnar ofan í töskur.
Þessi þróun er ekki séríslenskt fyrirbæri, um allan heim er reynslan sú sama.
Þessar staðreyndir lágu til grundvallar stefnu Samfylkingarinnar í byggðamálum í aðdraganda nýafstaðinna kosninga. Þess vegna var gríðarleg áhersla lögð á að bæta samgöngur á landsbyggðinni, sameina atvinnu- og menntasvæði, tryggja háhraða nettengingar og efla framhalds- og háskólastigið. Og vinnan er hafin.

Háskóli á Vestfjörðum
Fyrir réttum 20 árum var stofnaður háskóli á Akureyri og þótti ýmsum fáheyrð vitleysa. Frekar ætti að endurreisa skipa- og skinnaiðnaðinn og fá álver í fjörðinn. Háskólanum óx hins vegar fiskur um hrygg og íbúaþróun á Akureyri og í nágrenni tók miklum breytingum til hins betra.
Ragnar átelur mig fyrir að mæla með því að Vestfirðingar fylki sér um háskóla í stað olíuhreinsistöðvar af því háskóli yrði staðsettur á Ísafirði sem ekki er í góðu vegasambandi við suðurfirðina.
Það er rétt að samgöngur við suðurfirðina þarf að bæta. T.d yrði vandkvæðum bundið að manna olíuhreinsistöð í Hvestu nema til kæmu verulega bættar samgöngur við Ísafjörð. Rökin bíta því Ragnar sjálfan.

101
Í hálfgerðum skætingi titlar Ragnar mig umhverfissinna og skriffinna úr 101. Glaður gengst ég við hvoru tveggja en bendi Ragnari á að ég er líka "landsbyggðarsinni" úr 371, 380, 200 og 600. Bara annarrar gerðar en hann.
Bæjarstjórinn ætti að spara sér hnjóðsyrði í garð þeirra sem hafa aðra sýn en hann sjálfur. Með slíku viðmóti er líklegra að hann fækki fólki enn frekar í Vesturbyggð en að því fjölgi. Nær væri að bæjarstjórinn gerði sér far um að hlusta á önnur sjónarmið, t.d. hið sterka en vannýtta bakland í Vestfirðingum sem flutt hafa suður eða til útlanda, aflað sér verðmætrar þekkingar og reynslu en væru til í að taka þátt í markvissu uppbyggingarstarfi fyrir heimabyggðina sína. Það væri öflugur þrýstihópur sem ég tel að myndi frekar vilja berjast með Ragnari fyrir uppbyggingu vestfirsks háskóla en olíuhreinsistöðvar.

Með nýjárskveðju úr 112,
Dofri Hermannsson

Huldufólk í peningaleit

Áhugaverður punktur í "Klippt og skorið" í 24 stundum í dag.

Þar er sagt frá leit Ólafs Egilssonar fyrrverandi sendiherra að peningum í rannsóknir á möguleikum þess að reisa olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum. Allt er á huldu um hvaða stórfyrirtæki það eru sem Ólafur segist hafa á bak við sig en alla vega ljóst að þeir hafa ekki efni á að leggja 8,5 milljónir í rannsóknirnar.

Í "Klippt og skorið" segir að gárungarnir í Iðnaðarráðuneytinu telji að Ólafur sé að fara húsavillt. Ef hann vantar peninga fyrir huldufólk ætti hann að tala við Magnús bróður iðnaðarráðherra, huldufólk sé hans deild, ekki Össurar!

Það sem er áhugavert í þessu er hins vegar sú staðreynd að huldurisarnir hans Ólafs skuli ekki eiga smáaura sem þessa í forathuganir. Þetta bendir til þess að hin svokallaða "Íslenska hátækni" sé í raun bara nafnið eitt yfir fjárvana stóriðjumakara sem ætlar sér að hagnast á því að vera milliliður. Afla fylgis við og aðstöðu fyrir olíuhreinsistöð og láta svo einhverja olíurisa bjóða í pakkann. Hvílík hátækni!

Flest sveitarfélög í Fjórðungssambandi Vestfjarða munu vera talsvert minna en yfir sig hrifin af framtakinu og þeirri staðreynd að Fjórðungssambandið skuli vera að kosta þessar rannsóknir. Lái þeim hver sem vill.

Í stað þess að elta olíupottinn undir regnboga hinna hátæknilegu huldumanna gætu Vestfirðingar fylkt sér um vestfirskan Háskóla. Það er raunverulegt og metnaðarfullt markmið og hefur gefist vel í Norðurárdalnum og á Akureyri.


Osmósuvirkjun við ósa Þjórsár gæfi 400 MW

osmotic_tcm4-5382Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur rætt um samstarf við norskt fyrirtæki, Statkraft, sem er að þróa osmósuvirkjanir, sjá nánari skýringar hér og hér.

Til að gefa fólki hugmynd um þá krafta sem þarna eru að verki hefur verið reiknað út að væri Þjórsá virkjuð með þessum hætti myndi hún gefa um 400 MW.

Þessi tækni er enn aðeins dýrari en hefðbundin virkjun en það verður að hafa í huga að fórnarkostnaður náttúruverðmæta hefur aldrei verið reiknaður í hið hræódýra raforkuverð hér á landi.

Þetta er umhugsunarvert, nú þegar í fullri alvöru er rætt um að eyðileggja Urriðafoss, nú eða Ölkelduháls, til að skapa 400 störf í Þorlákshöfn. Í sveitarfélaginu Ölfus voru í nóvember 11 karlar og 26 konur af 1.800 íbúum án atvinnu. 

Rannsóknir með djúpborun gætu á næstu 5-15 árum skilað okkur 5-10 földun orkuaukningu þeirra svæða sem þegar hafa verið virkjuð. Tækni við virkjun varmaskipta gæti margfaldað nýtingu háhitavirkjana sem nú nýta aðeins um 13% orkunnar. Sjávarfallavirkjanir í Breiðafirði eru taldar geta skilað sama afli og 3-4 Kárhnjúkavirkjanir fyrir mun hagstæðara verð.

Hvaða neyð er það í Þorlákshöfn sem ætti að knýja okkur til að eyðileggja náttúru Þjórsár og Hengilsins nokkrum árum áður en hægt er að afla mikillar orku án þess að valda umhverfinu skaða?

Þorlákshöfn er í skreppifæri frá Selfossi og Reykjavík. Í raun tilheyra allir þessir staðir sama atvinnusvæði. Fólk keyrir í vinnuna en velur sér búsetu eftir því hvar er gott að búa, eignast og ala upp börn og eftir því hvað samfélagið er viðkunnanlegt. Og borgar útsvar þar.

Reynslan sýnir að mörg sveitarfélög eiga í vök að verjast þótt þar sé næg vinna. Það sem þá vantar eru fjölbreytni í atvinnulífi og mannlífi, skortur á þjónustu við fjölskyldufólk o.s.frv. Ungu konurnar fara og strákarnir elta þær þegar þeir hætta á sjónum. Framtíðin velur sér annan stað. 

Ég hef enga trú á að svo sé komið fyrir Þorlákshöfn, þrátt fyrir svartagallsraus sveitastjórans. En ef svo er þá er ástæðan ekki skortur á verksmiðjum heldur miklu frekar skortur á kvenhylli.


Samfélagslegur kostnaður af notkun nagladekkja verður rannsakaður

Meirihluti Umhverfisráðs samþykkti á nýafstöðnum fundi eftirfarandi tillögu:

Umverfisráð leggur til að gerð verði hagræn rannsókn á heildarkostnaði samfélagsins af notkun nagladekkja í Reykjavík.

Greinargerð:
Kostnaður samfélagsins af notkun nagladekkja í borginni er umtalsverður. Augljósastur er kostnaðurinn við að bæta slit á götum borgarinnar. Annar kostnaður t.d. vegna óþrifa af tjöruaustri og heilsuspillandi áhrifa svifryks af völdum nagladekkja hefur hins vegar ekki verið rannsakaður. Umhverfisráði þykir brýnt að það verði gert, einkum til að þessar upplýsingar liggi fyrir og séu almenningi aðgengilegar en ekki síður til að hægt verði að ákveða gjald á notkun nagladekkja í anda mengunarbótareglunnar ef þörf verður talin á. 

Þetta er fagnaðarefni og mikilvægt fyrir almenning að geta tekið upplýsta ákvörðun um hvort valin eru nagla- eða naglalaus vetrardekk.  

Það kemur á óvart að minni hlutinn skyldi velja að sitja hjá við afgreiðslu þessarar tillögu því fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Umhverfisráði hafa hingað til verið fylgjandi því að stemma stigu við notkun nagladekkja í borginni, ekki síst vegna svifryksmengunar.

Sjálfstæðismenn í Umhverfisráði hafa hingað til tekið undir þau sjónarmið að þeir gjaldi sem valdi í mengunarmálum og því kemur á óvart að þeir sitji hjá þegar komast á að því hver hinn raunverulegi kostnaður er. 

Ef til vill hefur breyting á skipan sjálfstæðismanna í ráðinu breytt afstöðu flokksins til málsins og ekki lengur full eining á meðal þeirra um að draga úr notkun nagladekkja í borginni. Varla hafa þeir skipt um skoðun við það eitt að fara í minnihluta. Það væri afturhvarf til verri tíma ef brýnar úrbætur í umhverfismálum ættu nú að verða tækifærismennsku að bráð.


Þarf að skoða í samhengi

Bendi á útskýringar Þorsteins Siglaugssonar á því hvað liggur til grundvallar.

Birti hér einnig fréttabréf Árna Finnssonar til félaga í Náttúruverndarsamtökum Íslands

Ísland í þriðja sæti á lista Germanwatchi
Samkvæmt nýrri skýrslu Germanwatch þar sem borin eru saman loftslagsstefna, losun gróðurhúsalofttegunda og þróun í losun gróðurhúsalofttegunda hjá 56 ríkjum er Ísland nú í þriðja sæti.

Ísland tekur stökk upp á við frá því fyrir ári síðan þegar Ísland lenti í 14. sæti. Að sögn Germanwatch munar mestu um stefnumörkun stjórnvalda frá í febrúar um að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda um 50 - 75% fyrir miðja þessa öld. Fyrir ári síðan hafði engin framtíðarstefna verið mörkuð. Ennfremur, á Íslandi er hátt hlutfall orkugjafa sem ekki valda losun gróðurhúsalofttegunda en losun á hvern íbúa er ekki lagt til grundvallar matinu.

Stefnumörkun vegur 20% í mati Germnwatch, heildarlosun gróðurhúsalofttegunda 30% og þróun í losun 50%. Tölur Germanwatch eru frá 2006 og því ekki tekið tillit til aukningar í losun vegna nýrra álvera en losun frá iðnaði vegur 7% af heildinni. Á hinn bóginn hefur ekki verið tekið tillit til nýrra samningsmarkmiða ríkisstjórnar Íslands um Kyoto2 sem hefði veitt Íslandi fleiri stig.

Talsmenn Germanwatch benda á að um samanburðarrannsókn er að ræða. Ekkert ríki stenst þær kröfur sem gera verður til að koma í veg fyrir hættulegar loftslagsbreytingar.

---------------

Í lok fyrri viku fundarins í Bali stendur þrennt upp úr að mati umhverfissamtaka:

1) Kína hefur sýnt töluverðan samningsvilja hér í Bali. ÉSB er forustuafl um sterkt samningsumboð.
2) Ekkert miðar í átt til samkomulags um að ná tökum þeim á 20% af losun gróðurhúsalofttegunda sem hlýst af skógareyðingu. Einkum í hitabeltinu. Þar strandar helst á fjármögnun því eyðing regnskóga er stór tekjulind fyrir lönd eins og Brasilíu og Indónesíu og allir eru sammála um að iðnríkin verði að veita fjárhagslega aðstoð til að koma í veg fyrir stórfellda eyðingu regnskóga. Lungu Jarðar.
3) Samþykkt fulltrúadeildar Bandaríkjaþings um orkunýtni bíla og afgreiðsla nefndar öldungardeildarinnar á frumvarpi Lieberman/Warner um að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda er til marks um að stefna Bush verður ekki við lýði árið 2009 þegar loftslagsþingið verður í Kaupmannahöfn. Þróun mála í Bandaríkjunum hefur vafalítið jákvæð áhrif á samningsvilja kínverskra stjórnvalda.

Á morgun munu umhverfisverndarsamtök standa fyrir aðgerðum víða um heim til að vekja athygli á loftslagsþinginu á Bali. Hér í Bali verður dagurinn helgaður skógareyðingu. 


mbl.is Ísland í fremstu röð í umhverfismálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það var beygja á veginum...

þjórsáÞað er ekkert ofsagt að þessi aðgerð síðustu ríkisstjórnar, fimm mínútum fyrir kosningar, hafi orkað verulega tvímælis. Nú hefur verið úr því skorið að lagaheimildir skorti fyrir gjörningnum. Þetta var fráleit aðgerð.

Virkjanir í neðri hluta Þjórsár orka sömuleiðis verulega tvímælis jafnvel þótt Landsvirkjun hafi reynt að "Móðir Theresu væðast" og lofa að orkan fari ekki í álbræðslu. Það breytir engu um að djúpstæður og sársaukafullur ágreiningur er um þessar virkjanir í héraði.

Ég fullyrði líka að fáir Íslendingar sem litið hafa Urriðafoss augum vilja granda honum, hvort heldur það er fyrir Rio Tinto eða Microsoft.

Það var beygja á veginum sem síðasta ríkisstjórn tók ekki eftir. Nú er bíllinn stopp og ástæða til að skoða vandlega hvort þetta er sú leið sem við viljum fara. Við þurfum ekki að standa á torgum erlendis og falbjóða íslenska orku og íslenska náttúru eins og mjólk á síðasta söludegi.

Við eigum að klára að rannsaka gildi orkusvæðanna og annarra verðmætra náttúrusvæða með tilliti til verndar og með tilliti til nýtingar sem samræmist náttúruvernd. T.d. sem þemagarða, þjóðgarða og fólkvanga fyrir útivistarfólk og ferðaþjónustuaðila.

Ferðaþjónusta sem byggir á íslenskri náttúru á gríðarlega möguleika. Allan ársins hring ef stjórnvöld sýna greininni þann sjálfsagða stuðning að byggja upp innviðina s.s. söfn, merkingar á áhugaverðum stöðum, merkingu gönguleiða, þjónustustöðvar o.s.frv. Annað eins hefur nú verið gert fyrir atvinnugreinar á Íslandi.

Ferðaþjónusta er jafnframt ein fárra atvinnugreina á landsbyggðinni þar sem er hægt að koma af stað fyrirtæki án þess að leggja í stofnfjárfestingu upp á tugi eða jafnvel hundruð milljóna líkt og í mjólkuriðnaði og sjávarútvegi.

Við eigum því að fara okkur hægt í orkuspaninu. Það er næg orka til og við ættum að kappkosta að nýta hana betur frekar en að spilla bæði náttúru og friði með afar umdeildum virkjunum eins og í Þjórsá. Það er ígildi stórrar virkjunar fólgið í að endurbæta dreifikerfið.

Nú svo má ekki gleyma spádómum álkarlanna í Hafnarfirði um að Alcan væri á förum. Ef það er rétt er þá ekki tilvalið að ráðstafa þeirri orku á betra verði annað, t.d. í sólarrafhlöðuframleiðslu eða netþjónabú? 


mbl.is Þjórsársamningur án lagastoðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aflatölur skipa

Þegar ég var að alast upp þá voru ævinlega þuldar upp aflatölur helstu skipa eftir hvern fréttatíma. Maður vandist þessu og fréttir af veiði urðu stór partur af tilverunni. Eins er með gengi Birgis Leifs í golfinu þessa mánuðina. Alltaf jafn áhugavert.
mbl.is Birgir lék á 79 höggum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríðniskúltúrinn í íslenskri pólitík

Stríðni getur verið bráðskemmtileg, sérstaklega ef maður er sá sem er að stríða en væntanlega síður ef því er öfugt farið. Hún er hins vegar ósköp gagnslaus til að vinna að þörfum framfaramálum.

Í dag kynnti Umhverfisráðherra stefnumótun ríkisstjórnarinnar um framhald Kyoto-bókunarinnar. Þeirri stefnumótun fagna nú Náttúruverndarsamtök Íslands og það er ærin ástæða til því þar er tekin sú einarða afstaða að fyrirbyggja að andrúmsloft jarðar hitni um meira en 2 gráður á Celsíus.

Til að gera það þarf að beita margvíslegum ráðum. Nú er að störfum nefnd sem kortleggur nákvæmlega hvernig Ísland getur sem best og hraðast dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda. Niðurstöðu hennar er að vænta á vormánuðum. Þegar þær liggja fyrir er hægt að gera nákvæma áætlun um hvernig við ætlum að ná hinum metnaðarfullu markmiðum.

Í stað þess að fagna þessu knýr stríðniskúltúrinn og átakahefðin stjórnarandstöðuna til að snúa út úr máli Umhverfisráðherra og gera eins lítið úr markmiðum ríkisstjórnarinnar og hægt er. Framsókn er sérstaklega í mun að túlka þessi markmið sem svo að niðurstaðan sé nákvæmlega sú sama og ef Framsókn hefði verið í ríkisstjórn. Vg er síðan mikið í mun að halda því fram að niðurstaðan sé allt önnur en ef þau hefðu verið í ríkisstjórn.

Í kerskni sinni halda báðir aðilar fram að hið svokallaða íslenska ákvæði, uppáhaldsboðorð Framsóknarmanna, sé nákvæmlega það sama og sveigjanleikaákvæðið. Það tel ég vera mikinn misskilning. Þannig hefur t.d. ekki einu einasta kolaorkuveri verið lokað úti í heimi af því virkjað var fyrir álbræðslu við Kárahnjúka en það var þó hið heilaga gral þess ákvæðis, ef ég hef skildi Framsókn rétt.

Sveigjanleikaákvæðið gengur út á að þau lönd sem ná með nýrri og betri tækni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda fá hluta þess sem sparast sem heimildir til sín. Þetta er mjög snjallt og hvetjandi fyrir alla að fjárfesta í nýrri og betri tækni í öllum iðnaði. Verði þessi leið farin er það mjög hvetjandi fyrir hina margumtöluðu íslensku orkuútrás - einmitt af því þekking á grænni orku verður verðmæt alls staðar í heiminum en ekki bara í löndum sérákvæðanna.

En hvaða hag hafa svo sem Framsókn og Vg af því að viðurkenna að með stefnumótun ríkisstjórnarinnar eru stigin stór skref fram á við? Hvaða hag hafa þessir flokkar af því að viðurkenna að með 2 gráðu markmiðinu hefur Samfylkingin náð mun meiri árangri en Framsókn vildi og Vg gat látið sig dreyma um í ríkisstjórnarasamstarfinu. Auðvitað engan.

Umhverfissamtök eins og Náttúruverndarsamtökin sjá hins vegar hvaða stóru skref hafa verið stigin, fagna þeim eins og vera ber og bíða spennt eftir framhaldinu.

Við í Samfylkingunni fögnum líka og umberum hinn gagnslausa stríðniskúltúr dálítið glöð í bragði yfir því að Framsókn og Vg geti náð saman um eitthvað - þótt á öndverðum forsendum sé.


mbl.is Náttúruverndarsamtökin fagna stefnumótun Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband