4.12.2007 | 11:26
Óábyrg orðræða
Í því er ævinlega holur hljómur þegar þeir sem hafa völdin kveinka sér undan gagnrýni frá þeim sem hafa þau ekki.
Um þetta má finna mörg dæmi, s.s. "hið afskaplega ýtna fólk" Falun Gong, illgjörn samtök öryrkja í sífelldum málaferlum, samkynhneigða, umhverfisverndarfólk og hinn harðsnúna minnihlutahóp konur sem víða eru til vandræða.
Mér hefur fundist margt skylt með orðræðu forkólfa stóriðjustefnunnar undanfarin ár og Þjóðkirkjunnar nú í umræðum um kristniboð í skólum.
2002 sagði Friðrik Sophusson í blaðaviðtali að til væri
...minnihlutahópur í röðum umhverfisverndarsinna sem oft talar í nafni þeirra allra. Þessi hópur virðist vera á móti öllum virkjunum hér á landi, og ætlast til þess að við nýtum hvorki auðlindir okkar til lands né sjávar.
Þessi hópur mun áreiðanlega, hér eftir sem hingað til, reyna að halda úti áróðri gegn virkjunarhugmyndum. Fámennur hópur hér á landi semur yfirlýsingar, til dæmis í nafni WorldWide Fund, WWF. Þær eru síðan sendar til útlanda og hingað heim aftur í nafni alþjóðlegra samtaka...
Þessa dagana hefur biskup Íslands látið hafa eftir sér í fjölmiðlum að fámennur hópur trúleysingja geri harða atlögu að áhrifum kristni í skólum. Þetta eru viðbrögð æðsta manns Þjóðkirkjunnar við málefnalegri gagnrýni á kristniboð Þjóðkirkjunnar innan veggja grunn- og leikskóla.
Það er greinilega mjög hörð atlaga að öllum áhrifum kristni og kirkju gagnvart skólunum og það er alveg augljóst að andmælin við, við þessu koma ekki frá öðrum trúfélögum í landinu. Þau koma frá aðilum sem vilja trúna út. Og, og það er afar duglegt fólk. Ég vildi að við, ja, ég held þau geri okkur skömm til að því leyti að ég held að, að foreldrar og, og aðrir sem að láta sig þessi mál varða ættu bara að vera duglegri að láta heyra í sér líka og láta ekki hrekja sig út.
Rétt eins og í náttúruverndarumræðunni er sú leið farin að gera einn hóp tortryggilegan. Í umræðunni um trúboð í skólum hafa samtökin Siðmennt verið úthrópuð sem hinn fámenni harðsnúni hópur sem vill eyðileggja allt fyrir hinum stóra en vanmáttuga meirihluta.
Það er lýsandi fyrir þessa tegund af málflutningi að það er ekki látið nægja að úthrópa gagnrýnendurna heldur eru þeim gjarna gerð upp fráleit áform eða skoðanir með spurningum eins og:
"Eigum við þá bara að lifa á fjallagrösum og hundasúrum?" Er þetta fólk þá ekki líka á móti rafmagnsljósi?"
Nú spyrja röksnillingarnir
"vilja menn þá litlu jólin burt úr skólanum, vilja menn burt með jólafríin, páskafríin, ætla menn að fara breyta hér um þjóðsöng að því að það er vitnað í Guð?"
Þetta túlka ýmsir einstaklingar í samfélginu sem skilaboð um að það sé í lagi að taka upp símann og hringja á öllum tímum sólarhringsins með skammir og svívirðingar í hópinn sem forystumennirnir hafa gefið út veiðileyfi á. Sjá frétt DV í dag.
Ja, kristilega kærleiksblómin spretta, eins og skáldið sagði.
Í sönnum jólaanda ætla ég að stelast til að setja í tónlistarspilara síðunnar jólalag Baggalúts frá 2005, Sagan af Jesúsi. Ég bendi líka á nýjasta jólalagið þeirra sem er hér. Þetta eru falleg og hugljúf lög. Það er spurning hvort ekki væri rétt að Baggalútur stofnaði kristinn söfnuð.
Fólk getur svo velt fyrir sér hvor hvor kirkjudeildin yrði vinsælli hjá fermingarbörnunum ef öll trúfélög hefðu sama rétt og Þjóðkirkjan til "samstarfs við grunnskólana".
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.11.2007 | 09:47
Hefðarvald Þjóðkirkjunnar
Það eru ekki allir í þjóðkirkjunni og þeim hefur reyndar fjölgað á undanförnum árum sem kjósa að standa utan hennar. Það er ósköp eðlileg þróun og þýðir ekki að kristin gildi séu á undanhaldi. Auknar kröfur um trúfrelsi þýðir hins vegar að Þjóðkirkjan getur ekki krafist þess að hafa frjálsan aðgang að skólabörnum. Þennan rétt tekur hún sér hins vegar í krafti hefðarvalds.
Ef við gefum okkur að 85-90% barna í hverjum árgangi fermist og að Þjóðkirkjan fái að fara með hópinn í fermingarfræðsluferð á skólatíma - hvað á þá að gera við 10-15% sem eru eftir? Það er augljóst að það er ekki hægt að halda uppi eðlilegu skólastarfi á meðan. Þetta er alls ekki sambærilegt við að 1 barn í bekk fái að fara í skíðaferð eða réttir með foreldrum sínum.
Ég þekki dæmi þess að Þjóðkirkjan og grunnskóli í borginni fari í sameiginlegt skólaferðalag með fermingarárganginn. Fyrri hluti ferðalagsins er skipulagður af skólanum og er blanda af leikjum og námi. Svo fara kennararnir heim og Þjóðkirkjan tekur við. Þá verða þau börn sem ekki ætla að láta ferma sig að setja niður í töskurnar sínar, slá botninn í skólaferðalagið og fá far með kennurunum í bæinn.
Þjóðkirkjan er líka með aðgang að börnum í frístundaheimilum og þar geta foreldrar sem ekki er um þetta gefið vænst þess að börn þeirra séu skilin frá leikfélögum sínum á meðan hjörðinni er trítlað á vit hins góða hirðis.
Nú á það að heita svo að trúfrelsi ríki á Íslandi. Það þýðir ekki að það megi ekki minnast á kristni eða kristin gildi í skólum landsins en það gerir hins vegar kröfu um jafnræði. Þannig hafa grunnskólarnir verið að fikra sig frá beinu kristinboði yfir í kennslu í siðfræði og trúarbragðasögu. Það held ég að sé bara af hinu góða og ég get ekki séð að það sé Þjóðkirkjunni í óhag - ekki nema biskupi þyki það slæmt fyrir sína kirkjudeild að börn læri meira um trúmál.
Það hefur verið almenn sátt um að stunda ekki markaðssetningu gagnvart börnum í grunnskólum landsins. Það er alveg sama hvað fólk vill kalla það - kristniboð Þjóðkirkjunnar í grunnskólum er ekkert annað. Beinn aðgangur hennar að fermingarbörnum á skólatíma þar með talinn.
Þjóðkirkjan hefur gríðarlega sterka stöðu í samfélaginu þótt hún heimti ekki einkaaðgang að markaðssetningu gagnvart börnum inni í grunnskólum landsins. Eitt verður yfir alla að ganga og ef Þjóðkirkjan á að fá að taka börn úr skóla til að kenna þeim kristinfræði fyrir ferminguna þá verða öll trúfélög, kristin sem ókristin að fá að gera þetta líka.
Biskup segir þá sem benda á þetta vera háværan minnihlutahóp. Hann talar um frekjugang hinna fáu. Orð hans minna mig á orð fallinna ráðamanna um umhverfisterrorista og atvinnumótmælendur. Rétt eins og fleiri orð úr sama munni dæma þau sig sjálf.
![]() |
Ráðherra segir Siðmennt misskilja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.11.2007 | 10:25
Hagkaup - þar sem Íslendingum finnst leiðinlegast að versla?
Ósköp er þetta asnalegt framtak og niðurlægjandi fyrir karla. Er þetta við hliðina á barnahorninu?
Ég ætla svo sem ekki að reyna að halda fram að ég hafi sérstaklega gaman að verslunarferðum. Ég reyni yfirleitt að hafa þær stuttar. Sérstaklega leiðist mér að ganga um völundarhúsið IKEA sem er einstaklega sálardrepandi staður - einkum vegna hönnunarinnar.
Þessi hugmynd Hagkaupa er í skásta falli einfeldningsleg. Er "Hagkaup - þar sem Íslendingum finnst skemmtilegast að versla" svo leiðinleg verslun að það þarf að bjóða helmingi þjóðarinnar upp á sérstakt athvarf frá leiðindunum. Hvers á hinn helmingurinn þá að gjalda?
Halda Hagkaup að konum finnist brjálæðislega gaman að kaupa í matinn hjá þeim? Staðreyndin er sú að það finnst trúlega ekki einum einasta manni eða konu skemmtilegast að versla í Hagkaupum. Slagorðið er jafn fáránlegt og þessi lágkúrulega hugmynd með pabbahornið.
Hagkaup ættu kannski að semja við bíó eða nuddstofu um að bjóða upp á almennilegar myndir og dekurstund á meðan starfsfólk Hagkaupa týnir saman það sem fólk vantar í matinn skv innkaupamiða. Það gæti orðið skemmtilegt.
Ég er að hugsa um að setja Hagkaup í viðskiptabann þangað til.
![]() |
Pabbar í pössun í Hagkaupum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
27.11.2007 | 10:39
Lán Íslendinga
Bendi á skemmtilegan pistil Davíðs Þórs Jónssonar um hin íslensku viðhorf til lántöku.
Ef Sví vinnur milljón í happdrætti fer hann með hana í bankann, leggur helminginn inn og kaupir bíl fyrir hinn helminginn. Ef Íslendingur vinnur milljón í happdrætti fer hann með hana í bankann, fær lánaða milljón og kaupir sér bíl fyrir tvær."
Mikið til í þessu.
26.11.2007 | 16:38
Góð ferð um Reykjanes
Græna netið gerði góða ferð um Reykjanes í frosti en afbragðsveðri sl laugardag.
Ferðin hófst við Seltún og genginn Ketilstígur upp að Arnarvatni og þaðan upp á Hettu en af Hettu er afbragðsgott útsýni yfir miðhluta Reykjaness. Trölladyngja var skoðuð seinni part dagsins.
Það er enginn svikinn af gönguferðum um Reykjanes, fegurðin er stórbrotin, saga okkar allt frá landnámi er þar við hvert fótmál og fyrir þá sem einhvern áhuga hafa á jarðfræði er svæðið ein samfelld spennusaga.
Það er í raun merkilegt hvað svæðið er lítið notað af ferðaþjónustuaðilum en mér skilst að fá fyrirtæki af Reykjanesinu nýti þetta stórbrotna svæði líkt og t.d. Íslenskir fjallaleiðsögumenn og Eldhestar gera á Hengilssvæðinu.
Víst er að Reykjanesið býður upp á endalausa möguleika til atvinnusköpunar og útivistar og í því sambandi vil ég sérstaklega benda á hugmyndir Landverndar um eldfjallaþjóðgarð.
Hugmyndir Landverndar útiloka alls ekki orkunýtingu en leggja áherslu á að nýting hennar verði með þeim hætti að verðmæt útivistarsvæði skaðist ekki. Það er löngu tímabært að setjast niður og ræða í alvöru hvernig fólk vill nýta þessi verðmætu svæði til frambúðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.11.2007 | 12:23
Ferð Græna netsins um Reykjanes á morgun
Vil benda á ferð Græna netsins um Reykjanes á morgun. Sérstök áhersla verður lögð á að skoða möguleika svæðisins sem útivistar- og ferðaþjónustusvæðis annars vegar og sem svæði fyrir orkuvinnslu og línulagnir hins vegar.
Farið verður á Seltúnssvæðið í Krýsuvík og að Trölladyngju. Gert er gert ráð fyrir nokkurri göngu á áfangastöðum, og þurfa ferðamenn að vera sæmilega búnir og taka með sér nesti. Leiðsögumenn verða Bergur Sigurðsson framkvæmdastjóri Landsverndar og Reynir Ingibjartsson, stjórnarmaður í Reykjanesfólkvangi.
Þeir sem vilja slást í för eru beðnir að tilkynna það í netfangið sas@vortex.is.
Allar nánari upplýsingar má fá í síma 861 2135 (Sigurður) eða 822 4504 (Dofri).
Ferðin á Reykjanesskaga er hin fyrsta af svonefndum vettvangsferðum sem Græna netið hyggst gangast fyrir í vetur á náttúrusvæði og í ýmsar stofnanir sem tengjast umhverfismálum.
HÉR er lýsing á fyrirhugaðri línulögn vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík.
22.11.2007 | 17:05
Bitur sveitastjóri
Á síðu 8 í Fréttablaðinu er viðtal við sveitastjóra Öfluss sem um daginn sagði að athugasemdir við Bitruvirkjun skiptu engu máli, ekki heldur álit Skipulagsstofnunar, sveitarfélagið myndi virða það allt að vettugi rétt eins og það gerði varðandi malarnámið í Ingólfsfjalli.
Hann gerir nú heiðarlega tilraun til að draga ögn úr valdhrokanum og segir að vel verði farið yfir allar athugasemdir áður en framkvæmdaleyfi fyrir Bitruvirkjun verður gefið út. Vel megi vera að sveitastjórn og framkvæmdaraðila hafi yfirsést eitthvað.
Ætlun sveitastjórans er samt alveg skýr: "Við veitum framkvæmdaleyfi, það er alveg á hreinu, en ekki fyrir hverju sem er. Mörgu, sem hefur komið hingað inn á borð hefður verið hafnað og það verður farið vandlega yfir þetta með óháðum aðilum sem eru í vinnu hjá okkur" segir sveitastjórinn.
Einhvern veginn á ég erfitt með að koma auga á hið óháða samband þeirra aðila "sem eru í vinnu hjá okkur" og sveitarfélaginu sem gerði samning við OR um að haga skipulagi "þannig að það falli að fyrirhuguðum framkvæmdum".
Sveitastjórinn heldur því fram að með því að virkja á þessu einstaka útivistarsvæði muni ferðamönnum þar stórfjölga. Það finnst mér undarleg rökfærsla. Einhver hluti fólks getur hugsanlega haft áhuga á að skoða Hellisheiðarvirkjun ef það verður farið sérstaklega í að moka þangað inn skólakrökkum og skipulögðum hópum til að hlusta á kynningu og þiggja léttar veitingar. Að það verði 200 þúsund manns hlýtur þó að vera mikil bjartsýni.
Enn meiri bjartsýni er að álykta sem svo að ef 200 þúsund manns komi að skoða Hellisheiðarvirkjun muni annað eins eða meira koma til að skoða næstu virkjun við hliðina á, Bitruvirkjun. Kannski trúir sveitastjórinn að enn fleiri komi svo í virkjunarhúsið í Hverahlíð og svo koll af kolli.
The Famouse Icelandic Geothermal Powerplant Tour! Come to Iceland! Visit three identical power plants at the same site - free sandwiches and soda if you finish the whole tour!
Ef aðrar áætlanir sveitarfélagsins eru jafn góðar og þessi er ég ekki hissa á barlómi sveitastjórans. Ég held hins vegar að hann sé ástæðulaus. Nánast í hverri viku sér maður auglýstar nýjar lóðir og eignir til sölu í sveitarfélaginu. Þar er gert út á umhverfisgæðin og nálægð við höfuðborgina. Þetta þykja mjög eftirsóknarverð gæði og fólk sem gjarna vill búa í fallegu umhverfi, hafa aðstöðu til útivistar, hestamennsku, veiði o.fl. mun í vaxandi mæli sækja í búsetu þar sem allt þetta - auk nálægðar við höfuðborgina - er í boði.
Ef sveitarfélagið ákvæði að búa í haginn fyrir Ölkelduhálssvæðið sem útivistarsvæði, bæta gönguleiðir, koma upp merkingum og betri aðkomu að svæðinu austan megin frá er ég viss um að innan fárra ára væri svæðið farið að draga að tugi þúsunda ferðamanna. Fólks sem kemur til að njóta útiverunnar og er mun líklegra til að kaupa sér þjónustu í héraðinu en þeir sem boðnir eru ókeypis til OR í stutta kynningu og léttar veitingar.
Ef sveitastjórinn tæki þann pólinn í hæðina finnst mér líklegt að enn fleiri myndu vilja flytja búsetu sína í sveitarfélagið til að njóta nálægðar við bæði náttúru og höfuðborg. Það slær dálítið á spennuna við að flytja í náttúruparadísina Ölfus að sjá og heyra sveitastjórann predika eins og einvald í valdavímu um virkjanir og línulagnir á verðmætum náttúrusvæðum.
Bitran hefur aðdráttarafl. Biturð sveitastjórans hefur hins vegar bara fælingarmátt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.11.2007 | 15:34
Þeir gjaldi sem valdi
Nagladekk eru ekki eini valdurinn af miklu svifryki en þó sá langstærsti. Það er hægt að gera margt til að draga úr annarri rykmyndun og sumt af því er komið til framkvæmda, t.d. að spúla göturnar og setja á þær rykbindiefni og skylda verktaka að bleyta vel í byggingum sem verið er að rífa niður. Það má þó enn gera betur og á Umhverfissviði verður áfram unnið að því.
Það er jákvætt að þeim virðist fækka sem aka um á nagladekkjum en þó hefði maður kosið að bílum á nöglum fækkaði meira. Þetta virðist trúaratriði frekar en rökrétt niðurstaða því ef fólk áttaði sig á því að 98% af tímanum eru naglar á þurru malbiki óöruggari en vetrardekk þá myndi það ekki vilja skipta á því og örlítið meira öryggi 2% af tímanum.
Nagladekk spæna upp malbik fyrir um 200 milljónir í borginni á vetri hverjum. Það er þó ekki eini kostnaðurinn sem notkun nagladekkja veldur. Aukalegur kostnaður fólks við tjöruþrif á bílum og jafnvel fatnaði, kaup á þurrkublöðum o.fl.þ.h. er talsverður. Þá er ótalinn lyfjakostnaður og skaði einstaklinga af heilsutjóni sem ryk vegna nagladekkjanotkunar veldur.
Mengunarbótareglan (Polluter Pays Prinsipple) svokallaða kveður á um að þeir sem valda mengun greiði þann kostnað sem af henni hlýst. Í anda mengunarbótareglunnar ættum við að láta reikna til fulls kostnaðinn sem hlýst af notkun nagladekkja og innheimta þá upphæð sem gjald frá þeim sem kjósa að aka á nagladekkjum.
![]() |
Svifryk hátt yfir heilsuverndarmörkum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.11.2007 | 15:19
Vg, lánakjörin og krónan
Varaformaður Vinstri grænna, Katrín Jakobsdóttir, kom með þarfa ábendingu í fyrirspurnartíma í þinginu í gær. Hún benti á að þeir sem taka lán til húsnæðiskaupa á núgildandi kjörum til 40 ára mega búast við að þurfa að greiða um 6,8 milljónir til baka fyrir hverja milljón sem þeir fá að láni.
Þetta er hárrétt hjá varaformanni Vg. Fyrir forvitnis sakir sló ég inn í lánareikni Landsbankans hvað 20 milljóna lán myndi á endanum kosta eftir 40 ár. Svarið er rúmlega 135 milljónir króna miðað við forsendur varaformanns Vg.
Greiðslubyrði á mánuði myndi byrja í 117 þúsundum á mánuði og eftir 20 ár væri skuldarinn búinn að greiða um 41,2 milljónir. Þá væri skuldin hins vegar komin upp í 34,3 milljónir og greiðslubyrðin á mánuði upp í 254 þúsund krónur. Eins og sjá má á mynd ætti skuldin enn eftir að hækka talsvert og síðasta greiðslan yrði um 556 þúsund krónur.
En dæmið liti talsvert öðru vísi út ef tekið væri óverðtryggt erlent lán upp á 20 milljónir á 3,8% vöxtum með jöfnum afborgunum. Heildarendurgreiðsla af 20 milljónum væru þá 35,5 milljónir eða um 100 milljónum minna en af íslenska láninu.
Greiðslubyrði myndi byrja í rúmum 105 þúsund krónum á mánuði og eftir 20 ár væri skuldarinn búinn að greiða um 21,6 milljónir. Eftirstöðvarnar væru komnar niður í um 10 milljónir króna og greiðslubyrði niður í 74 þúsund á mánuði. Síðasta greiðslan af láninu yrði um 42 þúsund krónur.
Þetta er mynd sem er talsvert hugnanlegri fyrir íslenska húsnæðiskaupendur.
Þessi lán geta flestir tekið í dag en margir óttast hvað gerist ef gengið fellur. Að vísu tel ég að það megi falla býsna mikið til að erlent lán verði óhagstæðara en hið íslenska en fyrir marga getur þetta skipt miklu máli, t.d. þá sem ekki hafa svigrúm til að mæta tímabundinni hækkun á afborgunum eða þá sem gætu þurft að selja þegar gengisskráning er óhagstæð.
Ef almenningur ætti kost á að fá laun sín að hluta eða öllu leyti greidd í erlendri mynt væri þessi gengisáhætta hins vegar ekki fyrir hendi. Til að það geti gerst þarf annað hvort að taka opinberlega upp erlendan gjaldmiðil eða gera það hægt og hljótt og feta í fótspor margra einkafyrirtækja sem þegar eru farin að borga starfsfólki sínu að hluta í erlendri mynt.
Það er ljóst að betri kjarabót fyrir íslenska alþýðu er vandfundin því eins og dæmið hér að ofan sýnir sparast 100 milljónir á hverjar 20 milljónir með því að taka erlent lán í hins íslenska.
Það er ástæða til að þakka varaformanni Vinstri grænna fyrir að vekja athygli á þessu en um leið hlýtur maður að spyrja hvað flokkurinn hennar vill gera í gjaldmiðilsmálum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
19.11.2007 | 19:15
Að éta gæðingana
Langafi átti hest á fyrri hluta síðustu aldar sem var afburða gæðingur. Þátt frá Kleifum. Hann gaf honum alltaf grænustu tugguna sem til var og lét kýrnar mæta afgangi ef ekki var nóg til. Þetta þótti ekki til eftirbreytni.
Á þeim tíma þóttu þeir ekki miklir búmenn sem vildu rækta íslenska hestinn sem reiðhest. Allir vissu að hesturinn var fyrst og fremst þarfadrjúgur sem dráttarklár, burðardýr og nauðsynlegur til að komast á milli staða.
Þeir sem höfðu auga fyrir reiðhestseiginleikum hans þóttu eiginlega hálfgerðir ónytjungar enda ánægja af ferðalagi á hesti bara lúxus sem uppskafningar leyfðu sér. Óttalegt óeðli. Hestur er eins á bragðið hvort sem hann hleypur hratt eða hægt, segir hin sísvanga nytjahyggja.
Þeir höfðu betur sem vildu rækta gæðinginn í íslenska hestinum frekar en kjötið. Nú stunda tugir, jafnvel hundruð þúsunda reiðmennsku sér til ánægju og yndisauka, þúsundir hafa af honum atvinnu hér heima og erlendis og á Hólum í Hjaltadal hefur verið byggður upp háskóli sem sérhæfir sig í að kenna heiminum að rækta, temja og nota íslenska hestinn.
Fram til þessa hafa hinir sísvöngu slátrarar ráðið ferðinni í því hvernig við metum landið okkar. Þeim finnst fallegir staðir svo sem fínir en óttalegt pjatt. Maður étur ekki foss eða hver! "Af einhverju verðum við að lifa" segja sveitastjórar í útjaðri höfuðborgarsvæðisins moldugir um munninn af því að grafa upp frosnar rætur sér til lífsviðurværis. Eða hvað?
Þetta viðhorf er að hverfa. Jafnvel fólkið í röðunum fyrir utan leikfangabúðirnar sér hvað þetta er galið - að eyðileggja verðmætin í fagurri náttúru okkar til að leggja enn eina háspennulínuna í enn eina álbræðsluna. Sem allar eru innan við hálftíma aksturs frá Toys R us!
Rétt eins og íslenski hesturinn er náttúra landsins verðmætari á fæti um alla framtíð en sem saðning í eitt skipti. Slátrararnir eru á útleið. Við þurfum ekki að éta gæðingana.
![]() |
Óábyrgt að halda áfram með Bitruvirkjun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.11.2007 kl. 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)