15.11.2007 | 13:46
Ókeypisvæðing - kostir og gallar
Tilraunin um ókeypis í strætó er mjög góð og tel að við ættum að þróa hana frekar. Það er mikilvægt að skoða hvað hún færir okkur og að fá góða umræðu um málið. Ég vil því þakka fyrir góðar athugasemdir við síðustu færslu um þetta efni.
Hugmyndin um ókeypis í strætó er mjög vinsæl. Kannski er hún líka mjög góð og gæti orðið til þess að skapa hér alvöru samgöngumenningu og jafnvel sparað okkur peninga sem annars færu í að byggja umferðarslaufur og margbreiðar hraðbrautir. Mér finnst það ekki ólíklegt og tel að við ættum að láta gera kostnaðargreiningu á hinum ýmsu samgönguleiðum með það í huga að forgangsraða upp á nýtt.
Ef krafan um að geta ferðast óhindrað um borgina á álagstímum einn í bíl kostar skattgreiðendur mörgum sinnum meira en að bjóða fólki ókeypis í strætó eða að bæta hjólastíga (lýsingu, umhirðu og öryggi) þá eigum við auðvitað að endurskoða kerfið. Hanna það upp á nýtt þ.a. peningarnir okkar nýtist sem best og að við komumst greiðlega og með miklu öryggi á milli staða.
Ég geld samt dálítinn varhug við ókeypisvæðingunni. Mér finnst hún stundum vera ábyrgðarlaus. Ókeypis þjónusta er mjög vinsæl hugmynd, bæði hjá stjórnmálamönnum og kjósendum. Við hana eru bara tveir gallar, 1) ekkert er ókeypis í raun og 2) peningarnir sem settir eru í að bjóða þjónustuna ókeypis hafa tilhneigingu til að koma niður á þjónustunni sjálfri. Dæmi:
- Hvort viljum við hafa ódýrt í strætó og að hann gangi á 10-15 mínútna fresti eða hafa hann ókeypis og að hann gangi á 30 mínútna fresti?
- Hvort viljum við setja peninga í að bjóða öllum skólabörnum upp á ókeypis mat eða hafa hann ódýran en leggja peningana í að hafa hann betri og hollari?
- Hvort viljum við nota útsvarið okkar til að lækka leikskólagjöldin eða til að hækka launin svo hægt verði að manna þá?
Ókeypisvæðingin getur leitt til þess að við fáum ókeypis í strætó sem kemur of sjaldan, að við bíðum eftir ódýru leikskólaplássi sem er ekki til og að börnin okkar fái í skólanum ókeypis mat sem þau vilja ekki borða.
Það er fleira mikils virði en bara að komast á milli staða. T.d. að komast greiðlega á milli staða og ef það kæmi út úr kostnaðargreiningu á ólíkum samgönguleiðum að þjónustan við einkabílinn væri dýr miðað við aðrar leiðir væri möguleiki að forgangsraða upp á nýtt - og setja t.d. strætó í forgang í bókstaflegri merkingu.
Hvað ætli margir væru til í að taka strætó í vinnuna ef þeir sætu fastir í umferðinni á hverjum morgni og horfðu á strætó fljúga framhjá á forgangsakrein alla leið sunnan úr Hafnarfirði eða ofan úr Grafarvogi og niður í bæ? Skiptir það ekki líka máli?
14.11.2007 | 10:26
Ókeypis í Strætó?
Framtaksöm 10 ára stúlka í Grafarholtinu skrifaði fyrrverandi borgarstjóra bréf þar sem hún benti á að það væru ekki bara nemendur í framhaldsskóla og háskóla sem þyrftu og vildu nota strætó. Hún benti réttilega á að margir grunnskólanemendur þurfi að nota strætó í tómstundir því mömmur og pabbar geti ekki alltaf skutlað þeim á bíl. Henni finnst þess vegna að það ætti að gefa grunnskólanemendum frítt í strætó eins og hinum.
Um þetta er frétt í Fréttablaðinu í dag og þar er líka sagt frá nýsprottnum áhuga bæjaryfirvalda í Kópavogi á almenningssamgöngum en Ármann Kr Ólafsson mun vilja drífa í því strax að gefa öllum frítt í strætó. Þessar 400 milljónir sem koma inn af fargjöldum séu hvort eð er svo litlir peningar.
Nú vil ég alls ekki útiloka að það geti verið hagstæðara að gefa frítt í strætó en að ausa tugum milljaraða og óheyrilega miklu af borgarlandinu í umferðarmannvirki sem þó virðast aldrei duga til að anna eftirspurn eftir greiðri för á milli staða.
Mér finnst hins vegar, ólíkt Kópavogssjöllunum, 400 milljónir á ári talsvert mikið. Þetta eru peningarnir okkar, það vantar líka peninga í margt annað og af því "frítt í strætó" er mjög áhugaverð tilraun langar mig að vita hverju hún skilar áður en tekin er ákvörðun um framhaldið.
Í frétt Fréttablaðsins var stutt viðtal við mig um erindi ungu stúlkunnar í Grafarholtinu. Ég útskýrði þar að um tilraun væri að ræða og lét þar líka í ljós þá skoðun mína að fargjöld í strætó fyrir börn væru í raun ekki há. 20 miðar kosta 750 krónur svo hver ferð er á tæpar 38 krónur. Það er ekki mikill peningur. Fyrir 75 kr. kemst unga stúlkan á kóræfingu í Langholtskirkju með strætó en ef henni er skutlað og svo sótt má gera ráð fyrir að bara bensínið á bílinn kosti um 260 krónur.
Fyrir börn 12 - 18 ára kostar meira, eða 100 krónur, hvort sem keyptir eru miðar eða staðgreitt. Það er dálítið undarlegt - auðvitað ætti að vera ódýrara að kaupa marga miða í einu en að staðgreiða eitt far. Stór hluti þessa aldurshóps fær frítt eins og er af því þau eru í framhaldsskóla en fargjöld fyrir þennan hóp finnst mér að þyrfti að endurskoða. Án vafa verður það gert.
Önnur ung stúlka sem ég þekki vel hefur árum saman tekið strætó í tónlistarskólann sinn. Á tímabili vildu vinkonur hennar fá að fara með henni í tónlistarskólann og foreldrar hennar skildu ekki hvað var svona spennandi við að sitja frammi á gangi á meðan dóttir þeirra var í fiðlutíma. Í ljós kom að þær höfðu aldrei farið í strætó og fannst ævintýri líkast hvað vinkona þeirra var frjáls að fá að nýta sér þennan ferðamöguleika í stað þess að bíða eftir að foreldrar þeirra hefðu tíma til að skutla þeim.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
10.11.2007 | 00:04
Athugasemdir Græna netsins við fyrirhugaða Bitruvirkjun
Svæðið við Ölkelduháls er einstaklega fjölbreytt hverasvæði og verðmætt útivistarsvæði. Í Rammaáætlun 1 var Ölkelduhálsi með röngu raðað í hóp þeirra virkjunarsvæða sem minnstur umhverfisskaði væri að. Einkunn svæðisins sem útivistarsvæðis var ákveðin á grunni gagna sem flokkuð voru í gæðaflokki D. Engin lýsing er til á gæðaflokki D en lýsing á næsta gæðaflokki fyrir ofan, flokki C, er svona:
C vísar til svæða sem ekki voru heimsótt og fáir eða jafnvel engir úr faghópnum hafa séð og myndir voru afar takmarkaðar. C vísar einnig til þess ef framkvæmdalýsing var óljós þannig að erfitt var að átta sig á staðsetningu, umfangi og fyrirkomulagi mannvirkja (Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, viðauki B1 - gæði gagna).
Af þessu er ljóst að upphafleg ákvörðun um að stefna að virkjun á þessu svæði byggðist á mikilli vanþekkingu á verðmætum svæðisins. Nú er öllum sú vanþekking ljós og því ætti umræðan ekki að snúast um hvort og hvernig draga má úr umhverfisskaða af völdum fyrirhugaðrar Bitruvirkjunar.
Í nýrri rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða verður sérstaklega leitast við að kanna verndargildi háhitasvæða. Undirrituð telja í ljósi þessa nauðsynlegt að allir aðilar sem að málinu koma endurskoði allar ákvarðanir og leyfisveitingar varðandi fyrirhugaða Bitruvirkjun með þann möguleika í huga að draga þær til baka.
Engin þörf fyrir Bitruvirkjun.
Á bls. 14 í frummatsskýrslu er talað um tilgang Bitruvirkjunar og sagt að hann sé að mæta aukinni eftirspurn atvinnuvega eftir raforku. Vísað er í fyrirliggjandi samninga við Norðurál og Alcan, fyrirspurnir aðila sem vilja reka netþjónabú og kísiliðju. Samningur Orkuveitu Reykjavíkur (hér eftir OR) við Alcan um orku er bundinn staðsetningu í Straumsvík en ljóst er að ekki verður af þeirri stækkun þar sem getið er um í samningi. Hvað Norðurál áhrærir er ljóst að Hellisheiðarvirkjun mun sjá Norðuráli fyrir öllu rafmangi sem samið hefur verið um og tugum MW betur. Það ætti því að vera nóg orka til að mæta aukinni orkuþörf almennings og þeirra netþjónabúa sem hingað kunna að vilja koma.
Landsvirkjun hefur auk þess tilkynnt að fyrirtækið muni ekki selja frekari orku til álfyrirtækja en stefna að því að eiga næga orku fyrir önnur fyrirtæki, svo sem netþjónabú og kísilframleiðslu. Það er því engin nauðsyn á virkjunum við Hverahlíð og Bitru í bráð og nær væri að reyna að bæta orkunýtingu þeirra virkjana sem fyrir eru en að brjóta ný lönd undir frekari raforkuframleiðslu með einungis 13% nýtingu orkunnar. Undirrituð telja að í ljósi þessa raunveruleika verði að meta fórnarkostnað þann sem fyrirhuguð framkvæmd við Ölkelduháls hefur í fjör með sér.
Landslag.
Framkvæmdasvæði Bitruvirkjunar er ein fegursta náttúruperla í nágrenni höfðaborgarinnar. Svæðið einkennist af stórbrotnu landslagi og landslagsheildum, þar sem skiptast á ósnortin víðerni, fjölbreyttar jarðmyndanir, berggangar, brot og framhlaup, en svæðið er allt ríkt af jarðhita. Þá er að finna heitar laugar víðs vegar um landsvæðið. Meiri hluti framkvæmdasvæðis Bitruvirkjunar flokkast undir náttúruverndarsvæði enda er það nú á náttúruminjaskrá nr. 752, en þar segir m.a. Stórbrotið landslag og fjölbreytt að jarðfræðilegri gerð, m.a. jarðhiti." Á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði og í næsta nágrenni við það er að finna jarðmyndanir sem njóta sérstakrar verndar skv. 37. gr. l. nr. 44/1999 um náttúruvernd, svo sem einstakar hraungerðir, hverir og heitar uppsprettur, og ber þar einkum að nefna eldhraun sem rann úr Tjarnarhnúki. Verði virkjunin að veruleika verður þetta svæði fyrir óafturkræfum umhverfisáhrifum. Áhrifin eru einkum þau að heildstæðar landslagsheildir verða bútaðar niður og sérkennilegar jarðmyndanir fara forgörðum. Undirrituð gera alvarlegar athugasemdir við það að landslagið hafi ekki verið metið í heild sinni út frá ósnortnum víðernum og fjölbreyttum landslagsgerðum, heldur metið í áföngum. Ljóst er að víðernið hefur átt drjúgan þátt í verndargildi landsins sem lagt verður undir virkjunina verði hún að raunveruleika. Þá verður ekki unnt að koma í veg fyrir eða draga úr neikvæðum áhrifum Biturvirkjunar á landslagið. Við bætast sjónræn áhrif nýbyggingar í nær ósnortnu umhverfi. Með hliðsjón af markmiðum framkvæmdar og raunverulegri orkuþörf er óverjandi að fórna svæði sem hefur ámóta náttúruverndargildi og fyrirhugað framkvæmdasvæði Bitruvirkjunar.
Loftgæði
Gerðar eru alvarlegar athugsemdir við mat á áhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar á loftgæði í kafla 23.4-23.11 þar sem áhrifin eru sumpart vanmetin og að öðru leyti ekki gerð grein fyrir þeim óvissuþáttum sem fyrir hendi eru vegna skorts á þekkingu. Mengunarþættir af völdum fyrirhugaðrar Bitruvirkjunar eru koldíoxið (CO2), brennisteinsvetni (H2S), metan (CH4) og nitur (N2) en af þeim vegur losun koldíoxíðs og brennisteinsvetnis þyngst. Í matsskýrslu er greint frá því að áætluð losun af völdum Bitruvirkjunar séu 8.000 tonn af brennisteinsvetni á ári. Undirrituð telja það rýra gildi umhverfismatsins að ekki hafi verið metin samlegðaráhrif annarra jarðvarmavirkjana á sama svæði. Þegar það er virt að nú þegar má greina áhrif Hellisheiðarvirkjunar á gæði lofts í höfuðborginni hefði borið að meta samlegðaráhrif brennisteinsvetnis á loftgæðin af Hverahlíðarvirkjun, Bitruvirkjun og Hellisheiðarvirkjunum en gera má ráð fyrir að samanlögð losun brennisteinsvetnis verði nálægt 30.000 tonnum á ári þegar allar eru komnar í gagnið. Matsskýrslan gerir ekki grein fyrir þessum raunveruleika. Þá vantar og á að gerð sé grein fyrir áhrifum losunar koldíoxíðs á loftgæði, svo og á þátt losunar í umræðum um loftlagsbreytingar. Í 23.4 er gert ráð fyrir Bitruvirkjun muni losa um 40.000 tonn af CO2 út í andrúmsloftið á ári, en ekki minnst á að þegar horft er til nærliggjandi virkjana á Hellisheiði verður samanlögð losun þeirra 100.000 tonn af gróðurhúsalofttegundum árlega. Undirrituð taka undir það sem þegar hefur komið fram að bíða eigi með frekari virkjanir en leggja meiri vinnu og fjármagn í rannsóknir á áhrifum jarðvarmavirkjana á háhitasvæðum. Viðurkennt er að mikill munur sé á lágvarmavirkjunum og jarðvarmavirkjunum á háhitasvæðum en ekki liggur fyrir nægileg þekking á áhrifum hinna síðarnefndu á loftslag jarðar.
Lífríki og gróðurfar
Matsskýrslan ber með sér óviðunandi óvissu um áhrif jarðvarmavirkjunar á lífríki í hverum og á gróðurfar. Í kafla 25.7 kemur fram að ekki sé vitað til þess að fylgst hafi verið náið með lífríki í hverum fyrir og eftir virkjun jarðhitasvæða á Íslandi og því eru bein áhrif í kjölfar virkjunar ekki þekkt. Þá hefur ekki verið þróuð aðferð til að meta verndargildi hitakærra lífvera á háhitasvæðum, en unnið sé að því að þróa slíkar aðferðir og er áætlað að þeirri vinnu ljúki árið 2009. Undirrituð gera athugsemdir við að ráðist verði í Bitruvirkjun án þess að gert hafi verið nákvæmt gróðurkort af svæðinu og án þess að fjölbreytt lífríki hvera hafi verið rannsakað sem skyldi. Það er og ámælisvert að ekki sé stuðst við niðurstöður annarra rannsókna sem gerðar hafa verið á svæðinu en Sólveigar K. Pétursdóttur. Vitað er að fleiri sérfræðingar hafa staðið að rannsóknum á náttúrufari á Ölkelduhálsi, svo sem Jón S. Ólafsson vatnalíffræðingur en hann hefur um skeið rannsakað líf í heitu vatni, m.a. á Ölkelduhálsi. Undirrituð halda því fram að skortur á kerfisbundnum rannsóknum á Ölkelduhálsi leiði til þess að fresta eigi öllum framkvæmdum á svæðinu. Þegar nauðsynlegar rannsóknir liggja fyrir verður fyrst hægt að flokka jarðhitasvæði með tilliti til verndunar þeirra og nýtingu. Lífríkið á framkvæmdarsvæði Bitruvirkjunar er lítt eða ekkert þekkt, og er það reyndar viðurkennt í matsskýrslunni.
Ágeng orkuvinnsla og hækkandi raforkuverð.
Í frummatsskýrslu er fyrirhugaðri orkuvinnslu lýst sem ágengri en það felur í sér að eftir nokkurra áratuga nýtingu svæðisins mun þurfa að hvíla það í jafnlangan tíma. Nú bendir flest til að orkuverð í heiminum fari sífellt hækkandi, einkum verð á vistvænni orku. Margt bendir til þess að á næstu árum muni tækniframfarir bæta margfalt nýtingu jarðvarmavirkjana, bætt bortækni gefur fyrirheit um margfalda nýtingu með djúpborun. Þá er ljóst að þróun í stefnuborun getur á næstu árum gert mögulegt að nýta jarðvarma undir verðmætum náttúrusvæðum án þess að fara inn á þau.
Að þessu samanlögðu verður ekki annað séð en að með fyrirhuguðum virkjunum sé verið að fara í námuvinnslu á orku á óskynsamlegum tíma með tilliti til verðs auk þess sem verið er að eyðileggja mikil náttúruverðmæti með bráðlæti sem engin afsökun er til fyrir.
Ekki gerð grein fyrir forsendum virkjunarinnar með sannfærandi hætti
Í kafla 14.2, bls. 45, er fjallað um flutning raforku frá Bitruvirkjun til notanda. Það er augljós galli við matsferli stórframkvæmda, svo sem stórvirkjana í þágu stóriðju, að þar skuli einstakir þættir hennar vera metnir sér en ekki í samhengi. Nú er t.d. ekki vitað hvert leiða á þá orku sem fengist úr Bitru- og Hverahlíðarvirkjunum en ljóst að aðilar sem stefna að byggingu álvers í Helguvík hefðu áhuga á kaupum á því rafmagni.
Með því að stefna að virkjun á Hengilssvæðinu fyrir hugsanlegan orkukaupanda yst á Reykjanesi er ljóst að flytja þarf orkuna eftir endilöngu Reykjanesi. Sé svo í pottinn búið er í hæsta máta óábyrgt að gefa jákvæða umsögn um annaðhvort virkjun eða álver án þess að meta um leið áhrifin af flutningi orkunnar. Undirrituð fara því fram á að OR verði gert að tilgreina hvert selja á orkuna og sé það til eins stórs orkukaupanda þá verði heildaráhrif af framkvæmdum metin saman.
Hljóðvist
Í kafla 28 um hljóðvist segir að áætlaður hljóðstyrkur á rekstrartíma Bitruvirkjunar verði um 45 dB. Ljóst er að ein af þeim verðmætum sem svæðið býður nú upp á er kyrrð. Í skýrslunni er getið um viðmiðunargildi fyrir hámarkshávaða útivistarsvæða í þéttbýli sem eru 45-55 dB. Í fyrsta lagi er áhrifasvæði þar sem 45 dB hljóðmengunar mun gæta alltof stórt til að það sé ásættanlegt, í öðru lagi er algerlega fráleitt að bera saman útivistarsvæði á Hengilssvæðinu og græn svæði innan borgarmarkanna, hvað þá að einungis skuli stefnt að því að vera rétt innan hámarks hávaðamarka, og í þriðja lagi eru má búast við að hljóðdeyfibúnaður virki alls ekki alltaf sem skyldi.
Ferðaþjónusta og útivist
Þegar haft er í huga hve gríðarlega neikvæð áhrif fyrirhuguð Bitruvirkjum myndi hafa á útivist og ferðaþjónustu á svæðinu má furðu sæta að kaflinn um áhrif virkjunar á þennan þátt skuli vera jafn fátæklegur og raun ber vitni. Kaflinn byggir á afar takmörkuðum upplýsingum, þ.á.m. viðhorfskönnunum sem tengjast svæðunum og framkvæmdinni aðeins óbeint.
Orkuveitan minnist ekki á viðauka VGK hf. C en þar kemur fram að á árunum 2001-2002 hafi komið um 2700-4800 manns að Kattartjörnum í Reykjadal en það gefur vísbendingu um hve mikill fjöldi fólks leitar á Ölkelduhálssvæðið sem er í næsta nágrenni. Það vekur furðu að Orkuveitan telji ekki ástæðu til að geta þessara upplýsinga í matsskýrslu sinni. Í viðaukanum er einnig bent á að aukin uppbygging orlofshúsabyggðar í Grafningi muni auka á fjölda þeirra sem nýta vilja svæðið sem útivistarsvæði. Í sama viðauka kemur fram að fjöldi ferðamanna í skipulögðum ferðum ferðaþjónustuaðila um Ölkelduhálssvæðið er um 6500-7500 manns á ári og fer vaxandi. Í frummatsskýrslunni eru þessar tölur hins vegar affærðar og sagt að 5500-6500 manns fari árlega í skipulagðar ferðir um svæðið. Ekkert er minnst á að fjöldinn fari vaxandi. Það hljóta að teljast ámælisverð vinnubrögð að draga með þessum hætti úr mikilvægi svæðisins fyrir skipulagðaferðaþjónustu.
Í viðauka með matsskýrslunni (Rögnvaldur Guðmundsson 2006) eru margvíslegar upplýsingar um neikvæð viðhorf ferðafólks og ferðaþjónustuaðila gagnvart framkvæmdum OR við Bitru. Þar er einnig að finna athyglisverðar upplýsingar um tugi þúsunda ferðafólks um Hengilssvæðið árlega, sívaxandi áhuga innlendra sem erlendra ferðamanna á svæðinu og hina miklu áherslu sem erlendir ferðamenn leggja á að njóta útivistar í lítt snortnu umhverfi. Furðulega lítið af þessum mikilvægu upplýsingum rata á síður frummatsskýrslu fyrir Bitruvirkjun.
Undirrituð vilja undir þessum lið gera athugasemd við kafla 15.4 en þar er reynt að leggja mat á hvað myndi gerast ef OR réðist ekki í fyrirhugaðar framkvæmdir. Sá kostur er kallaður Núll kostur" og það telja undirritaðir villandi samanburð.
Í kaflanum segir:
Án nýtingar á jarðhita á Bitru má ætla að framtíðarþróun á svæðinu muni aðallega tengjast ferðamennsku og útivist. Skipulögðum ferðum á Bitrusvæðið gæti fjölgað á komandi árum í takt við aukinn ferðamannastraum til landsins. Þá þyrfti líklega að stuða að uppbyggingu stíga og lágmarks þjónustumannvirkja til þess að náttúran geti borið þann fjölda gesta."
Þessu eru undirrituð sammála en ekki því sem næst kemur í kaflanum:
Verði ekki af byggingu Bitruvirkjunar má því draga þá ályktun að þær auðlindir sem liggja í jarðhitanum yrðu því ekki nýttar. Tækifæri til þess að byggja upp jarðhitanýtingu í sátt við umhverfið og samfélagið munu því liggja ónýtt. Núll kosturinn þýðir, að mati framkvæmdaraðila, að aðeins hluti þeirra náttúruauðlinda sem svæðið býr yfir yrðu nýttar."
Þarna er réttu máli hallað. Ef ekki verður farið í Bitruvirkjun á svæðið gríðarlega möguleika á nýtingu sem þó krefst þess ekki að gengið sé á framtíðarvirði svæðisins, m.a. til orkuvinnslu. Núllkostur er því rangnefni, hér ætti að bera saman annars vegar uppbyggingu svæðisins sem útivistar- og ferðaþjónustusvæðis sem ekki rýrir framtíðarvirði svæðisins til annarra nota og hins vegar fyrirhugaða virkjun á Bitru sem rýrir stórkostlega til langrar framtíðar verðmæti svæðisins sem útivistar- og ferðaþjónustusvæðis.
Aðferðafræði mats á umhverfisáhrifum
Nú er hafin vinna við afar merkilegt verkefni, að meta til fjár heildarvirði þeirrar þjónustu sem vistkerfið Heiðmörk lætur mönnum í té. Þetta er mjög þekkt aðferðafræði erlendis og víða sjálfsagður hluti af matsferli framkvæmda á náttúrusvæðum.
Það vekur furðu og er e.t.v. til marks um hve stutt yfirvöld eru á veg komin á þessu sviði að mat á þjónustu vistkerfisins við Ölkelduháls og Hverahlíð skuli ekki vera hluti af eðlilegu matsferli.
Hefði það verið gert hefði OR verið skylt að vanda jafn vel til verka þegar lagt er mat á verðmæti svæðisins fyrir útivist- og ferðaþjónustu og þegar lagt er mat á orkuforða svæðisins og hugsanlegan hagnað af orkuvinnslunni.
Vinnsla jarðhita, ágeng orkuvinnsla og meðferð á hugtakinu sjálfbær orkuvinnsla.
Í kafla 19.5 er fjallað um vinnslugetu Bitrusvæðisins. Þar kemur fram að óvissa ríkir um orkugetu og hegðun fyrirhugaðra virkjunarsvæða á meðan aflað er reynslu um viðbröðg jarðhitakerfisins við upptöku á jarðhitavökva (Sveinbjörn Björnsson 2006)".
Einnig kemur fram í matsskýrslu, kafla 19.6, að á Bitru skorti upplýsingar fyrir gerð reiknilíkans til að spá fyrir um upphafsástand og vinnslusögu jarðhitakerfanna þar sem bor og vinnslusaga svæðisins sé of stutt. Mat á áhrifum af jarðhitavinnslu á Bitru er því ágiskun út frá reynslu frá Hellisheiði og Nesjavöllum sem eru talsvert heitari svæði en Bitra skv. matsskýrslu.
Miðað við ágiskun út frá reynslu af nýtingu á Hellisheiði og Nesjavöllum er það álit matsaðila að massaforði jarðhitakerfisins undir Bitru þurfi jafn langan tíma til að endurnýjast og nýting hans varir. Til að endurnýja varmaforðann til fulls þurfi allt að 1000 ár. Þá segir í matsskýrslu:
Vafi leikur á hvort slík vinnsla falli að öllu leyti að skilgreiningunni um endurnýjanlega orkugjafa þrátt fyrir að framkvæmdin teljist afturkræf. Þar sem vinnslan felur í sér að meira er tekið upp en kemur inn um jaðrana hafa Orkuveitan og ráðgjafar hennar kosið að kalla vinnslustefnuna ágenga."
Í kafla 19.7 um sjálfbæra þróun er reynt að fegra þessa staðreynd með því að spá því að ný tækni og þekking muni leiða til betri nýtingar orkunnar og því muni hámarksstig sjálfbærrar nýtingar orkunnar hækka og um síðir ná því nýtingarstigi sem nú er stefnt að.
Undirrituð gera alvarlega athugasemd við að von um bætta þekkingu í framtínni sé notuð til að draga fjöður yfir þá staðreynd að hér er um ágenga orkunýtingu að ræða. Nýtingaraðferð sem krefst þess að svæðið sé hvílt jafn langan tíma og það verður nýtt.
Þetta er vægast sagt ábyrgðarlaus notkun á hugtakinu sjálfbær orkunýting af fyrirtæki sem ætlar sér leiðandi hlutverk á heimsvísu í nýtingu jarðvarmaorku. Ekki er ástæða til að draga í efa að tækniþekkingu muni fleygja fram en því meiri ástæða ætti að vera til að bíða og sjá hvort sú þekking gerir okkur ekki kleift að nýta jarðvarmann með ábyrgari hætti.
Lokaorð
Í Hengilssvæðinu búa ómetanleg verðmæti í fagurri, fjölbreyttri og lítt raskaðri náttúru. Áður en Búrfellslína III var lögð skartaði Hengillinn stóru samfelldu lítt röskuðu svæði. Búrfellslína III klauf þetta svæði í tvennt og smækkað margfalt það svæði sem getur talist lítt raskað.
Fyrir útivistarfólk, innlent sem erlent, eru mikil lífsgæði í því fólgin að geta komist burt úr manngerðum heimi hversdagsins og sótt sér orku í lítt raskaðri náttúru. Slík orkuuppspretta ættu hin verðmætu náttúrusvæði Hengilsins að vera áfram.
Það er skoðun undirritaðra að á næstu árum ætti að fjarlægja Búrfellslínu III en vegurinn meðfram henni var einmitt lagður á dúk til að slíkt yrði mögulegt. Með því að falla frá áformum um Bitruvirkjun og vinna í samstarfi við eigendur Búrfellslínu að flutningi hennar og endurheimt svæðisins gæti OR skapað og staðið vörð um mikilsverð lífsgæði. Með því myndi OR sýna mikla samfélagslega ábyrgð og skapa öðrum fyrirtækjum á þessu sviði mikilvægt fordæmi.
F.h. stjórnar Græna netsins - félags jafnaðarmanna um umhverfið, náttúruna og framtíðina,
Mörður Árnason,
Katrín Theodórsdóttir,
Dofri Hermannsson.
9.11.2007 | 15:06
Stefnubreyting eða tækifærismennska?
Það er ekki gott að segja hvort hér er um stefnubreytingu eða tækifærismennsku af hálfu LV að ræða. Þeim er væntanlega orðið ljóst að andstaða við virkjun í Þjórsá fyrir álbræðslur er gríðarleg. Þeim er mikið í mun að fá að virkja þarna og því munu þeir reyna að finna sér virðingarverðari viðskiptavini.
Þrátt fyrir það er andstaðan samt sem áður hörð og þeir eru fjölmargir bæði í héraði og utan sem t.d. geta ekki hugsað sér að Urriðafossi sé fórnað - sama hvert fyrirtækið er sem ætlar að kaupa hann. Lón í mynni Þjórsárdals mætir líka harðri andstöðu víða.
Hvað sem því líður gefur þessi frétt undirrituðum tilefni til að endurskrifa athugsemd við tilgang Bitruvirkjunar en þar segir að tilgangurinn sé m.a. að mæta aukinni orkuþörf Alcan og eftirspurn eftir orku fyrir netþjónabú. Ekkert verður af stækkun Alcan í Straumsvík - en þeirri staðsetningu er samningurinn háður - og nú hefur Landsvirkjun tekið af OR ómakið hvað netþjónabúin varðar.
Þeim fækkar því óðum réttlætingunum fyrir virkjun í Bitru og e.t.v. engin eftir nema að halda lífinu í sveitastjóranum í Ölfusi.
![]() |
Landsvirkjun vill selja raforku til netþjónabúa en ekki nýrra álvera |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.11.2007 | 09:35
Sveitastjórinn í Örbirgð?
Í forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag er viðtal við sveitastjóra Ölfuss.
Hann segir ma: "Ef við ætlum yfirleitt að lifa á landinu þurfum við eitthvað til að vinna við....Við lifum ekki á loftinu einu saman, það er alveg á hreinu." Það er augljóst að sveitastjóranum þykir kjánalegt að standa vörð um eitt merkilegasta útivistarsvæði í nágrenni höfuðborgarinnar. Líklega veit hann sem er - maður étur ekki útivist! Eða hvað? Étur maður kannski útivist?
Hvað ætli margir lifi á því að þjóna útivistargeiranum á einhvern hátt? Hvað ætli þeir tugir þúsunda sem á hverju ári ganga um útivistarsvæði Hengilsins hafi lagt í mikinn kostnað til að gera einmitt það? Keypt mikið af útivistarfatnaði, útbúið vistir og tekið frá dýrmætan tíma einmitt til að ganga um Ölkelduháls, Reykjadal og aðra fagra staði á Hengilssvæðinu? Hvað með þá sem lifa af ferðaþjónustu sem er mjög vaxandi á þessu svæði?
Sveitastjórinn gefur lítið fyrir álit nágranna sinna í Hveragerði og segir þau engin áhrif hafa á áformin. Sveitarfélagið haldi ótrautt áfram með framkvæmdina og Skipulagsstofnun ákveði þá hvort hún hafni umhverfismatinu eða ekki.
Hann bítur svo höfuðið af skömminni með því að segja: "Svo hefur sveitarfélagið útslitavald að lokum og getur tekið aðra ákvörðun en Skipulagsstofnun, eins og við gerðum með námuna í Ingólfsfjalli." Finnst sveitastjóranum umgengnin í Ingólfsfjalli vera eitthvað sem sveitarfélagið ætti að hæla sér af?
Í þessari setningu kristallast margur umhverfisvandinn í dag. Þarna hótar sveitastjórinn m.ö.o. að hafa að engu ítrarlegar athugasemdir hundruða manna, nágranna sinna í Hveragerði og niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Staðreyndin er sú að hann getur það.
Eftir að búið er að gefa út rannsóknarleyfi í litlu sveitarfélagi þar sem stjórnendur hafa þá trú að til að lifa af landinu sé nauðsynlegt að skemma það er fátt sem stoppar einbeittan vilja til þeirra verka. Skipulagsvald sveitarfélaganna er gríðarlega mikið. Þegar því valdi er stýrt eins og sveitastjórinn boðar er flestum ljóst að þetta kerfi gengur ekki upp.
Þau viðhorf sem viðtalið við sveitastjórann endurspegla eru með ólíkindum. Þetta eru viðhorf sem e.t.v. hefðu verið afsakanleg hjá sveitastjóra í afskekktri byggð þar sem kjör væru verulega slæm en ekki hjá sveitastjóra í 1.854 íbúa úthverfi höfuðborgarinnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.11.2007 | 18:13
Furðulegt mat Umhverfisstofnunar
Á sínum tíma fékk OR að bora þrjár tilraunaborholur á Ölkelduhálsi án þess að þær þyrftu að fara í umhverfismat. Það sýnir okkur glöggt hve falskt öryggi skipulagslögin og framkvæmd þeirra gefa.
Ég furða mig ekki síður á niðurstöðu Umhverfsistofnunar. Mér datt í hug að það hefðu ruglast saman álit Umhverfisstofnunar og Samorku. Fleiri eru greinilega jafn hissa á þessu og ég.
Kannski er það með þessar varnarstofnanir umhverfisins eins og hríslurnar á Kjalarnesinu.
Ég hafði oft tekið eftir þeim, hríslunum rétt hjá sjoppunni á Kjalarnesinu, þegar ég ók framhjá í strekkingnum sem sífellt virðist vera þar. Þær halla að jafnaði ca 45 gráður undan vindinum.
Í sumar þurfti ég að stoppa í sjoppunni. Ég horfði á hríslurnar, opnaði hurðina, skaut öxlinni upp í vindinn - en viti menn! Það var blankalogn! Samt stóðu hríslurnar upp úr jörðinni með 45 gráðu halla.
Þurfa stofnanir sem hafa það sérstaka hlutverk að vernda og verja umhverfið ekki aðeins að hugsa sinn gang? Það eru nógir í hinu liðinu.
![]() |
Umhverfisstofnun telur umhverfisáhrif Bitruvirkjunar ekki verða umtalsverð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.11.2007 | 14:06
Hveragerðisbær leggst alfarið gegn Bitruvirkjun
Í nýrri frétt af heimasíðu Hveragerðisbæjar kemur fram að skipulags- og byggingarnefnd Hveragerðisbæjar leggst alfarið gegn Bitruvirkjun.
Nefndin gerir fjölmargar athugasemdir við framkvæmdina sem í heild má sjá hér.
Meðal þeirra athugasemda sem nefndin gerir eru:
Að mati nefndarinnar er Hengilssvæðið eitt mikilvægasta útivistarsvæðið (óspillta) á Íslandi, einkum vegna fjölbreytileika þess, auðvelt aðgengi að því og nálægð við þéttbýlasta svæði landsins. Öll breyting á núverandi yfirbragði svæðisins dregur úr gildi þess sem útivistarsvæði fyrir þá sem njóta vilja óspilltrar íslenskrar náttúru í öllum sínum fjölbreytileika. Í frummatsskýrslunni er í rauninni komist að sömu niðurstöðu en í niðurlagi 29. kafla segir ,, að áhrif Bitruvirkjunar á núverandi ferðaþjónustu og útivist verði talsverð Þá er ekki litið til þeirrar skerðingar sem framkvæmdin hefur á þá framtíðarmöguleika, sem svæðið býður upp á í ferðamannaþjónustu.
Samkvæmt frummatsskýrslunni hefur mengun, sem bundin er við framkvæmdatíma virkjunarinnar, óveruleg áhrif á yfirborðsvatn og þar sem niðurrennslisholur virkjunarinnar verði fóðraðar niður fyrir grunnvatnsstrauma muni afrennsli frá virkjuninni hafa óveruleg áhrif á grunnvatn á svæðinu. Nefndin telur að ekki sé tekið nægjanlegt tillit til mengunarhættu sem fylgir virkjunarframkvæmdunum og rekstri virkjunarinnar s.s vegna umferðar og fráveitu. Í þessu sambandi telur nefndin að ekki sé með fullnægjandi hætti sýnt fram á að framkvæmdin spilli ekki gæðum neysluvatns í Hveragerði. Bent er á að vatnsbólin eru einungis í um 4,5 km fjarlægð frá virkjunarsvæðinu. Ennfremur er bent á að niðurdæling affallsvatns frá Hellisheiðarvirkjun hefur enn ekki skilað fullnægjandi árangri.
Á virkjunarsvæðinu eru vinsælar göngu- og reiðleiðir, sem þar hafa verið um aldir. Samkvæmt frummatsskýrslunni munu yfirborðslagnir þvera reiðleið á svæðinu og verður því að finna henni nýjan stað ef af framkvæmdum verður. Að mati nefndarinnar spilla fyrirhugaðar framkvæmdir eða a.m.k. draga verulega úr gæðum göngu og reiðleiða á svæðinu.
Í frummatsskýrslunni er komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin hafi í för með sér allnokkra aukningu á hljóðstyrk á svæði, sem annars getur talist kyrrlátt svæði. Áhrifin eru þó talin bundin við framkvæmdasvæðið. Nefndin bendir á að í nútíma þjóðfélagi er kyrrð, ekki síst í ósnortinni náttúru, eftirsóknarverð gæði. Vegna reiðleiða á svæðinu má einnig benda á að hestar eru mjög viðkvæmir fyrir hávaða.
Samkvæmt frummatsskýrslunni eru áhrif framkvæmdarinnar á loftgæði óveruleg en áhrif hennar á lykt metin veruleg. Að mati nefndarinnar er lykt einn þáttur loftgæða. Nefndin bendir á nýlegar fréttir í fjölmiðlum um loftmengun í Reykjavík frá Hellisheiðarvirkjun vegna brennisteinsvetnis (H2S). Þá veldur brennisteinsvetni einnig áfalli á einstaka málmtegundir sem getur dregið verulega úr endingartíma raftækja. Vegna nálægðar svæðisins við Hveragerði (u.þ.b. 5 km) og vegna þess að norðanátt er ríkjandi vindátt á svæðinu þá er staðsetning virkjunarinnar af þessum sökum að mati nefndarinnar mjög óhagstæð Hvergerðingum.
Framkvæmdasvæðið er svo til í túnfæti bæjarins og fjölmargir ferðaþjónustuaðilar í Hveragerði og nágrenni eiga beinna hagsmuna að gæta í þessu máli. Nefndin telur að framkvæmd sem þessi þurfi mun meiri undirbúning, rannsóknir og kynningu og telur að marka þurfi heildar stefnu um jarðhitanýtingu á Hellisheiðar- og Hengilssvæðinu áður en lengra verður haldið í virkjanaframkvæmdum. Þannig verður nauðsynleg sátt um málið best tryggð.
Afgreiðsla: Nefndin er sammála um að hér sé um að ræða framkvæmd sem muni hafa veruleg skaðleg áhrif á möguleika Hveragerðis og nágrennis sem íbúða- og ferðamannasvæðis og leggst því alfarið gegn framkvæmdinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.11.2007 | 23:31
Alvöru umhverfisráðherra!
Þessi frétt var á vísi í dag - það er kærkomin tilbreyting að vera loksins kominn með umhverfisráðherra sem tekur sér stöðu með umhverfinu en ekki á móti.
Umhverfisráðherra hnekkir ákvörðun Skipulagsstofnunar
Umhverfisráðuneytið hefur hnekkt ákvörðun Skipulagsstofnunar um að fyrirhuguð virkjun í Hverfisfljóti skuli ekki sæta mati á umhverfisáhrifum. Í úrskurði ráðuneytisins kemur fram að ráðuneytið telji að umhverfisáhrif framkvæmdanna geti orðið umtalsverð og því verði ekki komist hjá því að fallast á kröfu kærenda um að framkvæmdin sæti mati á umhverfisáhrifum.
Fyrirhuguð framkvæmd við virkjun Hverfisfljóts samanstendur einkum af gerð nýs 6-8 km vegslóða á svæðinu, niðurgrafinnar 900-1.400 metra langrar þrýstipípu, 100-150 fermetra stöðvarhúss, yfirfallskants, aðrennslisskurðar, frárennslisskurðar og um 15.000 rúmmetra efnistöku úr Hverfisfljóti til vegslóðagerðar vegna framkvæmdarinnar," segir í tilkynningu frá ráðuneytinu. Með nýrri vegslóð að virkjanasvæðinu verður farið yfir Skaftáreldahraun á um 7 km kafla, þar af um 2 km um úfið hraun, er nýtur verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd."
Ráðneytið sendi kærurnar til umsagnar Umhverfisstofnunar, sveitarstjórnar Skaftárhrepps og Skipulagsstofnunar svo og framkvæmdaraðila. Umhverfisráðherra og starfsmenn umhverfisráðuneytisins þekktust einnig boð framkvæmdaraðila um vettvangsgöngu um fyrirhugað virkjunarsvæði að því er segir í tilkynningunni.
Í niðurstöðu ráðuneytisins segir m.a. að það taki undir þá afstöðu Umhverfisstofnunar að hraunið sé merkilegt á heimsvísu. Því þyki rök hníga að því að hagsmunaaðilum og almenningi gefist tækifæri til þess að gera athugasemdir og koma með ábendingar varðandi hina fyrirhuguðu framkvæmd í því lögbundna samráðsferli sem felst í mati á umhverfisáhrifum. Þá er það niðurstaða ráðuneytisins að áhrif virkjunarinnar á Lambhagafossa geti orðið umtalsverð og að sjónræn áhrif vegna framkvæmdanna geti orðið varanleg og óafturkræf á landsvæðinu.
Þá segir að þrátt fyrir fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir þyki þó ljóst að umhverfisáhrif framkvæmdanna geti orðið umtalsverð. Því verði ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar úr gildi og taka til greina kröfu kærenda um að hin fyrirhugaða framkvæmd skuli sæta mati á umhverfisáhrifum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.11.2007 | 10:01
Kynning á Bitruvirkjun í OR í dag kl. 17
Hvet alla sem áhuga hafa til að mæta á þennan fund í dag. Þar munu fulltrúar OR kynna sætustu útgáfu sem þeir telja sig geta boðið fólki upp á. Hér er auglýsing OR um fundinn:
Nýr kynningarfundur vegna umhverfismats nýrra virkjana.
Í ljósi umræðna um umhverfismat nýrra virkjana Orkuveitu Reykjavíkur undir Hverahlíð og í Bitru hefur fyrirtækið ákveðið að bjóða til nýs kynningarfundar um fyrirhugaðar framkvæmdir. Einungis einn gestur mætti á fund sem auglýstur var í blöðum og haldinn í höfuðstöðvum OR 3. október sl. Nýr fundur verður haldinn þriðjudaginn 6. nóvember kl. 17:00 að Bæjarhálsi 1. Frummatsskýrslur vegna framkvæmdanna eru m.a. aðgengilegar á vef Orkuveitunnar á slóðinni http://www.or.is/Forsida/Frodleikur/Skyrslurumumhverfismal.
Umhverfismatsferlið hefur staðið frá því á miðju ári 2006. Fundir hafa verið haldnir með ýmsum hagsmunaaðilum, s.s. aðilum í ferðaþjónustu, náttúruverndarsamtökum, sveitarstjórnum og fleirum. Hafa áformin tekið nokkrum breytingum á undirbúningstímanum og munar þar mest um að fyrirhugað framkvæmdasvæði Bitruvirkjunar hefur verið minnkað um meira en helming, dregið hefur verið úr sýnileika mannvirkja á svæðunum og athafnasvæði og stöðvarhús Bitruvirkjunar flutt fjær gönguleiðum og athyglisverðum jarðhitamyndunum við Ölkelduháls. Frummatsskýrslan var kynnt á tveimur opnum fundum sem haldnir voru 3. og 4. október í Reykjavík og í Hellisheiðarvirkjun.
Orkuveitan fékk rannsóknarleyfi á þessum svæðum árið 2001 og gildir það í 15 ár. Öll svæðin sem eru innan rannsóknarsvæðis Orkuveitunnar falla í umhverfisflokk (c) fyrir virkjunarkosti sem teknir voru til skoðunar í 1. áfanga Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma frá árinu 1999 og taldir eru hafa minnst umhverfisáhrif.
Markmiðið með virkjununum er að mæta aukinni eftirspurn atvinnuvega eftir raforku. Samningar liggja fyrir um að útvega raforku til álframleiðslu og þá standa yfir viðræður um raforkusölu til netþjónabús og kísilframleiðslu. Til að tryggja viðskiptavinum Orkuveitunnar fullnægjandi öryggi og til að anna vaxandi eftirspurn á næstu árum er ljóst að fyrirtækið þarf að auka framleiðslugetu sína á raforku.
Virkjanirnar eru í sveitarfélögunum Ölfusi og Grímsnes- og Grafningshreppi. Þær eru á því háhitasvæði sem kennt er við Hengilinn. Á þessu háhitasvæði eru þegar jarðgufuvirkjanir á Nesjavöllum og á Hellisheiði. Áætlað er að framkvæmdir við Hverahlíðar- og Bitruvirkjanir hefjist 2008.
Áætlað er að virkjun við Hverahlíð verði með uppsett afl 90 MW og Bitruvirkjun allt að 135MW.
Hengilssvæðið er eitt stærsta háhitasvæði landsins. Fyrsta borholan á svæðinu var boruð 1946 en nýting svæðisins til annars en heimanotkunar á bæjum hófst á Nesjavöllum árið 1990. Á áratugunum þar á undan fóru fram ýmsar rannsóknir á svæðinu, sem Orkuveitan kostaði að langmestu leyti. Nú er til ítarlegt reiknilíkan af afkastagetu alls svæðisins. Tilraunaboranir og nýting þess á Nesjavöllum og í Hellisheiðarvirkjun hafa gefið fyrirheit um að meiri orku sé að finna á svæðinu en varfærnar áætlanir byggðar á líkaninu gefa til kynna.
6.11.2007 | 09:38
Sorgleg bókstafstrú
![]() |
Þáði ekki blóð og lést af barnsförum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |