5.11.2007 | 00:07
Víðlesinn Össur
Fjölmiðlar eru skondið fyrirbæri. Ég hef séð nafnið mitt í þeim nokkrum sinnum (stundum vitlaust stafað en hvað um það) þessi tvö ár sem eru liðin frá því ég fór að skipta mér af pólitík. Mest þegar ég tók þátt í prófkjöri fyrir borgarstjórnarkosningarnar en þá skipti miklu máli að láta fólk vita af sér.
Ég hélt súpufundi með metnaðarfullri dagskrá og frábærum fyrirlesurum um nýja atvinnulífið og náttúru landsins. Stundum var vel mætt en fjölmiðlar sáust þar aldrei, þótt ég þrábæði þá. "Ef við mættum á málefnafundi hjá öllum frambjóðendum myndum við nú ekki gera mikið annað!" sagði ágætur fréttastjórnandi við mig.
Ég var svo grænn að ég hélt að hlutverk fjölmiðlanna væri að miðla skoðunum og áformum frambjóðenda til kjósenda. Kjánaskapur. En í staðinn fékk ég birta af mér mynd með uppáhalds heimilistækinu mínu í ágætu blaði. Dofri og nýi blandarinn! Það var skemmtilegt.
"Ókeypis auglýsing" sagði vinkona mín. "Ótrúlega margir sem lesa þetta!" Ég hugsaði með mér að vonandi myndi allt áhugafólk um blandara muna eftir þessum fremur geðþekka manni þegar kæmi að prófkjörinu. Sem það kannski gerði. Hver veit? Ég fékk alla vega komment frá mömmu og nokkrum vinum mínum. Þeim fannst blandarinn flottur en að ég hefði mátt brosa meira.
Mestu viðbrögð sem ég hef fengið við umfjöllun í fjölmiðli eru þó núna þegar Dr. Össur sýndi mér þann heiður að yrkja mér vísu og setja hana á bloggið sitt ásamt nokkrum línum um tilefni hennar. Við höfum stundum skipst á vísum en á því sviði er laxadoktorinn eins og fiskur í vatni.
Hann sendi mér vísuna í tölvupósti og spurði hvort hann mætti setja hana á bloggið. Það var auðsótt. Tilefnið var póstur sem ég sendi honum um að ég ætlaði að hætta sem framkvæmdastjóri þingflokksins á áramótum. Annað hvort gleymdi hann að geta ástæðunnar eða hann langaði að umvefja málið dulúð og skapa spennu í kringum það hvað ég væri að fara að taka mér fyrir hendur. Þá list kann hann öðrum betur.
Færslan var ekki fyrr komin á netið en yfir mig fór að rigna sms-um með spurningum um hvað ég væri að fara að gera. Ég fékk m.a.s. símtöl frá öðrum löndum! Þetta sló umfjöllunina um blandarann gjörsamlega út. Vefur Dr. Iðnós er greinilega jafn víðlesinn og af er látið.
Eins og ævinlega þegar um skemmtilega dulúð er að ræða er svarið við því hvað ég er að fara að gera og af hverju ekki jafn spennu þrungið og spurningin sem blogg doktorsins vakti. Það liggur eiginlega í augum uppi.
Nú þegar Samfylkingin er tekin við stjórnartaumum í Ráðhúsinu er tækifæri fyrir 1. varaborgarfulltrúa Samfylkingarinnar, varaformann Umhverfisráðs, ráðsmann í Velferðarráði, verðandi formann stjórnar grænna svæða Orkuveitunnar og Hverfisráðs Grafarvogs að láta til sín taka.
Ég ætla ekki að missa af því - til þess fór ég í prófkjör, hélt súpufundi og lét taka af mér mynd með blandara.
4.11.2007 | 20:53
Eignarnám óafsakanlegt
Þetta eru góðar fréttir. Landsvirkjun hefur setið á eldhúskollum hjá bændum við Þjórsá og rætt við þá einn og einn í einu. Boðið bætur fyrir land sem fer undir vatn og margvíslegar mótvægisaðgerðir. Yfir hangir hótunin um að fá lítið sem ekkert ef farið verður í eignarnám.
Eignarnám er mikið ofbeldi gagnvart eignarrétti einstaklings og er aðeins afsakanlegt þegar ríkir almannahagsmunir krefjast. Almenningur hefur enga hagsmuni af frekari stóriðju. Hvorki ríkisstjórn né sveitastjórnir geta krafist eignarnáms til að virkja Þjórsá í þágu stóriðju og ég hef enga trú á að það verði gert. Það væri óafsakanlegt.
Það er vonandi að landeigendur við Þjórsá láti hina þögulu hótun Landsvirkjun, ríkis í ríkinu, hafa hræða sig til hlýðni. Nú eða fáránleg tilboð um vegalagningu, vatns- og gagnaveitu.
![]() |
Landeigendur slíta viðræðum við Landsvirkjun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.11.2007 | 15:29
Búum til bremsur
Það kveður við nýjan tón í ræðu Iðnaðarráðherra um orkumálin á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag. Þar kom skýrt fram vilji ráðherrans til að stöðva þá þróun að einkaaðilar kaupi upp orkuauðlindir landsins, líkt og við liggur að þegar hafi gerst með Hitaveitu Suðurnesja.
Það er gjarna bent á að síðasta ríkisstjórn hafi tekið allar bremsur úr sambandi í þessum málum. Það er rétt og framkvæmdavaldið getur fátt gert til að stjórna því hvar byggðar eru virkjanir og álver ef ekki eru fyrir því lagaheimildir.
Það er býsna öfugsnúið að í miðri þenslu og skorti á vinnuafli, nú þegar Seðlabankinn hækkar vaxtabyrði íslenskra heimila og atvinnulífs um hálft prósent, þá skuli vera hamast við að koma upp álbræðslu í Helguvík. Álbræðslu sem krefst afar umdeildra virkjana vegna umhverfisáhrifa og línulagna sem mun stórskaða möguleika Reykjaness sem útivistarsvæðis.
Í ræðu iðnaðarráðherra kom fram að verið væri að gera úttekt á hagrænum afleiðingum af aukinni álframleiðslu á næstu árum. Niðurstöðunnar er að vænta á næstu mánuðum. Þetta eru góð tíðindi og á grunni þeirra niðurstaðna vænti ég að megi búa til nýjar bremsur.
Ég vona líka að strax verði farið í að endurbæta aðferðafræðina við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Mér þykir undarlegt að í því skuli hagkvæmni framkvæmda ævinlega miðuð við að ekkert annað yrði gert.
Af hverju eru ekki möguleikar Ölkelduháls sem útivistarsvæðis kannaðir til hlítar og bornir saman við hagnað af virkjun svæðisins? Er réttlætanlegt að granda svæðinu sem verðmætu náttúrusvæði án þess að þetta sé rannsakað? Gildir ekki það sama um Reykjanes í heild? Hver eru verðmætin sem fólgin eru í möguleikum svæðisins sem Eldfjallagarðs með ótal gönguleiðum, hellum og jarðfræðilegum undrum?
Ég legg hér með inn ósk um að þegar til stendur að virkja á verðmætum náttúrusvæðum verði þeir nýtingarmöguleikar svæðisins sem samrýmast verndun þeirra metnir og ákvörðun tekin með tilliti til þess og með varúðarregluna í huga.
![]() |
Núverandi löggjöf í orkumálum allsendis óviðunandi" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.11.2007 | 09:06
Gefum þeim það
Nú stendur til að virkja eitt fjölbreyttasta hverasvæði landsins til að útvega hluta af því rafmagni sem þarf í álbræðslu í Helguvík. Þetta er á Hengilssvæðinu, nánar tiltekið við Ölkelduháls, og því aðeins steinsnar frá þéttbýlasta svæði landsins. Fyrirhuguð virkjun gekk áður undir nafninu Ölkelduhálsvirkjun en hefur verið skýrð upp og kallast nú Bitruvirkjun. Frestur til að skila athugasemdum við mat á umhverfisáhrifum rennur út 9. nóvember. Áhugasömum er bent á vefsíðuna www.hengill.nu.
Svæðið ranglega dæmt
Á Ölkelduhálsi er að finna gríðarlega fjölbreytt úrval hvera og volgra lækja, landslag er þar fagurt og litskrúðugt, útsýni yfir Þingvallavatn og frábærar göngu- og reiðleiðir. Að mínu mati er þarna um að ræða eitt athyglisverðasta útivistarsvæðið í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.
Í Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarvarma var Ölkelduháls hins vegar dæmdur í þann flokk sem lítil eftirsjá væri að. Einn helsti sérfræðingur þeirrar vinnu benti mér fyrir nokkrum misserum á að þessi dómur væri byggður á röngum forsendum. Þar er ekki við vísindamennina að sakast heldur þá sem á þessum tíma fóru með völd og skömmtuðu naumt bæði tíma og fé til þessa mikilvæga verkefnis. Sérfræðingurinn benti mér á lista yfir gæði þeirra gagna sem röðun svæðanna byggir á og að gæði gagna fyrir Ölkelduháls sem útivistarsvæði væru í flokki D. Þetta þýðir á manna máli að enginn skoðaði svæðið og að fáar eða engar myndir af því voru skoðaðar áður en dómur var upp kveðinn.
Til hvers er virkjað?
Upphaflega stóð til að rafmagn af Ölkelduhálsi færi til stækkunar álvers í Straumsvík. Þeirri stækkun var hafnað og því gera fylgjendur álvers í Helguvík sér vonir um að vera næstir í röðinni. En vantar okkur fleiri álbræðslur með tilheyrandi þensluáhrifum framkvæmda á atvinnulíf og samfélag hér á suðvesturhorninu?
Atvinnuleysi hefur sjaldan verið minna en nú, í verslunum er erfitt að finna afgreiðslufólk sem hefur náð bílprófsaldri og flytja þarf inn erlent vinnuafl til að halda uppi grunnþjónustu í landinu. Mikil tækifæri eru í uppbyggingu margvíslegarar starfsemi á Vellinum og reiknað er með að á næstu 10 árum muni um 2000 störf skapast í kringum starfsemi Flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Það er því von að fólk spyrji sig hvaða nauð rekur okkur til að reisa álbræðslu í Helguvík.
Helguvík krefst fórna
Fyrir utan þensluáhrifin sem eru háir skattar, hækkandi húsnæðisverð og vaxandi misskipting krefst álver í Helguvík fleiri fórna. Án vafa mun framkvæmdin hafa neikvæð áhrif á byggðaþróun á Suðurlandi. Auk skemmdarverka á Ölkelduhálsi mun hún krefjast línulagna eftir endilöngu Reykjanesi og stórskemma möguleika þess sem meiriháttar aðdráttarafls fyrir ferðafólk, hún mun krefjast virkjana í Þjórsá sem djúpstæður ágreiningur stendur um og síðast en ekki síst mun hún krefjast fjölda virkjana á Reykjanesi sem enn hefur ekki verið sýnt fram á að standist umhverfismat eða skili þeirri orku sem álbræðslan krefst. Þá er alls ekki ljóst hvort fyrirhuguð álbræðsla í Helguvík er fullvaxið álver. Hún er kannski miklu frekar hálfver sem mun gera kröfur um stækkun líkt og gerðist í Hafnarfirði. Hvar á þá að virkja?
Hyggjuvit eða græðgi?
Eftir 60 ára nýtingu Ölkelduháls til raforkuframleiðslu þarf að hvíla svæðið í önnur 60 ár. Á næstu tuttugu árum er líklegt að hægt verði að nýta því sem næst alla orku jarðvarmavirkjana í stað aðeins um 13% hennar eins og í dag. Djúpborun gæti að auki 5-10 faldað nýtingu þeirra svæða sem þegar hefur verið raskað. Þetta tvennt gæti aukið nýtingu jarðvarmans allt að 80 falt á við það sem nú er mögulegt. Öllum ber saman um að verð á vistvænni orku muni hækka umtalsvert á næstu áratugum. Af hverju bíðum við ekki?
Gefum þeim það
Börnin sem fæddust ´87 eru tvítug á þessu ári. Þetta er fljótt að líða. Innan 20 ára mun betri bortækni gera okkur kleift að nýta orkuna undir Ölkelduhálsi og fleiri slíkum svæðum án þess að þess sjái merki á yfirborðinu. Bara ef við bíðum nokkur ár getum við sleppt því að eyðileggja þá auðlind sem fólgin er í verðmætri náttúru háhitasvæðanna. Bara ef við bíðum nokkur ár getum við margfaldað nýtingu orkunnar. Bara ef við bíðum nokkur ár munum við fá umtalsvert hærra verð fyrir hverja orkueiningu. Bara ef við bíðum nokkur ár getum við gefið börnum okkar og barnabörnum allt þetta. Höfum við ekki efni á því?
(birt í Mbl. 2. nóv. ´07)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
26.10.2007 | 11:11
Þættinum hefur borist bréf...
Ég hélt að umræðan um náttúruvernd, álbræðslur og virkjanir væri sérstaklega tilfinningaþrungin og að á því sviði væri fólki hættara að tala í kross en öðrum sviðum.
Ég hélt líka að Íslendingar væru yfirleitt mjög frjálslyndir í trúmálum og því kemur mér á óvart að sjá og finna hitann í sumum út af þeirri ósk meiri hluta samfélagsins (skv skoðanakönnunum) að Þjóðkirkjan leyfi samkynhneigðum pörum að kalla sig hjón.
Í gær barst mér bréf frá manni sem ég virði mikils en er mjög ósammála í þessu máli. Efni bréfsins var að frátöldum skömmunum fyrir að leyfa mér óábyrgt tal um Þjóðkirkjuna (?) rökfærsla fyrir því að halda hjónabandinu eingöngu sem heilögu sambandi karls og konu.
Bréfritari telur hjónaband karls og konu einstakt vegna æxlunarhlutverksins en viðurkennir þó jafnframt að hvorki þarf börn til að hjónaband sé fullgilt og að hjón geta eignast börn á fleiri vegu en með hinni aldagömlu aðferð. Bréfritari víkur einnig að hjónabandinu sem táknmynd fjölskyldunnar, besta skjól barna í uppvextinum og hornsteini allra samfélaga.
Þetta vekur spurningar. Ef æxlunarþátturinn er svona mikilvægur, hvað þá með samkynhneigt fólk sem hefur eignast sín börn með gamla laginu, jafnvel í heilögu hjónabandi? Eru slík börn og foreldrar verra efni í góða fjölskyldu en ef gagnkynhneigðir foreldrar væru að hefja nýtt samband?
Ef hjónabandið er í raun og sann táknmynd fjölskyldunnar - sem ég efa ekki - hvers eiga þá börn samkynhneigðra að gjalda að fá ekki viðurkenningu Þjóðkirkjunnar á sambandi uppalenda sinna og þar með ekki jafn gott skjól í uppeldinu og bréfritari telur hjónabandið vera?
Ég hef álasað Þjóðkirkjunni fyrir að fela sig í bókstafsþrætum í þessu máli í stað þess að breyta í anda trúarinnar á Krist, sýna umburðarlyndi og viðurkenna að málið snýst um sanngirni. Að öll pör sem vilja stofna til fjölskyldu standi jöfn gagnvart hornsteini samfélagsins hvort sem æxlunarfæri þeirra eru ólík eða af sömu sort. Ekki bara fyrir lögunum heldur líka í augum Þjóðkirkjunnar sem telur sig predika í nafni þess sem fyrir 2000 árum tók upp hanskann fyrir hórur og þjófa.
Einn þeirra sem hátt hefur í þessum málum krafði mig í kommenti um mína prívat afstöðu til kristninnar. Taldi mig jafnvel vera kominn út á hálan ís sem stjórnmálamann vegna athugasemda minna um Þjóðkirkjuna. Ef svo er þá er Ísland komið óþægilega nálægt vissum löndum í austri og vestri hvað tengingu trú- og stjórnmála snertir.
Það er hins vegar sjálfsagt að upplýsa að mín trú er, líkt og margra Íslendinga, blanda af trú á önnur líf, álfa og tröll og það góða í manninum, kærleika, umburðarlyndi og fyrirgefninguna eins og hann Kristur minn barðist svo mjög fyrir hér um árið. Inn í þennan kokteil blandast trú á náttúruna og að okkur beri að virða hana og vernda handa eftirkomendum okkar, fremur en að drottna yfir henni eins og sigurreifir stríðsherrar.
Mér fannst hér um árið komið nóg af peningum ríkisins til Þjóðkirkjunnar og ákvað að beina mínu framlagi frekar til Ásatrúarfélagsins. Það er trúfélag sem sýnir eftirbreytnivert umburðarlyndi gagnvart öðrum trúarbrögðum og þangað eru kristnir menn einkar velkomnir. Gott ef það trúfélag er ekki nær Kristi í anda en Þjóðkirkjan.
Mér er stórlega til efs að það sé Þjóðkirkjunni til góðs að vera sjálfvirkur áskrifandi að Íslendingum. Flestir Íslendingar fæðast inn í Þjóðkirkjuna og það þarf að taka um það sérstaka ákvörðun að vera ekki í klúbbnum. Ef fólk þyrfti að skrá sig í trúfélag yrðum það að velta hlutunum fyrir sér og valið yrði þá væntanlega upplýstara.
Fermingin væri þá e.t.v. nær því að vera það sem hún á að vera, staðfesting á skírninni. Ef við vildum að hún væri það í raun og veru ættum við líka að hækka fermingaraldurinn upp í 16 eða jafnvel 18 ár. En það er svo efni í aðra umræðu.
24.10.2007 | 11:33
Safnverðir trúarinnar
Umræðan um nýja Biblíuþýðingu og hjónaband samkynhneigðra styrkja mig mjög í trúnni.
Þeirri trú að íhaldsöflin sem stjórna Þjóðkirkjunni hafi fyrir löngu gefist upp á hinu heilaga verkefni sínu að túlka og predika "hið lifandi orð". Þjóðkirkjan er orðin að stóru rykföllnu trúarsafni. Umburðarlyndi, kærleikur og fyrirgefning eru dauð orð úr munni safnvarðanna.
Það er ekki undarlegt að viðhorf fólks breytist á 2000 árum. Það er heldur ekki slæmt. En af því að tímarnir breytast og mennirnir með þurfa þeir sem predika hið lifandi orð að láta inntakið í því sem Kristur boðaði vísa sér veginn en ekki orðalag í gömlum skruddum.
Ef herra Biskupinn gerði það væri hann ekki í nokkrum vafa um að samkynhneigðir hafa sama rétt á að njóta blessunar hjónabandsins og gagnkynhneigðir, bláeygðir eða örvhentir.
Ef Reykholtsprófastur teldi boðun fagnaðarerindisins mikilvægara en safnavörslu myndi hann t.d. sjá í hendi sér að það er gott en ekki slæmt að aðlaga leiðbeiningarritið (Biblíuna) þeim breyttu aðstæðum að konur hafa jafnan rétt og karlar. Bræður og systur.
Hitt er svo mikið vafamál hvort samkynhneigðir eiga að vera að eltast við að fá viðurkenningu á tilverurétti sínum hjá steingeldri kirkjustofnun. Það er ekki hægt að neyða bókstafstrúarmenn til að opna hug sinn. Það er betra að fyrirgefa þeim - og snúa sér annað.
Það er rétt um áratugur síðan sérstök nefnd innan kaþólsku kirkjunnar skilaði áliti þess efnis að jörðin væri ekki flöt. Vonandi verða hin frjálslyndu öfl innan Þjóðkirkjunnar eitthvað fljótari að draga hana inn í nútímann.
22.10.2007 | 15:39
Hvað myndi Jesús gera?
![]() |
Biskup Íslands: Ómaklega vegið að kirkjunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.10.2007 | 11:58
Til hvers álbræðslu í Helguvík?
Ég er einn þeirra sem á erfitt með að skilja rökin fyrir álbræðslu í Helguvík. Á næstu 10 árum er gert ráð fyrir um 2000 nýjum störfum við Flugstöðina og ýmis starfsemi á gamla Vellinum mun skapa fjölda starfa við allt milli himins og jarðar.
Eins og fréttir herma er fólki mjög að fjölga á Suðurnesjum. Þar kemur margt til, t.d. fjölgun starfa við Flugstöðina og ný starfsemi á Vellinum en líka sú staðreynd að með bættum samgöngum og hækkandi húsnæðisverði í Reykjavík eru Suðurnesin að verða ákjósanlegt svæði að búa á jafnvel þótt önnur fyrirvinna heimilisins vinni á höfuðborgarsvæðinu.
Atvinnusvæðið er að verða eitt og hið sama allt frá Borgarfirði til Selfoss og Suðurnesja.
Reykjanes er stórbrotið náttúrusvæði og býður upp á ótal möguleika sem útivistarsvæði. Hópur fólks sem þekkir vel til svæðisins heldur úti heimasíðunni www.ferlir.is en heimasíðan er mikill fróðleiksbrunnur um Reykjanesið, náttúru þess og menningarminjar.
Þessi miklu verðmæti bíða þess eins að verða uppgötvaðar af almenningi og ferðaþjónustuaðilum. Fyrir ferðaþjónustuna er æ mikilvægara að geta boðið upp á dagsferðir í fjölbreytta og stórbrotna náttúru. Reykjanes, náttúra þess og saga er hin sanna auðlind þessa svæðis.
Álbræðsla í Helguvík myndi að kosta línulagnir eftir endilöngu Reykjanesi og hvort sem þær verða lagðar í loft eða plægðar niður í jörð munu þær stórskemma svæðið sem útivistarsvæði og möguleika þess sem eldfjallaþjóðgarðs.
Álbræðsla í Helguvík myndi einnig kosta afar umdeildar virkjanir í neðri Þjórsá og eyðileggingu á Urriðafossi, einum vatnsmesta fossi landsins. Ekki er ólíklegt að einu fjölbreyttasta hverasvæði landsins við Ölkelduháls þurfi líka að fórna ef af verksmiðjunni verður.
Álbræðsla í Helguvík myndi þurfa vinnuafl sem ekki er til staðar á svæðinu. Margir óttast ruðnings- og þensluáhrif á Suðurnesjum vegna þessa og að svæðið muni hafa slæm áhrif á byggðaþróun á Suðurlandi. Ljóst er að við núverandi aðstæður hefði verksmiðjan slæm áhrif á hagkerfið og ýtti enn undir þenslu á svæði sem er nógu þanið fyrir.
Álbræðsla í Helguvík virðist því ekki vera það hagsmunamál fyrir íbúa á Suðurnesjum sem af er látið. Þvert á móti má færa fyrir því gild rök að álbræðslan ógni mikilvægum hagsmunum á svæðinu.
Álbræðsla í Helguvík gæti hins vegar verið stórt pólitískt hagsmunamál fyrir Árna Sigfússon, bæjarstjóra. Hann virðist ætla að gera álbræðslu í Helguvík að táknmynd fyrir sjálfan sig sem stjórnmálamann, verksmiðjan á að verða minnisvarði um hann sem bæjarstjóra og þarf að rísa áður en boðað verður til þingkosninga næst.
Það var umhugsunarefni að bæjarstjórinn skyldi í vor neita íbúum um að kjósa um þetta mál. Það er varhugavert þegar pólitískir hagsmunir valdhafa fara ekki saman með hagsmunum íbúanna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.10.2007 | 18:08
Þögnin rofin
Fráfarandi formaður Menntaráðs leyfði helst enga umræðu um manneklu í grunnskólum borgarinnar. Hann var á þeirri skoðun að það myndi gera ástandið enn verra. Hann bannaði enn fremur umræðu um launamál kennara og annars starfsfólks grunnskólanna.
Nú er nýr meirihluti kominn til valda í borginni. Nýi meirihlutinn er ekki hræddur við að ræða málin og trúir því að það sé líklegra til að finna lausn en að þegja um vandann og banna jafnvel fólki að tala um hann.
Ég treysti engum betur en Oddnýju Sturludóttur, nýjum formanni Menntaráðs, til að takast á við þetta stóra og spennandi verkefni.
![]() |
Skólastjórar segja ekki lengur hægt að halda úti lögboðinni kennslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.10.2007 | 01:00
Það sem gerðist á fundinum...
![]() |
Samstarfsslitin útrætt mál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)