18.10.2007 | 21:09
Hannesar-æskan og Villi gamli
Atburðarrásin síðustu daga er mikið áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn í heild, ekki síður en einstaka borgarfulltrúa hans. Eftir 12 ára valdatíma hinna meintu "glundroðaflokka" féll Sjálfstæðisflokkurinn saman vegna innri átaka eftir 16 mánuði.
Hannesar-æskan í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins hefur aldrei átt samleið með Vilhjálmi. Hann er sjálfstæðismaður af gamla skólanum, laus við kreddur ofurfrjálshyggjunnar en vill hafa alla hluti í hendi sér. Þetta sýndi sig vel þegar hann fór að skipta sér af því hvar spilasalir voru staðsettir og banna ÁTVR að selja kaldan bjór.
Það er ekki undarlegt þótt unga fólkið í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins finnist slíkar uppákomur neyðarlegar. Þegar við bætist að Vilhjálmur leyfir þeim ekki að fylgjast með því hvernig samningar um útrásararm OR þróast er skiljanlegt að gjáin á milli þeirra breikki verulega.
Þar varð mikill trúnaðarbrestur og ef marka má orð ungu borgarfulltrúanna í Fréttablaðinu í dag eru þeir enn á báðum áttum um hvorum eigi að trúa, Vilhjálmi eða Bjarna Ármannssyni. Öll orð þeirra um fullan stuðning við Vilhjálm sem leiðtoga sinn eru því út í bláinn.
Það er gott hjá Sjálfstæðismönnum að fara ofan í saumana á þessu máli. Innkoma formanns flokksins er þó undarleg. Dálítið eins og að setja plástur á opið beinbrot. Hefði ekki verið betra að hreinsa upp sárið, setja í gips og láta gróa? Kannski var það gert á bak við luktar dyr.
Óbreitt staða býður bara upp á áframhaldandi vandræðagang innan borgarstjórnarflokksins. Þótt valdabrölt Hannesar-æskunnar núna hafi kostað flokkinn völdin í borginni eru kynslóðaskipti í forystunni forsenda þess að flokkurinn eigi möguleika í kosningum 2010.
![]() |
Geir H. Haarde mætti á fund Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.10.2007 | 16:44
Rösklega gengið til verka
Þetta eru góðar tillögur, enda afrakstur funda með því fólki sem eldurinn brennur heitast á, þeim sem stjórna leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum borgarinnar, fulltrúum stéttarfélaganna o.fl.
Fyrri meirihluti hafði gefist upp við að ráða bót á manneklunni og vildi afhenda fyrirtækjum borgarinnar vandann. Það var fráleit hugmynd að halda að fyrirtækin í borginni myndu hlaupa upp til handa og fóta yfir því tækifæri að fá að reka leikskóla. Þetta daður við frjálshyggjuna var hins vegar það eina sem sjálfstæðisflokkurinn hafði fram að færa.
Það er því ánægjulegt að sjá að strax á fyrstu dögum nýs meirihluta séu komnar raunhæfar tillögur, byggðar á reynslu þeirra sem standa í eldlínunni en ekki útópíu Hannesaræskunnar.
![]() |
769 milljónir í aðgerðir vegna manneklu hjá Reykjavíkurborg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.10.2007 | 13:20
Ekkert mannlegt óviðkomandi
Það er enginn sauðsháttur á þeim í Borgarbyggðinni. Þar er búskapur með fjölbreyttasta móti og gulrætur, laxar, hestar, heilasellur og ferðamenn eru þeirra ær og kýr.
Ég á margar góðar minningar úr Borgarfirði og veit að þar geta oft orðið miklir sumarhitar. Eins hitnar bæði körlum og konum þar í hamsi á sveitaböllum, einkum þegar heitt er í veðri.
Þar sem Borgfirðingar eru einnig með eindæmum léttlyndir og miklir fjörkálfar þegar þeir sletta úr klaufunum gæti verið hyggilegt af landbúnaðarnefndinni að takmarka bannið við nektardans í atvinnuskyni.
![]() |
Landbúnaðarnefnd leggst gegn nektardansi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.10.2007 | 21:43
Eigum Árna mikið að þakka
Náttúru- og umhverfisvernd hafa ekki átt upp á pallborðið á Íslandi fyrr en síðustu ár. Sú breyting sem hefur orðið á viðhorfum hefur ekki gerst að sjálfu sér.
Það hefur oft þurft þolgott baráttufólk til að standa af sér Davíðskuna, Halldórskuna og Valgerðskuna og Árni Finns er líklega einn harðdrægasti og rökfastasti baráttumaður náttúru- og umhverfisverndar síðastliðinn áratug sem trúlega er sá náttúrufjandsamlegasti í íslenskum stjórnmálum frá upphafi.
Hann hefur leitt Náttúruverndarsamtök Íslands í 10 ár og á þeim tíma hafa samtökin áunnið sér mikla virðingu fyrir áreiðanleika og málefnalega gagnrýni hvort heldur er hjá náttúru- og umhverfisverndarfólki, stjórnvöldum eða hinum svokölluðu framkvæmdaraðilum.
Hann er vel að þessum verðlaunum kominn.
![]() |
Árni Finnsson heiðraður í London |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.10.2007 | 09:59
Vissi ekki að það væru konur í Frjálslynda flokknum!
![]() |
Vantrausti lýst á Margréti Sverrisdóttur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.10.2007 | 21:36
IKEA
Fórum í IKEA í dag. Markmiðið aðeins eitt, að kaupa baðskáp fyrir handklæði. Stutt ferð. Emil í Kattholti og Lína langsokkur tóku á móti okkur með blöðrum og nammi. Á leiðinni upp rúllustigann yfirbugaði neonlýsingin sólarljósið. Eftir nokkur skref til viðbótar vorum við kominn inn í völundarhúsið.
Endalausir ranghalar þar sem maður gengur í gengum hvert rýmið af fætur öðru hlaðið varningi sem maður er ekki að leita að. Eins og rottur í vísindatilraun. Ég fann lífþrek mitt smám saman dofna. Þurfti að taka á öllu mínu til að muna hvað það var sem ég kom til að kaupa.
Komum loks í deild þar sem brá fyrir baðhirslum af ýmsu tagi. Fundum lausn sem okkur líkaði og lögðum á minnið númer gangsins á lagernum þar sem hana væri að finna. Héldum ferðinni í gegnum völundarhúsið áfram. Leituðum að leiðinni í lagerhúsið. Merkingar vísuðu á það í tvær gagnstæðar áttir.
Ég snérist í hring og rakst á mann sem starði tómum augum beint fram úr andlitinu. Hann ríghélt sér í innkaupakerru. Ég sté skref til baka og horfði á strauminn taka manninn með kerruna og bera hann í átt að sófadeildinni.
Við hröðuðum okkur í hina áttina og skömmu síðar sáum við lagerganginum bregða fyrir. Fundum réttan stað á lagernum og lásum á miða í hillunni. "Vara væntanleg." Gengum út af lagernum og fórum í röð til að borga dyramottu sem við höfðum gripið upp á leiðinni.
Eftir að út var komið dró ég andann djúpt nokkrum sinnum. Tók eftir því hvað veðrið var fallegt, vindurinn ferskur, loftið tært og bjart yfir borg og mönnum. Ég fann lífsþrek mitt aukast á ný.
Maður er þakklátur fyrir hið smáa í lífinu eftir ferð í IKEA.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
12.10.2007 | 20:37
Sögnin að hlakka
Það er trúlega rétt hjá Svandísi að reynsluleysi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins átti stóran þátt í falli fráfarandi meirihluta. Leiða má að því líkur að meiri reynsla hefði komið í veg fyrir að þau höguðu sér með jafn óábyrgum hætti sem stjórnarflokkur og þau gerðu. Það ætti þó ekki að þurfa mikla reynslu til að átta sig á því að klöguferð til formanns flokksins án borgarstjóra veikir borgarstjórnarflokkinn gríðarlega.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins virðast hafa verið uppteknari af sjálfum sér en hollt getur talist. Sem flokkur virtust þau vera klofin í þrennt og af öllum sólarmerkjum að dæma voru þau ekki stjórntæk. Það sem kallað var dýrasta frekjukast Íslandssögunnar endaði á að verða pólitískt dýrasta frekjukastið í sögu Sjálfstæðisflokksins.
Það er erfitt að sjá að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins nái vopnum sínum á næstunni. Nýuppgötvað prinsipp þeirra varðandi REI er afar ótrúverðugt og þau ættu líka að fara varlega í að tala um heilindi. Borgarfullar nýja meirihlutans eiga margir sms skilaboð frá því upp úr hádegi í gær með ýmsum tilboðum. Jafnvel "með eða án Villa" rétt eins og verið væri að ræða um ís með eða án dýfu.
Það er samt óþarfi að hlakka yfir óförum sjálfstæðismanna í borginni. Öllum getur orðið á. Það er hins vegar í góðu lagi að hlakka til þess að takast á við hin ýmsu verkefni sem bíða. Og það gerum við í Samfylkingunni svo sannarlega.
![]() |
Reynsluleysi sjálfstæðismanna réði því hvernig fór" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.10.2007 | 09:46
Dýrasta leiðtogaprófkjör Íslandssögunnar?
Eftir því sem "REI kurrið" er skoðað betur því augljósara verður um hvað það snýst og um hvað það snýst ekki.
Auðvitað eru 6 menningarnir í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins ekki þau flón að hafa óvart samþykkt REI og fjölda annarra sambærilegra verkefna. Stefán Jón Hafstein er með ágæta samantekt á því í þessum pistli. Kjósendur eru heldur ekki þau flón að trúa því.
Óánægja 6 menninganna hefur ekkert með prinsippástæður frjálshyggjunnar að gera. Óánægja þeirra er annars vegar vegna mikilla valda samstarfsflokksins og hins vegna borgarstjórans og gamaldags stjórnunarstíls hans.
Það fór ósegjanlega í taugarnar á þeim að frétta það í gegnum minnihlutann - sem ekki hefur einu sinni fulltrúa í REI - að búið var að semja við hina og þessa um kauprétt í gróðabrallinu. Villi hafði ekki sagt þeim neitt sjálfur. Hann ber því við að hann hafi ekkert vitað um þetta en hann var með náinn trúnaðarmann sinn í stjórn REI svo enginn trúir þeirri skýringu.
Að stórum hluta er vantraust 6 menninganna í garð Vilhjálms verðskuldað en óneitanlega ber háttarlag þeirra líka merki þess að leiðtogabarátta innan hópsins sé hafin af fullum krafti. Kannski lauk henni aldrei eftir síðustu kosningar.
Gísli Marteinn og Hanna Birna eru nefnd sem líklegir arftakar Vilhjálms en ljóst er að Júlíus Vífill hefur líka áhuga. Það kom berlega í ljós þegar 6 menningarnir höfðu ákveðið að þegja þunnu hljóði um málið fyrir helgi. Þá stóðst Júlíus ekki mátið og gekk inn í ljóskeilu fjölmiðla meðan hin þögðu.
Það virðist því vera að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins sé klofinn í a.m.k. 4-5 hluta. Þar er nánast hver fyrir sig og æ fleiri kjósendur borgarstjórnarflokksins telja hann ekki stjórntækan.
Flestir sjálfstæðismenn sem ég hef hitt undanfarna daga, bæði úr röðum stjórnmálanna og kjósenda, eru á þeirri skoðun að Vilhjálmur hafi hvorki traust kjósenda eða samflokksmanna sinna. Undantekningalaust segja þeir jafnframt að það sé fráleitt af 6 menningunum að selja REI. Það væru einfaldlega svik við borgarbúa.
Ef af því verður er ljóst að hér er á ferðinni dýrasta leiðtogaprófkjör Íslandssögunnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.10.2007 | 18:35
Mega kennarar líka kaupa?
Er einhver sérstök ástæða til þess að almennt starfsfólk Orkuveitunnar fær að kaupa í REI á sérstökum kjörum frekar en annað starfsfólk borgarinnar, t.d. uppeldis- og umönnunarstéttir.
![]() |
Níu af hverjum tíu starfsmönnum Orkuveitunnar kaupa í REI |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.10.2007 | 18:10
Hægri glundroði!
Er það ekki dálítið merkilegt að 6 menningarnir innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins skuli allt í einu uppgötva að þeir eru í prinsippinu á móti því að OR komi þekkingu fyrirtækisins í verð? Eftir að hafa allir sem einn samþykkt að stofna REI gagngert í þessum tilgangi!
Höfðu 6 menningarnir gleymt þessari sannfæringu sinni? Höfðu þeir kannski bara ekki skilið samhengið í þessu - líkt og borgarstjórinn sem ekki skildi alveg samhengið í þessu með kaupréttarsamningana þegar trúnaðarmaður hans sagði honum frá því?
Er borgarstjórinn að skrökva þegar hann segist ekki hafa séð listann yfir kaupréttargæðingana á fundi OR? Treystir þjóðin borgarstjóranum eða vill hún að hann segi af sér? Svarið við því er að finna hér.
Það er ljóst að almenningur á 21. öldinni kann ekki að meta vinnubrögð 8. áratug síðustu aldar. "Gamla góða" spillingarlyktin þykir ekkert skemmtilegri en "gamla góða" bræðslulyktin - hvort tveggja finnst flestum tilheyra löngu liðinni tíð.
"Dýrasta frekjukast Íslandssögunnar" sagði maður sem ég mætti á gangi í Bankastrætinu í morgun. Það var sjálfstæðismaður sem er andvígur því að 6 menningarnir sem allt í einu mundu að þau voru frjálshyggjumenn rjúki núna í að selja REI á margföldu undirverði.
Ein skýringin sem ég hef fengið á skyndilegu frjálshyggjukasti 6 menninganna er að hér sé í raun að hefjast leiðtogaprófkjör sjálfstæðismanna fyrir næstu borgarstjórnarkosningar. Dæmi hver fyrir sig.
Alla vega er ljóst að innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins ríkir hatrömm valdabarátta og málefnalegur glundroði.
![]() |
Aukafundur í borgarstjórn á morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)