8.10.2007 | 15:48
Dýrt er stolt sjálfstæðismanna í borginni
Til að lappa upp á sært stolt sjálfstæðismanna í borginni á að drífa í að selja hlut borgarinnar í REI. Með því er að öllum líkindum verið að hlunnfara borgarbúa um tugi milljarða í hagnað af orkuútrásinni - útrás þekkingar sem almenningur hefur safnað á undanförnum árum og áratugum.
Með því er líka verið að setja almenning á Suðurnesjum í fullkomna óvissu því kaupi einkaaðilar hluta borgarinnar í REI er Hitaveita Suðurnesja í raun komin í einkaeigu. Ætli bæjarstjórinn í Reykjanesbæ kunni flokksfélögum sínum miklar þakkir fyrir?
Mér er til efs að 6% maðurinn samþykki þetta með glöðu geði. Það væri alla vega í hrópandi andstöðu við stefnu Framsóknarflokksins og ekki sýnist mér að Gestur Guðjónsson, hugmyndafræðingur flokksins, sé ánægður með þetta ráðslag.
Það getur þó vel verið að borgarfulltrúi Framsóknarflokksins kyngi þessu ef hann fær eitthvað sætt.
"Just a spoonful of sugar and the medicin goes down..."
![]() |
Stefnt að því að selja hlut Orkuveitunnar í REI |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.10.2007 | 14:14
Hagsmunir almennings virðast gleymast
Undanfarið hefur umræðan bara snúist um tvennt - spillingu og tilfinningalíf sjálfstæðismanna.
Þetta eru vissulega mikilvægir punktar, spilling og baktjaldamakk eins og hefur viðgengist í REI er ólíðandi. Fólk ætti líka að hafa samúð með tilfinningalífi sjálfstæðismanna í borginni sem núna eru allt í einu orðnir miklir talsmenn samræðustjórnmála.
Aðal málið er hins vegar hagsmunir almennings. Ef REI verður selt núna strax er búið að selja Hitaveitu Suðurnesja í hendur einkaaðila, dreifikerfi, orkuver og auðlindir. Er það réttlætanlegt til þess eins að lægja öldur innan borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna?
Ef REI verður selt núna er mjög líklega verið að hlunnfara almenning í borginni um tugi milljarða og afhenda þá einkaaðilum. Er það réttlætanlegt til að bjarga meirihlutanum úr sálarkreppu?
Af hverju má ekki bara hreinsa upp skítinn, þ.m.t. kaupréttarsamninga, kaup Bjarna Ármannssonar o.fl., skipa faglega stjórn sem starfar fyrir opnum tjöldum og selja svo hlut borgarinnar í fyrirtækinu þegar það fer á markað eftir 3 ár?
Hvaða hagsmuni er brýnna að vernda en hagsmuni almennings?
![]() |
Minnihlutinn í borgarstjórn biður um aukafund vegna REI |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.10.2007 | 09:18
Júlíus Vífill næsti borgarstjóri?
Vilhjálmur borgarstjóri er einangraður í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins. Hann er einn gegn sex samflokksmönnum sínum. Öllum er ljóst að í raun telja sexmenningarnir borgarstjóra hafa gengið allt of langt, ekki bara gegn yfirlýstum skoðunum sjálfstæðismanna, heldur of langt í spillingarátt. Æ fleiri innan Sjálfstæðisflokksins fordæma vinnubrögð borgarstjórans - nú einnig varaformaður flokksins.
Fyrsta ákvörðun sexmenninganna var að láta þögnina tala og þögn þeirra um óvönduð vinnubrögð borgarstjórans var hávær fyrstu dægrin. Það sem gerðist svo var áhugavert.
Nú hafa sexmenningarnir greinilega valið sér talsmann. Margir hefðu talið eðlilegt að Gísli Marteinn Baldursson hefði orð fyrir hópnum þar sem hann er formaður borgarstjórnarflokksins. Það er augljóslega ekki niðurstaða hópsins heldur virðist hópurinn hafa ákveðið að Júlíus Vífill Ingvarsson væri betur til þeirrar forystu fallinn.
Spurningin sem vaknar er þessi; er borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðismanna búinn að velja sér nýtt borgarstjóraefni?
5.10.2007 | 13:51
Manstu gamla daga....?
Í tíð síðasta meirihluta höfðu hverfisráð borgarinnar dálitla peninga til að veita til samfélagsverkefna, s.s. að stykja hverfisblöð og menningarlíf af ýmsu tagi. Þetta var fyrirkomulag sem R-listinn tók upp til að dreifa völdum og af því það var talið að hverfisráðin þekktu betur til í hverfum borgarinnar en rassvasinn á buxum borgarstjóra.
Eitt það fyrsta sem gamli góði Villi gerði sem borgarstjóri var að taka peninga hverfisráðanna til sín. Nú þurfa því allir sem áður gátu snúið sér til hverfisráðanna að koma bónarveg til hans, brosa blítt og taka í höndina á gamla góða Villa til að fá pening fyrir kórinn, eða hverfisblaðið. Svona eins og í gamla daga.
Gamla góða Villa finnst óþarfi að flækja málin með því að tala um þau við samstarfsfólk sitt í meirihlutanum, hvað þá í minnihlutanum. Þetta sést bæði í stóru og smáu, t.d. þegar hann við hátíðlegt tækifæri dró 50 milljóna aukaframlag borgarinnar til Leikfélags Reykjavíkur upp úr rassvasanum án þess að hafa minnst á það orði við samflokksmann sinn, formann menningar- og ferðamálaráðs. Það var svipuð stemning í karli þegar hann ákvað að færa spilasal úr Breiðholtinu, gefa Happdrætti HÍ lóð í vesturbænum og banna ÁTVR að kæla bjór í Vínbúðinni í Austurstræti. Engin samræðupólitík þar heldur verkin látin tala!
Gamli góði Villi hefur þó átt gott samband við einn aðila í meirihlutanum - 6% mann Framsóknarflokksins. Með blessun borgarstjóra hefur borgarfulltrúi Framsóknarflokksins undanfarnar vikur leikið sér með dótturfyrirtæki Orkuveitunnar eins og sitt prívatfyrirtæki. Í félagi við vin borgarstjóra, hefur hann gert fyrrverandi bankastjóra að stórum hluthafa án samráðs við stjórn Orkuveitunnar, skammtað sjálfum sér laun og fært kosningastjóra sínum og frænda borgarstjóra kaupréttarsamninga að verðmæti tugmilljóna án nokkurs rökstuðnings. Ber er hver á bakinu nema sér bróður eigi.
Þetta orðtak úr Grettlu minnir mann svo á annað áhugavert mál. Í maí á þessu ári greindu fjölmiðlar frá því að 6 daga gamalt fyrirtæki bróður borgarstjóra, Kvik ehf, hefði fengið lóð á 35 milljónir hjá Faxaflóahöfnum þar sem borgarfulltrúi Framsóknarflokksins er stjórnarformaður. Lóðin var eina eign fyrirtækisins og einu áformin þau að selja 80-90% í Kvik efh til annars fyrirtækis sem hafði áhuga á að reisa stálgrindarhús á hinni eftirsóttu lóð.
Að sjálfsögðu kom fram í fréttunum að borgarstjóri hafði ekki hugmynd um þetta allt saman og taldi þetta vera tilefni til að endurskoða reglur um úthlutun lóða fyrir atvinnuhúsnæði. Gaman væri að vita hvort sú endurskoðun hefur farið fram.
Það væri líka gaman að vita hvað hinir þegjandalegu sexmenningar í borgarstjórnarflokki gamla góða Villa eru að hugsa. Kannski óska þeir sér þess heitast að hann stígi skrefið til fulls og gangi til liðs við lyktarbróður sinn í gamla góða Framsóknarflokknum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
5.10.2007 | 11:17
Virkjum nýrnaauðinn!
Til að hámarka arðinn af auðlindinni væri best að hver einstaklingur léti taka úr sér annað nýrað við 18 ára aldur. Því yngra sem fólk er því fljótara er það að jafna sig eftir aðgerðina, líffærið er heilbrigðara, hærra verð fæst fyrir það og því fyrr sem hægt er að koma því í lóg því lengur er hægt að hafa rentur af söluvirðinu.
Auðvitað er fólki í sjálfs vald sett hvort það kaupir sér bíl fyrir milljónina eða fjárfestir í einhverju varanlegra. Einhverjir gætu eignast útborgun í íbúð, aðrir myndu kaupa sér dýrari menntun og enn aðrir ákveða að fjárfesta til elliáranna. Þannig gæti Gummi, áhættufælinn 18 ára menntaskólanemi, sett milljónina sína í öruggan sparnað með 5% nafnávöxtun og átt um 11 milljónir þegar hann hættir að vinna 50 árum síðar.
Höldum okkur við þessa hóflegu ávöxtun, reiknum með að hefja nýtingu þessarar auðlindar smátt og að aðeins um 3600 af rúmlega 4000 í hverjum árgangi 18 ára Íslendinga selji nýra sitt og setji í sparnað á ári hverju. Að 50 árum liðnum væri auðlindasjóðurinn Kidney Group, í dreifðri eignaraðild (180.000) íslensku þjóðarinnar, kominn upp 754 milljarða króna.
Bjartar vonir gera ráð fyrir 4 milljarða hagnaði af Kárahnjúkavirkjun á svipað löngum tíma. Það er því ljóst að hagnaðurinn af öllum virkjunum stórfljóta og jarðhita á Íslandi til samans bliknar við hliðina á því að virkja nýrnaauð landsmanna.
Þegar betur er að gáð er reyndar skemmtilegur skyldleiki með þessu tvennu.
Nýting nýrnaauðsins yrði ávallt gerð með ýtrustu hliðsjón af heilsu einstaklingsins og aldrei yrði nema annað nýrað tekið. Á sama hátt reyna orkufyrirtækin eftir fremsta megni að taka tillit til náttúrunnar og granda ekki verðmætum náttúruperlum - nema tryggt sé að önnur svipuð finnist annars staðar.
Þeir sem virkja nýrnaauðinn væru ekki aðeins að bæta sína eigin stöðu heldur bæta og bjarga lífi annarra um leið. Eins eru orkufyrirtækin að láta gott af sér leiða og framleiða græna orku fyrir álbræðslur svo þær neyðist ekki til að nota mengandi kolaorku í útlöndum.
Fyrir utan áberandi meiri hagnað hefur þó virkjun nýrnaauðsins tvennt umfram virkjun orkulindanna. Hættan á að nýrnagjafar láti lífið í nýrnatöku eru hverfandi eða um 1/100.000 og nýting auðlindarinnar er sannarlega sjálfbær því stöðugt fæðast nýjir einstaklingar sem nánast hver einasti er með tvö nýru þegar eitt er alveg nóg!
(Pistill birtur í Viðskiptablaðinu í dag)
4.10.2007 | 00:06
Fólkið svarar með fótunum
Að berja á fólki með hnútasvipu okurvaxta sem ekki einu sinni ítalska Mafían telur ráðlegt að taka af fólki gerir ekkert annað en að ýta öllum sem eiga annarra kosta völ út úr viðskiptum með íslensku krónuna.
Það var t.d. athyglisvert að lesa sérblað Viðskiptablaðsins í gær um Evrumálin en þar kom fram að fyrirtæki eru í sívaxandi mæli að borga starfsfólki sínu í erlendri mynt. Þetta finnst launþegum að sjálfsögðu ákjósanlegt því með þeim hætti geta þeir tekið erlend lán á hagstæðum vöxtum án gengisáhættu.
Líklega ætti það að vera helsta markmið uppeldis- og umönnunarstéttanna að fá hluta launa sinna greidd í Evrum og sleppa þar með við herkostnaðinn af óstöðugri krónu og okurlánum.
![]() |
Peningastefnuna skortir nauðsynlegan stuðning |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.10.2007 | 15:29
Endurskoðunar þörf
Það er gott mál að gildistöku þessara laga skuli hafa verið frestað og að nefnd á vegum Alþingis fái að fara yfir málið. Það eru ærin tilefni til að skoða lög um eignarhald á vatni upp á nýtt.
Núna erum við allt í einu í þeirri stöðu að bandarískt fyrirtæki er komið með aðra hönd á hluta af orkuauðlindum landsins og annað erlent fyrirtæki á drykkjarvatnsuppsprettur og flytur vatn út í gámum. Einkaaðilar eru að kaupa sig inn í veitustarfsemi og nýtingarréttur á vatni er orðinn veð fyrir útrás orkufyrirtækja líkt og kvótinn hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum.
Ekki það að ég sé meira á móti erlendum fyrirtækjum en öðrum en mér finnst sjálfsagt að stíga varlega til jarðar áður en við samþykkjum að einkaaðilar fái full og óskorðu einkaeignarréttindi yfir vatni þessa lands.
Mér finnst ekki óeðlilegt að einkaaðilar geti átt tiltekinn nýtingarrétt á vatni á ýmsu formi, þess vegna til nokkurra áratuga, en það er óásættanlegt að þjóðin muni ekki í framtíðinni eiga rétt til vatns.
![]() |
Gildistöku vatnalaga verði frestað fram á næsta ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.10.2007 | 11:58
Endurmat áforma um virkjanir í Þjórsá sjálfsagt mál
Það hlýtur að vera auðsótt mál og sjálfsagt fyrir sveitarfélögin að biðja Skipulagsstofnun um að meta upp á nýtt þessar áformuðu framkvæmdir í neðri Þjórsá. Rökstuðningur fyrir endurmatinu er góður og það vita líka allir sem fylgst hafa með þessum málum að framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum hefur verið að batna síðustu ár.
Þegar þessar áformuðu virkjanir fóru í umhverfismat var það aukinheldur í skugga umræðu um Kárahnjúkavirkjun. Þar sem frjáls félagasamtök hafa hvorki burði né jafna stöðu lagalega til að standa á móti hagsmunaaðilum var varla von að gagnrýnin á þessi virkjunaráform yrði mikil.
Af þessum sökum er mörgum, t.d. formanni Vg nokkur vorkunn að hafa talið þessar virkjanir sérstaklega æskilegan virkjanakost.
Það er hins vegar sjálfsagt mál að endurmeta áhrif og áhættumat vegna virkjana í neðri Þjórsá - ekki síst þegar svo þung rök s.s. um öryggi, grunnvatnsstöðu og ómetanlegar fornminjar krefjast þess að málið sé skoðað upp á nýtt.
Það væri undarlegt ef sveitastjórnarmenn vildu ekki að þetta yrði skoðað betur.
![]() |
Vilja nýtt mat á umhverfisáhrifum virkjana í Þjórsá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.9.2007 | 13:09
Hvað varð um lóðaloforð Sjálfstæðismanna í borginni?
Eins og kjósendur Sjálfstæðisflokknum í síðustu borgarstjórnarkosningum muna vel var eitt helsta loforð flokksins að úthluta öllum sem vildu lóð á verði sem aðeins næmi gatnagerðargjöldum. Þessu loforði hefur Sjálfstæðisflokkurinn nú hent út í ystu myrkur.
Þessi mál voru til umræðu á fundi í borgarráði í dag. Þar sem Sjálfstæðisflokkurinn tók upp aðferðarfræði fyrri meirihluta við lóðaúthlutanir ríkti samstaða um afgreiðslu málsins í borgarráði. Af gefnu tilefni bókuðu hins vegar borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar eftirfarandi:
Það er athygliverð samstaða um það í borgarstjórn að bjóða sérbýlishúsalóðir við Sléttuveg út til hæstbjóðenda. Sjálfstæðisflokkurinn laðaði hins vegar til sín kjósendur í borgarstjórnarkosningunum með því að lofa ódýrum lóðum fyrir alla. Fyrir tveimur árum var haft eftir Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni núverandi borgarstjóra að stefna Sjálfstæðisflokksins væri sú að úthluta lóðum á gatnagerðagjöldum. Á síðasta ári var þvert á þetta innleitt fast verð á lóðum í Úlfarsárdal sem jafngilda um fjórföldum gatnagerðargjöldum. Nú boðar Sjálfstæðisflokkurinn að lóðir við Sléttuveg verði boðnar hæstbjóðanda. Það er ekki nema von að vonsviknir kjósendur Sjálfstæðisflokksins séu undrandi og reiðir. Það stendur ekkert eftir af stærsta kosningamáli Sjálfstæðisflokksins.
26.9.2007 | 15:53
Lögreglan og grunnskólakennarar
Það er fagnaðarefni að dómsmálaráðherra skuli nýta sér þessa heimild til að koma í veg fyrir að þekking, hæfni og reynsla tapist úr stéttinni.
Þetta mætti flokksbróðir ráðherrans sem stýrir menntaráði Reykjavíkurborgar hafa í huga en hann sló út af borðinu svohljóðandi tillögu Samfylkingarinnar á fundi menntaráðs 20. ágúst sl.
Menntaráð hvetur til þess að skólastjórnendur nýti það fjármagn sem til fellur þegar ekki næst að ráða í stöður, í þágu kennara og starfsfólks skólans þar til úr leysist. Í þessu skyni samþykkir menntaráð að hvetja til þess að þær bókanir og ákvæði í kjarasamningi kennara sem nýtast þeim þegar um starfsmannaeklu er að ræða, verði nýtt. Ef í ljós kemur að ekki tekst að ráða í allar stöður stuðningsfulltrúa og skólaliða hvetur menntaráð einnig til þess að því starfsfólki verði greitt aukaálag taki það á sig meiri vinnu.
Lögreglan og grunnskólakennarar eiga það sameiginlegt að um störf þeirra gilda lög. Á meðan leikskólar geta brugðist við manneklu með því að fækka plássum verða grunnskólarnir að halda úti starfsemi sinni hvað sem tautar og raular. Það er gert með aukinni yfirvinnu kennara, niðurskurði á sérkennslu, fjölgun í bekkjum, fleiri ófaglærðum kennurum o.s.frv. Á endanum hlýtur þessi þróun að koma niður á gæðum skólastarfsins.
Lág laun og mikið starfsálag hefur öðru fremur fælt kennara frá því að starfa við sitt fag. Að auka álagið enn meira líkt og nú er gert mun stuðla að frekari flótta úr kennarastéttinni með þeim afleiðingum að verðmæt þekking, hæfni og reynsla tapast.
Formaður menntaráðs neitaði að taka afstöðu til tillögu Samfylkingarinnar á þeim forsendum að fagráðið menntaráð ætti ekki að fjalla um kaup og kjör kennara. Það er ábyrgðarlaus afstaða og undarlegt að formaður menntaráðs skuli ekki telja kaup og kjör kennara koma faglegu starfi grunnskólanna við.
Hann ætti að ráðfæra sig við flokksbróður sinn í dómsmálaráðuneytinu.
![]() |
Lögreglumenn fá greitt tímabundið álag á laun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |