24.9.2007 | 15:22
Sýndarmennska og útúrsnúningar
Um helgina fengu borgarbúar tvöfaldan skammt af sýndarmennsku meirihlutans hvað varðar leikskólamál og frístundaheimilin.
Formaður ÍTR kom sér í fréttir í laugardagsblaði Moggans og "fréttin" var sú að "Íþrótta- og tómstundaráð samþykkti í gær tillögu meirihlutans um að auka sveigjanleika frístundaheimila..."
Hvað var að gerast þarna? Jú, eftir 5 vikna fundahlé ákvað formaðurinn að tillögur Samfylkingarinnar um hlutavistun væru augljóslega besta einstaka ráðið í stöðunni. Þess vegna breytti hann bókun Samfylkingarinnar um málið frá síðasta fundi og kallaði hana tillögu meirihlutans.
Þetta er reyndar það sama og Samfylkingin mælti með og var hrint í framkvæmd í fyrra haust, eftir 6 vikna fundarhlé formanns ÍTR. Þegar farið var að bjóða foreldrum að kaupa vistun hluta úr vikunni fór að saxast á biðlistana. Meirihlutinn í ÍTR ákvað hins vegar í sumar af ráðkænsku sinni að hætta að bjóða upp á hlutavistun.
Það var nú helsta framlag meirihlutans til þessa málaflokks, fyrir utan að fella niður fundi á meðan hátt á annað þúsund börn bíða eftir plássi. Fyrir utan auðvitað núna að breyta orðalagi á bókun Samfylkingarinnar frá því á síðasta fundi 17. ágúst.
Kannski meirihlutinn komi líka fram sitt eigið orðalag á tillögu Samfylkingarinnar frá sama fundi um námsstyrki til starfsfólks frístundaheimila? Vonandi þarf samt ekki að bíða aðrar 5 vikur eftir því. Betra að meirihlutinn eigni sér tillöguna bara strax. Því fyrr kemst hún í framkvæmd.
Formaður leikskólaráðs skeiðaði hins vegar fram á ritvöllinn í sunnudagsblaði Moggans í ritdeilu við Bryndísi Ísfold, fulltrúa Samfylkingarinnar í leikskólaráði. Fyrirsögn greinar hennar var "Af engum hugmyndum". Það var við hæfi.
Eins og foreldrar leikskólabarna í Reykjavík vita hefur formaður leikskólaráðs upp á síðkastið skellt fram einni og aðeins einni hugmynd um hvernig mætti leysa mannekluvandann á leikskólum borgarinnar. Hún vill gera það með því að fyrirtækin taki að sér að reka leikskólanna.
Út frá þessari hugmynd hafa sprottið upp umræður um einkavæðingu, um faglegt starf slíkra skóla, um þá stöðu sem foreldrar setja börn sín í ef foreldri vill skipta um vinnustað - eða er sagt upp.
Það sem gleymist er hins vegar sú staðreynd að eignarhald fyrirtækja á leikskólum býr ekki til peninga, að engar líkur eru á að þeim gangi betur að manna leikskólana en öðrum og síðast en ekki síst - að ólíklegt er að fyrirtæki hafi það mikinn áhuga á að yfirtaka leikskóla borgarinnar að það muni hafa nokkur áhrif á biðlistana eftir plássi á leikskóla í borginni.
Upp úr þessari umræðu um fyrirtækjaleikskóla hefur formaður leikskólaráðs hins vegar kosið að velta sér fram og aftur og þyrla með því upp moldviðri um aukaatriði. Líklega af þeirri einföldu ástæðu að hún hefur enga hugmynd um hvernig á að takast á við aðalatriðið - að eyða biðlistum barna eftir plássi á leikskólum.
Er þá ótalinn sá vandi sem foreldrar ungbarna standa frammi fyrir og lýst er í fréttinni sem er tilefni þessarar færslu. Hvar eru ungbarnadeildirnar sem Sjálfstæðisflokkurinn lofaði fyrir síðustu kosningar?
Kannski í Landsbankanum? Eða Krónunni?
![]() |
60.000 fyrir vistun hjá dagforeldri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.9.2007 | 11:02
Tafir á gangsetningu Kárahnjúkavirkjunar
Gerð aðrennslisganga fyrir Kárahnjúkavirkjun hefur seinkað svo að gangsetning virkjunarinnar og sala orkunnar frá henni tefst um a.m.k. 7 mánuði. Talsmenn framkvæmdanna segja það engin áhrif hafa á arðsemi virkjunarinnar. Það er ekki rétt. Allur aukalegur kostnaður hefur áhrif, ekki síst hækkun stofnkostnaðar. Hæpið er að mikið sé eftir í liðnum "ófyrirséð" og enn eiga aukareikningar Impregilo eftir að bætast við - ekki síst vegna erfiðleika við borun fyrrnefndra aðrennslisganga.
Leyniskýrslan
Glöggir menn muna e.t.v. að það var m.a. þetta misgengi sem Grímur Björnsson, jarðeðlisfræðingur varaði við í skýrslunni sem Valgerður Sverrisdóttir lét stinga undir stól þegar heimildarlög um Kárahnjúkavirkjun voru til umræðu á Alþingi.
Rétt eins og Skipulagsstofnun, benti Grímur á að það væri verið að fara of hratt, fleira þyrfti að rannsaka og nefndi t.d. að betur þyrfti að kanna bergið þar sem bora ætti aðrennslisgöngin. Á hann var ekki hlustað og Skipulagsstofnun var snúin niður.
Leyndarmál
Í stuttan tíma átti ég sæti sem varamaður í stjórn Landsvirkjunar fyrir hönd borgarstjórnarflokks Samfylkingarinnar. Ég óskaði eftir því að vera leiddur í sanninn um hið ógurlega leyndarmál um verðið á raforkunni og arðsemi virkjunarinnar. Án þess að rjúfa trúnað get ég sagt að arðsemin stendur tæpt. Virkjunin þarf ekki að fara marga milljarða fram úr áætlun til að arðsemi eigin fjár fari niður fyrir þau mörk sem sett voru. Þá skiptir miklu máli hvernig gengi gjaldmiðla þróast, ekki síst dollars.
Þekkt verkfæri ekki notuð
Í arðsemisútreikningum var fórnarkostnaður náttúrverðmæta aldrei tekinn með í reikninginn. Það var stjórnvöldum ekki þóknanlegt sem sögðu slíka útreikninga er ómögulega. Eitt af því fyrsta sem ég las í umhverfishagfræðinni voru þó 40 ára gömul bandarísk kostnaðarhagkvæmni módel sérstaklega hönnuð til að takast á við ákvarðanir um óafturkræfar framkvæmdir á verðmætum náttúrusvæðum. Þekkt verkfæri og mikið notuð við ákvarðanatöku af þessu tagi. Hefði það verið gert leyfi ég mér að fullyrða að gríðarleg óvissa hefði verið talin á að arðsemin yrði viðunandi.
Aldrei raunhæfur kostur sem sjálfstæð framkvæmd
Athyglisverðast við uppfræðslu Landsvirkjunar um efnahagslegar forsendur Kárahnjúkavirkjunar var þó að fá staðfestingu á að aldrei hefði verið möguleiki að láta virkjunina standa undir sér sem sjálfstæða framkvæmd. Til að virkjunin mjakaðist upp fyrir lágmarks arðsemi var nauðsynlegt að taka veð í öllum eignum Landsvirkjunar og fá uppáskrift hjá ríkissjóði!
Þótt óþægilegum staðreyndum hafi verið sleppt í útreikninum, eignir almennings í fyrirtækinu veðsettar í topp og ríkið látið ábyrgjast framkvæmdina er enn stórkostlegt vafamál að Kárahnjúkavirkjun nái viðunandi arðsemi.
Þetta er dýr lexía og áríðandi framtíðarinnar vegna að við lærum hana upp á 10.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.9.2007 | 14:07
Liðkum til fyrir hjólandi umferð
Á þriðjudaginn samþykkti borgarstjórn tillögu sem miðar að því að efla hjólreiðar. Skoða á hvaða aðgerðir eru líklegastar til að bæta stöðu hjólreiða sem fullgilds ferðamáta innan borgarinnar.
Í umræðum í borgarstjórn benti ég á skýrslu um sérstakt hjólreiðaátak í Odense í Danmörku. Á árunum 1999-2002 lögðu yfirvöld 20 milljónir dkr. í verkefnið "Odense cykelby" en verkefnið gekk út á að greiða fyrir hjólandi umferð með breytingum á gatnakerfinu, breyta reglugerðum þ.a. þær tækjum meira mið af hjólandi umferð og í þriðja lagi var fjármunum varið í kynningu á hjólreiðum sem góðum valkosti í samgöngum.
Á þessum fjórum árum náðist að auka hjólreiðar um 20%, fækka slysum á hjólandi fólki um 20% og það sem mörgum þykir e.t.v. athyglisverðast - heildaæviárum Odensebúa fjölgaði um rúmlega 2000 og hið opinbera sparaði 33 milljónir í veikindadagpeningum. Það er dálagleg ávöxtun á 20 milljónir.
Í tilefni af samgönguviku fór ég í gær aðra leið en ég hjóla venjulega úr Grafarvogi í miðbæinn. Venjulega liggur leiðin í gegnum Bryggjuhverfið, Suðurlandsbrautina í Laugardalinn og svo sem leið liggur niður Laugaveg. Þetta er ekki sérlega skemmtileg leið eftir að komið er upp úr Laugardalnum vegna mikillar umferðar bíla inn og út af aðalbrautinni svo ég ákvað að kanna sjóleiðina.
Þar er mikil vinna eftir óunnin en frá Elliðavoginum er enginn hjólastígur svo heitið geti fyrr en við Kleppsveg eftir að komið er framhjá gamla IKEA. Eftir það er hins vegar nokkuð góð hjólagata eftir Sæbrautinni. Sums staðar lenti ég að vísu inn á gangstéttarbútum sem ég uppgötvaði skömmu síðar að lágu bara að strætóskýlum svo þar varð að snúa við.
Vegna allra þeirra króka og tafa er maður nokkurn veginn jafn lengi að hjóla úr Grafarvogi eftir Suðurlandsbraut og Laugarvegi eins og ef maður færi Fossvoginn og niður í Nauthólsvík, þótt það sé talsvert lengra. Hvort tveggja tekur svona 35 mínútur. Ef stysta leið væri hins vegar hugsuð með forgang og þarfir hjólandi fólks í huga væri eflaust hægt að stytta þennan hjólatúr niður í ca 25 mínútur.
Öryggi hjólandi fólks er ábótavant af því göturnar taka ekki mið af þessum ferðamáta. Víða á göngustígum eru blindbeygjur og hætta á að rekast á annað hjólandi eða gangandi fólk. Engar reglur eru til um í hvaða átt hjólreiðafólk má hjóla og þess vegna átta ökumenn sig oft ekki á því þegar hjól koma eftir gangstéttum úr annarri átt en bílaumferðin.
Úr þessu og mörgu öðru þarf að bæta. Það er vonandi að í Umhverfisráði fáum við að móta metnaðarfulla áætlun um að gera hjólreiðar að alvöru samgöngukosti - og fjármagn til að fylgja slíkum tillögum eftir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.9.2007 | 16:48
Hvalveiðar í minningarskyni!
Hvalveiðiævintýrið sem hófst í fyrra með því að ellismellir sigldu á gufuskipum út á sundin er orðin hálfgerð sneypuför. Aðeins hafa verið veidd 7 dýr af 30 og langreyðarnar sem gömlu mennirnir skáru í fyrra í nostralgíukasti, með sultardropa í nefi liggja enn í frysti!
Það er kominn tími til að setja punkt aftan við þetta ævintýri og afgreiða þessar veiðar eins og þær eru í raun og veru - hvalveiðar í minningarskyni. Þorrablótsveiðar, svona rétt til að græja súra rengið.
![]() |
Veiðikvóti hrefnuveiðimanna framlengdur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.9.2007 | 13:35
Evruvæðing ferðaþjónustunnar og "Öngstræti peningamálastefnunnar"
Í lítilli frétt á síðu 21 í Mogga dagsins segir í fyrirsögn "Fyrstu evruposarnir".
Þar segir að fyrirtækið Kortaþjónustan hafi sett upp fyrstu posana hér á landi sem taka við evrum. Posarnir eru sérstaklega hugsaðir fyrir ferðaþjónustuna en nýnæmi þeirra er að þeir gefa upp verð í evrum og - eins og áður segir - möguleikann á að greiða með evrum fyrir vörur og þjónustu.
Þetta er tímanna tákn. Allir sem mögulega geta eru að flýja herkostnaðinn af óstöðugri krónu. Ferðaþjónustan hefur eins og aðrir útflutningsatvinnuvegir farið illa út úr gengisflökti krónunnar og ljóst að æ fleiri ferðaþjónustufyrirtæki munu reyna að færa öll sín viðskipti - einnig launaliði - yfir í evrur.
Það gæti verið snjallt, jafnt fyrir ferðaþjónustufyrirtækin sem starfsfólk þeirra. Það væri drjúg búbót fyrir starfsfólk þeirra að geta, án gengisáhættu, tekið óverðtryggð erlend íbúðar- og bílalán á broti af þeim vöxtum sem hagstæðust bjóðast á íslenskum lánum.
Afborganir alls af algengu erlendu íbúðarláni upp á 10 milljónir til 40 ára eru um 16 milljónir. Af verðtryggðu íslensku láni á hagstæðustu vöxtum má hins vegar reikna með að þurfa að borga um 50 milljónir á jafn löngum tíma. Algeng upphæð íbúðarlána í dag eru 20 milljónir svo það má tvöfalda þetta.
Það er drjúg kjarabót að losna við 72 milljóna skatt til 40 ára með því að geta tekið erlent fasteignalán án gengisáhættu. Ég er ekki frá því að þetta ætti að vera meginsamningsmarkmið kennarastéttarinnar í komandi kjarasamningum.
Ég vil líka vekja athygli á góðri grein undir fyrirsögninni "Öngstræti peningamálastefnunnar" eftir Ársæl Valfells, lektor í HÍ, á bls. 28 í sama Mogga. Hann bendir á þá klemmu sem Seðlabankinn er kominn í með peningamálastefnunni.
Með því að hækka stýrivexti hefur Seðlabankinn reynt að draga úr eftirspurn eftir fjármagni. Í umhverfi þar sem flæði fjármagns er frjálst hvetur þetta hins vegar til útgáfu jöklabréfa og stóraukinnar erlendrar lántöku. Innspýting þessa fjármagns ýtir genginu upp og nú er svo komið að Seðlabankinn á erfitt með að lækka vexti því það myndi valda því að jöklabréfin hyrfu, gengið félli og verðbólga ryki upp.
Mér sýnist æ fleira benda til þess að allir sem möguleika hafa á, bæði fólk og fyrirtæki, verði löngu búin að taka upp evru eða annan stóran gjaldmiðil áður en Ísland sest niður til að ræða samningsmarkið við Evrópusambandið.
Sú hugmynd að taka Evru upp einhliða verður æ forvitnilegri kostur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2007 | 20:55
Uppgefinn borgarmeirihluti ófær um að takast á við manneklu á leikskólum og frístundaheimilum
Í borgarstjórn í dag var hart tekist á um leiðir til að leysa mannekluvanda í leikskólum borgarinnar. Meirihlutinn vill velta ábyrgðinni á þjónustu leikskólanna yfir á fyrirtækin. Fyrirtækjaleikskólar er sú lausn sem meirihlutinn telur líklegasta til að vinna á biðlistum eftir plássi á leikskólum.
Það verður jafn erfitt fyrir fyrirtækin að ráða starfsfólk og leikskóla borgarinnar ef ekki á að hækka laun starfsfólksins. Hærri laun verða ekki borguð nema að draga saman í þjónustunni eða að fyrirtækin borgi laun umfram framlagið sem fæst frá borginni.
Þá get ég ekki betur séð en að borgarmeirihlutinn sé farinn að leggja skatt á fyrirtæki. Leikskólaskatt sem fyrirtækin verða að borga til að tryggja að starfsfólk þeirra geti stundað vinnu sína. Þessi hugmyndafræði er undarleg blanda af uppgjöf og útvistun.
Þau fyrirtæki munu sinna kallinu sem geta og vilja, önnur ekki og foreldrar sem vinna hjá þeim síðarnefndu verða þá eftir sem áður í sama mannekluvanda og áður. Jafnvel meiri - ef fyrirtækjaleikskólarnir borga betur. Ég á reyndar eftir að sjá að fyrirtæki rjúki upp til handa og fóta og stofni leikskóla.
Á meðan borgarstjórnarmeirihlutinn eyðir tíma og kröftum í að ræða fram og aftur hvernig væri hægt að varpa pólitískri ábyrgð sinni á leikskólamálum yfir á fyrirtækin bíður fólk enn eftir að börnin þeirra fái leikskólapláss.
Uppgjöfin er enn sorglegri í ÍTR þar sem hátt á annað þúsund börn bíða eftir plássi á frístundaheimilum borgarinnar. Íþrótta- og tómstundaráð á að funda aðra hverja viku. Margir hefðu haldið að þeir sem kalla sig athafnastjórnmálamenn myndu reyna að funda oftar þegar þúsundir bíða eftir því að málin verði leyst.
Formaður Íþrótta- og tómstundaráðs hefur ekki haldið fund í Íþrótta- og tómstundaráði í 5 vikur! Í fyrra haust liðu 6 vikur á milli funda á meðan fólk beið eftir aðgerðum. Hvers vegna? Er það af áhugaleysi eða af því að hann kemst ekki yfir að sinna því sem hann hefur tekið að sér? Of erfitt að vera 6% maður með 35% völd?
Meirihlutinn hefur gefist upp á því pólitíska hlutverki sínu að takast á við mannekluvandann. Farsælast væri fyrir borgarbúa að meirihlutinn segði sig frá þessari pólitísku ábyrgð sinni. Útvistaði henni einfaldlega til minnihlutans.
Samfylkingin er tilbúin að taka verkefnið að sér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
16.9.2007 | 15:53
Ályktun borgarstjórnarflokks Samfylkingarinnar í tilefni Samgönguviku
Samfylkingin vill:
- Öflugar almenningssamgöngur og forgang á allar helstu stofnbrautir fyrir strætó
- Stuðla að styttri ferðatíma og vistvænum samgöngum í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur
- Að hjólreiðar verði öruggur og skjótur samgöngumáti með gerð stofnstíga meðfram helstu samgönguæðum um allt höfuðborgarsvæðið
- Öskjuhlíðagöng í stað mislægra gatnamóta á Miklubraut/Kringlumýrabraut
Borgarstjórnarflokkur Samfylkingarinnar lýsir áhyggjum af þeirri óvissu sem ríkir um stefnu Reykjavíkurborgar í samgöngumálum. Skilaboð sitjandi meirihluta eru misvísandi og engin leið að festa hendur á hvaða fylkingar innan hans hafa yfirhöndina hverju sinni.
Samfylkingin vill öflugar almenningssamgöngur og telur áhyggjuefni að þjónusta strætó hefur verið skorin stórlega niður síðast liðið ár. Tíðni og þjónustustig er nú lakara en áður og helgidagatíðni er nú alla vikunna í fjölmennum íbúahverfum. Almenningssamgöngur hafa aldrei verið fjær því að vera fullgildur samgöngumáti fyrir stóran hluta Reykvíkinga. Á sama tíma er þó gerð tilraun til að fjölga í strætó með niðurfellingu fargjalda til ákveðinna hópa. Sú tilraun er allra góðra gjalda verð þó of snemmt sé að segja til um hvort hún nái settum markmiðum.
Ánægjulegt er að meirihluti borgarstjórnar hefur tekið upp stefnu fyrri meirihluta um að efla aðra ferðamáta en einkabílinn. Þvert á þetta er þó enn rætt um þriggja hæða mislæg gatnamót á Miklubraut-Kringlumýrarbraut sem fyrir liggur að munu sáralitlu skila nema fjárútlátum, aukinni umferð og enn frekari umferðarstíflum á öllum næstu gatnamótum. Miklu nær væri að grípa til heildstæðra aðgerða til að dreifa umferð betur um gatnakerfið og draga úr álagspunktum. Öskjuhlíðagöng myndu vinna að slíkum markmiðum og þau ásamt stokkalausnum á Miklubraut ættu skilyrðislaust að fá forgang umfram mislæg gatnamót á Miklubraut-Kringlumýrarbraut.
Því leggur Samfylkingin til:
- Að nýtt aðalskipulag Reykjavíkur setji aukin lífgæði, gott umhverfi og minni umferð í forgang.
- Að felldur verði niður virðisaukaskattur af starfsemi Strætó bs[i].
- Að lagt verði fé í forgangsakreinar fyrir strætó á öllum helstu stofnbrautum höfuðborgarsvæðisins.
- Að sett verði fé í sérsakar hjólagötur á stofnbrautum samhliða uppbyggingu stofnstígakerfis fyrir hjólandi umferð sem geri hjólreiðar að hröðum, öruggum og fullgildum ferðamáta.
- Að átak verði gert í að hindra að stórir vinnustaðir stefni öllu starfsfólki sínu til vinnu á sama tíma (fleytitíð)[ii].
- Að kannaðir verði kostir þess að bílar með þremur einstaklingum eða fleiri geti einnig nýtt sér forgangsakreinar[iii].
- Að vinnuveitendum verði heimilt að greiða starfsfólki skattfrjálsan ferðastyrk óháð ferðamáta[iv].
- Að tollum á bifreiðar verði hagað þannig að umhverfisvænir bílar verði ódýrari í innkaupum en þeir sem menga meira.
- Að álögum á eldsneyti verði hagað í réttu hlutfalli við mengun og útblástur[v].
- Að smáagnasía verði sett í alla nýja innflutta díselbíla s.s. reglur segja til um í flestum ríkjum Evrópusambandsins til að dragar úr svifryki[vi].
- Að gerð verði heildarúttekt á kostnaði samfélagsins af notkun nagladekkja umfram notkun vetrardekkja[vii].
- Að gerð verði heildarúttekt á kostnaði vegna umferðarmannvirkja með það í huga að bera saman hagkvæmni þess að auka þjónustu með öflugum almenningssamgöngum og að halda áfram uppbyggingu gatnakerfis sem fyrst og fremst þjónar einkabílnum[viii].
[i] http://gamli.reykjavik.is/upload/files/BR2007-4944fundur.pdf
[ii]Fleytitíð bls. 65 http://vgwww.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/Samgskipulag_Rvk-stada-stefna/$file/Samgskipulag_Rvk-stada-stefna.pdf
[iii]Samnýting bifreiða bls. 63 http://vgwww.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/Samgskipulag_Rvk-stada-stefna/$file/Samgskipulag_Rvk-stada-stefna.pdf
[iv] Algengt er að bifreiðastyrkur að ákveðnu hámarki sé notaður sem launauppbót en starfsmaður þarf að geta sýnt fram á kostnað við rekstur bifreiðar. Ekki er hægt að sýna fram á slíkan kostnað ef hjólað er eða gengið til vinnu sem þó er líklegt að skili sér í minni umferð, bættri heilsu og auknu starfsþreki.
[v] Einnig verði skipulega unnið að aukinni notkun vistvænna ökutækja, m.a. með því að beita hagrænum hvötum" sjá Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 2007, Í sátt við umhverfið http://forsaetisraduneyti.is/frettir/nr/2643
[vi] http://www.fib.is/prent.php?ID=778
http://www.fib.is/prent.php?ID=1237&PHPSESSID=610e07df51bfd42b493b14a9ef104ebe
[vii] http://gamli.reykjavik.is/upload/files/Umhverfisr-2402.pdf
[viii] Þegar Framkvæmdasvið verður lagt niður verður stofnaður s.k. Eignasjóður og mun Umhverfis- og samgönguráð leigja götur, hjólastíga og mislæg gatnamót af Eignasjóði. Leiguverð hlýtur að þurfa að endurspegla kostnað t.d. af landnotkun í borginni. Við þessa breytingu verður einfaldara að bera saman ólíkar leiðir til að leysa umferðarvanda t.d. hvort setja á 100 milljónir á ári næstu 35 árin í leigu á mislægum gatnamótum á Miklubraut/Kringlumýrarbraut eða verja peningunum í að auka þjónustu almenningssamgangna, bæta hjólreiðasamgöngur o.s.frv.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.9.2007 | 09:14
Heimil útrás eða óheimil innrás?
Um fátt er meira talað þessa dagana en fjárfestingar útlendinga í íslenskum orkufyrirtækjum - sem öll eru að sjálfsögðu í rómuðum útrásarhugleiðingum. Þarna finnst manni óneitanlega vera einhver þversögn, af hverju er það útrás þegar erlend fyrirtæki kaupa Hitaveitu Suðurnesja og helminginn í dótturfyrirtæki OR? Er það ekki frekar innrás?
Persónulega er ég almennt séð frekar hlynntur innrásum erlendra aðila í íslenskt atvinnu- og viðskiptalíf. Ég myndi t.d. fagna því mjög að einhver erlendur banki keypti Spron, lánaði mér peninga á eðlilegum vöxtum, rukkaði mig ekki um seðilgjöld fyrir rafrænu beingreiðslurnar og gæti útskýrt fyrir mér hvaða kostnaður er að baki fit-kostnaðinum. Ég er hins vegar afar skeptískur þegar kemur að innrás erlendra aðila á íslenskan orkumarkað.
Nú mun það vera svo að Orkuveitan og fleiri orkufyrirtæki eiga talsvert af þeim jörðum sem orkuvinnsla þeirra fer fram á. Skv. lögum um einkaeignarrétt mun orkuauðlindin því vera í eigu viðkomandi fyrirtækis. Til þessara fyrirtækja var auðvitað í upphafi stofnað til að veita íbúum yl og ljós svo enginn hefur kannski haft áhyggjur af því hvernig þessi saga endaði. Ég hef hins vegar vaxandi áhyggjur af því. Mér finnst ekkert verulega skemmtileg tilhugsun að nokkrir einkaaðilar eigi um alla framtíð orkuauðlindirnar sjálfar.
Ég gæti hugsað mér að fyrirtæki, íslensk sem erlend, keyptu og seldu réttinn til að nýta þær í einhvern tiltekinn tíma, þess vegna nokkra áratugi, en ef við skilgreinum ekki eignarhald þjóðarinnar á orkuuppsprettum landsins þá er ég hræddur um að við séum að leika enn verri afleik en gert var með frjálsu framsali aflaheimilda.
Þá finnst mér einu gilda hvort um er að ræða orkulindir fyrir almannaveitur eða til stóriðju. Eftir 15-20 ár er ekki ólíklegt að bílar verði knúnir áfram með rafmagni á einhvern hátt. Ísland gæti þá átt möguleika á að verða sjálfbært orkusamfélag og smám saman væri hægt að taka stóriðjurafmagnið úr sambandi og nota það til að knýja samgöngur. Væri þá ekki frekar óheppilegt að vera búin að selja uppsprettu þeirrar orku um alla framtíð til einkaaðila?
Reyndar finnst mér orkufyrirtækin vera komin nokkuð langt fram úr sjálfum sér. Það mun vera búið að ganga frá kaupum hins bandaríska fyrirtækis Goldman Sachs í Geysi Green sem á 32% í Hitaveitu Suðurnesja.
Lög um fjárfestingu erlendra aðila frá 1991 kveða þó skýrt á um að:
2. Íslenskir ríkisborgarar og aðrir íslenskir aðilar mega einir eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita önnur en til heimilisnota. Sama á við um fyrirtæki sem stunda orkuvinnslu og orkudreifingu. [Sama rétt hafa einstaklingar sem búsettir eru í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, öðru aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum og lögaðilar sem heimilisfastir eru í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, öðru aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum.]1) Heimilt skal að kveða svo á í fjárfestingarsamningum milli Íslands og ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins að einstaklingar sem þar eru búsettir eða lögaðilar sem þar eru heimilisfastir hafi einnig sama rétt, enda verði slíkir samningar lagðir fyrir Alþingi til staðfestingar með þingsályktun.
Mér finnst svo sem ekki skipta neinu máli hvort einkafyrirtæki sem eiga varanlega einkaeignarrétt á orkuauðlindum íslensku þjóðarinnar eru bandarísk, evrópsk eða íslensk en ég get ómögulega séð að þarna leiki nokkur vafi á því að Goldman Sachs mun þurfa leyfi Alþingis til þessarar innrásar á íslenskan orkumarkað. Ef þetta er misskilningur bið ég lögfróða að leiðrétta það.
![]() |
Útlendingar geta eignast íslenska orku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
12.9.2007 | 09:09
Bleikt og blátt í leikskólum borgarinnar
Í grein sem Sigrún Elsa Smáradóttir, talsmaður Samfylkingarinnar í leikskólamálum í borginni skrifar í Fréttablaðið í dag varar hún við "bleiku blekkingunni" eins og hún kallar hugmyndir borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um einkarekna leikskóla sem lausn á mennekluvanda.
Það er full ástæða til að vara við þeim hugmyndum sem umræddur borgarfulltrúi og formaður leikskólaráðs hefur viðrað að undanförnu. Þær eru í besta falli vanhugsaðar en í versta falli "blá" kaldur raunveruleikinn eftir að bleiki liturinn frá því í borgarstjórnarkosningunum hefur flagnað af.
Þarfir barnanna?
Ef hugmyndir formanns leikskólaráðs kæmu til framkvæmda og Glitnir, Sjóvá, Hagkaup og Síminn svo dæmi séu nefnd keyptu af borginni nokkra leikskóla fyrir starfsmenn sína, hvaða þýðingu myndi þetta hafa fyrir börnin?
Hæpið er að allir starfsmenn viðkomandi fyrirtækis búi í sama hverfi og leikskólinn er staðsettur og þar með myndu börn á fyrirtækjaleikskólanum ekki kynnast öðrum börnum í hverfinu og síður leika við þau eftir að leikskóla lýkur.
Hugleiða þarf hvað gerist þegar foreldri barns á fyrirtækjaleikskóla hættir störfum, hvort sem er að eigin ósk eða vegna uppsagnar? Óþægindin þegar fólki er sagt upp eru augljós, barninu yrði sagt upp um leið, en að tengja saman vistun barnsins og starfsframann getur líka orðið til þess að fólk sem vill skipta um starf hikar við það af því það setur leikskólavist barnsins í óvissu og kemur róti á tilveru þess.
Tvöfalt kerfiLjóst er að einkarekstur einn og sér býr ekki til peninga og ef fyrirtækin ætla að bjóða starfsfólki sínu hærri laun verður að taka þá peninga einhvers staðar. Þarna er því í raun um óbeina launahækkun að ræða sem út af fyrir sig er ánægjulegt fyrir viðkomandi starfsmann en við hljótum að spyrja okkur hvort það er æskileg stefna að búa til tvöfalt leikskólakerfi.
Vill Sjálfstæðisflokkurinn hverfa frá þeirri stefnu að öll börn eigi rétt á leikskólavist óháð efnahag foreldranna? Til hvers boðaði flokkurinn þá lækkun leikskólagjalda? Hefði ekki verið nær að halda þeim háum en bjóða fyrirtækjum að bæta leikskólastyrk á launaseðil starfsmanna sinna? Er það kannski sú leið sem Sjálfstæðisflokkurinn vill fara?
Hvað með þau fyrirtæki sem ekki sjá sér fært að reka leikskóla fyrir börn starfsmanna sinna? Hvað vill Sjálfstæðisflokkurinn gera fyrir börn starfsmanna þeirra? Á Landspítali háskólasjúkrahús að reka leikskóla? Eða lögreglan? Grunnskólar Reykjavíkur? Og hvað með börn þeirra sem ekki eru á vinnumarkaði t.d. börn námsmanna og öryrkja? Á ekki að bregðast við manneklu þar?
Fullkomin uppgjöf
Það er lofsvert að opna umræðuna upp á gátt og ef það er eini tilgangurinn með útspili formanns leikskólaráðs er það gott út af fyrir sig. Hugmyndir hennar um einkavæðingu leikskólanna eru hins vegar afar slæmar og í raun ekki hægt að túlka þær sem neitt annað en fullkomna uppgjöf gagnvart því krefjandi verkefni að fullmanna leikskóla borgarinnar.
Formaðurinn hefur einnig látið þess getið að það þurfi að stokka upp samninga við starfsfólk í leikskólum og grunnskólum borgarinnar. Þar er ég hjartanlega sammála formanninum enda hef ég lengi verið þeirrar skoðunar að Reykjavíkurborg eigi að marka sér sína eigin menntastefnu og semja sjálf við starfsfólk skólanna um kaup og kjör.
Það segir sig sjálft að sá sem þarf að kaupa íbúð á 25 milljónir þarf hærri laun en sá sem getur fengið sambærilegt húsnæði á 12 milljónir. Auk þess verðum við að opna augun fyrir því að Reykjavík á í æ harðari samkeppni um ungt hæfileikafólk við aðrar stórborgir á Vesturlöndum en eitt af því sem við getum gert til að styrkja borgina í þeirri samkeppni er einmitt að bjóða upp á skóla sem jafnast á við þá bestu í heimi. Ekki bara fyrir suma, heldur fyrir alla.
Til að bregðast við því þarf skoða skólamál borgarinnar í heild upp á nýtt og hugsa út fyrir kassann, sem er dálítið annað en að henda vandamálinu út fyrir kassann.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
12.9.2007 | 07:30
Störf án staðsetningar
Þessi frétt styður hugmyndir Samfylkingarinnar um að það mætti skilgreina stóran hluta af störfum hins opinbera og bjóða landsmönnum öllum að vinna þau. Við reiknuðum með að miðað við að 20% starfa hjá ríkinu væru óháð staðsetningu myndi árleg starfsmannavelta losa um 300-400 slík störf árlega sem öllum landsmönnum stæðu til boða óháð því hvort þeir vinna í þéttbýli eða dreifbýli.
![]() |
Þúsundir í fjarvinnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |