11.9.2007 | 12:48
Hvers virði er Esjan?
(birt í Viðskiptablaðinu 7.9.)
Undanfarið hefur fátt verið meira rætt en verðmæti náttúrunnar og umhverfisins. Til að alhæfa dálítið má segja að í náttúruvernd hafi tekist á þeir sem allt vilja virkja og þeir sem allt vilja friða og í loftslagsmálum þeir sem segja loftslagsvandann eintómar ýkjur og þeir sem telja hann stærsta vandamál mannkyns.
Þarna takast á afar ólík viðhorf og sumir segja það tímanna tákn að eini sameiginilegi samræðugrunnurinn virðist vera að reikna þetta allt út í peningum. Þannig var það fyrst þegar vísindamenn fóru að benda á að þjóðir heims myndu stórtapa á yfirvofandi hlýnun að veruleg hreyfing komst á baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Á sama hátt hefur jafnan gefist best í baráttunni gegn óafturkræfum framkvæmdum á verðmætum náttúrusvæðum að sýna fram á meiri hagnað af verndun þeirra í beinhörðum peningum. Hér er ekki ætlunin að meta hvort þetta er góður samræðugrunnur eða slæmur, heldur frekar að reyna til gamans að meta náttúrufyrirbæri sem flestir þekkja nokkuð vel, fjallið Esjuna.
Til að gera okkur grein fyrir verðmæti Esjunnar skulum við segja að Esja Group hafi sótt um rannsóknarleyfi fyrir þeirri auðlind sem Esjan er - að sjálfsögðu með það í huga að fá síðan einkaleyfi á því að nýta þá auðlind.
Til að rannsaka verð Esjunnar væri hægt að beita mati á þjónustuþáttum Esjunnar en þeir eru afar margir og margvíslegir.
Augljóslega eru mikil verðmæti fólgin í Esjunni sem útivistarsvæði en hundruð manna ganga upp á hana á degi hverjum allan ársins hring. Þarna er trúlega vannýtt auðlind því telja má líklegt að fólk væri tilbúið að greiða einhvern aðgangseyri fyrir afnot af gönguleiðinni. Ofan af Esjunni er mikið útsýni og fyrir það er líka sjálfsagt að taka hóflegt gjald, auk þess að ferja mætti fólk upp með bíl eða kláfi sem ekki vill eða getur gengið alla leið upp - einnig gegn hóflegu gjaldi.
Esjan er, líkt og önnur fjöll, gríðarlegt vatnsforðabúr og niður hlíðar hennar rennur víða vatn sem meta þarf til fjár. Beinast liggur við að bjóða þennan þjónustuþátt Esjunnar út og þá fá þeir einfaldlega vatnið sem hæst bjóða, hvort sem það eru landeigendur í nágrenninu eða aðilar í vatnsútflutningi, svo dæmi séu tekin.
Verðmæti útsýnis til Esjunnar hefur áhrif á húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu og niðurstaða könnunar sýnir að þessi þjónustuþáttur Esjunnar hækkar verðmæti húseigna talsvert. Þarna er í raun fé án hirðis og eðlilegt að sá sem fengi einkaleyfi á nýtingu Esjunnar fengi talsvert gjald fyrir þennan þjónustuþátt. Til að hafa greiðslu fyrir þjónustuna einfalda væri t.d. hægt að innheimta útsýni-til-Esjunnar-gjald sem viðbót við fasteignagjöld.
Fasteignamarkaðurinn leiðir hugann að annarri þjónustu sem Esjan gæti veitt sístækkandi borg, en það er efniviður í vegi, hús, landfyllingar o.fl.þ.h. Til að eyðileggja ekki útsýnisþáttinn yrði að sjálfsögðu að gæta þess að hreyfa sem minnst við þeirri hlið sem snýr að höfuðborginni. Bakhlið Esjunnar sjá hins vegar mun færri og því vandræðalaust að nýta a.m.k. þann helming Esjunnar sem byggingarefni.
Hér er auðvitað ekki um tæmandi upptalningu á þjónustuþáttum Esjunnar að ræða og ljóst að í henni felast ýmis fleiri peningaleg verðmæti. T.d. nýtur fjöldi fólks útsýnis til Esjunnar frá öðrum stöðum en íbúðum sínum án þess að greiða fyrir það nokkurt gjald. Ljósmyndarar og málarar hafa einnig fengið að mynda og mála Esjuna án endurgjalds og hún hefur orðið ýmsum yrkisefni. Ljóst er að sá sem fengi einkaleyfi til að nýta auðlindina Esjuna ætti heimtingu á stefgjöldum fyrir hvert skipti sem lögin "Svífur yfir Esjunni..." og "Finnst þér ekki Esjan vera sjúkleg..." heyrast á öldum ljósvakans. Annað væri ekki sanngjarnt.
10.9.2007 | 23:20
Broken window theory
Var að lesa ágæta bók um daginn, The Tipping Point, sem fjallar um það hvernig ákveðnir hlutir, hugmyndir eða atferli breiðist út eins og faraldur. Sígilt dæmi fyrir okkur væri fótanuddtækið góða hér um árið.
Þar var líka minnst á baráttuna við áralangan glæpafaraldur í New York en á örfáum árum náðist að draga stórkostlega úr glæpum í borginni. Þar kom mjög við sögu svokölluð Broken Window Theory sem gengur út á að brotnar rúður, veggjakrot og fleira þess háttar gefur skilaboð um að í þessu umhverfi megi gera ýmislegt sem annars má ekki.
Yfirvöld og lögregla í NY lögðu sérstaka áherlsu á að skipt væri um brotnar rúður, að málað væri yfir veggjakrot innan 24 stunda og skar upp herör geng svindli og ribbaldahætti í neðanjarðarlestinni. Það kom í ljós að það voru ævinlega sömu einstaklingarnir sem voru til vandræða í lestunum og frömdu önnur brot í borginni.
Vandinn í miðborg Reykjavíkur er alveg sama eðlis. Flöskubrot, rusl og drykkjulæti gefa vandræðaseggjum til kynna að allt sé leyfilegt svo einhverjir þeirra klára úr flöskunni, stúta henni á gangstéttinni og létta svo á sér utan í næsta vegg.
Þegar þessi stemning er komin upp verður flestu venjulegu fólki um og ó að ekki sé talað um þegar stemningin magnast og fullorðnar konur fara að berja fólk fyrir að benda á að þær séu að troðast framfyrir röðina að ekki sé talað um alvarlegri ofbeldisglæpi.
Lífsgleði og kraftur Íslendinga í skemmtanalífinu er vissulega oft töfrandi. Hins vegar er sú sjón sem mætir útlendingum á laugardags- og sunnudagsmorgnum bara sorgleg. Ég held þeim finnist ekkert sjarmerandi við mígandi drukkna karla og grátandi konur með brotnar rósir og málningu niður á kinnar, ekki frekar en að draga ferðatöskurnar sínar á milli flöskubrota og polla af ýmsum uppruna.
Það er því hárrétt ákvörðun hjá lögreglunni að skera upp herör gegn ribbaldahætti og sóðaskap í miðborginni. Það er óþolandi að örfáir tugir illa siðaðra einstaklinga komi óorði á þær þúsundir sem fara með gleði, friði og spekt út að skemmta sér í miðborginni um helgar.
![]() |
Fimmtíu og þrír brutu gegn lögreglusamþykkt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.9.2007 | 19:46
Málið í hnotskurn
Ég rakst á þessa vísu eftir Davíð Hjálmar Haraldsson á Leirnum, sérstökum póstlista hagyrðinga, og fékk góðfúslegt leyfi til að birta hana hér.
Tilefnið var "brottkvaðning íslensks hers frá Írak".
Burt úr Írak flugvél fer
með fret og læti.
Allur kemur okkar her
í einu sæti.
Er þetta ekki málið í hnotskurn?
![]() |
Ingibjörg Sólrún: Meira mál að senda fólk til Írak en að boða það heim |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.9.2007 | 12:05
Lognið búið?
Fyrir skömmu skrifaði Þorvarður Tjörvi, hagfræðingur hjá Seðlabankanum, um lognið á undan storminum. Þar spáði hann frekari skjálftum í alþjóðaviðskiptum og að senn yrði skortur á fjármagni á lágum vöxtum.
Ljóst er að hagsveiflan á Íslandi, rétt eins og stór hluti einkaneyslu í Bandaríkjunum, hefur verið tekin að láni út á hækkandi húsnæðisverð. Það verður svo að koma í ljós hvort innistæða er fyrir þessu háa húsnæðisverði hér á landi en eins og komið hefur á daginn hefur veðþol húsnæðis vestanhafs verið stórlega ofmetið - reyndar svo rækilega að nú sýpur heimsbyggðin seiðið af því.
Mér er mjög til efs að verðmætasköpunin á höfuðborgarsvæðinu standi undir +300 þúsund kr. fermetraverði á íbúðarhúsnæði. Sérstaklega þegar slíkt húsnæði er fjármagnað með verðtryggðum lánum á 6% vöxtum í 6% verðbólgu.
Það væri athyglisvert að fá nákvæmar upplýsingar um það hvað mikið af íbúðarhúsnæði stendur autt í dag. Tilfinning mín er að það sé talsvert. Það er allt útlit fyrir að við munum sjá sviptingar á húsnæðismarkaði á næstu mánuðum og misserum.
![]() |
Mikil verðlækkun í Kauphöll OMX á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.9.2007 | 23:55
Hvað sagði Samfylkingin?
Fyrir ári var Ingibjörgu Sólrúnu álasað fyrir að benda á herkostnað heimilanna og fyrirtækja í landinu af ónýtri krónu. Nú stendur það sama upp úr hverjum manni í atvinnulífinu og meira en annar hver landsmaður er hlynntur eða mjög hlynntur því að taka upp Evru í stað krónu.
Það hefur alltaf verið ljóst að Samfylkingin er flokkur alþýðunnar og ber hag hennar fyrir brjósti. Þess vegna hefur jafnaðarmönnum blöskrað að á Íslandi þurfi fólk að borga 50 milljónir til baka af 10 milljón króna láni en Evrópubúar aðeins 16 milljónir, svo dæmi sé tekið.
Það sem er alltaf að koma betur og betur í ljós er að Samfylkingin er líka sterkasti bandamaður atvinnulífsins af öllum íslenskum stjórnmálaflokkum. Það sýnir sig ekki aðeins í stuðningi við hátækni- og þekkingariðnað, nýsköpun og smærri fyrirtæki.
Þegar þarf að því að bæta starfsumhverfi atvinnulífsins í heild, s.s. viðskiptalífsins, ferðaþjónustunnar og útflutningsgreinanna, með því að ryðja úr vegi úreltum hindrunum eins og krónunni, þá er það Samfylkingin sem ríður á vaðið á meðan aðrir tvístíga eða horfa í gaupnir sér.
Það er eflaust erfitt fyrir unga sjálfstæðismenn í atvinnulífinu að þurfa að hlusta á reiðilestur tiltekins fortíðarpólitíkusar í þessu efni. Skoðanir og stóryrði þess ónefnda manns minna mann hins vegar á þá gleðilegu staðreynd að fortíðin er að baki en morgundagurinn framundan.
![]() |
Meirihluti þjóðarinnar hlynntur því að taka upp evru |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.9.2007 kl. 00:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.9.2007 | 08:39
Hlýtur að leita jafnvægis
Fasteignamarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki verið í jafnvægi undanfarin ár og verð á fasteignum er enn talsvert yfir byggingarkostnaði. Verktakar hafa byggt þúsundir íbúða og nú hlýtur þessi markaður að vera að mettast.
Í fjölmiðlum má sjá nýtt met í fjölda seldra eigna í hverjum mánuði og verðið mun alltaf vera að hækka. Samt er það þannig að maður sér sömu eignirnar auglýstar mánuð eftir mánuð á fasteignavef Moggans.
Þar er ekki um neina hjalla að ræða, heldur bara fínustu íbúðir og hús í grónum hverfum, sem einhverra hluta vegna virðast ekki seljast þrátt fyrir alla þessa uppsveiflu á húsnæðismarkaðnum.
Sumir segja að fólk sé aðallega að kaupa nýbyggingar, kannski af því það er auðveldara að fá lán út á þau vegna reglna um brunabótamat.
Það hljómar ekki ósennilega hjá Þorvarði Tjörva þegar hann segir líkur á að húsnæðisverð fari að lækka.
![]() |
Óróinn mun lækka húsnæðisverð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.9.2007 | 21:13
Súr mjólk?
Það er hlálegt að nú þegar tækifæri opnast fyrir sölu á rafmagni til fjölbreyttra og vistvænna fyrirtækja s.s. sólarrafhlöðuframleiðenda og netþjónabúa - þá er orkan á þrotum.
Orkufyrirtækin eru búin að lofa allri orkunni til álbræðslu - jafnvel orku sem enn eru ekki komin full leyfi fyrir hefur Landsvirkjun lofað í fleiri en eitt álver, bara til að vera viss um að koma henni nú örugglega í lóg.
Orkufyrirtækin hafa hagað sér eins og þau væru að selja mjólk á síðasta söludegi, knúin áfram af þeim stórundarlegu trúarbrögðum Framsóknarflokksins að okkur beri skylda til að virkja hér hverja einustu sprænu og hvern einasta hver.
Það hefur verið rasað um ráð fram og orkufyrirtækjunum veittar allt of rúmar heimildir til að nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Þetta hefur skapað gullgrafarastemningu á orkumarkaði sem lýsir sér í kapphlaupi orkufyrirtækjanna um hverja einustu orkulind landsins. Á meðan hafa náttúrurannsóknir verið algerlega vanræktar og stór hætta á að ómetanleg svæði verði enn tekin undir álbræðsluvirkjanir.
Það þyrfti að stíga nokkur skref til baka, rifta samningum orkufyrirtækjanna við ný álver og álver sem vilja stækka og skoða þetta allt upp á nýtt. Gallinn er sá að stjórnvöld hafa engar heimildir til þess. Það er búið að taka allar slíkar bremsur úr sambandi.
Stjórnvöld geta í raun ekkert skipt sér af því í hvað orka landsins er notuð. Þau geta ekki einu sinni gert kröfu um lágmarks virðisauka af hverju Megawatti en það er ljóst að þar myndu sólarrafhlöðuframleiðendur og netþjónabú standa sig mun betur en álbræðslan.
Kannski ættu stjórnvöld að taka til baka réttinn til að ráðstafa orkunni. Ég vona alla vega að þegar tæknin mun leyfa, segjum eftir 15-20 ár, að við ökum hér um á rafmangsbílum að þá verði lausir samningar við orkufyrirtækin og að við getum þá státað af sjálfbæru orkusamfélagi á Íslandi.
![]() |
Væntanleg netþjónabú þurfa álíka raforku og 250 þúsund tonna álver |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.9.2007 | 10:11
Lækka tæpast á næstunni
Það er afar hæpið að vextir á Íslandi lækki á næstunni. Núna er spáð um 6% verðbólgu næsta misserið og vegna verðbólgumarkmiða peningastefnunnar getur Seðlabankinn alls ekki lækkað vextina við þau skilyrði.
Á næsta ári spá menn talsverðri veikingu krónunnar sem óhjákvæmilega fylgir samsvarandi hækkun á innfluttum vörum og þjónustu sem svo aftur þýðir verðbólguskeið. Ef hinni umdeildu peningastefnu verður ekki kippt úr sambandi þýðir það áframhaldandi okurvexti á íslenskum lánum.
Vextir á yfirdrætti eru rúm 20% sem er hærra en Mafían telur borga sig að vera með á okurlánum því hærri vextir skili í raun engu nema brotnum hnéskeljum og öðrum vandræðum.
Nú eru algengir vextir á íbúðarlánum að stíga upp í 6% sem þýðir að í 6% verðbólgu eru vextirnir í raun um 12%. Verðtryggingin platar hins vegar því hún bætir hækkuninni við höfuðstólinn í stað þess að rukka hana beint.
6% verðbólga í ár myndi hækka 20 milljóna húsnæðisskuld um 1 milljón. Þrátt fyrir að á sama tíma hafi verið borgaðar rúmlega 1,4 milljónir af láninu.
Nú eru allir sem tök hafa á í atvinnulífinu að losa sig úr krónufjötrunum. Vaxtastefnan, verðbólgan og verðtryggingin hefur nú knúið smærri fyrirtæki og einstaklinga til að taka erlend lán. Það setur aukinn þrýsting á að fá greitt fyrir vöru sína og þjónustu í erlendri mynt, til að minnka gengisáhættu.
Fyrirtækin í landinu hafa svarað spurningunni um krónuna með fótunum. Eftir stendur almenningur sem er bundinn í báða skó. Ef til vill ættu það að vera helstu kröfur verkalýðshreyfinganna að launafólk fái greitt í erlendri mynt að hluta eða öllu leyti. Það gæti lækkað fjármagnskostnað heimilanna um milljónir.
![]() |
Stýrivextir Seðlabanka áfram 13,3% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
5.9.2007 | 08:43
Gott ef satt reynist
Dálítið eins og þegar hrekkjusvínin í skólanum bjóða sig fram í nemendaráð og lofa að tryggja frið á skólalóðinni. Enginn efast um að þau geti það en í ljósi reynslunnar efast margir um að loforðið haldi.
Bandaríkin, undir styrkri stjórn olíuvaldsins, hefur gert allt sem hægt er til að berja niður þekkingu á loftslagsbreytingum af manna völdum. Svo langt hefur verið gengið að múta vísindamönnum til að koma með gagnrýni á alþjóðlegar skýrslur um málið.
Sannir hægri menn (sem hérlendis má helst finna á www.andriki.is) hafa að sjálfsögðu tekið heilshugar undir olíuboðskapinn og segja vandann í fyrsta lagi alls ekki af manna völdum, númer tvö ekki hættulegan og í þriðja lagi að það sé ávísun á efnahagslega katastrófu að bregðast við honum. Þessi rök hafa að sjálfsögðu öll verið vegin og metin og léttvæg fundin.
Vegna áhrifa olíugeirans hafa Bandaríkin ekki viljað vera með í Kyoto, þótt þau séu stærsti einstaki mengunarvaldurinn á meðal þjóða heims. Ýmsar borgir í Bandaríkjunum hafa hins vegar sýnt þá ábyrgð að setja sér sín eigin markmið í samdrætti CO2. Seattle var fyrst borga til að vinna slík markmið og leiddi í fyrra loftslagssamstarf 393 borga í Bandaríkjunum með samtals yfir 50 milljónir íbúa.
Það er lofsvert framtak og sýnir að enn er von um að Bandaríkin taki þátt í baráttu þjóða heimsins gegn loftslagsvánni. Eða eins og Churchill mun hafa sagt, að eftir að hafa leitað allra annarra leiða munu Bandaríkjamenn á endanum gera það sem rétt er.
![]() |
Yfirlýsing Bush og Howard vekur gremju og tortryggni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.9.2007 | 22:30
Ef Samfylkingin stjórnaði Borginni...
...þá væri lögð nótt við dag til að manna frístundaheimilin í grunnskólum borgarinnar.
Samfylkingin gerir sér fulla grein fyrir því hvaða erfiðleikar fylgja því fyrir foreldra að hafa engan til að líta eftir yngstu börnunum eftir að þau eru búin í skólanum og þangað til foreldrarnir eru búnir í vinnunni á daginn.
Fleiri hundruð manns eru í þeim sporum að þurfa að redda hlutunum dag frá degi. Það er verið dobbla afa og ömmur, frændur og frænkur og eldri systkini til að sækja í skólann og passa í 2-3 tíma eða jafnvel stelast til að hafa börnin í vinnunni dag og dag. Eftir kl. 14 eru foreldrar 1300 barna á nálum það sem eftir er vinnudagsins.
Margir hafa alls enga ættingja eða vini til að aðstoða sig í þessu ástandi og eins og fram kom í blaðaviðtali við einstæða móður um daginn þá þurfa þeir sem eru í þessum sporum einfaldlega að skera niður vinnuna, jafnvel hætta í vinnunni sinni og fá sér vinnu sem er búin kl. 14. Fæstir mega við þeirri tekjuskerðingu.
Það er þess vegna með hreinum ólíkindum að stjórnmálamenn sem stundum skeyta forskeytinu "athafna-" framan við titil sinn skuli ekki hafa aðhafst meira en raun ber vitni í þessu mikilvæga máli.
Í fyrra náðist verulegur árangur þegar "athafnastjórnmálamennirnir" í meirihlutanum tóku loks við sér seint um haustið og fóru að ráðleggingum Samfylkingarinnar um að bjóða foreldrum upp á hlutavistun - þ.e. möguleikann á að nota frístundina aðeins þá daga sem mest þörf er á.
Það vill þannig til að mörg börn eru í einhverri frístund einn til tvo daga í viku, strax að loknum skóla. Hlutavistun hentar þeim börnum vel og eins þegar foreldrar eru í aðstöðu til að geta komið snemma heim úr vinnunni t.d. einn dag í viku og vilja gjarna nýta sér það til að taka á móti barni sínu úr skólanum.
Þrátt fyrir að öllum væri ljóst að þensla á vinnumarkaði hefði síst minnkað ákvað "athafna" meirihlutinn að steinhætta að bjóða foreldrum upp á þennan möguleika! Það er sem sagt ekki nóg með að hann geri ekki neitt til að laga stöðuna - það helsta sem hann gerir stuðlar að því að gera ástandið verra!!!
Samfylkingin hefur lagt til að bjóða nú þegar aftur upp á hlutavistun og að bjóða námsmönnum sem vilja vinna á frístundaheimilum með námi upp á námsstyrk að loknum vetri. Þessi hugmynd hefur mælst vel fyrir og það þarf að hrinda henni framkvæmd hið fyrsta.
Ástandið er núna mun verra en það var í fyrra og var það þó slæmt þá. Foreldrar þeirra 1300 barna sem eru á biðlista eftir plássi á frístundaheimilum núna hafa ekki efni á að bíða jafn lengi og í fyrra eftir að "athafna" meirihlutinn drífi sig í að hrinda hugmyndum Samfylkingarinnar í framkvæmd.
Ef Samfylkingin stjórnaði Borginni væri hún búin að framkvæma þessar hugmyndir sínar og finna fleiri ráð til að klára málið ef þessi dygðu ekki til.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)