Ef Samfylkingin stjórnaði Borginni...

...þá væri lögð nótt við dag til að manna frístundaheimilin í grunnskólum borgarinnar.

Samfylkingin gerir sér fulla grein fyrir því hvaða erfiðleikar fylgja því fyrir foreldra að hafa engan til að líta eftir yngstu börnunum eftir að þau eru búin í skólanum og þangað til foreldrarnir eru búnir í vinnunni á daginn.

Fleiri hundruð manns eru í þeim sporum að þurfa að redda hlutunum dag frá degi. Það er verið dobbla afa og ömmur, frændur og frænkur og eldri systkini til að sækja í skólann og passa í 2-3 tíma eða jafnvel stelast til að hafa börnin í vinnunni dag og dag. Eftir kl. 14 eru foreldrar 1300 barna á nálum það sem eftir er vinnudagsins.

Margir hafa alls enga ættingja eða vini til að aðstoða sig í þessu ástandi og eins og fram kom í blaðaviðtali við einstæða móður um daginn þá þurfa þeir sem eru í þessum sporum einfaldlega að skera niður vinnuna, jafnvel hætta í vinnunni sinni og fá sér vinnu sem er búin kl. 14. Fæstir mega við þeirri tekjuskerðingu.

Það er þess vegna með hreinum ólíkindum að stjórnmálamenn sem stundum skeyta forskeytinu "athafna-" framan við titil sinn skuli ekki hafa aðhafst meira en raun ber vitni í þessu mikilvæga máli.

Í fyrra náðist verulegur árangur þegar "athafnastjórnmálamennirnir" í meirihlutanum tóku loks við sér seint um haustið og fóru að ráðleggingum Samfylkingarinnar um að bjóða foreldrum upp á hlutavistun - þ.e. möguleikann á að nota frístundina aðeins þá daga sem mest þörf er á.

Það vill þannig til að mörg börn eru í einhverri frístund einn til tvo daga í viku, strax að loknum skóla. Hlutavistun hentar þeim börnum vel og eins þegar foreldrar eru í aðstöðu til að geta komið snemma heim úr vinnunni t.d. einn dag í viku og vilja gjarna nýta sér það til að taka á móti barni sínu úr skólanum.

Þrátt fyrir að öllum væri ljóst að þensla á vinnumarkaði hefði síst minnkað ákvað "athafna" meirihlutinn að steinhætta að bjóða foreldrum upp á þennan möguleika! Það er sem sagt ekki nóg með að hann geri ekki neitt til að laga stöðuna - það helsta sem hann gerir stuðlar að því að gera ástandið verra!!!

Samfylkingin hefur lagt til að bjóða nú þegar aftur upp á hlutavistun og að bjóða námsmönnum sem vilja vinna á frístundaheimilum með námi upp á námsstyrk að loknum vetri. Þessi hugmynd hefur mælst vel fyrir og það þarf að hrinda henni framkvæmd hið fyrsta.

Ástandið er núna mun verra en það var í fyrra og var það þó slæmt þá. Foreldrar þeirra 1300 barna sem eru á biðlista eftir plássi á frístundaheimilum núna hafa ekki efni á að bíða jafn lengi og í fyrra eftir að "athafna" meirihlutinn drífi sig í að hrinda hugmyndum Samfylkingarinnar í framkvæmd.

Ef Samfylkingin stjórnaði Borginni væri hún búin að framkvæma þessar hugmyndir sínar og finna fleiri ráð til að klára málið ef þessi dygðu ekki til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Geir Ágústsson

Núverandi borgarstjórn hefur verið alveg geysilega dugleg að eyða peningum borgarbúa. Róló opnaði aftur, tónlistarhúsið hefur ekki verið dregið af framkvæmdaskrá, og listinn er eflaust mun lengri. Aðeins of mikil athafnagleði ef eitthvað er!

Geir Ágústsson, 4.9.2007 kl. 10:02

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Að athuguðu máli, vildi ég biðja þig skoða, hvaða tillögur lágu á borðinu um Frísundaheimilin og breytingar í þeim efnum.

Væru Samfylkingarmenn tilbúnir til að stansa að slíku núna?

Væri það til bóta?

Skoðið málið.

ÞAð er ekkert sniðugt, að bölsótast út í núverandi stjórnvöld Borgarinnar, ef ekki væru til tillögur, sem fælu í sér varkárni og bót á því ástandi, sem verið er að gagnrýna.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 4.9.2007 kl. 11:52

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Jæja. Er þetta nú ekki einum of? Ekki man ég betur en að sömu vandamálin hafi verið að dúkka upp þegar Samfylkingin stjórnaði. "Ef ég væri kóngur væru allir ríkir og hamingjusamir og engum væri strítt" .... come on, Dofri!

Þorsteinn Siglaugsson, 4.9.2007 kl. 21:49

4 Smámynd: Guðmundur Björn

Það þarf að bæta við fiðluíkoni hérna á valmöguleikanna á þessari síðu.

Guðmundur Björn, 4.9.2007 kl. 22:16

5 identicon

Það er athyglisvert að sjá ykkur verja aðgerðaleysi meirihlutans strákar.

Ég hef fylgst vel með þessum málum þar sem ég er núna annað haustið í röð með barnið mitt á biðlista eftir plássi á frístund. Í fyrra gerðist ekkert fyrr en seint um haustið þegar var farið að bjóða hlutavistun sem mér skilst að Samfylkingin hafi beitt sér fyrir í borginni.

Ég veit vel að það er þensla í þjóðfélaginu og líka erfitt að manna önnur störf en hvað var meirihlutinn þá að pæla með því að afnema hlutavistunina!!!???

Núna eru enn lengri biðlistar og þetta var algjörlega fyrirsjáanleg staða. Samt er þetta það eina sem meirihlutinn gerir í málinu!

Einu alvöru tillögurnar sem hafa komið fram í haust eru um að bjóða námsmönnum námsstyrki sem vilja vinna í frístundinni með skóla og að taka aftur upp hlutavistunarkerfið. Þetta eru bæði tillögur frá Samfylkingunni, þar er alla vega verið að reyna að leysa málin.

Það virði ég en er sömuleiðis öskuill út í aðgerðarleysi meirihlutans. Þið getið svo sem hlegið að því ef þið viljið strákar, það segir mér bara að þið eruð líklega ekki í djúpum skít í vinnunni vegna þess að þið fáið ekki pössun fyrir börnin ykkar!

Ingibjörg Sig. (IP-tala skráð) 4.9.2007 kl. 23:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband