31.8.2007 | 16:12
Eru stjórnendur ekki með réttu ráði?
Í vor fannst manni nú eiginlega alveg á mörkunum þegar Steingrímur Ólafsson, einn helsti spunakarl fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, var gerður að stjórnanda Íslands í dag, korteri fyrir kosningar.
Að munstra hann því næst í stöðu fréttastjóra fannst manni ótrúlegur gjörningur. Það eru flestir á fréttastofu Stöðvar 2 með meiri reynslu og ég hefði t.d. gjarna viljað sjá konur eins og Lóu Aldísardóttur eða Láru Ómarsdóttur fá þessa ábyrgð.
Líklega var það af því mann langaði svo mikið að eiga vandræðalaust sumar dálítið lengur sem maður gerði ekki annað en að hrista höfuðið yfir þessari ráðningu. Sumarið er hins vegar búið og nú þegar hinni ágætu fréttakonu Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur hefur verið sagt upp störfum án skýringa þá finnst manni alveg komið nóg af framsóknarmennskunni.
Minnugur þess þegar Framsókn reyndi að taka yfir fréttastjórnina á Rúv fyrir ekki svo löngu síðan hlýtur maður að spyrja...
- Hvað eru stjórnendur Stöðvar 2 að hugsa?
- Finnst þeim ráðning Steingríms líkleg til að auka trúverðugleika fréttastofunnar?
- Finnst þeim það auka trúverðugleika hennar að reka einn af öflugustu fréttamönnum sínum án annarra skýringa en að hún hefur sagt það sem allir hugsa - ráðning Steingríms getur vart verið byggð á faglegum forsendum?
- Já, þegar stórt er spurt!!!
![]() |
Þóru Kristínu sagt upp á Stöð 2 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.8.2007 | 10:39
Að sjálfsögðu!
Það er löngu tímabært að hefja heimaunnin matvæli til vegs og virðingar hér eins og í öðrum löndum.
Reyndar er með ólíkindum hvað okkur tekst ævinlega að vera kaþólskari en Páfinn þegar kemur að reglugerðum frá EB. Í Evrópu getur maður hvarvetna fengið heimagerða osta, vín og alls kyns kjötmeti. Þar er slátrari í öðru hverju þorpi og þeir koma jafnvel heim á bæina með sérútbúinn sláturbíl.
Á Íslandi er blessuðum skepnunum hins vegar ekið í misgóðum gripaflutningabílum fleiri hundruð kílómetra áður en þau komast á endastöð. Þá eru sum dýrin orðin södd lífdaga eftir erfitt ferðalag og jafnvel ýmis dæmi um að bæði lömb og hross hafi drepist í sláturbílnum.
Allt er þetta hins vegar gert til að uppfylla reglugerðir fyrir sama neytendasvæði og þýskir og franskir slátrar eru að þjóna með sinni sendibílaslátrun á meginlandinu.
Sjálfur hef ég verið svo heppinn að geta alltaf fengið heimaslátrað kjöt í frystikistuna á haustin og jólahangikjötið mitt er bæði heimaslátrað og heimareykt, enda besta hangikjöt í heimi. Fyrir jólin í fyrra heyrði ég á tal tveggja ónefndra þingmanna í mötuneyti Alþingis, umræðuefnið var vitaskuld hvaðan heimareykta hangikjötið þeirra væri.
Þetta skil ég vel, margir vilja gjarna vita hvaðan lambakjötið þeirra kemur, hvernig það hefur verið meðhöndlað og af hverjum. Eða svo ég vitni til ágætrar skáldkonu af Jökuldalnum sem sagði mér að hún borðaði nú helst ekki lömb sem hún þekkti ekki!
![]() |
Vilja slátra heima |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.8.2007 | 12:35
Á að einkavæða Orkuveituna!!?
Í fréttatilkynningu frá Degi B Eggertssyni, oddvita Samfylkingarinnar í borgarstjórn, segir að fyrir fundi í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur sem á að hefjast núna kl. 13 liggi tillaga um hlutafélagavæðingu fyrirtækisins. Í tilkynningu Dags segir m.a.:
Engin umræða um þessa hugmynd hefur farið fram og málinu var ekki hreyft á nýafstöðnum aðalfundi. Tveir aðalmenn í stjórn Orkuveitunnar, Dagur B. Eggertsson og Svandís Svavarsdóttir eru stödd á stjórnarfundi Sambandsins íslenskra sveitarfélaga á Ísafirði. Hvorugt þeirra fékk send fundargögn vegna málsins. Nú laust fyrir hádegið hafnaði stjórnarformaður Orkuveitunnar rökstuddri ósk um að fresta afgreiðslu málsins. Þetta er fordæmislaust og freklegt brot gegn eðlilegum vinnubrögðum í stjórn fyrirtækisins. Þessu mótmæla undirritaðir stjórnarmenn harðlega.
Sérstaka athygli vekur að rökstuðningur tillögunnar er með vísan til þess að "tímabært er að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín til fulls í útrás orkufyrirtækja." Erfitt er því að skilja þessa atburðarrás öðru vísi en sem upptakt að einkavæðingarferli OR.
Einkavæðing Orkuveitunnar væri þvert á margítrekaðar yfirlýsingar borgarstjóra og meirihlutans í Reykjavík. Offorsið sem einkennir hins vegar ofangreinda málsmeðferð hlýtur hins vegar að vekja fjölmargar spurningar og tortryggni um að einkavæða eigi Orkuveituna á hlaupum. Þetta er stórmál sem þarfnast víðtækrar samfélagslegrar umræðu. Samfylkingin og VG munu óska eftir því að rekstrarform Orkuveitunnar verði sett á dagskrá borgarstjórnarfundar á þriðjudaginn í næstu viku.
Undanfarin misseri hefur fátt verið jafn mikið rætt og eignarhald á orkuauðlindum þjóðarinnar. Þar hefur mörgum þótt orkufyrirtækin fara offari og að heimildir þeirra til að hrifsa til sýn þessi verðmæti, oft til mikils skaða fyrir umhverfi og aðra nýtingarhagsmuni, vera allt of rúmar.
Fram til þessa hefur orkufyrirtækjunum þó liðist þessi framganga af einni ástæðu eingöngu - að orkufyrirtækin hafa verið í almannaeigu. Einkavæðing á Hitaveitu Suðurnesja í sumar boðaði breytta tíma og nú lítur út fyrir að öll loforð Sjálfstæðismanna í borginni um að Orkuveitan yrði áfram í almannaeigu verði svikin.
Þessu má svo bæta við að í frekjulegu kapphlaupi sínu um orkuauðlindir þjóðarinnar hafa orkufyrirtækin gengið svo langt í að lofa orkunni til álbræðslna að önnur stórfyrirtæki sem hingað vilja koma með mengunarfrían iðnað og hundruð starfa hafa hætt við. Orkunni mun allri hafa verið lofað í ál - hún er á þrotum!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.8.2007 | 11:52
Góð lausn - og meðan ég man...
Þetta var og er að ég best veit líka gert í yngstu deildunum í Háteigsskóla. Það var þannig gert að kennararnir sendu foreldrunum lista yfir það sem barnið þurfti að hafa s.s. ritföng, föndurdót og annað slíkt en fóru jafnframt fram á að foreldrarnir leyfðu þeim, kennurunum, að sjá um innkaupin.
Það gerðu allir foreldrar enda sparaði það þeim sporin, reyndist mun ódýrara og kom í veg fyrir meting sem, eins og réttilega segir í þessari frétt, getur haft veruleg áhrif á sjálfsmynd og líðan grunnskólabarna.
Þetta áttu hinir frábæru kennarar, Jóhanna og Ragnheiður, auðvelt með að sýna okkur foreldrunum fram á og fá samhljóða samþykki allra. Á sama hátt stýrðu þær þær öðru sígildu vandamáli um hverjum er boðið og hverjum er ekki boðið í afmæli farsællega í höfn með vinsamlegum tilmælum til foreldra. Undir þeirra mildu en styrku stjórn leið okkur öllum vel, bæði foreldrum og nemendum.
Núna þegar erfiðlega gengur að manna skólana finnst mér kjörið að þakka þeim og öllum hinu góðu kennurunum sem hafa kennt dætrum mínum fyrir þeirra góðu störf. Það er full ástæða til.
![]() |
Kennararnir panta ritföngin og foreldrafélagið innheimtir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.8.2007 | 11:06
Kælivísur

Eitt sjónarhorn á þetta alvarlega mál hefur þó tilfinnanlega vantað í umræðuna og það er hverjum augum útigangsfólkið sjálft lítur þær aðgerðir sem gripið hefur verið til. Hér er gerð tilraun til að bæta úr því.
Þegar bjór ég þamba vil
í því ég mikið pæli
hvort varan skyldi vera til
volg eða beint úr kæli.ÁTVR einlægt ég
ákaflega hæli.
Þar fást ölin yndisleg
ísköld beint úr kæli.Herðir Bakkus hald á mér
og hefur mig að þræli.
Háður víst ég orðinn er
öli beint úr kæli.Eina von mín víst er sú
að Villi burtu fæli
fíkn mína og fari nú
að fjarlægja þennan kæli.Öls í vímu er ég víst
enn og von ég skæli.
Vínþörfina vantar síst
þótt vanti þennan kæli.Villi hann er vinur minn
og von að breitt ég smæli.
Hann endurreisa ætlar sinn
ÁTVR kæli.
23.8.2007 | 11:44
Gamla góða upphrópunarpólitíkin
Borgarstjórinn í Reykjavík, "gamli góði Villi" eins og hann kallar sig sjálfur, er sannarlega gamaldags pólitíkus. Hann vill stjórna borginni eins og hreppstjórar gerðu hér áður fyrr í litlum sveitum, hafa alla þræði í hendi sér og hafa puttana í jafnvel allra smæstu málum.
Stóra bjórkælismálið er dæmigert viðfangsefni fyrir stjórnmálamenn af þessari gerð. Á rölti sínu um Austurvöll hefur hann séð að á daginn hafast þar við útigangsmenn, gjarna dálítið rakir. Af þeim er stundum ónæði sem gamaldags stjórnmálamaður sér að er akkúrat mátulega stórt verkefni fyrir hann, verkefni sem gæti höfðað til fjölda fólks og styrkt ímynd hans sem verndara saklausra borgara í miðbænum.
Borgarstjórinn var ekki lengi að leggja saman tvo og tvo, róna og ÁTVR, og sjá að það yrði að fjarlægja vínið. Einhverjir hafa líklega hvíslað að honum að það væri ekki líklegt til vinsælda að svipta þá sem búa og starfa í miðborginni þessari eðlilegu þjónustu og því breytti hann áherslum sínu aðeins - hann vill að það verði hætt að selja bjór í stykkjatali og að það verði alla vega ekki hægt að fá keyptan kaldan bjór. Fyrir röggsama baráttu borgarstjórans hefur því hinum stórhættulega bjórkæli þegar verið kippt úr sambandi.
Eitthvað hefur þessi krossferð borgarstjórans gegn köldum bjór snúist gegn honum og til að gera baráttu sína ögn hetjulegri og dramatískari skaust borgarstjórinn í sjónvarpsfréttir í gærkvöld og sagði nauðsynlegt að grípa til aðgerða því það sé óviðunandi að borgarbúar séu hræddir við að ganga um miðborgina um hábjartan daginn.
Vegna vinnu minnar geng ég þessar "hættulegu slóðir" daglega og ég verð að viðurkenna að ótti borgaranna við að ganga um miðborgina hefur algerlega farið framhjá mér. Þvert á móti get ég ekki annað séð en að miðborgin sé full af lífi upp á nánast hvern einasta dag - hvert sem litið er má sjá brosandi og glaðlegt fólk.
Hræðslublik hef ég hreinlega ekki séð augum nokkurs manns, nema ef vera skyldi veitingamanna í miðbænum í morgun af því borgarstjóri notaði fréttatíma gærkvöldsins til að hræða fólk frá því að fara niður í bæ.
Í gær mætti ég útigangsmönnunum sem vekja borgarstjóranum svo mikinn ugg í brjósti. Þeir spurðu hvort ég ætti eitthvað klink og ég spurði á móti hvort þeir væru ekki alveg hættir að drekka eftir að það hætti að fást kaldur bjór í Austurstrætinu. Þeim var skemmt. "Við erum ekki hérna út af bjórnum vinur, það er alls staðar hægt að fá hann, það er aurinn - áttu eitthvað smá?"
Það skyldi þó aldrei vera að lækninguna á ótta borgarstjórans væri fremur að finna í úrræðum fyrir útigangsfólkið en að taka kælinn í ÁTVR úr sambandi og hræða fólk frá því að fara niður í bæ? En það er kannski allt of flókið úrlausnarefni fyrir gamaldags pólitíkus?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.8.2007 | 15:33
"Stórskuldug vegna skorts á plássi á frístundaheimili"
Þetta er fyrirsögn fréttar á síðu 2 í Blaðinu í dag. Þar lýsir einstæð móðir því hvernig það fór með efnahaginn að fá ekki pláss fyrir barnið sitt á frístundaheimili. Hún er ekki ein um þetta. Í borginni vantar enn 2000 börn pláss á frístundaheimili. Einungis 700 hafa fengið vistun.
Það er vond tilfinning að vita af barni sínu, 6-10 ára, einu heima - jafnvel þótt ekki sé nema stutta stund. Foreldrar í þessum sporum eru á nálum í vinnunni eftir kl. 13.30 þegar skólanum lýkur. Það er reynt að skutlast með barnið til afa og ömmu, biðja eldri systkyni eða frændfólk að líta eftir þeim eða stelast til að taka þau í vinnuna. Hjá mörgum er engu neti ættingja og vina til að dreifa.
Ég veit nokkur dæmi þess frá í fyrra að fólk hafi þurft að segja upp vinnunni af þessum sökum. Þá voru foreldrar í þessari stöðu nokkur hundruð - nú eru foreldrar 2000 barna í þessari stöðu, m.a. vegna meiri eftirspurnar eftir frístundaplássum.
Í fyrra flaut athafnastjórnmálamaðurinn, formaður ÍTR, sofandi að feigðarósi í þessum málum og ekkert gerðist í málinu fyrr en farið var að ráðum Samfylkingarinnar um að bjóða upp á hlutavistun.
Þá kom í ljós að margir foreldrar sem voru með fulla vistun þurftu ekki á henni að halda, gátu (og vildu gjarna) komið fyrr heim 1-2 daga í viku. Þessir foreldrar vildu gjarna taka færri daga, borga minna sem því nam og leyfa fleirum að njóta þjónustunnar.
Í þessari stöðu vakna óneitanlega nokkrar spurningar
- Var meirihlutanum ekki ljóst eftir ástandið í fyrra að sama staða eða verri yrði nú í haust?
- Af hverju afréð meirihlutinn þrátt fyrir þetta að hætta að bjóða upp á hlutavistun?
- Finnst formanni ÍTR, sem nú mun leiða starf nefndar sem er að móta fjölskyldustefnu Reykjavíkurborgar, það fjölskylduvænt að 6-10 ára börn séu skilin eftir ein heima? Nú eða að börn sem aðeins þurfa vistun 3 daga í viku geti bara valið um að borga fyrir 5 daga eða sleppa þjónustunni alveg?
22.8.2007 | 13:55
Fer að minnka arðsemin
Arðsemin af Kárahnjúkavirkjun var hæpin fyrir og minnkar enn þegar Landsvirkjun þarf að greiða margfalt það verð fyrir vatnsréttindin sem áætlað var.
Reyndar er það svo að arðsemin af virkjuninni einni og sér er alls engin. Hefði Kárahnjúkavirkjun átt ekki fengið veð í öllum öðrum eignum Landsvirkjunar og ábyrgðum ríkisins þá hefði aldrei fengist nógu ódýrt fjármagn í framkvæmdina. Um þetta er ekki ágreiningur.
Þegar búið er að senda inn alla reikninga fyrir ófyrirséð verkefni og tafir (sem hefðu ekki þurft að vera ófyrirséð hefðu stjórnvöld flýtt sér aðeins hægar) verður fróðlegt að sjá hvort arðsemin sem stefnt var að (með veði í öllum eignum LV og ábyrgð ríkisins) nær því lágmarki sem sett var.
Mér er það til efs og alla vega má ekki mikið út af bregða með álverð og afstöðu gjaldmiðla, einkum Evru og Dollars.
Ef þau náttúruverðmæti sem fórnað var hefðu verið tekin með í reikninginn - líkt og gert er í flestum siðmenntuðum löndum - hefði ekki þurft að spyrja um niðurstöðuna. Ég fullyrði að þá hefði verið hætt við.
Þetta ætti að kenna okkur að það borgar sig að flýta sér hægt.
![]() |
Fjárhæðin hærri en Landsvirkjun gerði ráð fyrir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.8.2007 | 22:28
Umhverfisráðherra - kærkomin nýjung í íslenskri stjórnsýslu
Þórunn Sveinbjarnardóttir stendur fast í báða fætur sem umhverfisráðherra. Það er nokkuð sem landsmenn eiga ekki að venjast en er skemmtileg tilbreyting.
Í þessum úrskurði er um að ræða afar verðmætt náttúrusvæði, eitt stærsta votlendi landsins, friðland og samþykkt sem Ramsarsvæði.
Fyrir rúmum áratug var annað slíkt svæði eyðilagt af skammsýnum mönnum með þverun Gilsfjarðar. Þar var öll skynsemi látin lönd og leið, áhrifamenn keyrðu framkvæmdina í gegn með harðsvíruðum áróðri á þeim nótum að þeir sem vildu bæta veginn með öðrum hætti mætu mannslíf einskis. Reyndar var það grjótkast úr glerhúsi því markviss vanhöld á veginum í þeim tilgangi að knýja á um þverun fjarðarins stuðluðu að tveimur banaslysum.
Niðurstaðan hvað fjörðinn varðar er að lífríki hans í dag er nánast dautt. Hvorki silungur eða lax gengur lengur upp í árnar innan við þverunina. Eflaust veldur þar miklu að brúin á þveruninni er svo stutt að vatnaskipti innan hennar eru því sem næst engin. Í firðinum gætti áður mests munar á flóði og fjöru á landinu og á stórstaumsfjöru var fjörðurinn eitt samfellt leirusvæði marga kílómetra út frá botni með tilheyrandi fuglalífi.
Á komandi árum munu menn vilja þvera fleiri firði og leggja undir þá mörg náttúrufarslega verðmæt svæði. Það er því gott til þess að vita að það sé mættur til leiks alvöru umhverfisráðherra sem þorir að standa fast í báða fætur.
![]() |
Umhverfisráðherra hafnar veglagningu um Grunnafjörð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.8.2007 | 20:30
Vondur rökstuðningur
Auðvitað gera sér allir ljóst að það er þensla á vinnumarkaði þegar verður að flytja inn fólk þúsundum saman til að halda hjólum atvinnulífsins gangandi og maður finnur varla nokkurn eldri en 15 ára til að afgreiða sig í búðum.
Það er hins vegar býsna mikil einföldun af meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks að það sé bara út af þenslu á vinnumarkaði sem illa gengur að manna grunnskóla, leikskóla og frístundaheimilin.
Það er rétt að þenslan gefur starfsfólki skólanna möguleika á betur launaðri vinnu - og kannski er það einmitt þessi staðreynd sem menntaráð ætti að skoða ofan í kjölinn. Störfin eru mjög krefjandi og langtum verr launuð en önnur störf sem kennarar og starfsfólk skólanna á möguleika á.
Með öðrum orðum; grunn- og leikskólar eru ekki samkeppnisfærir um fólk á vinnumarkaði. Þetta benti fræðslustjóri reyndar á með eftirminnilegum hætti í fréttum ekki alls fyrir löngu svo meirihlutinn ætti að vera málinu kunnugur.
Það er síðan dálítið gaman að skoða betur rökin sem meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks styðjast við - að 51% stjórnenda telur að skortur sé á vinnuafli.
Það hlýtur að þýða að 49% telja að svo sé ekki. Nokkuð skemmtilegt þegar haft er í huga að 49% er ívið hærri tala en fylgi hins svokallaða meirihluta í borgarstjórn í síðustu kosningum.
![]() |
Vel gengur að ráða kennara í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)