19.8.2007 | 19:25
Lítið gert úr unglingunum í Grafarvoginum
Í fréttum Stöðvar 2 rétt í þessu kom framkvæmdastjóri Strætó bs fram og fullyrti að unglingar í Grafarvogi hefðu skrökvað upp á Strætó til að forðast skammir foreldra sinna fyrir að koma seint heim.
Forsagan er sú að unglingarnir reyndu að taka síðasta strætó heim, voru skammt frá en ekki nákvæmlega á stoppistöðinni og vagnstjórinn hleypti þeim ekki upp í vagninn. Unglingarnir bentu á þetta hefði verið utan háannatíma svo vagnstjórinn hefði auðveldlega getað hleypt þeim upp í án þess að tefjast og verða á eftir áætlun.
Í stað þess að taka þessari ábendingu fagnandi, biðjast afsökunar á atvikinu og lofa að þetta komi ekki fyrir aftur sá framkvæmdastjórinn hins vegar ástæðu til þess að koma fram í fréttum og segja að unglingarnir skrökvi. Þetta er undarlegt af framkvæmdastjóra fyrirtækis sem nú ætlar að leggja sérstaka áherslu á að þjóna framhaldsskólakrökkum.
Þegar ég ætlaði að taka Leið 6 heim úr vinnunni á föstudaginn varð mér það á að vera ekki nákvæmlega á stoppistöðinni þegar vagninn kom. Ég veifaði vagnstjóranum með áberandi hætti og tók á sprett þessa 20 metra sem ég átti ófarna. Vagnstjórinn sá hins vegar enga ástæðu til að stoppa og ég missti af vagninum.
Framkvæmdastjórinn vill kannski renna aðra ferð upp á Stöð 2 til að segja fólki að ég hafi bara verið að skrökva til að fá ekki skammir fyrir að koma of seint heim að elda matinn?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
17.8.2007 | 16:45
Ráðaleysi meirihlutans í borginni
Ég ætla svo sem ekki að halda því fram að það sé auðvelt að ráða fólk til starfa í grunnskólum, leikskólum eða frístundaheimilum, núna þegar þenslan er slík að það er nánast ómögulegt að finna afgreiðslufólk í búðum sem er eldra en 15 ára. Þetta er snúin staða og það er einmitt í slíkum aðstæðum sem hæfni stjórnmálamanna kemur í ljós.
Í fyrra haust biðu hundruð barna á biðlista eftir frístundaplássi, mörg mánuðum saman. Foreldrar þessara barna lentu í stórkostlegum vandræðum með að stunda vinnu sína vegna þessa og neyddust jafnvel til að hætta störfum. Fulltrúar Samfylkingarinnar vöruðu við þessu ástandi strax og ljóst var í hvað stefndi en andvaraleysið réð för langt fram á haust.
Að lokum ákvað meirihlutinn að fara að ráðum Samfylkingarinnar og bjóða upp á hlutavistun, þ.e. að foreldrar gætu valið um að fá einungis vistun í 2-3 daga fyrir börnin og borga minna sem því nam. Þetta þáðu margir foreldrar sem ekki þurftu á fullri vistun að halda og umtalsvert saxaðist á biðlistana.
Margir hefðu talið að meirihlutinn vildi nýta sér þetta fyrirkomulag áfram, einkum þar sem ljóst var í sumar að ekki drægi úr þenslu á vinnumarkaði. Það var þó ekki reyndin og meirihlutinn ákvað að næsta vetur yrði einungis hægt að velja um annað hvort fulla vistun eða enga vistun.
Þetta gerir meirihlutinn þrátt fyrir þá staðreynd að aldrei hafa fleiri börn verið á biðlista eftir plássi á frístundaheimilum en einmitt núna!
Tillaga Samfylkingarinnar um námsstyrki til þeirra sem vilja vinna á frístundaheimilum samhliða námi er verulega góð, ekki síður en hugmynd Samfylkingarinnar í fyrra um hlutavistun.
Það verður líka að hrósa meirihlutanum fyrir að samþykkja tillögur Samfylkingarinnar strax í stað þess að bíða með það fram á vetur eins og í fyrra. Það er framför.
Best væri þó fyrir alla aðila að meirihlutinn í ÍTR játaði formlega ráðaleysi sitt og hleypti þeim að verkinu sem hafa raunverulegan vilja og getu til að leysa málið.
![]() |
Kanna á með námsstyrki til námsmanna sem vinna á frístundaheimilum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.8.2007 | 16:15
Nú rymja nátttröllin
Valgerður Sverrisdóttir er fulltrúi gamalla viðhorfa í málefnum iðnaðar, hvað þá náttúruverndar. Hún er talsmaður viðhorfa sem áttu sitt blómaskeið í ríkisstjórnarsamstarfi Framsóknarflokksins við Sjálfstæðisflokkinn. Talsmaður hugmyndafræði sem Framsókn tók upp á sína arma eftir að halla tók undan fæti fyrir sauðkindinni og kvótakerfið hafði lagt sjávarbyggðirnar í rúst.
Hugmyndafræðin er vel þekkt og stundum kennd við gamla leiðtoga eins og Stalín og Franco og gengur út á að tryggja íbúum tiltekinna landssvæða atvinnu á stórum vinnustöðum með því að setja stálbræðslu hér og útgerð þar. Framsókn var reyndar með einfaldaða útgáfu - álver alls staðar.
Það er því ekki undarlegt að henni þyki óvarlega talað þegar nú er sestur í hennar gamla stól maður sem vill leggja áherslu á hátækni- og þekkingariðnað og hætta þeirri gjaldþrota byggðastefnu sem felst í því að setja ál þar sem áður var sauðkind og þorskur.
Henni þykir greinilega ábyrgðarlaust af ráðherranum að leggja svo mikla áherslu á að gengið sé vel um náttúru landsins. Það hefur henni og félögum hennar í Framsókn aldrei þótt mikilvægt enda náttúra landsins "ekkert sérstök" og "lítill söknuður" af henni miðað við megawöttin sem má fá í staðinn.
Þetta er hugmyndafræði nátttrölla, það sjá allir nú þegar upp er runninn nýr dagur.
Í dag er fjölbreytileiki lykilatriði fyrir öll samfélög sem ætla sér að vaxa og eflast. Það er stutt út í heim og unga fólkið vill skoða hann, mennta sig og velja svo úr þeim mörgu tækifærum sem því stendur til boða.
Það er vel mögulegt að á endanum velji einhverjir að starfa í verksmiðju heimahaganna og það er ágætt en frekar ólíklegt nema að einnig hafi tekist að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf, góða þjónustu, góð tækifæri til mennta og góðar samgöngur. Verksmiðja bæjarins má ekki bera samfélagið ofurliði.
Það óttast ég að muni gerast í ónefndu bæjarfélagi fyrir austan þar sem vandséð er hvort álverið er við fjörðinn eða fjörðurinn (og samfélagið) í álverinu. Þar er mikil hætta á einsleitni, á að samfélagið snúist allt um stóra fyrirtækið og samvinnu við það á flestum sviðum.
"I owe my soul to the company store"
Á landsbyggðinni er ferðaþjónusta sú atvinnugrein sem er auðveldast að hefja sjálfstæðan rekstur í. Vilji fólk fara út í mjólkuriðnað þarf til þess a.m.k. á annað milljónir í stofnkostnað og ekki er auðveldara að stofna fyrirtæki í útgerð. Í ferðaþjónustu er hins vegar hægt að stofna fyrirtæki án þess að steypa sér í skuldir og byggja upp fyrirtæki sem gefur nokkur ársverk á 5-10 árum.
Eins og flestir vita er það einmitt náttúra landsins sem dregur flesta ferðamenn til landsins og því er gleðiefni að iðnaðar- og byggðamálaráðherra Samfylkingarinnar skuli, ólíkt forverum sínum úr Framsóknarflokkinum, sýna náttúru landsins þá sjálfsögðu virðingu að krefjast þess að farið sé eftir lögum og reglum um umgengni við hana.
Það er kaldhæðnislegt að hernaður Framsóknar gegn náttúru Íslands skuli hafa verið háður í nafni landsbyggðarinnar. Til að efla fjölbreytt atvinnulíf á landsbyggðinni væri einmitt skynsamlegt að setja fjármagn í verndun verðmætra svæða, uppbygginu á grunnþjónustu s.s. í þjóðgörðum, merkingu áhugaverðra staða, eflingu safna um allt land og almennt í innviði ferðaþjónustunnar.
Ferðaþjónustan getur orðið ein helsta mjólkurkýr landsbyggðarinnar og mun eflaust verða það nú þegar Framsókn getur ekki lengur náð fram þeim vilja sínum - að éta hana!
![]() |
Valgerður segir Össur gaspra um afturköllun virkjanaleyfis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.8.2007 | 11:07
"Að vera í sambandi við annað fólk, er mér lífsnauðsyn..."
Í þessum orðum Stuðmanna felst mikill sannleikur, það sýnir t.d. þessi frétt á visir.is í dag
GSM-samband verður á helstu vegum landsins eftir tvö og hálft ár, á samtals yfir 1.200 kílómetra vegakafla. Þetta verkefni er tvískipt. Fyrri áfanganum lýkur í janúar á næsta ári þegar allur hringvegurinn verður kominn í GSM-samband ásamt fimm fjölförnum fjallvegum. Seinni áfanginn hefur verið boðinn út og eiga þær framkvæmdir að taka tvö ár.
Hótelhaldarar og aðrir sem vinna að ferðamálum eru orðnir þreyttir á langvarandi GSM-sambandsleysi. Árni Zophaníasson, hótelhaldari á Bjarkalundi í Reykhólahreppi, er einn þeirra.
Þetta hefur verið alvarlegt ástand hérna síðustu ár og valdið okkur stórtjóni," segir Árni. Fólk kemur ekki hingað vegna þess að hér er ekki gemsasamband. Það kom hópur af bílum í vor og ætlaði að vera heila helgi. Flestallir flúðu því krakkarnir urðu alveg brjálaðir. Þeir komust ekki inn á netið og komust ekki í gemsann."
Við fjölskyldan gerðum víðreist um norðvesturkjördæmi í sumar og það verður að segjast eins og er að gott gsm samband er vandfundið á svæðinu. Sérstaklega er þetta slæmt í Dölunum, á Ströndum og á Vestfjörðum.
Fyrir okkur var þetta svo sem bara þægilegt - eftir 5 daga í Norðurfirði var maður eiginlega búinn að gleyma að gsm væri til. Nokkuð notaleg tilbreyting.
Fyrir alla aðra en þá sem beinlínis þurfa hvíld frá þessum tækjum er þetta hins vegar óviðunandi ástand. Gsm er ekki bara samskiptatæki heldur gríðarlega mikilvægt öryggistæki.
Það er gott að þetta verkefni skuli vera komið á hraða siglingu eftir mikinn seinagang undanfarin misseri.
Ég vona að það sama verði gert varðandi uppbyggingu háhraða internets á landsbyggðinni.
3.8.2007 | 22:22
Maður getur ekki tekið eftir öllu...
![]() |
Bush boðar til umhverfisráðstefnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.8.2007 | 14:10
Hvað myndir þú vilja gera við 76 milljónir á ári?
Þetta er skandall.
Þarna er vaðið út í milljarða samninga til 25 ára án þess að efnt sé til útboðs. Svona vinnubrögð hljóta að vekja grunsemdir um spillingu. Hvaða ástæður eru fyrir því að meirihluti Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanns að vilja henda 76 milljónum út um gluggann á hverju ári?
Ég gæti hugsað mér að nota þessa peninga í ýmislegt annað en dýrari húsaleigu. T.d. að bæta hjólastíga borgarinnar, gera útivistarsvæði borgarinnar notendavænni, fjölga strætóferðum aftur - nú eða bara hækka húsaleigubætur svo eitthvað sé nefnt.
Hvað myndir þú vilja gera við 76 milljónir á ári?
![]() |
Gagnrýna leigusamning |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.8.2007 | 21:34
Öflugur og raunsær byggðamálaráðherra
Össur hefur slegið nýjan tón í byggðamálum á þeim tveimur mánuðum sem hann hefur verið ráðherra byggðamála.
Þegar hann var nýtekinn við embætti var tilkynnt um bága stöðu ýmissa fyrirtækja á Vestfjörðum og stuttu síðar var ljóst að draga þyrfti stórkostlega úr þorskveiðum sem setur ýmis byggðarlög í enn meiri vanda.
Þegar ráðherrann var spurður hvað ætti að gera sagði hann nokkuð sem fæstir hafa sagt áður - sannleikann. Hann sagði að það yrði að efla grunngerð þessara byggðarlaga, fjölga stoðum atvinnulífsins, bæta samgöngurnar, fjarskiptin og efla gagnaflutninga, auka möguleika fólks á menntun.
Þarna kveður við nýjan tón og gott að fá til tilbreytingar byggðamálaráðherra sem einfaldlega segir satt í stað þess að leika hinn frelsandi herra með töfralausnir í erminni eins og álver og olíuhreinsistöðvar. Og þetta er líka hárrétt hjá ráðherranum - það verður að efla grunngerð samfélaganna til að venjulegt fólk kjósi að eiga þar framtíð sína. Annars fer fólk einfaldlega.
Ráðherrann sagði líka nauðsynlegt að ríkisstjórnin hefði einhver þau tæki sem hægt væri að grípa til þegar sveitarfélög, sem t.d. byggja um of á einhæfu atvinnulífi, verða fyrir áföllum. Með því að koma fótunum á ný undir Byggðastofnun er ráðherrann væntanlega að skapa sér slíkt tæki.
Sumir hafa gagnrýnt ráðherrann fyrir að vilja aflétta 1.200 milljóna skuldum Byggðstofnunar og segja þar sé verið að bruðla með fé almennings. Það er kolrangt. Það er löngu búið að eyða þessum peningum. Það hafa aðrir pólitíkusar gert með þeim hætti að stundum vakna spurningar um lögmæti þeirra gjörninga. Fyrir vikið er Byggðastofnun eins og bíll á loftlausum dekkjum. Össur er að leggja til að það verði pumpað í dekkin á nýjan leik.
Það er að sjálfsögðu afar brýnt að misnotkun með fé Byggðastofnunar endurtaki sig ekki. Jafnbrýnt og að stofnunin verði núna reist á fætur svo hún geti sinnt hlutverki sínu sem ljósmóðir nýrra atvinnutækifæra á landsbyggðinni.
Þau tækifæri eru mörg. Með "störfum án staðsetningar" munu hundruð starfa hjá hinu opinbera standa landsbyggðarfólki til boða á næstu misserum. Ferðaþjónustan býður líka upp á fjölda tækifæra og er sú atvinnugrein sem er auðveldast fyrir nýja aðila að starta sér í án þess að skuldsetja sig fyrir tugi eða jafnvel hundruð milljóna eins og t.d. er raunin með ungt fólk sem vill fara út í mjólkuriðnað - að ekki sé minnst á sjávarútveg.
Því miður hefur ferðaþjónustan verið hornreka á borði iðnaðarráðherra síðustu ríkisstjórna. Stuðningur við hana hefur nánast enginn verið á meðan stuðningur við stoðkerfi landbúnaðar, sjávarútvegs og stóriðju hefur verið rausnarlegur. Þessu þarf að breyta.
Það þarf að bæta samgöngur og innviði ferðaþjónustunnar s.s. með eflingu safna í héruðum, merkingu gönguleiða, byggingu göngustíga og merkingum á áhugaverðum stöðum. Það þyrfti líka hið fyrsta að veita ferðaþjónustunni rannsóknarfé. Mér skilst að rannsóknarfé ferðaþjónustunnar á síðasta ári hafi verið um 8 milljónir króna! Að svelta þennan mikla vaxtarsprota í atvinnulífi landsins, sérstaklega á landsbyggðinni, sýnir skammsýni fyrrverandi ríkisstjórna.
Það verður að efla grunngerðina og fjölga stoðum atvinnulífsins sagði ráðherrann. Þetta er í raun það sama og skagfirskur hrossabóndi sagði við mig snemma í vor þegar skrifað var undir sauðfjársamninginn fræga:
"Hvað með ungt fólk sem vill búa hér í sveitinni með hross, eða stunda kennslu á Hólum? Hvað með ferðaþjónustubændur eða rannsóknarbændur eða fólk sem vinnur í starfi óháð staðsetningu en vill búa hér í héraðinu? Er það algjört skilyrði fyrir stuðningi við þetta fólk að það eigi rollu?"
![]() |
Iðnaðarráðherra: 1.200 milljóna kr. skuld Byggðastofnunar verði aflétt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.7.2007 | 12:51
Asi og leti
Við erum aftarlega á merinni hvað varðar umhverfismál, sérstaklega opinberir aðilar. Dæmi um það er að Sundagöng voru fyrst athuguð alvarlega eftir verulegan þrýsting frá borgarbúum og fulltrúum Samfylkingarinnar.
Sama er uppi á teningnum í Gufudalssveitinni núna. Þar á að leggja veg í gegnum svæði sem er hátt skrifað sem náttúrusvæði. Möguleiki á jarðgöngum hefur ekki verið skoðaður en fyrrverandi umhverfisráðherra heimilaði þessa vegalagningu þvert á ráðleggingar Skipulagsstofnunar.
Það eru til tæki til að meta kosti og galla hinna ýmsu framkvæmda m.t.t. umhverfisins. Þetta eru svokallaðar kostnaðarhagkvæmnigreiningar þar sem töpuð náttúrugæði eru tekin með í reikninginn. Þótt jarðgöng séu eilítið dýrari (ca 600 milljónum) en sú leið sem nú á að fara þá er vel hugsanlegt að það sé verið að spara aurinn og henda krónunni. Það hefur ekki verið kannað og stendur víst ekki til. Hvílík leti!
Ég sá í Bjarkalundi um daginn auglýst eftir hnyttnu slagorði fyrir Reykhólasveitina í anda "Dalirnir heilla". Það er athyglisvert að velta fyrir sér áherslum harðra fylgjenda hraðbrautar um Teigsskóg á sama tíma og verið er að reyna að byggja svæðið upp sem áhugavert ferðamannasvæði með mikilfenglegri náttúru.
Þarna er þversögn því samfélagið gæti verið að fórna ómetanlegri náttúruperlu og aðdráttarafli fyrir ferðamenn á svæðinu fyrir það helst að það verði aðeins ódýrara að koma fólki hratt framhjá.
Ætti slagorðið kannski að vera "Reykhólar - vertu fljótari framhjá!"?
![]() |
Höfða mál gegn umhverfisráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.7.2007 | 11:38
Vindhögg bæjarstjóra og borgarfulltrúa
Í gær lét Gísli Marteinn Baldursson hafa eftir sér í Fréttablaðinu að umferðaróhöpp í borginni væru áfellisdómur yfir R-listanum. Það er neyðarlegt þegar borgarfulltrúar eru með svona setningar "á sjálfvali". Þarna hefði borgarfulltrúinn átt að hugsa aðeins lengra áður en hann svaraði.
Þá hefði hann e.t.v. munað eftir því að slysum, ekki síst alvarlegum slysum, hefur fækkað stórkostlega undanfarin ár. Markvisst hefur verið tekið á "svörtum blettum" í gatnakerfinu og 30 km hámarkshraði í hverfum hefur orðið til þess að ekki hefur orðið banaslys á barni í hverfum borgarinnar í mörg ár.
Borgarfulltrúinn hefði líka mátt hugleiða að aukinni bílaeign fylgir aukin hætta á óhöppum og því alvarlegri sem bílar eru stærri og þyngri. Það er því heiðarlegra að beina gagnrýni sinni að fyrrverandi ríkisstjórn sem hvatti til kaupa á risavöxnum pallbílum með tollaívilnunum.
Þetta er auðvitað ekki stórpólitískt mál en hálf leiðinlegt þegar vanasetningar leiða menn á villigötur.
Vindhögg bæjarstjórans á Ísafirði er öllu alvarlegra. Það högg var ætlað náttúruverndarfólki, þar var hátt reitt til höggs og með fullum ásetningi. Halldór Halldórsson, sem nú er á harðahlaupum frá stefnu sinni um stóriðjulausa Vestfirði, reynir nú að koma ábyrgðinni á alvarlegri stöðu í atvinnumálum á Vestfjörðum yfir á náttúruverndarsinna.
Fyrir um fjórum árum kallaði Halldór eftir hugmyndum frá náttúruverndarfólki um nýsköpun og uppbyggingu á Vestfjörðum. Hann heldur því fram að náttúruverndarfólk (undarleg alhæfing um helming þjóðarinnar) hafi lofað honum 700 störfum en svo hafi ekkert gerst. Náttúruverndarsinnar hafa ekki skapað eitt einasta starf á Vestfjörðum, segir Halldór.
Nú veit ég svo sem ekki hverja Halldór hitti en ég veit að Vestfirðir væru mun verr settir ef náttúruverndarsinnar hefðu ekki barist fyrir friðlandinu á Hornströndum. Bara til að nefna eitt dæmi. Hvað ætli þeir náttúruverndarsinnar hafi skapað Vestfjörðum mörg störf?
Ég gæti vel ímynda mér að þeir sem standa fyrir tónlistarhátíðinni "aldrei fór ég suður" sem dregur að sér fjölda ferðamanna og vekur jákvæða athygli á Vestfjörðum telji sig vera náttúruverndarsinna. Það sama á líklega við um alla þá fjölmörgu sem hafa undanfarin ár unnið að uppbygginu ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Og skapað störf.
Halldóri væri nær að beina gagnrýni sinni að fyrrverandi ríkisstjórn. Í tíð síðustu ríkisstjórnar var að sjálfsögðu ekki hægt um vik að brydda upp á nýjungum í atvinnurekstri. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins var galtómur og árum saman var ekki krónu úthlutað til nýrra verkefna - öll nýsköpunarorka fyrrverandi ríkisstjórnar beindist að einni hugmynd austur á Reyðarfirði.
Hann gæti líka sagt sem satt er: Fyrrverandi ríkisstjórn stóð sig ekki í að koma Vestfjörðum í almennilegt vegasamband við restina af landinu. Við þær aðstæður er ekki hægt að reka fyrirtæki í samkeppni við önnur sem eiga miklu auðveldara með að tengjast markaði sínum. Fyrrverandi ríkisstjórn dró líka lappirnar í að byggja upp fjarskiptakerfið og gagnaveitu. Það setur stórt strik í reikninginn þegar verið er að kalla eftir nýsköpun í atvinnulífinu.
Högg bæjarstjórans til friðþægingar sjálfum sér og fyrrverandi ríkisstjórn er ómaklegt vindhögg.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.7.2007 | 20:12
Að "windowsjoppa" olíuhreinsunarstöð
Sérleg sendinefnd fulltrúa frá ríki, sveitarfélögum á Vestfjörðum og stóriðjumöngurum sem kalla sig íslenska hátækni fóru til meginlandsins að kynna sér olíuhreinsunarstöðvar.
Sumir féllu í stafi yfir þessu og telja sig hafa fengið töfralausnina sem vantar til að þeir sleppi við að byggja upp skilyrði fyrir fjölbreytt atvinnulíf - eins konar skreiðartafla til að seðja svanginn. Meðal þeirra er bæjarstjórinn á Ísafirði sem nýtir núna fyrsta tækifæri sem hann fær til að yfirgefa stefnu sína um stóriðjulausa Vestfirði. Ætli Vinstri grænir séu ekki glaðir að hafa kosið hann formann sambands íslenskra sveitarfélaga.
Annar fulltrúi meirihlutans átti víst ekki orð til að lýsa hrifningu sinni yfir því að mitt í öllum pípulögnunum var að finna snyrtivörutilraunastofu. Í olíuhreinsunarstöð virðast allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Og mengunin er víst sama sem engin, sendifulltrúarnir sáu alla vega enga.
Það mun kosta um 120 milljónir að gera allar þær hagkvæmni- og umhverfisathuganir sem gera þarf bara til að sjá hvaða möguleikar eru á að koma stóriðju af þessu tagi fyrir í einhverjum af töfrafjörðum Vestfjarða. Venjan er sú að framkvæmdaraðili borgi allan slíkan kostnað.
Það var hins vegar enginn með veskið með sér og ekkert útlit fyrir að neinn sé að fara að borga þessa fjárhæð fyrir þær frumathuganir sem gera þarf til að hægt sé að taka fleiri skref í þessu máli.
Menn gera því skóna að olíuhreinsunarmógúlarnir ætli að reyna að nýta sér skilyrði sjávarútvegsfyrirtækjanna á Vestfjörðum til að láta ríkið borga þennan pening. Þá eru þeir svona eins og fasteignasalar sem hafa náð að krækja sér í ókeypis lóð - ekkert eftir annað en að hringja í eitthvert olíufyrirtæki og bjóða því að koma og hirða svo hæfilega þóknun fyrir miðlunarþjónustuna.
Afsakið - hátækniþjónustuna.
Á þeim dögum sem ég er búinn að vera hér fyrir vestan hef ég ekki hitt einn einasta mann sem er með barlóm. Það er hugur í fólki og ég hef heyrt margar raunhæfar hugmyndir sem falla eins og flís við rass að útspili ríkisstjórnarinnar.
Menn í sveitastjórnum eru flestir óhræddir við að takast á við skyldur sínar sem eru m.a. að byggja upp skilyrði fyrir fjölbreytt atvinnulíf, bætt skilyrði til menntunar, aðstoð við frumkvöðla og aukna þjónustu við íbúa. Þetta er kannski spurning um að leyfa þreyttum að hvílast?