Samfélagsleg ábyrgð orkufyrirtækjanna

Orkuauðlindir og náttúrugersemar landsins eru sameign þjóðarinnar. Orkufyrirtækin eru líka enn sem komið er að mestu í eigu samfélagsins. Kjörnir fulltrúar þjóðarinnar bera ábyrgð á að varðveita hvort tveggja til framtíðar. Þar sem þessir hagsmunir skarast þarf að stíga varlega til jarðar.

Orkufyrirtækin hafa hingað til ekki þurft að taka mikið tillit til sjónarmiða náttúruverndar, þau hafa fengið býsna frjálst spil því vitund almennings um þau verðmæti sem glatast við virkjanaframkvæmdir hefur verið af skornum skammti. Fjármagni til rannsókna, þekkingu sérfræðinga, og aðferðafræði við mat á verðmætum náttúrusvæða hefur verið ábótavant.

Nú er það að breytast. Það er komin rík krafa á hendur orkufyrirtækjunum að sýna samfélagslega ábyrgð m.a. í að ganga ekki á aðra hagsmuni þ.a. í raun sé samfélagið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Enn er samt langt í land að lög um umhverfismat og núverandi rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma tryggi þetta.

Ölkelduháls á Hengilssvæðinu er gott dæmi. Í Rammaáætlun fékk svæðið umhverfiseinkunn A sem þýðir að lítil eftirsjá þykir af svæðinu miðað við flest önnur svæði. Einkunnin byggir á nokkrum undirþáttum s.s. landslag, jarðminjar og vatnafar, tegundir, útivist og hlunnindi.

Í sérstökum viðauka við Rammaáætlun er hægt að finna upplýsingar um gæði þeirra gagna sem lokaeinkunn byggir á. Ölkelduháls er einstaklega fjölbreytt hverasvæði steinsnar frá höfuðborgarsvæðinu og býður upp á gríðarlega möguleika fyrir útivistarfólk og ferðaþjónustuaðila.

Gæði þeirra gagna sem lágu til grundvallar einkunn svæðisins sem útivistarsvæðis voru í flokki D. Á mannamáli þýðir það að það fór enginn þangað og skoðaði svæðið m.t.t. útivistar, ekki var spurst fyrir eða skoðaðar myndir. Þetta er skandall.

Fleiri þættir voru illa rannsakaðir, t.d. voru gæði gagna fyrir vistgerðir og jarðveg í flokki C. Rammaáætlun er sem sagt meingallað plagg og við sitjum uppi með forgangsröðun virkjunarkosta og náttúrusvæða sem byggja á fáfræði.

Í skjóli þessarar fáfræði geysist Orkuveita Reykjavíkur fram gegn Ölkelduhálsi (sem hún hefur skýrt upp og kallar núna Bitru til að forðast neikvæða umræðu). OR er búið að lofa orku svæðisins til a.m.k. tveggja álvera en fyrirhuguð virkjun þar er í umhverfismatferli.

OR hefur milljarða til að sýna fram á hagnað samfélagsins af því að breyta þessari náttúruperlu í virkjunarsvæði. Fulltrúar ferðaþjónustunnar hafa enga peninga til að sýna fram á hagnað samfélagsins af því að vernda svæðið og nýta það sem náttúruperlu og útivistarsvæði.

Þetta er svipað og ef stóðbóndi fengi alltaf ráðgjöf frá kjötkaupmanni en ekki ræktunarráðunauti um hvaða hross á að temja og rækta og hverju á að slátra. Ég hugsa að Orri frá Þúfu hefði farið í buff.

Nú leita peningarnir allra leiða til að eignast orkufyrirtækin. Þótt manni finnist stundum að samfélagsleg ábyrgð orkufyrirtækjanna sé af skornum skammti þá held ég að það væri skaðræði að hleypa einkaaðilum inn í þennan bransa við þær villta Vesturs aðstæður sem nú ríkja í orkugeiranum.

Einn góður sjálfstæðismaður sagði við mig um daginn að hann kærði sig ekki um einkavæðingu Landsvirkjunar af þeirri einföldu ástæðu að hann vildi ekki þurfa að borga Búrfellsvirkjun tvisvar eða þrisvar. Það er önnur góð ástæða.

Ég vil að nú staldri orkufyrirtækin við og sýni samfélaginu þá sjálfsögðu kurteisi að bíða þar til búið er að kanna vendilega hag okkar af verndun þeirra svæða sem eru á teikniborðum þeirra.

 


Hjólreiðafólk afgangsstærð í umferðinni

Þó mikið hafi verið gert í að byggja upp hjóla- og göngustíga í borginni frá því sem var fyrir rúmum áratug er enn mjög langt í land. Hjólreiðafólk er afgangsstærð í samgöngumálum, fær 1 metra pláss á göngustígum borgarinnar fyrir umferð í báðar áttir og má vera innan um bílaumferðina sem öllum er ljóst að er ekki til þess fallið að lengja lífdaga hjólreiðafólks.

Það þarf að stórbæta hjólreiðastígakerfið, það á sem allra minnst að vera saman við göngustíga og það á að gilda þar reglan um hægri umferð eins og annars staðar. Þá reglu ætti líka að halda í heiðri þegar hjólað er eftir gangstéttum meðfram bílaumferð.

Það býður hættunni heim þegar hjólreiðafólk hjólar á gangstétt á móti umferð því ökumenn sem eru að beygja inn á aðalbraut líta yfirleitt bara í þá átt sem umferðin kemur úr en gá ekki að hjólandi umferð á gangstéttinni úr hinni áttinni. Það er öllum í hag að hjólandi umferð stefni í sömu átt og bílaumferðin.

Hér er verk að vinna.


mbl.is Ekið á hjólreiðamann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skammsýni orkufyrirtækjanna

EF við viljum byggja til framtíðar á hreinni ímynd landsins, vel menntuðu fólki, sköpunarkrafti og góðum tengslum við umheiminn þá er þetta mun heppilegri iðnaður en áliðnaðurinn.

Heimurinn allur leggur nú kapp á að menga minna - enda ærin ástæða til. Í þessari stöðu felast mikil tækifæri fyrir fámenna þjóð sem vill byggja upp umhverfisvæna ímynd. Við eigum t.d. mun auðveldara með það en flestar aðrar þjóðir að gera sjálfbært orkusamfélag að raunveruleika.

Þau fyrirtæki sem við veljum til að koma hingað með sína starfsemi ættum við sömuleiðis að velja með tilliti til þess hvernig þau falla að þeirri ímynd sem við viljum byggja upp og viðhalda.

Nú hlaupa álfyrirtæki um allar þorpa grundir í kapphlaupi um gerð "fyrirvarasamninga" við orkufyrirtæki landsins. Aðalástæða kapphlaupsins eru mengunarheimildir ríkisins. Það fyrirtæki sem komið verður lengst þegar þeim verður úthlutað fær allan pottinn.

Fyrir vikið eru orkufyrirtækin búin að festa í þessum fyrirvarasamningum alla virkjanlega orku næstu áratuga. Stjórnvöld og við, fólkið í landinu, fáum engu að ráða um hvaða fyrirtæki það eru sem orkufyrirtækin semja við. Samt eru þetta nú okkar orkulindir og okkar orðspor sem þjóðar.

Við höfum verið eitt af örfáum löndum á lista fyrirtækisins Hemlock Semiconductor Corporation yfir heppilega staðsetningu fyrir stóra verksmiðju sem framleiðir kristalla í sólarrafhlöður. Mengunarfrír iðnaður en þarf mikla orku.

Orkufyrirtækin eru hins vegar í skammsýni sinni búin að lofa allri virkjanlegri orku í fyrirvarasamningum við álbræðslurisana til að þjóna þeim í kapphlaupinu um ókeypis losunarheimildir.

Ísland er því að detta út af lista Hemlock sem heppileg staðsetning.


mbl.is Ísland hentar vel fyrir rekstur netþjónabúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt framlag til umhverfismála

Í kosningunum var mikið talað um stopp stefnu ákveðinna flokka. Það var talað um að ekki mætti stöðva þá miklu uppbyggingu í orkuiðnaði sem verið hefur undanfarin ár. Það var undarleg skoðun.

Ef ég ræð málara til að mála fyrir mig þakið, verð ég þá að leyfa honum að mála síðan húsið að innan og utan og sprauta bílinn þegar því er lokið? Á hvergi að stoppa orkuiðnaðinn á Íslandi?

Nú verða ekki gefin út frekari leyfi til rannsókna eða nýtingar á háhitasvæðum landsins fyrr en lokið hefur verið við rammaáætlun og verndargildi allra háhitasvæða landsins rannsakað í kjölinn. Þar var línan dregin. Menn geta deilt um hvort það er stopp.

Það stoppar hins vegar ekki tækniþekkinguna og hún er á leiðinni út í heim að hjálpa til við að útvega íbúum heimsins vistvæna orku til að nota til heimilisbrúks - þarna er í raun verið að gera það sem aldrei var reyndin með álverin á Íslandi - það er verið að skipta út olíu- og kolaorku fyrir umhverfisvæna orku.

Þessi þekking getur bæði verið mjög miklvæg fyrir baráttuna gegn mengun andrúmsloftsins og fyrir orkugeirann á Íslandi.


mbl.is Utanríkisráðherra á fundi með sendiherrum um orkumál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýja svæðastefnan - New Regionalism

Samstarf af þessu tagi er mjög mikilvægt. Nýja svæðastefnan (new regionalism) eru viðbrögð þjóðríkja, stærri svæða og einnig héraða innan þjóðríkja við heimsvæðingunni. Núna þegar heimurinn skreppur saman og landamæramúrar falla einn af öðrum skapast þörf fyrir að svæði vinni saman að ýmsum sameiginlegum málum.

Norðurlandasamstarfið byggir á góðum grunni en margir hafa sagt það vera tímaskekkju. Það er ekki rétt þótt Danmörk, Svíþjóð og Finnland eigi í mörgu meiri samleið með ESB en Íslandi og Noregi. Eftir sem áður eru mörg verkefni sem er áríðandi að öll þessi ríki vinni að sameiginlega t.d. umhverfismál og ferðamál. Í hugum flestra í heiminum eru þessi lönd eitt og sama svæðið.

Micro útgáfan af Nýju svæðastefnunni er svo hvernig einstök héruð geta skapað sér sérstakt nafn fyrir einhverja tiltekna eiginleika eða styrkleika. Dæmi um það eru t.d. ákveðin vínræktarhéruð um allan heim, Silicon dalurinn fyrir tækniþekkingu og Suðurland fyrir Njálu. Þótt einhver mismunur sé eflaust á frægð þessara svæða er hér um sama fyrirbærið að ræða - það er þörf fyrir að einstök svæði skapi sér sérstöðu, finni styrkleika sína, marki sér stefnu sem miðast við að nýta þá styrkleika og afli sér frægðar á því sviði.

Á þessari hugsun ættu t.d. vaxtarsamningar og byggðaþróun á Íslandi að byggjast. Styrkleikum og sérstöðu hvers svæðis.


mbl.is Nýjar norrænar áherslur á sviði hnattvæðingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríki í ríkinu

Á vísi.is má sjá þessa frétt:

Landvirkjun og Flóamenn ræða áfram saman

Fulltrúar sveitarstjórnar Flóahrepps og Landsvirkjunar hyggjast halda áfram viðræðum um Urriðafossvirkjun en þeir hittust á fundi í morgun til þess að ræða þá ákvörðun sveitarstjórnarinnar að taka virkjunina út úr drögum að aðalskipulagi.

Virkjunin er sú stærsta af þremur virkjunum sem Landsvirkjun áformar í neðri hluta Þjórsár en sveitarstjórnin ákvað að taka hana út úr drögum að aðalskipulagi þar sem ekki væri nægilegur ávinningur af slíkri virkjun fyrir hreppinn auk þess sem mikill skaði yrði á umhverfinu vegna þess.

Fram kemur í tilkynningu frá Landsvirkjun í dag að fulltrúar sveitarstjórnarinnar og fyrirtækisins hafi sammælst um að ræða áfram saman og verður meðal annars rætt um samgöngur og ferðaþjónustu á svæðinu, vatnsvernd, lífríki Þjórsár, landnotkun í nágrenni virkjunarinnar og mögulegar mótvægisaðgerðir.

Sveitarstjórn mun halda íbúafund þann 25. júní þar sem tillögur að aðalskipulagi verða kynntar með og án Urriðafossvirkjunar. Í framhaldi af því er gert ráð fyrir formlegu auglýsingar- og kynningarferli í samræmi við skipulagslög.

Landsvirkjunin segir í tilkynningu sinni að það sé von beggja aðila að sameiginleg niðurstaða fáist sem fyrst um nauðsynlegar mótvægisaðgerðir og önnur samskipti vegna virkjunarinnar.

Þetta er athyglisvert. Á mannamáli þýðir þetta að núna ætlar ríkisstofnunin Landsvirkjun að bjóðast til að leggja þá tengivegi innan sveitarinnar sem íbúar eru orðnir þreyttir á að bíða eftir að samgönguyfirvöld leggi. Það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr þessum hrossakaupum.

Einnig áhugavert að velta fyrir sér því valdi sem Landsvirkjun hefur til svona hrossakaupa. Skammt er að minnast þess þegar Landsvirkjun reiddi fram tugi milljóna til að klára að gera upp Þjóðminjasafnið sem menntamálaráðuneytið hafið ekki haft efni á árum saman.

Það er ærin ástæða til að velta fyrir sér valdi þessarar stofnunar sem hagar sér eins og ríki í ríkinu.

 

 


Komið nóg?

Á sínum tíma sluppu virkjanahugmyndir í neðri Þjórsá fram hjá augum náttúruverndarfólks. Það átti fullt í fangi með að standa gegn virkjunarframkvæmdum við Kárahnjúka og að hrinda hverri árás Landsvirkjunar á fætur annarri inn í Þjórsárver. Þess vegna fóru allar þrjár virkjanirnar í gegnum umhverfismat og fengu jákvæða niðurstöðu úr því.

Í vetur dró núverandi viðskiptaráðherra Björgvin G Sigurðsson upp úr þingmönnum fyrrverandi ríkisstjórnar með sérstakri umræðu í þinginu að ekki yrði beitt eignarnámsheimildum gegn landeigendum sem ekki vildu semja við Landsvirkjun um lönd sín. Það var visst áfall fyrir Landsvirkjun sem þá hafði reynt að semja við landeigendur við eldhúsborð hvers og eins með ósagða hótun um eignarnám hangandi yfir höfðum þeirra.

Landsvirkjun hefur hingað til hagað sér eins og ríki í ríkinu. Eitt það fyrsta sem forsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokk þurfti að gera var að taka við símtali frá forstjóra Landsvirkjunar sem krafðist skýringa á að ríkisstjórnin ætlaði að stækka friðlandið í Þjórsárverum. Þetta þótti fréttaefni og fylgdi fréttinni að forstjórinn hefði farið fram á fund hið fyrsta bæði með forsætis- og iðnaðarráðherra.

Þetta er merkilegt þegar haft er í huga að Landsvirkjun er í raun bara ein af stofnunum ríkisins. Ekki bárust neinar fréttir af því að forstjórar Íbúðalánasjóðs, Tryggingarstofnunar eða ríkisspítalanna hefðu hringt í forsætisráðherra á fyrsta starfsdegi nýrrar ríkisstjórnar. Þó höfðu allir þessir aðilar jafn mikla ástæðu eða meiri en forstjóri Landsvirkjunar til að biðja um svör við ýmsum spurningum.

Landsvirkjun er verðmæt sameign þjóðarinnar og ríkinu er falið að gæta vel þeirra verðmæta fyrir hönd þjóðarinnar. Náttúra landsins er líka sameign þjóðarinnar og stjórnvöldum er á sama hátt skylt að gæta þeirra verðmæta sem í henni felast. Þar sem þessi verðmæti skarast verða stjórnvöld að skera úr um hvað skal gera.

Viðhorf landsmanna til virkjana hafa verið að breytast og því er fullkomlega eðlilegt að endurskoða heimildir ríkisstofnunarinnar Landsvirkjunar til að ganga á sameignlega auðlind landsmanna - náttúru landsins. Ríkisstofnunin Landsvirkjun verður að gera sér það að góðu þótt hún fái ekki áfram frítt spil hvað varðar virkjunarkosti í landinu.

Einhvern tímann verður komið nóg og það er að sjá af umræðu um virkjanir í neðri Þjórsá og þessum síðustu ákvörðunum sveitastjórnar Flóahrepps að fólki finnist sá tími vera að nálgast.


mbl.is Flóahreppur hafnar Urriðafossvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kárahnjúkavirkjun hefði aldrei orðið að veruleika sem sjálfstætt fjármögnuð framkvæmd

Sem varamaður um skamma stund í stjórn Landsvirkjunar fyrir hönd Samfylkingarinnar í borginni gerði ég mér sérstakt far um að fræðast um arðsemi Kárahnjúkavirkjunar. Sem slíkur var ég leiddur inn í hinn helga leyndardóm - orkuverð til Fjarðaráls - og get án þess að bregðast nokkrum trúnaði fullyrt að það er eitt ofmetnasta leyndarmál landsins. Ýmsir aðilar hafa þegar reiknað þetta leyndarmál út með nægilegri nákvæmni.

Það er ágæt samantekt Framtíðarlandsins á hinum fjárhagslega þætti Kárahnjúkavirkjunar. Það er rétt að enginn vildi fjármagna hana á frjálsum markaði. Þrautalendingin sú að ríki og sveitarfélög ábyrgðust lánin. Hitt gleymist oft og er ekki sérstaklega tekið fram í úttekt Framtíðarlandsins, að auk þessa var veð tekið í öllum öðrum virkjunum og eignum Landsvirkjunar fyrir Kárahnjúkavirkjun.

Til að taka líkingu sem einhver skilur þá var þetta eins og að menn opnuðu súperflottan veitingastað sem enginn fjárfestir vill leggja peninga í með veði í íbúðarhúsum sínum og uppáskrift hjá pabba og mömmu. Meira að segja fulltrúar Landsvirkjunar og hörðustu stuðningsmenn Kárahnjúkavirkjunar viðurkenna að virkjunin hefði aldrei verið reist ef hún hefði átt að borga sig sem sjálfstætt verkefni ein og sér.

Þá er eftir að tala um það sem Umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, gerir að umtalsefni - greiðsla fyrir þau náttúruverðmæti sem fórnað er. Engin tilraun var gerð af hálfu ríkisins til að meta þau verðmæti en í nágrannalöndum okkar er áratuga löng hefð fyrir því.

Fyrir um 40 árum þróuðu Bandaríkjamenn kostnaðar-/ábatagreiningu (cost-benefit analyzes) - aðferðarfræði sem ég er ekki í nokkrum vafa um að hefði eitt og sér komið í veg fyrir Kárahnjúkavirkjun. Það er mikilvægt að við tökum þessi fræði inn í mat okkar á því hvernig best er að ráðstafa náttúrusvæðum landsins.


mbl.is Framtíðarlandið: stóriðjuskattur á almenning rúmir 2 milljarðar árlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðareglur og siðferðisleg meðvitund

Þetta er afar þörf umræða og verkefni að vinna að. Það verður hins vegar að horfast í augu við það að þessa baráttu vinnum við ekki eingöngu með boðum og bönnum, framhjá þeim er alltaf hægt að komast.

Best er ef neytendur eru sjálfir mjög meðvitaðir það þegar sölumennsku er beint að börnum með óviðeigandi hætti. Ef meðvitund neytenda er sterk hvað þetta varðar þá er það mikil hvatning fyrir fyrirtækin að passa upp á siðferði auglýsinga sinna.

Það er líka mikilvægt að SÍA, samband íslenskra auglýsingastofa, fylgi fast eftir siðareglum sínum og gefi viðskiptavinum sínum ákveðin skilaboð um hvað er við hæfi og hvað ekki. Ég þekki það vel frá því ég vann sjálfur á auglýsingastofu að þrýstingur markaðsfulltrúa fyrirtækja á að fylgja eftir vondum hugmyndum getur verið mikill.

Ég fékk eitt sinn það saklausa verkefni sem texta- og hugmyndasmiður að markaðssetja nærföt handa unglingum fyrir búð sem verslaði með alls kyns unglingafatnað. Markaðsstjórinn vildi gjarna að nærfötin yrðu auglýst á dálítið ögrandi hátt og við í verkefnateyminu gerðum okkur ferð í Smáralindina að skoða varninginn. Við töldum að þarna hlyti að vera að ræða vörur fyrir krakka á menntaskólaaldri.

kisaVarningurinn sem til stóð að yrði aðalefni auglýsingaherferðarinnar var eingöngu fyrir stelpur og reyndist vera ósköp venjulegur nærfatnaður með heldur óvenjulegum myndum og áletrunum. Þar á meðal nærbxur með mynd af krana og áletruninni "Turn me on" og aðrar með mynd af sætri kisu og áletruninni "Pet my pussy". Við spurðum afgreiðslufólkið hvaða aldur væri helst að versla í þessari búð var okkur sagt að það væru 80-90% stelpur frá 12-14 ára.

Við fórum til baka og bárum málið undir eiganda stofunnar. Svar hans var skýrt: "Við gerum ekki svona!" Það voru góð skilaboð jafnt til okkar á auglýsingastofunni og markaðsfulltrúi fyrirtækisins sá að sér. Niðurstaðan varð því sú að sleppa algerlega hinum ögrandi undirtóni og leggja áherslu á annað.


mbl.is Vilja stöðva markaðssókn gagnvart börnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rural Clusters 2007 á Akureyri

Er staddur á afar áhugaverðri alþjóðlegri ráðstefnu um klasasamstarf sem leið til að efla atvinnulíf í dreifðum byggðum. Í raun gengur hugmyndafræðin út á að fyrirtæki sem jafnvel eru í samkeppni hvert við annað vinna saman að ýmsum stærri verkefnum.

Með því að sameina krafta sína njóta þau stærðarhagkvæmni t.d. þegar kemur að markaðssetningu, geta sótt sameiginlega um styrki til rannsókna og þróunarstarfs, unnið sameiginlega að því að auka skilning fjárfesta á möguleikum í viðkomandi geira og skipst á mikilvægri þekkingu innbyrðis.

Klasafræðin eru ekki ný af nálinni en þau hafa verið vinsælt umræðuefni síðustu ár af því undanfarin ár hefur afrakstur 15-25 ára markvisst klasasamstarf víða verið að skila umtalsverðum árangri í nágrannalöndum okkar. Frægasta dæmið er eflaust hvernig tekist hefur að mynda þekkingarklasa í Finnlandi á sviði farsímatækni en mörg önnur góð dæmi mætti nefna.

Klasarækt (Cluster Development) er víða hluti af stærri áætlun dreifðra byggða við að efla samkeppnisstöðu sína. Yfirleitt er þá um að ræða heildstæða áætlun þar sem líka er lögð áhersla á að bæta það sem oft vantar mest - góðar samgöngur, góð fjarskipti, góður aðgangur að menntun, góð almenn þjónusta, fjölbreytt menning og atvinnutækifæri.

Á Íslandi hefur áhersla stjórnvalda nánast eingöngu beinst að því að skapa atvinnu. Hún er vissulega mikilvæg en eins og ég og fleiri höfum bent á stendur það upp úr hverjum einasta erlenda sérfræðingi á þessari ráðstefnu að ef ekki er hugað að þessum samfélagslegu þáttum samhliða því að efla atvinnu- og efnahagslífið á svæðinu - þá flytur fólk burt hvort sem er.

Við munum aldrei geta snúið við byggðaþróuninni ef við viðurkennum ekki þessa staðreynd. Við verðum að hætta að gera þá kröfu til stjórnvalda að þau útvegi öllum vinnu. Við getum hins vegar, og eigum að gera, kröfu til þeirra um að þau skapi landsbyggðinni góð skilyrði til vaxtar.

Það besta sem stjórnvöld geta gert til þess er að bæta samgöngur, fjarskipti, fjölga tækifærum til menntunar, bæta almenna þjónustu og styðja við menningarstarfsemi og nýsköpun í atvinnulífinu. Fyrst þegar búið er að koma landsbyggðinni í viðunandi samkeppnisstöðu geta svæði landsins farið að keppa á jafnréttisgrundvelli um þróttmikið fólk og fyrirtæki.

Nú er mikið rætt um olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum. Þar er 500 störfum í olíuiðnaði veifað framan í fólk sem hingað til hefur reitt sig nær alfarið á sjávarútveg - atvinnugrein sem nú á í vök að verjast. Calum Davidson rakti svipaða sögu frá Skotlandi. Þar eru það einmitt stóru fyrirtækin, allsherjarlausnirnar sem stjórnvöld réttu almúganum fyrir 15-25 árum, sem hafa verið að flytja burt með "lífsbjörgina".

Skotar hafa tekið þá afstöðu að hætta að hugsa um að búa til störf fyrir hinar dreifðu byggðir en einbeita sér þess í stað að því að skapa þar þekkingarsamfélög. Reynsla þeirra sýnir að þá koma störfin að sjálfu sér. Stór og lítil fyrirtæki spretta upp með þjónustu og framleiðslu sem enginn hafði fyrirfram látið sér detta í hug að væru "málið". Þar er fjölbreytnin "málið" í dag.

Ég býð fólki að tjá sig um það á þessari síðu hvort þeim finnst olíuhreinsunarstöð góð lausn fyrir Vestfirðinga. Hvort átak í samgöngumálum, fjarskiptum og stuðningur við framhalds- og háskóla væri heppilegri leið til að bæta ástandið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband