Kárahnjúkavirkjun hefði aldrei orðið að veruleika sem sjálfstætt fjármögnuð framkvæmd

Sem varamaður um skamma stund í stjórn Landsvirkjunar fyrir hönd Samfylkingarinnar í borginni gerði ég mér sérstakt far um að fræðast um arðsemi Kárahnjúkavirkjunar. Sem slíkur var ég leiddur inn í hinn helga leyndardóm - orkuverð til Fjarðaráls - og get án þess að bregðast nokkrum trúnaði fullyrt að það er eitt ofmetnasta leyndarmál landsins. Ýmsir aðilar hafa þegar reiknað þetta leyndarmál út með nægilegri nákvæmni.

Það er ágæt samantekt Framtíðarlandsins á hinum fjárhagslega þætti Kárahnjúkavirkjunar. Það er rétt að enginn vildi fjármagna hana á frjálsum markaði. Þrautalendingin sú að ríki og sveitarfélög ábyrgðust lánin. Hitt gleymist oft og er ekki sérstaklega tekið fram í úttekt Framtíðarlandsins, að auk þessa var veð tekið í öllum öðrum virkjunum og eignum Landsvirkjunar fyrir Kárahnjúkavirkjun.

Til að taka líkingu sem einhver skilur þá var þetta eins og að menn opnuðu súperflottan veitingastað sem enginn fjárfestir vill leggja peninga í með veði í íbúðarhúsum sínum og uppáskrift hjá pabba og mömmu. Meira að segja fulltrúar Landsvirkjunar og hörðustu stuðningsmenn Kárahnjúkavirkjunar viðurkenna að virkjunin hefði aldrei verið reist ef hún hefði átt að borga sig sem sjálfstætt verkefni ein og sér.

Þá er eftir að tala um það sem Umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, gerir að umtalsefni - greiðsla fyrir þau náttúruverðmæti sem fórnað er. Engin tilraun var gerð af hálfu ríkisins til að meta þau verðmæti en í nágrannalöndum okkar er áratuga löng hefð fyrir því.

Fyrir um 40 árum þróuðu Bandaríkjamenn kostnaðar-/ábatagreiningu (cost-benefit analyzes) - aðferðarfræði sem ég er ekki í nokkrum vafa um að hefði eitt og sér komið í veg fyrir Kárahnjúkavirkjun. Það er mikilvægt að við tökum þessi fræði inn í mat okkar á því hvernig best er að ráðstafa náttúrusvæðum landsins.


mbl.is Framtíðarlandið: stóriðjuskattur á almenning rúmir 2 milljarðar árlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þeir sem haldnir eru fordómum gagnvart stóriðju munu seint sjá ljósið jafnvel þótt heill landshluti rísi úr öskustónni fyrir framan nefið á þeim.  

Kveðja Tryggvi L. Skjaldarson

Tryggvi L. Skjaldarson (IP-tala skráð) 13.6.2007 kl. 17:19

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Núna, þegar mannfjöldi er enn við hámark vegna framkvæmdanna, hefur heill landshluti ekki risið úr öskustó vegna þessara framkvæmda. Fólki fækkar í öllum sveitarfélögunum nema þeim þar sem framkvæmdirnar eru og "fólksfjölgunin"í sveitarfélögum framkvæmdanna sjálfra er enn eingöngu fógin í aðfluttu vinnuafli sem fer þegar framkvæmdum lýkur.

Ef 130 milljörðum króna hefði í staðinn verið dælt í að byggja upp þá möguleika sem virkjanasvæðið ósnortið hefði fengið til ferðamennsku sem svæði á heimsminjaskrá UNESCO hefði verið hægt að ná fram meiri uppgangi til frambúðar.

Fáránleiki stóriðjustefnunnar sem lausn á atvinnumálum Íslendinga sést best á staðreynd sem ég hamraði á kosningabaráttunni án þess að menn legðu í að andmæla henni.

Hún er þessi: Ef draumsýn Geirs H. Haarde um sex álverksmiðjur alls árið 2020 verður að veruleika, en þær verða af hagkvæmnisástæðum að framleiða samtals milli 2,5 og 3,o milljónir tonna af áli árlega, þá munu allar þessar risaverksmiðjur útvega aðeins tveimur prósentum af vinnufærum Íslendingum atvinnu!  

Framleiðslan verður í heild aðeins 7-8 prósent af þjóðarframleiðslunni.

Fyrir þetta þarf að fórna öllu efnahaglega virkjanlegu vatns-og jarðvarmaafli landsins að undanteknum Öskju og Kverkfjöllum og þar með að valda óheyrilegum spjöllum á náttúru Íslands, sem er langmesta verðmæti sem þjóðin hefur umráð yfir.

Í stað þess að sóa orkunni til mesta orkubruðls sem hugsast getur (enda kallað orkufrekur iðnaður) væri hægt að selja mun minni orku með meiri ábata handa fyrirtækjum sem þegar hafa sóst eftir að koma hingað og skapa betur launuð störf betur menntaðs fólks án mengunar.

Hið sorglega er að bæði Húsavík og Egilsstaðir hefðu verið kjörnar miðstöðvar fyrir stórkostlega möguleika til ferðaþjónustu fyrir hið einstæða svæði norðan Vatnajökuls.

Hver ferðamaður skilar nær fjórfalt meiri virðisauka inn í þjóðfélagið en hvert áltonn. Og heiður, sæmd og viðskiptavild þjóðar sem eyðileggur ekki heimsverðmæti lands síns heldur varðveitir þau fyrir komandi kynslóðir og mannkyn allt má meta til þúsunda milljarða króna.

Ómar Ragnarsson, 14.6.2007 kl. 00:43

3 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Tryggvi - að halda því fram að menn séu haldnir fordómum ef þeir hugsa með einhverjum öðrum hætti en þið álskallarnir eru trúlega versta tegund af fordómum. Í mínum huga er forpokað að horfa aðeins í eina átt þegar leysa þarf brýn verkefni og þannig var það því miður þegar lagt var til atlögu fyrir austan. Það blasir við öllum sem þora að skoða málið oní kjölinn að fórnarkostnaðurinn af verkefninu fyrir austan er of mikill fyrir alltof lítinn ávinning.

Pálmi Gunnarsson, 14.6.2007 kl. 02:53

4 identicon

Ég hef nú aldrei verið hrifinn af fjárhagsrökum Landsvirkjunar.

Hins vega er frá þjóðhaglslegum hagnaði álvera er dregin sú hugsanlega atvinnustarfsemi sem hefði orðið ef ekki hefði komið álver. Það finnst mér rétt aðferð.

Ég fæ ekki betur séð en að hver króna, raunveruleg og ímynduð sem ferðamaður kemur með inn í landið sé talin ferðamannaiðnaðinum til tekna. Samanburður er áhugaverður en hann verður að vera sanngjarn.

Ég gluggaði í skýrslu Framtíðalandsins og þar eru koltvíoxíðkvóti nefndur. Við að loka verksmiðju á við Reyðarál, knúinni af kolaorku losnar CO2 að jafngildi 3 milljarðar. Það má kaupa og selja koltvíoxíðkvóta.

Út frá náttúruverndarsjónarmiðum stend ég harður með álverum, því ekki vil ég eyðingu frumskóga og stríð við Súdan og Írak til að koma ferðamönnunum hans Ómars til Íslands.

Ætlaði Dofri ekki líka að vernda "fagra Ísland" undir malbiki? Náttúruvernd og bættar samgöngur. Er Ísland vel geymt þar?

Kveðja, Gaui

Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 14.6.2007 kl. 09:39

5 identicon

Afsakiði en

Bara svo það sé skýrt. Ég er tilbúinn að falla frá stuðningi mínum við álver og virkjanir ef menn fara að vinna að raunverulegi náttúruvernd, ekki fyrr.

Kveðja, Gaui

Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 14.6.2007 kl. 09:46

6 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Álrisinn létti leyndinni fyrir sitt leyti og það einhliða. Af hverju mega stjórnarmenn ekki létta leyndinni gagnvart eigendum félagsins þ.e. almenningi? Til hvers er þssi leynd og hverra hagsmunum þjónar hún?  Allir eru að gefa eitthvað í skyn en enginn segir neitt sem hönd á festir. 

Sigurður Þórðarson, 14.6.2007 kl. 12:22

7 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Leyndin er auðvitað til þess að þegar næsti kaupandi kemur og biður um verð þá geti hann ekki miðað sig við það verð sem hinn fékk.  Þetta eru nákvæmlega sömu rök og fyrirtæki út um allan bæ nota fyrir því að segja ekki öllu og öllum hvað aðrir viðskiptavinir eru að fá mikinn afslátt af þjónustu.  Þetta er spurning um samningstöðu Landsvirkjunar í framtíðarviðskiptum.

Önnur spurning:  Hafa umhverfisáhrif ferðamannaiðnaðarins verið áætluð?  300 þúsund manns á bílaleigubílum, jeppum, húsbílum, trukkum, rútum o.s.frv.  Hestaferðir sem oft tæta það land sem þær fara um.  Flutningur á ýmiss konar varningi alla leið frá Kína, útblástur frá farþegaþotum sem flytur liðið til landsins.  Þvottur í tengslum við hótel, gisti- og veitingahús.

Afraksturinn er láglaunaatvinnuvegur því yfirgnæfandi fjöldi þeirra sem vinna við ferðaþjónustu er á mjög lágum launum og með litla menntun.  Starfsfólk veitinga- og gistihúsa, rútubílstjórar, leiðsögufólk og fleiri.  Er ferðaþjónustan endilega það sem við viljum?  Hún er að gefa töluverðar tekjur í þjóðarbúið en hún er hvorki spennandi hátækniþjónusta sem veitt er af fólki á góðum launum með mikla menntun né er hún umhverfisvæn.

Við verðum alltaf að horfa á báðar hliðar peningsins.

Er á meðan er.  Núna er alla vega uppgangur á Austurlandi sem á sér ekki fordæmi undanfarna áratugi.  Vonandi endist það svolítið en allir flytja ekki bara heim eftir nokkur ár eins og Ómar spáir að gerist.  Hin vegar er auðvitað spurning hvað hefði gerst á Austurlandi ef þessir peningar hefðu verið settir í uppbyggingu annarra þátta samfélagsins og atvinnusköpunar þar.  Hvað væri hægt að setja eitthvað upp á Austurlandi sem myndi draga 15 þúsund Reykvíkinga til Austurlands?  Þar er gott veður, fallegt og ýmsir möguleikar til blómlegs lífs.  Það verður fróðlegt að sjá hvernig málin þróast.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 14.6.2007 kl. 12:51

8 identicon

Sæll Pálmi

Ef sett væri orðið "svertingi" í staðinn fyrir álver eða jafnvel stóriðja, í máflutning margra svokallaðra umhverfissinna þá sæti fjöldi þeirra í fangelsi eða væri í besta falli á skilorði.

Mér er slétt sama þótt fólk hafi aðrar skoðanir en "álskallinn" ég.  Stóriðjan er góð kjölfesta fyrir uppbyggingu fyrir austan.  það er mín skoðun.  Ég er alveg sammála um að það á ekki að horfa í eina átt þegar leysa þarf brýn verkefni.  Fyrir austan var búið að horfa lengi, lengi,lengi til allra átta áður en að stóriðjunni kom.

Þeir sem búa yfir öðrum lausnum hefur staðið til boða að endurreisa Vestfirði  síðan 2003 að mig minnir og gengur hægt.  Varðandi fórnarkostnaðinn fyrir austan þá er ég ekki sammála. Tel hann stórlega ofmetinn.

Kveðja

Tryggvi L. Skjaldarson 

Tryggvi L. Skjaldarson (IP-tala skráð) 14.6.2007 kl. 17:28

9 identicon

Já Tryggvi. Einu sinni var ég álversandstæðingur en svo fór ég að hlusta betur á mína samherja og við það snerist skoðun mín (svo er nú Kárahnjúkavirkjun öllu skynsamlegri en Fljótsdalsvirkjun + fleiri ástæður). Andstaðan er því miður hvorki byggð á skynsemi, virðingu né ást á náttúrunni. Þetta eru frekar ofsóknir.

Ég vona að pistlarnir sem ég les um að ákveðinn iðnaður eigi heima í "þriðja heiminum" verði fyrr en síðar dæmt sem rasismi, sér í lagi nú þegar menn eru farnir að hreinsa bækur Astridar Lindgren.

Ég vona að verksmiðjan verði Austfirðingum til góða en vona jafnframt að þú samþykkir að virkjanasinnar mega nú líka aðeins kíkja á bjálkann í eigin auga.

Kveðja, Gaui

Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 14.6.2007 kl. 19:09

10 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þakka þér nafni fyrir að reyna að svara mér.  Uppgefnar ástæður fyrir leyndinni er samt ekki þær sem þú tilgreinir heldur hitt að leyndin sé "að ósk kaupenda". 

Ég hef sjálur komið nálægt viðskiptum í allmörg ár og ég dreg þá ályktun af reynslu minni að hagsmunaaðilar "þefi uppi" þau verð og viðskiptakjör sem eru í gangi jafnvel þó heita eigi að þau séu trúnaðarmál.  Ef svo er einnig í raforkusölu þá gildir trúnaðurinn eingöngu gagnvart aðilum utan viðskiptageirans (með raforku)  s.s. almenningi. 

Sigurður Þórðarson, 15.6.2007 kl. 02:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband