Gengið í málin - aðgerðaáætlun í þágu barna hrundið í framkvæmd

Það er sannarlega ánægjulegt að sjá nýja ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks setja málefni barna í forgang með afgerandi hætti. Með því að leggja aðgerðaráætlun um málefni barna fram sem sitt fyrsta stóra mál á sumarþingi er ríkisstjórnin að lýsa með táknrænum hætti yfir áherslum sínum í velferðarmálum.

Unga Ísland var eitt af helstu baráttumálum Samfylkingarinnar í nýafstaðinni kosningabaráttu en þar var á ferðinni aðgerðaráætlun í 60 liðum um bætta stöðu barna. Á bak við þá áætlun lá mikil vinna með fagfólki og foreldrum við að greina stöðuna og að finna lausnir til úrbóta. Það er ljóst að ný ríkisstjórn býr vel að þeirri góðu vinnu sem þar var unnin.

Brýnast er að ráðast strax í að uppræta biðlista barna eftir greiningu og viðeigandi meðferð eða stuðningi. Það er skelfilegt að börn sem eru 10 ár í grunnskóla missi e.t.v. alveg úr námi sínu 1-3 ár af því það fær ekki greiningu á vanda sínum. Þetta getur skaðað varanlega tækifæri barns til náms og oftar en ekki veldur það einnig erfiðleikum fyrir hin börnin í bekknum að félagi þeirra fær ekki þá þjónustu sem hann eða hún þarf á að halda. Að ekki sé minnst á fjölskyldur þeirra barna sem bíða.

Það er gott að sjá að þetta baráttumál Samfylkingarinnar er eitt af flaggskipum nýrrar ríkisstjórnar. Það gefur góð fyrirheit um samstarfið.


mbl.is Fækkun á biðlistum forgangsatriði í aðgerðaáætlun í þágu barna og unglinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterk ríkisstjórn - umhverfismál, velferð og traustur efnahagur aðalmálin

Það er gaman að sjá þennan gríðarlega stuðning við ríkisstjórnina en það er ljóst að samstarf þessara tveggja öflugustu flokka landsins er óskasamstarf mikils meirihluta þjóðarinnar eða rúmlega 60% landsmanna. Einungis 17% líst illa á samstarfið sem er út af fyrir sig merkilegt þegar haft er í huga að fylgi Vg mælist 13%, Framsóknar 10%, Frjálslyndir 5% og Íslandshreyfingin 2%.

Það var ljóst af stefnuræðu forsætisráðherra í gær að umhverfismál, velferðarmál og traustur efnahagur eru aðalmál næsta kjörtímabils. Það líkar jafnaðarmönnum vel því þótt formaður Vg hafi í skammarræðu sinni í gær fjargviðrast yfir því að hugtakið sjálfbær þróun var ekki nefnt sérstaklega þá eru umhverfi, velferð og efnahagur einmitt hinar þrjár stoðir sjálfbærrar þrónunar. Þetta vita bæði kjósendur Samfylkingar og Vg og eru að vonum glaðir yfir áherslum nýrrar ríkisstjórnar.

Umhverfisráðherra gerði að umtalsefni nauðsyn þess að ná breiðri sátt um náttúru- og umhverfisnefnd og sagði að sinn stærsta sigur myndi náttúra landsins ekki vinna með stríði, upphrópunum og gífuryrðum, heldur með friði, upplýstri umræðu og sátt. Mikið er ég sammála því.

Það verður gaman að fylgjast með sumarþingi þar sem mörg stefnumarkandi mál verða lögð fram en ekki síður verður gaman að fylgjast með fyrstu skrefum ráðherranna og þeim verkefnum sem þeir munu hrinda af stað fyrir sumarfrí. Það þarf víða að bretta upp ermar.


mbl.is Ríkisstjórnarflokkar bæta við sig fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýr stefnubreyting nýs iðnaðarráðherra

Hann er skýr munurinn á nýrri ríkisstjórn og þeirri gömlu þegar kemur að náttúruvernd og áherslum í atvinnumálum. Þetta hefur komið skýrt í ljós í orðum umhverfis- og iðnaðarráðherra síðustu daga.

Áherslumunurinn kristallast e.t.v. í því að þegar Jónína Bjartmarz tók við embætti umhverfsiráðherra sagði hún sitt helsta verk vera að ná sáttum á milli náttúruverndar og nýtingar. Núverandi umhverfisráðherra telur það megin hlutverk sitt að vernda náttúru lands, lofts og sjávar en nú er það iðnaðarráðherra sem telur hlutverk sitt að ná sátt á millum náttúruverndar og nýtingar. Þarna hefur mikil umpólun átt sér stað.

Það er ánægjulegt fyrir þá fjölmörgu sem hafa talað í anda slagorðsins "virkjum hausinn, verndum náttúruna" að lesa viðtalið við Össur Skarphéðinsson, nýjan iðnaðarráðherra í Markaðnum í dag.

Þar segir hann nýsköpun vera dráttarklár framtíðarinnar og hann vill "leggja mjög mikla áherslu á uppbyggingu á hátækni- og þekkingarframleiðslu og skapa hér mjög farsælt umhverfi fyrir sprotafyrritæki".

Það var kominn tími til að Ísland eignaðist iðnaðarráðherra sem sér tækifærin í þekkingu og nýsköpun. Ráðherra sem ekki liggur andvaka af áhyggjum yfir því að einhvers staðar renni óvirkjað vatn til sjávar en hugsar fremur um það að skapa góð skilyrði fyrir unga menntaða þjóð sem vill byggja framtíð sína á því að virkja afl hugans en vernda móðurarfinn sinn - náttúru landsins.


Hvað ætli margir í stjórn Strætó bs taki strætó?

Ég efast um að margir í stjórn Strætó bstaki strætó reglulega, ef nokkur.

Mér líkar stórvel að nota strætó til og frá vinnu enda stoppar hann bæði skammt frá vinnu og heimili. Stundum hef ég samt lent illa í því þegar ferðir falla út á álagstímum. Það er afar bagalegt því það munar býsna mikið um það að vera 20 mínútum (30 mínútur eftir að ferðum var fækkað) lengur að komast á milli staða fyrir utan að veðráttan hér er yfirleitt ekki það góð að maður njóti biðarinnar.

Ég hef stundum rætt þetta við vagnstjórana sem segja sínar farir hreint ekki sléttar. Í kerfinu er alls ekki nægilegt svigrúm til að mæta aukinni umferð á álagstímum og þetta skapar mikla streitu vagnstjóra auk þess að ferðir falla niður.

Því miður virðist manni að Strætó bs sé einhver óskapnaður. Rekstrarsamlag nokkurra sveitarfélaga sem ekki tíma að borga það sem það kostar að halda uppi þessari þjónustu. Frægt er þegar önnur sveitarfélög en Reykjavík neituðu að auka fjármagn til rekstursins vegna launaskriðs. Í staðinn var Strætó bs skilað með miklum halla og þjónustan skorin niður.

Þriðja júní nk verður ferðum enn fækkað og allar ferðir  í sumar hafðar á hálftímafrestinema einhverjar sem verða á klukkustundar fresti. Þetta eru kaldar kveðjur til þeirra sem hafa treyst á að borgarstjórn meinti eitthvað með því að hvetja til aukinnar notkunar á almenningssamgöngum.

Afstaða sveitarfélaganna til Strætó bs minnir á söguna um litlu gulu hænuna. Enginn vill leggja í verkið en allir vilja borða brauðið. Það er mikið talað um hæga umferð til Reykavíkur frá suðri á álagstímum. Sveitarfélögin þar kalla eftir úrbótum. Sjá þau ekki að góðar almenningssamgöngur geta hæglega bætt úr þessum vanda ef þær eru boðlegar?

"Það borgar sig ekki að halda uppi ferðatíðninni, það koma svo fáir" segja þau hjá Strætó bs.

Þetta hljómar eins og vandi ferðaþjónustunnar á Grænlandi. Þar stendur skortur á gistirými mjög í vegi fyrir fjölgun ferðamanna og það er ekki fjárfest í gistirýmum af því það koma svo fáir ferðamenn!

Geri það að tillögu minni að öllum í stjórn Strætó bs verði uppálagt að nota strætó reglulega.


mbl.is Mikil óánægja meðal vagnstjóra hjá Strætó bs. um breytingar á vaktakerfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlakka til 1. júní

Fór út í búð áðan og gekk þá framhjá hverfiskránni. Þar er verið að reisa skilrúm á gangstéttinni fyrir utan. Það er til að veita reikingarmönnum skjól en 1. júní verður bannað að reykja á veitingastöðum.

Ég hlakka til, því þótt ég sé ekki fanatískur á móti reykingum finnst mér stór ókostur að það skuli ekki vera hægt að fara út að skemmta sér án þess að þurfa að fara úr gallanum eins og hann leggur sig þegar maður kemur heim, setja hann beint í þvottavélina og fara í sturtu.

Var úti í Glascow um daginn þar sem reykingabann á veitingastöðum hefur verið í gildi í nokkur ár. Þar er gaman að vera á bar, manni súrnar ekki í augum og maður angar ekki eins og brunarústþegar maður kemur út. Held að Íslendingar eigi eftir að taka þessari breytingu fagnandi.


Spennandi verkefni framundan

Að mínu mati hefur Samfylkingin fengið bæði umhverfisráðuneytin, umhverfisráðuneytið sjálft og iðnaðarráðuneytið sem er hin hliðin á sama peningi. Það var augljóst á orðum Össurar Skarphéðinssonar þegar tilkynnt var um ráðherraskipan að hann taldi það eitt af sínum stærstu verkefnum sem iðnaðarráðherra að ná sáttum á milli náttúruverndar og nýtingar. Ég treysti honum og Þórunni vel til þess.

Ég hef stundum sagt að besta náttúruverndaráætlunin væri almennileg byggðastefna. Þess vegna er ég ánægður að sjá byggðamálin færast til Össurar. Hann kom í gegnum þingið í vor tillögu okkar í Samfylkingunni um störf án staðsetningar - snjöll hugmynd sem gengur út á að skilgreina öll þau störf hjá ríkinu sem er hægt að vinna óháð staðsetningu. Án efa er það fjölbreytt flóra starfa.

Framtíð landsbyggðarinnar byggir á tækifærum fyrir ungt fólk og þar skipta fjölbreyttari atvinnutækifæri miklu máli. Ef um 20% starfa hjá hinu opinbera mætti skilgreina lítið eða óháð staðsetningu myndi eðlileg starfsmannavelta losa um 300-400 slík störf á ári sem þá mætti auglýsa þannig: Þetta starf hefur verið skilgreint sem starf óháð staðsetningu - landsbyggðarfólk er sérstaklega hvatt til að sækja um.

Það er líka gott að vita af Kristjáni í samgöngumálum því samgöngur og fjarskipti eru að mínu mati velferðarmál þegar kemur að landsbyggðinni. Það er auðvitað gríðarlegt óréttlæti að stór hluti landsmanna skuli ekki hafa aðgang að öflugu interneti, upplýsingahraðbraut nútímans. Börn sem ekki hafa aðgang að þessari þjónustu hafa ekki sömu tækifæri og önnur börn. Þetta gildir auðvitað líka um fullorðna.

Það þarf að bæta samgöngur og fjarskipti til að auka öryggi en ekki síður til að bæta aðgengi að þjónustu og menntun og fjölga atvinnutækifærum með því að stækka atvinnusvæði fólks. Bættar samgöngur eru lífsspursmál fyrir atvinnulíf á landsbyggðinni en slæmt ástand í samgöngum á Vestfjörðum er stór hluti þess ástands sem þar hefur skapast.

Það er ekki síður gott að sjá að ferðaþjónustan er kominn í iðnaðar- og byggðamálaráðuneyti. Á síðasta ári skilst mér að ferðaþjónustan hafi samtals haft 8 milljónir í rannsóknarfé. Ef sjávarútvegurinn hefði jafnmikið væri auðvelt að finna út að það borgaði sig engan veginn að veiða fisk. Það þarf að stórauka rannsóknir á möguleikum ferðaþjónustunnar en hún er eitt af þeim stóru tækifærum sem ungt fólk sér á landsbyggðinni.

Um leið þarf að vinna að heildaráætlun í náttúruverndarmálum svo við getum eftir nokkur ár státað af neti verndarsvæða, þema- og þjóðgarða sem gerir ráð fyrir nýtingu sem samræmist náttúruvernd.

Þar á ég t.d. við ferðaþjónustu en það er mjög brýnt að við hugsum langt fram í tímann hvernig við viljum stýra umferð ferðamanna um hin ýmsu svæði, bætum þjónustuna og förum að dæmi annarra þjóða sem hafa gert þjóðgarðavörslu og þjónustu við ferðamenn á slíkum svæðum að stórum þætti í ferðaþjónustu sinni. Þannig getum við bæði varðveitt, nýtt og notið náttúruverðmæta okkar og aukið umsvif í ferðaþjónustu og náttúruvörslu.

Fyrsti áfanginn á þessari leið bíður núna Þórunnar Sveinbjarnardóttur - að klára rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og leggja hana fyrir Alþingi til að gefa henni lögformlega stöðu. Þar er mikið verk fyrir höndum en uppfæra þarf ýmis gögn, t.d. lenti Ölkelduháls í flokki A, sem þýðir að hann sé frá umhverfissjónarmiðum vænlegur kostur.

Ölkelduháls er eitt af glæsilegustu hverasvæðum landsins, steinsnar frá höfuðborginni og því eitt af mest spennandi útivistarsvæðum suðvesturhornsins. Einkunnin A var byggð á 5 undirþáttum og einn þeirra var útivist. Þar voru gæði gagna hins vegar aðeins í flokki D sem þýðir að upplýsingar vantaði nánast alveg um svæðið sem útivistarsvæði þegar það fékk þennan dóm A fyrir lítil umhverfisárhif. Það sama á við víða annars staðar.

Það eru því spennandi tímar sem fara í hönd og náttúruverndarfólk væntir mikils af Þórunni og Össuri í störfum sínum.


Grænn af öfund?

Í stjórnarsáttmála Þingvallastjórnarinnar segir m.a.:
  • Sérstök áhersla verði lögð að meta verndargildi háhitasvæða landsins og flokka þau með tilliti til verndar og orkunýtingar.
  • Stefnt verður að því að ljúka vinnu við rammaáætlun fyrir lok árs 2009 og leggja niðurstöðuna fyrir Alþingi til formlegrar afgreiðslu.
  • Þar til sú niðurstaða er fengin verði ekki farið inn á óröskuð svæði án samþykkis Alþingis, nema rannsóknar- eða nýtingarleyfi liggi fyrir.

Til loka árs 2009 eru 2 og 1/2 ár. Þær orkurannsóknir sem þegar eru komin leyfi fyrir verða ekki stöðvaðar en ekki farið inn á ný svæði fyrr en þessi vinna hefur fengið formlegt gildi. Einnig var sérstaklega tekið fram að tímasetning stórframkvæmda verði látin ráðast af markmiðum um lága verðbólgu, lágt vaxtastig og almennt jafnvægi í hagkerfinu.

Stóryrði Steingríms J Sigfússonar nú um stjórnarsáttmálann, einkum umhverfisverndarhlutann, eru athyglisverð í ljósi þess að hann sagði á Bylgjunni 7. maí síðastliðinn:

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar...

...við getum ekki stöðvað það sem þegar er í gangi en það verði ekki nýjum framkvæmdum hleypt af stað næstu árin og heldur verið gert hlé og við endurmetum þessi mál og náum þar með þessu fram sem við viljum að hagkerfið jafni sig, að náttúran fái nú grið um tíma, við getum þá tekið frá og friðlýst þau háhitasvæði og vatnsföll sem við ætlum ekki að hrófla við og þá eftir kannski 3 ár eða svo verðum við í miklu betri aðstöðu til að taka ákvarðanir um framhaldið. Þá hvar og í hvaða mæli við höldum áfram að beisla orkuna því auðvitað munum við gera það til margvíslegra þarfa...

Held að Steingrímur ætti bara að bíða nokkra stund eftir að málningin á gólfinu þorni og hann komist út úr horninu. Það er ekki við Samfylkinguna að sakast að Vinstri græn eru utan stjórnar og að hrinda í framkvæmd því sem Vinstri græn töldu sig ein fær um að gera. Vinstri grænum væri sæmra að fagna þeim stóru skrefum sem Þingvallastjórnin er að stíga fram á við í þessum hjartans málum allra umhverfissina, hvar í flokki sem þeir eru.

Það er ekki virðingarvert að vera svona grænn af öfund.


mbl.is Steingrímur: Samfylking virðist hafa gefist upp á umhverfismálunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fagnaðarefni fyrir náttúruverndarfólk!

Umhverfisáherslur nýrrar ríkisstjórnar eru gríðarlegt fagnaðarefni fyrir náttúruverndarfólk. Í málefnaskrá ríkisstjórnarinnar segir m.a. um umhverfismál:

Ríkisstjórnin einsetur sér að Ísland verði í fararbroddi þjóða heims í umhverfismálum. Íslensk stjórnvöld, fyrirtæki og menntastofnanir eru í einstakri stöðu til þess að láta til sín taka á alþjóðavettvangi í baráttu gegn mengun og sóun náttúruauðlinda.

Ríkisstjórnin stefnir að því að ná víðtækri sátt um verndun verðmætra náttúrusvæða landsins og gera skýra áætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Ríkisstjórnin hyggst efla skógrækt og landgræðslu meðal annars í þeim tilgangi að binda kolefni í andrúmsloftinu. Einnig verði skipulega unnið að aukinni notkun vistvænna ökutækja, m.a. með því að beita hagrænum hvötum. Til að skapa sátt um vernd og nýtingu náttúrusvæða er mikilvægt að ljúka rannsóknum á verndargildi þeirra og gildi annarrar nýtingar. Sérstök áhersla verði lögð á að meta verndargildi háhitasvæða landsins og flokka þau með tilliti til verndar og orkunýtingar.

Stefnt verður að því að ljúka vinnu við rammaáætlun fyrir lok árs 2009 og leggja niðurstöðuna fyrir Alþingi til formlegrar afgreiðslu. Þar til sú niðurstaða er fengin verði ekki farið inn á óröskuð svæði án samþykkis Alþingis, nema rannsóknar- eða nýtingarleyfi liggi fyrir.

Nokkur svæði, sem talin eru mikilvæg út frá verndunarsjónarmiðum af stofnunum umhverfisráðuneytisins, verði undanskilin nýtingu og jarðrask þar óheimilt þar til framtíðarflokkun hefur farið fram í samræmi við staðfestar niðurstöður hinnar endurskoðuðu rammaáætlunar. Slík svæði eru Askja, Brennisteinsfjöll, Hveravellir, Kerlingafjöll, Kverkfjöll og Torfajökull. Vatnasviði Jökulsár á Fjöllum verði bætt við Vatnajökulsþjóðgarðinn og tryggt að ekki verði snert við Langasjó í virkjanaskyni. Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum verði tryggð þannig að það nái yfir hið sérstaka votlendi veranna.

Þessi málefnaskrá sýnir svo um munar að góður undirbúningur, skýr stefna, tillögur að lausnum og góður samstarfsvilji skilar mun meiri árangri en krossfarahugarfar þeirra sem telja sjálf sig eina "alvöru" fólkið í náttúruverndarmálum. Væri baráttan fyrir náttúruvernd eingöngu háð undir slíkum formerkjum væri það mikill skaði bæði fyrir sjónarmið náttúruverndarfólks og náttúruna sjálfa.

Með Þórunni Sveinbjarnardóttur sem umhverfisráðherra fara nú spennandi tímar í hönd hjá íslensku náttúruverndafólki. Náttúra landsins verður kortlögð, verndargildi náttúrusvæða metið og mið tekið af þeim niðurstöðum við skipulag landsins. Til hamingju Ísland!


mbl.is Ekki farið inn á óröskuð svæði fyrr en náttúruverndaráætlun liggur fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svartur dagur í sögu strætó

Þetta er sorgleg ákvörðun og ekki í anda grænna skrefa í Reykjavík. Manni er slétt sama þótt strætóskýlin heiti eitthvað og segi manni hvað sé langt í næsta vagn ef það er alltof langur tími þar til vagninn kemur. Það er öllum ljóst sem nota strætó, jafnvel bara stundum, að ferðatíðni hefur mun meira að segja en verð á fargjöldum.

Það er alveg sama þótt maður fái ókeypis í strætó ef hann kemur ekki innan þeirra tímamarka sem samkeppnin við einkabílinn leyfir. Þess vegna er það stórt skref aftur á bak að fækka ferðum og gerir að litlu þær vonir sem bundnar eru við ókeypis í strætó fyrir skólafólk.

Ístöðuleysið sem yfirvöld sýna með þessu er líka vítavert. Kaldar kveðjur til þeirra sem hafa reitt sig á almenningsamgöngur til að komast til og frá vinnu. Fólks sem hefur tekið þeirri áskorun borgaryfirvalda að reiða sig á almenningssamgöngur en ekki á einkabílinn.

Skilaboðin eru skýr - ekki treysta á almenningssamgöngur.


mbl.is Allar strætóferðir á 30 mínútna fresti í sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver mun taka á þessu máli?

Hilmar V Pétursson hjá CCP hefur bent á hvað það er fjarstæðukennt að vera með "sérstaka peninga fyrir 300.000 manns". Það er rétt hjá honum. Þetta er óhemju dýrt fyrir fólk og fyrirtæki og fælir frá okkur erlenda fjárfestingu. Nema auðvitað í jöklabréfum.

Nú eru Malta með 400.000 íbúa og Kýpur með 800.000 íbúa að stíga mikilvæg skref í áttina að upptöku Evru. Hér heima má helst ekki tala um þetta mál.

Sem er athyglisvert þegar maður skoðar viðhorf iðnaðarins til þess að taka upp aðildarviðræður við Evrópusambandið. Samkvæmt könnun Capacent á viðhorfum innan Samtaka iðnaðarins er um 62% félaga í SI hlynnt eða mjög hlynnt því að taka upp aðildarviðræður við ESB. 26% eru á móti en 12% er sama.

Þegar viðhorf almennings eftir stjórnmálaskoðunum eru skoðuð kemur líka margt athyglisvert í ljós. Rétt um 60% almennings er hlynntur eða mjög hlynntur því að teknar verði upp aðildarviðræður við ESB. Um 27% eru andvíg.

40% Sjálfstæðismanna eru mjög hlynnt eða hlynnt aðildarviðræðum, rúm 42% Framsóknarmanna eru sama sinnis, 86% Samfylkingarinnar sömuleiðis og rúsínan í pylsuendanum - 61,2% Vinstri grænna vilja taka upp aðildarviðræður við ESB.

Atvinnulífið hefur ítrekað bent á það ýmist með hótunum eða fótunum að krónan sé orðin of lítil fyrir þau. Almenningur í landinu þarf einnig að bera mikinn kostnað af óstöðugri krónu. Það er nauðsynlegt að skoða þessi mál fordómalaust á næsta kjörtímabili eins og Þorsteinn Pálsson orðaði það ágætlega í ræðu á ársþingi Samtaka Iðnaðarins.

Hver mun verða til þess?


mbl.is Kýpur og Malta næst til að taka upp Evruna ?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband