16.5.2007 | 10:15
Minnsti meirihluti í heimi
Það er margt skrafað um mögulega stjórnarmyndun enda ekki skrýtið að kjósendur velti fyrir sér hvað á endanum verður um atkvæði þeirra.
"Alltaf kaus ég Framsókn" skrifaði Hallgrímur Helgason eftir borgarstjórnarkosningarnar síðastliðið vor. Það var vísun í slagorð Vinstri grænna "aldrei kaus ég Framsókn" en í greininni rakti hann hvernig Framsókn endaði alltaf í stjórn þótt hún hefði lítið fylgi.
Í fyrra var myndaður minnsti meirihluti í heimi (rúmlega 48% atkvæða) í borginni með því að Sjálfstæðisflokkur kippti þessum eina Framsóknarmanni upp í stjórn með sér. Nú er í fullri alvöru talað um að endurtaka leikinn í landsstjórninni.
Eftir forsetakosningar í Bandaríkjunum, þegar Bush vann afar nauman og umdeildan sigur, gerði Gaddafi grín að þessu kerfi sem gerði þann mann að forseta sem nánast helmingur þjóðarinnar væri alfarið á móti. Hvað ætli hann segði um stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í ríki og borg?
![]() |
Flestir vildu stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
14.5.2007 | 10:02
Önnur besta útkoma í sögu vinstri flokkanna
Nú liggja úrslitin fyrir. Samfylkingin náði á sunnudagsmorgni annarri bestu kosningu vinstri flokks í sögunni. Þessi niðurstaða staðfestir að Samfylkingin hefur fest sig í sessi sem stór öflugur jafnaðarmannaflokkur í anda norræna módelsins. Það er mikil þörf fyrir slíkan flokk á Íslandi í dag, sem byggir á hugsjóninni um sameiginlega velferð, virðingu gagnvart náttúrunni, jöfnum tækifærum og frelsis til orða og athafna.
Fréttaskýrendur hafa lýst Sjálfstæðisflokk og Vinstri græn sigurvegara kosninganna og árangur þeirra er góður miðað við síðustu kosningar, sérstaklega Vinstri grænna. Það er þó staðreynd sem ekki verður á móti mælt að útkoma Sjálfstæðisflokksins er slök miðað við meðalfylgi flokksins og þrátt fyrir fylgisaukningu eru sigurvegararnir í Vinstri grænum einungis sjónarmun hærri en Framsókn sem bíður algjöran ósigur.
Samfylkingunni hafði ekki verið spáð glæsilegri útkomu en fyrir um 6 vikum mældist flokkurinn undir 19% í könnunum. Flokkurinn sýndi hins vegar úr hverju hann er gerður og náði að auka fylgi sitt um 8% á þessum stutta tíma. Það var gert með því að leggja fram skýra stefnu og lausnir í öllum málum. Það kunni fólk að meta því fólk vill frekar sjá lausnir en hræðsluáróður.
Stemningin í röðum Samfylkingarfólks var einstök, baráttan var mjög jákvæð og sjálfboðaliðar sem á síðustu vikum baráttunnar dreif að úr öllum áttum höfðu allir sama markmið - að koma stefnumálum flokksins á framfæri við kjósendur með jákvæðum hætti.
Stærsti einstaki liðurinn í baráttunni var án efa rósagangan en mér er til efs að nokkurn tímann áður hafi stjórnmálaflokkur heimsótt fleiri kjósendur í aðdraganda kosninga. Frambjóðendur gengu ásamt sjálfboðaliðum í meira en 30.000 hús um allt land, heilsuðu upp á húsráðendur, spjölluðu um kosningamálin og gáfu rósir.
Þrátt fyrir að það tæki mikinn tíma erum við sannfærð um að þetta skilaði okkur miklu og styrkti mjög samband frambjóðenda við kjósendur. Þetta verður án vafa endurtekið. Þegar að því kemur vona ég að stemningin í okkar röðum verði jafn góð og hún var núna.
Ég vil nota tækifærið til að þakka öllum sem lásu þessa síðu og skrifuðu athugasemdir inn á hana en skoðanaskipti á síðunni voru með þeim allra líflegustu og yfirleitt afar málefnaleg. Því væri gaman að halda áfram þótt eflaust muni ákefðin eitthvað minnka núna þegar kosningar eru að baki og sumarið framundan.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)
12.5.2007 | 13:11
Nýtt líf kviknar - göngum á vit framtíðar!
Fyrirsögn Moggans í dag er í stíl við viðleitni blaðsins undanfarna mánuði að skapa fréttir fremur en að segja þær. "Líf ríkisstjórnarinnar hangir á bláþræði". Þetta er gildishlaðin setning, lífið er heilagt og öllum í blóð borið að vilja vernda líf.
Reyndar held ég að þessi ríkisstjórn sé södd lífdaga og hennar tími sé liðinn. Hún hefur gengið sitt skeið á enda og nú á að minnast þess góða sem hún hefur gert og reyna að fyrirgefa henni það sem hún hefur gert miður gott.
"Í dag er glatt í döprum hjörtum" geta þeir sungið sem bíða á biðlistum eftir þjónustu eftir að þeir hafa farið og merkt x við S í kjörklefum. Við finnum það sem höfum á undanförnum vikum gengið í yfir 15.000 hús, heilsað upp á fólk og spjallað að þjóðin bíður eftir að nýtt líf kvikni í landspólitíkinni.
Það gerist með góðri kosningu Samfylkingarinnar í dag.
Göngum á vit framtíðar!
11.5.2007 | 12:22
Orð fjármálaráðherra standast ekki

Þessi orð ráðherrans standast ekki. Ráðagerðir Landsvirkjunar um byggingu "lítillar" útgáfu af Norðlingaöldulóni eru uppi á borðum þótt í orði kveðnu hafi þær verið "lagðar til hliðar". Í skýrslu sem Landsvirkjun vann að beiðni Álfheiðar Ingadóttur, sem þá var í stjórn Landsvirkjunar og er dagsett 21. nóv 2006 sjást svart á hvítu áform Landsvirkjunar á Þjórsárverasvæðinu. Í skýrslunni segir m.a.:
"Eftir samþykkt meirihluta Samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins þar sem lagst er gegn því að set- og veitulón norðaustan veranna verði sett inn á svæðisskipulag og einnig í ljósi dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá júní sl. er gengur í sömu átt er nauðsynlegt að endurmeta fyrirkomulag Norðlingaölduveitu."
Síðan segir í skýrslunni að vart sé raunhæft annað en "að falla frá áformum um set- og veitulón og miða framkvæmdina við lítið lón við Norðlingaöldu". Það telja skýrsluhöfundar að muni auka kostnað um 10% en eftir sem áður verði veitan "hagkvæmur orkukostur".
Þá kemur nánari lýsing á "litla Norðlingaöldlóninu" sem að flatarmáli er áætlað 4,6 km2 en Norðlingaöldulón var áætlað 9,4 km2 að stærð.
Allir flokkar, nema Sjálfstæðisflokkurinn, hafa lýst vilja sínum til að stækka friðlandið í Þjórsárverum þannig að það nái til alls votlendis veranna. "Litla Norðlingaöldulónið" sem Landsvirkjun hefur nú á teikniborðinu yrði inni í miðju stækkuðu friðlandi Þjórsárvera.
Landsvirkjun segir í skýrslunni að þar sem "nánast allar stíflur Kvíslarveitu verða innan friðlandsmarkanna" samkvæmt þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar um stækkun friðlandsins, sé "augljóst að saman geta farið orkunýting og náttúruvernd".
Með þessum orðum eru skýrsluhöfundar að rökstyðja þá skoðun sína/Landsvirkjunar að "litla Norðlingaölduveitan" geti orðið smekklegur hluti friðlandsins í Þjórsárverum.
Hæpið er, þó ekki sé það útilokað, að Árni Mathiesen viti ekki af áformum Landsvirkjunar því samkvæmt tillögu sem samþykkt var í stjórn Landsvirkjunar 28. ágúst 2006 var formanni stjórnar falið "að ræða við stjórnvöld um Norðlingaölduveitu og stefnu þeirra í þeim málum".
Í þessu sambandi er athyglisvert að sjá að Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn sem ekki hefur lýst yfir vilja til að stækka friðland Þjórsárvera. Það verður ekki skilið öðru vísi en að stefna Sjálfstæðisflokksins sé að ráðast við fyrsta besta tækifæri í "litla Norðlingaöldulónið".
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.5.2007 | 18:04
Ekki gert ráð fyrir að konur séu bændur
Það er svo sem ekki ástæða til að móðgast sérstaklega út í Einar Odd fyrir þetta. Hann á líka hrós skilið fyrir að gangast við mistökunum enda er Einar Oddur sér á parti með það að viðurkenna mistök sem Sjálfstæðisflokknum og einstaklingum innan hans verða á.
Það sem mér þykir merkilegra er nokkuð sem ég komst að í vetur þegar Samfylkingin heimsótti Hvanneyri og þar á meðal greiningardeild landbúnaðarins. Þar flettum við skýrslu sem hafði að geyma gífurlegan fróðleik í tölum um landbúnað.
Þar mátti sjá að meðalaldur bænda er rúmlega 56 ár, þar voru upplýsingar um meðal túnstærð á lögbýli, hvað voru margar kýr og hvað mörg naut á tilteknum aldri, hvað voru margir hrútar og ær, hænur og hanar...
En ekki stafur um hvað margir bændur væru konur og hvað margir bændur væru karlar. Við vorum nokkuð forvitin um þetta af því við teljum að landbúnaður þurfi að fela í sér meiri tækifæri fyrir konur ef það á að sporna við fólksfækkun á landsbyggðinni og spurðum því hvar þessar upplýsingar væri að finna.
Sérfræðingar landbúnaðarins höfðu greinilega aldrei fengið þessa spurningu áður því þeir veltu vöngum, klórðu sér aðeins í höfðinu og sögðu svo sem satt var - það er nú eiginlega engin lína í forritinu fyrir það!
Ég held að það væri hins vegar mjög gott að búa þessa línu til því við þurfum upplýsingar um það hvað mörg ársverk í landbúnaði eru unnin af konum og hvað mörg af körlum.
![]() |
Biðst afsökunar á bréfi til bænda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.5.2007 kl. 08:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
10.5.2007 | 14:30
Nýr "háskóli" á Suðurnesjum - kosningalykt af málinu?
Það var blásið í lúðra um daginn og tilkynnt um stofnun háskóla á Keflavíkurflugvelli. Menntamála seildist í djúpa vasann og fann krumpað ávísanablað - skrifaði á það 100 milljónir með gjalddaga eftir að hún er hætt. Það er orðinn fastur liður hjá henni og samráðherrum hennar að lofa upp í ermina á þeim sem eru að fara að taka við.
Svo mikið liggur á að koma þessari kosningabrellu í loftið að "Háskólinn" sem þegar mun vera hafin innritun í hefur alls ekki fengið starfsleyfi. Slíkt leyfi má aðeins Alþingi gefa út og það hefur ekki verið gert. Enda segir í frétt Víkurfrétta að:
Fyrsta verkefni Keilis, Miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs verður stofnsetning Frumgreinadeildar sem hefja mun starfsemi strax næsta haust. Nám við deildina er þróað í samstarfi við HÍ og í samræmi við inntökukröfur hans.
Námið verður auglýst í næstu viku en námsskrá hennar miðar að því að undirbúa fólk eldra en 24 ára undir háskólanám með 9-12 mánaða fornámi. Deildin á að skapa þeim sem ekki hafa stúdentspróf tækifæri til háskólanáms.
Einnig stefnir félagið að því að hefja næsta haust kennslu við nýjan starfsgreinatengdan fagskóla (Polytechnic). Fyrsta verkefni hans verður stofnun Flugakademíu í samstarfi við fyrirtæki í flugstarfsemi og aðra hagsmunaaðila, en þar verður sinnt kennslu í allri flugtengdri starfsemi svo sem flugmennsku, flugþjónustu, flugumferðarstjórn og flugvirkjun.
Hjálmar Árnason, fráfarandi þingmaður Framsóknarflokksins, hefur verið ráðinn forstöðumaður "háskóans" án þess að staðan væri auglýst. Kristín Ástgeirsdóttir veltir því fyrir sér á bloggsíðu sinni en Fréttablaðið sagði frá þessu á þriðjudaginn var:
Hjálmar Árnason, fráfarandi alþingismaður Framsóknarflokksins, fékk stöðu forstöðumanns væntanlegs fagskóla á Keflavíkurflugvelli án þess að staðan væri auglýst. Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Runólfur Ágústsson, framkvæmdastjóri fræðslumiðstöðvarinnar sem ætlar að reka skólann, staðfesta þetta við Fréttablaðið og segjast fagna ráðningu Hjálmars.
Sem sagt: Fagskóli kallaður háskóli af því það eru að koma kosningar, menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins "gúmmar" einn tékkann í viðbót upp á 100 milljónir af því það eru að koma kosningar og fráfarandi þingmanni Framsóknar er reddað vinnu af því það eru að koma kosningar.
Þau eru kunnugleg handbrögðin ríkisstjórnarflokkanna.
10.5.2007 | 13:34
Að lofa upp í ermina á öðrum
Það hefur verið ævintýri líkast að fylgjast með ráðherrum ríkisstjórnarinnar þeysa landshorna á milli að klippa á borða, taka skóflustungur og skrifa undir samninga. Loksins, loksins á að gera allt sem ekki hefur verið gert í 12 ár. Ekki korteri fyrir kosningar heldur hálfa mínútu í kosningar.
Þetta sýnir best samantekt Íslands í dag sem Egill Helgason bendir á í bloggi sínu í dag. Samkvæmt því eru ráðherrar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks búnir að lofa tæplega 450 þúsund milljónum upp í ermina á næstu ríkisstjórn. Skrifa undir samninga til margra ára sem ekki er nein fjárheimild fyrir.
Þetta er svona svipað og ef gjaldkeri í Lions myndi skrifa út haug af ávísunum vegna vinsælla mála - allar með dagsetningu eftir að prókuru hans lýkur. Þetta heitir að lofa upp í ermina á öðrum.
Þetta mætti einnig kalla örvæntingu - sumir myndu líka vilja kalla þetta siðleysi. Ég þar með talinn.
9.5.2007 | 19:33
Áfram upp!
Þó nokkuð flökt sé á fylgi flokkana eftir skoðanakönnunum þá er ljóst hvert stefnir. Samfylkingin er á leiðinni upp og ríkisstjórnin er á leiðinni niður.
Þetta er skiljanlegt - fólk vill breytingar og það er ekki skrýtið eftir 12 ár af Framsókn og 16 ár af Sjálfstæðisflokki. Stjórnarflokkarnir eru orðnir lúnir, Framsókn farlama af spillingarmálum og Sjálfstæðisflokkurinn búinn að tapa öllum tengslum við grasrótina.
Fólk vill sjá nýja hugsun í atvinnumálum, fjárfestingarátak í menntamálum, jöfn laun karla og kvenna, endurreisn velferðarþjónustunnar, stórátak í samgöngumálum og Rammaáætlun um náttúruvernd þar sem verðmæt náttúrusvæði verða kortlögð og verndun þeirra tryggð.
Höldum áfram upp - og breytum til hins betra!
![]() |
Ríkisstjórnin fallin samkvæmt nýrri skoðanakönnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.5.2007 | 14:12
Hið fullkomna áhugaleysi Sjálfstæðisflokksins á umhverfismálum
Geir Haarde og Sjálfstæðisflokkurinn hafa engann áhuga á umhverfismálum - sér í lagi finnst þeim allt tal um hitnun Jarðar vegna gróðurhúsaáhrifa vera óáhugavert svartsýnisrugl.
Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2005 hélt Davíð Oddsson fram gagnsleysi Kyoto bókunarinnar og afgreiddi vísindasamfélagið, umhverfisverdarfólk og stjórnarandstöðuna allt á einu bretti sem bölsýnisfólk.
Reyndar mætti hann ekki á nýafstaðinn landsfund Sjálfstæðismanna en ekkert bendir til þess að afstaða hans eða flokksins hafi breyst. Þvert á móti.
Illugi Gunnarsson, sá sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur teflt fram sem sínum grænasta manni, tjáði í Silfri Egils í fyrra miklar efasemdir um að hitnun Jarðar væri af manna völdum. Hann vitnaði því til stuðnings í vísindamenn sem orðið hafa uppvísir að því að vera á mála hjá einkaaðilum í olíubransanum.
Á Vef Þjóðviljanum, www.andriki.is, má finna margar ritstjórnargreinar þar sem niðurstöðum vísindasamfélagsins, Sameinuðu Þjóðanna og allra þeirra aðila sem telja ógnina vera af manna völdum er harðlega mótmælt. Ítrekað er þar gert lítið úr þeirri ógn sem steðjar að fólki og lífríki Jarðar. Frjálshyggjufólkið telur einnig að efnahagsleg áhrif af loftslagsbreytingum séu svo lítil að það borgi sig ekki að bregðast við þeim.
Sigríður Andersen, þingmannsefni Sjálfstæðismanna, hefur verið í ritstjórn Vef Þjóðviljans og er nátengt henni enn í dag. Það er einnig skoðanabróðir hennar, Illugi Gunnarsson, grænasta þingmannsefni Sjálfstæðismanna.
Heimstónleikar Live Earth verða haldnir í 7 borgum í 7 heimsálfum. Áætlað er að um 2 milljarðar manna um allan heim horfi á útsendingu tónleikanna sem mun standa yfir í sólarhring. Sérstaklega var sótt eftir samstarfi við Ísland vegna hreinnar ímyndar og þekkingar á vistvænni orku.
Fyrir 15 milljónir er hægt kaupa um 60 mínútur af auglýsingum sem ná til um 90 þúsund einstaklinga á Íslandi. Fyrir 15 milljónir var hægt að kaupa rúmar 3 klst. af jákvæðri kynningu sem hefði náð til um 2.000.000.000 einstaklinga í heiminum. Auglýsingu sem hefðu kynnt land, þjóð og tónlist fyrir öllum heiminum. Það var enginn áhugi á því.
Fyrir um 15 milljónir hefðu íslensk stjórnvöld getað boðið allri þjóðinni á ókeypis stórtónleika á Klambratúni með U2 og fjöldanum öllum af heimsfrægum hljómsveitum.
Það var enginn áhugi á því.
Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, sem hlaut á dögunum Óskarsverðlaun fyrir myndina An Inconvenient Truth, hefði komið sérstaklega til landsins í tilefni af tónleikunum.
Það var auðvitað enginn áhugi á því.
Framlag ríkisins upp á 15 milljónir hefði skilað sér margfalt til baka þótt ekki væri nema í tekju- og virðisaukaskatti af vinnunni við að gera tónleikana að veruleika.
Það var heldur enginn áhugi á því.
Synjun Geirs H Haarde á þessu framtaki lýsir fullkomnu áhugaleysi Sjálfstæðismanna á umhverfismálum og er þjóðinni allri til háborinnar skammar.
![]() |
Hætt við Live Earthtónleika í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
8.5.2007 | 23:53
Frétta að vænta af Live Earth tónleikunum

![]() |
Kyrrahafsríki funda um loftslagsbreytingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |