Vg, lánakjörin og krónan

Varaformaður Vinstri grænna, Katrín Jakobsdóttir, kom með þarfa ábendingu í fyrirspurnartíma í þinginu í gær. Hún benti á að þeir sem taka lán til húsnæðiskaupa á núgildandi kjörum til 40 ára mega búast við að þurfa að greiða um 6,8 milljónir til baka fyrir hverja milljón sem þeir fá að láni.

Þetta er hárrétt hjá varaformanni Vg. Fyrir forvitnis sakir sló ég inn í lánareikni Landsbankans hvað 20 milljóna lán myndi á endanum kosta eftir 40 ár. Svarið er rúmlega 135 milljónir króna miðað við forsendur varaformanns Vg.

Greiðslubyrði á mánuði myndi byrja í 117 þúsundum á mánuði og eftir 20 ár væri skuldarinn búinn að greiða um 41,2 milljónir. Þá væri skuldin hins vegar komin upp í 34,3 milljónir og greiðslubyrðin á mánuði upp í 254 þúsund krónur. Eins og sjá má á mynd ætti skuldin enn eftir að hækka talsvert og síðasta greiðslan yrði um 556 þúsund krónur.

LanChart_000167

En dæmið liti talsvert öðru vísi út ef tekið væri óverðtryggt erlent lán upp á 20 milljónir á 3,8% vöxtum með jöfnum afborgunum. Heildarendurgreiðsla af 20 milljónum væru þá 35,5 milljónir eða um 100 milljónum minna en af íslenska láninu.

Greiðslubyrði myndi byrja í rúmum 105 þúsund krónum á mánuði og eftir 20 ár væri skuldarinn búinn að greiða um 21,6 milljónir. Eftirstöðvarnar væru komnar niður í um 10 milljónir króna og greiðslubyrði niður í 74 þúsund á mánuði. Síðasta greiðslan af láninu yrði um 42 þúsund krónur.
Þetta er mynd sem er talsvert hugnanlegri fyrir íslenska húsnæðiskaupendur.

LanChart_000170 

Þessi lán geta flestir tekið í dag en margir óttast hvað gerist ef gengið fellur. Að vísu tel ég að það megi falla býsna mikið til að erlent lán verði óhagstæðara en hið íslenska en fyrir marga getur þetta skipt miklu máli, t.d. þá sem ekki hafa svigrúm til að mæta tímabundinni hækkun á afborgunum eða þá sem gætu þurft að selja þegar gengisskráning er óhagstæð.

Ef almenningur ætti kost á að fá laun sín að hluta eða öllu leyti greidd í erlendri mynt væri þessi gengisáhætta hins vegar ekki fyrir hendi. Til að það geti gerst þarf annað hvort að taka opinberlega upp erlendan gjaldmiðil eða gera það hægt og hljótt og feta í fótspor margra einkafyrirtækja sem þegar eru farin að borga starfsfólki sínu að hluta í erlendri mynt.

Það er ljóst að betri kjarabót fyrir íslenska alþýðu er vandfundin því eins og dæmið hér að ofan sýnir sparast 100 milljónir á hverjar 20 milljónir með því að taka erlent lán í hins íslenska.

Það er ástæða til að þakka varaformanni Vinstri grænna fyrir að vekja athygli á þessu en um leið hlýtur maður að spyrja hvað flokkurinn hennar vill gera í gjaldmiðilsmálum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Mjög svo athyglisvert Dofri.. annars fæ ég engin lán il húsnæðiskaupa þar sem ég á ekki nokkrar milljónir í sjóð svo þetta snertir mig ekki mikið.. væntanlega hrökklast maður aftur úr landi....

Óskar Þorkelsson, 21.11.2007 kl. 16:13

2 Smámynd: Ásta Steingerður Geirsdóttir

Þessi ábending Katrínar var vissulega þörf. Það er nú samt alveg með ólkindum hversu  lengi þetta ástand er búið að vara. Það er hreint skelfilegt hvernig staðan er hjá stórum hópi fólks. Það virðist vera gengið út frá því sem gefnu í dag að allir eigi sjóð :) betur að satt væri, en þannig er það nú bara ekki. Það þarf svo sannarlega að fara að kippa þeim niður á jörðina, þeim sem stjórna okurvaxtastefnu bankanna áður en verra er komið. Almenningur í þessu landi er  búin að borga nóg í bili. Þessu verður að linna.

Það verður gaman að fylgjast með hvað VG gerir í gjald.málinu :) 

Ásta Steingerður Geirsdóttir, 21.11.2007 kl. 17:13

3 Smámynd: Guðrún Hulda

Það hefur einhvern veginn alltaf verið sama tóbakið. Alveg frá því að ég var krakki (er nú um þrítugt) hefur fólk talað um það hversu erfitt það sé að kaupa fyrstu íbúðina og hvað fólk var fátækt fyrstu árin eftir að það keypti fyrstu íbúðina og svo framvegis. Þegar mamma og pabbi voru ung voru þau ekki í sjálfstæðisflokknum né vinir bankastjóranna né nógu merkilegt yfirstéttarfólk til að fá lán fyrir húsnæði. En þau, eins og ég, fóru í kringum kerfið. Það hefur sem sagt ekkert breyst.

Það mætti halda að þingmennirnir plástruðu bara og löppuðu upp á því þetta hefur ekkert breyst í grunninn þó umgjörðin hafi gert það. Grundvallabreytinga er þörf. Það eru mannréttindi að eiga fyrir mat og það eru líka mannréttindi að eiga fyrir húsnæði. En hvað er málið? Afhverju hefur ekki tekist að leysa úr þessu vandamáli í áratugi? 

Þetta er bara það sem það er: vandamál sem er til til þess að leysa.

Guðrún Hulda, 21.11.2007 kl. 17:15

4 Smámynd: Sævar Helgason

Sýnir þetta ekki að við ráðum ekkert við þennan gjaldmiðill okkar ,krónuna, og allar þær girðingar sem almenningur er lokaður inni í með skuldbindingar sínar sérílagi húsnæðismálin- það er alveg hörmung að skoða þessi línurit sem fylgja með pistlinum og sjá þá ofurhlekki sem ungt fólk er hneppt í hér á landi umfram það sem almennt gerist í Evrópu.

Okkar unga fólk er gert að þrælum bankakerfisins - ja til æviloka ef fer fram sem nú horfir.

Erum við ekki komin að leiðarlokum með þennan gjaldmiðil okkar ? Og fer ungt fólk  að flýja land umvörpum- einkum velmenntað ungt fólk ?

Síðan er það orðið þannig að hluti þjóðarinnar getur tekið þessi erlendu lán þar sem það fær nú orðið laun sín greidd í evrum.

Og Seðlabankinn vinnur við það eitt að hækka stýrivexti-alveg fullt djobb.

Hvað ætlar þessi ríkisstjórna að gera ? Hafi einhvertíma verið þörf á aðgerðum þá er það nú eða er það ekki ?

Sævar Helgason, 21.11.2007 kl. 19:47

5 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Fín dæmi og alveg skýr.  Mér finnst samt mjög skiljanlegt að eldra fólkið - sérstaklega sá hópur sem fjármagnaði sín húsnæðiskaup - fyrir daga verðtryggingar - skilji alls ekki þessa "vítisvél andskotans" sem vísitölubinding lánanna er.   Auk þess erum við með hærra vaxtastig - ofan á vísitöluna - heldur en þekkist í nágrannalöndum sem siðuð teljast.

Erum við ekki í raun á leiðinni - - inn í Evruna  - nokkuð hratt en því miður án þess að hafa áhrif eða áheyrn í Evrópusambandinu.  

Ótrúlegt að Vinstri Græn skuli standa hvað fastast af öllum á bak við Davíð og Seðlabankann - bak við vaxtaokur örkrónunnar ISK  - stefnu sem flytur fjármuni frá þeim sem minna mega og ýkir með undrahraða þá mismunun sem hefur keyrt langt úr hófi síðustu árin.  Hvernig villl VG standa með almenningi - með öldruðum og með ungu fólki sem þarf að komast í öruggt húsnæði . . . . með börn sín og framtíð?

VG þarf að svara því með öðru en upphrópunum 

Benedikt Sigurðarson, 21.11.2007 kl. 20:56

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þetta er auðvitað þörf umræða, en samanburðurinn hér að ofan er ekki "réttur" að öllu leyti.  Því miður er það svo að mörgum þeim sem tjá sig um þessi málefni, hættir til að "fegra sinn málstað", ef svo má að orði komast.

Það er ekki rökrétt að bera saman jafngreiðslulán og lán þar sem vextirnir eru borgaðir að fullu mánaðarlega.  Það er enda svo að mjög algengt er að boðið sé upp á jafngreiðslulán (t.d. hér í Kanada) þó að lánið sé óverðtryggt.  Vissulega verður eignmyndunin ekki eins hröð, en afborganir í upphafi eru heldur ekki jafn háar og gerir þetta ýmsum aðilum kleyft að eignast íbúð þrátt fyrir að launin séu ekki gríðarlega há, en vissulega hægir þetta á eignamyndun og heildargreiðsla verður hærri.

Ef lántakendur á Íslandi greiddu frá upphafi fulla vexti og verðtryggingu mánaðarlega, yrði eignamyndunin hraðari og afborganir myndu auðvitað lækka jafnt og þétt eftir því sem á lánstímann liði.

Hitt er svo annað mál að hér í Kanada, þykir ekki eðlilegt að leggja í að kaupa sér húsnæði nema að eiga fyrir u.þ.b. 25% útborgun.  Ef taka þarf hærra lán er krafist þess að keypt sé greiðslutrygging.  Algengir vextir á húsnæðislánum (breytilegir) eru á milli 6 og 6.5 %.  Sé óskað efitr að festa á til lengri tíma, hækka þeir umtalsvert.  Fastir vextir til 7 ára nálgast t.d 8%.   Síðan eru misháir vextir eftir hvernig frelsi menn vilja hafa til að greiða aukalega, eða greiða lánið upp. Verðbólga hér er 2-2.5%.

Hitt er líka hér að það þykir óeðlilegt að taka húsnæðislán til lengri tíma en 25 ára, enda er eignamyndunin mun hægari þegar um er að ræða lengri lán, sérstaklega ef um jafngreiðslulán er að ræða.

G. Tómas Gunnarsson, 21.11.2007 kl. 21:46

7 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

góður pistill...takk

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 21.11.2007 kl. 22:03

8 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Hér er enn á ferðinni sönnun þess, sem við andstæðingar Verðtryggingar höfum sagt en hingaðtil talað fyrir daufum eyrum.

Það skiptir ekkert neinu máli með fall Krónunnar, hvort menneru með lán sín í erlendri mynt eða ekki.  Ef Krónan fellur grimmt, hækkar verðbólgan hratt og fer úr böndum.  Þá hækka öll innlend la´n í hlutfalli við verðbólguna og lántakandi í ísKr er engu betur staddur en sá sem tók sín lán í Pundum eða Myntkörfu. 

Þetta BER að láta koma í ljós í umræðunni, því bankarnir hræða menn grimmt með þessu og Evrusinnar tala algerlega utanum og umhverfis þessa staðreynd.

Miðbæjaríhaldið

Hefur ætíð talaið Verðtrygginguna vera Dóp lánveitenda og skálkaskjól þeirra um að vanda sig ekki.

Bjarni Kjartansson, 22.11.2007 kl. 11:29

9 identicon

Það að taka verðtryggt lán til 40 ára með háu veðsetningarhlutfalli er ekkert annað en leiga með eigendaáhættu. Þ.e. sá sem kaupir í búð með þessum hætti ber fulla áhættu vegna eignarhalds hennar án þess að eiga í raun nema brot af henni. Eina ástæða þess að lán þessi eru í boði er Íbúðalánasjóður. Væri nú ekki skárra að loka Íbúðalánasjóð og fá í staðinn eðlilegan leigumarkað? Plús það að hann er líklegast stærsti verðbólguvaldur hér á landi og á því stóran þátt í því háa vaxtastigi sem er í gangi hér. Eða héldu menn að niðurgreiðsla vaxta hefði ekki einhvern fórnarkostnað í för með sér?

IG (IP-tala skráð) 22.11.2007 kl. 15:05

10 Smámynd: Steinn Hafliðason

Hverjar eru forsendurnar í verðtryggða láninu? Og svo þætti mér gaman að sjá þann sem fær lán á 3,8% vöxtum í dag. Til þess að geta það þarftu að semja vel og veðsetja íbúðina lágt.

Að öðru leyti er þetta alveg rétt sem þú segir, það marg borgar sig að taka lán í erlendri mynt hvort sem þú færð borgað í krónum eða annari mynt. Á eftir gengishruni kemur verðbólga. Þá hækka bæði lánin. Þannig að gengisáhættan er ekki eins mikil og fólk vill vera að láta.

Steinn Hafliðason, 2.12.2007 kl. 16:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband