Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
22.2.2009 | 14:20
Kvikmyndaiðnaðurinn blómstrar
Þessi frétt var á visir.is
Ísland er mesta kvikmyndaframleiðsluríki veraldar, sé tekið mið af höfðatölu, en Financial Times ritaði grein um þetta á vef sínum í gær.
Þar segir jafnframt að þó Indland framleiði yfir þúsund kvikmyndir á ári þá sé það lítið miðað við rúman milljarð íbúa sem þar búa. Aftur á móti hafi sex kvikmyndir verið framleiddar á Íslandi árið 2003, og í ljósi þess að við erum eingöngu þrjúhundruð þúsund, þá er um 20 kvikmyndir að ræða á milljón íbúa.
Alls voru 64 kvikmyndir framleiddar í Hong Kong sama ár en það gera níu kvikmyndir á hverja milljón. Indónesía situr hinsvegar á botni kvikmyndaframleiðsluríkja því þeir framleiddu 17 kvikmyndir, íbúafjöldinn eru 240 milljónir, því er meðaltalið 0,1 kvikmynd á hverja milljón íbúa.
Þessi gróska er gott dæmi um iðnað sem hefur smátt og smátt verið að vaxa og eflast. Síðustu ár hefur þessi atvinnugrein skilað miklum gjaldeyristekjum inn í landið, skapað fleiri hundruð ársverk í landinu og skilað okkur mikilvægri kynningu á landi og þjóð í útlöndum.
Kvikmyndaiðnaðurinn er dæmi um frjóa og skapandi grein í fjölbreyttu atvinnusamfélagi. Meira svona!
20.2.2009 | 14:52
Ný framtíðarsýn
Álverið í Helguvík mun ekki rísa. Þeim sem trúðu í einlægni að það væri besta leiðin til að byggja upp atvinnulíf á Suðurnesjum og besta nýtingin á takmarkaðri orku votta ég samúð mína.
Nú er hins vegar kominn tími til að við horfumst í augu við staðreyndir.
- Álver eru að loka um allan heim vegna sölutregðu og verðs sem nær ekki framleiðslukostnaði
- Þegar er ekki til orka í 250 þúsund tonna álver er heldur ekki til orka í 360 þúsund tonna álver.
- Megawöttin sem við eigum óvirkjuð eru takmörkuð auðlind. Við eigum að nota hana þannig að það skapist eins mörg störf og eins mikil verðmæti í landi og hægt er.
- Í áliðnaði skapast um 1 starf á hvert MW en t.d. í sólarkísilhreinsun eru þau rúmlega 3 á hvert MW.
- Ýmis önnur tilboð sem skapa fleiri störf hafa borist orkufyrirtækjunum en þeim hefur verið bent á að fara aftast í röðina. Allir sjá að bið í þeirri röð hefur ekkert upp á sig.
Við eigum að slá þessi áform af eins fljótt og hægt er. Þegar í stað á að hefjast handa við uppbyggingu sem byggir á annarri sýn.
Ísland býður upp á gríðarlega möguleika. Við eigum gott samfélag, mennta- og heilbrigðiskerfi, fallegt land, mikið af kolefnislausri orku og gríðarlegan mannauð og frumkvöðlakraft.
Við eigum að byggja upp ímynd Íslands á þeim styrkleikum sem við höfum út á fagra náttúru, ábyrga fiskveiðistefnu og hóflega nýtingu orkuauðlinda. Á næstu 2 árum getum við skapað nokkur þúsund ný störf í grænum þekkingariðnaði, í heilsu- matar- og menningartengdri ferðaþjónustu.
Við eigum að marka stefnu um Ísland sem sjálfbært grænt orkusamfélag á næstu 10 árum. Það þýðir að eftir 10 ár verða allir bílar og skip knúin innlendum umhverfisvænum orkugjöfum. Við eigum að bjóða erlendum aðilum að fjárfesta í og starfa með okkur að þessari sýn - að leitinni að þessum lausnum.
Obama mun á næstu árum verja hundruðum milljarða dala í leitina að grænum orkulausnum. Bretland vinnur að stefnu sem kallast "The Green New Deal" og talið er að muni skapa nokkur hundruð þúsund "green collar" störf. Í Þýskalandi starfa nú þegar yfir 200 þúsund manns í græna orkubransanum.
Við eigum að bjóða fram einstaka aðstöðu okkar og fá hingað dálítið brot af allri þessari fjárfestingu, góðum störfum og þekkingu. Við getum komið okkur upp úr þessu með hyggjuvitinu og metnaðarfullri framtíðarsýn!
Álver í Helguvík í óvissu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
19.2.2009 | 11:20
Þekkingarfrekur iðnaður!
Enginn kvóti? Engar náttúrufórnir? Engin MW?
Mörgum kann að þykja þetta með ólíkindum, alla vega þeim sem ekki hafa séð neina leið til að fjölga störfum í atvinnulífinu aðra en að virkja, reisa álverksmiðjur, gefa út meiri kvóta í andstöðu við fiskifræðinga eða drepa hvali í andstöðu við helstu viðskiptaþjóðir okkar.
En svo er þetta bara alveg hægt! CCP er "eitthvað annað" sem út af fyrir sig er merkilegt hugtak því "allt hitt" = blessuð álverin sem öllu eiga að bjarga eru ekki nema rúmt 1% af öllum störfum í landinu.
Það er gaman að sjá "þekkingarfreka iðnaðinn" taka yfir. Það eru að verða kynslóðaskipti í viðhorfum til uppbyggingar atvinnu í landinu. Stjórnmálamenn framtíðarinnar munu vonandi einbeita sér að því að skapa hagstæð skilyrði fyrir þá framtíð sem hugur fólks stendur til og það hefur menntað sig fyrir.
Annars ber hugurinn fólkið úr landi.
CCP með flesta starfsmenn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.2.2009 | 10:04
Velkomin í hópinn
Þegar sitjandi þingkonur og -menn ákveða að gefa kost á sér aftur er það stundum túlkað sem svo að þau ætli ekki að hætta rétt eins og um venjulegan launþega væri að ræða. Slíkt viðhorf er auðvitað á misskilningi byggt. Þingsæti eru eign þjóðarinnar og hún kýs sér fulltrúa til að sitja í þeim.
Ég vil taka þátt í að móta farsælt og sterkt jafnaðar- og lýðræðissamfélag sem einkennist af lýðræðislegum vinnubrögðum, jafnrétti og sanngirni að norrænni fyrirmynd.
Hver getur ekki tekið undir þessi ágætu orð?
Vill 3.-5. sæti í Reykjavík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.2.2009 | 21:11
Sammála
Þú komst við hjartað í mér Lag ársins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.2.2009 | 14:45
Vel mælt og satt
Vilhjálmur hefur verið rödd hrópandans í eyðimörkinni undanfarin misseri. Þegar svo spilaborgin hrundi til grunna kom í ljós að allt sem hann hafði bent á hafði við rök að styðjast.
Það er líka rétt hjá honum að þjóðin er stödd í sorgarferli. Þessi fyrsti hluti hefur einkennst af vantrú sem svo víkur fyrir reiði eftir því sem hið rétta kemur í ljós. Það mun reyna mikið á þjóðina, stofnanir, hjálpar- og sjálfboðaliðasamtök, fyrirtækin og ekki síst heimilin í landinu á þeim tíma sem það mun taka að koma okkur upp úr þessum djúpa dal.
Nú skiptir miklu máli að fá allan sannleikann upp á borðið. Það er engum í hag að halda því leyndu hvernig staðan er. Alveg eins og þegar fólk stendur frammi fyrir persónulegum áföllum þá má ekki draga neitt undan gagnvart þjóðinni nú þegar við förum í að meta stöðuna og gera áætlanir um hvernig við byggjum okkur upp að nýju.
Það verður að segja fólki satt - allan sannleikann - og það þarf allt að vera uppi á borði. Þeir sem brugðust á vaktinni, hvort sem er stjórnendur banka, eftirlitsaðilar eða stjórnmálamenn, þurfa að biðjast fyrirgefningar og axla ábyrgð á gjörðum sínum eða aðgerðarleysi. Það þýðir ekki að biðjast afsökunar í viðtengingarhætti, slíkt er móðgun við réttlætiskennd þjóðarinnar og gerir ekkert annað en að ýfa sárin og draga þetta ferli á langinn.
Það er líklega líka rétt hjá Vilhjálmi að við þurfum aðstoð frá öðrum ríkjum til að rétta okkur við. Hvernig við fáum hana þarf líka að ræða opinskátt og það má ekki láta flokkapólitíkina draga þá umræðu ofan í skotgrafir sínar. Þá mun ekkert gerast af viti hér næstu árin.
Aldrei of blönk til að hugsa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.2.2009 | 11:21
Tilkynning
Það er víst ekki nóg að hrópa bara af hliðarlínunni ef maður vill sjá breytingar. Því hef ég ákveðið að gefa kost á mér til starfa á Alþingi í komandi kosningum.
Þetta tilkynnti ég í Grafarvogsblaðinu sem kom út núna í morgun með þessari fréttatilkynningu:
Ég, Dofri Hermannsson, býð mig fram í 5.-6. sæti í Reykjavík fyrir Samfylkinguna í komandi Alþingiskosningum. Mikið hefur verið rætt um þörf á endurnýjun á Alþingi eftir bankahrunið og með framboði mínu vil ég leggja mitt af mörkum til að svo megi verða.
Ég hef undanfarin ár beitt mér fyrir umhverfisvernd og nýsköpun í atvinnumálum með áherslu á hátækni- og sprotafyrirtæki, ferðaþjónustu, menningar- og listastarf.
Á vettvangi borgarmála hef ég talað fyrir nýrri hugsun í samgöngum borgarinnar. Að auðvelda umferð gangandi og hjólandi í styttri ferðum og gera strætó að raunhæfum valkosti við bílinn í stað þess að reisa tröllauknar slaufur og láta hraðbrautir skera í sundur gróin hverfi. Með því má auka hagkvæmni í samgöngum og stuðla að auknum lífsgæðum í hverfum borgarinnar.
Svo er bara að sjá hvað verður!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
11.2.2009 | 17:58
Sannar brýna þörf á endurnýjun á þingi
Til að byrja með vil ég taka fram að ég hef ekkert á móti því í sjálfu sér að hvalur sé drepinn til matar frekar en önnur dýr s.s. kýr, hestar, lömb, svín, krókódílar og hundar ef út í það er farið.
Mér er hins vegar fyrirmunað að skilja af hverju það er sáluhjálparatriði að veiða hval ef það er ljóst að við töpum meiri peningum á því en við fáum í staðinn. Enginn hefur sýnt fram á að það sé markaður fyrir hvalkjötið frá í fyrra og hitteðfyrra sem er í tollinum í Japan. Kristján Loftsson hefur hvergi sýnt nótu fyrir viðskiptum sem neinu skipta og engan samning um kaup á kjöti næstu árin.
Það er heldur ekkert skrýtið af því Japanir eiga í frysti 3.000 tonn af sínu eigin óselda hvalkjöti - meira en árs neyslu.
Af hverju í ósköpunum er þá sæmilega skynsamt fólk á þingi að hlaupa á eftir þessari vitleysu? Jú svarið er einfalt. Einar Kr. skildi eftir pólitíska jarðsprengju á leið sinni út úr sjávarútvegsráðuneytinu - ósiðlegt en virðist hafa náð tilætluðum árangri. Lobbýistar hvalveiðisinna söfnuðu fé til að fara í auglýsingaherferð og í lok herferðarinnar létu þeir gera könnun. Ekki þarf að koma á óvart að hún kom vel út hvalveiðum í hag - enda þjóðin alltaf viðkvæm fyrir því "að láta vitlausa útlendinga banna sér að veiða hval". Dýpri er sú hugsun því miður ekki.
En svo spurningunni um af hverju sæmilega skynsamt fólk á þingi lætur hafa sig út í þetta lýðskrum þvert á þjóðarhag sé svarað beint: Þau eru hrædd um að ná ekki endurkjöri og makka því eftir því sem þau telja líklegt til vinsælda frekar en að gera það sem rétt er.
Sýnir hve brýnt er að lofta út í steinhúsinu við Austurvöll.
36 þingmenn vilja hvalveiðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.2.2009 | 21:43
Fyrir hvað stendur hann?
Ég hef stundum velt því fyrir mér að undanförnu fyrir hvað Sigurður Kári stendur í pólitík. Minni ríkisafskipti, minna eftirlit? Vín í búðum og reykingar á veitingastöðum?
Margir velta því fyrir sér fyrir hvað Sjálfstæðisflokkurinn stendur. Ljóst er að undanfarinn áratug hefur sú hugmyndafræði verið allsráðandi að óheftur markaður væri alltaf besta svarið. Hinn sármóðgaði og einelti seðlabankastjóri sem þá fór með völd talaði af fyrirlitningu um það sem hann kallaði eftirlitsiðnað og í bræðikasti lagði hann niður Þjóðhagsstofnun af því niðurstöður hennar mátti skilja sem gagnrýni á efnahagsstjórn hans.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson var æðstiprestur í þessari trúarhreyfingu og ungar óbarnaðar sálir klöktust út í Heimdalli og SUS fengu á sig hið ágæta safnheiti Hannesaræskan. Nú þegar hugmyndafræði þeirra hefur keyrt allt í kaf og eftir standa rústir einar hleypur kjörbúðarvíns- og reykingabaráttumaðurinn upp í ræðustól Alþingis og fjargviðrast yfir því að hér eigi að deila byrðunum á þeirri erfiðu göngu sem framundan er.
Ef þingmaðurinn vill ekki hækka skatta á þá sem eru aflögu færir hlýtur hann að vilja skera velferð, heilbrigðisþjónustu og menntun inn að beini. Hann vill væntanlega ekki hækka skatta þeirra sem hafa vinnu til að geta greitt atvinnuleysisbætur. Það kann að koma að því í vor að hann skipti um skoðun.
Annars er dálítið magnað að það unga fólk sem boðið hefur sig fram til að endurnýja þingflokk Sjálfstæðisflokksins tilheyrir allt Hannesaræskunni eins og Sigurður Kári. Það á greinilega bara að bjóða kjósendum upp á meira af nákvæmlega því sama og kom landinu á hausinn.
Líklega er enginn til af þessari kynslóð sem þekkir gömul gildi Sjálfstæðisflokksins s.s. stétt með stétt.
Þýðir ekki að klína sök á Sjálfstæðisflokkinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
9.2.2009 | 15:17
Það sem þér viljið að aðrir menn gjörið yður...
Fyrr en okkur varði erum við stödd í sporum þeirra sem hingað hópuðust eftir vinnu. Það er okkur hollt sem þjóð að rifja upp umræðuna sem spannst um fólk frá öðrum löndum. Sumir stjórnmálamenn og jafnvel stjórnmálaflokkar gerðu sér mat úr ótta Íslendinga við erlent starfsfólk. Umræður fóru stundum niður á lægra plan en maður hélt að væri hægt hjá sæmilega upplýstri þjóð.
Hjá Reykjavíkurborg veltu ákveðnir stjórnmálamenn í núverandi meirihluta því fyrir sér í fúlustu alvöru að brjóta útboðsreglur EES samningsins af því erlent fyrirtæki átti lægsta tilboðið í byggingu tveggja grunnskóla. Ætli þeim þætti ekki hart ef þannig yrði farið með íslensk fyrirtæki sem ættu lægsta tilboð í verkefni í öðrum löndum.
Ég held að við ættum að þakka fyrir frjálst flæði vinnuafls innan EES samningsins.
Íslendingar nýju Pólverjarnir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |