Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Athyglisvert

Þessi frétt segir auðvitað ekki mikið en allar hugmyndir sem hjálpa fólki að komast í gegnum þessa erfiðleika eru allrar athygli verðar.

Ég hef verið á þeirri skoðun að bankarnir/ríkið ætti að taka þessi erlendu lán í skjól í sérstökum sjóði, t.d. með láni sem væri á gjalddaga eftir 5 ár. Þá mætti lækka afborganir fólks á meðan krónan er svona lág en auka þær svo aftur þegar krónan hækkar.

Þannig gæti fólk verið að greiða svipaða upphæð allan tímann og gæti svo á einhverjum tímapunkti, þegar gengið er hagstæðara, skipt láninu yfir í íslenskar krónur ef það er hagstæðara.


mbl.is Ný lausn erlendra lána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljóta ruglið!

Það er ljóta ruglið hvernig er búið að taka sameiginlega eign þjóðarinnar, gefa hana nokkrum útvöldum sem síðan hafa selt hana öðrum, sem svo hafa braskað með hana fram og aftur og spilað verðið á henni upp úr öllu valdi til að geta veðsett hana fyrir skuldum sem eru alveg út úr kortinu.

Það er líka ljóta ruglið að öll fyrirtæki sem eru með viðskipti við útlönd - sem betur fer eru enn nokkur slík í landinu - skuli þurfa að gera upp í gjaldmiðli sem breytist jafn hratt og veðrið! Þetta gæti ekki verið mikið fáránlegra þótt við létum alla gera upp í áttundakerfinu í sunnanátt en tylftarkerfinu ef það væri komin norðanátt.

Hlýtur að enda með því að fyrirtæki (og það fólk sem getur) tekur upp erlendan gjaldmiðil, borgar laun í erlendri mynt og á bara lágmarksupphæð í krónum. Var það ekki versta mögulega leiðin til að taka upp annan gjaldmiðil? Kúbanska leiðin?


mbl.is Alvarleg staða sjávarútvegs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég myndi greiða atkvæði með því

Mér hefur alltaf fundist það óréttlátt gagnvart kjósendum að flokkarnir gangi óbundnir til kosninga. Í raun veit enginn hvað hann er að kjósa þegar hann greiðir flokki atkvæði sitt því svo margt veltur á samstarfsflokknum.

Reykvíkingar hafa góða reynslu af því að kjósa flokkabandalag. Með því að ganga bundnir til kosninga náðu félagshyggjuflokkarnir að koma Sjálfstæðiflokknum frá völdum í borginni. Fólki var gefinn skýr valmöguleiki - sérhyggjustjórn eða félagshyggjustjórn.

Þetta á líka að gera í alþingiskosningunum núna í vor - bjóða skýra valkosti.


mbl.is Gæti orðið mesta vinstri sveifla sem sést hefur hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsamleg aðgerð

Staðan er sú að ef ekkert er gert í þessa áttina stöðvast einfaldlega framkvæmdir í þessum geira með þeim afleiðingum að fleiri fyrirtæki fara á hausinn og fjöldi manns til viðbótar missir vinnuna.

Það er ekki bara harmleikur fyrir þá sem í því lenda heldur líka dýrt fyrir hið opinbera sem missir skatta af starfsemi fyrirtækjanna og þarf að greiða atvinnuleysisbætur til þeirra sem missa störf sín.

Við hliðina á því er útgjaldalítið að endurgreiða virðisaukann, fyrirtækin geta þá haldið velli, verðmæt vinna er unnin og fólk fær greidd laun í stað þess að þurfa að þiggja bætur.

Það er Alþingi til sóma að svona tillögur séu samþykktar í þverpólitískri sátt. Það þyrfti að gilda um fleiri mál.


mbl.is Sátt um víðtækari endurgreiðslu VSK
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á Snjáldru í Jesú nafni

Vegir guðs eru órannsakanlegir og liggja víða. Það er ánægjulegt að sjá að biskupinn hefur tekið Snjáldru í sína og Jesú þjónustu og vonandi að því fylgi ekkert nema guðs blessun.


mbl.is Biskupinn kominn á facebook
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sóknarfæri - grunnur að öflugu atvinnulífi

Það var sannarlega upplífgandi að lesa fylgiblað Moggans í dag - Sóknarfæri. Í blaðinu er fjöldi viðtala og umfjöllun um ný og gömul fyrirtæki sem eru að þróa nýja og spennandi hluti.

Í ávarpi bendir iðnaðarráðherra - sem hefur eins og frægt er orðið einlægan sprotavilja - á að þótt aðeins 5 af mörgum efnilegum sprotafyrirtækjum nái að þroskast eins og Marel, Össur og CCP hafa gert myndu þau geta skapað störf fyrir 10.000 manns!

Það er ekki síður gaman að sjá hvað öll þessi fyrirtæki eru ólík. Hvað fjölbreytnin er mikil. Mörg undanfarin ár hefur nánast öll umræða um atvinnumál snúist um nokkrar verksmiðjur sem samtals skapa aðeins um 1% starfa í landinu. Hin 99% fengu litla athygli fyrr en síðustu 2 ár.

Við verðum að efla allar þær greinar sem skapa mikil verðmæti í landinu, innlenda framleiðslu, tækni- og þekkingargreinar, hönnun, kvikmyndir og aðrar skapandi greinar, fullvinnslu sjávarfangs og ferðaþjónustu sem er ein helst útflutningsgrein landsins.

Síðast en ekki síst eigum við að setja markið á að innan 5 ára verði annar hver bíll knúinn innlendum orkugjöfum. Og við eigum að fá erlendar stórþjóðir, sem nú keppast við að skapa nýjar grænar lausnir í orkumálum, til að taka þátt í þessari vinnu með okkur. Það myndi skapa mörg góð störf, afla gjaldeyris, auka þekkingu okkar á þessu sviði og efla ímynd landsins.


Fær í flestan sjó!

Sjósund3_vefur"Veistu, það borgar sig ekkert að vera að hugsa þetta of mikið" sagði Hlynur félagi minn þegar við hlupum niður rampinn í Nauthólsvíkinni og stungum okkur til sunds í 3° heitan sjóinn. Það var alveg rétt hjá honum. Sjósund er eitt af því fáa sem er betra að gera vanhugsað.

Páll Gestsson í Decode hafði boðað mig á fund hjá hópi sjósyndara sem hafa reglulega verið að synda í sjónum við Nauthólsvíkina sl 5 ár. Tilefnið var að leyfa mér að halda framboðsræðu en hana mátti þó ekki halda nær landi en 50 m. Ekki er ég nú viss um að ég hafi staðið við það.

Hitt veit ég að við þessar ræður stunda menn ekki málþóf, ræðan var afar stutt og vonandi hnitmiðuð. Eftir hæfilega dvöl í hafi gengum við á land, þáðum kaffi hjá Óttarri staðarhaldara og hituðum okkur í pottinum. Það hafði staðið til að hoppa fram af nokkurra metra háum kletti í nágrenninu en menn greindi á um hvort sjór stæði nægilega hátt.

Sjósund2_vefurEftir nokkra dvöl í pottinum voru flestir orðnir værir, aðrir en Páll sem hafði lofað að kjósa mig í 1. sæti í prófkjörinu ef ég myndi stinga mér af klettinum. Það var því ekki undan því vikist að kanna aðstæður sem auðvitað leiddi til þess að öll halarófan ýmist stakk sér eða hoppaði fram af.

Af sérstakri tillitsemi við það ágæta fólk sem kann að hafa meiri áhuga á að leiða lista Samfylkingarinnar í næstu kosningum ákvað ég að stinga mér ekki en láta fæturna fara á undan. Vissulega ekki jafn glæsilegt en maður verður jú að eiga einhverja sigra eftir síðar.

Hér er hlekkur á Facebook albúm um málið.


Sprotaþingmaður?

Á meðan "gróðærið" gekk yfir og fjöldinn allur af fólki og fyrirtækjum unnu við að lána hvert öðru peninga til að kaupa hvert annað þá var umhverfið mjög óhagstætt fyrir sprotafyrirtækin.

Gengið var allt of hátt, kaupkröfur háar, hörð samkeppni við bankana um hæft fólk og vextir svo háir að engum datt í hug að fjárfesta í sprotafyrirtæki sem var allt eins líklegt að færi á hausinn! Frekar en að kaupa hlut í fyrirtæki sem framleiðir eitthvað sjálft var miklu snjallara að setja peningana á verðtryggðan reikning með 15% vöxtum - nú eða að hefja innflutning á einhverju.

En nú er staðan breytt. Peningarnir horfnir og við þurfum að framleiða einhverja vöru eða þjónustu til að skapa verðmæti og störf. Á margan hátt góð breyting þótt hún verði erfið. Við eigum að styðja við nýsköpun og sprotafyrirtæki eins og hægt er. Þannig sköpum við fjölbreytt og sterkt atvinnulíf til frambúðar.

Ef þessi þingmannssproti nær að verða sprotaþingmaður mun hann beita sér fyrir því.

Hér er stuðningsmannasíða Dofra á Snjáldru (Facebook).


mbl.is Stórtækir eiturlyfjasmyglarar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að hrökkva eða stökkva

"Hvað er ég nú búinn að koma mér í?" hugsaði ég á leiðinni heim í strætó seinnipartinn.

Vinur minn hjá Decode fyrir fyrir hópi heljarkvenna og -menna sem hittast eftir vinnu og synda í sjónum við Nauthólsvík. Af því að ég hef verið að berjast fyrir betra umhverfi hátækni- og sprotafyrirtækja var hann búinn að bjóða mér að koma einhvern daginn í heimsókn í fyrirtækið og ræða málin. Formlegt boð hans kom í dag, var sent á stóran hóp sundgarpa, og var á þessa leið:

Það er hörmungarfjara í hádeginu á morgun, en sjávarstaða með ágætum eftir vinnu.

Mæting í Nauthólsvík 16:30, miðvikudagur 25. febrúar.


Félagi minn, Dofri nokkur Hermannsson er meðal frambjóðenda í prófkjöri Samfylkingarinnar. Ég býð honum hér með að mæta í sjóinn og halda framboðsræðu. Hún má ekki fara fram nær en 50m frá landi en hann má tala eins lengi og hann þolir.  Ef hann stingur sér af klettinum mun ég sverja þess eið að setja hann í fyrsta sæti í prófkjörinu.

Um mig fór hrollur þar sem ég stóð og beið eftir strætó. Eftir stutta umhugsun sá ég að ég hafði ekkert val. Svarið var á þessa leið:

Stend I kalsa a Laekjartorgi og skelf inni I ulpunni. Kannski bara af otta vid thessa askorun!
Eg tek henni og lofa ad frambodsraedan verdur stutt. Liklega bara orfa eins atkvaedis ord.
Eg mun alvarlega ihuga ad hoppa fram af klettinum - thad getur varla verid mikid mal fyrst Palli thorir thad!
Kv. Dofri.

Og nú þarf að standa við stóru orðin. Hvar væri maður án svona vina?

Hér er stuðningsmannasíða Dofra á Snjáldru (Facebook).


Undarleg frétt!

Sorpa á ekki að skila hagnaði heldur á að reka félagið á núlli.

Sumir virðast vera á þeirri skoðun, kannski ekki síst Sorpa bs, að vöxtur þessa fyrirtækis sé ekki aðeins óumflýjanlegur heldur jafnvel æskilegur. Þetta er misskilningur.

Rusl gerir lífið ekkert skemmtilegra og því ættum við að reyna að finna upp kerfi sem takmarkar rusl. Reyna að búa til rekstrarfyrirkomulag sem hvetur Sorpu og íbúa til að draga úr sorpmyndun. Það myndi spara okkur peninga, við færum betur með og við myndum spara okkur fé og náttúrugæði sem fara í að ganga frá sorpinu.


mbl.is Afkoma Sorpu í járnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband