Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ekki er á allt kosið

Jæja. Það náðist ekki alveg takmarkið sem var að vera á meðal 10 efstu - 8 efstu ef allt gengi mjög vel. Það er þó ekki hægt að vera mikið nær topp 10 en að vera númer 11 - svo horft sé á björtu hliðarnar.

Þótt ég sé leikari hef ég aldrei verið góður í að þykjast, ekki svona prívat, og þess vegna ætla ég ekkert að reyna að halda því fram að ég hafi verið hoppandi glaður með niðurstöðuna. Ég var það alls ekki. Eiginlega alveg hundóánægður - sérstaklega af því það vantaði svo lítið upp á að takmarkið næðist. Það er líklega keppnisskapið - Baskablóðið. Eftir að hafa fengið að sofa út og njóta helgarinnar í faðmi fjölskyldunnar, fara í afmælisboð og tala við stuðningsfólk er ég hins vegar orðinn býsna sáttur við minn hlut. Væri jafnvel farinn að tala um sigur ef helgin hefði verið lengri.

Mestu finnst mér skipta að hafa gert eins vel og maður gat, að hafa talað fyrir jákvæðum málum og ekki látið freistast til að tala annað fólk niður eða sveigja reglur eftir hentugleikum. Ég held að slíkt komi alltaf í bakið á fólki að lokum, ekki síst þeim sem biðja um traust til að setja öðrum lög og reglur í samfélaginu. Ég naut hjálpar frá stórum hópi vina og ættingja sem allir gáfu vinnu sína og margir nokkurn kostnað. Ég er þeim afar þakklátur og ekki síður stoltur af stuðningi þeirra við mig og mín hjartans mál.

Ég get ekki neitað því að ég er hugsi yfir útkomu umhverfis- og náttúruverndar bæði í prófkjörum Samfylkingar og Vinstri grænna. Til hinna flokkanna hafði ég engar væntingar. Ég velti fyrir mér hvort hrunið sé að skapa afturhaldinu og nauðhyggjunni tækifæri til að hrifsa okkur aftur til atvinnustefnu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins. Hún gekk út minnisvarðapólitík, að reisa fáar stórar verksmiðjur með miklum náttúrufórnum og tilkostnaði á meðan ekkert var hugsað um lítil og meðalstór fyrirtæki, nýsköpun, rannsóknir og þróun.

Heimurinn leitar nú leiða til að búa til gott líf á jörðinni án þess að ræna komandi kynslóðir, því það hefur runnið upp fyrir okkur að ef við snúum ekki við blaðinu er hætta á hruni vistkerfisins. Við hliðinni á þeirri ógn er fjármálakreppan bara brandari. Á sama tíma leita Íslendingar leiða til að rétta úr kútnum og koma í veg fyrir atgerfisflótta frá landinu. Til að bregðast við því þarf að horfa fram á veginn en ekki grípa til sömu meðala og komu okkur í þessa stöðu.

Við Íslendingar getum sett okkur metnaðarfull markmið, t.d. um sjálfbært orkusamfélag innan nokkurra ára, um kolefnisfríar samgöngur og kolefnisfrían sjávarútveg, um verndun óspilltrar náttúru og verndun sjávarbotnsins á viðkvæmum stöðum. Við eigum að bjóða helstu þjóðum heims samstarf um að ná þessum metnaðarfullu markmiðum því við höfum margt að bjóða í slíku samstarfi.

Markmið af þessu tagi myndu hvetja ungt vel menntað fólk til að búa hér áfram þrátt fyrir nokkra erfiðleika. Slík markmið myndu draga til landsins erlent rannsóknarfé, erlenda þekkingu á heimsmælikvarða, styrkja stofnanir og háskóla landsins og skapa okkur alþjóðlegt nafn á þessu sviði. Skapa okkur jákvæða ímynd sem myndi hjápa ferðaþjónustu og útflutningsgreinum, skapa gjaldeyri.

Hvort þessi stefna verður í boði fyrir kosningar verður að koma í ljós. Það er ekki á allt kosið.


Að vera mömmu til sóma

Áður en ég hóf prófkjörsbaráttuna setti ég sjálfum mér fjögur skilyrði.

  1. Að ég ætlaði ekki að eyða meira en 200 þúsund krónum. Þetta einfaldar málið mikið og kemur í veg fyrir að maður láti freistast til að auglýsa sig í blöðum og á Snjáldru - hvort heldur sem er óvart eða viljandi.
  2. Að ég ætlaði ekki að vera með kosningaskrifstofu en nýta mér þess í stað sameiginlega aðstöðu á Skólabrú. Kosningaskrifstofur soga til sín tíma og peninga en hvort tveggja verður maður að nýta vel í svona baráttu.
  3. Að heyja baráttu með jákvæðum formerkjum og að tala fyrir mínum hjartans málum og minni sýn en ekki á móti sýn og tillögum meðframbjóðenda minna. Þetta er mjög mikilvægt atriði af því neikvæðni er orkusuga og beinir hugsunum manns frá því sem skiptir máli.
  4. Að vera mömmu til sóma. Eitthvað sem öll skólastýrubörn læra strax í æsku að skiptir öllu máli fyrir framgang manns í lífinu yfirleitt.

Með þessi skilyrði að leiðarljósi er ekki hægt að tapa baráttunni, sama hvernig fer. Þessi skýra áætlun hefur hjálpað mér mikið í baráttunni. Það er auðveldara að vinna að settu marki þegar maður veit nákvæmlega hvað maður ætlar að gera og hvað ekki. 

Vinir mínir og fjölskylda hafa verið óþreytandi að hjálpa mér á alla lund með hringingum, hönnun og prentun bæklinga, að raða bæklingum í þúsundir umslaga og fá vini sína til að hjálpa til þegar liðsauka hefur vantað. Ég er þeim afar þakklátur fyrir alla þeirra miklu hjálp.

Nú er síðasti dagur baráttunnar runninn upp.
Nú er maður búinn að gera sitt besta.
Nú er bara að bíða og sjá!


mbl.is Kostnaði var stillt í hóf í baráttunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægasta aðgerðin í atvinnumálum

Hvað sem verður ákveðið að gera í stóru málunum til lengri tíma litið er ekkert jafn mikilvægt og að lækka vexti hratt og fljótt.

Besta aðgerðin í atvinnumálum er að koma í veg fyrir að fleiri missi vinnuna. Vaxtalækkun er þar algert lykilatriði en mörg fyrirtæki eru aðfram komin vegna skorts á fjármagni á viðráðanlegum kjörum.


mbl.is Svigrúm til stýrivaxtalækkana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virkjum hugann - verndum náttúruna

Sumir segja að umhverfis- og náttúruvernd sé "ofboðslega 2007". Það er rangt. Staðreyndin er sú að það verðmætatap sem hefur átt sér stað á þessu ári er brandari miðað við verðmætatap í vistkerfinu. Skógareyðing, jarðvegseyðing, flóð og fellibyljir af völdum loftslagsbreytinga, mengun vatns og sjávar, útdauði tegunda....listinn er langur.

Fulltrúar nauðhyggjunnar voru fljótir að hlaupa til þegar bankarnir hrundu og segja að engin verðmætasköpun í landinu væri raunveruleg nema álframleiðslan. Þeir hafa á röngu að standa. Með 80% af öllum raforkusamningum bundna við verð á áli erum við heppin ef sú heimska okkar að setja ævinlega öll egg í sömu körfu á ekki eftir að leika okkur grátt.

Það sem er að bjarga okkur núna er hugvitið. Nú taka sprotafyrirtækin sem áttu ekki séns í hágengis- og okurvaxtastefnu gróðæranna mikinn vaxtarkipp. Þau eru að bæta við sig tugum nýrra starfskrafta í hverri viku.

Það er líka bjart framundan í ferðaþjónustunni sem líka var grátt leikin af ofurgengi og mafíuvöxtum. Nýsköpun í ferðaþjónustu á eftir að taka stóran kipp. Ef við byggjum á hreinleika og virðingu gagnvart náttúrunni bæði til sjávar og lands þá eigum við mikla möguleika á að byggja hér upp ímynd lands, þjóðar og framleiðslu á gildum sem verða kjarninn í öllum bissness um langa framtíð.

Það er mikið gleðiefni að þessi mynd Andra og Þorfinns sé loks að koma út.


mbl.is Fyrsta sýnishorn úr Draumalandinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hnyttinn Mörður!

Mörður Árnason meðframbjóðandi minn í prófkjöri Samfylkingarinnar hefur gjarna farið ótroðnar slóðir í prófkjörum sínum. Síðast gaf hann t.d. út litla ljóðabók í stað hefðbundinna bæklinga.

Þessa dagana berast flokksfélögum okkar Marðar kynstrin öll af tölvupósti þar sem frabjóðendur eru að minna á sjálfa sig og fyrir hvað þeir standa. Sumir eru pirraðir en ég verð að segja alveg frá hjartanu að ég vorkenni fólki sem hefur skráð sig í flokk til að hafa áhrif á samfélagið ekki neitt að fá nokkur tölvubréf. Ýmsir hafa fórnað meiru fyrir lýðræðið.

Mörður fer hins vegar býsna snjalla leið í þessum efnum. Sendir aðeins örstutt skilaboð þar sem hann varpar upp þeirri spurningu hvort það ætti einfaldlega að auglýsa eftir starfsfólki í þingmannsstarfið eins og önnur störf og hvort auglýsingin ætti þá kannski að vera svona:

http://www.birtingaholt.is/mordur/ 

Góða skemmtun. Megi lýðræðið lifa og dafna!


Frábært - og miðað við höfðatölu...

...erum við algerlega búin að rústa Kína! Koma svo! Klára þetta stelpur!


mbl.is Sjötta sæti eftir 1:2 tap gegn Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er bleikur fíll í stofunni

Það stendur risastór bleikur fíll í stofunni og enginn þykist sjá hann.

Við hrunið fauk yfir 80% af hlutabréfum í Kauphöllinni út í buskann og þeir sem áttu þær eignir (eða höfðu lánað fólki geng veði í hlutabréfunum) einfaldlega töpuðu þessum eignum. Þetta verðmætatap er búið að færa til bókar.

Önnur afleiðing af hruninu var sú að fasteignaverð snarféll. Verðmæti fasteigna, sem var talað upp úr öllu valdi í gróðærinu, reynist nú vera 30-50% minna en fyrir hrun. Þetta verðmætatap virðist hins vegar ekki mega tala um - það er hinn bleiki fíll.

Ástæðurnar gætu verið:

  1. Alþingi skammast sín fyrir að hafa samþykkt lög sem ábyrgðust sparnað á bók upp í topp, langt umfram lagaskyldu, á sama tíma og fasteignaeigendur voru skildir eftir úti í frostinu.
  2. Bankar og lífeyrissjóðir sem lánuðu með glöðu geði til íbúðakaupa á fölskum forsendum gróðæris neita að horfast í augu við þá staðreynd að verðmæti fasteignanna hefur fallið.

Planið er augljóst, ábyrgðin á hruninu á öll að lenda á húsnæðisskuldurum. Bankar og lífeyrissjóðir ætla ekki að taka á sig nokkra skerðingu fyrr en það er búið að kreista hvern einasta blóðdropa úr húsnæðisskuldurum.

Þetta mun koma sérstaklega illa við ungt fjölskyldufólk sem ekki átti annarra kosta völ en að kaupa sér húsnæði - ekki var til traustur leigumarkaður!

Ef við ætlum að byggja hér upp að nýju þurfum við að skipta tjóninu með einhverju móti á milli skuldara og lánveitenda. Það gengur ekki upp að bara það fólk sem neyddist til að taka húsnæðislán á vondum tíma þurfi að sitja uppi með alla áhættuna af gróðærinu og allan skaðann af kreppunni. Bankar og lífeyrissjóðir geta ekki komist upp með það.

Út með fílinn!


mbl.is 14 þúsund heimili eiga bara skuldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Röng leið

Til umræðu var líka sú leið - og hún finnst mér mun snjallari - að leyfa fólki að taka lán á lágum vöxtum hjá þeim aðila sem sér um sparnaðinn með veði í sparnaðinum sjálfum. Þetta hefur Allianz boðið sínum viðskiptavinum og skortir aðeins heimild til þess með breytingum á þessum lögum.

Með því móti getur fólk fengið mun hærri upphæð í hendur strax því ekki þarf að greiða skatt af láninu, fólk á sparnaðinn sinn áfram og getur þá tekið hann út í fyllingu tímans eins og stefnt var að.

Það hefði verið mun heppilegri leið.


mbl.is Frumvarp um skyldusparnað samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kom eitthvað annað til greina?!!

Verkefnin framundan eru svo mörg og svo stór að það hvarflaði nú aldrei að mér annað en að þingið þyrfti að starfa í sumar. Ég get nefnt tvö mál í tengslum við ný atvinnutækifæri sem ég tel afar brýnt að verði komið í gang eins fljótt og hægt er.

  1. Skattaafsláttur til einstaklinga og fagfjárfesta sem kaupa hlutabréf í skilgreindum sprotafyrirtækjum. Þetta getur flýtt vexti þessara fyrirtækja mjög, tryggt áframhaldandi starfsemi þeirra á Íslandi, aukið verðmætasköpun, aukið gjaldeyrisöflun og fjölgað störfum.
  2. Endurgreiðsla á hluta af rannsóknar & þróunarfé sem fyrirtæki setja í nýsköpun ýmist með beinum hætti eins og gert hefur verið í Noregi með góðum árangri eða á formi skattaafsláttar eins og gert hefur verið víða erlendis t.d. í Kanada og Frakklandi.

Norska leiðin ýtir undir nýsköpun ungra fyrirtækja en sú kanadiska/franska gerir okkur mögulegt að ná hingað stálpuðum þekkingarfyrirtækjum sem eru að fara að taka mikinn vaxtarkipp. Þótt við næðum aðeins 2-4 fyrirtækjum af þessari stærðargráðu gæti það á skömmum tíma fært okkur mörg hundruð, jafnvel nokkur þúsund ný störf.

Til að þetta verði hægt þarf að breyta lögum og það er hlutverk Alþingis. Sumarfrí er því tæplega á dagskrá á næstunni.


mbl.is Steinunn Valdís: Vill að þingið starfi í sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fagnaðarefni

Óska Vg til hamingju með flottan lista. Svandís er heilsteypt og eldklár stjórnmálakona sem nýtur stuðnings langt út fyrir raðir flokksfélaga sinna. Það er fagnaðarefni að hún skuli hafa verið valin til forystu í því vandasama verkefni sem er framundan.


mbl.is Katrín og Svandís efstar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband