22.3.2007 | 14:47
Hvað vill Illugi græni?
Illugi Gunnarsson náði glæsilegum árangri í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík einkum vegna umræðu sinnar um umhverfismál og sjálfan sig sem málsvara "hægri grænna". Mörgum sem hafa fylgst með Illuga tala um umhverfismál þótti kveða við nýjan tón, því það er ekki nema rétt ár síðan Illugi fór með efasemdarullu Davíðs Oddssonar um loftslagsmál af mikilli sannfæringu í Silfri Egils.
Hugtakinu "hægri grænt" var mjög fagnað af Morgunblaðinu sem hafði ekki séð grænan karl í Sjálfstæðisflokknum síðan Birgir Kjaran var og hét. Það auglýsti Illuga sérstaklega af þessu tilefni og Illugi varð landskunnur á nokkrum dögum sem "græni kallinn" í Sjálfstæðisflokknum. Svo reyndar bætti Guðlaugur Þór sjálfum sér í hópinn. Síðan þá eru tveir meintir "hægri grænir" í Sjálfstæðisflokknum.
En hvað vill Illugi? Hver er sú stefna sem hann mælir fyrir? Hvað felst í hugtaki Illuga "hægri grænt"? Fyrir hverju mun Illugi græni berjast á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í apríl? Hvaða hugmyndafræði og hvaða tillögur mun hann bera þar á borð fyrir flokksmenn að ræða um og samþykkja?
- Mun Illugi afturkalla þá skoðun sína að hlýnun andrúmslofts sé ekki af manna völdum?
- Mun hann snúa baki við keyptum niðurstöðum vísindamanna ExxonMobile og Björns Lomborg?
- Mun hann opinibera ágreining við fyrrverndi lærimeistara sinn, Davíð Oddsson, eða mun Davíð einnig boða nýja skoðun sína á málinu?
- Mun Illugi græni boða aðgerðir til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga eða mun hann halda sig fast við fyrri yfirlýsingar um að slíkar aðgerðir borgi sig ekki.
- Telur Illugi ennþá, nú þegar nýsköpun í umhverfisvænni tækni er einn helsti vaxarsproti efnahagslífs í heiminum, að slík viðleitni þýði neikvæðan hagvöxt og efnahagslegt hrun?
- Vill Illugi rannsaka fyrst og taka frá þau svæði sem eru verðmæt til verndar eða vill hann leyfa orkufyrirtækjum og einkaaðilum með drauma um hálendisvegi að hafa forgang í náttúru Íslands?
- Vill Illugi staldra við í ríkisstyrktum stóriðjuframkvæmdum sem krefjast þess "að haldið sé aftur af öðrum atvinnugreinum á meðan" svo vitnað sé í greiningardeildir bankanna?
- Vill Illugi áframhaldandi forsjárhyggju við uppbyggingu atvinnulífsins?
- Vill Illugi áframhaldandi leyndardóma um raforkuverð?
Hvað vill Illugi græni? Munum við sjá það á landsfundi Sjálfstæðismanna núna í apríl?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mikið rétt. Frjálshyggjuriddarinn hugumprúði var á milli tveggja elda, sannfæringar sinnar og leyndarskyldu við ríkið í ríkinu, Landsvirkjun.
Hann átti líka erfitt með að þræta fyrir forræðishyggjuna að baki því að fjárfesta fyrir 100.000 milljónir í 200 störfum austur á Reyðarfirði. 500 milljónir af niðurgreiddu lánsfé með ríkisábyrgð á hvert starf í verksmiðjunni.
Í Leifsstöð er búist við að um 2000 störf skapist á næstu 10 árum. Án ríkisafskipta. Fjárfesting á bak við hvert starf verður um 10 milljónir. Stöndum vörð um frelsið! XS
Dofri Hermannsson, 22.3.2007 kl. 15:43
Það er ekki nýtt að sjálfstæðismenn séu „grænir“. Í borgarstjóratíð Egils Skúla Ingibergssonar þegar sjálfstæðismenn voru í minnihluta lögðust þeir hart og einarðlega gegn byggingu íþróttamannvirkja á grænum svæðum í Laugardal. Þá vildu þeir halda í grænan Laugardal. Nú er öldin önnur. Því miður virðast borgarfulltrúar allra flokka vilja að byggt sé í dalnum, að opin græn svæði verði girt af eða sett undir byggingar eða bílastæði. Athyglisvert væri að fá hér fram hvað þeir borgarfulltrúar sem tala hvað hæst um væna, græna borg, segja um áformin í Laugardalnum.
hildur guttormur
Guttormur, 22.3.2007 kl. 15:53
Ég er nú svo gamall sem á grönum má sjá. Og sat í borgarstjórn fyrir Alþýðubandalagið 1979-1982. Og raunar varamaður til 86. Þá var Sjálfstæðisflokkurinn og Mogginn á móti byggð við Rauðavatn vegna sprunguhættu. Nú er Mogginn með aðalstöðvar á einni Rauðavatnssprungunni. Og Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki láta byggja á Ártúnsholti því þar hefðu verið sett niður tré. Nú ætlar sami flokkur að setja iðnaðarsvæði á skógræktarsvæðið í Hólmsheiði. Er ekki fálkinn orðinn grænn?
Sigurður G. Tómasson, 22.3.2007 kl. 21:27
Siggi G.
Mogginn lýgur aldrri en hann á það til að vera gleyminn.
kveðja
Sveinn
Sveinn V. Ólafsson (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 01:15
Værirðu til í að vísa í heimildir fyrir eftirfarandi: "keyptum niðurstöðum ... Björns Lomborg?". Eða ertu bara siðblindur rógberi?
Sigmar (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 00:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.