Börnin eru það dýrmætasta sem við eigum

barnÞað deilir enginn um að þessi fullyrðing er rétt. Við erum mikil barnaþjóð, jákvæð í garð barna og barneigna og eignumst fleiri börn en nágrannaþjóðirnar.

Það er gott því þótt það sé klisja þá er framtíðin fólgin í börnunum og til að framtíð okkar allra verði góð skiptir gríðarlega miklu máli að við hugsum vel um börnin okkar.

Þess vegna er dálítið skrýtið að það skuli ekki vera lögð meiri áhersla á að styðja við þann hóp samfélagsins sem er að eignast börn og ala þau upp.

Fólk á hinum dæmigerða barneignaraldri er oft að gera allt á sama tíma, eignast börn, klára nám, koma sér þaki yfir höfuðið og skapa sér starfsframa. Þetta er heilmikið álag og það mætti gera miklu meira til að styðja við það mikilvæga framlag þessa hóps - að eignast og ala upp framtíð landsins.

Einhverjir segja kannski, hvað með fæðingarorlofslögin?, og jú þau voru mjög gott skref í áttina en það má líka spyrja sig hvort ekki er hægt að gera betur. Hafa stjórnvöld ekki gleymt þessum hópi dálítið?

Hjón sem ég þekki til voru að fara yfir skattframtalið sitt og höfðu reiknað með vaxta- og barnabótum upp á 300 þúsund kr. Þau fá 25 þúsund. Ekki vegna aukinna tekna - það eina sem hafði breyst í lífi þeirra var að fasteignamat íbúðarinnar þeirra hafði hækkað og barnið var orðið 8 ára. Fjármálaráðherra lofaði að bæta skerðingu þessa hóps, það er ekki raunin.

Aðrir foreldrar sem ég þekki til fóru með dóttur sína til tannlæknis og í ljós kom að endurnýja þurfti skorufyllingar og glerungsvörn - afar árangursríkar fyrirbyggjandi aðgerðir. Kostaði 20 þúsund. 75% endurgreiðslan er í raun bara 50% endurgreiðsla svo foreldrarnir bjuggust bara við að fá 10 þúsund endurgreitt. En viti menn, þar sem það voru ekki liðin 3 ár frá því skorufyllingar/glerungsvörnin var gerð þá fæst engin endurgreiðsla fyrir þá vinnu.

Það eru til ótal svona sögur. Og margar miklu verri, því miður.

Það má líka tala um almenna dýrtíð. Verð á mat og fötum. Verð á vöxtum. Hverjir ætli hafi að mestu leyti borgað þessa 14 milljarða í yfirdráttarvexti í fyrra? Ég held að það hafi verið barnafólk sem oft þarf að mæta aukaútgjöldum, þarf að endurnýja bíl, lagfæra íbúðina eða lendir hreinlega í að þurfa að taka sér frí vegna veikinda barna sinna.

Það fylgja því heilmikil útgjöld að ala upp börn. Þó leikskólar hafi lækkað þá kostar það ennþá nánast jafn mikið og að reka bíl að vera með barn í dagvistun eða á leikskóla. Skólasel og matur í grunnskóla kostar líka mikið. Íþróttir og tómstundanám er gríðarlega dýrt.

Svo er talað um að foreldrarnir séu ekki nóg með börnunum sínum. Það er örugglega alveg rétt en ég held að skýringarnar sé að finna í svona atriðum eins og hér að ofan. Við vinnum allt of mikið.

Vinnuvikan er almennt komin yfir 50 stundir. Mórallinn í atvinnulífinu kyndir undir þessu og enginn er maður með mönnum nema hann sé til í að vinna til 6 eða 7 og vera auk þess með "sveigjanlegan vinnutíma" sem þýðir að hann/hún er aldrei búin í vinnunni.

Árið 2001 fékk Jóhanna Sigurðardóttir samþykkta á Alþingi "þingsályktun um heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga". Þessi stefnumótun hefur enn ekki verið unnin. Þrír forsætisráðherrar hafa látið hana daga uppi á skrifborðinu hjá sér. Áhuginn er enginn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Bendir þetta ekki til þess að það þurfi að taka á grundvallarmálum eins og afnámi verðtryggingar í stað þess að rífast um jólatré og þúfnabörð.  Það að þurfa að borga 60 millj. á bilinu milli 20 og 60  ára til að koma yfir sig húskofa heldur fólki í hamsturshjóli lénsherranna myrkranna á milli, svo auðvitað bitnar það á velferð barnanna okkar.  Svoleiðis málefnabaráttu vil ég sjá ef menn hafa dug í sér að opna munninn um það sem í raun er að í samfélagi okkar.  Ég grátbið ykkur um að taka nú hausinn úr mosaþústinni og horfa á hið stóra samhengi hlutanna.  Það er mikilvægt að vinstrivængurinn fari nú að sameinast um málefnin.  Eruð þið búin að gleyma markmiði kosninganna í þessu þrætubókarfári?

Jón Steinar Ragnarsson, 23.3.2007 kl. 16:29

2 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

svona virðist þetta vera á fl. stöðum ríkisstjórnin vil að við eignum fl börn hérna í Danmörku, en lífið er ekki gert auðveldara fyrir barnafjölskyldur ! held samt að það sé auðveldara hérna í dk en á Íslandi!

ljós frá Lejre

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 23.3.2007 kl. 17:06

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þetta er ekki spurning um aukna arðsemi Þrymur finnst mér. Mikið heimtar alltaf meira. Þetta snýst um fólk og mannsaæmandi skilyrði til fjölskyldu og frístundalífs.  Það er sama hvar hagrætt er og klón hert, það fer allt í viðkiptlífið og verðbréfalottóið. Þeir spilafíklar læknast ekki af bresti sínum við slíkt.  Við höfum mikið meira en nóg fyrir okkar fámennu þjóð allt tal um annað er blekking. Þetta snýst ekki umhin veraldlegu lífsgæði hér heldur vistvænni og mannúðlegri stefnu. Eftir því sem hagvöxtur hefur aukist, þá hefur fólk verið bundnari á þennan klafa og meiri arður heimtaður út úr því.  Hér er ekkert annað en lénskipulag í anda fyrri alda þar sem leiguliðarnir þræla myrkranna á milli til að borga vexti og gjöld til sífellt heimtufrekari gróðahyggju hinna fáu.  Verðtryggingin er eitt af þessu.  Svo aftur taki ég margtuggið dæmi, þá kostar 56 millj. að taka 10 millj. í lán til 40 ára í ískr. en væri lánið tekið 50/50 í Japönskum jenum og svissneskum frönkum þá væri endurgjaldið 18 millj.

Hér stela menn af fólki upp á hvern dag.  Uppsveiflur í gengi telja alltaf en niðursveiflurnar aldrei í útreikningi þessarar vísitölu.  Hér er hagfræðilegt þjóðarmorð í uppsiglingu. 

Jón Steinar Ragnarsson, 23.3.2007 kl. 21:06

4 identicon

Sammála mörgu hér. Vil þó benda á að barna og vaxtabætur er kerfi til að hjálpa tekju- og eignalitlu fólki. Er fólk á vinstri vængnum nokkuð búið að gleyma því?

Dæmið af vesalings "fátæku" hjónunum sem fengu ekki nema 25þús út úr þessu kerfi sýnir nefnilega að þetta fólk á miklar eignir og/eða hefur töluverðar tekjur.

Til þess að barnabætur hjá hjónum með eitt barn á aldrinum 8-16 ára skerðist niður í 25þús þurfa tekjurnar að vera ca 8 milljónir á ári eða 666 þús á mán á hjón sem er einmitt aðeins meira en mörkin fyrir hátekjuskatti sem var lagður af fyrir 3 árum. Þá vældu margir á vinstri kantinum, fannst að þetta fólk ætti að borga hátekjuskatt. Nú er vælt yfir því að þetta fólk fái ekki nógu mikið í bætur frá ríkinu.
Anyway af þessum 666þús á mánuði fær fólk 450-470 út í vasann (eftir því hvernig það hagar lífeyrissparnaði)
Ef það var skerðing á vaxtabótum (v hækkaðs fasteignamats) sem olli þessu  þarf fólk að eiga ca 12,8 milljónir í hreina eign til þess að vaxtabætur skerðist að fullu.
Ég geri ráð fyrir því að hjón með eitt barn búi í ca 80-90fm íbúð sem fmr metur á 18-20 milljónir (markaðsvirði 23-25 milljónir). Þetta blessaða fátæka fólk er því að borga max af 6-7 milljón króna láni en greiðslur af því eru ca 35þús á mán (mv 40 ára lán)

Það er því eitthvað sem segir mér að þetta fólk hafi ekkert með einhverjar bætur frá ríkinu að gera og ef það ræður ekki við að borga af 35þús króna húsnæðisláni þegar tekjurnar eru 450 í vasann á mánuði þá ætti það að athuga með fjármálaráðgjöf.
Ef þessi hjón með eitt barn eru í fjárhagsvandræðum með þessar tekjur og eitt barn ættu þau kannski að losa sig við amk einn jeppa, sleppa því að fara í 3 utanlandsferðir á þessu ári eða hafa bara 50" flatskjá í öðru hverju herbergi. Svo getur auðvitað vel verið að þetta fólk búi með eitt barn í 300fm einbýlishúsi og sé þessvegna að drulla á sig.

 Ríkisstjórnin er því ekki að gleyma þessu fólki, þetta fólk hefur það gott, þökk sé ....

Þess má svo geta að Samfylkingin sat hjá í atkvæðagreiðslu þegar tekjuskattur  var lækkaður um 1% sem færði þessu fólki nærri 7 þús krónur í vasann á mánuði. Frekar vildi Samfylkingin lækka vsk á matvæli. Það var líka gert.

Annars er ég sammála flestu öðru í þessari færslu og ætla að sleppa því að tala um hvað það er vitlaust að verðlauna fólk fyrir að taka óhagstæð lán.

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 23:16

5 Smámynd: Árelíus Örn Þórðarson

Fín grein hjá þér Dofri enda á ég sjálfur nokkur börn og aldrei fengið að njóta barnabóta nema stuttan tíma þegar yngsta barnið var yngra en 7 ára.  Samt er ég venjulegur verkamaður í dag sem reyni að brauðfæða fjölskylduna.

Kveðja

Árelíus Örn Þórðarson, 24.3.2007 kl. 01:22

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hákon Hrafn nefnir extrem dæmi úr millistétt eins og þeim sem verja yfirganginn. Meirihlutinn býr við fátækt í þeim skilningi að launin hrökkva ekki fyrir útgjöldum til nauðþurfta. Langstæstur meirihlutinn.  Þar bitnar okrið þyngst á börnum.  Krónutölur segja lítið um auð, þegar hlutfall rekstrarkostnaðar heiimila er svo hátt.  Ísland er mesta okurland í heimi það er ekkert land sem kemst með tærnar, þar sem við höfum hælana.

Jón Steinar Ragnarsson, 24.3.2007 kl. 06:28

7 identicon

@Jón Steinar

Það var Dofri sem nefndi dæmið um þessa fjölskyldu sem honum fannst mjög ósanngjarnt að fengi ekki 300þús eins og í fyrra í bætur frá ríkinu -  EKKI ÉG.
Ég bendi einfaldlega á að þetta fólk er annað hvort með það miklar tekjur eða á svo miklar eignir að þessar bætur eru nánast að fullu skertar.
Að mínu mati mættu þessar bætur vera hærri handa láglaunafólki og þá er ég að tala um barnabæturnar. Vaxtabætur eru frekar vafasamar einfaldlega vegna þess að ef tveir einstaklingar með nákvæmlega sömu tekjur kaupa jafn dýrar íbúðir og taka jafn há lán þá fær sá sem tekur óhagstæðara lánið hærri vaxtabætur frá ríkinu. Sá sem er hagsýnn og borgar minni vexti af sömu upphæð fær minna -  Semsagt hinn óhagsýni er verðlaunaður af ríkinu.

Barnabæturnar mættu semsagt vera hærri hjá láglaunafólki og skerðast með svipuðum hætti og nú þannig að fólkið sem Dofri nefndi fái litlar bætur.

Hvaða yfirgang er ég þá að verja? ég var einmitt að gagnrýna frekju þeirra ríku í bótakerfi sem er hugsað fyrir láglaunafólk sem þarf sannarlega á því að halda.

Ég er sammála þér með okrið hér, maður botnar stundum ekkert í því. Þar eru tollar og vörugjöld ríkisins ekki undanskilinn. Hinsvegar vil ég biðja þig um að rökstyðja hvernig meirihluti landsmanna býr við fátækt ef 70-80% landsmanna fer í utanlandsferð (eina eða fleiri) á þessu ári. Er það merki um að meirihluti landsmanna búi við fátækt ?

@Álmann.
Ef þú ert venjulegur verkamaður með 200.000,- í laun átt þú að fá 394.119 í barnabætur fyrir síðasta ár (33þús á mán) miðað við að þú eigir tvö börn á aldrinum 8-16 ára og sért einstæður.  Ef þú ert giftur eða í sambúð og konan er venjuleg verkakona með sömu tekjur og þú þá eigið þið að fá saman 151.745,- (rúmlega 12þús á mánuði).
Ég myndi því tala við skattstjórann og láta leiðrétta þessi mistök sem allra fyrst, þetta er peningur fyrir góðum flatskjá.

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 11:00

8 Smámynd: Dofri Hermannsson

Það er ljóst hvernig Hákon Hrafn lítur á málið - allt saman stórefnað fólk sem ekki fær barna- eða vaxtabætur. Spurning hvort þetta er Pétur Blöndal að blogga undir dulnefni

HH til upplýsingar þá hafa margir gert ráð fyrir því undanfarin misseri, að þær vaxtabætur sem það reiknaði með þegar kaupin voru gerð myndu haldast. Þegar svo fasteignamat eignarinnar hækkar (sem er bæði gott og slæmt) þá breytast reikniforsendur vaxtabótanna og þessari forsendu fyrir kaupunum er kippt undan.

Þegar mann vantar sem nemur 300 þúsundum upp á að eiga fyrir afborgunum vekur það manni litla gleði að íbúðin manns hafi hækkað í verði - það þurfa allir að búa einhvers staðar og sú eignarmyndun sem orðið hefur er ekki handbær til að greiða það sem upp á vantar.

Dofri Hermannsson, 24.3.2007 kl. 14:08

9 identicon

Eru þetta einu rökin þín Dofri? Pétur Blöndal og svo fólk sem kann ekki að reikna. Segjum bara að hér hafi verið vönduð vinstri stjórn við völd síðustu ár sem hefði haldið verðbólgu í 1-2%. Gefum okkur að eignaverð hefði ekki hækkað neitt þá hefðu bæturnar samt lækkað vegna þess að þetta fólk hefði borgað niður lánið og því átt meira í húsinu á pappírnum.

Þér virðist ekki vera kunnugt um það að til þess að barnabætur skerðist að fullu þurfa hjón að hafa yfir 666þús í laun á mánuði saman. Til þess að vaxtabæturnar skerðist að fullu þurfa þessi hjón að vera með yfiri 835þús á mánuði saman eða eiga yfir 12,8 milljónir í hreina eign. Það er staðreyndin í málinu og þú getur reiknað þetta út og kynnt þér reglurnar á rsk.is

Þetta fólk tilheyrir amk ekki hópnum sem Jóhanna Sigurðardóttir er að berjast fyrir. Hún berst fyrir láglaunafólk og það eru greinilega aðrir sem berjast fyrir hálaunafólkið.

Ef þú reynir að gleyma Pétri Blöndal og vinstri klisjunum þínum um vonda ríka fólkið: finnst þér eðlilegt að þetta fólk fái bætur frá ríkinu ?

Það er amk ljóst hvernig ég lít á málið. Fólkið sem þú þekkir er t.d. með 200-250þús hærri laun saman á mánuði  en t.d. ungir kennarar og annað láglaunafólk sem mér finnst að eigi svo sannarlega að fá barnabætur (sem það fær í dag) og þær mættu vera hærri.

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 15:51

10 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Barnabætur...hvað er það. Einstæð móðir sem borgar 50.000 í skatt á mánuði a.m.k.?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 24.3.2007 kl. 20:56

11 identicon

Þið barnafólk eruð (amk. að eigin sögn) miklu hamingjusamari en við sem ekki höfum notið þessa barnaláns. Samt viljið þið líka að við borgum uppeldið ykkar!! Hvaða réttlæti er í því? Við eigum að borga útgjöldin og fá minni frí því þið baðið ykkur í margra mánaða barneignafríi jafnvel þótt þið ættleiðið og vellystingum praktuglega og hafið svo kannski au-pair hvort sem er til gera allt fyrir ykkur. Allt á okkar kostnað. Þið fáið allt ; hamingjuna og peningana sem við vinnum fyrir. Þar að auki njóta giftir og í sambúð oftast forgangs um stöðuhækkanir á vinnustöðum, sérstaklega karlmennirnir, fram yfir okkur sem stritum. Það er kominn tími á BARNLEYSISBÆTUR. Þið fáið allt og við ekkert, það er jafnaðarhugsjónin í verki. Kveðja frá þrælnum ykkar.

Sigmar (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 00:03

12 identicon

Ég þakka Atla Þór fyrir málefnanlegt svar. Vissulega greiða einstaklingar fyrir barnafólk. Hann hefur ekki sýnt fram á neitt annað. Það er svosem allt í lagi gott og blessað upp að vissu marki. Og Atli bendir á að börnin borgi sjálf eitthvað til baka og það er ágæt röksemd og líka sú eina sem heldur vatni hjá honum. Það er hins vegar ekki málefnanlegt að fjasa eitthvað um fasisma þótt vakin sé athygli á því að það er alltaf verið að auka þessar millifærslur og að þetta er orðið hreint arðrán. Enginn virðist tala máli þeirra sem greiða eiga reikninginn. Enginn samningsréttur. Þetta bara gengur alltof langt með margra mánaða fríum og vellystingum.

Ég er ekki andstæðingur þjóðfélagsins en það er nauðsynlegt allir á pabba- og mömmuleyfum hafi það í huga að peningurinn sem er á bak við styrkinn er slitinn af og tekinn með valdi og ofbeldi frá öðru fólki sem er ekki eins heppið í lífinu. Megið þið njóta blóðpeninganna og stöðuhækkana sem aðrir áttu skilið en þið. Kveðja frá vinnudýrinu ykkar.

Sigmar (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 08:47

13 Smámynd: Elías Theódórsson

Það þarf að viðurkenna foreldrahlutverkið og greiða laun fyrir það. Þá getur foreldri verið heimavinnandi og alið upp sitt barn/börn. Að neyða fólk til að senda börn sín á uppeldisstofnanir er fáránlegt. Í dag er það einungis á færi hinna efnameiri að ala upp sín börn sjálf. Valfrelsi, virðum það.

Elías Theódórsson, 26.3.2007 kl. 17:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband