Rétturinn til að kjósa

Á þessari síðu hefur undanfarna daga verið tekist hart á um ágæti þess að þrefalda álverið í Straumsvík. Mestan part hefur umræðan verið málefnaleg þótt auðvitað hafi upp úr soðið eins og gengur þegar er tekist á um heit málefni.

Meðal annars hefur verið rætt um peninga og störf. Andstæðingar stækkunar hafa hent á lofti niðurstöður Hagfræðistofnunar HÍ að nettóhagnaður af þreföldun álversins sé ekki nema um 6-8 þúsund krónur á ári og bent á að störfum í Hafnarfirði hefur fjölgað um meira en 200 á ári þótt álverið hafi ekkert verið stækkað. Ég veit ekki við hvað þau störf eru unnin en ég geri ráð fyrir því að þau séu öll við "eitthvað annað" en álver.

Fylgismenn stækkunar hafa ítrekað hag bæjarins af stækkun, sem þeir telja mun meiri en Hagfræðistofnun. Það sem mér og mörgum öðrum hefur þótt ljótur blettur á umræðunni er sá ótti sem fylgismenn stækkunar hafa alið á um að álverið fari og fólk missi lífsviðurværi sitt ef Alcan fái ekki að þrefalda þriðja stærsta álver sitt af 22 - og það sem gefur hvað mestan hagnað.

Nú er Davíð Oddsson genginn til liðs við mig með því að benda fólki á að þeir sem eiga verðtryggðar húsnæðisskuldir og/eða yfirdrátt muni tapa umtalsverðum peningum á því að leyfa þessa risaframkvæmd núna þegar brýn þörf er á að draga úr þenslu, lækka vexti og verðbólgu. Það er ástæða til að þakka honum fyrir það. Það er honum örugglega ekki ljúft að þurfa kljúfa flokkinn sinn á þennan hátt og grafa með því undan trúverðugleika forystumanna hans.

En þótt við Davíð, rétt eins og Hafnfirðingar, eigum eflaust báðir mikið undir því að það takist að koma böndum á verðbólgu eigum við þó ekki kost á að kjósa um stækkun álversins. Það eiga Hafnfirðingar hins vegar, þökk sé Samfylkingunni sem lofaði fyrir kosningar 2002 (og aftur fyrir kosningar 2006) að bæjarbúar fengju að kjósa um mikilvæg mál.

Ég vildi að fleiri flokkar hefðu jafn mikinn vilja til að hleypa almenningi að mikilvægum og oft á tíðum þverpólitískum ákvörðunum. Við vitum það t.d. sem höfum verið að vinna að náttúru- og umhverfisverndarmálum að mikið hefur skort á að almenningur hafi haft kost á að hafa áhrif á mikilvægar ákvarðanir.

Ég þakka þeim sem hafa lagt gott til málanna í umræðunni um stækkunina í Straumsvík og hvet alla Hafnfirðinga til að drífa sig á kjörstað í dag og kjósa eftir sinni sannfæringu, hvor svo sem hún er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Norðkvist

Er það ekki hálfgerður Hafnarfjarðarbrandari að Davíð Oddsson skuli koma okkur stækkunarandstæðingum til hjálpar? Maðurinn sem var forsætisráðherra meðan álvæðingin gekk yfir?

Theódór Norðkvist, 31.3.2007 kl. 12:25

2 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll, Dofri skrif þín um stækkun Alcan hafa verið afar ósmekkleg en þú hefur náð þeim tilgangi að fjöldi Hafnfirðinga sem hafa verið í Samfylkingunni hafa nú sagt sig úr henni,

haltu baráttunni áfram að minnka flokkinn.

Kv,Sigurjón Vigfússon

Rauða Ljónið, 31.3.2007 kl. 12:29

3 identicon

Sæll Dofri, skrifa þín um stækkun Alcan hafa verið afar málefnaleg og góð og þú hefur náð þeim tilgangi að margir sem ekki hafa fylgt Samfylkingunni hingað til eru farnir að skoða þann flokk betur.

Haltu áfram baráttunni að auka fylgi við náttúruvernd og jákvæða framtíðarsýn..

Björg F (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 14:28

4 identicon

Sæll Dofri. Mig langar að þakka þér málefnanleg skrif um Alcan málið og umhverfismál almennt. Ég vildi óska að fleiri í Samfylkingunni væru jafn dyggir talsmenn náttúruverndar og þú. Mér finnst t.d. sorglegt að tveir efstu menn á lista Samfylkingar í Norðaustur eru stóriðjusinnar. Vonandi ber flokkurinn gæfu til að gefa þeim frí fyrir næstu kosningar og hleypa að fólki sem hefur til að bera meiri víðsýni þegar kemur að málefnum tengdum atvinnuuppbyggingu svæðisins.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 15:21

5 identicon

Skelfingar heigull og aumingi ert þú sem kallar þig Dharma að koma ekki fram undir þínu rétta nafni--flengist hér um bloggsíðurnar með þennan vaðal ,óábyrgt

Þú hlýtur að vera á góðum launum við þessa iðju þína  ..  og hver borgar ??

Sævar Helgason (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 16:27

6 identicon

Fín skrif hjá þér Dofri. Látum náttúruna ávallt njóta vafans!!!

kristin Reynisdóttir (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 18:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband