Fróðlegur fundur

Hann var afar fróðlegur þessi fundur í Hveragerði í gær sem haldinn var að frumkvæði bæjarstjórnar Hveragerðis. Brátt er að vænta niðurstöðu Skipulagsstofnunar um matsskýrslu OR en eins og margir muna var sett íslandsmet í fjölda athugasemda við matsskýrslu.

Orkuveitan segist ætla að reyna að skola brennisteininn úr hveragufunni og vonar að það muni takast vel. Það þykir Hvergerðingum ekki nóg. Það skil ég vel. Hveragerði er í rúmlega fjögurra kílómetra fjarlægð frá fyrirhuguðu virkjunarsvæði. Hvergerðingar hafa líka áhyggjur af hávaðamengun. Og hafa ærnar ástæður til.

Ljóst er að virkjun - ef af verður - mun hafa veruleg neikvæð áhrif á landslag og ferðaþjónustu á svæðinu. Hvergerðingum er ekki sama um það enda svæðið bakgarður Hveragerðis og mikið aðdráttarafl fyrir heimamenn jafnt sem ferðafólk.

Fulltrúi Orkuveitunnar svaraði spurningum að mestu samviskusamlega. Með þeirri undantekningu þó að hann reyndi ítrekað að telja fundarmönnum trú um að hér væri um sjálfbæra orkunýtingu að ræða. Það er alrangt.

Í skýrslunni um mat á umhverfisáhrifum kemur einmitt fram að Orkuveitan sjálf skilgreinir orkunýtinguna sem ágenga, þ.e. að eftir ákveðinn árafjölda muni þurfa að hvíla svæðið (um langan tíma) áður en hægt er að halda áfram nýtingu.

Athyglisverðast, og í raun eina nýnæmið af fundinum, var að Ásta Þorleifsdóttir, sem áður var harður andstæðingur Bitruvirkjunar en er nú varaformaður Orkuveitunnar, vildi alls ekki útiloka að hún myndi styðja Bitruvirkjun.


mbl.is Segja hveralykt frá væntanlegum virkjunum hverfandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er sem sagt lykt af málinu? Vonandi eru það íbúarnir sem hafa lokaorðið.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 22.4.2008 kl. 19:33

2 Smámynd: Sævar Helgason

Er það ekki sveitastjórinn í Þorlákshöfn sem er yfir samþykkt þessarar Bitruvirkjunar settur ?  Fá Hvergerðingar nokkuð annað en ilminn af réttinum ?

Sævar Helgason, 22.4.2008 kl. 21:31

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Hvergerðingar fá ilminn og eitrið, svo mikið er víst. Fundurinn var fjölmennur og athyglisverður Ég setti inn umfjöllun útvarpsins í morgun inn á tónlistarspilarann á bloggsíðunni minni auk tveggja viðtala í Speglinum frá í nóvember þar sem tveir sérfræðingar tjá sig um eituráhrif brennisteinsvetnis á fólk. Þau eru vægast sagt mjög fróðleg ef einhver vill hlusta og kynna sér málið. Við getum öll farið að hlakka til, því þetta fýkur yfir allt suðvesturhornið þótt Hvergerðingar verði verst úti, enda næst virkjuninni.

Bæjarstjóri Hveragerðis skrifaði bloggfærslu um fundinn hjá sér:  www.aldis.is.

Og jú, Sævar... það er sveitarstjóri Ölfuss sem er staðráðinn í að breyta útivistarparadís á náttúruminjaskrá í iðnaðarhverfi. Allir sem vilja geta lagt sitt af mörkum til að andmæla því, farið inn á www.hengill.nu, kynnt sér málið og sent inn athugasemd við breytingu á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfuss.

Samtaka nú!

Lára Hanna Einarsdóttir, 22.4.2008 kl. 21:39

4 Smámynd: Sævar Helgason

Þetta er bölvaður óþverri þessi brennisteinsvetnis óþefur.  Ég varð oft illilega var við þetta á gönguskíðasvæðinu sunnan við Bláfjöllin, einkum í hægri austanátt, nú í vetur.

Þá rann þessi óþverri frá Hellisheiðavirkjun með Bláfjöllunum að sunnan - ég gat þó yfirgefið svæðið en það er öllu lakara hjá þeim sem eiga heimili sín þar sem þessar aðstæður myndast eins og t.d í Hveragerði. 

Orkan sem verið er að virkja með jarðhitanum er ekki alveg eins umhverfisvæn og af er látið - fyrir okkur sem öndum lungunum.

Orkuveitan verður að koma með lausn á þessum mikla vankanti. 

Sævar Helgason, 22.4.2008 kl. 22:14

5 Smámynd: Landvernd

Það var dapurlegt að heyra fulltrúa OR reyna eins og rjúpan við staurinn að halda því fram að áform OR væru í anda sjálfbærni. Ég fór í mínu erindi gaumgæfilega yfir það að skv. því sem vitað er (réttara áætlað er) um vinnslugetu Hengils svæðisins þá mun áformuð vinnsla OR kæla niður svæðin á fáeinum áratugum. Fulltrúi OR reyndi að klekkja á þessum málflutningi og linnti ekki látum fyrr en Dofri tók sig til og las smá bút úr matsskýrslunni, líklega þennann eða annann sabærilegan:

"Eins og greint er frá fyrr í þessum kafla (19.6.1) hefur Orkuveitan og ráðgjafar hennar skilgreint innslustefnuna sem ágenga vinnslu og greint frá því að komandi kynslóðir gætu þurft að draga úr innslu í ákveðnum virkjunum á meðan vinnslusvæðin safna aftur upp þrýstingi og massaforða."

Þegar Dofri bað um skýringu á þessu, varð fulltrúi OR orðlaus, enda mátti honum þá ljóst vera að OR hafði á fyrri stigum viðurkennt áform um ágenga vinnslu. - Mér þykir furðulegt að hann skuli ekki bara hafa viðurkennt þetta strax.

Landvernd, 22.4.2008 kl. 22:47

6 Smámynd: haraldurhar

   Auðvitað verur aldrei virkja án þess að einhver mengun hjótist af virkjunni, það er bara eðli málsis, og einungis spurninig hversu mikil.

  Það sem mér er miklu meira umhugsunarefni, það eru borgarfulltrúar Reykjavíkur, hverning stendur á því að raforkan er borginn selur td. til væntanlegs álvers í Helguvík sé seld á hrakvirði, svo láu að enginn þorir að upplýsa hversu lágt verið er, mér er nær að halda að söluverð raforkunnar sé nálægt hálfvirði á raforku til stóriðju er viðgengst í öðrum löndum.

   Það er alltaf verið að tala um að nota ekki peninga skattgreiðenda í útrásarverkefni, en það virðist vera hið besta má að nota þá til niðurgreiðslu til erl. álframleiðenda.

haraldurhar, 22.4.2008 kl. 23:19

7 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Mjög nauðsynlegt er að setja sem mestan þrýsting á Orkuveituna að hreinsa brennisteinsgufuna. Þeir Orkuveitumenn telja sig búa yfir leynivopni í því sambandi. Ósköp væri nú gott ef satt væri að þeir hafi dottið niður á hagkvæmna lausn að leysa þetta mál. En allar þær aðferðir sem núna eru þekktar ganga út á tiltölulega dýra aðferð þar sem brennisteinninn er felldur út með efnafræðilegri aðferð og hann sem sagt verður aukaafurð.

Við útblástur frá álbræðslunum er unnt að fella úrgangsefni með vothreinsibúnaði og þá verður til gifs sem töluvert er notað i byggingaiðnaði t.d. í eldfasta veggi þar sem þarf að hólfa niður til að hefta útbreiðslu elds í timburhúsum. 

Báðar þessar aðferðir eru fyrst og fremst áhugaverðar þegar stjórnvöld leggja meiri kröfur til mengandi starfsemi. Því miður hafa íslensk stjíornvöld verið nokkkuð léttlynd, hafa t.d. ekki lagt skatta á mengandi starfsemi og því er engin hvatning að huga meir að þessum málum þó svo að unnt sé að vinna að aukinni framleiðslu verðmætra hráefna í stað þess að hleypa þeim út í skaðlegu formi út í andrúmsloftið.

Eina fyrirstaðan sem stóriðjan og orkuvinnslan á Ísland fær er annars vegar vegna andófs sveitarfélaga á borð við Hveragerði og náttúruverndarsamtaka. Betra væri að fleiri stjórnmálamenn gæfu þessum mikilvægu málum meiri gaum því með því væru þeir að stuðla að betri lausnum en nú er lagt upp úr sem og farsælli framtíð fyrir land og lýð.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 23.4.2008 kl. 08:02

8 identicon

Bloggaði um afstöðu Ástu Þorleifsdóttur í gegnum tíðina..gb

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 25.4.2008 kl. 13:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband