22.6.2008 | 23:52
Samfylking í sókn
Samfylkingin bætir við fylgi sitt í þessari skoðanakönnun Fréttablaðsins. Á því eru sjálfsagt ýmsar skýringar en miklu ræður að ráðherrar flokksins hafa á erfiðum tímum talað af ábyrgð og sýnt með orðum og gjörðum að þeir taka hlutverk sitt alvarlega. Síðasta útspil félagsmálaráðherra í húsnæðismálum er mikilvægt fyrir húsnæðismarkaðinn. Margt fólk er í erfiðri stöðu og þótt sjálfsagt standi ríkisstjórnin öll að baki þessari aðgerð hlýtur félagsmálaráðherra mestan heiður.
Forsætisráðherra hefur verið óheppinn í orðavali við fréttamenn og það hefur gefið þá ímynd af honum að hann taki ástandið í efnahagsmálum ekki nægilega alvarlega. Það er eflaust fjarri lagi en hinu er ekki að neita að illa valin svör við oft á tíðum óþægilegum en þó sjálfsögðum spurningum gefa ekki góða mynd af því sem raunverulega er verið að gera.
Sjálfstæðisflokkurinn í borginni hefur nú varið tveimur árum í að brjóta niður orðspor flokksins og orðið vel ágengt. Áhrifin af hinu sífellda sundurlyndi í herbúðum borgarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna ná langt út fyrir Ráðhúsið. Þótt Hanna Birna hafi út úr neyð verið krýnd til forystu er ljóst að Gísli Marteinn Baldursson er engan veginn sáttur við að viðurkenna hana sem leiðtoga og hefur undir rós boðað mótframboð um leiðtogasætið í komandi prófkjöri.
Júlíus Vífill gengur líka með borgarstjóradraum í maganum og hefur haft einstakt lag á að birtast í ljóskeilunni í hvert skipti sem tækifæri gefst. Enn er eftir tæpt ár af borgarstjóratíð Ólafs F Magnússonar sem öllum er ljóst að passar ekki í fötin sem Vilhjálmur og Kjartan sniðu handa honum í þakklætisskyni fyrir að svíkja Dag B Eggertsson og Tjarnarkvartettinn. Illu heilli - borgarinnar vegna - er ólíklegt annað en að vandræðagangur þessa vandræðalega meirihluta muni halda áfram.
Sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa að undanförnu talað og skrifað af slíkum einfeldningshætti um efnahags- og umhverfismál að því verður vart trúað að þeir tali samkvæmt sinni bestu vitund. Og þó. Varaformaður umhverfisnefndar Alþingis boðaði í fréttum í liðinni viku að andstaða innan Sjálfstæðisflokksins myndi koma í veg fyrir að frumvarp umhverfisráðherra um landsskipulag yrði að lögum.
Þar er um að ræða gríðarlega mikilvægt frumvarp þar sem verið er að skapa framkvæmdavaldinu nauðsynlegar heimildir í skipulagslögum til að hafa áhrif á það hvernig landið okkar er skipulagt. Eins og öllum er ljóst sem fylgjast með umhverfismálum hafa sveitarfélög farið mjög svo misjafnlega með skipulagsvald sitt og sum látið kaupa sig til óhæfuverka gagnvart náttúrunni og jafnvel þegið greiðslur fyrir frá orkufyrirtækjunum. Það er ill meðferð á skipulagsvaldinu og þjóðinni ekki í hag. Vilja þessir þingmenn Sjálfstæðisflokksins að fámenn sveitarfélög geti óhindrað gengið þvert á þjóðarhagsmuni með því að selja vald sitt fjársterkum aðilum?
Það er óábyrgt (og jafnvel barnalegt) af þingmönnunum að tala svona. Landsskipulag er eitt af grundvallaratriðum Fagra Íslands og er ásamt rammaáætlun um verndun og aðra nýtingu náttúrusvæða lykillinn að því að hægt verði að koma á sátt í þessum málum. Samfylkingin hefði ekkert að gera í samstarfi við flokk sem vill koma í veg fyrir það.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar í könnun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.6.2008 kl. 07:53 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.