Eins og til er sáð

Það kemur ekki á óvart að 63% kjósenda séu á móti núverandi meirihluta. Eða að aðeins 70% kjósenda Sjálfstæðisflokksins og 62% kjósenda Framsóknarflokksins styðji hann. Svo uppskera menn eins og til er sáð.

Í helgarblaði DV kemur fram að sjálfstæðismenn byrjuðu að róa í Ólafi F Magnússyni strax á fyrsta degi Tjarnarkvartettsins. Þá var Ólafur í veikindaleyfi eins og alþjóð veit. Kjartan Magnússon og Vilhjálmur Þ Vilhjálmsson voru eins og gráir kettir í kringum veikan mann til að telja hann á að svíkja meirihlutasamkomulag sitt. Það tókst að lokum eftir að þeir höfðu lofað Ólafi borgarstjórastólnum og sett málefni flokksins til hliðar.
Málsmetandi menn í Sjálfstæðisflokknum segja þetta svartan blett á flokknum sem erfitt verði að hreinsa af.

Í sumar hrundi sjálfstraust Óskars Bergssonar eftir lélega útkomu í skoðanakönnunum. Eitthvað sem var reyndar óþarfi af því Framsóknarflokkurinn hefur yfirleitt ekki mælst mikið yfir pilsnerfylgi í borginni nema rétt fyrir kosningar. Smalagenin hafa haldið flokknum á lífi þótt oft stæði það tæpt.
Óskar hefur auðvitað ekki sama stjörnuelement og Björn Ingi Hrafnsson en það eru þó mörg dæmi um að vinnusamir menn hafi náð að rífa flokka upp með því að skapa sterka liðsheild og tala fyrir grundvallar stefnumálum flokksins. Þá leið virðist Óskar ekki hafa treyst sér í.

Hið fyrirfram vonlausa samstarf Sjálfstæðisflokksins við Ólaf F var komið á endastöð, það var öllum ljóst. Hvað hefði tekið við ef það samstarf hefði sprungið af sjálfu sér er ekki gott að segja. Endurreisn Tjarnarkvartettsins var einn möguleiki, þverpólitísk borgarstjórn undir forystu Dags en án Ólafs og helstu klúðrara Sjálfstæðisflokksins var hugsanlega önnur leið. Á það reyndi þó aldrei því áður höfðu talað sig saman hinn óttaslegni borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og sá flokkur sem á kjörtímabilinu hefur algerlega glatað tiltrú kjósenda sinna.

Óskar og Hanna Birna halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft frumkvæði að myndun meirihluta með Framsókn. Ýmislegt bendir til að það hafi verið á hinn veginn. Fram hefur komið að formenn flokkanna, Guðni og Geir, léku lykilhlutverk við að koma þessum ráðahag á. Hver sem atburðarásin var er niðurstaðan er sú sama. Ráðahagur þar sem báðir aðilar lýsa sem neyðarúrræði.
Minnir á gamlar þjóðsögur þar sem stundum enduðu saman litlaus piparsveinn og falleruð kona með erfiða fjölskyldu á framfæri.


mbl.is Borgarstjórn með fjórðungs fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Samfylkingarmenn eru líklegast fegnir að hafa hlaupist frá ábyrgð með því að útiloka samstarf við íhaldið og útiloka einnig R-listasamstarf og fá til sín óánægjufylgið.

Gestur Guðjónsson, 26.8.2008 kl. 11:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband