Svör við spurningum um ábyrgð lánastofnana á bílalánum

Ég náði loks sambandi við lögfræðing hjá einu þeirra fyrirtækja sem eru stærst í bílalánum. Spurning mín til hans var hver ábyrgð fyrirtækisins væri á því að lána fólki 80, 90 og jafnvel 100% lán til bílakaupa.

Svarið er einfalt. Engin.

Þetta var sjónarhorn lögmannsins: Fólk leitar til lánafyrirtækisins til að fjármagna kaup á bíl. Flestir gera svokallaða bílasamninga sem ganga út á að þá kaupir lánastofnunin bílinn, fólk greiðir umsamda upphæð á mánuði og eftir að samningstíma lýkur eignast fólkið bílinn formlega. Lántakanda er í sjálfs vald sett hvort hann tekur mikla eða litla áhættu af hækkandi gengi og fallandi bílverði.

Ef bíl sem er kominn yfir 100% veðsetningu t.d. vegna gengisbreytinga er skilað, hann eyðileggst í tjóni eða er stolið þá ber lántakandinn persónulega ábyrgð á mismuninum á sölu-/bótaverði.

Í Bandaríkjunum, og reyndar í nágrannalöndum okkar skv. lögmanninum, er algengt að aðeins sé lánað með veði í bílnum sjálfum. Það breytir hins vegar miklu um það hvað mikið er lánað og óalgengt að fólki sé lánað fyrir meiru yfir 50-70% af kaupverði bílsins. Fólk verður að safna fyrir 30-50% af bílverðinu áður en það fer að njóta þægindanna. Ekki sérlega 2007 eins og sagt er.

Ég veit ekki til þess að "íslenska" leiðin sé bönnuð í þessum löndum. Held að hún sé víðast hvar til en kannski hvergi jafn vinsæl og hér. Í ljósi þess hvað við erum með óstöðugan gjaldmiðil hefði kannski átt að íhuga hömlur á veðsetningu í erlendri mynt. Það hefði þó líklega ekki verið talið smart heldur argasta forræðishyggja.

Niðurstaðan er sem sagt þessi: Þeir sem tóku há lán fyrir bílum lögðu að veði bílinn + persónulega ábyrgð. Hefði það ekki verið gert hefði lánastofnunin ekki treyst sér til að lána jafn hátt hlutfall af verði bílsins.

Í ljósi þess sem gerst hefur finnst mér að það þurfi að endurskoða alvarlega hvernig viðskipti af þessu tagi fara fram, hvað getur gerst og hverjar afleiðingarnar geta verið. Bjóða ætti upp á lán þar sem aðeins er hægt að taka veð í því sem lánað er fyrir - ekki persónu þess sem tekur lánið.

Sama á við um fasteignarkaup.


mbl.is Átök við Ráðherrabústaðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Óli Valsson

Forvitnilegt Dofri og takk fyrir þetta. Ég ætla að leggjast betur yfir smáa letrið í mínum samning. Ég kommenta svo ef eitthvað er í samningnum sem er ekki í stíl við þessar upplýsingar.

En hvað kemur þetta fréttinni við?

Vilhjálmur Óli Valsson, 9.12.2008 kl. 13:05

2 Smámynd: Liberal

Jú, og þá munu lánastofanir lána að hámarki 50-60% fyrir kaupunum, og fólk þarf að spara fyrir mismuninum.  Það er nú ekki beint íslenska aðferðin að safna og spara, hér vill fólk allt strax og helst ókeypis.  "Íslenska" leiðin er ekkert bönnuð, en aðrar þjóðir eru bara nægjanlega skynsamar til að fara hana ekki, en sýna frekar þolinmæði og ráðdeild.  "Ameríska" leiðin myndi ekki ganga á Íslandi því hér á landi vill almenningur fá allt fyrir ekkert og ekki taka neina ábyrgð.

Liberal, 9.12.2008 kl. 15:36

3 identicon

Eðlilegast er að í veðlánum (veð=trygging) að undiriggjandi hlutur sé eina aðfararhæfa veðið. Lánveitendur geta svo, og gera, krafist frekari veða í samræmi við greiðslusögu (áhættumat) á lántaka.

Sömuleiðis er innifalið nú þegar í öllum útlánsvöxtum "áhættuþóknun" en að jafnaði er hún þeim mun hærri sem lánið er lengra og skuldari slæmur. Ofan á þá "grunnvexti" leggst svo ávöxtunarkrafan sem lánveitandi reiknar sér fyrir að lána.

The Bigot (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 16:56

4 Smámynd: Kjartan Eggertsson

Sammála þér um niðurstöðuna í þessum hugleiðingum.

Margt af því sem við glímum við í dag mun lagast ef við höfum vit á því að skipta krónunni út fyrir evru eða dollar.  Það tekur einn dag.  Kostar ekkert. Hefur enga annmarka, nema þá að nokkrir aðilar missa spón úr aski sínum þegar almenningur losnar undan klafa hringlandans með gengi krónunnar og verðtryggingarinnar.  Um leið og almenningur byrjar að nota evru eða dollar á innanlandsmarkaði munum hann sækja fjármagn erlendis frá, framhjá íslensku bönkunum og ríkissjóði til að endurfjármagna skuldir sínar og losa sig undan verðtryggingar- og vaxtaokinu.

Kjartan Eggertsson, 9.12.2008 kl. 19:52

5 Smámynd: Baldvin Jónsson

"Ameríska" leiðin undanfarin ár hefur reyndar oftast verið 100% lán til 7 ára vaxtalaust!
En það tengist því meira að amerískir bílar hafa ekki verið að seljast vel og umboðin hafa boðið þetta til að koma bílunum út.

En var verið að selja bíla við ráðherrabústaðinn??

Baldvin Jónsson, 10.12.2008 kl. 10:17

6 Smámynd: Vilhjálmur Óli Valsson

Guðmundur þú lánar fimm þúsund kallinn og vilt fá fimm þúsund kallinn til baka. Gott og vel, þú færð hann til baka eftir ár og fimm hundruð kall að auki fyrir ómakið að lána sem gefur þér 10% ávöxtun á einu ári. En þú tapar á þessu þar sem verðbólga er 20% því að á raunvirði ertu ekki að fá til baka nema 4500 kall. Þetta er áhætta sem að þú tekur eftir að hafa rýnt í markaðinn og efnahagslífið.

Það sem er í gangi er að það er bara annar aðilinn (lántaki) sem tekur alla áhættu í stað beggja. Ef greiningardeildir lánastofnana stæðu sig í stykkinu byðust lánakjör upp á 8-13% vexti (óverðtryggt) og báðir taka áhættu, ef verðbólgan er lítil borgar lántaki meira að raunvirði og lánveitandi græðir og svo öfugt. Þetta er t.d. það sem er í gangi í UK, þú færð íbúðalán á 6-9% vöxtum og neyslulán á hærri vöxtum en það, byggist allt á veði og greiðslusögu. Þetta er alveg fær leið þar sem sett er í lánasamninginn að vaxtaprósenta ere endurskoðuð á x ára fresti.

Og fyrirgefðu mér Dofri, það átti ekki að koma full bloggfærsla í athugasemd hjá þér.

Vilhjálmur Óli Valsson, 10.12.2008 kl. 14:31

7 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Það væri vit í svona reglum í bílalánum enda bíll ekki nauðsynjavara og það er hægt að fá ódýran gamlan bíl. Ef þessi regla væri í húsnæðislánum þá myndi það með sama skapi leiða til lágs lánshlutfalls í íbúðalánum og þar, sem fáir hafa tök á að safna fyrir 30-50% af íbúðaverði myndi það aðeins leiða til þess að annað hvort fær fólk lánsveð frá foreldrum eða tekur önnur og dýrari lán fyrir eigin fjármögnun með mun hærri vöxtum en húsnæðislánunum.

Hvað varðar áhættu lánveitanda og lántaka þá er það einföld staðreynd í lánaviðskiptum að þeim mun meiri áhætta, sem sett er á lánveitanda þeim mun hærri ávöxtunarkröfu gerir hann. Það er því mjög varhugavert að banna lántaka að taka áhættu sjálfur því hann fær lægri vexti geri hann það.

Menn bölva verðtryggðum lánum núna þegar mikil verðbólga er ásamt samdrætti í kaupmætti launa og lækkandi húsnæðisverði. Þetta setur margar fjölskyldur í mikinn vanda. Hafa þeir, sem hæst gagnrýna þetta íhugað í hvers konar vanda þessar fjölskyldur væru er þær væru með óverðtryggð lán með berytilegum vöxtum? Staðreyndin er sú að þær væru í mun verri málum enda væru vextirnir þá á bilinu 20-23% og greiðslubyrði af 20 milljóna kr. láni um það bil 400 þúsund kr. á mánuði.

Ef við bönnum verðtryggingu þá fáum við slík lán í staðin. Ef við förum þá að banna lán með breytilegum vöxtum þá munu húsnæðiskaupendur einfaldlega ekki fá nein langtímalán. Það mun engin lána óverðtryggt með föstum vöxtum til langs tíma í íslenskum krónum nema þá hugsanlega með himiháum vöxtum.

Sigurður M Grétarsson, 13.12.2008 kl. 08:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband