Fyrirtækin flýja krónuna

Á fundi Samfylkingar um aðgerðir í efnahagsmálum á Grand Hóteli í morgun kom fram hjá Vilhjálmi Þorsteinssyni stjórnarformanni CCP að fyrirtækið hefur boðið starfsfólki sínu á Íslandi að fá laun greidd í Evrum. Nánast hver einasti starfsmaður hefur þegið það boð.

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, sagði augljóst að ef við ekki stígum skrefið til fulls, sækjum um aðild að ESB og tökum upp evru sem gjaldmiðil mun evruvæðingin gerast með þessum hætti. Allir sem möguleika eiga á munu þá taka upp evru en almennt launafólk sitja eftir í krónunni.

Í erindi Aðalsteins Leifssonar, prófessors hjá HR, um leiðir til að ná stöðugleika í efnahagsmálum, kom fram að meðalfjölskylda með um 20 milljóna króna húsnæðislán þarf að borga 700 þúsund krónur meira í vexti af sínum húsnæðislánum en t.d. í Hollandi þar sem vextir eru 7-8%. Hærra vöruverð veldur á að giska 300 þúsund króna álagi til viðbótar.

Lauslega áætlað er því meðalfjölskyldan að greiða um 1 milljón kr. á ári fyrir þau forréttindi að fá að nota íslenska krónu.

Kristín Pétursdóttir, forstjóri Auðar Capital og Margrét Kristmannsdóttir, forstjóri Pfaff, tóku skýrt fram að án stöðugleika í gjaldmiðilsmálum er engin von til þess að við náum að byggja upp öflugt viðskiptalíf að nýju. Ástæðan er einföld - það er ekki hægt að gera áætlanir fram í tímann í gjaldmiðli sem enginn veit hvers virði er gagnvart erlendum viðskiptavinum og lánveitendum.

Samfylkingin er eini flokkurinn sem vill bregðast hratt við, sækja strax í vor um aðild að ESB og leggja niðurstöðu samninga í dóm þjóðarinnar eins fljótt og unnt er. Sumir flokkar vilja tefja málið og láta þjóðina kjósa um það hvort hún á að fara í samningaviðræður. Aðrir flokkar vilja fá að segja nei fyrir hönd þjóðarinnar.

Þeir sem vilja nota íslensku krónuna sem framtíðargjaldmiðil ættu að kjósa þá flokka. Þið hin sem viljið taka upp Evru og ná hér stöðugleika í efnahagsmálum og lækka vaxtabyrði heimilanna - Samfylkingin er ykkar eini kostur!


mbl.is Húsfyllir á fundi Samfylkingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elvar Atli Konráðsson

Það er trúlega einsdæmi í heiminum að flokkur sem situr í ríkisstjórn skuli alltaf vera að tala niður gjaldmiðilinn, fyrrverandi viðskiptarráðherra var duglegastur í því sem hlítur líka að vera einsdæmi að ráðherra viðskipta skuli gera það.

Reyndar axlaði Björgvin ábyrgð og sagði af sér degi fyrir stjórnarslit, en er reyndar aftur á leið á þing

Elvar Atli Konráðsson, 16.4.2009 kl. 14:52

2 identicon

Það er bara ekki þannig að ráðherra í ríkisstjórn Íslands stjórni gengi krónunnar með málfari sínu eða neinum öðrum hætti. Þetta snýst um tiltrú manna á þessum gjaldmiðli og ég óska eftir því að þú sýnir okkur hver hefur trú á þessum gjaldmiðli í raun (þ.e. umfram þá blindu sem hrópa sem hæst úr sínum fílabeinsturni á Alþingi).

Hvernig væri að hrofast bara í augu við raunveruleikann? Viðskiptavinir okkar erlendis vilja ekki eiga viðskipti við okkur með þennan Disneydollar sem krónan er. Þeir íslendingar sem geta átt kost á að fá laun í evrum kjósa það - hver og einn einasti, af hverju?

Hvernig er það má ekki segja sannleikann eins og hann er um þessa minnstu örmynt í heimi? Hvers vegna er það alltaf þannig að við verðum að sitja við lakara borð en aðrar Evrópuþjóðir vegna þess að einhverjir sjálfhverfir eiginhagsmunaseggir vilja endilega vera með eigin mynt?

Hættum þessu kjaftæði! Krónan hefur aldrei á lýðveldistímanum staðið sig almennilega í að mæla hér verðmæti. Verðtryggingin er eitt besta dæmið um hve mislukkað þetta allt saman er. Hvar annars staðar i heimi er verðtrygging notuð? Af hverju ætli það sé nú?

Það er alveg sama Elvar hve oft er stungið upp á góðum ráð fyrir efnahag Íslendinga - alltaf koma einhverjur strangtrúaðir krónumenn eins og þú og gagnrýna það - án þess að koma með eina einustu tillögu um hvað annað hægt er að gera í stöðunni. Hvað ætla and-Evrópusinnar að gera í málefnum líðandi stundar? Hvernig á að leysa efnhagsvandann með krónunni og gjaldeyrishöftunum?

Ægir Sævarsson (IP-tala skráð) 16.4.2009 kl. 15:05

3 identicon

Hvernig væri Ægir, að lesa plaggið, Ægir. Viltu hrekja lið fyrir lið sem þar er sagt um trúverðugleika, krónuna, ESB og lausn á vandanum? Ekki tuða á lyklaborði, verum málefaleg.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 16.4.2009 kl. 15:42

4 identicon

Ef Samfylkingin er eini flokkurinn sem setur ESB aðild á oddinn - mál númer eitt, tvö og þrjú - hvernig getur flokkurinn þá setið með öðrum íslenskum stjórnmálaflokkum í ríkisstjórn?

ólafur M. Jóhannesson (IP-tala skráð) 16.4.2009 kl. 17:46

5 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Það er rétt sem Sossarnir hafa nú loks skilið, að óformleg Dollaravæðing Íslendsks efnahagslífs er komin langt á veg. Þetta hefur flestu "venjulegu fólki" verið ljóst lengi. Talið er að óformleg Dollaravæðing hagkerfisins nemi 60-70%. Álverksmiðjur, ferðaþjónustan og sjávarútvegurinn eru nær algjörlega Dollaravædd. Nær öll lán í landinu eru gengistryggð eða vísitölutrygg og þetta telst einnig til óformlegrar Dollaravæðingar.

Það sem Sossarnir hafa ekki skilið, er að Evran er ekki innan seilingar, auk þess sem hún er ekki okkar bezti kostur. Einungis einn gjaldmiðill getur talist alþjóðlegur og það er US Dollar. Nær öll alþjóðleg viðskipti eru í Dollurum og gjaldeyrisforði nær allra þjóða heims er að mestu í Dollurum. Hvað sem síðar kann að verða, er Dollarinn mörgum sinnum betri gjaldmiðill en Evran sem einungis er notuð á Evrópu-skaganum. Það er því hrein afdalamennska að tala um Evruna sem óska-lausn.

Það er rétt hjá Sossunum, að við verðum að taka upp sterkan gjaldmiðil. Þetta verðum við að gera strax og ég fullyrði að aðgerðarleysi í gjaldmiðilsmálum, undanfarna mánuði er glæpsamlegt. Afstaða Samfylkingarinnar er glæpsamleg, að neita að skoða upptöku annara gjaldmiðla en Evru. Af trúarlegu ofstæki, neitar Samfylkingin öllum staðreyndum málsins.

Innganga í Evrópusambandið er gjörsamlega óhugsandi, vegna fullveldisafsalsins sem inngöngu fylgir. Að auki þyrftum við að afsala okkur stjórn auðlinda landsins, sem gæti hæglega leitt til ofnýtingar. Mesta hættan stafar þó af spillingu þjóðarsálarinnar. Allt okkar bezta fólk mundi dragast til stórborga Evrópu, á sama hátt og gerðist á dögum Danska valdsins. Ísland yrði verstöð, í útjaðri hins Evrópska stórveldis. Samfylkingarfólk dreymir um Gosenland Sossanna, en við hin erum ánægð með "Ísland ei öðrum þjóðum háð".

Ó, Ísland, fagra ættarbyggð,
um eilífið sé þín gæfa tryggð,
öll grimmd frá þinni ströndu styggð
og stöðugt allt þitt ráð.
Hver dagur liti dáð á ný,
hver draumur rætist verkum í
svo verði Íslands ástkær byggð
ei öðrum þjóðum háð
Svo aldrei framar Íslands byggð
sé öðrum þjóðum háð.

Loftur Altice Þorsteinsson, 17.4.2009 kl. 10:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband