Meira um Jesú og Jón

Það er áhugavert að frelsarinn skuli hafa fæðst á sama degi og Jón Sig, sverð okkar sómi og skjöldur. Hvorugur þeirra var nokkur meðaljón. Það var ekki heldur Jón Júlíusson leikari sem vakti á ofanverðri síðustu öld verðskuldaða athygli m.a. fyrir hárprýði.

Mér var sögð sú saga að einhverju sinni í leikferð hafi afgreiðslustúlka sem reiddi fram mat fyrir leikhópinn látið þess getið að hann væri nú bara alveg eins og Jesú. Hann mun hafa skrifað hugleiðingar eitthvað í þessa áttina á servéttuna sína:

Menn telja að við líkir séum í sjón
og sama birta af okkur lýsi.
Það sést þó alltaf að ég er Jón
því Jesú hann greiddi öðruvísi.


mbl.is „Jesús fæddist 17. júní“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svör við spurningum um ábyrgð lánastofnana á bílalánum

Ég náði loks sambandi við lögfræðing hjá einu þeirra fyrirtækja sem eru stærst í bílalánum. Spurning mín til hans var hver ábyrgð fyrirtækisins væri á því að lána fólki 80, 90 og jafnvel 100% lán til bílakaupa.

Svarið er einfalt. Engin.

Þetta var sjónarhorn lögmannsins: Fólk leitar til lánafyrirtækisins til að fjármagna kaup á bíl. Flestir gera svokallaða bílasamninga sem ganga út á að þá kaupir lánastofnunin bílinn, fólk greiðir umsamda upphæð á mánuði og eftir að samningstíma lýkur eignast fólkið bílinn formlega. Lántakanda er í sjálfs vald sett hvort hann tekur mikla eða litla áhættu af hækkandi gengi og fallandi bílverði.

Ef bíl sem er kominn yfir 100% veðsetningu t.d. vegna gengisbreytinga er skilað, hann eyðileggst í tjóni eða er stolið þá ber lántakandinn persónulega ábyrgð á mismuninum á sölu-/bótaverði.

Í Bandaríkjunum, og reyndar í nágrannalöndum okkar skv. lögmanninum, er algengt að aðeins sé lánað með veði í bílnum sjálfum. Það breytir hins vegar miklu um það hvað mikið er lánað og óalgengt að fólki sé lánað fyrir meiru yfir 50-70% af kaupverði bílsins. Fólk verður að safna fyrir 30-50% af bílverðinu áður en það fer að njóta þægindanna. Ekki sérlega 2007 eins og sagt er.

Ég veit ekki til þess að "íslenska" leiðin sé bönnuð í þessum löndum. Held að hún sé víðast hvar til en kannski hvergi jafn vinsæl og hér. Í ljósi þess hvað við erum með óstöðugan gjaldmiðil hefði kannski átt að íhuga hömlur á veðsetningu í erlendri mynt. Það hefði þó líklega ekki verið talið smart heldur argasta forræðishyggja.

Niðurstaðan er sem sagt þessi: Þeir sem tóku há lán fyrir bílum lögðu að veði bílinn + persónulega ábyrgð. Hefði það ekki verið gert hefði lánastofnunin ekki treyst sér til að lána jafn hátt hlutfall af verði bílsins.

Í ljósi þess sem gerst hefur finnst mér að það þurfi að endurskoða alvarlega hvernig viðskipti af þessu tagi fara fram, hvað getur gerst og hverjar afleiðingarnar geta verið. Bjóða ætti upp á lán þar sem aðeins er hægt að taka veð í því sem lánað er fyrir - ekki persónu þess sem tekur lánið.

Sama á við um fasteignarkaup.


mbl.is Átök við Ráðherrabústaðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er ábyrgð lánastofnana?

Getur einhver lögfróður aðili upplýst mig um hvaða skilyrði eru að baki almennum bílalánum. Segjum að lánafyrirtækin hafi veitt fólki 80-100% lán í erlendri mynt til bílakaupa. Er ekki eina veð slíkra lána í bílunum sjálfum eða er lánið með aukaveð í persónum þeirra sem taka lánið?

Í Bandaríkjunum er til hugtakið "Jingle mail" (bjöllupóstur?) yfir það þegar umslög með lyklum að húseignum eða bílum berast lánastofnunum. Þar verða lánastofnanirnar að láta sér nægja að taka veð í eignunum sem þær lánuðu fyrir. Þær bera m.ö.o. ábyrgð á því að hafa lánað fólki peninga til kaupa á einhverju sem gæti fallið í verði.

Hér er veð tekið í fólki sem er mikið óréttlæti og firrir lánafyrirtækin ábyrgð.


mbl.is Mótmæla innheimtuaðferðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lausnin - að banna afleiðingar kreppunnar!

Ég verð að viðurkenna að ég bjóst við aðeins meiri hugkvæmni en þetta þegar stærsti flokkur landsins boðaði til sérstaks aukafundar og kynnti aðgerðaráætlun sína.

Ekki orð um hinar undirliggjandi ástæður kreppunnar. Peningamálastefnuna, hvaða gjaldmiðil eigi að nota í framtíðinni. Hvernig eigi að koma fyrirtækjum og fólki í skjól frá vaxtaokri og krónu sem ekki er tekin gild í útlöndum. Ekki orð um það hvernig við eigum að koma okkur út úr ólgusjó gjaldmiðlakrísunnar. Lausnin er að banna afleiðingar kreppunnar. Banna nauðungaruppboð og setja þak á hækkun höfuðsstóls skulda. Verður líka bannað að verða svangur?

Það er út af fyrir sig snjallt hjá Vg að opna í hálfa gátt til ESB um leið og lýst er yfir þeirri staðföstu skoðun að Íslandi sé betur borgið utan ESB. Þarna er verið að friða grasrótina og fylgið sem vill sækja um aðild þvert á gömlu karlanna sem eru algerlega handvissir um að það sé rugl. Ef ekki landráð.

Og af hverju þarf að kjósa um það hvort við eigum að fara í aðildarviðræður? Eru þeir margir sem vilja ekki komast að því hvað við gætum fengið út úr aðildarviðræðum? Er ekki einfaldast að Alþingi komi sér saman um samningsmarkmið okkar - þau ættu ekki að vera flókin - og svo verði kosið um hvað kemur út úr viðræðunum. Þessi tvöfalda kosning virðist vera fyrirsláttur.


mbl.is Vilja þak á verðtryggð lán og frystingu uppboða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þétt net verndaðra svæða

Þetta er gott mál. Stefnan er að skapa þétt net verndaðra svæða. Náist það felast í því mikil tækifæri fyrir ferðaþjónustuna og ímynd landsins.
mbl.is Þrettán ný svæði friðlýst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er Íslendingur

Nú hvarflar ekki að mér að gera lítið úr ábyrgð stjórnmálamanna, seðlabankans, fjármálaeftirlitsins og allra síst að draga úr vanþóknun minni á græðgi og aðgæsluleysi bankanna. Síður en svo. Ábyrgð allra þessara aðila er mikil. Það sem slær mig hins vegar illa er þessi algera blinda á að mjög stór hluti þjóðarinnar hefur farið of geyst í neyslu undanfarin ár.

Grípum aðeins niður í dæmigerðan fréttatíma (hádegisfréttir RUV 2.8.2007) um sífellt aukna kortaveltu.

Í hagvísi Hagstofu Íslands sem kom út í morgun kemur fram að kreditkortavelta heimilanna hafi aukist um rúm 17% fyrstu 5 mánuði þessa árs frá því á sama tíma í fyrra, þar af jókst kortavelta Íslendinga erlendis um tæp 10%. Á sama tíma jókst debetkortavelta aðeins um 3,3%. Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Glitnis, segir að þetta sýni að einkaneysla Íslendinga hafi aukist á öðrum ársfjórðungi eftir að hafa dregist saman á þeim fyrsta. Nýleg væntingavísitala Gallup staðfesti þetta enn frekar. Þetta geri það að verkum að verðbólgan minnki ekki eins hratt og hún hefði annars gert, auk þess sem Seðlabankinn ætli ekki að lækka stýrivexti fyrr en eftir áramót.

Hér eru hádegisfréttir Stöðvar 2 frá 15.9.2007.

Kortavelta hefur aukist um 12% á milli ára að raunvirði, miðað við þriggja mánaða meðaltal. Þetta sýnir að einkaneysla er enn mikil hér á landi.
Einkaneysla var mjög mikil í ágústmánuði sem kemur meðal annars fram í aukinni debet- og kreditkortaveltu. Þá var bjartsýni Íslendinga meiri í ágústmánuði en í júlí en góð lund hefur gjarnan áhrif á einkaneyslu en hér er stuðst við væntingavísitölu Gallup.

Ekki eru komnar tölur um innfluttar neysluvörur og nýskráningar bifreiða fyrir ágúst en í júlí hafði innflutningur neysluvarnings aukist um rúmlega 9% frá fyrra ári. Nýskráningum bifreiða hafði fjölgað um 7% en eins og fram kom í fréttum okkar nýverið er bílafloti landsmanna svo stór að hringvegurinn gæti ekki tekið við öllum bílunum færu þeir í einni röð inn á þjóðveg númer 1. Af þessu má ráða að þriðji ársfjórðungur fer vel af stað að mati hagspekinga og ekkert lát virðist vera á neyslugleði landsmanna.

Í kór við þessar fréttir sáum við reglulega fréttir um að viðskiptahalli við útlönd hefði enn slegið nýtt met. Svo öllu sé til haga haldið birtist svo seðlabankastjóri af og til og varaði við þróuninni (sem hann sjálfur hafði þó vissulega lagt grunninn að).

Tækið sem hann notaði til að laga ástandið - stýrivaxtahækkun - virkaði hins vegar alltaf öfugt. Með því voru erlendir áhættufjárfestar hvattir til að kaupa krónubréf, við það hækkaði gengi krónunnar, allur innfluttur varningur varð ódýrari sem hvatti til meiri neyslu og fólk sem þurfti að kaupa sér húsnæði var hrakið út í lántöku í erlendri mynt.

Margir fleiri vöruðu við þeirri hættu sem væri að skapast s.s. hagfræðingar og viðskiptafræðingar akademíunnar. Það hafði því miður lítil áhrif. Í fréttum Sjónvarpsins kl. 22 þann 18.6.2008 var þetta viðtal við Gylfa Zöega í tilefni af því að gengi krónunnar fór að lækka.

Gengislækkunin þvingar þjóðina til að lifa ekki um efni fram, eins og hún hefur gert undanfarin 5 ár. Heimilin verða að draga verulega úr neyslu, og spara, eigi efnahagsástandið að lagast. Þetta er álit prófessors í hagfræði. Að óbreyttu séu miklar hremmingar framundan.

Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, segir að líta þurfi 5 ár aftur í tímann til að rekja þann vanda sem nú blasir við og leitt hafi til rýrnunar krónunnar sem skrapp mikið saman í dag og hefur aldrei verið veikari.
Mikið framboð hafi verið af ódýru fjármagni í heiminum undanfarið og á þessum tíma hafa Íslendingar tekið gríðarlega mikil lán, um það bil 10 þúsund milljarða króna.

Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði: Og þessi lán hafa farið til þess að kaupa hlutabréf og það er einhver mesta hlutabréfabóla sem að hefur orðið til hérna hlutabréfaverð sjöfaldaðist á fimm árum. Fasteignaverðið hækkaði, við höfum byggt hverfi, ef maður keyrir hérna úthverfin og sér hverfi sem að maður hefur aldrei séð áður og einkaneyslan hefur verið gríðarleg.

Mikill innflutningur á bílum, há lífskjör allt byggt á lánsfé. Það séu svo aðrar þjóðir annars staðar í heiminum, Kína og Japan auk olíuframleiðsluríkjanna sem að hafi sparað.

Gylfi Zoega: Svo við erum að nota okkur sparnað annarra ríkja til að lifa um efni fram.

Það sé hins vegar ekki hægt lengur. Afleiðingarnar séu hrun á hlutabréfa og fasteignamarkaði. Himinhá verðbólga, uppsagnir og gjaldþrot.

Gylfi Zoega: Okkar verðmætasköpun ákvarðar okkar neyslustig en ekki sparnaðarhneigð Kínverja og Japana.

Nú þurfi að jafna viðskiptahallann og ná afgangi. Heimilin verði að spara annars stefni í óefni.

Gylfi Zoega: Það var einn forsvarsmaður þess, Vilhjálmur Egilsson, sem sagði heyrði ég um daginn að það væru einungis tvær atvinnugreinar sem að þyldu 10% raunvexti og þau kjör sem að fyrirtækin hafa í dag og það er vopnasmygl og vændi og við getum ekki byggt efnahagslífið á þessu tvennu, kannski sem betur fer en þar af leiðir að atvinnulífið er að lenda í stórkostlegum hremmingum. Ekki öll fyrirtæki en mjög mörg.
 

Hinn bitri sannleikur er sá að þótt margir hafi ýmist farið varlega eða hreinlega ekki haft möguleika á að taka þátt í neyslunni þá fór þjóðin sem heild óvarlega í neyslu í góðæri sem flestir máttu gera sér grein fyrir að væri að stóru leyti tekið að láni.

"Ábyrgðin er ekki okkar..." sagði hin skelegga skáldkona Gerður Kristný. Ég efast um að allir hafi getað tekið undir þessi orð með góðri samvisku. A.m.k. ekki ég. Þótt ég telji mig í hópi þeirra sem minnsta áhættu taka í fjármálum freistaðist ég engu að síður til að taka bílalán fyrir tæpu ári. Ég hefði vel getað komist af með minna. Ódýrari bíl.

Það er kannski engin furða að ráðamenn segi ekki af sér hjá þjóð þar sem engum finnst neitt vera sér að kenna. Ekki einu sinni pínulítið. Í alvöru talað þá hef ég engan heyrt segja neitt í þá áttina. Samt er það almennt viðurkennt að til þess að geta farið að bæta sig þurfi maður að viðurkenna bresti sína. Kannski ég verði fyrstur.

Ég:         Ég heiti Dofri og ég er Íslendingur!
Þjóðin:   Sæll Dofri!


mbl.is „Ábyrgðin er ekki okkar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einhliða upptaka evru - skyldulesning

Það er jafn gaman að krónan skuli styrkjast í gær og í dag og það var ógaman þegar hún féll. Eins og sjá má hér eru ærnar ástæður til að óttast að þessi styrking sé á veikum grunni byggð.

Hinn stóri sannleikur er sá að við þurfum að fá stöðugan gjaldmiðil sem fullt mark er tekið á í alþjóðlegum viðskipum. Það vill enginn útlendingur með réttu ráði fjárfesta í gjaldmiðli sem skoppar upp og niður eins og bolti.

Þótt LÍÚ hafi ekki verið mín uppáhaldssamtök hingað til er ástæða til að benda á ágæta samantekt þeirra um það hvernig væri hægt að taka upp annan gjaldmiðil á innan við 4 vikum.

Hér svo góð grein eftir mann sem þekkir vel til um sama mál, Michael Emerson, fyrrverandi yfirmaður efnahags- og fjármálasviðs framkvæmdastjórnar ESB. Þar fer m.ö.o. þungaviktarmaður sem mælir eindregið með einhliða upptöku evru fremur en að leigja gullfót undir krónuna og kanna svo hvort hún flýtur.


mbl.is Krónan styrkist áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumir hægrisinnaðir vinir mínir...

theydranktomuchFyrirsögnin er tilvitnun í meintan hægri grænan þingmann sem var, ásamt frjálshyggjuvinum sínum á VefÞjóðviljanum, harður andstæðingur þeirra sem vöruðu við áhrifum mengunar á loftslag jarðar.

Hann notaði oft frasann "sumir vinstri sinnaðir vinir mínir..." og eignaði svo téðum vinum sínum einhverjar grillur sem hann auðvitað var með rétta svarið við.

Þingmaðurinn varaði við áhrifum þess á hagkerfið ef fólk hætti að nota kolefnismengandi orkugjafa og taldi það ávísun á hrun. Kannski var hann að hugsa um GM.

Annar hagfræðingur, Sir Nicholas Stern, reiknaði sig reyndar að annarri niðurstöðu - að það myndi kosta okkur mun meira að aðhafast ekkert. Hljómar kunnuglega.

Toyota, Kia og fleiri bílaframleiðendur frá Asíu hafa lagt áherslu á eyðslugrennri og minna mengandi bíla. Hjá þeim er ekki hrun enda hafa þeir skynjað nauðsyn þess að heimurinn beygi af braut kolefnismengunar og í átt til grænni framleiðslu.

GM náði ekki þeirri beygju. Hugsanlega var þessi mikli bílarisi á þeirri skoðun að það væri alls ekki beygja framundan - eins og sumir hægri sinnaðir vinir mínir!


Hagyrðingur um Framsókn

Heyrði þessa áðan.
Mun vera eftir hinn snjalla hagyrðing Jóhannes Sigfússon á Gunnarsstöðum.

Fátt í haginn framsókn gengur
furðu lin í sókn og vörn.
Og Bjarni þessi dáðadrengur
drekkti sér í Lómatjörn.


Krónan í flotkví

Það er afar vafasamt að tala um fleytingu krónunnar við þessi skilyrði. Eiginlega alger öfugmæli.
Yahoo finance skráir gengi krónu á móti evru þannig: 1 evra = 287,35 kr.


mbl.is Fleyting gekk framar vonum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband