8.9.2008 | 09:25
Fjarnám - starf án staðsetningar
Fjarnámið á Bifröst er gott dæmi um hvað er hægt að gera margt með aðstoð nýrrar tækni í fjarskiptum. Reynsla mín af slíku námi er mjög góð en námið hófst á vinnulotu um sumarið þar sem allir kynntust hratt og vel en eftir það sátum við hvert við sína tölvu dreifð út um allt land og sum hver í útlöndum. Það kom ekki að sök, samskiptin voru mikil og við hjálpuðumst að við verkefni, spjölluðum daglega saman og unnum hópverkefni rétt eins og við værum öll á sama stað.
Það var frábært að geta vaknað á morgnana, komið börnunum í skólann, hellt upp á kaffi, sest við tölvuna og ýtt svo á "Play" á nýjustu fyrirlestrunum. Ekki var verra að geta bakkað í fyrirlestrunum ef maður missti af eða skildi ekki eitthvað. Eða að geta stöðvað myndbandið á meðan maður fletti upp á viðkomandi kafla í bókinni eða leitaði á netinu að nýlegu dæmi í fréttum sem tengdist náminu. Ég get því mælt með fjarnámi við hvern sem er.
Nám er í raun vinna (og öfugt) og á þessu tvennu er enginn eðlismunur. Í umræðum um störf án staðsetningar væri fróðlegt að vita hvað margir á landsvísu stunda fjarnám. Líklega eru það nokkur þúsund manns.
![]() |
Bifröst opnar útibú í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.9.2008 | 13:38
Er ekki svarið augljóst?
Tómas Hafliðason sem bloggar sem Potturinn furðar sig á skjótum metorðum ungs framsóknarmanns. Hann segir í bloggi sínu:
Ég held að allir flokkar séu í vandræðum með að ná öflugt fólk, ég veit ekki hvort þetta sé einsdæmi en ég var að lesa eitthvað sem heitir Sufari vikunnar. En þar er ungur Framsóknarmaður spurður eftirfarandi spurningar:
Hefur þú starfað eitthvað innan Framsóknar? Ekki mikið. Hóf þátttöku í flokkstarfi fyrir ári ríflega ári síðan. Er formaður FUF í Mýra- og Borgarfjarðasýslu. Er í stjórn SUF ásamt nefndarsetu í fræðslu- og kynningarnefnd. Þá sit ég í miðsstjórn flokksins fyrir NV-kjördæmi.
Hann byrjar á að taka fram að hann hafi ekki starfað mikið og bara hafði þáttöku fyrir rúmu ári síðan samt sem áður er hann í stjórn SUF og í miðstjórn flokksins.
Hvar væri hann ef hann hefði starfað mikið?
Tvö af mörgum réttum svörum gætu verið formaður Orkuveitunnar og varamaður í borgarráði. Metorðastiginn í Framsókn er þénugt tæki.
5.9.2008 | 09:18
Landskipulag - fundur Græna netsins á morgun
Hverju breytir landskipulag? Verður það samþykkt?
Helgi Hjörvar og Sigurður Ásbjörnsson tala um landsskipulag á spjallfundi Græna netsins nk. laugardag.
Helgi Hjörvar formaður umhverfisnefndar alþingis og Sigurður Ásbjörnsson starfsmaður Skipulagsstofnunar verða málshefjendur á spjallfundi Græna netsins um landsskipulag á laugardaginn 6. september. Fundurinn er haldinn á Kaffi Hljómalind á Laugavegi 23 í Reykjavík, kl. 11 árdegis.
Ákvæði um landsskipulag í skipulagslagafrumvarpi umhverfisráðherra hafa valdið ágreiningi meðal sveitarstjórnarmanna og þingmanna, og veruleg andstaða hefur komið fram við þau innan Sjálfstæðisflokksins. Náttúruverndarmenn hafa hins vegar lagt mikla áherslu á landsskipulag sem leið til að rjúfa alveldi sveitarfélaga í skipulagsmálum og koma að almannahagsmunum.
Þegar þessi auglýsing er skrifuð er enn ekki ljóst hvort málið verður afgreitt á nýhöfnu septemberþingi en það skýrist væntanlega fyrir fundinn á laugardag þar sem Helgi segir frá gangi mála á þinginu. Sigurður segir okkur aftur á móti frá helstu þáttum hugmynda um landsskipulag og hvernig það virkar í grannlöndum.
Ef vel liggur á stjórninni er hugsanlegt að hún leggi fyrir fundinn tillögu til ályktunar um þessi mál.
Allir velkomnir á fundinn á Hljómalind.
Stjórnin
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2008 | 14:40
Óskar III og pólitískt umboð
Í prófkjöri Framsóknarflokksins fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar sigraði Björn Ingi Hrafnsson með yfirburðum, Anna Kristinsdóttir hafnaði í 2. sæti og Óskar Bergsson í því þriðja. Anna Kristinsdóttir tók niðurstöðunni illa, hætti við að taka 2. sætið og Óskar fluttist því upp í annað sæti á lista.
Í framhaldinu náði Framsóknarflokkurinn naumlega að koma einum manni, Birni Inga Hrafnssyni, að í borgarstjórn sem eftir tæp tvö ár hætti sem borgarfulltrúi. Þar með var Óskar III orðinn borgarfulltrúi Framsóknarflokksins.
Þjakaður kvíða yfir ítrekuðu pilsnerfylgi í skoðanakönnunum sumarsins ákvað hann - í andstöðu við varaborgarfulltrúa sinn - að mynda nýjan meirihluta í borgarstjórn með trausti rúnum borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins.
Hann hefur lýst skorti á stuðningi varaborgarfulltrúa síns og veiku pólitísku umboði sínu sem tækifæri. Sú staðreynd að hann þarf ekki að nota Marsibil hefur veitt honum tækifæri til að leita neðar á listann og í "hinn harða kjarna" flokksins eftir hentugum samstarfsmönnum. Mönnum eins og Gunnlaugi Sverrissyni, 14. manni á lista flokksins sem naumlega kom einum manni að í síðustu kosningum.
Óskar lýsti mannkostum Gunnlaugs í morgunútvarpinu um daginn. Af því hann er líkt og Óskar smiður sem hefur bætt við sig viðskiptamenntun og "traustur vinur" telur Óskar Gunnlaug hæfastan manna til að gegna stöðu stjórnarformanns Orkuveitunnar og að leysa hann af við að stjórna framkvæmdaráði borgarinnar.
Og auðvitað er þetta rétt hjá Óskari. Það eru tækifæri en ekki galli að vera laus við fólk með pólitískt umboð kjósenda. Óskar veit af reynslunni að fólk með pólitískt umboð getur oft verið erfitt í samstarfi. Sumt jafnvel með sannfæringu og telur sig skuldbundið kjósendum sínum til að hafa óhentugar skoðanir.
Traustur vinur getur hins vegar eins og allir vita gert kraftaverk!
![]() |
Vafi um kjörgengi varafulltrúa Framsóknarflokks í borgarráði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.9.2008 | 11:30
Hárbeittar athugasemdir
Þetta opna bréf er afar kurteislegt en athugasemdir þess eru jafn beittar og raunveruleikinn er bitur sem þær afhjúpa. Af hverju er það minna metið að taka á móti börnum í heiminn og tryggja öryggi þeirra og mæðra þeirra en að senda fólki greiðsluáskorun eða kæru?
![]() |
Opið bréf til fjármálaráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.9.2008 | 18:08
Heyr! Heyr!
Ég tek undi hvert orð í ályktun kvennahreyfingar Samfylkingarinnar. Það er til skammar að það skuli ekki vera hægt að semja við þessa mikilvægu stétt.
![]() |
Samfylkingarkonur vilja lausn ljósmæðradeilu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.9.2008 | 14:48
When the going gets tough...
Allir eru sammála um að halda uppi góðu atvinnustigi í landinu. Enn er þó ekki ástæða til að hafa áhyggjur því samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Vinnumálastofnun er atvinnuleysi ekki nema 1.1% og er nánast hvergi minna á byggðu bóli.
Allt dómsdagstal í atvinnumálum er því ótímabært. Enn er hátt á annan tug þúsunda farandverkamanna í byggingarvinnu og öðrum verkamannastörfum í landinu. Nú þegar um hægist er búist við að stór hluti þeirra hverfi aftur til síns heima. Það er eðlilegt. Uppgripunum er lokið í bili og nú þarf að ná jafnvægi. Það er gott að stjórnvöld vilji styðja við bakið á atvinnulífinu. Ég vona hins vegar að þær aðgerðir einskorðist ekki við byggingaiðaðinn, það væri einföldun og skammsýni.
Undanfarin misseri höfum við horft upp á heilu árgangana af verkfræðingum hverfa inn í bankana að telja peninga. Nú eru blikur á lofti í þeim geira og þá eiga stjórnvöld að vera framsýn og auka fé til rannsókna og nýsköpunar. Við þurfum að efla hátækni- og þekkingariðnaðinn sem í nágrannalöndum okkar er helsti vaxtarsprotinn í atvinnulífinu, sá sem flest störf skapar og sá sem mestan virðisauka gefur.
Við eigum líka að horfa til upplifunariðnaðarins sem er vex gríðarlega með hverju árinu sem líður. Latabæjarævintýri Magnúsar Scheving ætti að blása okkur kjarki í brjóst. Fréttir af því hvernig erlendir aðilar hópast inn í landið til að taka upp og framleiða hér auglýsingar og kvikmyndir ættu líka að vera okkur hvatning til góðra verka og nýrra hugmynda.
Nú er tíminn til að veðja á íslenska frumkvöðla. Það er einmitt þegar um hægist sem slíkir aðilar blómstra.
![]() |
Forgangsverkefni að tryggja fulla atvinnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.9.2008 | 13:28
Lýðskrum
Því miður verður að segjast eins og er að þessi tillaga Ólafs F Magnússonar er lýðskrum. Það er ekki hægt að kjósa aftur og aftur í stórum málum eftir því hvernig vindurinn blæs. Þá er munurinn á íbúakosningu og skoðanakönnun orðinn harla lítill. Spurning hvort Ólafur F vill ekki frekar efna til íbúakosningar um það hvort hann sitji áfram sem borgarfulltrúi eða að Margrét Sverrisdóttir taki sæti hans.
Flugvallarmálið er í góðum farvegi. Allir helstu aðilar sem málið varðar hafa undanfarin misseri unnið að því í sameiningu að kanna möguleika á öðrum stað fyrir flugvöllinn. Sú vinna er vel á veg komin. Á meðan hefur verið unnið að skipulagi byggðar í Vatnsmýrinni og framkvæmdir eru hafnar við byggingar í jaðri svæðisins, s.s. við nýja og glæsilega byggingu HR.
Vill Ólafur F henda allri þessari vinnu að lausn málsins út um gluggann? Eða er hann bara að reyna að slá pólitískar keilur?
Það er vert að hafa í huga að þegar kosning um framtíð flugvallarins fór fram árið 2001 hvatti Sjálfstæðisflokkurinn - með Ólaf F Magnússon um borð í galeiðunni - borgarbúa til að sniðganga kosningarnar.
![]() |
Vill láta kjósa á ný um Reykjavíkurflugvöll |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.8.2008 | 12:12
Gott hjólaveður úr Grafarvogi!
Það var öldungis prýðilegt hjólaveður úr Grafarvoginum og niður í bæ þegar ég hjólaði til vinnu í morgun. Í raun meiri þörf á bremsum en fótstigum.
Minnti mig á það þegar danskur stjórnmálamaður lofaði öllum hjólreiðamönnum vindi í bakið ef hann næði kjöri. Hann náði kjöri og varð oddamaður í meirihluta. Þegar hann var inntur eftir loforði sínu sagði hann að í svona samstarfi væri gott ef maður gæti náð í gegn helmingnum af baráttmálum sínum. Hjólreiðamenn myndu því fá meðvind aðra leiðina!
Nú er bara að sjá hvernig veðrið verður á leiðinni heim í lok dags.
![]() |
Óveður undir Hafnarfjalli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.8.2008 | 10:18
Heildstæður skóladagur í leik og starfi
Ég hef undanfarin haust skrifað margt um biðlistana á frístundaheimili borganna enda ærin tilefni til.
Ástandið hefur að mörgu leyti verið skrifað á lág laun og þenslu á vinnumarkaði og því takist ekki að manna frístundaheimilin. Þetta er eflaust stór hluti af skýringunni en við það má líka bæta að vinnuaðstaðan er víða léleg og vinnufyrirkomulagið óhentugt.
Það eru ekki mjög margir sem geta látið sér nægja að vinna frá 14 - 17 á lágum launum. Það er heldur ekki góð nýting á húsnæði frístundaheimilanna að hafa það tómt frá 8 - 14. Það þarf að tvinna betur saman námið og leikinn/frístundina í skóladeginum. Skapa heildstæðan skóladag með leik og starfi fyrir börnin okkar.
Eins og Oddný Sturludóttir borgarfulltrúi Samfylkingarinnar bendir á í bloggfærslu lét Tjarnarkvartettinn þessi mál sig miklu varða og benti á leiðir til lausnar.
Nú hefur borgarstjóri tekið undir hugmyndir okkar og það er vel. Henni er frjálst að taka þessar hugmyndir og gera að sínum. Mestu máli skiptir að leysa vandann.
Góðar hugmyndir, rétt eins og gróður jarðar, þarf frjóan jarðveg til að spretta og vaxa. Hvort hugmyndir okkar um heildstæðan skóladag ná að vaxa í jarðvegi sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn verður tíminn að leiða í ljós.
![]() |
Lyklabörn vegna manneklunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)