17.9.2008 | 10:54
Í útrýmingarhættu
Of hátt gengi skapaði undanfarin misseri svipuð skilyrði hjá almenningi og þegar maður fær vegna kerfisvillu ofgreidd laun í einhvern tíma. Það er gaman á meðan á því stendur en því erfiðara þegar þarf að greiða skuldina til baka. Sérstaklega er hætt við að staðan verði erfið hjá þeim sem lægstu launin hafa því með lækkun krónunnar hafa allar nauðsynjar s.s. matur og föt hækkað umtalsvert.
Það virðist vera að enn sé talsvert til af fatnaði sem verslanirnar keyptu áður en krónan féll og eru nú með á útsölu. Eftirspurnin hefur líka minnkað, fyrir hálfu ári voru verslunarmiðstöðvarnar fullar af fólki allan daginn og langt fram á kvöld eins og þar væri menningarhátíð á hverjum degi. Það er breytt.
Mér hefur reyndar alltaf ofboðið verðið á fatnaði hér. Hvernig stendur á því að það er tvöfaldur og jafnvel þrefaldur munur á verði á ósköp venjulegum fötum? Hvernig dettur einhverjum í hug að selja venjulegan bol eða skyrtu á 8-9 þúsund krónur? Af hverju kosta gallabuxur 18 þúsund krónur?
Heyrði skemmtilega sögu um daginn af konu sem var að skoða prjónaða tískuflík í verslun. Verðmiðinn hljóðaði upp á 50 þúsund krónur og konan lyfti upp flíkinni og spurði afgreiðslustúlkurnar: "Fyrirgefið, er þessi flík prjónuð úr ull af einhverri dýrategund sem er í útrýmingarhættu?"
Margir telja krónuna vera í útrýmingarhættu. Vonandi er það þó rétt mat en ekki óskhyggja hjá greiningardeild Glitnis að gengi hennar hækki aftur á næsta ári.
![]() |
Há gengisvísitala stenst ekki til lengri tíma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.9.2008 | 10:15
Valgerður brýnir kutann
Framsóknarmenn segja að með niðurstöðu nefndar um gjaldeyrismál hafi formanni flokksins verið stillt upp við vegg og jafnvel tvo frekar en einn því hann hafi verið kominn út í horn.
Þeim fjölgar sífellt sem vilja leyfa Brúnastaðabóndanum að eiga þar athvarf sitt og velja sér nýjan formann. Þar kemur Valgerður sterkust inn, enda eini framsóknarmaðurinn á þingi sem eitthvert bit er í. Hún veit líka hvað hún syngur í gjaldmiðilsmálum og hefur vitað lengi.
Eins og frægt er hafa sumir sem áður hlógu að tillögum hennar í þessum efnum nú tekið þær upp og gert að sínum.
16.9.2008 | 18:29
Stjaksettir hausar
Það er ofboðslega 1900 og eitthvað þessi árátta stjórnmálamenn að stjaksetja hausa af merkilegum körlum. Er ekki hægt að gera eitthvað annað til að votta þeim virðingu?
![]() |
Vilja láta gera styttu af Tómasi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.9.2008 | 18:24
Gott hjá skólameistara
Auðvitað er fráleitt að krakkar undir sjálfræðisaldri séu sendir í fyllerísferð á vegum skólans. Svona óvissuferðir, hvort sem um nemendafélög eða fyrirtæki er að ræða eiga til að fara verulega úr böndunum.
Hins vegar er óvissuferð réttnefni, það ríkir oft mikil óvissa um afdrif fólks og orðspor skóla/fyrirtækja í svona ferðum. Það er eins og mann rámi á að þessar ferðir MÍ hafi stundum þótt fréttnæmar.
Það getur verið erfitt að brjóta niður vondar hefðir og skapa nýjar og betri. Það hlýtur þó að mega fá nemendur til að gera óvissuferðina að áfengislausri en skemmtilegri ferð. Það er hægt að gera margt spennandi saman án þess að detta í það. Það er líka nóg af tækifærum til þess og í raun óþarfi að draga skólann inn í svoleiðis.
Það þarf hins vegar sterka forystu nemenda til að leiða svona breytingar. Spurning hvort verður ofan á baráttan fyrir bjórferð eða eitthvað annað.
![]() |
Hætt við óvissuferð vegna slæms orðspors nemenda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.9.2008 | 15:35
Heyr Geir!
Þetta er gott að heyra. Ég hef lengi talið að við ættum að stefna að því að verða sjálfbært orkusamfélag. Það er spennandi verkefni og við ættum að geta fengið fremstu vísindamenn í heimi með okkur í lið við að finna leiðir til þess. Landið er kjörið tilraunaverkefni og eflaust væru margir stórir aðilar tilbúnir til samstarfs, rétt eins og sannaðist á vetnisstrætóverkefninu en það er eitt þekktasta af slíkum verkefnum í heiminum.
Nú er búið að segja A, ég bíð spenntur eftir B.
![]() |
Leita leiða til að örva sjálfbæra orkugjafa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.9.2008 | 09:03
Greiðar samgöngur og græn hverfi
Undanfarin misseri hafa íbúar risið upp víða um borgina og mótmælt ýmsum fyrirhuguðum umferðarmannvirkjum í nágrenni sínu. Það er andstaða við stórkarlaleg mislæg gatnamót á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar, andstaða við að gera Hallsveg að hraðbraut í gegnum Grafarvoginn og íbúar við Miklubraut vilja setja hið háværa, stríða og mengandi stórfljót bíla eftir Miklubraut niður í jörðina. Dæmin eru mikið fleiri.
Í samráðshópi sem ég sit í nú um lausn á deilunum um Hallsveg byrjaði hópurinn á að setja sig inn í spár um aukningu umferðar. Eins og flestir vita hefur bílaeign og bílaumferð aukist gríðarlega undanfarin ár og umferðarspárnar gera ráð fyrir að þessi þróun haldi stöðugt áfram. Vegna þessa stóradóms telja ýmsir að skilyrðislaust beri að samþykkja breiðari götur og fleiri umferðarslaufur. Það sé óábyrgt fólk sem setur sig upp á móti slíkum áformum. Er þetta svo ekki nákvæmlega sama fólkið og vill komast á 15 mínútum úr úthverfunum niður í miðbæ, eitt í bíl á háannatíma? heyrist stundum sagt í lágum hljóðum. Þetta fólk verður að velja hvort það vill greiðar samgöngur eða græn hverfi. Þessu er ég ósammála. Við eigum að velja þriðja kostinn, greiðar samgöngur og græn hverfi. Hvort það er hægt veltur þó að miklu leyti á okkur sjálfum en einnig á framtíðarskipulagi borgarinnar.
Umferðin, sem ætlað er að fara eftir Hallsvegi er annars vegar umferð innan hverfisins og hins vegar gegnumstreymisumferð til og frá Sundabraut. Við vitum það öll sem eigum þátt í að skapa umferð innan hverfisins að talsvert af henni er ónauðsynlegt. Hver hefur ekki einhvern tímann horft á bílana fyrir framan sig mjakast áfram og spurt sig af hverju allt þetta fólk fer ekki í strætó eða á hjóli og af hverju svona margir eru einir í bíl? Þetta eru spurningar sem er líka gott að spyrja sjálfan sig. Af eintómri ást og væntumþykju skutlum við líka stálpuðum börnum okkar í skólann og á íþróttaæfingar í stað þess að sammælast við foreldra hinna barnanna um að hvetja þau til að verða samferða gangandi, hjólandi eða í hverfisstrætó.
Með því að nota bílinn eins og sérbýli, úlpu og ónauðsynlega bómull utan um börnin okkar eigum við sjálf þátt í að skapa þörf fyrir hraðbrautir í gegnum hverfin okkar.
Nú er að hefjast alþjóðleg samgönguvika og í ár hefur Grafarvogurinn verið valið samgönguhverfi borgarinnar. Í því felast mörg kærkomin tækifæri.
Í fyrsta lagi gefur þetta meirihlutanum í borgarstjórn tækifæri til að endurskoða áform sín um tafarlausa tengingu Hallsvegar við Vesturlandsveg en eins og Samfylkingin sagði réttilega fyrir kosningar 2006 er engin þörf á slíkri tengingu fyrr en Sundabraut hefur verið byggð alla leið upp á Kjalarnes. Meira að segja samgönguyfirvöld með sína dómsdagsspá um bílaumferð næstu áratuga tekur undir það.
Útnefning Grafarvogs sem samgönguhverfis ársins gefur okkur líka tilefni til að endurskoða umferðarspár borgarinnar með þann möguleika í huga að fleiri noti strætó til og frá vinnu, að aðstaða fyrir hjólreiðafólk verði bætt og að ung börn geti farið í íþróttir og tómstundastarf sem næst heimili sínu strax að loknum skóla. Hugmyndir Samfylkingarinnar um "samfelldan skóla- og frístundadag" og "burt með skutlið" er innlegg í slíka endurskoðun.
Það þarf að efna til opinnar og hreinskiptinnar umræðu um samgöngu- og skipulagsmál í stærra samhengi. Umræðu sem öll hverfi borgarinnar og nágrannasveitarfélög gætu tekið þátt í og lært af. Þar mætti t.d. ræða hvort réttur hvers borgarbúa til að ryðja sér land og byggja lítið Hús á sléttunni umhverfis borgina á að vera frumkrafa eða hvort við eigum að stefna að því að margir geti þess í stað keypt sér íbúð í fjölbýli miðsvæðis í borginni.
Við stöndum nú í þeim sporum að þegar við skipuleggjum ný úthverfi í borgarjaðrinum fyrir þrjátíu þúsund íbúa gerum við núverandi úthverfi að gegnumstreymishverfum með tilheyrandi hraðbrautum. Ef við byggjum upp alvöru borgarhverfi miðsvæðis í borginni getum við bæði staðið vörð um lífsgæðin í núverandi úthverfum og skapað í miðborginni þau lífsgæði að vera í strætó, göngu- og hjólafæri við vinnu, skóla og alla helstu þjónustu.
Hér er um of mikilvægar ákvarðanir að ræða til að þær séu teknar umræðulaust af reiknilíkönum samgönguyfirvalda. Þessar ákvarðanir þarf að ræða og taka af fólkinu í hverfum borgarinnar, fólkinu á bak við stýrin.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.9.2008 | 12:00
Welcome again anytime
It has certainly been a pleasure to have our Scottish neighbours over for a visit. Surly they finished up all the beer so we´ll have to drink water for the next two or three weekends but that´s OK.
Having seen all kinds of bad publicity about football fans it´s a pleasant surprise to see the city filled up by hundreds of polite and well behaved Scotchmen in kilts. They even gave a donation to the children hospital!
They set good example to others and give both Scotland and the sport of football a good image. Be welcome again anytime.
![]() |
Skotarnir drukku stíft á börunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.9.2008 kl. 16:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.9.2008 | 12:14
Sprungið á hjólinu í morgun
Þegar ég ætlaði að sveifla mér í hnakkinn á hjólinu í morgun sá ég mér til hrellingar að það var sprungið á afturdekkinu. Veit ekki hvað veldur en þetta er í 5 skipti frá því ég byrjaði að hjóla í vor. Dálítið pirrandi og ef einhver er með góð ráð væri ég feginn að fá þau.
Ég skellti mér í skrifstofugallann og korteri seinna var ég kominn upp í strætó þéttsetinn ungum sem öldnum. Það var gaman að fara eftir nýju forgangsakreininni fram úr öllum sem voru að fara einir í bíl í vinnuna.
Það er brýnt að fá svoleiðis akrein í báðar áttir og alveg frá Höfðabakkabrúnni og vestur úr. Og eins eftir suður-norður ásnum frá Hafnarfirði að Sæbraut. Þá fyrst fer fólk að skila sér í strætó þegar það sér að það tekur bara 15 mínútur að fara með strætó niður í bæ en 30 mínútur í bíl á háannatíma.
Ég var snöggur í bæinn, seinni partinn þarf ég að mæta á fund í Árbæjarsafni og nokkru síðar í Miðgarði í Rimahverfinu. Búinn að slá því upp á www.straeto.is og sé að þetta er einfalt mál. Ég er 20 mínútur upp á Árbæjarsafn og þaðan er ég korter yfir í Miðgarð.
Það skemmtilegasta við að taka strætó er að maður hittir oft gamla kunningja sem maður hefur ekki rabbað við lengi. Um daginn varð ég samferða gömlum skólafélaga frá Reykhólum sem vinnur í næstelstu verslun Laugavegarins. Hann tekur alltaf strætó og hefur ekki séð tilganginn í því að taka bílpróf. Við ræddum um Laugaveginn, verslunina Brynju og þá blandaði sér í umræðuna kona sem hefur lengi unnið í verslun Guðsteins. Mjög fróðlegt og skemmtilegt spjall.
Við Oddný Sturludóttir tökum stundum strætó, félagar mínir í Græna netinu eru duglegir við þetta líka en sá ágæti hópur notaði einmitt strætó í vettvangsferð sína í Mosfellsbæinn í fyrravor. Þegar ég tók strætó úr Logafoldinni upp í Egilshöll á landsfund Samfylkingarinnar fyrir rúmu ári fannst mér gaman að rekast þar á Dag B Eggertsson sem var á leiðinni á sama fund.
Ég man ekki til þess að hafa séð borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í strætó. Í upphafi kjörtímabilsins héldu þeir að ég hefði misst prófið vegna drykkju af því ég kom alltaf á hjóli eða með strætó. Viðhorf fólks mótast auðvitað af reynslu hvers og eins.
9.9.2008 | 17:32
Að bulla, bulla og áfram bulla
Mikið var hressandi að heyra Jónas Haralz, hagfræðing og efnahagsráðgjafa viðreisnarstjórnarinnar, slá út af borðinu það sem ýmsir málsmetandi menn hafa undanfarið haldið fram; að áframhaldandi stjóriðja sé helsta og jafnvel eina lausn efnahagsvanda þjóðarinnar. Að álversbygging sé aðkallandi og nauðsynlegt verkefni til að afla gjaldeyris, skapa störf og útvega íslenska efnahagskerfinu það heilbrigðisvottorð sem það svo sárlega þarfnast. En skoðum hana aðeins nánar. Trúna á stóriðjubjargráðið.
Samkeppnisstaða
Nýlega var boðin út bygging Sæmundarskóla í Reykjavík. Erlendur aðili var með lægsta tilboðið. Líklegt er að slíkt endurtaki sig í Helguvík, ekki síst af því fjármagnskostnaður er hér til muna hærri en annars staðar. Hagfræðingar hafa slegið á að nettóinnstreymi af 6070 milljarða framkvæmdum gætu orðið um 23 milljarðar á ári í þrjú ár. Á það að bjarga gjaldeyrisstöðunni? Setjum þessa tölu í samhengi. Verðtryggðar skuldir heimilanna eru um 1.300 milljarðar króna. Í 14% verðbólgu munu þær hækka um 182 milljarða á ári. Er líklegt að álver lagi það?
Atvinnuástand
Vegna ótryggs efnahagsástands óttast margir atvinnuleysi nú í vetur. Slíkar áhyggjur eru skiljanlegar en þó er vert að hafa í huga að enn er hátt á annan tug þúsunda erlendra farandverkamanna við störf í landinu. Atvinnuleysi mælist 1,2% sem er eitt það lægsta á byggðu bóli. En segjum að við blasti atvinnuleysi. Finnst fólki líklegt að besta leiðin til að bjarga fólki frá atvinnuleysi í vetur væri að byggja álver sem skaffar 200 manns vinnu eftir 25 ár?
Alþjóðleg bankakreppa
Það er lausafjárkreppa í heiminum. Á Íslandi bætist við sú staðreynd að íslenska krónan er óstöðugur gjaldmiðill og skuldir almennings og fyrirtækja eru þær hæstu í heimi. Bankarnir standa höllum fæti og Seðlabankinn þykir ekki traustur lánveitandi til þrautavara gagnvart gríðarlegum umsvifum íslenskra banka erlendis. Að lækna slíkt ástand með því að fá erlenda aðila til að byggja álver er hins vegar álíka líklegt til árangurs og að gefa fíl með alvarlega inflúensu hálfa magnýl. Tveimur árum síðar. Hvaða dýralæknir myndi gera það?
Ábyrg umræða
Það var ánægjulegt að heyra formann Samfylkingarinnar slá þessa hugmynd um stóriðjubjargráðið út af borðinu í umræðum um efnhagsmál á Alþingi í síðustu viku. Það er okkur ekki hollt að hugsa og tala um virkjanir og álversbyggingar sem skammtímareddingu. Sjúss í þynnkunni.
Við eigum að nýta orkuauðlindir landsins en af fyllstu varfærni gagnvart náttúrunni. Þess vegna er lykilatriði, líkt og formaður Samfylkingarinnar benti á, að klára Rammaáætlun um verndun og aðra nýtingu náttúrusvæða. Og við eigum að vanda okkur frekar en flýta.
Orkupólitík
Við eigum einnig að gera fyllstu kröfur um arðsemi virkjana, fjölda starfa og virðisauka af hverju megavatti. Nú skapa 75% íslenskrar orku einungis 1% allra starfa í landinu. Ætti ekki að vera hægt að gera eitthvað meira og verðmætara úr allri þessari orku? Alls kyns fyrirtæki standa nú í röð eftir að fá að kaupa orku. Fremst standa hins vegar orkufrekjurnar í Helguvík og á Bakka svo aðrir fá lítið sem ekkert til sinnar starfsemi. Er kannski brýnasta aðgerðin í orkumálum að segja upp lausum samningum við álverin og losa um rafmagn til þeirra aðila sem bæði skila okkur fleiri störfum, meiri gjaldeyristekjum og virðisauka inn í samfélagið?
Bullið burt
Stóriðjupredikunin boðar einfalda lausn á bráðum vanda. Gallinn er bara sá að vandinn er flókinn og það er engin einföld lausn til. Hlutverk stjórnmálamanna er að skapa viðskiptalífinu góð almenn skilyrði til vaxtar. Það mistókst síðustu ríkisstjórn hrapallega, góðærið var tekið að láni eins margir bentu á og nú er komið á daginn. Þá er freistandi að predika einfaldar lausnir. Það er hins vegar ábyrgðarlaust. Vonandi hefur Jónas hringt bjöllum á réttum stöðum. Og bullið burt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.9.2008 | 15:02
Að rasa um ráð fram
Þótt við Íslendingar séum býsna djarfhuga, hugmyndaríkt og öflugt fólk upp til hópa þá verður að segjast eins og er að oft ætlum við okkur um of. Stundum væri hyggilegt að fara hægar.
Við erum vissulega með fremstu þjóðum í nýtingu jarðhita bæði til hitaveitu og raforkuframleiðslu. Það er hins vegar miklu meira af óupplýstum leyndardómum á þessu sviði en upplýstum. Eins og Orkustofnun og ýmsir leikir og lærðir bentu á í umræðunni um Bitruvirkjun er alls ekki nægilega mikið vitað um jarðhitageyminn í Henglinum. Hugsanlegt er að hann hafi verið talsvert ofmetinn.
Nú erum við að nýta um 13% af þeirri orku sem upp úr jörðinni kemur. Hitt fer að mestu til spillis. Það er mjög mismunandi hvort orkugeymarnir sem verið er að nýta eru orkulindir - þ.e. hvort hitinn endurnýjast vegna tengingar við kvikuhólf - eða hvort þarna er um jarðhitanámu að ræða sem kólnar jafn hratt og hún er nýtt.
Meirihluti IV - með Óskar III og Gunnlaug XIV í fararbroddi orkumála - vill sliga hið ágæta fyrirtæki OR með skuldum til að geta virkjað við Bitru um leið og við stækkum Hellisheiðarvirkjun um helming og virkjum í Hverahlíð. Að sjálfsögðu í nafni atvinnusköpunar og framfara. Dýr myndi Hafliði allur.
Væri ekki nær að fara sér hægar, safna þekkingu og aga okkur í tillitsemi við umhverfið? Sérstaklega af því við höfum jú útnefnt okkur sjálf sem alþjóðlega leiðtoga á sviði jarðhitanýtingar.
![]() |
Gróður drepst vegna mengunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)