Nóg komið af DO

Enginn einstaklingur ber ríkari ábyrgð á því ástandi sem nú hefur myndast í efnahagslífinu en einmitt Davíð Oddsson, fyrst sem forsætisráðherra og svo sem aðalbankastjóri Seðlabankans.

Það er löngu tímabært að hann axli ábyrgð á axarsköftum sínum og að faglega verði staðið að ráðningum í hið mikilvæga starf Seðlabankastjóra. Það er ekki hægt að hafa þar mann sem hefur afar takmarkaða fagþekkingu - allra síst þegar sú takmarkaða þekking er iðulega ofurliði borin af heift mannsins í garð ýmissa aðila í samfélaginu.

Að setja fram hugmyndir af þesu tagi - þjóðstjórn til að hreinsa upp eftir efnahagsmistök hans sjálfs - er ekki boðleg framkoma af embættismanni í hans stöðu. Það er komið mikið meira en nóg af DO.


mbl.is Seðlabankastjóri viðrar hugmynd um þjóðstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Axlir og ábyrgð

Hún er athyglisverð þessi fréttaskýring á visir.is. Þar segir meðal annars:

Gengisvísitalan er komin í 205 stig sem þýðir að dollarinn kostar 111 krónur og hefur aldrei verið dýrari í sögunni. Þetta segir aðeins eitt, Seðlabankinn er alls ekki starfi sínu vaxinn. Raunar þegir bankastjórn Seðlabankans þunnu hljóði meðan að gjaldþrot blasir við hjá fjölda heimila og fyrirtækja. Einkum þeim sem létu ginnast af gylliboðum bankana um myntkörfulán á undanförnum einu til þremur árum.

Vanhæfi Seðlabankans liggur að mestu hjá einum manni, Davíð Oddsyni seðlabankastjóra. Öfugt við öll önnur vestræn lönd er aðalbankastjóri Seðlabankans hér hvorki hagfræði- eða viðskiptamenntaður né með sérstaka reynslu í fjármálum. Og því fer sem fer.

Það er þó tæpast við því að búast að sá sem höfuðábyrgð ber á ástandinu axli ábyrgð með því að standa upp og hleypa hæfari einstaklingi að.


Rangt hjá Margréti Pálu

Eins og Oddný Sturludóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, bendir á er það alrangt að Laufásborg fái lægra framlag frá borginni en borgarreknu leikskólarnir. Það er í raun óskiljanlegt að framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar ehf skuli ekki vita betur því ekki vil ég ætla henni að hagræða sannleikanum.

Ég þekki og þykir vænt um Laufásborg frá því dóttir mín var þar á leikskóla fyrir um 6 árum. Laufásborg starfaði þá eins og nú í anda Hjallastefnunnar sem er mjög áhugaverð fyrir margra hluta sakir. Leikskólinn var í eigu og umsjá borgarinnar en hafði fullt frelsi til að þróa sig áfram samkvæmt þessari hugmyndafræði og án þess að lasta aðra leikskóla má fullyrða að Laufásborg hafi verið í hópi bestu leikskóla borgarinnar.

Ég hef þess vegna aldrei skilið af hverju það var svona nauðsynlegt að borgin gæfi Hjallastefnunni ehf Laufásborg. Þegar við bættist að Hjallastefnunni var heimilað að rukka 15% hærri gjöld en öðrum leikskólum tók steininn úr og Samfylkingin greiddi atkvæði gegn tillögunni.

Reyndar var látið í veðri vaka að það myndi aldrei reyna á þetta heimildarákvæði - einmitt af því leikskólinn fær jafn mikið og borgarreknir leikskólar. Annað hefur núna komið á daginn.

En af hverju var einn af bestu leikskólum borgarinnar færður Hjallastefnunni ehf að gjöf?
Var það fyrir börnin? Varla því skólinn starfaði eftir stefnunni áður og engin breyting hefur orðið á því.
Var það fyrir foreldrana? Varla því ekki er það þeim í hag að þurfa að borga 15% meira fyrir sömu þjónustu.
Var það fyrir Hjallastefnuna ehf?


mbl.is Laufásborg hækkar skólagjöld um 15%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipbrot peningamálastefnunnar

Gríðarleg lækkun krónunnar eykur á verðbólgu því allar erlendar vörur og þjónusta hækkar í verði. Samkvæmt verðbólgumarkmiðum peningamálastefnunnar á að nota stýrivexti til að lækka verðbólgu. Ef Seðlabankastjóri ætlar að vera sjálfum sér samkvæmur hlýtur hann að vera að undirbúa frekari hækkun stýrivaxta!

Staðan er sú að það ríkir frost á erlendum fjármálamörkuðum vegna lausafjárskorts og vantrausts á fjárfestingar undanfarin ár. Á Íslandi glímum við til viðbótar við vantraust umheimsins á krónunni. Til að bæta gráu ofan á svart er hin veika króna ekki einu sinni nothæf innan lands af því hún er á of háum vöxtum til að það borgi sig að taka hana að láni.

Því miður eru engar töfraaðgerðir til sem leiðrétta gengi krónunnar. Það væri hægt að setja lög og festa með því gengið í ákveðinni vísitölu en það myndi ekki auka trúverðugleika gjaldmiðilsins út á við, þvert á móti.
Það hefur verið bent á einhliða upptöku Evru eða Svissnesks franka sem möguleika en menn greinir á um hvort það sé raunhæf aðgerð. Svartfjallaland mun hafa tekið Evru upp einhliða - opinberlega í trássi við ESB en þó með aðstoð seðlabanka bandalagsins. Hugsanlega væri slík leið þrautalending.

Það er alla vega ljóst að peningamálastefnan hefur beðið algert skipbrot með hörmulegum afleiðingum fyrir almenning.


mbl.is Gengisvísitalan yfir 200 stig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfuðpaurinn

SkuggiÞað er margt skrifað og skrafað um þátt Davíðs Oddssonar í þessari niðurstöðu. Líklega verða menn aldrei á eitt sáttir um hvað er til í því. Ég held að fólki hætti til að ofmeta mátt hans. Höndin bláa er orðin gigtveik og lúin og strengirnir sem hún heldur um margir trosnaðir eða slitnir.
Hitt er miklu eðlilegra - og málefnalegra - að skoða þátt Davíðs Oddssonar í því séríslenska ástandi sem nú bitnar harðast á landsmönnum.

Það sem kemur harðast niður á fólki í dag er fall krónunnar og himinháir vextir. Þessi staða er komin upp vegna þess vítahrings sem peningamálastefna Seðlabankans hefur komið okkur í.
Seðlabankinn á að halda verðbólgu niðri með því að hækka vexti. Þegar þensla vegna stóriðjuframkvæmda, afnáms bindiskyldu og innrásar banka á íbúðalánamarkaðinn með ódýrt lánsfé fór að keyra upp verðbólguna brást Seðlabankinn við með því að hækka vexti.

Áhættufjárfestar nýttu sér þetta til að græða á vaxtamun og fjárfestu grimmt í íslenskum krónum. Við það hækkaði gengi íslensku krónunnar, magn peninga í umferð jókst enn og Íslendingar gátu keypt erlendar vörur á óeðlilega lágu verði. Viðskiptahallinn við útlönd sló nýtt heimsmet nokkur misseri í röð, alltaf hækkaði Seðlabankinn vextina og alltaf hækkaði gengi krónunnar - þar til blaðran sprakk.

Nú er gengið fallið um 60%, stýrivextir eru yfir 15% og verðbólgan um 14%. Erlend lán fólks hafa vaxið langt umfram áætlanir, flest íslensk lán eru verðtryggð en laun eru það ekki. Þetta er uppskrift að fjárhagslegu hruni almennings.

Á þessu ber Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi seðlabankastjóri höfuðábyrgð. Hann er aðalhöfundur, leikstjóri og aðalleikari í hinni mjög svo raunverulegu og séríslensku kreppu sem nú leggst á landsmenn, auk alþjóðlegrar lánsfjárkreppu.

Það væri nær að ræða þetta en hið lúna þema um Dabba og götustrákana.


mbl.is Erfiðir gjalddagar framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skortur á forsjárhyggju?!

Það er dálítið sérstakt að heyra Sigurð Kára tala um það núna að það hafi verið óráð að leyfa 90-100% lánin. Studdi hann ekki sem þingmaður ríkisstjórnina sem það gerði? Ég hef hvergi séð andmæli hans við því og það væri ágætt að hann birti þau á heimasíðu sinni ef þau hafa einhvern tímann litið dagsins ljós.

Það eru flestir tilbúnir að viðurkenna það núna að hagstjórnin síðustu ár hefur verið vond, að 90% lánin voru vond ákvörðun, að það var rangt að afnema bindiskyldu bankanna og að skattalækkanir á sama tíma og allt þetta og meira til var að gerast var líka vond ákvörðun.

Þegar hins vegar viturt fólk benti á að þetta væri óráðsía, að það þyrfti að hamla við þenslunni með einhverjum ráðum og hemja viðskiptahallann þá kölluðu frjálshyggjupostularnir "Forræðishyggja!!!".

Nú eru margir í sárum sem þá fóru með himinskautum. Sakna forsjárhyggjunnar.


mbl.is "Sem betur fer fór maður ekki til bankanna"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skondið

Það er skondið að fylgjast með þeim viðbrögðum sem þessi gamla hugmynd fær núna allt í einu.

Eins og kom fram í auðlindafrumvarpi iðnaðarráðherra er ekki lagst gegn því að afnotaréttur auðlindar sé leigður út svo fremi sem jafnræðis sé gætt gagnvart þeim sem bjóða í nýtingarréttinn. Þetta er í raun nákvæmlega sama grunnhugsun og Samfylkingin hefur sett fram varðandi sjávarútvegsauðlindina. Að hún ætti að vera í eigu þjóðarinnar en að það væri hægt að leigja nýtingarréttinn til einhvers tiltekins árafjölda ef mönnum sýndist svo.

Þessi hugmynd var mikið rædd þegar Kárahnjúkavirkjun var á teikniborðinu og þá var hugmyndin að virkjunin skyldi fjármögnuð og rekin sem sjálfstæð eining. Það reyndist hins vegar ógerlegt - enginn einkaaðili vildi fjárfesta í fyrirtækinu svo að á endanum var veð tekið í öllum öðrum virkjunum og eigum Landsvirkjunar og ríkisábyrgð fengin fyrir láninu að auki.

Mér er stórlega til efs að það sé yfir höfuð hægt að bjóða rekstur Kárahnjúkavirkjunar hæstbjóðanda af því það hlýtur að vera búið að semja til a.m.k. næstu 20-30 ára við Alcoa.

Ef þetta hins vegar yrði gert myndi væntanlega koma í ljós hvers mikils virði markaðurinn telur slíkar virkjanir vera og eins mætti búast við því að sá aðili sem myndi leigja reksturinn á virkjuninni myndi vilja segja upp álverunum og selja þess í stað orkuna til annarra fyrirtækja - nú eða bara til Færeyja! Álver gætu því ekki treyst á hagstæð kjör á rafmagni til frambúðar.

Það er ástæða til að velta ýmsu vandlega fyrir sér áður en lengra er haldið. T.d. hvort okkur þykir náttúru- og umhverfisvernd standa nægilega traustum fótum gagnvart virkjunaraðilum þegar farið verður að þrýsta á um nýjar virkjanir? Verður búið að lögfesta niðurstöðu Rammáætlunar um verndun og aðra nýtingu náttúrusvæða? Verður búið að lögfesta Landsskipulag? Verður búið að ganga frá friðlýsingu verðmætra svæða með lögum?

Eins og staðan er núna eru engin handföng eða bremsur á framkvæmdir svo framarlega sem viðkomandi sveitarfélag, landeigandi og orkufyrirtæki ná samkomulagi. Álit Skipulagsstofnunar sem ekki er bindandi er m.a.s. harðlega gagnrýnt af hagsmunasamtökum atvinnulífsins en þar á bæ rjúka formenn í fjölmiðla með tár á kinn rétt eins og hefð er fyrir að grátkonur LÍÚ geri þegar þeim er bannað að veiða síðasta þorskinn.

Eins og oft áður hefur Helga tekist að velta upp ótal spurningum sem þarft er að spyrja. Ég vara þó eindregið við þeim tóni sem mér finnst Helgi slá full glannalega að nú sé bjargráðið í "kreppunni" að rjúka til og bjóða upp nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar til næstu áratuga.

Ein þeirra spurninga sem þarf að svara áður en samningar eru gerðir til langs tíma um nýtingu virkjana í almannaeigu er hvað á að gera ef tíminn leiðir í ljós óæskileg áhrif virkjunarinnar sem stjórnvöld ættu með réttu að bregðast við en geta átt erfitt með af því samningar gera ekki ráð fyrir slíkum breytingum.

Mæli með Upstream Battle á kvikmyndahátíð Reykjavíkur, RIFF.


mbl.is Sóknarfæri að selja virkjanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfið fjármögnunarskilyrði

Þótt Edda Rós sé ekki í minni metum á Íslandi en Alan Greenspan úti í heimi verð ég að gera eina athugasemd við þessa spá greiningardeildar Landsbankans.

Fjármögnunarskilyrði íslenskra verktaka eru ekki glæsileg og því bendir fátt til þess að íslenskir aðilar muni vinna tilboð í þau verk Landsbankinn spáir að ráðist verði í á næstu árum. Þetta sjáum við glöggt á tilboðum í byggingu Sæmundarskóla þar sem erlent fyrirtæki var með lægsta tilboðið og líklega munum við sjá meira af slíku á næstunni.

Vegna erfiðrar samkeppnisstöðu íslenskra aðila hefur verið reiknað út að af þeim 60-70 milljörðum sem bygging álvers í Helguvík er talin kosta muni aðeins um 6-9 milljarðar skila sér inn í íslenskt efnahagslíf á framkvæmdatímanum, þ.e. um 2-3 milljarðar á ári.

Með staðhæfingu sinni um að stóriðjuframkvæmdir muni "nú fylla það skarð sem er að myndast vegna alþjóðlegu fjármálakreppunnar" virðist því Landsbankinn vera að vekja falskar vonir. Erfitt er að sjá hvað ætti að vega upp á móti himinháum fjármögnunarkostnaði íslenskra aðila, nema að veðja á að krónan haldist lág og að þar með sé launakostnaður á Íslandi orðinn nógu lágur til að vega upp á móti háum fjármagnskostnaði.


mbl.is Fjárfestingar tengdar stóriðju 440 milljarðar króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að takast hið ómögulega

Ráðstefnan Driving Sustainability er glæsileg í ár ekki síður en í fyrra. Forsetanum mæltist vel eins og endranær og Sigurjóni Árnasyni bankastjóra Landsbankans tókst að komast í gegnum heila ræðu án þess að nefna álver berum orðum.

Athyglisverðasta fyrirlestur dagsins átti hins vegar Svisslendingurinn Bertrand Piccard, frumkvöðull og ævintýramaður en hann hefur t.a.m. unnið sér það til frægðar að fljúga loftbelg í kringum jörðina. Næst ætlar hann að fljúga flugvél í kringum jörðina sem gengur alfarið fyrir sólarorku en það hefur fram til þessa verið talið ómögulegt.

Minnir mig á söguna af froskunum fimm sem duttu ofan í brunn. Þeir reyndu árangurslaust að hoppa upp úr en brunnurinn var of djúpur. Vinir þeirra uppi á brúninni sáu fljótlega að þetta var vonlaust og kölluðu niður "brunnurinn er of djúpur, enginn froskur getur stokkið svona hátt" og smám saman hættu froskarnir að reyna. Nema einn sem hélt stöðugt áfram og viti menn, seint um nóttina rambaði hann á rétta stökkið og náði brúninni!

Og hvaða hæfileika bjó þessi froskur yfir sem hinir höfðu ekki? Jú, hann var heyrnarlaus!


mbl.is Hlutverk Íslands að stíga heillavænleg skref í orkumálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ekki náðist í borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins...."

Það er skemmtilegt að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins skuli einmitt velja þetta starf til að plögga því hvað þau eru alþýðleg og smellin. Hver man ekki eftir því þegar önnur hver frétt endaði á setningunni "ekki náðist í borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins við gerð þessarar fréttar"?

Það má segja mér að þá hafi mætt á símaveri Reykjavíkurborgar.


mbl.is Símadama á borgarstjóralaunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband