8.10.2008 | 20:53
Bestu fréttirnar lengi
Var á kafi í vinnu í tölvunni í dag, með annað augað á fréttamiðlunum, axlirnar komnar upp að eyrum af stressi og beið eftir formlegri tilkynningu um hrun efnahagskerfisins í dag þegar dóttir mín kom blaðskellandi heim úr skólanum.
Hún henti frá sér töskunum og sagði mér í óspurðum fréttum að hún hefði verið í sundi í dag, þau hefðu prófað nýjar æfingar með nýrri tegund af flotkorkum og að það hefði verið rosalega skemmtilegt. Það væri líka búið að setja upp ný leiktæki á skólalóðinni sem væru alveg frábær. Þetta hefði verið alveg frábær dagur. Mig setti hljóðan. Þetta voru bestu fréttir sem mér höfðu verið sagðar lengi.
Með þessum orðum er ég ekki að gera lítið úr þeim erfiðleikum sem við stöndum frammi fyrir. Öðru nær. Margir eru að tapa gríðarlegum verðmætum, margir sjá erlendar skuldir vaxa langt upp fyrir það sem viðráðanlegt er og mörgum fyrirtækjum er hætta búin.
En einmitt í þessum áhyggjum öllum er nauðsynlegt að missa ekki sjónar á því sem mestu máli skiptir. Og hlusta líka á góðar fréttir.
![]() |
Brown hótar aðgerðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.10.2008 | 15:27
Orð eru dýr
Það jók ekki traust heimsins á Íslandi þegar seðlabankastjóri tilkynnti heimsbyggðinni um 4 ma evru lán frá rússum í gær en rússar könnuðust ekki við neitt. Enn er alls óvíst um þetta lán.
Hafi eitthvað verið eftir af trausti í garð Íslands og íslenskra fyrirtækja gufaði það upp þegar breska ríkisstjórnin tilkynnti að Íslendingar hefðu ekki í hyggju að standa við skuldbindingar sínar gagnvart sparifjáreigendum IceSave.
Og þar sem orð eru dýr er víst hyggilegast að setja punkt hér.
![]() |
Eignir standi undir Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.10.2008 | 21:37
Áhugavert viðtal
Hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á DO verður aldrei hægt að segja annað en að hann sé áhugaverður viðmælandi. Hann talar í skýrum frösum og á auðvelt með að setja flókna hluti í einfalt samhengi - stundum um of.
Meginlínan í kvöld var að láta ekki börnin okkar borga erlendar skuldir óreiðumannanna. Svo góður frasi áð hann endurtók hann fimm sinnum - en ég efast bara um að hann standist. IceSave netbankinn var sérstaklega hugsaður til að safna innlánum til að fjármagna hítina og þar eru 500 milljarðar sem virðast ætla að lenda á íslenskum skattborgurum - börnunum okkar - að greiða.
Enn hef ég ekki séð neina umfjöllun um þá eignatilfærslu út úr Landsbankanum sem átti sér stað eftir að ríkið hlutaðist til um málefni Glitnis en 1. október sagði Stöð 2 svo frá;
Straumur mun eignast Landsbanki Securities (UK) Limited og Landsbanki Kepler að fullu, og einnig 84% hlut Landsbankans í Merrion Landsbanki. Kaupverðið er greitt með reiðufé, það er 50 milljónir evra, útgáfu víkjandi láns og sölu útlána.
Hvort þarna voru góðir eða eitraðir bitar seldir á 57 milljarða króna áður en stjórnvöld gripu inn í þurfa kunnugri menn en ég að segja til um en hitt blasir við að íslenskir skattgreiðendur sitja eftir með innlán IceSave.
Spurður um ástæður þess að svona er komið sagði DO ekki hafa gert annað en að veita bönkunum frelsi sem svo hefði verið óvarlega notað. Hann hefði ítrekað varað við stöðunni sem seðlabankastjóri og einkum og sér í lagi við því að lána fólki í erlendri mynt sem hefði tekjur í krónum.
Því miður láðist Sigmari að spyrja af hverju fólk hefði verið svona sólgið í erlend lán. Hvort það gæti verið að verðtryggingin - sundkútur íslensku krónunnar - og verðbólgan, ásamt stighækkandi stýrivöxtum hafi hrakið fólk út stórfellda lántöku í erlendri mynt? Staðreyndin er sú að vaxtasvipa peningamálastefnunnar virkaði aldrei nema sem hvatning til fólks að forða sér úr vaxta- verðbólgu- og verðbótaokri íslensku krónunnar.
Það er auðvitað kjánalegt að á þeim eina og hálfa áratug sem er liðinn frá því við gengum inn í EES skulum við ekki vera löngu búin að afgreiða gjaldeyrisumræðuna. Þar hefur DO ráðið miklu en m.a. vegna andstöðu hans sem leiðtoga Sjálfstæðisflokksins hefur flokkurinn verið bundinn í báða skó, baklandi sínu í efnahagslífinu til sárra vonbrigða.
Í forsætisráðherratíð sinni setti DO núverandi peningamálastefnu af stað. Með henni átti að draga úr þenslu og verðbólgu með því að hækka vexti. Sem forsætisráðherra vann DO hins vegar ötullega að því að gera Seðlabankanum eins erfitt fyrir og hægt var. Þegar bankinn reyndi að hemja þensluna réðst ríkisstjórn DO í þensluhvetjandi stóriðjuframkvæmdir, afnám bindiskyldu bankanna, hellti olíu á eld íbúðarlána með 90% húsnæðislánum og afleitlega tímasettum skattalækkunum.
Sem seðlabankastjóri reyndi hann svo af hörku að sýna að kerfið virkaði en mistókst. Í raun hefur hann sannað að eins og staðið var að málum virkar kerfið alls ekki. Verðbólga og vaxtahækkanir ýttu fólki út í lántöku í erlendri mynt, aldrei mátti ræða ESB eða þá staðreynd að krónan er þungur baggi á atvinnulífi og heimilunum í landinu.
Þetta kom því miður ekki fram í vitalinu, sem eins og áður segir var áhugavert. Því enda þótt viðmælandinn hafi skaðað land og þjóð verulega með því að koma í veg fyrir nauðsynlega umræðu um brýn framfaramál þá verður hann seint talinn daufgerður.
![]() |
Ríkið borgi ekki skuldir óreiðumanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
7.10.2008 | 15:30
Spaugsamir Íslendingar
Þessi aðgerðaráætlun barst mér í tölvupósti, að vísu ekki úr Seðlabankanum svo ég geri svo sem ekki ráð fyrir að hún sé þaðan. Það er auðvitað mikilvægt að hafa húmorinn með í för.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.10.2008 | 09:57
"Sama hvaðan gott kemur!"
![]() |
Seðlabankinn fær lán frá Rússlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.10.2008 | 21:20
Vaxtalækkun afar brýn
Nú verður þegar í stað að vinda ofan af þeirri vitleysu peningamálastefnu sem hér hefur verið keyrð áfram allt of lengi. Nú standa fjölmörg fyrirtæki í góðum rekstri frammi fyrir rekstrarstöðvun og gjaldþroti af því þau geta ekki fjármagnað nauðsynlega þætti í rekstri sínum.
Það vita allir að hinn alþjóðlegi lánamarkaður er frosinn og við því er fátt hægt að gera. Það er hins vegar alger óþarfi að hafa vexti á íslensku Matador peningunum okkar svo háa að engin lögleg starfsemi stendur undir kostnaðinum.
Það er ekki á glapráðalista Seðlabankastjóra bætandi að láta fjölda ágætra fyrirtækja fara í þrot með tilheyrandi atvinnumissi fjölda fólks. Skynsamlegast væri að skipta strax út allri stjórn Seðlabankans og tilkynna um leið verulega lækkun stýrivaxta.
Þýða upp innlenda lánsfjármarkaðinn og freista þess að halda lífinu í innlendri atvinnustarfsemi.
![]() |
Atvinnulífið fái súrefni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.10.2008 | 17:10
Íbúðalánasjóður kaupir erlendu húsnæðislánin
Ef ég hef skilið frumvarpið rétt sem Geir var að kynna rétt í þessu er í því heimild til að taka yfir erlend lán sem fólk hefur tekið til húsnæðiskaupa og bjarga þar með fólki frá þeirri gengisáhættu sem það hefur ratað í með falli krónunnar.
Þetta er gríðarlega mikilvægt því þúsundir einstaklinga eiga um sárt að binda vegna gengisfalls krónunnar. Allar aðgerðir verða að miða að því að bjarga fólki og fyrirtækjum.
![]() |
Neyðarlög sett í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.10.2008 | 10:55
Líka góðar fréttir!
Það er hætt við að margar góðar fréttir týnist í því fréttaflóði ótíðinda sem nú skellur á okkur. Ein slík góð frétt fékk litla umfjöllun á föstudaginn var.
Þá var loks undirritaður samningur um Hátækni- og sprotavettvang á milli fjögurra ráðuneyta og samtaka fyrirtækja á þessu sviði. Meginhlutverk samstarfsvettvangsins er að vinna á markvissan hátt að því að bæta starfsskilyrði og stuðningsumhverfi hátækni- og sprotafyrirtækja. Niðurstaða vinnunnar verður vegvísir til næstu 12 ára en skýr stefna stjórnvalda og stöðugt umhverfi sprotafyrirtækja er þeim gríðarlega mikilvægt.
Við þurfum sannarlega á því að halda að skapa hér aðlaðandi umhverfi fyrir frumkvöðla því þeir eru forsenda þess að við fáum ný og fleiri fyrirtæki á borð við Össur og Marel. Fyrirtæki sem skapa fjölda menntaðs fólks góð störf og landinu nauðsynlegar gjaldeyristekjur.
Það hefur talsvert vantað upp á það hin síðustu misseri að ungt menntað fólk virki hugmyndir sínar, búi til fyrirtæki um þær og vinni að vexti þeirra. Enda kannski ekki skrýtið, af hverju að ráðast í óvissan einkarekstur um skemmtilega hugmynd þegar það bíður eftir þér þægilegur skrifstofustóll í banka og milljón á mánuði í laun?
Nú er staðan önnur, heimurinn stendur frammi fyrir því að gleði og ofurlaun síðustu missera voru lán án innistæðu. Þá komast gömul gildi aftur í tísku og fjárfestar fara aftur að skoða litlar hugmyndir sem með tíma, vinnu og þrautseigja geta orðið stórar. Frekar en að lána þær einhverjum á himinháum vöxtum til að kaupa sér flatskjá eða jeppa.
"When the going gets tough, the tough get going" og nú eru þrátt fyrir allt nokkuð góð skilyrði fyrir frumvköðla. Og með samningi um Hátækni- og sprotavettvang ætlum við að bæta þau enn frekar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.10.2008 | 00:52
Jæja?
Vissulega ber ráðamönnum þjóðarinnar að vera varkárir í orðum og mega ekki mála skrattann á vegginn. Þegar öllum er ljóst að ástandið er grafalvarlegt er þó spurning hve langt er hægt að ganga í því. Hvort sem aðgerðarpakkinn sem gengur út á að efla gjaldeyrisforðann og koma í veg fyrir þrot bankanna vegna alkuls á alþjóðlegum fjármálamörkuðum gengur upp eða ekki er mikil þörf á aðgerðum í þágu almennings.
Því miður er það þannig á Íslandi að bankar þurfa ekki að bera ábyrgð sem lánveitandi fasteignalána og láta sér nægja að hirða fasteignina þegar húsnæðislán eru komin í vanskil heldur er gengið að skuldaranum persónulega. Stundum getur það komið af stað dómínóeffekt og hrakið marga í gjaldþrot vegna vanskila eins.
Nú óttast þúsundir að geta ekki greitt af lánum sínum næstu mánuði, óttast að missa eignir sínar og komast í þrot. Á sama hátt og ríkisstjórnin hefur með virðingarverðum hætti lofað sparifjáreigendum að innistæður þeirra í bönkum séu tryggar verður að gefa skýr skilaboð til þeirra sem eru í grafalvarlegum vanda t.d. vegna íbúðalána um einhvers konar aðstoð.
![]() |
Ekki þörf á aðgerðapakka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.10.2008 | 14:51
Sjálfsögð krafa að Davíð taki pokann sinn
Enginn ber ríkari ábyrgð á því ástandi sem nú er komið upp en Davíð Oddsson en þó svo það væri ekki týnt til eru fjölmargar ástæður sem gera hann vanhæfan sem aðalbankastjóra Seðlabankans.
Meira að segja dyggir sjálfstæðismenn segjast ekki skilja af hverju maðurinn var ekki rekinn á staðnum þegar hann sem embættismaður var kallaður á fund ríkisstjórnarinnar og notaði tækifærið til að segja ríkisstjórninni þá skoðun sína að hún væri ekki starfi sínu vaxinn og að skipa ætti þjóðstjórn.
Með yfirlýstri andúð sinni í garð ákveðinna aðila í viðskiptalífinu hefur hann að auki gert sig vanhæfan til að hlutast til um mál bankanna. Rökstuddar efasemdir um að hann starfi að heilindum eru nægt tilefni til að skipta Davíð út fyrir einstakling sem sátt gæti ríkt um og fullt traust væri borið til.
Það er alvarlegt mál að svo sé ekki við þær aðstæður sem nú eru uppi.
Bendi áhugasömum á að skoða þetta viðtal við Richard Porters, prófessor við The London Business School, í Viðskiptablaðinu en þar segir hann m.a.
Sú ákvörðun að neyða Glitni í þjóðnýtingu var slæm og ónauðsynleg. Hið raunverulega neyðarástand íslenska hagkerfisins hófst með þjóðnýtingunni. Sá verknaður, og hin fráleitu ummæli Davíðs Oddssonar um að aðrir bankar kynnu að hljóta sömu örlög, ættu ekki að heyrast frá neinum seðlabankastjóra
Þau orð Davíðs Oddsonar um að ef bankar gætu ekki fjármagnað sig, yrðu þeir gjaldþrota var allt annað en hjálpleg, og beinlínis heimskuleg.
Sjá einnig á www.eyjan.is
![]() |
Krefjast þess að Davíð víki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)