Whale Travel Fund?

Það væri gaman að vita hvar Kristján Loftsson hefur fengið peninga til að setja í ferðasjóð þessara dauðu hvala. Það hlýtur að kosta skildinginn að fara á veiðar, gera að dýrunum, geyma kjötið í frysti á Íslandi misserum saman og senda það í ferðalag þvert yfir hnöttinn til þess eins að geyma það svo í frysti í Japan þangað til hægt er að farga kjötinu. Gegn greiðslu, væntanlega.

Hver er að borga í Whale Travel Fund? Skattgreiðendur?


mbl.is Grænfriðungar segja að hvalkjöti verði hugsanlega eytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins og til er sáð

Það kemur ekki á óvart að 63% kjósenda séu á móti núverandi meirihluta. Eða að aðeins 70% kjósenda Sjálfstæðisflokksins og 62% kjósenda Framsóknarflokksins styðji hann. Svo uppskera menn eins og til er sáð.

Í helgarblaði DV kemur fram að sjálfstæðismenn byrjuðu að róa í Ólafi F Magnússyni strax á fyrsta degi Tjarnarkvartettsins. Þá var Ólafur í veikindaleyfi eins og alþjóð veit. Kjartan Magnússon og Vilhjálmur Þ Vilhjálmsson voru eins og gráir kettir í kringum veikan mann til að telja hann á að svíkja meirihlutasamkomulag sitt. Það tókst að lokum eftir að þeir höfðu lofað Ólafi borgarstjórastólnum og sett málefni flokksins til hliðar.
Málsmetandi menn í Sjálfstæðisflokknum segja þetta svartan blett á flokknum sem erfitt verði að hreinsa af.

Í sumar hrundi sjálfstraust Óskars Bergssonar eftir lélega útkomu í skoðanakönnunum. Eitthvað sem var reyndar óþarfi af því Framsóknarflokkurinn hefur yfirleitt ekki mælst mikið yfir pilsnerfylgi í borginni nema rétt fyrir kosningar. Smalagenin hafa haldið flokknum á lífi þótt oft stæði það tæpt.
Óskar hefur auðvitað ekki sama stjörnuelement og Björn Ingi Hrafnsson en það eru þó mörg dæmi um að vinnusamir menn hafi náð að rífa flokka upp með því að skapa sterka liðsheild og tala fyrir grundvallar stefnumálum flokksins. Þá leið virðist Óskar ekki hafa treyst sér í.

Hið fyrirfram vonlausa samstarf Sjálfstæðisflokksins við Ólaf F var komið á endastöð, það var öllum ljóst. Hvað hefði tekið við ef það samstarf hefði sprungið af sjálfu sér er ekki gott að segja. Endurreisn Tjarnarkvartettsins var einn möguleiki, þverpólitísk borgarstjórn undir forystu Dags en án Ólafs og helstu klúðrara Sjálfstæðisflokksins var hugsanlega önnur leið. Á það reyndi þó aldrei því áður höfðu talað sig saman hinn óttaslegni borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og sá flokkur sem á kjörtímabilinu hefur algerlega glatað tiltrú kjósenda sinna.

Óskar og Hanna Birna halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft frumkvæði að myndun meirihluta með Framsókn. Ýmislegt bendir til að það hafi verið á hinn veginn. Fram hefur komið að formenn flokkanna, Guðni og Geir, léku lykilhlutverk við að koma þessum ráðahag á. Hver sem atburðarásin var er niðurstaðan er sú sama. Ráðahagur þar sem báðir aðilar lýsa sem neyðarúrræði.
Minnir á gamlar þjóðsögur þar sem stundum enduðu saman litlaus piparsveinn og falleruð kona með erfiða fjölskyldu á framfæri.


mbl.is Borgarstjórn með fjórðungs fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hringið í Mr Baldursson í Edinborg!

Það er nú meiri hundaheppnin hjá þessum vesalings Skotum að Gísli Marteinn skuli hafa valið sér Skotland til námsdvalar. Gæti líka komið sér vel fyrir Gísla Martein.

Hann gæti selt þeim ráðgjöf í þessu erfiða máli og vegið þannig upp á móti þessari bagalegu 25% skerðingu á fullum launum sínum sem borgarfulltrúi á meðan hann er í námi.


mbl.is Í stríð við borgarmáva
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jákvæð hugsun og baráttuvilji

Það hefur verið frábært að fylgjast með gangi liðsins á Ólympíuleikunum. Fyrir utan að vera með allra bestu leikmönnum í heimi hefur tekist að byggja upp liðsanda sem er engu líkur.

Afstaða Ólafs Stefánssonar og félaga til verkefnisins hefur verið mörgum innblástur. Takk fyrir það og takk fyrir frábæra baráttu.

Til hamingju með Ólympíusilfrið!


mbl.is Íslendingar taka við silfrinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rolluhræ

Fyrir rúmri viku dreymdi mig undarlega.

Hér í skjólsælum garði okkar í Logafoldinni þóttist ég einn morguninn hafa fundið hræ af rollu sem greinilega hafði drepist um nóttina. Vildi ég að dýralæknirinn Eggert faðir Dags B kæmi og skæri úr um banamein rollunnar. Mig grunaði að hún kynni að hafa drepist úr riðu en ef svo væri myndi ég ekki geta verið með fé í garðinum næstu árin eins og hugur minn stóð til.

Ég vaknaði áður en niðurstaðan kom.


Gott mál

Það sem fólk skammaðist sín fyrir var að yfirvöld skyldu senda manninn úr landi án þess að taka mál hans fyrir þrátt fyrir margar góðar ástæður til að gera það. Það er því mjög jákvætt að nú skuli stjórnvöld hafa séð að sér og ætli að veita Ramses og fjölskyldu hans eðlilega meðferð.

Án vafa eiga kröftug mótmæli Harðar Torfasonar og fjölda annars fólks ásamt skeleggri framgöngu Katrínar Theodórsdóttur lögmanns Ramsesar stóran þátt í þessu. Gott mál.


mbl.is Eiginkona Paul Ramses grét
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Metorðastigi Framsóknar

Stærsta fyrirtæki borgarinnar og einu stærsta og öflugasta fyrirtæki landsins er núna stjórnað af manni sem var í 14. sæti á lista Framsóknarflokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum! Lista sem rétt marði það að koma einum manni að í borgarstjórn.

Þetta feita embætti færi Guðlaugur að launum fyrir að vera harðdrægur hvatamaður innan "grasrótarinnar" í Framsókn fyrir hinu nýja meirihlutasamstarfi.

Það rifjar upp fyrir manni þessa góðu mynd af metorðastiga Framsóknarflokksins.

Metorðastigi Framsóknar

mbl.is Guðlaugur Sverrisson nýr formaður OR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálshyggjuboðorð á villigötum

Þetta er dæmigert baráttumál Hannesaræskunnar í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna. Fullkomlega óþarft, kemur til með að kosta starfsmenn sorphirðunnar vinnuna og sparnaður er enginn. Sjá nánar færslu og athugasemdir hér að neðan.
mbl.is Ruslakarlar öskureiðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Starfsmenn sorphirðunnar missa vinnuna

Það verður reyndar að leiðrétta blaðamann með það að þessari tillögu var frestað og hún hefur því ekki enn verið lögð fram. Það bíður væntanlega næsta fundar.

Það gefur auga leið að ef það á að bjóða út 20% af sorphirðu Reykjavíkur munu margir starfsmenn sorphirðunnar missa vinnuna. Það leitt því borgarbúar hafa einmitt verið afar ánægðir með þjónustuna og ekki hefur verið sýnt fram á það með afgerandi hætti að sorphirðan í Reykjavík sé dýrari en í nágrannasveitarfélögunum.

Svo til hvers er þetta gert? Til að gefa borgarstarfsmönnum skýr skilaboð um stefnu Sjálfstæðismanna í atvinnumálum?


mbl.is Vilja að sorphirða sé boðin út í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athvarf í Edinborg

Það eru fleiri en Gísli Marteinn sem nú leita athvarfs í Edinborg frá ruglinu í Reykjavík.

Sjálfur sit ég núna á Kaffi Edinborg á Ísafirði og kíki á það markverðasta úr fréttunum. Það verður nú samt að segjast að þetta er mest endurtekið efni. Virðist meira að segja vera að skapast hefð fyrir því að uppbótarmaður Sjálfstæðisflokksins sé án varamanns.

Annars er hér fullt hús af skógræktarfólki en á Ísafirði er haldið skógræktarþing nú um helgina. Prýðilegur félagsskapur. Best að njóta hans og fjarlægðarinnar frá höfuðborginni - um sinn að minnsta kosti.


mbl.is Ólafur: Blekktur til samstarfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband