15.8.2008 | 11:35
Áfram sömu mistökin!
Það er merkilegt að höfundar að nýjum meirihluta skuli ekkert hafa lært af reynslunni. Aftur gerir uppbótarmaður Sjálfstæðisflokksins þau grundvallarmistök að semja um meirihlutasamstarf án þess að tala við og fá samþykki varamanns síns í borgarstjórn.
Ljóst var á fundi sem Óskar Bergsson hélt með sínu fólki í nefndum og ráðum á mánudaginn að margir voru andvígir samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og vildu halda í heiðri samkomulag sitt við Tjarnarkvartettinn. Marsibil var afdráttarlaus við Óskar um afstöðu sína á þessum fundi. Honum var því fullljóst um stöðuna þegar hann hélt áfram viðræðum sínum við Sjálfstæðismenn. Spurningin sem gaman væri að vita svarið við er þessi: Vissi Hanna Birna að Óskar hafði Marsibil ekki með sér?
Mér er það til efs að Óskar hafi verið að upplýsa Hönnu Birnu um jafn léttvægt smáatriði og það hvort varakona hans væri samþykk nýjum meirihluta eða ekki. Úr orðum hans í gærkvöldi skein að það væri bara spurning um að gefa henni nokkra daga til að jafna sig. Sjá að sér.
Það eru gömlu karlarnir í Framsókn og Sjálfstæðisflokki sem eru aðalhöfundar að þessum nýja meirihluta. Guðni á Brúnastöðum og Geir Haarde munu hafa lagt á ráðin um þetta fyrr í vikunni og í því ljósi er athyglisvert að skoða orð forsætisráðherra í fréttum á miðvikudagskvöldið. Í gær var svo Alfreð Þorsteinsson sendur í Kastljós sem andlit nýs meirihluta.
Tónninn hefur verið sleginn. Nú á að bjarga atvinnumálum í Reykjavík með því að ráðast í Bitruvirkjun þvert á alla skynsemi og niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Auk umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiða sem á að fótum troða sýnir nýr meirihluti hagsmunum ferðaþjónustu löngu töngina með þessari forneskjulegu nauðhyggjustefnu.
Að ekki sé minnst á dómgreindarleysið í fjármálum Orkuveitunnar en stækkanir á Nesjavöllum og Hellisheiðarvirkjun, til viðbótar við nýja virkjun í Hverahlíð jafngildir tvöföldun á raforkuframleiðslu fyrirtækisins. Vegna mikilla erlendra skulda er eigið fé fyrirtækisins komið niður að 30% mörkunum og ljóst að Orkuveitan hefur ekki efni á að skuldsetja sig fyrir meiru en hér var talið upp að ofan.
Eins og þeir þekkja sem hafa alist upp í sveit, og jafnvel fengið það verk að vatna fénu í fjárhúsunum, að lyktin af hrútunum verður alltaf sterkari eftir því sem þeir verða eldri, frekari og geðstirðari. Hún er býsna stæk hrútalyktin af þessum meirihluta.
Marsibil á heiður skilinn fyrir að hafa ekki látið draga sig á hárinu inn í þetta samstarf gegn sannfæringu sinni. Hún skipar sér þar á bekk með Margréti Sverrisdóttur og Guðrúnu Ásmundsdóttur. Það er góður félagsskapur.
![]() |
Marsibil styður ekki nýjan meirihluta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.8.2008 | 08:43
Í upphafi skyldi endinn skoða
Það er hollt að rifja núna upp hvernig þessi meirihluti varð til. Ábyrgð Kjartans og Vilhjálms er mikil en einnig hinna sem samþykktu þennan óskapnað gegn betri vitund - eins og sjá má á svip þeirra þegar þessi mynd var tekin.
![]() |
Samstarfið á endastað" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.8.2008 | 10:03
Gott mál!
Mér finnst það gott hjá Gísla Marteini að fara utan til að læra um hagfræði borga, hagkvæmni samgangna og annað sem skiptir verulegu máli í borgarsamfélaginu. Gísli hefur dregið Sjálfstæðisflokkinn í borginni talsvert langt í rétta átt í umhverfis- og samgöngumálum það sem af er kjörtímabilinu en flestum er eflaust í fersku minni málflutningur Sjálfstæðisflokksins í tíð R-listans.
Þá var Sjálfstæðisflokkurinn vinur einkabílsins númer 1 og háði heilög stríð fyrir ókeypis bílastæðum í miðborginni, breikkun gatna, mislægum gatnamótum. Dreifði meira að segja bæklingum í hús 2 dögum fyrir kosningar þar sem þeir sögðu það stefnu Samfylkingarinnar að setja stöðumæla fyrir utan leikskóla borgarinnar. "Let them deny it" taktíkin. Nú stendur sami flokkur fyrir umtalsverðri hækkun bílastæðagjalda um alla borg. Batnandi mönnum er best að lifa.
Það er alltaf gott að mennta sig og það er snjallt hjá Gísla Marteini að nota tækifærið núna þegar Sjálfstæðisflokkurinn treður spínatið í hverju spori til að draga sig út úr vandræðaganginum. Hann ætlar sér væntanlega að koma ferskur inn í borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins á kosningavetri og líklega mun honum reynast það auðvelt. Samkeppnin verður varla hörð.
Í vetur hældi Ólafur F sér af því að hafa aldrei farið til útlanda á kostnað borgarinnar. Það er eins og hann líti ekki á það sem hluta af starfi sínu að sækja ráðstefnur um borgarmálefni og afla sér þannig aukinnar þekkingar. Skýrir reyndar ýmislegt.
Mér hefur fundist að það ætti jafnvel að vera meiri hvatning til borgarfulltrúa að sækja menntun og fróðleik um þau málefni sem þeim er treyst fyrir. Í mörgum stéttum er það álitinn nauðsynlegur hluti af starfinu að auka og dýpka þekkingu sína. Af hverju ætti það ekki að gilda um þá sem stjórna borginni?
Ég óska Gísla Marteini góðs gengis í náminu.
![]() |
Gísli Marteinn hættir í borgarráði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
11.8.2008 | 21:01
Fundasókn kvenna á Húsavík?
Á þeim fundi sem ég sat síðast um heitustu (m)álefni líðandi stundar á Húsavík voru um 60 karlar og nákvæmlega 6 konur. Þeim hafði þá fjölgað um 100% frá síðasta fundi en þá hafði Ingibjörg Sólrún haft á því sérstakt orð hvað konur á Húsavík væru afskiptalitlar um stjórnmál.
Ég á ekki von á að á þessu verði mikil breyting. Í samfélögum þar sem miðaldra karlar hafa tekið sig saman um að bjarga framtíð byggðarlagsins með einni risaðgerð, hvort sem hún gengur út á álver eða olíuhreinsunarstöð, missa konurnar áhugann á að taka þátt í umræðunni.
Þegar nógu margir sjálfskipaðir leiðtogar í héraðinu eru búnir að vitna á opinberum fundum um að þessi leið sé sú eina rétta og að ekkert geti komið í veg fyrir árangur nema samstöðuleysi heimamanna vilja fáir hefja upp gagnrýnisraddir. Finnst betra að sitja bara heima.
Þetta er auðvitað bæði óheppilegt fyrir umræðuna og samfélagið. Það þyrfti t.d. að ræða opinskátt hvað á að gera ef ekki fæst næg jarðvarmaorka fyrir 346 þúsund tonna álver eins og Alcoa stefnir að. Mun þurfa að virkja Skjálfandafljót? Jökulsá á fjöllum? Árnar í Skagafirði? Er kannski bara best að sleppa því að svara þessu? Reisa 250 þúsund tonna álver og sjá svo bara til?
Eða vilja menn (og konur?) kannski bjóða öðrum iðnaði (sem býður í röðum eftir að kaupa græna íslenska orku) að nýta þá jarðvarmaorku sem til er í fjórðungnum? Gæti það skapað fleiri störf? Jafnari vöxt atvinnu og umsvifa á svæðinu? Fjölbreyttari atvinnutækifæri? Meiri virðisauka?
Það gengi kraftaverki næst ef góð, málefnaleg umræða næðist um þessi atriði á fundinum. Hvað þá að rætt yrði um raunverulegar ástæður fólksfækkunar á landsbyggðinni, um menntamál, atvinnumál kvenna, þjónustu og menningu.
Ég spái því að það mæti um 80 vígreifir karlar og 10 hljóðlátar konur, fundurinn gangi út á
- að þjarma að umhverfisráðherra fyrir að vilja vönduð vinnubrögð við mat á umhverfisáhrifum,
- að reyna að kreista loforð upp úr samgönguráðherra um að álverið verði reist og
- yfirlýsingu hans um að ákvörðum umhverfisráðherra muni ekki fresta aðgerðum um einn einasta dag.
Fastir liðir eins og venjulega.
![]() |
Þórunn boðar til fundar á Húsavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
9.8.2008 | 09:11
Umgengni um Þeistareyki og Gjástykki
Öllum er væntanlega í fersku minni hvernig Landsvirkjun, Þeistareykir, grunnhyggnir alþingismenn og heimamenn í Þingeyjasýslu börmuðu sér yfir úrskurði umhverfisráðherra um að meta ætti heildstætt áhrif af tengdum framkvæmdum vegna álvers á Bakka.
Verkalýðsleiðtogi einn talaði um rýtingsstungu í bakið, þingmaður um fleyg í stjórnarsamstarfið, Landsvirkjun um seinkun framkvæmda og Þeistareykir hafa ekki útlokað málsókn gegn umhverfisráðherra fyrir að úrskurða umhverfinu í hag.
Allir virðast hrópendurnir eiga sammerkt að líta á umhverfismat sem leiðigjarnt formsatriði sem þarf að uppfylla til að halda háværum minnihlutahópum (amk 60% þjóðarinnar) góðum. Það er því kannski ekki von á góðri umgengni af hálfu þessara aðila um þær náttúruperlur sem þeim hefur verið veitt heimild til að kanna nýtingu á.
Þetta er til skammar. Hvort þeir sem ábyrgðina bera kunna að skammast sín er annað mál.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.8.2008 kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
8.8.2008 | 12:20
Að treysta hugboðinu
Oft er gott að taka mark á sínu fyrsta hugboði áður en teknar eru mikilvægar ákvarðanir. Stundum er tilfinning manns um að maður ætti ekki að gera eitthvað svo sterk það það er hægt að sjá það á manni langar leiðir.
Ég held að flestum sé enn í fersku minni fas borgarfulltrúa meirihlutans á Kjarvalsstöðum í byrjun þessa árs. Hér er annars mynd sem rifjar upp þann ágæta atburð.
![]() |
Tæp 2% borgarbúa kysu F-lista |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.8.2008 | 09:13
Gefum upp á nýtt
Það eru þó ekki bara sérfræðihópar þar í landi sem tala á þessum nótum heldur hafa bresk stjórnvöld með eftirtektarverðum hætti leitt umræðu um tengsl umhverfis- og efnahagsmála. Þannig hefur breska stjórnin til dæmis sett fram þau sjónarmið að nú sé rétti tíminn til að fjárfesta myndarlega í nýjum umhverfisvænum lausnum, einkum á sviði orkumála, sem skapað geta þúsundir grænna (e. green collar) starfa.
Þýsk stjórnvöld hafa um nokkurt skeið talað á sömu nótum. Þau telja helstu tækifæri Þýskalands felast í hæfni þjóðarinnar til að finna upp orkusparandi og umhverfisvænni tækni og verkferla. Heimurinn muni á allra næstu árum þurfa að taka krappa beygju í átt til umhverfisvænna efnahagslífs, umhverfisvænni iðnaðarframleiðslu, umhverfisvænni lifnaðarhátta og að í því felist miklir möguleikar fyrir Þýskaland.
Á dögunum hélt Barack Obama ræðu þar sem hann talaði um nauðsyn þess að Bandaríkin yrðu sjálfum sér nóg um orku. Ekki megi halda áfram að seðja orkufíknina með innfluttri olíu heldur verði að leita nýrra lausna. Í ræðunni hét Obama 150 milljörðum dala í 10 ára átak til að þróa hreina orku, skapa nýtt orkuhagkerfi í Bandaríkjunum og 5 milljónir nýrra starfa.
Ýmsir munu segja að framlag okkar Íslendinga til hinnar grænu heimsbyltingar sé að virkja hverja sprænu og hvern hver til að bjarga heiminum frá kolaknúnum álverum. Það er afbökun. Við munum engu bjarga með því. Það má þvert á móti færa fyrir því ágæt rök að með því að taka ekki hærra gjald fyrir þá vistvænu orku sem við höfum selt til álbræðslu höfum við tafið nauðsynlega þróun í átt til umhverfisvænni tækni.
Við höfum hins vegar tækifæri til að skapa hér sjálfbært orkusamfélag og vera á meðal þeirra þjóða sem fremstar eru í heiminum á þessu sviði. Nú þegar kreppir að í efnahagslífi þjóðarinnar eigum við ekki hlaupa til og selja orkulindir okkar á útsölu, helst án þess að vandað umhverfismat fari fram eins og sumir heimóttarlegir þingmenn hafa heimtað.
Við eigum þvert á móti að bjóða erlendum aðilum til samstarfs um það verðuga verkefni að gera Ísland að sjálfbæru orkusamfélagi. Til að ná því takmarki þarf að þróa vistvænni ökutæki, vistvænni fiskiskipaflota, vistvænni flugvélar. Það þarf að búa til innviði nýs orkusamfélags með fjölorkustöðvum út um allt land.
Vegna sérstöðu okkar er Ísland eftirsóknarvert til samstarfs um að þróa og koma í framkvæmd nýjum lausnum á þessu sviði. Rannsóknir og þróun í nýrri orkusparandi og umhverfisvænni tækni gæti á næstu árum skapað mörg hundruð, jafnvel nokkur þúsund þekkingarstörf hér á landi, auk þess sem samstarf við stóra erlenda aðila um slíkar rannsóknir getur fært þjóðinni miklar gjaldeyristekjur.
Birtist sem grein í Viðskiptablaðinu í morgun
7.8.2008 | 13:57
Í boði Sjálfstæðisflokksins
Gleymum því ekki að...
...þessi borgarstjóri er í boði Sjálfstæðisflokksins!
Hér er svo bókun fulltrúa minnihlutans í borgarráði um brottvikningu Ólafar Guðnýjar Valdimarsdóttur úr skipulagsráði:
"Borgarstjóri hefur orðið ber að fordæmislausri framkomu gagnvart fyrrverandi samherja og aðstoðarmanni sínum fyrir þær sakir einar að bíða með yfirlýsingar í viðkvæmu skipulagsmáli þar til fagleg úrvinnsla þess hefði farið fram í skipulagsráði. Með þessari ómálefnalegu framgöngu hefur borgarstjóri jafnframt vakið umræðu um ákvæði sveitarstjórnarlaga um skilyrði þess að víkja kjörnu nefndarfólki til hliðar gegn vilja þeirra. Sjálfstæðisflokkurinn verður að axla ábyrgð á þessu einsog öðru. Minnihlutinn situr hjá."
![]() |
Skipt um fulltrúa í skipulagsráði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
6.8.2008 | 14:39
Vel að heiðrinum kominn
Þetta eru ánægjuleg tíðindi. Ómar er vel að verðlaununum kominn og það var mikið happ fyrir land og þjóð að maður sem hefur jafn mikla þekkingu á landinu og hann skyldi hella sér út í umræðuna um verndun og virkjanir af þeim krafti sem hann hefur gert.
Það er ljóst að margir reyndu að leggja stein í götu Ómars og það mun á endanum koma í ljós hverjir það voru sem fóru að honum með hótunum. Það verður kannski tekið með í aðra útgáfu af myndaflokki um gerð Kárahnjúkavirkjunar, sem gæti orðið talsvert öðru vísi en sú sem undanfarið hefur verið endursýndur í Ríkissjónvarpinu og minnir mest á áróðursmyndir ráðstjórnarríkjanna.
Í nýjum myndaflokki mætti auk senunnar þar sem Ómari var hótað sýna keflaðan jarðeðlisfræðing og ábendingar frá honum stimplaðar "top secret" undir stóli þáverandi iðnaðarráðherra. Og margt fleira áhugavert.
Hvaða skoðun sem fólk hefur á virkjanamálum hljóta flestir að taka undir mikilvægi þess að fólk eins og Ómar og margir aðrir blandi sér í umræðuna með málefnalegum hætti. Upplýst umræða er alltaf til bóta.
Til hamingju Ómar.
![]() |
Ómar Ragnarsson verðlaunaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.7.2008 | 21:23
Heilbrigð skynsemi
Þessi ákvörðun umhverfisráðherra markar vonandi þáttaskil í mati á umhverfisáhrifum stórframkvæmda. Auðvitað þarf að meta sameiginlega alla þætti slíkra framkvæmda.
Þótt bæjarstjórinn í Reykjanesbæ haldi því fram að orkan komi ekki úr holum heldur úr rafmagnslínum og ýmsir þankabræður hans telji stóriðjustefnuna vera þann Alca Selzer sem okkur vantar nú við timburmönnum þenslunnar undanfarin ár - svo fráleitt sem það er - held ég hinir séu fleiri sem hafa verulegar áhyggjur af fórnarkostnaði stóriðjustefnunnar.
Það verður fróðlegt að sjá niðurstöðuna úr þessu heildarmati því nú verður framkvæmdaraðila gert að sýna fram á hvar og hvernig á að útvega alla orkuna sem þarf fyrir um 345 þúsund tonna álver - ekki bara hálfver! Ýmsir efast um að það muni takast.
Það hefði farið betur á þessari niðurstöðu í Helguvík. Nú stendur sovésk kjörbúðarröð af fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum fyrir aftan orkufrekjuna Century sem hefur forkaupsrétt að öllu sem HS getur aflað, 100 MW frá OR og mun ef að líkum lætur gera kröfu í orku frá LV til að fylla upp í þau göt sem eru bæði fyrirsjáanleg og stór áður en fullri stærð er náð.
Það er með öðrum orðum búið að úthýsa fjölda fýsilegra fyrirtækja á Reykjanesskaganum og Suðurlandi til að seðja orkufrekjuna í Helguvík. Það hefði farið betur á að orkfrekjunni hefði verið vísað úr röðinni svo fleiri og fjölbreyttari fyrirtæki hefðu fest hér rætur.
Vonandi fær heilbrigð skynsemi meiru ráðið í þessum málum í framtíðinni.
![]() |
Framkvæmdir metnar heildstætt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.8.2008 kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)