Merkilegt

Er það ekki merkilegt að borgarstjóri sjái sig knúinn til að gefa út yfirlýsingu um að meirihlutanum hafi verið alvara með að hætta við Bitruvirkjun? Kannski ekki. Ekki frekar en að stjórnarformaður OR slái úr og í varðandi Bitru eins og margt annað. Eins og borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins almennt.

Í DV er viðtal við Svein Andra Sveinsson lögmann þar sem hann segir m.a. að honum renni til rifja "raðsjálfsmorð" borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Lái honum hver sem vill.

Hann gefur lítið út á hugmyndir um að skella sér aftur í pólitík. Það skyldi þó aldrei verða að hann yrði krýndur sem leiðtogi Flokksins í borginni? Það yrði merkilegt.


mbl.is Segir ljóst að Birtuvirkjun hafi verð slegin af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræðsluáróður úr Hádegismóum

Ekki skal lítið gert úr því að margir munu finna fyrir samdrætti nú þegar einu mesta þensluskeiði í sögu landsins lýkur. Hins vegar vegur ofbýður mér hinn harði hræðsluáróður Morgunblaðsins um yfirvofandi atvinnuleysi.

Stutt er síðan Morgunblaðið sló upp forsíðufrétt um að þúsundir yrðu án vinnu í lok ársins. Ég benti á þessari síðu á að samkvæmt skýrslu Vinnumálastofnunar var spáð samdrætti á vinnumarkaði um 3-4 þúsund störf en gert var ráð fyrir að erlendum farandverkamönnum í landinu myndi fækka að sama skapi. Niðurstaðan væri því sáralítil aukning á atvinnuleysi.

Nú slær Mogginn því upp að hundruð muni missa vinnu sína hjá Spron. Forstjóri Spron segir rangt farið með bæði það atriði sem snýr að uppsögnum eins og með tölulegar upplýsingar í fjölmörgum atriðum fréttarinnar.

Vaxandi stóriðjuslagsíða Morgunblaðsins vekur grun um að Grýlugerðin í Hádegismóum sé hvorki hugsuð til að selja fleiri blöð eða vegna skorts á vandvirkni.


mbl.is Segir rangt farið með um uppsagnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

New (green) Deal

Í fréttum Rúv í gær vakti þetta athygli mína:

Breskur sérfræðihópur sem kallast Nýr efnhagsgrundvöllur  segir í dag að  heimurinn þurfi leiðtoga með nýja stefnu í efnahags og  í umhverfismálum til þess að  takast á við  fjármálakreppu, loftslagsbreytingar og hækkandi matar og olíuverð. Í nýrri skýrslu sérfæðihópsins  um þessa nýju stefnu segir að hún eigi að vera nútíma "New Deal" stefna í anda þeirrar sem Franklin Roosevelt Bandaríkjaforseti beitti til að ná Bandaríkjunum upp úr heimskreppunni miklu.

Skýrslan sem umræddur hópur sendi frá sér er áhugaverð lesning. Sífellt fleiri hagfræðingar gera sér ljóst að efnahagskerfi heimsins sem byggir á rányrkju auðlinda þar sem kostnaði s.s. mengun er velt yfir á komandi kynslóðir er komið í öngstræti. Hér má finna svipaða skýrslu Þjóðverja um sama efni.

Það þarf að gefa upp á nýtt, taka stefnuna á grænt hagkerfi og gefa meirihluta mannkynsins sem ekki hefur notið gæðanna af rányrkju auðlindanna tækifæri til að bæta lífsskilyrði sín. Til þess þarf nýja tækni og nýja hugsun. Ég mæli með bókinni Capitalism at the Crossroads eftir Stuart L Hart um þetta efni.

Breska stjórnin hefur sett fram áhugaverð sjónarmið í þá átt að nú sé rétti tíminn til að fjárfesta myndarlega í nýjum umhverfisvænum lausnum, einkum á sviði orkumála, sem skapað geta þúsundir grænna (e. green collar)starfa.

Þar sem sumir sjá ekkert nema svartnætti sjá aðrir tækifæri.

Ýmsir munu segja að framlag okkar Íslendinga til hinnar grænu heimsbyltingar sé að virkja hverja sprænu og hvern hver til að bjarga heiminum frá kolaknúnum álverum. Það er afbökun. Við munum engu bjarga með því. Það má þvert á móti færa fyrir því ágæt rök að með því að taka ekki hærra gjald fyrir vistvæna orku og losunarheimildir höfum við tafið nauðsynlega þróun í átt til umhverfisvænni tækni.

Við höfum hins vegar tækifæri til að skapa hér sjálfbært orkusamfélag og vera í fararbroddi þjóða sem vilja nýta orku sína með ábyrgum hætti. Við gætum verið fyrirmynd annarra þjóða og ættum að bjóða þeim þjóðum sem vilja taka stefnuna á nýtt, grænt hagkerfi samstarf um rannsóknir og þróun nýrra lausna á sviði sjálfbærrar þróunar.

Til þess þarf nýja hugsun, framsýni og kjark.


Betra ökulag - íslenskt hugvit

Í lok síðustu viku var mér boðið að koma og skoða spennandi sprotafyrirtæki, New Development, sem er að sögn eigenda sprottið upp úr áhuga „lóðboltanörda" á að koma í veg fyrir alvarleg umferðarslys. Upp úr aldamótum rann þeim til rifja hvað mörg mannskæð umferðarslys mátti rekja til óvarlegs aksturs og þeir fóru að þróa tæki sem bæði greinir og skráir hvernig bílum er ekið. Komi til slyss er hægt að sækja allar upplýsingar um aksturslag í þennan „svarta kassa" en það veitir bæði þeim sem er við stýrið aðhald í akstrinum og varpar ljósi á tildrög slyssins. Þegar tækið hafði verið þróað var það kynnt tryggingarfélögunum sem á þeim tíma a.m.k. sáu ekki hina gríðarlegu möguleika sem í þessu fólust.

Til að geta haldið áfram starfsemi þurfti fyrirtækið að víkka út notagildi tækisins og fóru að þróa það sem stjórnunartæki fyrir fyrirtæki sem vilja að bílum þeirra sé ekið skynsamlega. Auk margvíslegra viðbóta er hvert tæki nú búið gps sendi sem sendir út merki á sekúndu fresti. Þessi viðbót gefur marga möguleika en með því að skoða punktaferil ökutækis er hægt að sjá hvernig akstri er háttað, t.d. hvort verið er að taka mjög hratt af stað og hemla til skiptis. Með hækkandi eldsneytisverði skiptir ökulag æ meira máli fyrir fjárhaginn auk þess sem skrykkjótt ökulag er óþægilegt fyrir farþega og getur skaðað varning í flutningabílum.

Meðal þeirra sem hafa nýtt sér þjónustu New Development eru fyrirtæki með stóran bílaflota sem bæði vilja spara eldsneyti, lækka viðhaldskostnað, draga úr slysahættu og vernda ímynd sína en það er ekki góð auglýsing að hafa umferðardólga akandi um á merktum fyrirtækisbílum.
Það var ánægjulegt að sjá að bærinn Jönkjöping í Svíþjóð hefur séð möguleikana í þessari tækni og nýtir hana til að spara eldsneyti, gera aksturinn þægilegri fyrir farþega og að sýna notendum hvar vagnarnir eru staddir hverju sinni og hvað langt er í næsta vagn.

Það var mjög tilkomumikið að geta fylgst með því á borgarkorti Jönkjöping hvar allir strætisvagnarnir voru staddir og ég er viss um að viðskiptavinir Strætó bs myndu fagna slíkri tækni. Hún mun reyndar hafa staðið Strætó bs til boða en einhverra hluta vegna hefur fyrirtækið ekki haft nægan áhuga á þessu til að viðskiptavinir Strætó geti notið slíkrar þjónustu. Það er óheppilegt hvað stjórn Strætó bs virðist lömuð vegna ólíkra áherslna þeirra bæjarfélaga sem að fyrirtækinu standa. Nú vill Kópavogur gefa öllum frítt í strætó á sama tíma og Garðabær sér enga ástæðu til að borga fyrir námsmenn úr Garðabæ. Á sama tíma og peninga vantar til að halda uppi viðunandi þjónustu (ferðir á 30 - 60 mínútna fresti) hefur fyrirtækið svo ekki sinnu á að nýta sér jafn mikilvægt eldsneytissparnaðar- og gæðaaksturskerfi og New Development hefur hannað.

Það er ánægjulegt að sjá íslenskt hugvit taka flugið og gott til þess að vita að fyrirtækin í landinu taka þessari tækni tveim höndum. Það er líka ánægjulegt að sjá að opinberir aðilar í nágrannalöndunum hafa séð tækifærin í þessari tækni. Nú bíður maður bara spenntur eftir að sjá hvort íslensk stjórnvöld hjá ríki og borg sem tíðrætt er um áhuga sinn á almenningssamgöngum og orkusparnaði kveiki á perunni.

Fyrst birt á www.samfylkingin.is


Hin fræga "Húsavíkurályktun"

Í umræðum fjölmiðla um Fagra Ísland, álver og aðra stóriðju hefur oft verið vitnað til hinnar svokölluðu Húsavíkurályktunar þingflokks Samfylkingarinnar í janúar 2006. Mér finnst því við hæfi að hún sé birt hér í heild.

Í frétt Morgunblaðsins í dag um þessi mál kemur fram það sjónarmið að þingflokkur Samfylkingarinnar í dag sé óbundinn af ályktun fyrri þingflokks. Það er undarleg fullyrðing þar sem umrædd ályktun er í algerum samhljóm við málflutning flokksins fyrir kosningar 2007. Þá var ítrekað sagt að aðeins væri pláss fyrir eitt álver innan losunarheimilda landsins og að mikilvægt væri að slíkt álver, ef af yrði, nýttist til að efla byggð í dreifbýli fremur en að auka á þenslu í þéttbýli.

Reyndar verður ekki séð að neitt í þessari ályktun frá 2006 stangist á við stefnu flokksins í ræðu og riti fyrir kosningar 2007. Þvert á móti. Vandi núverandi þingflokks er hins vegar sá að hið eina álver sem flokkurinn vildi að yrði reist á Bakka er nú orðið númer tvö í röðinni.
Hvort þingflokkur og ráðherrar Samfylkingarinnar gátu gert eitthvað til að tryggja álveri á Bakka fyrsta og þar með eina sætið í röðinni, s.s. að veita ráðherra meira vald um hverjum verður úthlutað losunarheimildum og að úrskurða Landvernd í hag varðandi almat umhverfisáhrifa í Helguvík, skal ósagt látið.

Það hefur verið sagt í umræðum undanfarinna daga að ekki megi smækka Fagra Ísland niður í umræðu um hvar og hvar ekki á að koma álver. Þessu er ég hjartanlega sammála. Að mestu. Fagra Ísland gengur út á að ná sátt um hvaða náttúrusvæði á að taka frá til verndunar og hvaða svæði má nýta með öðrum hætti.
En Fagra Ísland boðaði líka samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. (Það gerir reyndar sáttmáli ríkisstjórnarinnar líka en engum virðist detta í hug að spyrja Sjálfstæðisflokkinn áleitinna spurninga.) Ef álver í Helguvík er nr. 1 og fyllir loftslagskvóta okkar upp í rjáfur mun þá ekki álver nr. 2 á Bakka sprengja losun okkar upp úr þakinu?
Hvernig samræmist aukning í losun gróðurhúsalofttegunda sem nemur álveri á Bakka stefnu Samfylkingar og ríkisstjórnarinnar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda? Það væri gaman að fá svör við því. Vonandi telur ríkisstjórnin sig ekki óbundna af stefnu sinni í loftslagsmálum.

En hér er sem sagt hin fræga Húsavíkurályktun.

 

Ályktun frá þingflokki Samfylkingarinnar 30. janúar 2006

Í tengslum við umræður síðustu daga um aukna stóriðju leggur Samfylkingin þunga áherslu á að stjórnvöld fari í hvívetna að þeim skuldbindingum sem Íslendingar öxluðu með aðild að Kýótó-bókuninni við Loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna. Bókunin veitir Íslendingum aðeins svigrúm til að auka framleiðslu á áli um 280 þúsund tonn fram til ársins 2012. Samfylkingin telur að það svigrúm verði að nýta af varfærni og varar við öllum áformum um að velta yfir á framtíðina vandamálum sem tengjast of mikilli losun gróðurhúsalofttegunda. Allar ákvarðanir um aukna stóriðju verður að taka í samræmi við ýtrustu sjónarmið um umhverfisvernd, stöðugleika í efnahagsmálum og skynsamlega atvinnu- og byggðastefnu.

Brýnt er að ákvörðun verði ekki tekin nema áður hafi farið fram nákvæmt og yfirvegað mat á þeim kostum sem koma til greina varðandi staðarval, orkuöflun og tímasetningu. Staðsetning stóriðju getur haft heillavænleg áhrif á þróun byggðar þar sem atvinnustig er veikt. Slík sjónarmið verður því að vega og meta áður en endanleg ákvörðun er tekin. Á svæðum eða við aðstæður þar sem þensla er mikil getur hún aftur á móti haldið aftur af vexti í öðrum mikilvægum atvinnugreinum s.s. hátækniiðnaði og ferðaþjónustu.

Við ákvörðun um stóriðju innan ramma Kýótó-bókunarinnar vega eftirfarandi sjónarmið þyngst, að mati Samfylkingarinnar:

  • Staðarval og orkuöflun séu byggð á ströngustu kröfum um umhverfisvernd.
  • Stóriðju sé valinn staður þar sem líklegt er að hún hafi veruleg jákvæð áhrif á byggðaþróun og sé í fullri sátt við heimamenn.
  • Framkvæmdir séu tímasettar þannig að þær örvi hagkerfið þegar dregur úr núverandi hagsveiflu.
  • Orkuverð tryggi verulega arðsemi af virkjunum.

Ákvörðun um ráðstöfun takmarkaðra losunarheimilda og staðarval stóriðju varðar svo margþætta og mikilvæga hagsmuni að hana þarf að taka í samráði við Alþingi og ríkisstjórn. Það vekur því sérstaka athygli að iðnaðarráðherra hefur lýst því opinberlega að ákvörðun Landsvirkjunar um samninga vegna aukinnar stóriðju sé tekin án samráðs við iðnaðarráðherra og þar með ríkisstjórnina. Forstjóri Landsvirkjunar segir að þetta hafi verið pólitísk ákvörðun. Samfylkingin telur þessi vinnubrögð forkastanleg. Landsvirkjun starfar á ábyrgð ríkisins og hefur aðgang að auðlindum í eigu almennings. Ríkisstjórnin getur ekki vísað frá sér ábyrgð og framselt til fyrirtækisins pólitískt ákvörðunarvald í máli sem mun hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir efnahagsþróun og atvinnuuppbyggingu í landinu á næstu árum.


Styðjum Ramses fjölskylduna

Undanfarin hádegi hefur sístækkandi hópur komið saman kl. 12 á hádegi fyrir utan Dómsmálaráðuneytið í Skuggasundinu til stuðnings Paul, Rosmary og Fidel Smára Ramses.

Í gær kom fram í máli ræðumanna að svo virðist sem mörg lög hafi verið brotin á fjölskyldunni þegar henni var tvístrað með svo harðneskjulegum hætti.

Í dag verður lokafundur þessarar fundaraðar haldinn á sama stað og tíma. Dómsmálaráðherra verða afhentar undirskriftir fjölda fólks og ítrekaðar kröfur um að Paul verði kallaður heim og mál hans tekið fyrir að nýju.

Ég skora á alla sem eiga möguleika á að kíkja í Skuggasundið kl. 12 og styðja góðan málstað.


"Ætti að hafa vit á því að halda kjafti!"

Þessi frétt er á www.dv.is

Agnes Bragadóttir fór ekki fögrum orðum um Árna Johnsen, þingmann Sjálfstæðisflokksins, í viðtali á Bylgjunni í morgun.

Þegar Agnes var spurð um grein Árna, sem birtist í Morgunblaðinu, svaraði hún: „Mér fannst þessi grein hans Árna náttúrulega algjört regin hneyksli enda finnst mér maðurinn vera regin hneyksli, hann er eiginlega stórslys þessi maður.“ Hún heldur svo áfram að ausa úr skálum reiði sinnar og segir: „Ég held að þessi maður ætti að hafa vit á því að halda kjafti“

Það er jafnan skemmtilegt þegar stóryrt fólk viðhefur gífuryrði um aðra sem eiga svona ljómandi vel við það sjálft!


Vasaþjófnaður

Fór í lágvöruverslun rétt fyrir kvöldmat um daginn. Þurfti að kaupa kartöflur, brauð, klósettpappír, banana og sitthvað fleira. Bananarnir og brauðið var búið, verð að kaupa það annars staðar, hugsaði ég og gekk yfir að kartöflunum. Ég er orðinn áhugamaður um vöruverð svo ég kíkti á verðmerkinguna áður en ég skellti kartöflupokanum í körfuna. Þær kostuðu 345 kr. kg! Tveggja kg. poki kostaði 690 kr! Ég missti lyst á kartöflum, setti pokann aftur á sinn stað og gekk út.

Þótt ég hafi misst lyst á kartöflum í bili fannst mér brauð enn vera nauðsynjavara svo þegar ég gekk inn í klukkubúð hverfisins gladdist ég yfir því að sjá heimilisbrauð á 215 kr. Skellti því í körfuna og sá þá mér til enn meiri gleði að 8 rúllur af klósettpappír kostuðu eitthvað svipað. Smellti banönum og einhverju fleiru í körfuna ánægður en hissa á að klukkubúð hverfisins stæði sig betur en lágvöruverðsverslunin.

Svo kom ég á kassann. Þetta voru bara fimm eða sex hlutir svo ég var búinn að leggja saman í huganum hvað þetta myndi kosta og var tilbúinn með péníng - ekki kort. Strimillinn sagði hins vegar allt annað og meira en ég hafði reiknað út og í mínus yfir vondri frammistöðu í hugarreikningi dró ég vandræðalegur upp kortið og borgaði.

Vestfirskur þrái kom hins vegar í veg fyrir að ég setti dótið ofan í pokann fyrr en ég var búinn að skoða strimilinn. Þar stemmdu tölurnar ekki við verðmerkingar í búðinni svo ég tók upp penna og stikaði milli vörurekkanna og skrifaði rétt verð á strimilinn. Ég hafði t.d. verið látinn borga 360 kr. fyrir brauðið sem átti að kosta 215 kr. og tæpar 400 kr. fyrir aftanblöðin sem áttu að kosta eitthvað svipað. Ég bað um að fá mismuninn endurgreiddan versogú. Það var auðsótt mál.

Hvað ætli maður hafi oft látið hnupla úr vösum sínum með þessari aðferð?
Pössum okkur á nútíma vasaþjófum.


Mogginn vekur upp Grýlu

Það er undarlegt að þrátt fyrir nýjan og betri ritstjóra skuli Morgunblaðið ekki vanda betur til fréttaflutnings af þessum mikilvægu málum. Hafa ritstjórinn og blaðamenn ekki lesið nýútkomna skýrslu vinnumálastofnunar um stöðu og horfur á vinnumarkaði?

Á meðan Morgunblaðið slær því upp á forsíðu að þúsundir verði án atvinnu segir Vinnumálastofnun í skýrslu sinni að erlendum starfsmönnum muni fækka um þúsundir. Morgunblaðið gæti haft gagn af því að lesa eftirfarandi úr skýrslu Vinnumálastofnunar (feitletranir mínar):

Erlent starfsfólk á íslenskum vinnumarkaði var skv. áætlun Vinnumálastofnunar komið í um eða yfir 17.000 árið 2007, eða rúmlega 9% af vinnuaflinu og hefur hlutfallið aukist mikið síðustu ár.

Útgáfa vottorða um staðfestingu á atvinnu (E-301), sem erlendir ríkisborgarar sækja sér þegar þeir fara af íslenskum vinnumarkaði hefur fjölgað mikið undanfarin misseri, voru um 500 árið 2006, um 1.200 árið 2007 og á fyrstu 5 mánuðum ársins 2008 hafa verið gefin út tæplega 1.200 slík vottorð, þannig að búast má við allavega tvöföldun á útgáfu slíkra vottorða milli áranna 2007 og 2008.

Aukinn brottflutningur útlendinga frá Íslandi er því greinilegur. Hins vegar er þó enn töluvert streymi erlends starfsfólks inn á íslenskan vinnumarkað. Nýskráningar fólks frá Póllandi og öðrum "nýju" ríkjum ESB hafa verið um 400 á mánuði fyrstu mánuði þessa árs og orðnar um 2500 nú þegar árið er um hálfnað. Er þetta lítið minna en á sama tíma í fyrra og bendir til að enn sé töluverður skortur á starfsfólki í ákveðin verkefni. Í ljósi samdráttar í efnahagslífinu verður þó að telja líklegt að verulega hægi á innflutningi erlends vinnuafls á næstu mánuðum og að brottflutningur aukist að sama skapi.

Miðað við þessar tölur um innflutning og brottflutning vinnuafls virðist sem erlendum ríkisborgurum á vinnumarkaði hafi aðeins fækkað lítillega síðustu mánuði og séu nú nálægt 16.000, en líklegt má telja að þeim fækki hraðar seinni hluta árs og verði komnir niður í 13-14.000 í árslok og verði nálægt 8,5% af vinnuaflinu á jafnaði á árinu 2008.

Nú þegar miklu þensluskeiði í íslensku efnahagslífi er að ljúka er eðlilegt að störfum fækki. Þá er líka ósköp eðlilegt að það evrópska farandverkafólk sem hingað kom til að vinna hverfi til annarra starfa. Ekki síst þegar krónan hefur lækkað umtalsvert og mun færri Evrur fást fyrir mánaðarlaunin.

Kannski munu börnin okkar líka fara að einbeita sér að náminu og þegar mann vantar aðstoð í matvöruversluninni getur maður kannski átt von á að finna íslenskumælandi starfsmann yfir fermingaraldri. Er það alveg grábölvað?

Atvinnuleysi er alvörumál. Það má vel vera að það sé söluvænlegt að skella atvinnuleysisgrýlunni á forsíðu Morgunblaðsins með þessum hætti en það er ekki ábyrgt. Ég mæli með því að ritstjórinn nýi og blaðamenn bæti fyrir syndir sínar í Morgunblaði morgundagsins.


mbl.is Þúsundir án atvinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að kunna að skammast sín

Á fimmtudaginn var sagði Haukur Guðmundsson, settur forstjóri Útlendingastofnunar,  í viðtali á Rúv um mál Paul Ramses og fjölskyldu hans frá Kenía:

Það hefur verið mjög gagnrýnt að menn hafi ekki þrátt fyrir þessar reglur tekið þá ákvörðun að fjalla um hælismálið hér á Íslandi og þá vegna tengsla hans hér við, við eiginkonu hans og sem, sem að hér dvelur. Vandinn í þessu máli er einfaldlega sá að hún er hér í ólöglegri dvöl og án þess að ég vilji neitt ræða hennar sérstaka mál í einhverjum þaula, þá er það náttúrulega svo með mál útlendinga sem að dveljast ólöglega á Íslandi að þau eiga þann sameiginlega endapunkt sem felst í, í brottvísun. Þannig að það er náttúrulega tómt mál að tala um að sameina hann hér einhverri fjölskyldu sem verið er að brottvísa.

Þarna fer hinn setti forstjóri rangt með. Það skiptir engu hvort kona Ramses er ólögleg í landinu eða ekki, samkvæmt útlendingalögum ber að taka mál maka þess sem leitar eftir pólitísku hæli fyrir um leið og hælisleitanda. Í Dyflinnarreglugerðinni sem Útlendingastofnun skýlir sér á bak við í þessu máli er einnig mælst til þess að mál fólks í sömu fjölskyldu séu afgreidd saman.

Hauk Guðmundsson, settan forstjóra Útlendingastofnunar, skortir því engar heimildir til að breyta rétt í þessu tilviki. Skorturinn sem forstjórinn líður er á öðru sviði. Að fela sig á bak við það að kona á síðustu vikum meðgöngunnar skuli ekki hafa skutlast til Svíþjóðar á þriggja mánaða fresti til að vera lögleg í landinu er bæði staðlaust og lítilmannlegt. Hvort forstjórinn gerir það í pólitísku umboði síns æðsta yfirmanns væri forvitnilegt að vita.

Allt þetta mál er okkur Íslendingum til skammar. Minnir óþægilega mikið á Falun Gong og leit sérsveita í bílum útivistarfólks á hálendinu. Enda skammar stærstur hluti Íslendinga sín niður í tær yfir meðferðinni á þessari kenísku fjölskyldu.

Það er mikilvægt að kunna að skammast sín. Við sjáum það best þegar við horfum upp á embættisverk þeirra sem kunna það ekki.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband