Ókindarkvæði

Munið þið þegar netbólan sprakk eftir aldamótin? Margir höfðu tekið lán til að kaupa hlutabréf sem féllu í verði, gengið féll með tilheyrandi verðbólguskoti, það varð erfiðara að fá vinnu og þjóðin hlustaði hnípin á landfeður syngja hvern með sínu nefi: „Það verður þröngt í búi ef ekki verður virkjað við Kárahnjúka". „Það verður atvinnuleysi ef ekki verður virkjað." „Lífskjör munu versna ef ekki verður virkjað." Bakraddir sungu ýmsir stjórnmálamenn, hagsmunaaðilar og nokkur verkalýsðsamtök. Hljómar kunnuglega?

Fræjum óttans var sáð og þeim til varnar, líkt og fulgahræða, var skrattinn gerður að veggskrauti. Ríkisstjórnin snéri við úrskurði Skipulagsstofnunar um að hætta skyldi við Kárahnjúkavirkjun vegna „umtalsverðra óafturkræfra umhverfisáhrifa". Björgun þjóðar í nauðum var tryggð. Þjóðin fylltist bjartsýni eins og uppgötvast hefði ný fiskitegund við strendur landsins.

Á sama tíma náðu vextir á alþjóðlegum fjármálamörkuðum sögulegu lágmarki, valdir aðilar gátu fundið peninga til að kaupa bankana og jafnvel „götustrákar" gátu tekið stór lán til að fara í útrás með viðskiptahugmyndir sínar. Það var almenn uppsveifla í heiminum og duglegt fólk nýtti sér tækifærin sem í því fólust. Það hafði ekkert með ákvörðun ríkisstjórnar Íslands um Kárahnjúkavirkjun að gera.

Sem betur fer urðu hin efnahagslegu áhrif af stóriðjuframkvæmdunum miklu minni en ríkisstjórnin hafði lofað. Landsfeðurnir höfðu lofað að um 40% af heildarkostnaði framkvæmda myndi skila sér inn í landið. Reyndin varð nálægt 20% því engin var nauðin, allir höfðu vinnu og flytja þurfti inn mörg hundruð flugvélafarma af erlendum verkamönnum til að koma mannvirkjunum upp.

Of langt mál er að telja upp öll hagstjórnarmistök Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á undanförnum árum. Fyrir utan sjálfa Kárahnjúkavirkjun má þó nefna kosningaloforðið um 90% húsnæðislán, afnám bindiskyldu bankanna og skattalækkanir sem nú þegar hafa með aðstoð verðbólgu og verðtryggingar étið upp miklu meira en þær skiluðu skattgreiðendum í vasann. Við þessu öllu varaði fjöldi hagfræðinga.

Nú er aftur komið samdráttarskeið. Ástæðan er tímabundinn skortur á lánsfé og hinn heimatilbúni vandi sem síðasta ríkisstjórn ber ein fulla ábyrgð á. Og aftur er hafinn upp sami söngur; Að það verði að virkja og byggja álver. Annars muni illa fara. Forsætisráðherra telur að álver í Helguvík muni bjarga okkur frá atvinnuleysi, fjármálaráðherra telur að það muni stórauka erlent fjárstreymi inn í landið og virka sem (falsað) heilbrigðisvottorð fyrir íslenskt efnahagslíf. Hvort tveggja er alrangt.

Eins og Vinnumálastofnun hefur bent á sér sveigjanleiki vinnumarkaðarins til þess að atvinnuleysi eykst ekki að sama skapi þótt störfum fækki nú þegar þensluskeiði lýkur. Í landinu hafa undanfarin misseri starfað um 17 þúsund farandverkamenn. Þegar störfum fækkar í landinu og verðmæti krónu gagnvart evru lækkar leita farandverkamenn annað. Á Suðurnesjum er atvinnuleysi einkum hjá konum sem reynslan sýnir að vilja síður vinna í álveri (16% á Grundartanga). Álver í Helguvík mun því engu breyta um atvinnuástand í landinu.

Þá að hinu meinta stórstreymi erlends gjaldeyris inn í landið vegna byggingar álvers í Helguvík.
Meira en helmingur þeirra 60-70 milljarða sem áætlað er að myndi kosta að byggja álver í Helguvík er erlendur kostnaður við kaup á framleiðslubúnaði og tækni. Um 15% færu í byggingarefni og -búnað (ekki torf og grjót). Aðeins um 15% eða um 10 milljarðar myndu fara í laun og líklegt er að langstærstur hluti launþega yrðu erlendir verkamenn sem senda tekjur sínar heim. Aðeins hönnun, framkvæmdastýring og eftirlit upp á um 6 milljarða er talið að myndi að miklu leyti renna til íslenskra aðila. Heildarinnstreymi erlends gjaldeyris vegna byggingar álvers í Helguvík yrði því tæpast meira en 2 - 3 milljarðar á ári í þrjú ár.

Til að setja þessa tölu í samhengi má geta þess að 12% verðbólga á ári mun auka verðtryggðar skuldir heimilanna (1.300 ma kr.) um 156 milljarða á ári. Hagkerfi þar sem slík verðbólga geisar er ekki heilbrigt. Tveir milljarðar á ári í gjaldeyristekjur af álversbyggingu í Helguvík breyta engu þar um. Álver í Helguvík getur þannig aldrei orðið það heilbrigðisvottorð sem sumir dýralæknar hafa látið sig dreyma um. Sjúkravottorð væri nær sanni.

„Það var barn í dalnum sem datt onum gat
en þar fyrir neðan Ókindin sat..."

Tilgangur þessa söngs er að halda fólki í skefjum. Að stjórna með ótta af því samtal og útskýringar eru of flókin leið til að halda völdum. Það er skiljanlegt að talsmenn bankanna, eigendur steypustöðva, hagsmunasamtök mannvirkjageirans og aðrir sem hafa beinna hagsmuna að gæta láti freistast til að kyrja Ókindarkvæðið gegn betri vitund. Það er jafnvel hægt að skilja þá í verkalýðsforystunni sem jafnan skipa sér gagnrýnislítið í bakraddakórinn um leið og atvinnuleysisgrýlunni er veifað.

Það væri á hinn bóginn afar torskilið ef aðilar sem hafa talað fyrir nýrri hugsun í atvinnu- og efnahagsmálum þjóðarinnar tækju undir þennan söng.

Birt í Morgunblaðinu 4. júlí


Hlustað á borgarbúa?

Kannski er þetta viðleitni meirihlutans til að hlusta á óskir borgarbúa! Að mæta ekki fleiri á fundi en sem nemur fylgi meirihlutans í skoðanakönnunum?
mbl.is Meirihlutinn var í minnihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfissamtök fjölmenna í Teigsskóg í Þorskafirði

TeigsskógurGræna netið, Landvernd, Fuglaverndarfélag Íslands, Náttúruverndarsamtök Íslands og heimamenn í Reykhólasveit efna til gönguferðar um Teigsskóg í Reykhólasveit í Barðastrandarsýslu laugardaginn kemur.

Lagt verður upp frá Gröf í Þorskafirði klukkan 13.00 þar sem Gunnlaugur Pétursson býður göngufólk velkomið og segir frá áformum Vegagerðarinnar um veglagningu um landnámsskóginn og umhverfisáhrifum hennar. Á áningarstöðum sýna Einar Þorleifsson frá Fuglavernd og Gunnlaugur Pétursson ferðalöngum fugla, blóm og jurtir m.a. ferlaufunginn og krossjurtina sem fundist hafa í skóginum. Ferðin endar í hlaðvarpanum á Hallsteinsnesi þar sem sagt verður frá lifnaðarháttum arnarins sem og einu gjöfulasta arnarhreiðri á landinu sem er að finna í Djúpafirði. Gönguferð um skóginn tekur um þrjár klukkustundir.

Leiðsögn um skóginn er göngufólki að kostnaðarlausu. Skráning í ferðina er hjá Sigrúnu í síma 866 9376 eða sigrunpals@landvernd.is

Upplýsingar um svæðið með kortum: www.westfjords.is/index.php/services/listings/C11
Sjá einnig: www.gisting.is/?gid=274

Þeir sem vilja prjóna við ferðina og gista er bent á að mikið er af gististöðum í Reykhólasveit og bendum við áhugasömum á eftirtalda möguleika:

Gisting:

Hótel Bjarkalundur
Uppábúið rúm fyrir tvo er á kr. 8500 með morgunverði. Svefnpokapláss með morgunverði kr. 3000.
http://www.bjarkalundur.is/
Sími 434-7762
Gistiheimilið Álftaland
http://www.alftaland.is/
Sími 434-7878
Miðjanes, ferðaþjónusta bænda
Sími 434-7787, 893-7787

Við hvetjum fólk til að sameinast um bifreiðar.  Ef einhvern vantar pláss hafið samband við Sigrúnu í síma 866 9376

Gott að vera í borginni

Hvað sem öðru líður er gott að vera Samfylkingarmaður í borginni þessa dagana.

Samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallups hefur Samfylking um 52% fylgi í Reykjavík. Sjálfstæðisflokkur nýtur á hinn bóginn aðeins stuðnings tæplega 29% þrátt fyrir að hafa skipt Vilhjálmi út sem leiðtoga hópsins fyrir Hönnu Birnu.

Niðurstaða Gallup er sú sama og Félagsvísindastofnunar að leiðtogaskipti sjálfstæðismanna bjarga engu um álit kjósenda á meirihlutanum og þeim sem að honum standa.


Hvar er réttlæting afnotagjaldanna?

Þrátt fyrir góðan vilja verður æ erfiðara að koma auga á réttlætingu afnotagjalda RÚV.

Hvernig stendur á því að RÚV ohf þarf að auglýsa áfengi í poppþáttum og "hollt og brakandi Honeynut Cheerios" í barnatímanum til að halda úti starfsemi sinni? Meira að segja áramótaskaupið hefur ekki fengið að vera í friði fyrir auglýsingum.

Og hvar er svo metnaðarfyllsta íslenska leikna sjónvarpsefnið? Ekki á RÚV ohf.


mbl.is Kvartað undan bjórauglýsingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hanna Birna bjargar engu

konnun-rvk-samfylkingÞað er ljóst að Hanna Birna sem leiðtogi breytir engu um álit almennings á borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins. Þess var kannski ekki að vænta, sundurlyndið hefur verið algert í þessum hópi það sem af er kjörtímabilinu og erfitt að sjá að það muni breytast.

Örvæntingarfull tilraun til að blása aftur lífi í pólitískan feril Vilhjálms Þ Vilhjálmssonar með því að bjóða Ólafi F Magnússyni borgarstjórastólinn og veto í ýmsum baráttumálum borgastjórnarflokks sjálfstæðismanna virðist hafa gengið endanlega fram af kjósendum.

Þessi könnun er hins vegar mikið fagnaðarefni fyrir Samfylkinguna sem ekki hefur fengið undir 40% fylgi í könnun síðan í nóvember á síðasta ári. Ein og ein góð könnun segir oft ekki mikið en þegar fylgi helst hátt í könnunum í langan tíma er það merki um að verið sé að gera rétt.

Það er ástæða til að leiðrétta það sem fram kemur í þessari frétt mbl.is um fylgi Vg. Í fréttinni er það sagt vera 13,5% en samkvæmt könnuninni er það 17%. Ekki veit ég hvað það myndi gefa í fulltrúum enda skiptir það ekki öllu máli núna - það eru ekki kosningar fyrr en 2010.


mbl.is Samfylkingin fengi meirihluta í borgarstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viljayfirlýsing um hvað?

Það hefur ekki komið skýrt fram nema í fréttum Rúv hvað ríkisstjórnin er að leggja til málanna í þessari viljayfirlýsingu - að stuðla að bættum samgöngum milli Húsavíkur og Akureyrar. Nokkuð sem ríkur vilji er til að gera hvort sem er - enda hefur Samfylkingin sett fram þau sjónarmið að eina alvöru byggðastefnan er að bæta fjarskipti, samgöngur og aðgang að menntun.

Framlenging á þessu samkomulagi virðist því hafa harla litla þýðingu aðra en að þessir aðilar fái að halda áfram að kanna möguleikana á að reisa álver á Bakka með orku úr þeim jarðhitasvæðum sem búið var að gefa leyfi til rannsókna á.

Það sem gleymist oftast í þessari umræðu eru losunarheimildirnar. Fram til 2012 er aðeins rými fyrir eitt lítið álver (hálfver) í viðbót og allt bendir til að það rísi í Helguvík (eins óþarft og það nú er). Ríkisstjórn Íslands stefnir að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem getur aðeins þýtt að eftir 2012 verði heimildir stóriðju til losunar minni en núna. Að auki mun þurfa að greiða markaðsverð fyrir þær.

Það sem mér er fyrirmunað að skilja er þetta: Ef þær losunarheimildir sem við höfum núna duga tæpast fyrir fjögur álver hvernig eiga þá minni losunarheimildir að duga fyrir fimm álver? Ég get ekki séð að það sé yfir höfuð pláss fyrir álver á Bakka - og finndist það langtum sniðugra fyrir Þingeyinga að reyna að laða til sín annan iðnað s.s. kísilhreinsunarstöðina sem nú er að hrökklast frá Þorlákshöfn af því orkufrekjan í Helguvíkurálverinu er svo yfirgengileg.

Það væri gaman að fá upplýsta umræðu um þetta - ekki síst frá álfyrirtækjunum. Hvernig sjá þau fyrir sér rekstur sinn þegar þau þurfa að borga hátt verð fyrir losunarheimildir sem þar að auki eru ekki nægilega miklar fyrir þau öll?


mbl.is Viljayfirlýsing framlengd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

57% landsmanna andvíg frekari virkjunum til stóriðju

Þrátt fyrir sífellt krepputal og harðan hræðsluáróður um atvinnuleysi er afgerandi meirihluti þjóðarinnar á móti frekari virkjunum fyrir stóriðju. Þetta er athyglisvert.

Það kveður við kunnuglegan tón í máli stóriðjusinna. "Ef þjóðin heldur ekki áfram að nýta orkuna í fallvötnum og iðrðum landsins er hún í vondum málum" segir Grétar Mar. Það er ekki mikil trúin sem þessir aðilar hafa á stærstu auðlind landsmanna - hugviti og menntun.

Sem betur fer höfum við núna iðnaðarráðherra sem gerir sér grein fyrir því að hugvit, þekking, rannsóknir og menntun er okkar stærsta auðlind og uppspretta atvinnutækifæra.

Niðurstöður þessarar könnunar Fréttablaðsins sýnir að meirihluti þjóðarinnar telur að nú sé nóg komið af virkjunum fyrir stóriðju. Það er von. Ef álver í Helguvík verður að veruleika þurrkar 1. áfangi hennar upp alla virkjanlega orku á Reykjanesskaganum og alls er óvíst hvort eða hvar verður hægt að afla orku til 2. áfanga álversins.

Þetta þýðir að það er enginn afgangur til að láta smærri fyrirtæki hafa. Þetta kemur glöggt fram í ársskýrslu HS 2007 þar sem segir að mörg fyrirtæki með orkuþörf upp á 10 - 50 MW hafi beðið um rafmagn til kaups. Hins vegar sé ljóst að ekki sé hægt að verða við óskum þessara aðila nema að mjög litlu leyti. Skynsamlegt?


Örnefni við hæfi

Allt er þá þrennt er. Það er vel við hæfi að sjáist til þriðja ísbjarnarins við Bjarnarvötn og Bjarnarfell.

Sú saga barst héðan úr 101 að það hefði sést til ísbjarnar á bílastæði í miðborginni. Þegar málið var kannað betur kom þó í ljós að um var að ræða hvítan Toyota Yaris.


mbl.is Hvítabjörn á Skaga?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýja peningamálastefnan?

Auðvitað fagna ég þessari lækkun vaxta hjá Íbúðalánasjóði. Þetta er bara dálítið kúnstugt.

Á Svörtuloftum situr sá sem ber meginábirgð á efnahagsástandinu eftir 16 ára setu í ríkisstjórn. Hann var forsætisráðherra þegar núverandi peningamálastefnu var komið á og reynir nú árangurslaust að berja þjóðina til hlýðni með stýrivöxtum sem ítalska mafían telur yfir skynsamlegum mörkum.

Á sama tíma lækkar Íbúðalánasjóður vexti á lánum sínum. Væntanlega með vitund og vilja ríkisstjórnarinnar. Er ekki kominn tími til að aflétta friðun á Davíð og peningamálastefnunni?


mbl.is Íbúðalánasjóður lækkar vexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband