22.6.2008 | 23:52
Samfylking í sókn
Samfylkingin bætir við fylgi sitt í þessari skoðanakönnun Fréttablaðsins. Á því eru sjálfsagt ýmsar skýringar en miklu ræður að ráðherrar flokksins hafa á erfiðum tímum talað af ábyrgð og sýnt með orðum og gjörðum að þeir taka hlutverk sitt alvarlega. Síðasta útspil félagsmálaráðherra í húsnæðismálum er mikilvægt fyrir húsnæðismarkaðinn. Margt fólk er í erfiðri stöðu og þótt sjálfsagt standi ríkisstjórnin öll að baki þessari aðgerð hlýtur félagsmálaráðherra mestan heiður.
Forsætisráðherra hefur verið óheppinn í orðavali við fréttamenn og það hefur gefið þá ímynd af honum að hann taki ástandið í efnahagsmálum ekki nægilega alvarlega. Það er eflaust fjarri lagi en hinu er ekki að neita að illa valin svör við oft á tíðum óþægilegum en þó sjálfsögðum spurningum gefa ekki góða mynd af því sem raunverulega er verið að gera.
Sjálfstæðisflokkurinn í borginni hefur nú varið tveimur árum í að brjóta niður orðspor flokksins og orðið vel ágengt. Áhrifin af hinu sífellda sundurlyndi í herbúðum borgarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna ná langt út fyrir Ráðhúsið. Þótt Hanna Birna hafi út úr neyð verið krýnd til forystu er ljóst að Gísli Marteinn Baldursson er engan veginn sáttur við að viðurkenna hana sem leiðtoga og hefur undir rós boðað mótframboð um leiðtogasætið í komandi prófkjöri.
Júlíus Vífill gengur líka með borgarstjóradraum í maganum og hefur haft einstakt lag á að birtast í ljóskeilunni í hvert skipti sem tækifæri gefst. Enn er eftir tæpt ár af borgarstjóratíð Ólafs F Magnússonar sem öllum er ljóst að passar ekki í fötin sem Vilhjálmur og Kjartan sniðu handa honum í þakklætisskyni fyrir að svíkja Dag B Eggertsson og Tjarnarkvartettinn. Illu heilli - borgarinnar vegna - er ólíklegt annað en að vandræðagangur þessa vandræðalega meirihluta muni halda áfram.
Sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa að undanförnu talað og skrifað af slíkum einfeldningshætti um efnahags- og umhverfismál að því verður vart trúað að þeir tali samkvæmt sinni bestu vitund. Og þó. Varaformaður umhverfisnefndar Alþingis boðaði í fréttum í liðinni viku að andstaða innan Sjálfstæðisflokksins myndi koma í veg fyrir að frumvarp umhverfisráðherra um landsskipulag yrði að lögum.
Þar er um að ræða gríðarlega mikilvægt frumvarp þar sem verið er að skapa framkvæmdavaldinu nauðsynlegar heimildir í skipulagslögum til að hafa áhrif á það hvernig landið okkar er skipulagt. Eins og öllum er ljóst sem fylgjast með umhverfismálum hafa sveitarfélög farið mjög svo misjafnlega með skipulagsvald sitt og sum látið kaupa sig til óhæfuverka gagnvart náttúrunni og jafnvel þegið greiðslur fyrir frá orkufyrirtækjunum. Það er ill meðferð á skipulagsvaldinu og þjóðinni ekki í hag. Vilja þessir þingmenn Sjálfstæðisflokksins að fámenn sveitarfélög geti óhindrað gengið þvert á þjóðarhagsmuni með því að selja vald sitt fjársterkum aðilum?
Það er óábyrgt (og jafnvel barnalegt) af þingmönnunum að tala svona. Landsskipulag er eitt af grundvallaratriðum Fagra Íslands og er ásamt rammaáætlun um verndun og aðra nýtingu náttúrusvæða lykillinn að því að hægt verði að koma á sátt í þessum málum. Samfylkingin hefði ekkert að gera í samstarfi við flokk sem vill koma í veg fyrir það.
![]() |
Fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar í könnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.6.2008 kl. 07:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2008 | 12:29
Stórmerkur áfangi
Það hefur margt verið rætt og ritað um djúpborun á síðustu árum en raunverulegt fjármagn hefur vantað til að þróa tæknina. Þetta er stór áfangi í þá átt og merkilegur fyrir margar sakir.
Fram til þessa hefur djúpborun ekki verið sýnd sú athygli sem henni ber af því orkufyrirtæki hafa haft tiltölulega óheftan aðgang að öllum þeim orkusvæðum sem þau hafa talið nýtanleg, hvort heldur um er að ræða fyrir vatnsafl eða gufuafl.
Nú er það breytt en eitt af fyrstu verkum núverandi iðnaðarráðherra var að synja öllum umsóknum um rannsóknarleyfi á meðan unnið er að rammaáætlun um vernd og aðra nýtingu náttúrusvæða. Dæmi um svæði þar sem sótt hafði verið um slík leyfi eru Brennisteinsfjöll, Torfajökulssvæðið og Kerlingafjöll. Þetta gerði ráðherra í anda þess meginmarkmiðs Fagra Íslands að á meðan unnið er að rammaáætlun eigi ekki að gefa út leyfi á fleiri óröskuðum svæðum.
Niðurstaða Skipulagsstofnunar um Bitruvirkjun er annað tákn um að sú gósentíð orkufyrirækjanna þegar þau gátu óhindrað valsað um heiðar og dali með bora sína og stíflugerð er liðinn. Aukin meðvitund almennings og auknar áherslur stjórnvalda á verndun náttúru og umhverfisgæða þrengir að starfsemi þessara fyrirtækja og nú bregðast þau hárrétt við. Þau leita niður á við.
Það eru góð tíðindi og þótt það taki 5, 10 eða 15 ár að ná tökum á þessari tækni er sá tími fljótur að líða auk þess sem okkur liggur ekkert á.
Þannig tel ég að líkt og með Ölkelduháls/Bitru verði Krýsuvíkursvæðið talið of verðmætt sem útivistarsvæði og aðdráttarafl fyrir ferðamenn til að þar verði talið verjandi að ráðast í virkjanir í stórum stíl. Fyrri ríkisstjórn hafði veitt leyfi til rannsóknarborana í Austurengjum, Sandfelli, Seltúni og Trölladyngju.
Aðeins hefur verið borað í Trölladyngju en sú hola olli miklum vonbrigðum. Aðfarir og frágangur Hitaveitu Suðurnesja hefur í Trölladyngju hefur líka valdið miklum vonbrigðum, jafnvel þótt væntingar hafi ekki verið miklar.
Að mínu mati er engin ástæða til að vaða með þessum hætti yfir fleiri verðmæt náttúrusvæði eins og Krýsuvíkursvæðið. Við eigum að bíða og sjá hvað kemur út úr þessari leit djúpt niður í jörðina. Það er ábyrgt gagnvart umhverfinu og þeim sem á eftir okkur koma.
Það verður spennandi að sjá hverju fram vindur.
![]() |
3,5 milljarðar í djúpborun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.6.2008 | 14:56
Svipað henti unglegan borgarfulltrúa í Seattle
Það er full alvara á bak við framkvæmd áfengislöggjafarinnar í Bandaríkjunum. Þegar Umhverfisráð fór til Seattle í fyrravor þurfti einn borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins ítrekað að sýna skilríki sín áður en honum var hleypt inn á staði, að ekki sé minnst á það þegar hann pantaði sér drykk.
Þarna fór saman ábyrgðarkennd veitingafólksins vestra gagnvart "minors" og unglegt útlit borgarfulltrúans. Við sem eldri erum (og lítum út fyrir það!) glottum út í bæði;-)
![]() |
Of ung til að kaupa grillsósu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.6.2008 | 09:56
Bjarnargreiði
Fréttir af ísbirninum á Þverárfjalli fékk ráðherrann á netinu og setti sig í samband við lögreglu á staðnum. Þá hafði hins vegar drifið af fjölda fólks og þótt ráðherra vildi gjarna reyna aðrar leiðir en að fella dýrið varð því ekki við komið þá. Hún var af sumum sökuð um vaklandahátt í málinu sem var ósanngjarnt. Björninn var að hverfa upp í þoku, skammt frá mannabyggð, og fólki stafaði hætta af honum. Mannslíf skipta meira máli en líf ísbjarnar. Það er gott að eiga umhverfisráðherra sem er ekki feiminn við að segja það.
Í þetta skiptið fékk umhverfisráðherra fréttirnar strax og bjarnarins varð vart en hún var í fríi erlendis. Á sama hátt og síðast var mikill vilji til að ná dýrinu lifandi og koma því aftur heim til sín og nú var það reynt sem ekki varð við komið síðast. Þökk sé góðum fjarskiptum gat Þórunn - þótt í útlöndum væri - komið því til leiðar að vanir aðilar frá Danmörku voru fengnir til verksins. Hún mætti svo sjálf á staðinn sem sýnir í verki vilja hennar til að fá málinu farsælar lyktir.
Vitað var að allt þyrfti að ganga upp til að hægt væri að ná birninum. Það var reynt en tókst ekki. Frekar en að missa björninn aftur út á haf með óvissu um hvort eða hvar hann næði landi aftur var björninn felldur. Það var hárrétt ákvörðun.
Það virðast margir gleyma því um hvað umhverfis- og náttúruverndin snýst í þessu máli. Kannski hefur húnninn Knútur eitthvað ruglað okkur í ríminu og kannski býr í okkur einhver harmur yfir því sem er að gerast á norðurslóðum sem brýst út í reiði yfir því að ekki sé allt gert til að bjarga hafvilltum ísbjörnum, sama hvað það kostar.
- Tveir ísbirnir hafa ekki áhrif á stofnstærð tegundarinnar, það er því ekki spurning um viðgang tegundarinnar að bjarga ísbjörnum sem hingað villast.
- Ísbirnir eru stórhættuleg dýr. Þau hlaupa tvisvar sinnum hraðar en fljótustu menn, þau geta rotað hross með hramminum og það er í raun heppni að barnið sem gekk í flasið á birninum á Hrauni slapp frá þeim fundi.
- Til að koma deyfiskoti í björninn þarf að standa í 30 metra fjarlægð frá honum. Það eru u.þ.b. 3-4 bíllengdir í röð á rauðu ljósi. Það tekur ísbjörn ca 2 sekúndur að hlaupa þann spotta t.d. ef deyfiskotið geigar og björninn bregst reiður við.
- Til að koma birninum í búr gæti þurft að svæfa hann nokkrum sinnum sem er mikið álag á líffæri dýrsins. Í ljós kom að björninn á Hrauni var of máttfarinn til að þola svæfingu.
Við svona aðstæður verðum við að hafa forgangsröðina á hreinu. Mannslíf eru meira virði en ísbjarnarlíf - þótt dýrmæt séu og mannúðleg meðferð á dýrum verður að vera leiðarljós við svona aðstæður. Stundum er mannúðlegra að fella dýr en að byrla þeim lyf til að hægt sé að koma þeim á milli landa og þessa ábyrgð verðum við að axla þótt óljúft sé.
Ísbjarnarblús nr 2 skilur eftir nokkrar spurningar s.s. hvort ferðamenn t.d. á Hornströndum og í Fjörðum megi eiga von á því að ganga í flasið á svöngum ísbirni í sumar, hver mun bæta fólkinu á Hrauni tjónið sem ísbjörninn vann á margra ára starfi þeirra og lífsafkomu (æðarvarpinu) og síðast en ekki síst - af hverju liggur straumur ísbjarna hingað og hvað er til ráða til að vernda lífsskilyrði þeirra.
Þó það fari flestir gangandi en ekki ríðandi um Hornstrandir og önnur nyrstu óbyggð svæði landsins læt ég þennan texta Spilverksins verða lokaorðin um ísbirni að sinni.
Icelandic cowboy
I'm an Icelandic cowboy
on my Icelandic pony.
I travel around in the west.
I know all the ways around Snæfellsnes
'cause that's where my baby stays.
I've been to the east, and I've been to the west.
I've been to the north and the south.
Once I met there an old polar bear
but I found out he had a big mouth.
That's why I'm singing for you, forgotten cowboys,
forgotten cowboys of the world.
Come to Iceland, 'cause it's a nice land
and you can shake the shephards hand.
And if you come to Iceland you can join the local band
![]() |
Ísbjörninn að Hrauni dauður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.6.2008 | 17:32
Samviskuspurningar
Síðast varð ekki neitt við ráðið, sá sem fyrstur sá bjarndýrið á Þverárfjalli byrjaði á að hringja í útvarpið og skömmu síðar var allt fullt af fólki á vettvangi. Hætta var á að missa þann ísbjörn upp í svartaþoku á fjallinu, skammt frá mannabyggð. Myndatökumaður sem langaði að ná myndskeiði ársins fór of nálægt bjarndýrinu sem auðvitað varð að drepa þegar það nálgaðist hinn gómsæta myndatökumann um of.
Þjóðfélagið fór á hvolf og kaffistofur vinnustaða loguðu stafna á milli í deilum um hvort rétt hefði verið að skjóta björinn eða hvort mögulegt hefði verið að bjarga honum. Nú er kominn annar ísbjörn. Aftur stöndum við frammi fyrir sömu spurningum.
Nú er bjarndýrið bókstaflega steinsnar frá íbúðarhúsinu á Hrauni á Skaga. Engu mátti muna að 10 ára stúlka lenti í klónum á honum í morgun þegar hún hljóp á eftir heimilishundinum út í æðarvarpið þar sem bjarndýrið sat og gæddi sér á eggjum. Sem betur fer slapp hún. Það var heppni. En aftur er spurt - hvað á að gera við ísbjörninn? Er hægt að fanga hann og flytja hann aftur til síns heima?
Hugsanlega er hægt að svæfa björninn. Það dugar í u.þ.b. 15-20 mínútur. Dugar það til að koma bjarndýrinu í búr? Það er ekki víst að ísbirninum henti að standa á bílaplaninu akkúrat þegar deyfiskotið ríður af. Er hægt að reka björninn eða lokka í aðhald? Ekki gott að segja. Kannski Jón Bjarnason þingmaður Skagfirðinga vilji ganga með kjötstykki á undan birninum inn í gám?
Þetta er ekkert gamanmál. Auðvitað er best ef hægt er að handsama björninn og flytja hann heim til Grænlands. Það má hins vegar ekki ganga svo langt í þeim leiðangri að mannslífum sé teflt í tvísýnu. Það má heldur ekki ganga svo langt í manngæskunni að dýrið kveljist, t.d. vegna síendurtekinna svæfinga en það hefur komið fram að slík meðferð myndi fara mjög illa með líffæri dýrsins og hugsanlega drepa það með kvalarfullum hætti.
Kannski erum við líka að gleyma aðalatriðinu í þessu máli. Það er ekki venjulegt að ísbirnir komi hingað af sundi og þetta styður það sem við jú vissum fyrir að tilveru ísbjarna er ógnað af loftslagsbreytingum - sem eru af manna völdum. (M.a.s. Illugi Gunnarsson er hættur að mótmæla því!)
Við þurfum því að spyrja okkur nokkurra samviskuspurninga. Hve langt á að ganga í að bjarga bjarndýrinu? Má tefla mannslífi í tvísýnu? Má kvelja dýrið til að bjarga því? Getur verið að okkur sé svona umhugað um að bjarga birninum af því í raun viljum við bjarga okkur sjálfum frá því að taka á orsök vandans?
Hugsum kannski um það næst þegar við stígum upp í jeppann til að skreppa bæjarleið.
![]() |
Allt í biðstöðu" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.6.2008 | 11:08
Verðhækkanir
Allir vita að eldsneyti hefur hækkað, olía hækkar á heimsmarkaði og það skilar sér hingað. En það er ekki það eina - allt er að hækka í verði. Sumt á sér eðlilegar skýringar t.d. í því að íslenska krónan hefur sigið en sumar verðhækkanir virðist ekki vera hægt að skýra með öðru en okri.
Kaffihúsin hafa hækkað verðskrá sína umtalsvert upp á síðkastið. Ég bar að gamni saman hækkanir á helstu vörum þriggja kaffihúsa á Laugaveginum.
Cafe Latte (tvöfaldur) hækkaði úr 360 í 390 hjá Te&kaffi, úr 350 í 380 hjá Kaffi Tári en kostaði 370 hjá Kaffi Hljómalind og hefur ekki hækkað.
Uppáhellt kaffi hækkaði úr 290 í 320 hjá Te&kaffi, úr 240 í 280 hjá Kaffi Tári en kostaði 300 hjá Kaffi Hljómalind og hefur ekki hækkað.
Súkkulaðikaka, ein sneið, hækkaði úr 490 í 590 hjá Te&kaffi, úr 530 í 580 hjá Kaffi Tári og úr 520 í 540 hjá Kaffi Hljómalind.
Ef við gefum okkur að tvær manneskjur ætli að hittast yfir kaffibolla og kökusneið. Önnur drekkur Caffi Latte en hin uppáhelt og hvor um sig fær sér kökusneið. Þá hefur þessi lúxus hækkað sem hér segir:
Hjá Te&kaffi úr 1630 í 1890 eða um 16%, hjá Kaffi Tári úr 1650 í 1820 eða um 10,3% og hjá lífræna kaffihúsinu Kaffi Hljómalind úr 1710 í 1750 eða um 2,3%. (Vert er að taka fram að Kaffi Hljómalind notar aðeins lífrænt ræktað kaffi sem er helmingi dýrara í innkaupum en venjulegt kaffi.)
Í samtölum við rekstraraðila kom fram að eftir gengissig krónunnar hefur hráefni frá birgjum hækkað talsvert (um ca 15%) og þetta skýrir hluta af hækkuninni. Mér finnst samt ekki líklegt að efni í súkkulaðikökur hafi hækkað svo mikið að það verðskuldi rúmlega 20% hækkun á sneiðinni.
Þá kom fram í samtali við Kaffi Hljómalind að mjólk hafi hækkað sem m.a. er skýrt með mikilli hækkun á tilbúnum áburði. Hins vegar hafi lífræna mjólkin hækkað líka sem er undarlegt af því það er ekki notaður tilbúinn áburður til að framleiða hana.
Mesta kjarabót sem íslenskur almenningur getur fengið er bætt neytendavitund. Hana getum við búið til sjálf. Það þarf ekki stjórnvöld til þótt þau geti vissulega hjálpað til (og hafi sýnt ágæta tilburði til þess að undanförnu).
Kæru lesendur. Sumar hækkanir eiga sér eðlilegar skýringar s.s. óstöðugt gengi krónunnar. Alltof margt á sér þó bara eina skýringu - við látum okra á okkur og spyrjum aldrei af hverju þetta eða hitt kostar svona mikið! Það er sama hvort það er kaffi, gallabuxur eða brauð.
Tökum okkur nú saman í andlitinu!
15.6.2008 | 22:33
Góð grein hjá Björk
Mér fannst greinin hennar Bjarkar reglulega góð. Það var í henni hvetjandi hljómur, einkum í kaflanum þar sem hún var að biðja okkur að selja okkur ekki ódýrt og hafa trú á að við getum gert góða hluti sjálf.
Því miður tröllríða nú Árnar af ýmsu tagi og meðreiðarsveinar eins og Jón Gunnarsson um allar grundir með heimsendaspár og svartagallsraus. Við eigum ekki að leggja eyrun við því heldur hafa ögn meiri trú á okkur sjálfum en svo að það verði að virkja hverja einustu sprænu og hver til að selja á tombóluverði.
Björk hefur sýnt og sannað hvað er hægt að gera með því að hafa trú á sjálfum sér og því sem maður er að gera. Hlustum á hana.
![]() |
Barnalegt að hækka koltvísýringslosun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.6.2008 | 18:06
"Við erum ekki glötuð! - Vonandi"
Ósköp er þetta klén innsetningarræða hjá harðsnúnu Hönnu.
Erfiðir tímar "vonandi" að baki. Samstarfið við F listann (is there such a thing?) er "afar gott" og Ólafur F er "heiðarlegur og vandaður maður" (hann hefur reyndar gefið út tilskipun um að ekki beri að draga heilindi hans í efa svo þessi orð Hönnu Birnu jaðra nú við drottinsvik!).
Af því henni fannst ekki nóg að segja "við erum ekki glötuð" í nokkrum mismunandi útfærslum þótti henni nauðsynlegt að skíta út verk Tjarnarkvartettsins sem náði á þremur mánuðum glæsilegu flugi undir stjórn Dags B Eggertssonar og naut trausts yfirgnæfandi meirihluta þegar Vilhjálmur Þ og Ólafur F tóku völdin í lok janúar í þeim tilgangi að reyna pólitíska endurlífgun á þeim fyrrnefnda og þjóna hégómleika þess síðarnefnda.
Við skulum sjá hvað setur.
![]() |
Vörn verður snúið í sókn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.6.2008 | 12:47
Mikilvæg tilnefning
Þessi tilnefning Marorku til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2008 er mikilvæg í mörgum skilningi. Eins og allir vita er olíunotkun fiski- og farskipaflotans gríðarleg en til að veiða kíló af fiski með hefðbundnum togveiðum þarf hátt í lítra af olíu.
Olíusparnaður er því gríðarlegt hagsmunamál fyrir sjávarútvegsfyrirtæki nú þegar olíuverð teygir sig upp í sögulegar hæðir og engar líkur á að það lækki á næstu árum. Þá skiptir olíusparnaður miklu máli í baráttunni gegn losun kolsýrings en sem dæmi má nefna að um þriðjungur heildarlosunar Íslands, að stóriðju meðtalinni, er að völdum sjávarútvegs.
Í þriðja lagi skiptir gott gengi hátæknifyrirtæksins Marorku miklu máli fyrir vöxt og viðgang hátæknigeirans í heild. Það er mikilvægt að hér skapist góð skilyrði fyrir sprotafyrirtæki í hátækni- og þekkingariðnaði. Í slíkum fyrirtækjum fer fram þróun á alls kyns vörum og þjónustu en eins og marg oft hefur verið bent á er þróunarparturinn verðmætasti hluti ferilsins í þróun og framleiðslu vöru og þjónustu.
Hátækni- og þekkingariðnaður krefst vel menntaðs vinnuafls og þjóðir með hátt menntastig standa betur að vígi í samkeppni þjóða en þær sem hafa lágt menntastig. Heimsvæðingin veldur því að hagstæðara er að framleiða margar vörur austur í Asíu en hér. Vesturlönd standa hins vegar sterk í samkeppninni um þróunina - en aðeins þau lönd sem búa vel að hátækni- og þekkingariðnaði sínum. Það þurfum við að gera.
![]() |
Marorka tilnefnd til umhverfisverðlauna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.6.2008 | 11:11
Út að borða á Úlfarsfelli
Við feðginin skelltum okkur í hjóla- og fjallgöngutúr með heimilishundinum um kvöldmatarleytið í gær. Veðrið var svo frábært og sól hátt á lofti um það leyti sem sexfréttir hófust í útvarpinu að hjólatúr var mun meira spennandi en þrír fréttatímar í röð um sama efni. Við smurðum samlokur, settum núðlusúpu og heitt vatn í bakpoka og hjóluðum út í sumarkvöldið.
Það eru góðar hjólaleiðir í Grafarvoginum og göngubrú undir Vesturlandsveginn en hins vegar er vandfundin góð hjólaleið í frá Vesturlandsveginum að Úlfarsfellinu. Við þræddum því ótal krákustíga í gegnum hið hálfbyggða íbúðarhverfi í Úlfarsárdalnum en komumst þó klakklaust í gegn.
Ganga á Úlfarsfell er alveg mátuleg síðdegisganga fyrir fjölskylduna og eftir tæplega hálftímalabb á toppinn fundum við okkur skjólsæla laut með útsýni yfir borgina, opnuðum bakpokann og tókum til matar okkar. Þótt matseðillinn væri kannski ekki jafn fjölbreyttur og á bestu veitingastöðum borgarinnar fullyrði ég að útsýnið var betra en á nokkrum þeirra.
Á heimleiðinni nutum við þess að hafa séð yfir nýbyggingahverfið og fundum greiðari leið heim. Kolfinna, sem er mikill meistari samræðulistarinnar, sagði fréttir af vettvangi Faxabóls og Foldaskóla sem jöfnuðust fyllilega á við þrjá fréttatíma. Síðasta spölinn styttum við okkur leið í gegnum Keldur, spjölluðum aðeins við hestana og hlustuðum á sigurhróp Fjölnis sem steinsnar frá var að vinna nágranna okkar í Árbænum í fótbolta.
Býsna vel heppnuð ferð út að borða!