Undarleg þversögn

Í þessari frétt er undarleg þversögn. Ef ég skil þetta rétt er Íbúðalánasjóður að láta athuga hvað er mikið til af óseldum íbúðum með það í huga að neita fólki um lán til að kaupa hinar óseldu íbúðir ef þær eru margar!

Þetta er undarlegt. Hvernig á hinum óseldu íbúðum að fækka ef fólk fær ekki lán til að kaupa þær? Ég hélt að fólk réði því sjálft hvort og hvar það kaupir íbúðir og að hlutverk Íbúðalánasjóðs væri að lána fólki sem stenst kröfur um greiðslumat peninga til kaupanna.

Ég get ekki séð að það klagi neitt upp á Íbúðalánasjóð þótt framboð á íbúðarhúsnæði sé talsvert umfram eftirspurn akkúrat þessa mánuðina. Það hefði verið nær að halda að sér höndum þegar eftirspurnin var að sprengja íbúðarverð upp úr öllu valdi.


mbl.is Engin lán á ný hús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að njóta vafans

Í umhverfisverndarmálum er oft talað um að láta náttúruna njóta vafans. Þá er venjulega til umræðu að fara í einhverjar framkvæmdir sem hætta er á að valdi óásættanlegum umhverfisspjöllum og til að forðast það er náttúran látin njóta vafans.

Þessi sama regla er í hávegum höfð þegar dæmt er í sakamálum og ástæðan er sú að það þykir skárra að láta einhvern sleppa en að eiga á hættu að dæma saklaust fólk í steininn. Það er látið njóta vafans.

Stjórnmálamenn búa ekki við þetta öryggi í störfum sínum og líklega er skýringin öðru fremur sú að þeir byggja fylgi sitt á því trausti sem þeir hafa aflað sér. Verði stjórnmálamanni á að gera eitthvað sem rýrir traust fylgismanna hans á honum á hann engan sérstakan rétt á að njóta vafans. Traust er ekki þess eðlis, það annað hvort er fyrir hendi eða ekki. Það tekur langan tíma að byggja upp traust en skamman tíma að glata því. Einmitt þess vegna er það svo dýrmætt.

Fyrir skemmstu varð ég fyrir sárum vonbrigðum með stjórnmálamann sem ég hef borið mikið traust til. Það sem olli vonbrigðum mínum var algerlega óútreiknanleg þátttaka hans í táknrænni athöfn sem bæði er í hróplegri mótsögn við einarða afstöðu hans og flokks okkar beggja í mikilvægum málum.

Því er ekki að neita að þetta hefur veikt traust mitt til viðkomandi stjórnmálamanns. Ég veit að svo er um fleiri. Í anda umhverfis- og réttlætissjónarmiða ætla ég þó að leyfa honum að njóta vafans. Kannski var einhverju laumað í kaffið hans. En ég hef á mér vara.


Úrslit borgarstjóra Idolsins í Sjálfstæðisflokknum

Um hríð hefur verið hægt að taka þátt í skoðanakönnun á þessari síðu um leiðtoga- og borgarstjóraefeni Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Því miður hugkvæmdist mér ekki að bjóða upp á Dag B Eggertsson sem einn af svarmöguleikunum, en eins og fram kom í könnun sem gerð var fyrir Stöð 2 lenti Dagur í 3ja sæti þegar þjóðin var spurð hvern af borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins fólk vildi helst sjá sem borgarstjóra.

Að öðru leyti voru niðurstöður þessara kannana svipaðar, Hanna Birna jarðaði félaga sína í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins. Slök útkoma Vilhjáms Þ Vilhjálmssonar kom auðvitað ekki á óvart en hitt vekur nokkra furðu hvað Gísli Marteinn Baldursson fær slaka útkomu. Einkum í ljósi þess að hann atti kappi í prófkjöri um fyrsta sæti við Vilhjálm sem hreppti heldur nauman sigur.

Gísli Marteinn fékk traust um helmings kjósenda í 1. sæti en Hanna Birna nánast rússneska kosningu í 2. sæti. Þetta má túlka sem svo að nánast jafn margir vildu Gísla Martein í leiðtogasæti og Vilhjálm en allir voru sammála um að Hanna Birna ætti að vera í 2. sæti. Niðurstaðan sem nú liggur fyrir er auðvitað ekki í samræmi við þetta.

Annað sem vekur athygli er að Júlíus Vífill fær býsna góða útkomu miðað við að hafa lent í 5. sæti í prófkjöri. Það verður auðvitað að viðurkennast að á stundum er talsverður borgarstjórablær yfir Júlíusi. Hann er glæsilegur á velli og með mikið og fallegt hár sem borgarbúar virðast vera sammála um að sé mikilvægt fyrir borgarstjóra.

Kjartan Magnússon bauð sig aldrei fram en var þó oft nefndur til sögunnar sem hugsanlegt borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins. Það sem gerði Kjartan að líklegum kosti eru persónuleg tengsl hans við Ólaf F Magnússon en góð tengsl borgarstjóra við Ólaf hafa verið talin auka líkur á að meirihlutasamstarf við Ólaf haldi - þótt ekki sé á vísan að róa með slíkt.

Eftir þessa langdregnu - en þó á stundum spennandi - Idol keppni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins hefur margt á dagana drifið. Við höfum séð þennnan hóp í sófanum í Ráðhúsinu tala um trúnaðarbrest, sárindi sín og vinskap, við sáum þau reið og bitur á tröppunum heima hjá Villa, með jarðarfararsvip á Kjarvalsstöðum og svo að skjótast sitt í hvoru lagi út um kjallara- og bakdyr við ýmis tilefni.

Vonandi tekst Hönnu Birnu að halda þessum hópi saman - og góðu sambandi við Ólaf sem enn um sinn verður borgarstjóri í boði Sjálfstæðisflokksins. Borgin getur ekki beðið lengur eftir starfhæfum meirihluta.


Hellisheiði - Hverahlíð - Ölkelduháls

Græna netið stendur fyrir vettvangsferð um Hellisheiði, Hverahlíð og Ölkelduháls sunnudaginn 8. júní 2008. Lagt verður af stað frá BSÍ kl. 11 undir leiðsögn Sigmundar Einarssonar jarðfræðings og Jakobs Gunnarssonar umhverfisfræðings.

Ferðaáætlunin er á þennan veg:

  • Lagt af stað frá BSÍ kl. 11.
  • Á leiðinni austur verður farið yfir nýlegar jarðhitaframkvæmdir, umhverfismat slíkra verkefna og afdrif hjá   Skipulagsstofnun.
  • Fyrsti áfangastaður er við Hellisheiðarvirkjun. Ekki stendur til að fara inn í virkjunina en stefnt að því að ganga upp í hlíðar fyrir ofan virkjunina og glöggva okkur á umfangi þess svæðis sem búið er að virkja.
  • Þá verður farið að Hverahlíð. Á því svæði má sjá hvernig jarðhitasvæði lítur út þegar rannsóknarboranir eru hafnar en virkjun hefur ekki verið reist. Hafa ber í huga að Orkuveita Reykjavíkur boðar nýja kynslóð jarðhitavirkjana á þessu svæði og hefur lýst því yfir að sjónræn áhrif mannvirkja verði í algjöru lágmarki.
  • Loks verður farið á Ölkelduháls. Skoðum hverasvæðin sem eru skammt frá bílaplaninu og röltum niður í Reykjadal og upp aftur. Fræðumst um jarðskjálfta, jarðhita og tignarlegt landslag. K omið til Reykjavíkur milli kl. 4 og 5.

Athygli er vakin á því að við Hverahlíð og Ölkelduháls má sjá áhrif jarðskjálftanna frá í síðustu viku, og við skoðum svæðin meðal annars með það fyrir augum að greina sýnileg ummerki jarðskjálftanna. Okkur ber að sýna sérstaka aðgát á hverasvæðunum við Ölkelduháls eftir skjálftana.

Leiðsögumennirnir Sigmundur Einarsson og Jakob Gunnarsson þekkja svæðið vel. Sigmundur starfar á Náttúrufræðistofnun Íslands og fæst þar m.a. við rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Hann skrifaði fyrir nokkrum árum lærða grein um aldur hraunanna á Hellisheiði. Jakob er sá sérfræðingur á Skipulagsstofnun sem komið hefur að flestum jarðhitaverkefnum á Hellisheiði.

Allir velkomnir - líka stálpuð börn. Kostnaður fyrir hvern fullorðinn er 1500 krónur.

Þátttaka tilkynnist hið allra fyrsta á netfangið sas@vortex.is eða dofri.hermannsson@reykjavik.is


mbl.is Ákvörðun um að hætta við Bitruvirkjun ekki endurskoðuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð tilfinning

Undanfarnar 6 vikur hef ég hjólað í vinnuna. Þetta eru rúmlega 100 km á viku svo miðað við meðaleyðslu á bíl er ég að spara mér um 8 þúsund í bensín á mánuði. Það er góð tilfinning.

Ef ég færi á bíl í vinnuna þyrfti það í raun að vera bíll nr. 2 á heimilinu og miðað við lítinn bíl væri kostnaður við rekstur - fyrir utan eldsneyti - um 50 þúsund á mánuði. Sparnaðurinn með því að vera á hjóli er því kominn upp í 58 þúsund á mánuði. Aftur góð tilfinning.

Ég er að jafnaði um 10 mínútum lengur á milli Grafarvogs og miðbæjar á hjóli en í bíl og samtals tapast þarna um 20 mínútur á dag eða um 100 mínútur á viku. Á móti kemur að ég get með góðri samvisku sleppt því að fara í ræktina en 100 mínútur duga eru einmitt mátulegar fyrir eina slíka ferð.

Mánaðaráskrift að líkamsrækt er tæpast undir 5 þúsund krónum á mánuði svo með því að hjóla er ég í rauninni að fara í ræktina 10 sinnum í viku og spara mér um 63 þúsund krónur á mánuði. Til að fá þessa upphæð í vasann þarf maður að hafa rúmlega 100 þúsund fyrir skatt svo það má segja að með ákvörðuninni um að hjóla í vinnuna í stað þess að nota bíl nr. 2 til og frá vinnu hafi maður fengið 100 þúsund króna launahækkun. Góð tilfinning.

Í gær fékk ég vindinn í fangið á leiðinni heim. Mér lá ekkert á svo þetta var skemmtileg áreynsla þótt sandfokið við Björgun í Bryggjuhverfinu hafi hvorki verið notalegt fyrir augu eða tennur.
Í morgun var vindurinn hins vegar í bakið og mig bar létt yfir. Það er notalegt að byrja daginn þannig.

Það skemmtilega við að hjóla undan vindi, fyrir utan áreynsluleysið, er að öll hljóð verða manni samferða í vindinum. Þannig heyrir maður hljóðin í dekkjum, keðjum, stígnum og laufblöðum á allt annan hátt en venjulega. Það er líka eins og maður ferðist í einhvers konar lofttómi.

Líka góð tilfinning.


mbl.is Bjóða reiðhjól og strætómiða í skiptum fyrir bensínháka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langt seilst í hvalveiðimálum

Það er undarlegt hvað sært þjóðarstolt getur leitt til margra vondra ákvarðana. Af því heimurinn er á móti því að við drepum hvali þá er ákveðinn hluti þjóðarinnar kominn í heilagt stríð fyrir því að drepa hvali. Er þetta ekki kallað andstöðuþrjóskuröskun á fagmáli sálfræðinnar?

Við höfum umtalsverðar gjaldeyristekjur af því að drepa ekki hvali, heldur að sýna ferðafólki þá en í staðinn fyrir að reyna að fá meira út úr þessari tegund nýtingar fyllumst við þvermóðsku og spillum fyrir þeirr starfsemi með því að drepa hvalina.

Þetta er bara heimska. Og nú kemur í ljós að kjötið af langreyðunum sem Kristján Loftsson hefur legið með í frystigeymslum í 2 ár og segist nú hafa selt til Japans - þetta kjöt liggur bara í frysti í tollinum í Japan og salan á kjötinu var málamyndagjörningur - liður í áróðursstríði Kristjáns og félaga.

Hvar fá menn peninga í þetta ævintýri? Stjórnvöld munu víst á síðasta kjörtímabili hafa lagt margfalda ársveltu margra náttúruverndarsamtaka inn á reikning þess félagsskapar sem að hvalveiðunum standa. Af hverju var það gert? Er ennþá verið að ausa peningum í svona vitleysu?

Eru skattgreiðendur að borga Japansferð langreyðanna sem Kristján Loftsson sendi sjálfum sér til að blekkja stjórnvöld og almenning? Er ekki komið nóg af þessari vitleysu?


Veljið borgarstjóra Sjálfstæðisflokksins hér

Því miður vantar svarmöguleikann Dag B Eggertsson sem 8% landsmanna valdi sem leiðtoga Sjálfsstæðismanna í könnun Stöðvar 2 þrátt fyrir augljósa annmarka.

En könnunin er hér til vinstri. Gjörið svo vel og veljið en munið að vanda valið - hér er mikið í húfi!


mbl.is Þrýsta fastar á Vilhjálm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Freistingar í ferðalögum

Þessi mynd gengur nú á netpóstinum. Gæti kveikt góðar hugmyndir í matartengdri ferðaþjónustu.

Styttan Davíð eftir Michaelangelo kemur heim til Ítalíu eftir vel heppnaðan 12 vikna túr um Bandaríkin

David


Hyggjuvit í fjárfestingum

Það hefur lengi verið ljóst að heimurinn er að leita leiða til að draga úr losun CO2. Flestar þróuð lönd eru þegar búin að setja reglur og lög sem gera það hagkvæmara að ferðast á vistvænan hátt, m.a. með því að efla almenningssamgöngur, hætta að hygla einkabílnum með umferðarslaufum og ókeypis bílastæðum og með sköttum á bíla og eldsneyti.

Öllum Íslendingum sem hafa keypt sér bíla á síðustu 2-3 árum hefur mátt vera ljóst að hlýnun andrúmslofts er ekkert prívat mál útlendinga. Að lokum, þótt seint sé, hlýtur Ísland að feta í slóð annarra ábyrgra þjóða og setja sams konar leikreglur á Íslandi.

Þessu hafa sem betur fer margir gert sér grein fyrir og hafa af hyggjuviti sínu fjárfest í mátulega stórum og sparneytnum bílum. Margir virðast hins vegar hafa farið á mis við þessar mikilvægu markaðsupplýsingar (aðgerðir gegn CO2 losun og hlýnun andrúmslofts á jörðinni) og hafa því illu heilli fjárfest fyrir 10-20 milljónir í 3-4 tonna jeppum til að snatta á innanbæjar.

Það er skiljanlegt að þeir sem hafa fjárfest á þennan hátt séu miður sín. Það er hins vegar ekkert við því að gera. Það er beygja á veginum framundan til vistvænni leiða í samgöngum og þeir sem ekki taka þessa beygju lenda útaf veginum. Þetta er engin blindbeygja heldur löngu fyrirséð.


mbl.is Bensínhákar óseljanlegir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað hugsa sláturlömbin?

Í janúar voru 16% ánægð með störf Ólafs F Magnússonar og um 27% voru ánægð með nýjan meirihluta Ólafs og Sjálfstæðisflokksins. Lengi getur vont versnað - nú eru aðeins 9% ánægð með Ólaf og stuðningur við meirihluta hans og Sjálfstæðisflokksins hefur fallið niður í 14%.

Til samanburðar má nefna að þegar Dagur B Eggertsson lét af embætti borgarstjóra voru 54% borgarbúa ánægð með störf Dags sem borgarstjóra. Einungis 19% voru óánægð með störf Dags en 67% borgarbúa eru óánægð með störf Ólafs F Magnússonar!

Áður en þessi nýjasta og svartasta könnun á stuðningi við núverandi meirihluta birtist voru þungaviktarmenn innan Sjálfstæðisflokksins farnir að segja pólitískum andstæðingum í óspurðum fréttum að fyrir næstu kosningar yrðu allir borgarfulltrúar flokksins slegnir af - rétt eins og um riðufé væri að ræða. Eftir þessa nýjustu könnun er spurningin kannski helst sú hvort flokkseigendafélagið getur beðið svo lengi eftir sláturtíðinni.

Þetta er undarleg staða, einkum fyrir þá í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins sem ekki tóku þátt í að mynda þennan vonlausa meirihluta, ekki tóku þátt í að setja borgarstjórastólinn á útsölu eða varpa málefnum sínum s.s. framtíðarskipulagi Vatnsmýrarinnar fyrir róða.

Þær raddir heyrast nú úr grasrót Sjálfstæðisflokksins að þessir borgarfulltrúar ættu að endurskoða stuðning sinn við núverandi meirihluta sem slær hvert metið af fætur öðru í vantrausti og freista þess heldur að semja um ákveðin málefni Sjálfstæðisflokksins gegn stuðningi við minnihlutastjórn félagshyggjuflokkanna undir stjórn Dags B Eggertssonar.

Líklega er rétt hjá grasrót Sjálfstæðisflokksins að slíkt fyrirkomulag yrði betra bæði fyrir Sjálfstæðisflokkinn og borgina en að halda áfram óbreyttu samstarfi. Þetta væri þó óvenjulegt stjórnarmynstur og ekki sjálfgefið að minnihlutinn tæki tilboði um slíkt.

Að sönnu þykir félagshyggjufólki illt að horfa upp á borgina reka á reiðanum en fáir syrgja það hins vegar að sjá Sjálfstæðisflokkinn bráðna eftir valdatökuna í janúar og síendurtekið klúður í hverju málinu á fætur öðru í vetur. 

Það hefur frá upphafi verið ljóst að engin skörð verða rofin í samstöðu núverandi minnihluta. Þá er einnig ljóst að minnihlutinn myndi aldrei hafa frumkvæði að enn einum stjórnarskiptunum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband