15.4.2008 | 08:56
Söluræða bæjarstjóra um Hálfver
Í nóvember í fyrra kom hópur erlendra fjárfesta í heimsókn til að kynna sér starfsemi Norðuráls á Grundartanga og áformin um byggingu álvers í Helguvík.
Þegar rútan kom í Reykjanesbæ eftir kynningu á Grundartanga hoppaði glaðbeittur bæjarstjóri Reykjanesbæjar upp í rútuna og fór að kynna fyrir mönnum áformin í Helguvík. Í máli hans kom meðal annars fram að 1. áfangi væri bara formsatriði, 2. áfangi væri skammt undan og því næst yrði stefnan tekin á 350-400 þúsund tonn - "or why not even 500.000 tons!"
Í ársskýrslu Hitaveitu Suðurnesja fyrir síðasta ár segir:
Á árinu var gerður orkusamningur við Norðurál um raforkusölu til fyrirhugaðs álvers í Helguvík. Samkvæmt honum á HS hf að afhenda Norðuráli allt að 150 MW í árslok 2010 til verkefnisins enda verði arðsemi virkjana ásættanleg. Ljóst er að tíminn er stuttur þannig að allt verður að ganga upp svo orkuafhending geti hafist á réttum tíma .
Mikil ásókn hefur verið í raforku til notenda sem þurfa 10 - 50 MW fyrir sína starfsemi . Ljóst er að ekki verður hægt að verða við óskum þessara aðila nema að litlu leyti eins og staðan er í dag þar sem undirbúningur og skipulagsvinna fyrir nýjar virkjanir er alltaf að lengjast.
Búist er við að ferðamönnum sem leggja leið sína um Reykjanesið muni á næstu 5 árum fjölga um allt að 2 milljónir en við það munu skapast um 2.000 ný störf við flugþjónustu. Reynslan erlendis frá sýnir að atvinnu- og viðskiptalíf á Reykjanesskaganum á gríðarlega mikla og fjölbreytta vaxtarmöguleika.
Síðari málsgreinin úr ársskýrslu HS hér að ofan er hins vegar í takti við það sem farið er að kvisast að ekki sé lengur pláss fyrir minni fyrirtæki í áætlunum Reykjanesbæjar og HS.
Álverið tekur allt til sín.
Hvað er athugavert við fjölbreytt atvinnulíf?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.4.2008 | 16:40
Allir á hjólum!
Ég hjólaði í vinnuna í fyrsta skipti í langan tíma í morgun. Það tók mig 30 mínútur að hjóla úr Foldahverfinu í Grafarvogi og niður í miðbæ. Um 5 mínútum lengur en ef ég fer sömu leið með bíl um kl. 8 á morgnana.
Leiðin er að mörgu leyti ágæt, á hjóla-/göngustíg meðfram voginum, framhjá Bryggjuhverfinu, upp með Elliðavoginum og yfir árnar á gömlu brúnni, yfir Sæbrautina við Súðavog og þaðan eftir Suðurlandsbrautinni og svo Laugaveginum niður í bæ.
Það sem mætti með einföldum hætti bæta er sandurinn og svifrykið á kaflanum meðfram athafnasvæði Björgunar. Það er með ólíkindum að fyrirtækið skuli ekki fjárfesta í skolunarbúnaði sem skolar sand og drullu af hjólum allra þeirra ofurtrukka sem frá þeim fara. Það eru ævinlega skaflar af sandi og leir meðfram götunni og jafnvel í logni er loftið þannig að ef maður andar með opinn munninn getur maður tuggið svifrykið.
Ef vilji er fyrir því hjá stjórnvöldum má reyndar bæta þessa hjólaleið mikið. Þá væri ráð að byrja á spottanum frá Elliðavoginum upp á enda Suðurlandsbrautar en sú leið er óttalegt klúður fyrir hjólandi fólk. Það kostar lítið. Ef yfirvöld hafa svo áhuga á að gera eitthvað sem verulega munar um fyrir hjólandi fólk ofan úr Grafarvogi þá væri bráðsnjallt að setja göngu- og hjólabrú yfir Elliðaárnar um Geirsnef, aðra yfir Sæbraut á móts við Knarrarvog og gera góða hjólaleið þaðan vestur á Gnoðarvog og eftir hjólabraut á Gnoðarvogi niður í Laugardal. Með þessu móti yrði ég án vafa jafn fljótur eða fljótari á hjóli í vinnuna en á bíl í morgunumferðinni.
Á leið minni í morgun sá ég talsvert af hjólandi fólki á sömu leið og reyndar hjólaði ég samsíða konu meðfram Elliðaánum sem kastaði á mig kveðju og við tókum dálíð spjall saman á leið okkar frá Sorpu yfir í Súðavog. Hún var líka nýbúin að taka fram hjólið, vinnur í austurvogunum og hafði prófað að hjóla þessa leið um helgina. Fannst það svo skemmtilegt að hún er búin að ákveða að ferðast til og frá vinnu með þessum hætti næstu mánuði. Ég tók undir með henni - ég ætla líka að nota þennan ferðamáta næstu mánuðina til og frá vinnu.
Þetta er ekki bara holl hreyfing, sparnaður fyrir budduna og umhverfið heldur er maður einfaldlega miklu ferskari í vinnunni eftir að hafa fengið loft í lungun. Svo skiptir hitt ekki minna máli að það er nánast sama hvað gengið hefur á í vinnunni, þótt maður setjist útúrustressaður upp á hjólið þegar maður leggur af stað heim þá er það alltaf rokið úr manni eftir einn til tvo kílómetra á hjólinu. Og maður mætir stæltur og stresslaus heim í faðm fjölskyldunnar.
11.4.2008 | 12:24
Lausafjárstaða Blóðbankans - ábending til Guðlaugs Þórs
Það var hringt í mig frá Blóðbankanum fyrir hádegið og spurt hvort ég gæti komið strax og gefið blóð. Hef einu sinni farið áður og þá kom í ljós að ég er í blóðflokki O mínus sem mun vera afar eftirsótt blóð af því það er hægt að gefa fólki í öllum blóðflokkum.
Ég skellti mér í frakkann og arkaði yfir Skólavörðuholtið. Þetta tók ekki langan tíma, var hvorki sárt eða hræðilegt og ég fékk kaffi og með því á eftir. Við vorum nokkur að gæða okkur á veitingunum þegar yfirlæknirinn kom og þakkaði okkur fyrir að bregðast skjótt við.
Í spjalli við yfirlækninn kom nokkuð í ljós sem ekki er síður alvarlegt en staða hinna bankanna - að Blóðbankinn fær ekki krónu til að kynna starfsemi sína og stækka blóðgjafahóp sinn! Öll blóðsöfnun í landinu byggist á blóðgjöfum 10 þúsund einstaklinga sem eru rétt rúm 3% landsmanna. Ólíkt hinum bönkunum sem hafa ómælt kynningarfé og blóðmjólka landsmenn alla.
Þessu finnst mér að heilbrigðisráðherra og sveitungi minn í Grafarvogshreppi, Guðlaugur Þór Þórðarson, ætti að kippa í liðinn ekki seinna en á næstu fjárlögum sem núna eru einmitt í undirbúningi. Ég skora hér með á hann að gera það.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.4.2008 kl. 10:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
11.4.2008 | 00:07
Skrýtin tík
Ég hitti á þriðjudaginn góðan kunningja sem studdi mig með ráðum og dáð í prófkjörinu 2006 og hefur aldrei talið eftir sér að eiga opinská samtöl við mig um umhverfismál, hvort sem honum fannst ég og Samfylkingin standa sig vel eða illa.
- Ég sá þig í Kastljósinu, sagði hann.
- Jæja og hvað fannst þér? spurði ég. Það kom þögn og svo...
- Æææji Dofri! Það breytir engu þótt Steingrímur hafi ekki heldur treyst sér til að stoppa Helguvík og kannski er það alveg rétt að Þórunn hafi ekki getað úrskurðað öðru vísi, en þið sögðuð að þið vilduð ekki þetta álver og manni finnst bara skítt ef þið getið ekki stoppað það.
- Auðvitað er það skítt! Alveg hábölvað! sagði ég og hélt að það segði sig sjálft.
- Já ÉG veit að þér finnst það en þú sagðir það ekki í Kastljósinu. Þú sagðir bara að Vinstri græn væru ekkert betri en þið. Ef ég vissi ekki að þú ert þú þá hefði ég bara haldið að þetta væri einhver sjálfstæðis- eða framsóknarmaður!
- Þú meinar það, sagði ég og upp í hugann kom ákveðinn framsóknarmaður sem stöðugt var í sjónvarpinu að verja málstað flokksins þar til hann fékk fyrir hjartað. Ekki sérlega eftirsóknarvert að feta þá slóð - hvorki fyrir mig eða flokkinn.
Svona er hún skrýtin tík þessi pólitík. Manni er boðið í Kastljós til að svara fyrir Fagra Ísland og grípur fegins hendi tækifæri til að útskýra hvað það gengur út á en endar í stagli við Katrínu Jakobsdóttur um það hvort Vg hefði getað stoppað Helguvík ef Vg hefði verið í stjórn. Líklega hvorki jákvætt né uppbyggilegt - og ábyggilega ekki það sem fólk langaði að heyra.
Því langar mig að setja eftirfarandi fram í einni færslu:
- Afstöðu mína til Helguvíkur og álit á stöðunni (stutt útgáfa)
- Nokkrar línur um Fagra Ísland (enn styttri útgáfa)
Helguvík
Rétt eins og Steingrímur J gerði ég mér grein fyrir að það yrði erfitt að koma í veg fyrir byggingu álvers í Helguvík. Undirbúningur þess hófst 2006 og þegar ný ríkisstjórn tók við var a) búið að koma skipulagsvaldinu í hendur sveitarfélaganna, b) búið að setja lög um losunarheimildir sem segja fyrstur kemur fyrstur fær og c) framkvæmdin komin í matsferli. Til að stoppa þá framkvæmd með valdi hefði því þurft að setja afturvirk lög sem hvergi þykir sérlega góð latína. Ég taldi hins vegar alltaf og tel enn miklar líkur á að þessi framkvæmd sigli í strand vegna vandræða við orkuöflun og línulagnir.
Ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að þegar erlendir fjárfestar komu í kynnisferð til Norðuráls í nóvember á síðasta ári hafi Árni Sigfússon sagt í söluræðu sinni að 1. áfangi væri bara formsatriði, 2. áfangi væri skammt undan og svo yrði stefnt á 400 þúsund tonn - "or why not 500.000!"
Ég held að fjárfestar í ævintýrinu ættu að hugleiða að það er tæpt að næg orka fáist í 1. áfanga og nánast útilokað að orka fáist í 2. áfanga. Hvað þá helmingi meira eins og Árni sagði í söluræðu sinni.
Ég tel líka að það verði stórkostlegum erfiðleikum bundið að ná sátt um línulagnir eftir endilöngum Reykjanesskaganum. Hugsanlega mun Landsnet þurfa að fara fram á eignarnám og mér finnst afar ólíklegt að ráðherra verði við beiðni um slíkt ofbeldi enda erfitt að sýna fram á brýna almannahagsmuni í því tilfelli frekar en í tilfelli virkjana í neðri Þjórsá.
Hins vegar er afar brýnt að náttúruverndarfólk í öllum flokkum jafnt sem óflokksbundið náttúruverndarfólk búi sig undir baráttu um þessi tvö atriði - orkuöflun og línulögnina. Það er gríðarlega mikilvægt - ef þessi framkvæmd fer í gegn - að standa vörð um náttúruperlur Reykjanesskagans sem þessir aðilar, Reykjanesbær, Garður, Norðurál, OR og HS, ýmist áforma að virkja eða leggja línur í gegnum.
Fagra Ísland
Í aðdraganda kosninga 2007 var allt náttúruverndarfólk, hvar í pólitík sem það stóð, uggandi yfir því að sífellt væru ný svæði tekin til orkunýtingar. Þess vegna lagði Samfylkingin megináherslu á Rammaáætlun um náttúruvernd þar sem verndargildi svæða yrði metið svo hægt væri að ákveða hvað skuli nýta með verndun og hvað með öðrum hætti. Þessi vinna er þegar komin af stað og á að ljúka í lok árs 2009. Á meðan henni stendur verður ekki farið inn á nein ný óröskuð náttúrusvæði en um þetta tvennt samdi Samfylkingin í stjórnarsáttmálanum.
Í Fagra Íslandi voru ákveðin svæði nefnd sem sérstök ástæða þykir til að vernda. Samtals 9 svæði. Í stjórnarsáttmálanum var ákveðið að tryggja vernd 6 af þessara svæða auk annarra sem ekki voru nefnd sérstaklega í Fagra Íslandi. Ég get því ekki sagt annað en að ég var og er afskaplega ánægður með að þessi gríðarlega mikilvægu meginatriði Fagra Íslands náðust inn í stjórnarsáttmálann.
Því er samt ekki að leyna að það þarf að gera margt fleira. Eitt allra brýnasta verkefnið er að stjórnvöld fái aftur vald á skipulaginu í stórum málum. Vinna við þetta er þegar hafin en Þórunn Sveinbjarnardóttir er með frumvarp í þinginu um Landsskipulag sem verður ofar aðalskipulagi sveitarfélaga.
Sú staðreynd að prívataðilar og misjafnlega fjölmenn sveitarfélög skuli geta vaðið áfram með framkvæmd án þess að sýna fram á orkuöflun fyrir alla framkvæmdina eða línulagnir að fyrirtækinu er það sem fólki ofbýður.
Það er freklegt brot gegn rétti almennings í landinu að orkufyrirtæki með misgóðar stjórnir geti valsað um náttúru landsins og borið fé á sveitarfélög til að láta þau "haga skipulagi sínu" þannig að það henti þeim og stjórnvöld hafi enga aðkomu að málinu.
Vonandi munu boðaðar breytingar Umhverfisráðherra á lögum um mat á umhverfisáhrifum og frumvarp um Landsskipulag breyta þessu og fá samþykki Alþingis sem fyrst.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.4.2008 | 09:26
Öryggisráð nr. 1
Þótt við öll látum okkur víst dreyma
um öryggisbót má ei gleyma
að þegar að því er gáð
er öryggisráð
nr. 1 að halda sig heima!
![]() |
Össur: Við héldum lífi" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
4.4.2008 | 22:20
Athyglisverð færsla fyrrverandi ríkisskattstjóra um eldsneytisverð
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.4.2008 kl. 15:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.4.2008 | 16:34
Getur komið fyrir alla
Einn ágætur vinur minn sem ekki var sérlega kunnugur á Vesturlandi kom í heimsókn vestur í Dali ásamt heimavönum frænda mínum. Frændinn varð eftir en vinurinn fékk nákvæmar leiðbeiningar um hvernig hann kæmist til baka í höfuðstaðinn.
Eftir býsna langan akstur stoppaði hann við kaupfélag, benti fram á veginn og spurði hvort þetta væri ekki örugglega leiðin suður. Heimamenn töldu svo ekki vera, þessi vegur lægi þvert á móti enn lengra vestur á firði.
Maðurinn hafði fylgt leiðbeiningum út í æsar nema að í þeim láðist að segja honum hvort átti að beygja til hægri eða vinstri frá bóndabænum.
![]() |
Lenti á rangri Þórshöfn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.4.2008 | 20:28
Vandlifað!
Ýmislegt hef ég heyrt andstæðinga utanríkisráðherra segja henni til lasts en það er nýtt að brigsla henni um leti við að ferðast til útlanda með almennum flugvélum.
Það var reyndar viðbúið að það heyrðust vandlætingarhljóð úr horni þingflokks Vinstri grænna en ég held að Álfheiður ætti að skoða málið betur áður en hún hneykslast meira.
Henni og öðrum til hugarhægðar get ég upplýst að mismunurinn á að ferðast með ráðherrana og sendinefndina með áætlunarflugi eða leiguflugi (ekki einkaþotu) var aðeins lítið brot af því sem hinir frjóu blaðamenn á visir.is fundu út.
Eins og kemur fram í frétt mbl.is áttu utanríkis- og forsætisráðherra áríðandi fund með bankastjórn Seðlabankans síðdegis í gær. Flestir ættu að geta verið sammála um það það sé frumskylda þessara helstu ráðamanna þjóðarinnar að takast á við þann efnahagsvanda sem við stöndum frammi fyrir.
Auk þess hefði þurft að fara með stóra sendinefnd í gegnum Heathrow þar sem allt hefur verið stopp og strand undanfarna daga. Er það þannig sem við viljum að okkar fólk nýti tímann sinn? Á aukalegum dagpeningum á Heathrow og hóteli í London í stað þess að takast á við efnahagsmálin og mæta á réttum tíma á Natófundi?
Ég er sjálfur mjög hlynntur því að nota almenningssamgöngur sem mest og ferðast því oft til og frá vinnu með strætó. En þegar ég hef skamman tíma til að koma mér á milli áríðandi funda og sé fram á að ná því ekki með strætó - þá tek ég frekar leigubíl en að skrópa í vinnunni!
![]() |
Ferðamáti gagnrýndur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.4.2008 | 17:57
Vonbrigði með aprílgabb Sóleyjar
Það voru vonbrigði að mótmæli Sóleyjar Tómasdóttur gegn hlutgerfingu kvenlíkamans skyldu vera aprílgabb.
Sem karlkyns feministi hefði ég glaður mætt í Vesturbæjarlaugina til að sýna þessu framtaki stuðning ef ég hefði verið kominn heim frá Tenerife.
Þar sá ég að margir, jafnt karlar sem konur, voru einmitt að berjast fyrir þessu sama!
2.4.2008 | 11:21
Asnalegt!
Auðvitað er það mörgum erfitt að olía á heimsmarkaði hefur hækkað látlaust undanfarin misseri. Þessu hafði samt verið spáð og samkvæmt sömu spám á hún enn eftir að hækka talsvert vegna alþjóðlegrar hækkunar á orkuverði. Það er líka bagalegt að gengi krónunnar hafi lækkað en því hafði líka lengi verið spáð.
Þetta tvennt kemur illa við marga en því er ekki að leyna að margir sem mér sýnist styðja þessar aðgerðir gætu ekið um á sparneytnari bílum, fækkað ferðum og sparað þannig um leið og þeir menga minna.
Sjálfur beið ég í klukkutíma á Hafnarfjarðarveginum við Kúagerði í morgun eftir 7 stunda næturferðalag. Maður hélt auðvitað að það hefði átt sér stað mikið slys og þegar ljóst var hverju töfin var að kenna varð það ekki til að efla samstöðu með trukkabílstjórunum. Mér finnst aðgerðir þeirra asnalegar.
Það má vel endurskoða opinbera álagningu á eldsneyti og reyndar veit ég ekki betur en að slík endurskoðun standi nú yfir. Það á að breyta álagningunni í þá átt að það eldsneyti sem minnst mengar kosti minnst og hætta að láta orkuálagninguna standa undir kostnaði við vegakerfið. Kannski hafa vörubílstjórarnir misst af þeirri frétt.
Reyndar held ég að gjaldið sem vöruflutningarfyrirtækin greiða með olíugjaldi til uppbyggingar og viðhalds veganna hringinn í kringum landið sé ekki nema brot af þeim kostnaði sem þungaumferð þeirra veldur. Slit af völdum stórs flutningabíls er tugþúsundfalt á við fólksbíl. Almenningur hefur því í mörg ár niðurgreitt vegina fyrir vöruflutningafyrirtækin.
Ég held að ef það ætti að rukka vörflutningafyrirtækin um raunkostnað kæmi í ljós að þungflutningar með eðlilegu gjaldi fyrir slit á vegum standi ekki undir sér og þeir yrðu að stóru leyti færðir aftur út á sjó. Þetta þyrfti að athuga sem fyrst því sem skattborgara finnst mér óviðunandi að sú fjárfesting sem lögð er í þjóðvegina endist ekki nema brot af því sem hún á að gera.
Það er svo umhugsunarefni að þegar trukkabílstjórar tefja fjölda fólks frá skyldum sínum klukkustundum saman og ógna öryggi borgaranna með ólöglegum umferðarhnútum er horft í gegnum fingur sér með það.
En þegar fólk tefur vinnuvél við virkjunarframkvæmdir dálitla stund er það talið grafalvarlegt mál, fólki stungið í steininn, vísað úr landi og lögsótt. Lögreglan jafnvel látin veita því eftirför og gera leit að áhöldum til mótmæla í bifreiðum almennra borgara.
Það er ekki sama hvor rassinn er, náttúruverndar- eða vörbílstjórarassinn!
![]() |
Mestu tafir hingað til |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)