Í frétt frá umhverfisráðuneytinu kemur fram að losun gróðurhúsalofttegunda hefur aukist um 527.000 tonn, eða 14,2% frá árinu 2005 til ársins 2006.
Losun frá samgöngum jókst um 146.000, eða um 17%, að langmestu vegna vegasamgangna.
Mestu munar þó að aukin losun frá áliðnaði var mun meiri en áætlað hafði verið, 404.000 tonn, eða um 89%. Aukningin er öll frá álveri Norðuráls á Grundartanga og var hluti hennar viðbúin vegna stækkunar en .
Miðað við áætlanir Norðuráls hefði losun CO2 átt að aukast um 160 þúsund tonn við stækkun upp í 220 þúsund tonna framleiðslugetu og losun PFC um 40 þúsund tonn af CO2 ígildum eða samtals um 200 þúsund tonn. Reyndin varð hins vegar 185 þúsund tonna aukning í CO2 og 319 þúsund tonna aukning í losun PFC mælt í CO2 ígildum.
Hluti aukningarinnar er losun CO2frá iðnaðarferlum, sem fellur undir íslenska ákvæðið svokallaða, en losun flúorkolefna (PFC), fellur ekki undir íslenska ákvæðið og dregst því frá almennum heimildum.
Það er ástæða til að vekja athygli á því að samkvæmt íslenska ákvæðinu er aðeins hægt að úthluta losunarheimildum til þeirra fyrirtækja sem nota bestu fáanlegu tækni á hverjum tíma. Það er ljóst að annað hvort hefur allt farið úrskeiðis hjá Norðuráli eða að tæknin sem fyrirtækið notar er léleg.
Þetta er sama tækni og Norðurál hyggst nota í Helguvík, verði af framkvæmdum þar. Ef sú tækni er ekki sú besta sem völ er á verður ekki annað séð en að umhverfisráðherra verði að synja Norðuráli um frekari losunarheimildir. Kjósi Norðurál að skipta um tækni í fyrirhuguðu álveri sínu hlýtur það að vera talsverð breyting sem kallar á endurmat á umhverfisáhrifum þess.
![]() |
Losun gróðurhúsalofttegunda jókst um 14% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.4.2008 | 13:12
Eru þetta mennirnir sem maður á að treysta í umferðinni?
Þeir flutningabílstjórar sem ég þekki eru allir miklir geðprýðismenn en þessir sem hér komust í fréttir eiga ekki skilið þá lyndiseinkunn. Í fyrsta lagi þá held ég að málstaður mótmælabílstjóranna sé vondur og í öðru lagi held ég að aðferð þeirra til að koma sjónarmiðum sínum til skila sé líka vond.
Maður er oft skíthræddur þegar maður mætir risatrukkum með fullfermi á fullri ferð á þjóðvegum landsins. Ástæðan er auðvitað sú að vegna stærðarmunar á fólksbíl og trukki þarf ekki að spyrja um afdrif fólks sem lendir í árekstri við trukk.
Hræðslan breytist svo í gremju þegar trukkurinn nálgast og maður sér að bílstjórinn er að tala í símann - auðvitað ekki handfrjálst! Ég er ekki viss um að grjótkast, bílflaut við Bessastaði og síendurtekin umferðarstopp eigi eftir að auka hlýju og traust í garð flutningabílstjóra.
![]() |
Lögreglumaður á slysadeild |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.4.2008 | 13:43
Fróðlegur fundur
Hann var afar fróðlegur þessi fundur í Hveragerði í gær sem haldinn var að frumkvæði bæjarstjórnar Hveragerðis. Brátt er að vænta niðurstöðu Skipulagsstofnunar um matsskýrslu OR en eins og margir muna var sett íslandsmet í fjölda athugasemda við matsskýrslu.
Orkuveitan segist ætla að reyna að skola brennisteininn úr hveragufunni og vonar að það muni takast vel. Það þykir Hvergerðingum ekki nóg. Það skil ég vel. Hveragerði er í rúmlega fjögurra kílómetra fjarlægð frá fyrirhuguðu virkjunarsvæði. Hvergerðingar hafa líka áhyggjur af hávaðamengun. Og hafa ærnar ástæður til.
Ljóst er að virkjun - ef af verður - mun hafa veruleg neikvæð áhrif á landslag og ferðaþjónustu á svæðinu. Hvergerðingum er ekki sama um það enda svæðið bakgarður Hveragerðis og mikið aðdráttarafl fyrir heimamenn jafnt sem ferðafólk.
Fulltrúi Orkuveitunnar svaraði spurningum að mestu samviskusamlega. Með þeirri undantekningu þó að hann reyndi ítrekað að telja fundarmönnum trú um að hér væri um sjálfbæra orkunýtingu að ræða. Það er alrangt.
Í skýrslunni um mat á umhverfisáhrifum kemur einmitt fram að Orkuveitan sjálf skilgreinir orkunýtinguna sem ágenga, þ.e. að eftir ákveðinn árafjölda muni þurfa að hvíla svæðið (um langan tíma) áður en hægt er að halda áfram nýtingu.
Athyglisverðast, og í raun eina nýnæmið af fundinum, var að Ásta Þorleifsdóttir, sem áður var harður andstæðingur Bitruvirkjunar en er nú varaformaður Orkuveitunnar, vildi alls ekki útiloka að hún myndi styðja Bitruvirkjun.
![]() |
Segja hveralykt frá væntanlegum virkjunum hverfandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.4.2008 | 10:46
Stefnan hefur veljandi áhrif
Bolungarvík hefur verið eitt þeirra sveitarfélaga þar sem óbilandi bjartsýni hefur verið öllu svartagallsrausi yfirsterkari. Þess vegna kom það manni ekki á óvart þegar sveitarfélagið réð Grím Atlason til að stjórna bænum.
Bæjarstjórinn var áberandi í þjóðmálaumræðunni, barðist fyrir hagsmunum sveitarfélagsins en ekki með barlómi og betlistaf eins og oft vill henda heldur af bjartsýni og stórhug. Þetta skilaði þeirri ímynd að bjartara væri yfir Bolungarvík en öðrum sambærilegum sveitarfélögum.
Nú virðist sem Anna Guðrún Edvardsdóttir hafi slitið meirihlutanum vegna ágreinings um það hvort stefnan skuli sett á olíuhreinsistöð. Það var ljóst á Kompásþættinum um daginn að bæjarstjórinn er ekki upprifinn yfir hugmyndinni og Soffía Vagnsdóttir hafði látið í ljós sömu skoðun.
Með því að losa sig við það fólk sem leyfir sér að efast um að olíuhreinsistöð sé helsta bjargráð Vestfirðinga er Anna að hreinsa burt úr sveitarfélaginu þá sem vilja bjarga sér sjálfir en laða til sín þá sem vilja sitja og bíða eftir bjargráði Íslensks "hátækniðnaðar" og huldumanna Ólafs Egilssonar.
Verði henni að góðu.
![]() |
Meirihlutasamstarfi slitið í Bolungarvík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.4.2008 | 11:03
Holl flenging
Skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag er rassskelling fyrir Samfylkinguna. Flokkurinn hrapar um tæp 9% frá síðustu könnun og flest bendir til að þessi prósent hafi að mestu runnið til Vinstri grænna. Eflaust má nefna fleiri en eina skýringu á þessu en ég held að ein dugi.
Samfylkingin hefur sofið á verðinum í umræðunni um umhverfismálin. Hún hefur of oft þagað þegar hallað hefur á umhverfissjónarmiðin, s.s. í umræðum um álver í Helguvík, og of oft látið hjá líða að fagna þeim áföngum sem unnist hafa. Þessi þögn er eðlilega túlkuð sem tómlæti af hálfu kjósenda.
Það var ljóst frá upphafi ríkisstjórnarsamstarfsins hverju flokkurinn hafði náð í gegn í samningum við Sjálfstæðisflokkinn og hverju ekki. Meginhugsun Fagra Íslands náðist í gegn, rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrunnar og að ekki yrði farið inn á fleiri óröskuð svæði. Að niðurstaða rammaáætlunar yrði lögð til grundvallar nýju Landsskipulagi - nauðsynlegu tæki til að ná aftur tökum á stóru skipulagsmálunum. Þetta náðist í gegn. Ég og fleiri umhverfis- og náttúruverndarsinnar fögnuðum samkomulaginu sem stórum áfanga í að ná tökum á náttúruvernd í landinu.
Það náðist hins vegar ekki að semja um stöðvun þeirra stóriðjuframkvæmda sem voru komnar af stað. Það náðist ekki að semja um aðgerðir til að stöðva Helguvík. Ég held að það sé ekki hægt að álasa Samfylkingunni fyrir það. Eins og frægt er orðið taldi m.a.s. formaður Vg að ekki væri hægt að stöðva þau áform.
Mistök Samfylkingarinnar felast í því að hafa ekki talað sig hás á móti þessum áformum. Að hafa leyft sér að vona að Helguvík sigldi í strand af sjálfu sér. Það var aldrei sjálfgefið en vegna þeirra stóru galla sem eru á lagaumhverfinu geta fjárfestar farið að byggja álbræðsluna án þess að það sé til næg orka fyrir hana. Fólki svíður að álgráðug sveitastjórn, orkufyrirtæki og álbræðsla skuli geta ákveðið svona stórframkvæmdir án þess að þjóðkjörin stjórnvöld fái nokkru um það ráðið. Lái þeim hver sem vill.
Nú má ekki skilja mig sem svo að ég hefði viljað sjá ráðamenn brjóta lög til að koma í veg fyrir framkvæmdirnar, allir eiga að fylgja lögum. Það hefði hins vegar mátt tala upphátt um það hvernig staðan er og hvað þarf að gera til að breyta henni. Fólk væntir þess að stjórnmálamenn tali samkvæmt sannfæringu sinni - jafnvel, og ekki síður, þegar þeir hafa ekki fullkomin tök á atburðarrásinni.
Það tekur langan tíma að byggja upp traust en það tekur stuttan tíma að glutra því niður. Samfylkingin lagði fram gríðarlega metnaðarfulla áætlun í umhverfismálum fyrir síðustu kosningar undir heitinu Fagra Ísland. Flest helstu atriði þeirrar stefnu náðust inn í stjórnarsáttmálann og eru þegar komin í vinnslu. Fáir vita það - öll athyglin beinist að því sem miður fer og um það getur Samfylkingin engum öðrum kennt en sjálfri sér.
Traust þeirra sem láta sig umhverfismál varða á Samfylkingunni er valt. Flokkurinn getur því ekki leyft sér að þegja þegar umdeild umhverfismál eru til umræðu. Hann verður að gefa upp skoðun sína. Flokkurinn má heldur ekki gleyma að tala um þau stóru framfaramál sem hann er að vinna að í umhverfis- og náttúruverndarmálum. Þær fréttir segja sig ekki sjálfar. Það þarf að hafa mikið fyrir því að koma góðum tíðindum til skila á meðan ótíðindi fljúga sjálf.
Það verður vandasamara verk en oft áður að stjórna landinu næstu misserin. Enginn flokkur er betur undir það búinn en Samfylkingin. En það þarf að taka stórar ákvarðanir í mörgum málaflokkum og stjórnmálamenn verða að þora, geta og vilja segja hug sinn um brýn mál, jafnvel þótt einhverjum þyki það óþægilegt.
Samfylkingin á að taka fylgistapi um tæpan fjórðung sem hollri flengingu. Hún að að gera kjósendum sínum skýra grein fyrir því hvað hún vill og hvað hún vill ekki í umhverfismálum. Hvað hún telur sig geta framkvæmt og hvað hún telur sig geta stoppað. Það er forsenda þess að kjósendur treysti henni fyrir þessum málaflokki.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
20.4.2008 | 17:35
Hin 8 villtu
Björn Bjarnason er meiri og kaldæðnari húmoristi en ég hafði gert mér grein fyrir.
Rétt eins og innmúruðum höfundi Staksteina gengur það fram af honum hvernig borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna tekst ítrekað að klúðra REI málinu. Til að gera skammirnar bærilegri reynir Björn að klína málinu á 100 daga meirihlutann og endar á nánast kvikindislegu háði með því að segja að það sé hægt að gera meiri kröfur til sjálfstæðismanna en annarra.
Í upphafi REI málsins urðu 6 menningarnir hoppandi reiðir yfir því að Vilhjálmur Þ Vilhjálmsson óð áfram í málinu án samráðs við hópinn og því umboðslaus. Hann var tekinn á teppið og skammaður af 6 menningunum sem höfðu m.a. farið á fund formanns Sjálfstæðisflokksins og klagað Vilhjálm.
Þarna var undirliggjandi sú staðreynd að leiðtogaprófkjöri Vilhjálms og Gísla Marteins Baldurssonar lauk í raun aldrei, auk þess sem happdrættis- og bjórkælismál, gleymska og almennt samráðsleysi fór í taugarnar á 6 menningunum. Þessa reiði 6 menninganna skildu flestir vel.
Mistök 6 menninganna fólust ekki í því að gera þessa uppreisn heldur í því að ganga ekki alla leið. Þau höfðu ekki hugsað atburðarrásina til enda - hver átti að taka við af Vilhjálmi? Þegar málið var komið í hnút kom í ljós að á meðal 6 menninganna var ekki eining um þetta. Bæði Hanna Birna Kristjánsdóttir sem skipar annað sæti listans og Gísli Marteinn Baldursson sem tók slaginn um forystuna töldu sig eiga rétt á borgarstjórastólnum. Gott ef ekki fleiri.
Niðurstaðan varð því sú að fresta vandanum og láta Vilhjálm lafa áfram í embætti borgarstjóra. Haldinn var fundur þar sem samanbitið fólk sagðist treysta Vilhjálmi sem reyndi að telja almenningi trú um að allir væru vinir. Til að bjarga hópnum úr vandræðunum með REI grófu 6 menningarnir upp gamalt frjálshyggjuboðorð Hannesaræskunnar og sögðu það ganga gegn sinni dýpstu sannfæringu að fyrirtæki í opinberri eigu stæði í áhætturekstri.
Þetta áttu margir góðir og gegnir sjálfstæðismenn erfitt með að skilja en til REI var stofnað af Guðlaugi Þór Þórðarssyni og Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn vann að stofnun sams konar fyrirtækis um útrásarverkefni Landsvirkjunar. Bent hefur verið á að hvorugt brýtur gegn samþykktum landsfunda Sjálfstæðisflokksins. Þetta frjálshyggjuboðorð var því alger fyrirsláttur.
Samstarfsflokknum voru settir afarkostir - að kóa með vandræðagangi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins og selja REI eins hratt og hægt var eða slíta meirihlutanum. Framsókn hélt fast í þá skoðun sína að með því að selja REI strax væri verið að hlunnfara borgarbúa og eftir að hafa reynt til hins ýtrasta að fá 6 menningana og Vilhjálm til að skipta um skoðun var myndaður nýr meirihluti.
Nýr meirihluti undir forystu Dags B Eggertssonar tók þegar til við að fara ofan í saumana á málinu með vandaðri hætti en tíðkast hefur hér á landi. Þverpólitískur stýrihópur undir stjórn Svandísar Svavarsdóttur var settur í málið, tugir funda voru haldnir til að rekja atburðarrásina og kanna hvað hefði mátt betur fara. Hópurinn skilaði sameiginlegri niðurstöðu sem jafnframt var grunnur að framtíðarstefnumótun fyrir REI.
Áður en stýrihópurinn náði að skila af sér tókst hins vegar Vilhjálmi að kljúfa hinn nýja meirihluta þar sem hann var veikastur fyrir. Það gerði hann með aðstoð Kjartans Magnússonar, eins 6 menninganna, sem bauð hinum annálaða heilindapólitíkusi Ólafi F Magnússyni borgarstjórastólinn ef hann væri til í að svíkja félaga sína. Það þáði Ólafur án samráðs við sitt nánasta samstarfsfólk en sigri hrósandi yfir því að hafa sinn gamla flokk í hendi sér.
Með þessu útspili, sem greinilega kom öðrum 6 menningum en Kjartani á óvart, kom Vilhjálmur sér aftur í baráttuna um leiðtogasæti sjálfstæðismanna í borginni og Kjartan bætti stöðu sína með því að koma sjálfstæðismönnum aftur til valda. Kjartan fékk yfirráð yfir Orkuveitu Reykjavíkur og REI sem eðlilegt má telja að Gísli Marteinn og Hanna Birna hefðu átt ríkari rétt til vegna sætis ofar á lista.
Framan af er tíðindalaust af vígstöðvum REI en ljóst að það fer alvarlega í taugarnar á ýmsum innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins að ekki einasta fái Kjartan formennsku í báðum fyrirtækjunum heldur fær stuðningskona Ólafs F, Ásta Þorleifsdóttir sem skipaði 4. sæti á F-lista, varaformennsku í báðum fyrirtækjum.
Þegar svo Kjartan fer utan til að skrifa undir viljayfirlýsingar í Afríku um spennandi og þörf verkefni, með stuðningi alþjóðlegra stofnana, fulltingi iðnaðarráðherra og í fullu samræmi við niðurstöðu stýrihóps um málefni REI, verður allt vitlaust á ný í hinum sundraða borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins.
Gísli Marteinn er spurður í fréttum hvort honum finnist þetta rétt og svekktur yfir stöðu sinni innan borgarstjórnarflokksins grípur hann aftur til hins raunalega og fjarstæðukennda frjálshyggjuboðorðs um að selja beri REI. Ólafur er spurður hvað honum finnst og hann segir ekki koma til greina að selja. Aðrir horfa í gaupnir sér á meðan borin er fram tillaga í stjórn OR um að kanna sölu á REI.
Varaformaður Reykjavíkur reynir að draga úr tjóninu með því að milda tillöguna, afgreiðslu hennar er frestað og málið einum allsherjar hnút. Aftur. Trúverðugleiki eins stærsta og öflugasta fyrirtækis landsins, ríkisstjórnarinnar og orðspor landsins er í hættu á alþjóðavettvangi vegna innanmeina sjálfstæðismanna í borgarstjórn.
Er þessu fólki treystandi? Þeirri spurningu hefur reyndar verið svarað.
![]() |
Haldið áfram á ógæfubraut |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.4.2008 | 15:03
Hálfverið, hin fyrirtækin, heimilin og mjólk á fernum
Í nóvember í fyrra kom hópur erlendra fjárfesta í heimsókn til að kynna sér starfsemi Norðuráls og áform um byggingu álvers í Helguvík. Þegar rútan kom í Reykjanesbæ eftir kynningu á Grundartanga hoppaði glaðbeittur bæjarstjóri Reykjanesbæjar (sem jafnframt er stjórnarformaður HS) upp í rútuna.
Í máli hans kom meðal annars fram að 1. áfangi væri bara formsatriði, 2. áfangi væri skammt undan og því næst yrði stefnan tekin á 350-400 þúsund tonn - "or why not even 500.000 tons!" Þetta er athyglisvert.
Einnig er athyglisvert að í ársskýrslu Hitaveitu Suðurnesja 2007 segir:
Á árinu var gerður orkusamningur við Norðurál um raforkusölu til fyrirhugaðs álvers í Helguvík... Ljóst er að tíminn er stuttur þannig að allt verður að ganga upp svo orkuafhending geti hafist á réttum tíma . Mikil ásókn hefur verið í raforku til notenda sem þurfa 10 - 50 MW fyrir sína starfsemi . Ljóst er að ekki verður hægt að verða við óskum þessara aðila nema að litlu leyti...
Hér er það sagt berum orðum sem þegar er farið að kvisast, að mörg smærri fyrirtæki komi að lokuðum dyrum hjá HS af því öll orka fyrirtækisins fer til Helguvíkur. Það er slæmt því á næstu 5 árum gæti störfum við flugþjónustu fjölgað um 2000 og reynsla erlendra svæða sem búa að alþjóðaflugvöllum eins og Leifsstöð sýnir að atvinnu- og viðskiptalíf á Reykjanesskaganum á gríðarlega mikla og fjölbreytta vaxtarmöguleika.
Áhugi á mörgum fjölbreyttum fyrirtækjum virðist ekki mikill - allt fer í hálfverið.
En hvað skyldi hálfverið kosta almenning í landinu? Samkvæmt þjóðhagsspá fjármálaráðuneytis segir að Seðlabankinn muni bregðast við framkvæmdum með hækkun stýrivaxta!
Skuldir heimilanna eru um 1.500 milljarðar. Þar af eru um 1.000 milljarðar í verðtryggðum krónum. Ef það dregst um eitt ár að lækka vexti t.d. um 5% eykur það kostnað heimilanna um 75 milljarða. Ef það dregst líka um eitt ár að lækka verðbólguna um 4% hækkar það höfuðstól skulda heimilanna um 40 milljarða.
Kostnaður heimilanna af því að fresta lækkunarferlinu um eitt ár væri samkvæmt þessum forsendum því samtals um 135 milljarðar eða um 1,8 milljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Líka á Suðurnesjum.
Heimilin í landinu fá sendan reikninginn fyrir hálfveri í Helguvík, önnur fyrirtæki sem annars eiga góða vaxarmöguleika á Suðurnesjum fá ekki nauðsynlega orku og þegar hálfverið vill stækka - hvar verður orkan tekin þá? Úr Brennisteinsfjöllum, Grændal, Þjórsá, Þjórsárverum? Kannski óþarfa áhyggjur?
Í viðtali á RÚV 13. mars sl. um kæru Landverndar sagði bæjarstjóri Reykjanesbæjar (og stjórnarformaður HS):
Kæran gengur út á það að þeir vilja vita hvaða borhola er notuð til þess að framleiða orku nákvæmlega í álver í Helguvík... Þannig er það bara ekki. Orkan er sett inn á landsnetið og þaðan er hún tekin.
Og mjólkin kemur úr fernum.
Þessi pistill birtist einnig í Viðskiptablaðinu í dag
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.4.2008 | 10:50
Þvottastöð fyrir svartagull Pútíns?
Á Eyjunni má finna afar athyglisverða frétt um hinn pólitíska vinkil á Olíuhreinsunarstöðvarmálinu.
Hvað sem líður hrekkleysi sveitastjórans í Vesturbyggð, sem sagðist treysta því að þarna væru góðir menn á ferð af því honum var boðið í kaffi í rússneska sendiráðið, þá virðist Ólafur Egilsson hafa góðar ástæður fyrir því að leyna nöfnum bakhjarla sinna.
Myndin er að skýrast. Fyrrverandi sendiherra hefur náð sér í ákveðin pólitísk viðskiptasambönd og sér möguleika á að nýta sér ótta hrekklausra sveitastjórnamanna sem hafa eðlilegar áhyggjur af atvinnuástandi og framtíðarhorfum byggðar sinnar.
Hin "íslenska hátækni" gengur út á að fá leyfi og fyrirgreiðslu fyrir olíurisa með því að spila á viðkvæma strengi í byggðapólitík. Gaman væri að vita hvað agentinn færi í umboðslaun ef af samningunum verður. En það er væntanlega ekki gefið upp frekar en nafn huldumannanna.
Öllum má hins vegar vera ljóst að Olíuhreinsunarstöð í Arnarfirði mun ekki draga ungt vel menntað fólk á suðurfirðina. Slík stöð yrði mun líkari olíuborpalli á þurru landi eða vinnubúðunum á Kárahnjúkum. Er það draumurinn?
16.4.2008 | 22:00
Mótsagnakennd þjóðhagsspá fjármálaráðuneytis
Annars vegar segir fjármálaráðuneytið að þensluáhrif framkvæmda muni koma á góðum tíma en hins vegar að Seðlabankinn muni bregðast við með hækkun stýrivaxta!
Reynum að átta okkur á hvað það þýðir fyrir heimilin í landinu - og ekki síður fyrir heimilin í Reykjanesbæ.
Skuldir heimilanna eru um 1.500 milljarðar. Þar af eru um 1.000 milljarðar í verðtryggðum krónum.
Ef það dregst um eitt ár að lækka vexti um 5% eykur það kostnað heimilanna um 75 milljarða.
Ef það dregst um eitt ár að lækka verðbólguna um 4% hækkar það höfuðstól skulda heimilanna um 40 milljarða.
Kostnaður heimilanna af því að fresta lækkunarferlinu um eitt ár væri því samtals um 135 milljarðar eða um 1,8 milljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Líka á Suðurnesjum.
Skuldir Reykjanesbæjar fyrir utan lífeyrisskuldbindingar eru um 8 milljarðar, þar af um 6 í verðtryggðum krónum skv. síðasta ársuppgjöri. Samsvarandi dráttur á vaxtalækkun mun því auka vaxta- og verðbólgukostnað Reykjanesbæjar um ca 640 milljónir króna eða um 187 þúsund kr. aukalega á hverja fjögurra manna fjölskyldu í Reykjanesbæ.
Bæjarbúar í Reykjanesbæ tapa því enn meira en við hin á þeirri sjússastefnu í efnahagsmálum sem bygging Helguvíkurálvers hefur í för með sér eða samtals um tveimur milljónum króna á ári miðað við gefnar forsendur.
Mótsagnirnar sem felast í því að tala um álversframkvæmdir í Helguvík eins og líknandi smyrsl þegar fyrir liggur að þær stuðla að enn hærri vöxtum sýnir okkur þann pólitíska lit sem er á efnahagsspá ráðuneytisins.
Þau eru dýr leiðtogaprófkjörin sjálfstæðismanna!
15.4.2008 | 23:21
Hvar er sannfæring Hannesaræskunnar?
Þessa frétt má sjá á www.visir.is - afar athyglisvert í ljósi þess að 6 menningarnir stefndu meirihlutanum í strand vegna ófrávíkjanlegrar kröfu um að REI yrði selt eins hratt og mögulegt var. Sú krafa var sett fram vegna óbilandi sannfæringar þeirra fyrir því að borgin, sem opinber aðili, ætti alls ekki að standa í svona starfsemi.
Sjálfstæðismennirnir sem settu allt í loft upp í október s.l. vegna útrásarverkefna Orkuveitunnar fara nú fremstir í flokki í að fylgja eftir þeirri stefnu sem samræmdist ekki grundvallarlífsýn þeirra sjálfra fyrir rétt rúmum 5 mánuðum síðan og sprengdi þáverandi meirihluta, segir í bókun Óskars Bergssonar, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, á borgarstjórnarfundi í kvöld en þar var stefna meirihlutans í orkuútrás til umræðu í framhaldi af því að Kjartan Magnússon, formaður Orkuveitu Reykjavíkur, og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, undirritaði í Djíbútí, samning um þátttöku OR og REI í virkjunarverkefni þar í landi.
Útrásarstefna meirihluta F-lista og Sjálfstæðisflokks virðist vera sú sama og mörkuð var í tíð 1. meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks þar sem útrásarverkefni Orkuveitu Reykjavíkur voru sameinuð í fyrirtækinu REI, (Reykjavík Energy Invest), segir í bókun Óskars Bergssonar. Sjálfstæðisflokkurinn hljóp hins vegar frá þeirri stefnu vegna þess að það samræmdist ekki grundvallarhugmyndafræði þeirra að Orkuveita Reykjavíkur sinnti öðrum verkefnum en kjarnastarfsemi. Það samræmdist ekki grundavallarhugsjónum þeirra að blanda saman opinberum rekstri og einkarekstri í áhættusömum samkeppnisgreinum. Núna fer fyrir útrásarfyrirtækinu REI, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, þar sem hann undirritar viljayfirlýsingar um auknar fjárskuldbindingar til útrásarverkefna. Sjálfstæðismennirnir sem settu allt í loft upp í október s.l. vegna útrásarverkefna Orkuveitunnar fara nú fremstir í flokki í að fylgja eftir þeirri stefnu sem samræmdist ekki grundvallarlífsýn þeirra sjálfra fyrir rétt rúmum 5 mánuðum síðan og sprengdi þáverandi meirihluta.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)