Mentor hlaut Vaxtarsprotann 2008

Sproti_Smaller_RGB_JPEGÍ morgun afhentu Samtök Iðnaðarins Vaxtarsprotann, viðurkenningu fyrir góðan vöxt sprotafyrirtækja.

Fjögur fyrirtæki voru tilnefnd að þessu sinni og þau voru, auk Mentors, Betware, Kine og Valka.  

Mentor er fyrirtæki sem margir þekkja frá samskiptum sínum við grunnskólana en inn í kerfið eru færðar margs konar upplýsingar sem foreldrar þurfa á að halda, s.s. mæting og námsframvinda barnanna, upplýsingar um heimanám, tilkynningar frá skólayfirvöldum og foreldrafélaginu svo nokkur dæmi séu nefnd.

Fyrirtækið er í örum vexti, hefur hafið starfsemi í nokkrum löndum og við athöfnina í morgun upplýsti Vilborg Einarsdóttir, framkvæmdastjóri, að í gær hefði Finnland bæst í hóp þeirra landa sem fyrirtækið er að hasla sér völl í. Að auki þjónar Mentor í dag:

  • 420 grunnskólum í Svíþjóð
  • 160 grunnskólum á Íslandi
  • 120 leikskólum á Íslandi
  • 16 sveitarfélögum á Íslandi
  • 2 framhaldsskólum í Svíþjóð
  • Þróunarskóla í Danmörku

Þó margt mætti betur fara í efnhagsmálum og fjármálum landsmanna þessa stundina þá megum við ekki heldur tala okkur niður í þunglyndi og svartnætti. Það er engin ástæða til, heimurinn er fullur af tækifærum - eins og Mentor og fleiri góð sprotafyrirtæki hafa sýnt með eftirtektarverðum hætti.


Það er viðkvæmt mál að segja satt

Finnst einhverjum það skrýtið að prestur með ögn af sómatilfinningu telji fyrirsláttarstríð Bandaríkjamanna flokkast undir ógnarverk. Ég hef ekki heyrt rök klerksins fyrir ástæðu þess að hann telji ríkisstjórn Bandaríkjanna bera ábyrgð á alnæmisvandanum en mér dettur í hug að þar sé hann e.t.v. að vitna til fordóma og afturhalds hinna sannkristnu talibana í vestrinu.
mbl.is Obama snýr baki við prestinum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Náttúruverndaráherslur inn í stjórn Landsvirkjunar

Það er gott að Samfylkingin vilji efla sjónarmið náttúruverndar í stjórn Landsvirkjunar en án efa var það hugsunin að baki tilnefningu Björgólfs í stjórnina. Þetta hefur hins vegar ekki mælst vel fyrir innan Landverndar og ákvörðun Björgólfs því skiljanleg. Eflaust finnur Samfylkingin annan sterkan náttúruverndarmann í staðinn.

Stjórn Landsvirkjunar þarf að fara í stefnumótunarvinnu þar sem samfélagsábyrgð og siðferði er gert hærra undir höfði. Ef til vill finnst mörgum fyrirtækið hafa staðið sig með prýði, umgengni þess á framkvæmdastöðum sé til fyrirmyndar og það er á margan hátt rétt.

Hins vegar hefur framganga fyrirtækisins iðulega verið hörð, allt að því ófyrirleitin, gagnvart sjónarmiðum náttúruverndar og landeigenda. Það er ansi hart að fyrirtæki í samfélagseigu skuli ganga þannig fram gagnvart þegnum landsins. 

Þær fréttir berast nú frá landeigendum við Þjórsá að þar hóti Landsvirkjun þeim sem ekki vilja semja eignarnámi. Fyrirtækið mun hafa tímasett undirbúningsaðgerðir á jörðum fólks sem hefur lýst því yfir að það vilji ekki undir nokkrum kringumstæðum selja land sitt.

Þeir sem stjórna fyrirtækinu ættu ekki að láta svona viðgangast. 


mbl.is Tekur ekki sæti í varastjórn Landsvirkjunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gríðarlega mikilvægt

Þetta er sannarlega góðar fréttir. Það hefur oft gengið illa í samningum á milli kennara og sveitarfélaga og flestum er líklega í fersku minni 7 vikna verkfall fyrir nokkrum misserum sem endaði á því að kennarar voru reknir til starfa með valdi.

Nú hefur greinilega tekist að byggja aftur upp það traust á milli samningsaðila sem ekki var fyrir hendi síðast. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli fyrir kennarastéttina, sveitarfélögin og síðast en ekki síst skólabörnin sjálf.

Eftir verkfallið hefur verið erfitt að ráða kennara, ekki bara vegna lágra launa og mikils álags, heldur líka vegna þess að kennurum hefur ekki fundist stéttinni sýnd sú virðing sem henni ber. Vonandi eru þessir samningar til marks um að nú séu nýir og betri tímar framundan.


mbl.is Laun grunnskólakennara hækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alvarleg staða en fyrirsjáanleg

Vinstri menn hafa löngum verið skammaðir fyrir forræðishyggju. Allt ætti að vera leyfilegt, allt ætti að vera frjálst, þá leitar allt jafnvægis, allir hafa vit fyrir sér sjálfir og allt verður allt í lagi. Svona hefur hin einfalda frjálshyggja lengi hljómað við talsverðar vinsældir.

Nú er annað uppi á teningnum. Nú þegar verðbólgan nartar óþyrmilega í eignir og kaupmátt vill fólk sem áður var á móti forræðishyggju að Ingibjörg Sólrún og Geir reddi málinu. Enginn skilur hvernig þetta gat farið svona, allra síst sá sem meginábyrgðina ber og situr nú uppi á Svörtuloftum. Guðni Ágústsson skilur ekki heldur neitt í því hvernig þetta gat gerst.

Hér er um heimatilbúin vandamál að ræða og sökudólgarnir eru margir. Bankar fengu of frjálsar hendur og fóru of geyst, peningamálastefnan virkaði ekki sem slökkvitæki á bálið auk þess sem síðasta ríkisstjórn hellti olíu á eldinn með ríkisstyrktri risaframkvæmd og skattalækkunum á þenslutímum. Almenningur hugsaði eins og almenningur á Íslandi hefur vanist á að gera - "best að eyða þessum peningum strax, maður veit aldrei hvenær næsta tækifæri gefst!"

Staðan er erfið fyrir alla en ósanngjarnast er að þeir lenda verst í þessu sem minnst eiga. Fólk sem ekki hefur notið ávaxtanna af þenslunni, s.s. fólk á svæðum þar sem samdráttur hefur verið og fólk sem hefur sett sig í verulegar skuldir vegna húsnæðiskaupa á höfuðborgarsvæðinu.

Það verður erfitt hjá mörgum sem t.d. hafa tekið 20 milljón króna verðtryggt lán til að kaupa sér íbúð. Ekki síst ef um 90-100% lán er að ræða. Það er viðbúið að svoleiðis skuld muni vegna verðbólgunnar á næsta ári hækka um nokkrar milljónir á sama tíma og húsnæðisverð lækkar.

Nú finnum við alvarlega fyrir því að ekki skuli vera til öflugur almennur leigumarkaður. Það er ekki seinna vænna að gera eitthvað í því.


mbl.is Verðbólgan „skelfileg"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tæknileg mistök?

Athyglisvert hvernig vanstilltir skapofsamenn biðjast afsökunar.
mbl.is Missti stjórn á skapi sínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skóflustunga að vaxtarsprotum í Helguvík

Græna netið og Ungir Jafnaðarmenn tóku á föstudaginn skóflustungur að nýjum vaxtarsprotum í Helguvík. Þetta var gert til að benda á að á Suðurnesjum er mikið af góðum tækifærum til atvinnuuppbyggingar og að því væri leitt að Hitaveita Suðurnesja skuli ekki sjá sér fært að sinna neinu nema orkuöflun til álvers í Helguvík.

Eða eins og fram kemur í ársskýrslu HS 2007:

Á árinu var gerður orkusamningur við Norðurál um raforkusölu til fyrirhugaðs álvers í Helguvík... Ljóst er að tíminn er stuttur þannig að allt verður að ganga upp svo orkuafhending geti hafist á réttum tíma . Mikil ásókn hefur verið í raforku til notenda sem þurfa 10 - 50 MW fyrir sína starfsemi . Ljóst er að ekki verður hægt að verða við óskum þessara aðila nema að litlu leyti...

Með framtakinu vildu Græna netið og UJ líka benda á að gríðarleg umframlosun Norðuráls á Grundartanag vekti áleitnar spurningar um

  1. hvort verið væri að nota bestu fáanlegu tækni,
  2. hvort ítrekuð mistök hefðu átt sér stað við notkun hennar 
  3. hvort umhverfisráðherra geti yfir höfuð látið fyrirtækið hafa losunarheimildir af kvóta íslenska ákvæðisins en þeim má aðeins veita til fyrirtæki sem nota bestu fáanlegu tækni á hverjum tíma. 

mbl.is Plöntuðu vaxtarsprotum í Helguvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndi gera sig vanhæfan

Ef Össur lýsti yfir þeirri skoðun að eignarnám kæmi ekki til greina áður en málið kemur inn á hans borð sem iðnaðarráðherra þá myndi hann gera sig vanhæfan til að taka ákvörðun í málinu. Það vil ég ekki.

Hins vegar er undarlegt að Landsvirkjun geti byrjað á framkvæmdum án þess að hafa annað hvort semja við landeigiendur eða fá heimild til eignarnáms. Þar er ástæða til að skora á fólk að beita sér. 


mbl.is Sól á Suðurlandi skora á Össur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er komið nóg!

Vörubílsstjórar hafa haft vondan málstað frá upphafi. Kröfur þeirra eru ekki sanngjarnar og það má jafnvel færa ágæt rök fyrir því að þungaflutningar borgi hærra veggjald en þeir gera í dag vegna þess hve mikið þeir slíta þjóðvegunum meira en léttari bílar. 

Ég er líka viss um að flestum sem nú þegar finnst óþægilegt að mæta fullhlöðnum trukki á fullri ferð á þjóðvegunum finnst ekki endilega æskilegt að íslenskir bílstjórar megi keyra þreyttari en bílstjórar í öðrum löndum. 

Bílstjórarnir hafa æ ofan í æ stöðvað umferð samborgara sinna í krafti gríðarlega öflugra tækja sinna. Með því hafa þeir ítrekað skapað hættu. Lögreglan hefur til þessa sýnt þeim einstaka þolinmæði og hefur reyndar legið undir ámæli fyrir linkind gagnvart trukkabílstjórum á meðan hart hefur verið tekið á krökkum sem klifra upp í krana.

Það er ekkert að því að mótmæla til að vekja athygli á sjónarmiðum sínum. Yfirleitt er það gert af þeim sem eru minni máttar að völdum og afli, fólki sem leggur á sig að standa í kulda og trekki með mótmælaspjöld, ganga til Keflavíkur eða hlekkja sig við tæki og tól.

Trukkabílstjórarnir sýna hins vegar vald sitt. Þenja trukkana og þeyta flautur sínar. Þeir eru miklu frekar í skæruhernaði en að mótmæla til að benda á eitthvert misrétti. Enda er fáum ljóst, eftir tveggja vikna skærur bílstjóranna, hvert hið mikla óréttlæti er sem stjórnvöld eiga að bæta úr.

Vörubílstjórarnir verða að endurskoða bæði kröfur sínar og þau meðöl sem þeir hafa hingað til notað til að reyna að knýja þær fram. Ég mótmæli svona mótmælum.


mbl.is Ráðist á lögregluþjón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Árvakur

Það var kominn tími til.
Ólafur Þ. Stephensen er góður ritstjóri og laus við kalskemmdir kalda stríðsins.
Svo er hann líka hagmæltur.
Þann 2. júní mun ég hringja til að gerast aftur áskrifandi.
mbl.is Ólafur nýr ritstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband