Hjólin eru farin að snúast!

Á borgarstjórnarfundi í gær fékk ég þær ánægjulegu fréttir frá Gísla Marteini Baldurssyni að áskorun Betri helmingsins hefur verið tekið.

Meirihlutinn hyggst skrapa saman í lið og etja kappi við okkur í Betri helmingnum. Þetta er frábært og við hlökkum mikið til þessarar keppni.

Í morgun hjólaði ég með nágranna mínum úr Grafarvogshreppi, Guðlaugi Þór heilbrigðisráðherra, niður í Laugardal þar sem átakið Hjólað í vinnuna var formlega sett af stað.

Nú eru hjólin farin að snúast!!!


mbl.is Hjólað í vinnuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðarsátt Ingibjargar í undirbúningi?

Vonandi er sú nýja þjóðarsátt sem Ingibjörg Sólrún kallaði eftir á 1. maí nú komin í undirbúning.

Til þess þarf vilja allra aðila, ríkisstjórnar, sveitastjórna, fyrirtækja, launþega og neytenda. Samstillt átak. Vonandi berum við gæfu til þess.


mbl.is Ætla að vinna á verðbólgunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur F valdi bíla fram yfir börn og borgarminjar

Á fundi borgarstjórnar sem nú stendur yfir kom fram að Ólafur F Magnússon borgarstjóri hafði ekki gert sér grein fyrir því að hestagerðið við Fríkirkjuveg 11 var ekki nauðsynlegur hluti af kaupunum.

Borgarstjóri var beðinn að fresta málinu í ljósi þess að hann hefði ekki áður gert sér grein fyrir stöðu málsins. Hann greiddi atkvæði gegn frestun.

Hestagerðið var ekki nauðsynlegur hluti sölunnar. Fyrir 50 milljónir var hins vegar gerðinu, leiksvæði barna í áratugi, bætt við - gagngert til að brjóta skarð í 100 ára gamlan vegg svo það væri hægt að keyra bíla inn í gerðið.

Borgarstjóri sem ítrekað hefur lýst sjálfum sér sem gegnheilum verndara menningar- og samfélagsverðmæta valdi bíla umfram borgarminjar og leiksvæði barna.


Börn eða bílastæði

Þetta er frábært framtak hjá strákunum.

Það er skömm að því fyrir borgarstjórann, sem að sögn er umhugað að varðveita 19. aldar yfirbragð borgarinnar, að hann skuli selja þennan tæplega 100 ára gamla steinhleðsluvegg með húsinu. Fyrir því er aðeins ein ástæða.

Þennan merkilega vegg vilja kaupendur hússins við Fríkirkjuveg 11 rjúfa gat í svo bílar komist þar í gegn. Það á með öðrum orðum að vinna skemmdarverk á fornminjum svo það sé hægt að breyta gamalli hestarétt og leiksvæði barna til margra áratuga í bílastæði. 

Það er auðvitað ósanngjarnt að beina gagnrýninni að borgarstjóranum einum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru allir með tölu fylgjandi því að selja vegginn með húsinu vitandi hver áform kaupandans eru. Þeir taka því allir, rétt eins og borgarstjórinn, bíla fram yfir borgarminjar og börn.


mbl.is Hilmir Snær og Benedikt ríða í bæinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Togstreitan heldur áfram

olafurfÞegar Vilhjálmur og Kjartan buðu Ólafi F borgarstjórastól fyrir að slíta meirihlutasamstarfi kom strax í ljós að skipulag Vatnsmýrarinnar var algerlega óafgreitt mál í samstarfinu.

Hanna Birna og Gísli Marteinn töldu að þau mættu fá að vinna að framtíðarskipulaginu í samræmi við verðlaunatillöguna ef þau væru til í að umbera að borgarstjóri talaði eins og flugvöllurinn yrði áfram í Vatnsmýrinni "um langa framtíð".

Ólafur F þolir hins vegar ekki að uppbyggingu og skipulagsvinnu í Vatnsmýrinni skuli vera haldið áfram. Þess vegna ræðst hann að tillögunni sem hann segir slæma, tillöguhöfundum sem ekki skynja taktinn í samfélaginu og skipulagsyfirvöldum (samstarfsfólki sínu) sem að hans mati eiga auðvitað ekki að skipuleggja framtíðina á grundvelli svona vitlausrar tillögu.

Það er vandræðalegt að fylgjast með Hönnu Birnu og Gísla Marteini klóra yfir þetta neyðarlega sundurlyndi. Þau segja að borgarstjóri hafi rétt á að hafa skoðun á málinu en í orðunum liggur að það sé ekki nokkur ástæða til að taka mark á honum.

 


mbl.is Ólafur segist ekki hafa skipt um skoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðiflokkurinn kynnir með stolti...

Ingólfur Harri bloggar um þetta og endar á að minna hver ber ábyrgðina á þessum borgarstjóra. Það er hægt að leika sér með þetta.

Hugsið ykkur hvernig það væri ef í hvert skipti sem Ólafur F birtist á skjánum myndi þulurinn lesa:

"Þessi borgarstjóri er í boði Sjálfstæðisflokksins" eða "Sjálfstæðisflokkurinn kynnir með stolti...."

Og svo þegar myndskeiði með Ólafi F væri lokið myndi þulurinn heyrast lesa:

"Það var Sjálfstæðisflokkurinn sem færði þér Ólaf F Magnússon, borgarstjóra."

Segið þið svo að það geti ekki verið gaman í pólitíkinni! 


mbl.is Borgarstjóri gagnrýnir vinningstillöguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áskorun á meirihlutann í borgarstjórn!!!

Betri helmingurinn, lið sameinaðs minnihluta í borgarstjórn í keppninni "Hjólað í vinnuna", skorar hér með á borgarstjórnarmeirihlutann að keppa um það hvort lið hjólar fleiri daga og fleiri kílómetra í vinnuna á meðan á átakinu stendur.

Svo skemmtilega vill til að nákvæmlega 15 borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar eru í hvoru liði og því er fræðilega jafnt á með liðunum komið. Við, sem í allri hógværð köllum okkur Betri helminginn, teljum hins vegar að vegna líkamlegs atgerfis, ástar á útivist og hreyfingu og djúprar sannfæringar fyrir ágæti hjólhestsins sem samgöngutækis munum við bæði mæta fleiri daga á hjóli til vinnu og auk þess hjóla talsvert fleiri kílómetra en hinn helmingur borgarstjórnarinnar.

Svo keppnin geti orðið örlítið meira spennandi viljum við þó gjarna gera allt sem í okkar valdi stendur til að auka vinningslíkur hins liðsins. Við munum því bjóða þeim ókeypis tilsögn í  hjólreiðum kl. 12 á hádegi þriðjudaginn 6. maí.

Farið verður yfir helstu atriði hjólreiðalistarinnar s.s. listina að halda jafnvægi, hvernig hægt er að taka skart af stað, um mikilvægi þess að horfa fram á veginn og síðast en ekki síst að meta það hvenær tímabært er að taka í bremsurnar svo ekki fari illa.

Það er von okkar að hinn helmingurinn taki áskorun Betri helmingsins af jákvæðni og krafti jafnvel þótt ekki sé minnst á þetta sérstaklega í hinum ítarlega málefnasamningi meirihlutans.
Betri helmingurinn bendir á að það er fátt jafn gott til að byggja upp góðan liðsanda eins og skemmtileg keppni (jafnvel þótt hún tapist).

Hjólreiðar til og frá vinnu hafa líka þann einstaka kost að það skiptir engu máli hvað dagurinn hefur verið erfiður í vinnunni - eftir nokkra kílómetra er allt stress fokið út í veður og vind og manni er því sem næst sama hver verður næsti borgarstjóri.

Með von um skemmtilega keppni,
f.h. Betri helmingsins
Dofri Hermannsson.


Kominn tími til að...

Allir vita hvernig kynslóðaskipti á óðalsbýlum geta gengið stirðlega fyrir sig. Ótal dæmi er um að gamli óðalsbóndinn stjórni of lengi og af of miklu ráðríki. Þegar næsta kynslóð tekur við er hún stundum orðin svo niðurbarin að þarfar umbætur komast ekki í verk. Það eru jafnvel dæmi um að gamli óðalsbóndinn vomi áfram yfir öllu úr fjarlægð og haldi því þannig í kyrrstöðu.

Fyrir tæpu ári fannst sumum Samfylkingin vera sætasta stelpan á ballinu. Nú er hún hins vegar orðin mamman á stjórnarheimilinu þar sem valdahlutföll foreldranna eru því miður með gamla laginu. Þessu hlutverki fylgdu því takmörkuð völd en mikil ábyrgð því satt best að segja hafði forsjálni eða réttlæti ekki í langan tíma verið leiðarljós heimilisrekstursins.

Heimilisbragurinn hafði annars vegar einkennst af óhóflegu partýstandi og afdrifaríkum mistökum í fjármálum og hins vegar ofríki gagnvart ýmsum hópum samfélagsins og afneitun gagnvart mikilvægum spurningum um framtíðina sem hefði þurft að ræða og komast að niðurstöðu um. 

Barnaskarinn veit af fenginni reynslu að það þýðir ekkert að tala við pabba. Sá gamli hætti að hlusta á óskir og sjónarmið krakkanna fyrir löngu. Það er sama hvaða barn er um að ræða, launafólk, aldraða, atvinnurekendur eða bankana. Meira að segja atvinnulífið, sem löngum taldi sig í sérstöku uppáhaldi hjá pabba, er búið að gefast upp á að tala við hann, nema í gegnum mömmu.

Mamma, ert þú til í að segja pabba að það sé ekki lengur hægt að nota þennan gjaldmiðil? Að peningastefnan sé ekki að ganga upp? Að það verði að setjast niður og ræða það hvort við eigum að sækja um aðild að ESB? Að annars missum við fyrirtækin fari úr landi. 

Getur þú sagt honum að risavaxnar, ríkisstyrktar stóriðjuframkvæmdir og ofríki gegn náttúrunni sé í fyrsta lagi vondur bissness, í öðru lagi skaðlegur fyrir aðra og meiri virðisaukandi starfsemi og í þriðja lagi heimilinu til sárinda og skammar?

Viltu leiðrétta óréttlætið sem felst í skerðingum bóta aldraðra og öryrkja vegna viðbótartekna og tekna maka? Viltu leiðrétta launamun kynjanna, jafna hlut kvenna og karla í æðstu stöðum í stjórnmálum og í stjórnum fyrirtækja?

Viltu segja honum að það verði að hugsa byggðamálin upp á nýtt? Geturðu spurt hann hvort það megi endurskoða tollvernd á innflutt matvæli? Hvort það megi koma til móts við ungt fólk sem vill búa á landsbyggðinni þótt það vilji hvorki búa með kindur eða kýr?

Sumt af þessu er á valdi Samfylkingarinnar og margt af því náðist inn í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Það er flest komið í undirbúning eða framkvæmdaferli. Margt af því sem er mest aðkallandi í landsstjórninni í dag er hins vegar ekki í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Ekki af því það var algerlega ófyrirsjáanlegt heldur af því Sjálfstæðisflokkurinn annað hvort vill það ekki eða hefur ekki getað talað um það.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir stýrði Reykjavíkurborg af ráðdeild og réttsýni í rúman áratug. Hún kom þar mörgum löngu tímabærum umbótaverkum í framkvæmd eftir að geðríkur og stjórnlyndur óðalsbóndi hafði búið þar um hríð en flutt sig um set og skilið eftir daufgerða erfingja.

Það var uppörvandi að sjá hana í Silfri Egils sl. sunnudag tala af skynsemi og festu um þau erfiðu verkefni sem eru framundan í landsstjórninni. Grein hennar í Fréttablaðinu í dag um brýna nauðsyn nýrrar þjóðarsáttar bar líka vott um skýra sýn og lausnarmiðaða hugsun. Þjóðin þarf á slíkum foringja að halda - nú meira en oft áður.

Hún er hins vegar ekki í bílstjórasætinu í þessu blessaða fjölskylduferðalagi. Því miður. Það er því bæði þýðingarlaust og ósanngjarnt að kenna henni um það hvernig einþykkur fjölskyldufaðirinn ekur.

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins og landsmenn allir eiga betra skilið en að allt sé hér látið reka á reiðanum af því flokkurinn sjálfur og forysta hans er átakafælin, málefnalega strand og klofin í aðkallandi og mikilvægum málum.

Það er kominn tími til að Sjálfstæðisflokkurinn axli ábyrgð á mistökum sínum og taki sér tak.
Það er kominn tími til að tala alvarlega við pabba.


mbl.is Fylgi við Samfylkingu og ríkisstjórn minnkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalt ráð af Snæfellsnesinu

Þetta heillaráð heyrði ég einu sinni frá gömlum manni á Snæfellsnesi. 

"Aldrei skyldu tveir menn ganga svo á jökul öðruvísi en að hafa línu á milli sín - og fara fleiri saman!"


mbl.is Leiðsögumaðurinn hvarf ofan í jökulsprungu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óheilindavírus leggst á klofningsframboð

Það er eins og sveitastjórnararmur Sjálfstæðisflokksins og ýmis klofningsframboð hans séu haldinn alvarlegum veirusjúkdómi.

Allir þekkja hvernig Ólafur F gekk móðgaður og sár úr Sjálfstæðisflokknum undir hlátrasköllum félaga sinna en notaði svo fyrsta hugsanlega tækifæri til að svíkja samninga sína og hlaupa í faðm fyrrum flokksfélaga (gegn smávægilegri vegtyllu sem í daglegu tali nefnist borgarstjóraembætti).

Nú er eins og þessi óheilindaveira sé að breiðast út á meðal klofningsframbjóðenda Sjálfstæðisflokksins á sveitastjórnarstiginu. Í ljós hefur komið að þær ástæður sem Anna Guðrún Edvardsdóttir gefur fyrir meirihlutaslitum í Bolungarvík halda ekki vatni. Anna er þó að því leyti eftirbátur Ólafs F að hún náði ekki að læsa klónum í bæjarstjórastólinn.

Um hina meintu ástæðu fyrir meirihlutaslitunum er ágæt frétt á Rúv

Pálmi Gestsson, leikari og Bolvíkingur, skrifar einnig ágæta grein um þetta mál í Moggann í dag. Hann hvetur Bolvíkinga alla til að segja skoðun sína á málinu og bendir á að svona framkoma stjórnmálamanna skaði íbúana alla, sama hvar í flokki þeir standa.

Þetta er rétt hjá Pálma og gildir hér í Reykjavík líka.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband